Þann 30. júní 2023 friðlýsti Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið Bessastaðanesið. Áður hafði Skansinn á Nesinu verið friðlýstur; 25. okt. 1930.
Bessastaðanes – friðlýsing 2023.
Rökstuðningurinn fyrir friðlýsingunni var að; “Bessastaðanesið er hluti af alþjóðlega mikilvægu fuglasvæði Skerjafjarðar og er mikilvægur viðkomustaður farfugla og sjaldgæfra fuglategunda og er fræðslu- og vísindagildi svæðisins hátt með tilliti til lífríkis og menningarminja, en þar er fjöldi menningarminja. Friðlýsta svæðið er 4,45 km² að stærð og nær yfir Bessastaðanes allt, hluta Bessastaðatjarnar og Lambhúsatjarnar og liggur að friðlandinu í Gálgahrauni sem friðlýst var í október 2009.”
Bessastaðanes – friðlýsing (kort).
Á Bessastaðanesi eru fjölbreyttar fjörur og grunnsævi með auðugu lífríki sem eru mikilvæg fæðusvæði fugla. Þá er svæðið viðkomustaður margæsar og rauðbrystings, en auk þess er þar æðarfugl, sendlingur og tildra sem hafa alþjóðlegt verndargildi. Verndargildi vistgerðanna á svæðinu er frá því að vera miðlungs hátt og upp í mjög hátt og eru til að mynda votlendisvistgerðirnar starungsmýravist, gulstaraflóavist og marhálmsgræður á lista Bernarsamningsins yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.
Friðlýsingunni er ætlað að tryggja vernd náttúrulegs ástand svæðisins sem bú- og viðkomusvæðis fugla, sem og að vernda líffræðilega fjölbreytni þess – lífríki í fjöru, grunnsævi, hafsbotni og vatnsbol. Jafnframt er markmiðið að vernda fræðslu- og útivistargildi Bessastaðaness, sem felst m.a. í líffræðilegri fjölbreytni, auðugu lífríki, tækifærum til útivistar innan þéttbýlis og nýtingar sem samrýmist verndun búsvæða fugla.
Bessastaðir 2023.
Með friðlýsingunni er Lambhúsatjörn að stærstum hluta friðuð, en við hana er m.a. að finna vistgerðina marhálmsgræður, sem hefur takmarkaða útbreiðslu og er mikilvæg fæða fyrir ýmsar andfuglategundir s.s. margæsir.
Í Wikipadiu segir m.a. um Bessastaði og Besstaðanes: “Á Bessastöðum er þyrping nokkurra húsa: Bessastaðastofa, Norðurhús, þjónustuhús og Suðurálma eru portbyggðar byggingar. Suðurálma samanstendur af móttökuhúsi, bókhlöðu og tengibyggingu við þjónustuhús.
Bessastaðakirkja og Bessastaðastofa fyrrum.
Bessastaðastofa er elsta húsið á jörðinni. Móttökuhús er byggt við hana árið 1941 og tengt á milli með blómaskála sem nemur við suðurgafl Bessastaðstofu og gerður er eftir hugmynd ríkisstjórafrúarinnar, Georgíu Björnsson. Samsíða móttökuhúsinu er bókhlaðan, sem byggð var árið 1968 og gengt er úr henni í borðsal Bessastaðastofu. Bessastaðakirkja stendur fremst en handan portbyggðu húsanna eru forsetahús og ráðsmannshús. Fjær stendur bílageymsla, sem áður var fjós. Sambyggð hlaða gegnir enn sama hlutverki og áður en hlöðuloftið er nú geymsla. Búskapur var á Bessastöðum til ársins 1968.
Bessastaðanes er allstórt og þar má sjá á yfirborði menjar um ýmsa starfsemi. Örnefni vísa til þess að hluta, svo sem Skothús, Prentsmiðjuflöt og Sjóbúðarflöt.
Söguágrip
Bessastaðir 1789.
Saga Bessastaða nær allt aftur til landnámsaldar, samkvæmt fornleifarannsóknum sem fram fóru á staðnum á 9. og 10. áratug 20. aldar og sem studdar eru rituðum heimildum að nokkru. Bessastaðir hafa ávallt verið mikilvægir í sögu þjóðarinnar og jafnan verið aðsetur höfðingja og háembættismanna. Snorri Sturluson átti jörðina þó svo að óvíst sé að hann hafi nokkru sinni búið þar sjálfur.
Bessastaðir 1720.
Eftir víg hans árið 1241, rann jörðin með öllum gögnum og gæðum undir Noregskonung. Hún varð fyrsta jörðin á Íslandi til þess að komast í konungseigu. Hirðstjórar konungs sátu á Bessastöðum og síðar amtmenn og stiftamtmenn ásamt landfógetum. Nafntogaðasti og jafnfram mögulega verst þokkaði hirðstjórinn var Páll Stígsson en meðal merkustu landseta var Magnús Gíslason (amtmaður) sem þótti milt og gott yfirvald. Magnús var fyrsti Íslendingurinn sem gegndi stöðu amtmanns og hann átti frumkvæði að byggingu steinhúsanna tveggja á 18. öld sem enn standa. All veglegir legsteinar þeirra beggja eru múraðir inn í veggi Bessastaðakirkju.
Bessastaðir – kort 1770.
Bessastaða er vitanlega getið í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 en þar er getið um að landskuld ýmissa annarra jarða á Álftanesi og leigukúgildi “betalist” í tunnum kola og smjöri. Um Bessastaði sjálfa segir m.a.: “Jarðarinnar dýrleiki þykjast menn heyrt hafa að verið hafi xii [hundruð]. Eigandinn er kóngl. Majestat. Hjer er amptmannsins residens og fóetans þá so til hagar. Landskuld er hjer engin nje hefur verið í nokkur hundruð ár.[1]
Ólafur Stephensen, stiftamtmaður, sat ekki á Bessastöðum og hann lét staðinn eftir til skólahalds fyrir Lærða skólann sem þá var nefndur Hólavallaskóli árið 1805. Eftir það nefndist hann Bessastaðaskóli, allt til ársins 1846 að hann fluttist í Lækjargötu í Reykjavík og heitir nú Menntaskólinn í Reykjavík. Grímur Thomsen, sem var fæddur og uppalinn á Bessastöðum þar sem faðir hans var skólaráðsmaður, fékk jörðina með konungsúrskurði 28. júní 1867 í skiptum fyrir Belgsholt í Borgarfirði og bjó þar og rak bú í tæp þrjátíu ár til æviloka 1896. Þá eignaðist Landsbanki Íslands staðinn og tveimur árum síðar var hann seldur. Kaupandi var Skúli Thoroddsen, ritstjóri og alþingismaður. Skúli bjó á Bessastöðum ásamt fjölskyldu sinni í tíu ár. Eftir það bjuggu Jón H. Þorbergsson bóndi, Björgúlfur Ólafsson læknir og Sigurður Jónasson forstjóri í Bessastaðastofu en sá síðastnefndi afhenti ríkinu jörðina að gjöf árið 1941 svo þar mætti verða bústaður ríkisstjóra og síðar forsetasetur.
Bessastaðastofa
Bessastaður 1722.
Bessastaðastofa var byggð á árunum 1761 til 1766 sem embættisbústaður Magnúsar Gíslasonar amtmanns. Það var danska stjórnin sem lét byggja húsið en ástand eldra embættisseturs var orðið afar bágborið. Kostnaðurinn nam 4.292 ríkisdölum og 77 skildingum. Þar í reiknast ýmis kostnaður sem til féll vegna vandamála sem upp komu á byggingartímanum. Miklu dýpra var niður á fastan grunn og fór jafnmikið grjót í sökkul hússins og í veggi þess, byggingartíminn varð mjög langur og kostnaðarsöm mistök voru gerð við þakið. Engar teikningar hafa fundist af Bessastaðastofu en talið er að húsameistarinn Jakob Fortling hafi teiknað hana. Bessastaðastofa hefur frá byggingu hússins tekið allmiklum breyting í gegnum tíðina, utan sem innan.
Fornleifakjallari undir Bessastaðastofu
Fornleifar undir Bessastaðastofu. Fundust við uppgröft.
Að áliðinni 20. öld þótti kominn tími til umfangsmikilla viðgerða og endurnýjunar húsanna á Bessastöðum og kallaði ástand Bessastaðastofu á miklar endurbætur. Af heimildum og fyrri rannsóknum þótti ljóst að vænta mætti þess að mannvistarleifar kæmu í ljós við framkvæmdir en þær hófust árið 1989 undir stjórn Bessastaðanefndar (sem skipuð var um endurbæturnar). Sú varð raunin, en miklu meira en menn óraði fyrir og mannvistarlög voru mörg, hvert ofan á öðru. Að endingu spannaði fornleifarannsóknin á Bessastöðum níu ár og varð ein hin umfangsmesta sem fram hafði farið á Íslandi. Samkvæmt rannsóknum nær búseta á Bessastöðum allt aftur á landnámsöld. Auk mannvirkjaleifa, fannst allmikið af gripum við fornleifarannsóknina á Bessastöðum. Þá öfluðu vísindamenn stærsta safns fornvistfræðilegra gagna sem fundist höfðu í einum uppgreftri hérlendis fram að því.
Fornleifar undir Bessastaðastofu.
Við upphaf húsaviðgerðarinnar, var kjallarinn undir Bessastaðastofu grafinn út og fornminjum komið fyrir þar, svo sýna mætti áhugasömum. Þann sóma sem fornminjum staðarins er sýndur með gerð fornleifakjallarans og útfærslu hans, má ekki síst þakka velvilja og skilningi þáverandi forseta, sem var Vigdís Finnbogadóttir. Fyrirhugaður vínkjallari undir húsinu vék fyrir fornleifakjallaranum. Um leið jókst þýðing setursins þar sem unnt varð að sýna gestum forseta raunverulegar menjar um sögu staðarins og veita innsýn að nokkru leyti inn í daglegt líf æðstu embættismanna landsins árhundruð aftur í tímann.
Fornleifar undir Bessastaðastofu.
Bessastaðanefnd og Þjóðminjasafn Íslands sameinuðust um frágang kjallarans sem sýningarhæfs rýmis og útstillingu muna. Frágangi hans var endanlega lokið um mitt árið 1994. Þarna má skyggnast nokkrar aldir aftur í sögu Bessastaða og meðal annars er gengt meðfram austurvegg bústaðar landfógeta frá fyrstu áratugum 18. aldar og má sjá inn á gólf hússins. Það var gert af bindingsverki og gefið er sýnishorn af því hvernig veggir slíkra bygginga voru gerðir en fyrirmyndin er allgömul og kemur frá Evrópu þó svo að hús úr bindingsverki hafi ekki reynst mjög vel hérlendis né verið endingargóð.
Fallbyssa í fornleifakjallaranum
Bessastaðir – fallstykki frá Skansinum í kjallara Bessastaðastofu.
Flestir brenndu leirmunanna voru brot úr leirkerjum frá 17. – 19. öld en eitt brotanna er frá 15. öld. Meira en 100 brot úr krítarpípum fundust, flest frá 18. öld Pípuhausar voru litlir því tóbak var dýrt. Glerið sem fannst, svo sem glasabrot, sýna stöðu Bessastaða sem höfðingjasetur því annað eins var ekki að finna á bæjum. Elsta glerbrotið var úr mannvistarlagi frá 15. eða 16. öld. Meðal óvenjulegust muna voru lítill tálgukarl úr beini og hafa verið leiddar að því líkur að hér sé um að ræða e.t.v. leikfang barns eða taflmann. Allmargir járnmunir fundust, svo sem naglar, hnífur, sylgja og reisla.
Þá má nefna að í fornleifakjallaranum er fallbyssa sem talin er vera frá 15. öld, sem fannst í jörðu á Bessastöðum árið 1888. Trúlega var byssan notuð staðnum til varnar er einnig mögulega til erfðahyllingar þegar við átti. Byssan er trúlega sú næstelsta sem til er hérlendis. Hún er gerð af sex járnhólkum og eru járngjarðir utan um samskeyti þeirra. Mögulega vantar eitthvað á lengd byssunnar. Enn eldri er byssa sem einnig fannst í Bessastaðalandi, en hlaup hennar er gert af járnstöfum sem mynda sívalning sem járngjarðir eru felldar utanum. Sú er varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands.
Þrælakistan
Lágmynd á Bessastaðakirkju.
Vinnumannaskálinn á Bessastöðum var kallaður Þrælakistan, svarthol konungs í Konungsgarði, og var ætlaður afbrotamönnum. Menn vissu lengi vel ekki hvar hún hefði verið. En árið 1993 stóð yfir uppgröftur í grennd við Bessastaði. Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur taldi þá hugsanlegt að Þrælakistan hafi komið í ljós við rannsóknina rétt austan við Bessastaðastofu. Þar fannst niðurgrafin rúst og voru veggirnir gerðir úr stórum björgum, og er líklegt að hún hafi verið þar.
Forsetasetrið á Bessastöðum. Lengst til hægri er forsetabústaðurinn sem byggja á upp í sumar, kring um húsagarðinn er lengsttil hægri Hjáleigan svokölluð með nýja eldhúsinu, sem tengist um bókhlöðuálmuna blómaskála, móttökusal í Bessastaðastofu lengsttil vinstri. Norðanmegin er nýuppbyggt Norðurhús með tækniútbúnaði í kjallara, húsvarðaríbúð og öryggisvörslu. Lengst til vinstri má sjá Bessastaðakirkju. Á þessari skipulagstillögu má sjá bætta aðkomu, bílastæði og garða.
Þegar uppgreftrinum lauk varð þessi hugsanlega Þrælakista að vínkjallara Bessastaða. Í Íslandsklukkunni eftir Halldór Laxness er minnst á Þrælakistuna: „Allir munu vera okkar vinir, sagði hún; því fólkinu líður vel. Og þrælakistan leggjast niður á Bessastöðum, sagði hann. Því í landi þar sem fólkinu líður vel eru ekki framdir glæpir. Og við ríðum um landið á hvítum hestum, sagði hún“.
Í Morgunblaðinu 1995 er fjallað um “Uppbyggingu á Bessastöðum“:
“Á Bessastöðum hafa síðan 1989 farið fram endurbætur á húsakosti og framtíðaruppbygging á forsetasetrinu. Endurbyggja þurfti Bessastaðastofu og þjónustubyggingar og um sl. áramót var tekið í notkun nýtt fullkomið eldhús í Hjáleigunni svonefndu. Næsta sumar er fyrirhugað íbúðarhús fyrir forseta á grunni Ráðsmannshússins. Formaður byggingarnefndar Helgi Bergs og Pétur Stefánsson framkvæmdastjóri verksins gengu um staðinn með Elínu Pálmadóttur og skýrðu frá endurbótum og áformum.
Bessastaðir – fyrirhuguð uppbygging.
Fréttir um að kostnaður við framkvæmdir á Bessastöðum fari líklega upp í 900 milljónir, nú þegar búið að verja 560 milljónum í endurbætur, vekja eðlilega spurningar um í hvað þetta hafi farið. Því fremur að ekki verður í fljótu bragði komið auga á afraksturinn, sem stafar af því að þótt nærri allt hafi þurft að endurbyggja, þá er það látið halda sér að ytra útliti þar sem öll hús eru friðuð hið ytra á þessu forna höfðingjasetri. Aðkoman er því og verður nánast óbreytt. En þegar nánar er að gáð kemur í ljós hve gífurlega mikið verkefni þarna er á ferðum.
Var byrjað á að gera faglega úttekt á húsunum og kom í ljós að þau voru miklu verr farin en menn hafði órað fyrir. „Ég hafði ekki hugmynd um það fremur en nokkur annar þegar við þrír vorum skipaðir í nefnd til að hafa umsjón með endurbótum á húsakosti á Bessastöðum,” sagði Helgi Bergs, en með honum í nefndinni eru Baldvin Tryggvason sparisjóðsstjóri og Gunnar Hall ríkisbókari. Húsameistari ríkisins Garðar Halldórsson er arkitekt verksins í samvinnu við Þorstein Gunnarsson, arkitekt og sérfræðing um gömul hús.
Sumarið 1989 var fyrsta verkefnið að endurbyggja Bessastaðastofu, þetta 200 ára gamla hús. Eftir því sem meira var rifið komu meiri skemmdir í ljós og þurfti að byggja húsið upp á nýtt, svo nánast er ekkert eftir af gömlu byggingunni nema hluti af útveggjum og kjaliara.
„Þurfti nánast að bródera saman það sem eftir var af útveggjunum, sauma steinana með ryðfríu stáli svo að þeir héldust saman.“ En viðgerðarsteinum var safnað úr gömlum byggingum, m.a. komu steinar úr Leynimýri í Öskjuhlíð. En húsið er allt byggt úr sömu efnum. Þegar farið var að rífa þakið sem hriplak var tekið það ráð að tjalda alveg yfir svo húsið var endurbyggt innan í öðru húsi.
Bessastaðastofa er því með sama yfirbragði og hún var. Hlutföll hafa þó verið löguð á framhlið, þannig að fimm gluggar eru í stað fjögurra á kvistinum og handriðið yfir svölunum frá 1955 fallegra. Breiðu kvistirnir báðum megin á húsinu voru seinni tíma viðbætur og var bakkvisturinn rifinn og litlu upphaflegu kvistirnir komu í staðinn. Þegar húsið var endurbætt 1941 voru aftur settir á gafla þaksins upphaflegir hálfsneiðingar eða hálfvalmar, sem halda sér á þessu húsi og öðrum.
Steinhúsið sjálft er frá 1760-66, byggt í tíð Magnúsar Gíslasonar amtmanns, svo ekki er að furða þó það hafi verið orðið lasið. Bessastaði sátu síðan umboðsmenn hins danska valds, Lærði skólinn var þar til húsa 1805-1846 og ekki alllöngu síðar komust Bessastaðir í einkaeign og voru það þar til þeir komust í eigu íslenska ríkisins. 1941 voru gerðar víðtækar breytingar á byggingunni undir umsjón Gunnlaugs Halldórsssonar arkitekts í því augnamiði að hún yrði aðsetur þjóðhöfðingjans.
Nýtt hús fyrir forseta
Bessastaðir – mynd á vasa frá 19. öld.
Frá því að Bessastaðir urðu setur ríkisstjóra og síðan forseta Íslands hefur notkun forsetasetursins tekið talsverðum breytingum. Í tíð Sveins Björnssonar og Ásgeirs Ásgeirssonar var þarna bú og húsin nýtt eins og á herragarði með þjónustufólki. Bjuggu forsetafjölskyldurnar í Bessastaðastofu með afnot af stofunum sem jafnframt voru notaðar í opinbera þágu og með svefnherbergi sín uppi. Eftir því sem móttökum fjölgaði hörfaði forsetafjölskyldan upp á loftið og bjó þar að mestu í lítilli íbúð undir risi eftir að Kristján Eldjárn varð forseti. Var svo þegar Vigdís Finnbogadóttir tók við. En vart þykir lengur boðlegt að forseti búi í embættissölum eða risinu á samkomuhúsi, ef svo má segja. Og þegar farið var í endurbætur var ákveðið að forsetinn flytti úr Bessastaðastofu, sem verður að móttökuhúsi, en fái eigið hús fyrir sitt einkalíf. Vegna viðgerðanna hefur Vigdís forseti ekki getað búið á Bessastöðum síðan viðgerðir hófust 1989.
Bessastaðir.
Ákveðið var að byggja forsetabústað á staðnum og er það næsta verkefni. Verður gamla Ráðsmannshúsið, sem var forskalað timburhús byggt 1944 fyrir bústjórann og stendur nokkru norðar, rifið á þessu ári og annað byggt í staðinn, nánast eins í útliti. Er ætlunin að semja við verktaka um það og að gera það fokhelt næsta sumar. Ekki kvaðst Helgi geta lofað því að það yrði fullbúið vorið 1996, það færi eftir fjárveitingum.
Forsetahúsið verður rúmgott hús fyrir eina fjölskyldu, ein hæð að framan og tvær undan brekkunni með risi, eins og gamla húsið og fær sjálfstæðan aðgang og lítinn garð, sem miðar að því að auka möguleika forsetans á að eiga sitt einkalíf.
Bessastaðir.
Verða á húsinu minni háttar útlitsbreytingar, m.a. til að hægt sé að aka inn í bílskúr í enda kjallarans. Þarna eru stofur á aðalhæðinni og eidhús og tvö svefnherbergi uppi og tvö aukaherbergi á jarðhæð. Veitir það sveigjanleika fyrir fjölskyldustærð framtíðarforseta. Verður húsið með valmaþaki og kvistum eins og hið gamla, en á þakið verða settar skífur eins og á önnur hús. Verður þetta hús væntanlega fokhelt næsta haust og gengið alveg frá því að utan og jafnfram gengið frá lóð eftir því sem fjárveitingar leyfa.
Bessastaðanes – uppdráttur ÓSÁ.
Gert er ráð fyrir því að bæta aðkomuna, bílastæðin og umhverfi forsetasetursins og hafa landslagsarkitektarnir Reynir Vilhjálmsson og Ragnhildur Skarphéðinsdóttir unnið að skipulagi þess í samvinnu við arkitekta staðarins. Milli bygginganna er ferhyrndur húsagarður, sem var malbikaður þjónustugarður og stendur fyrir dyrum að fegra hann og gera að inngarði, enda snúa gluggar út að honum.
Fundust líka fleiri húsaleifar
Bessastaðir – Skansinn; skilti.
Var haldið áfram uppgrefi í kring, alls á 3.000 fermetra svæði, og var utan við Bessastaðastofu grafið niður á botn. Var komið niður á leifar frá landnámsöld og farið í gegn um mörg lög þar á milli. Segir Guðmundur að það hafi komið á óvart hve umfangsmikil byggð hefur verið á Bessastöðum allt frá uppphafi Íslandsbyggðar, sennilega allt aftur á 10. öld, sem engar ritaðar heimildir era til um.
Bessastaðir – Skansinn.
Undir Bessastaðastofu hefur verið útbúinn gríðarlega merkilegur fornleifakjallari, þar sem hægt er að fara niður og sjá og sýna bæði muni, svo sem iitla mannsmynd úr beini klædda embættisskúða frá 18. öld, og horfa einnig gegn um gler inn á upplýstar mannvistarleifar og hleðslur. Ákaflega fallega og haganlega fyrir komið. Semsagt hægt að sjá sögu staðarins allt aftur á landnámsöld, sem er alveg einstakt hér á landi. Enda eru Bessastaðir einn mesti sögustaður þjóðarinnar.
Bessastaðakirkja.
Að lokum spyr ég Helga hvort Bessastaðakirkja sé á verkefnaskrá nefndarinnar. Hann svarar því bæði játandi og neitandi, segir að þessu verkefni tilheyri að gera kirkjunni eitthvað til góða. Pússningin sé laus og illa farin og eins þakviðir og anddyri og þyrfti að gera við það.
Hvort eitthvað yrði meira vildi hann ekkert um segja. Ekki væri í þeirra áætlunum að byggja kirkjuna upp, eins og t.d. hefur verið gert við Hóladómkirkju.”
Á Bessastaðanesi eru margvíslegar fornleifar. Þar má fyrst telja Skansinn og bæ Óla “skans”, grunn prensmiðjuhúss Gríms Thomsen, Sjóðbúð, gerði, fjárborg, skothús, garðhleðslur, Skjónaleiðið, selstöðu, brunna, ummerki mótekju o.fl.
Bessastaðir – meint “Þrælakista”.
Líklegt má telja að svonefnd “þrælakista” hafi aldrei verið á bænum Bessastöðum heldur á tanga sunnan Músarvíkur. Þar eru tóftir, auk garða er umlykja hana.
Heimildir:
-https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2023/06/30/Radherra-fridlysir-Bessastadanes/-https://is.wikipedia.org/wiki/Bessasta%C3%B0ir
-Morgunblaðið 15. jan. 1995, Uppbygging á Bessastöðum, bls. 18-19.
Bessastaðir – skothús.