Skansinn

Við Skansinn á Bessastaðanesi má lesa eftirfarandi texta á upplýsingaskilti við tóftirnar:

“Skansinn er hvort tveggja til marks um ófriðartíma fyrri alda og aðsetur æðsta valds landsins á Bessastöðum. Hér eru jafnframt minjar um kotbýli frá 19. öld þar sem Óli skans bjó.

Varnir gegn útlenskum hervíkingum

Skansinn

Skansinn.

Vígvirkið Skansinn á uppruna sinn að rekja til Tyrkjaránsins árið 1627. Annálar greina frá því að höfuðsmaðurinn danski, Holgeir Rosenkranz, hafi spurt rán í Grindavík og látið “tilbúa í Seylunni virki eður skans, (sumir sögðu af fiskiböggum), og setja á byssur þær fáu, til voru”. Þar vörðust landsmenn alsírskum sjóræningjum sem sigldu inn á höfnina á tveimur skipum. Meðal þeirra sem voru skikkaðir í skansinn var Jón Indíafari, reynd fallbyssuskytta. “Fýruðu þeir nokkrum stykkjum þeim á móti og ránsmenn í sama máta af sínum skipum á land upp.”
SkansinnÞegar annað ránsskipið festist á grynningum fullt af herteknum Íslendingum vildu varnarliðar skjóta án afláts og frelsa fangana um borð en Danir héldu aftur af þeim. Ruddu sjóræningjarnir ýmsu ránsgóssi frá borði, reru með fanga í hitt skipið og sigldu brott með aðfallinu til Vestmannaeyja.
Fjórum áratugum eftir þetta barst Friðriki Danakonungi sú flugufregn til eyrna að fjandvinir hans Englendingar hygðust hertaka Ísland. Gerði hann út Ottó Bjelke með stórt stríðsskip til að bæta varnirnar hér á landi.

Skansinn

Upplýsingaskiltið – Skansinn í baksýn.

Svokallaður skanstollur var lagður á til að fjármagna gerð virkis “til varnar fyrir útlenzkum hervíkingum”. Árið 1668 var skans reistur í nesinu norðan við Bessastaðatún, ferkantaður, tuttugu málfaðmar á hvern veg, tveggja mannhæða hár og “með fallbyssu besettur”. Ottaskans, eins og hann var kallaður, þótti lítilsverðar með hliðsjón af þeim fjármunum sem til hans runnu, “einn lítill skansvottur í afsökunarnafni ásýndar”.
Árið 1809 lét Jörundur hundadagakonungur reisa vígi við Arnarhól til varnar Reykjavík. Voru fallbyssurnar í Bessastaðaskansi fluttar þangað þótt hálfsokknar væru og ryðgaðar, sex að tölu fyrir sex punda skot, og dyttað að þeim svo hægt yrði að hleypa af þeim skotum. Eftir að skammvinnum valdatíma Jörundar lauk var lítt hirt um virkið og segir í árbókum Espólíns að flestum fallbyssunum hafi verið sökkt í sjó.
Leifar af fallbyssum frá Bessastöðum voru fluttar í Þjóðminjasafn Íslands. Í fornleifakjallaranum á Bessastöðum getur að líta fallbyssu og kúlur sem taldar eru vera úr Bessastaðaskansi.

Bessastaðaland

Bessastaðir

Bessastaðir.

Flóðs og fjöru gætir í Bessastaðatjörn síðan ósinn var stíflaður árið 1953. meðan enn fjaraði í tjörninni kom upp með fjöru brík frá Prentsmiðjuflöt, þar sem var prentsmiðja Skúla Thoroddsen snemma á 20. öld og liggur hún að Stekkjarmýrarhól. Var sú leið oft farin, ekki síst ríðandi og nefndist Steinboginn.
Hjá Sjóbúðaflöt er tóft sem kallaðist Sjóbúð og enn fremur mun þarna hafa verið uppsátur, Bessastaðavör.
Í Bessastaðatjörn eru hólmar þar sem æður verpir. Bessi, bóndi á Bessastöðum, er sagður heygður í þeim stærsta, Bessahólma, hinir tveir eru manngerðir í tíð Ásgeirs Ásgeirssonar forseta. Kóri fékk nafn eftir fæðingarstað Ásgeirs í Kóranesi á Mýrum.
Austan við Skansinn eru veggjarústir, trúlega úr Skólanausti þar sem skólapiltar geymdu bát sinn.
Á Sauðatanga eru leifar af sauðaborgum og ef til vill hrossaskjóli.
Skothúsið, hóll með sýnilegum tóftum á, þar sem hæst ber á Bessastaðanesi, hefur verið fyrirtaks byrgi til gæsaveiða. Grjóthlaðnir veggir skammt vestan við byrgið kunna að hafa verið rétt eða hrossaskjól.
Tóftarbrot eru á Ranatá og Vestaritanga en hlutverk þeirra er ekki þekkt.
Í Kringlumýri er ríkt fuglalíf og þar eru víða niður við sjó fornar hringlaga grjóthleðslur fyrir æðarvarp.

Tóftir af bænum hans Óla skans

Skansinn

Skansinn og bær Óla skans.

Á 19. öld var reist lítið býli við Seyluna, hjáleiga frá Bessastöðum, sem nefnt var eftir Skansinum. Þar var búið til ársins 1927. þekktastur ábúenda er án efa Ólafur Eyjólfsson, Óli skans kallaður, sem bjó þar á ofanverðri 18. öld. Gamanvísa um hann er sungin enn í dag, en afbökuð.
Rétt er hún svona:

Óli Skans, Óli Skans,
er hér á róli.
Fía hans, Fía hans
fær hjá honum skjóli.
Óla er kalt á kinnunum,
Fía vill ei orna honum.
Fram í eldhús til hennar
tíðum leggur göngurnar.

Gísli Jónsson listmálari bjó síðast í Skansinum með seinni konu sinni Björgu Böðvarsdóttur við bjargneyð og einangrun.
Málverk Gísla prýddu veggi og meðal þeirra fegurstu er myndin sem hér fylgir af Skansinum og hann gaf konu sinni með rósamáluðum ramma utan um.”

Óla skans er lýst svo

Skansinn

Ljóðið um Óla skans.

Salvör Kristjana Gissurardóttir bloggar um Óla Skans árið 2018. Þar segir hún m.a.: “Hann var meðalmaður að vexti, heldur grannur, dökkur í andliti, langleitur, ennið lágt, nefið frekar stutt, en allhátt. Gekk hann alltaf alrakaður. Hann var með frekar ljósleitt, slétt og sítt hár, sem var skipt fyrir miðju. Eyrun voru stór og áberandi. Hakan var óvenjulega breið. Hann var lotinn í herðum. Var hann þrifnaðarmaður hinn mesti, kátur, fjörugur og lífsglaður, en enginn söngmaður. Hann var kenndur við fæðingarstað sinn og kallaður Óli Skans, og er við hann kennt hið alkunna danslag, sem allir þekkja.

Ólafur þessi var vinnumaður nokkur ár hjá móður minni, og var hann einn fyrsti háseti hjá mér, er ég byrjaði formennsku. Hann var liðlegur sjómaður, og féll mér ágætlega við hann. Ólafur varð síðar holdsveikur og dó á spítalanum í Laugarnesi.”

Átti Óli skans sem sagt enga konu sem hét Vala og var hann ekkert tengdur skansi nema að því leyti að hann ólst upp á litlum bæ í lendingunni á Bessastöðum?

Óli skans virðist hafa vakið upp sköpunarkraft skálda og Stefán Jónsson yrkir um Óla og í kvæðum Stefáns hefur Fífa breyst í Völu. Svo hefur Loftur Guðmundsson líka vísun í Óla skans oftar en einu sinni í kvæðinu Réttarsamba. Ég giska á að fyrsta vísan um Óla skans þar sem hann vildi láta Fíu orna sér hafi verið sungin við ákveðið danslag og svo hafi það fylgt Óla eftir, dansarnir breytast með tímanum og ég man ekki hvað dansinn hét sem maður lærði í danstímum bernskunnar og undir var spilað og sungið lagið um Óla skans, hét dansinn skottís eða eitthvað annað? En þessi danstaktur tíðarfarsins sem fylgir Óla skans með nafn sem minnir á dans kveikir líka upp fylgikonur, Fía og Vala og Gunna. Fía hlýjar Óla, en Vala ráðskast með hann.

Lagið “ÓLI skans”

Óli skans, Óli skans,
ógnar vesalingur,
Vala hans, Vala hans
veit nú hvað hún syngur.
Óli, Óli, Óli skans.
Vissulega vildu fáir
vera í sporum hans.

Óli er mjór, Óli er mjór.
Óli er líkur fisi.
Vala er stór, Vala er stór.
Vala er eins og risi.
Óli, Óli, Óli skans.
Sjá hve þú ert sauðarlegur,
segir konan hans.

Þú ert naut, þú ert naut.
Þannig hóf hún tölu.
Óli gaut, Óli gaut
augunum til Völu.
Óli, Óli, Óli skans.
Ákaflega önuglynd
er eiginkonan hans.

Óli hlaut, Óli hlaut
auman reynsluskóla.
Vala braut, Vala braut
viðbeinið í Óla.
Óli, Óli, Óli skans.
Voðalegur vargur er hún
Vala, konan hans.

Skansinn

Upplýsingaskiltið um Skansinn og Bessastaðanes – bær Óla skans í baksýn við Skansinn.

Heimildir:
-Upplýsingaskilti við Skansinn á Bessastaðanesi.
-https://salvor.blog.is/blog/salvor/entry/2214985/
-Kristinn Jóhannesson, Þættir úr landvarnasögu Íslendinga – Saga, 1. tölublað (01.01.1968), bls. 122-138.
-Kvæði Stefáns Jónssonar Harpan, 9-12. tölublað (01.12.1937), bls 186.
-Skansinn og Bessastaðastofa (ferlir.is).

Skansinn

Frá vígslu upplýsingaskiltisins við Skansinn.