Urriðakot

“Spor Jóhannesar Sveinssonar Kjarval liggja víða í hraununum umhverfis Garðabæ og Hafnarfjörð, en hann átti sér nokkra uppáhalds staði og þangað kom hann oftar en einu sinni.
Sumarið 1966 fékk urr-1Kjarval leigubílstjóra til að aka sér í áttina að Vífilsstöðum en hann málaði stundum myndir í Vífilsstaðahrauni, en í þetta sinn lá leiðin aðeins lengra. Bílstjórinn ók svokallaðan Flóttamannaveg. Þegar komið var á móts við Urriðakotsholt beygði bílstjórinn út af veginum og ók bifreið sinni til suðausturs. Hann ók eftir vallgrónum vegslóða sem lá að löngu yfirgefinni herstöð, Camp Russel, sem var í jaðri Urriðakotshrauns á stríðsárunum. Á þessum slóðum er núna golfvöllur sem félagar í Oddfellow reglunni á Íslandi létu útbúa og ruddu í leiðinni herstöðvatóftunum í burtu.

Kjarval fór út úr leigubifreiðinni og gekk af stað með trönur sínar, liti og striga upp í hraunið, sem nefnist á þessum slóðum Bruni, en heildarnafn þessa hluta Búrfellshrauns er Svínahraun, þó svo að Urriðakotshrauns nafnið sé oftast notað í dag. Kjarval fann sér stað á þægilega sléttum bala og horfði norður í áttina að Vífilsstöðum, sem sjást ekki frá þessu sjónarhorni þar sem norðvesturendi Vífilsstaðahlíðar skyggir á húsið. Þarna málaði hann sprungna hraunkletta og virðist hafa komið nokkrum sinnum frá vori og frameftir sumri á þennan sama stað því það eru til nokkur málverk sem hann málaði frá þessu sama sjónarhorni. Einhverju sinni hefur hann ákveðið að snúa málartrönum sínum í hina áttina og horft til suðurs í átt til Reykjanesfjalla.

urr-2

Beint fyrir framan hann blasti við reglulega löguð hleðsla, þrír veggir úr hraungrjóti, lítil og vel hlaðin húsatóft sem var opin í norðurátt. Hleðslan er þannig löguð að vel má hugsa sér að þarna hafi verið ætlunin að útbúa lítið fjárhús eða smalaskjól. Þessa húsatóft sem stendur ágætlega enn í dag málaði Kjarval í það minnsta einu sinni ásamt nánasta umhverfi og í baksýn málaði hann Grindaskarðahnúka og hluta Lönguhlíða. Að vísu færði hann aðeins í stílinn og lagfærði sjónarhornið lítilsháttar til að koma þessu öllu fyrir á málverkinu. Kjarval nefndi staðinn og málverkið einfaldlega “Fjárrétt”.

Svanur Pálsson tók saman merkilega örnefnalýsingu sem fjallar um land Urriðakots og er dagsett 30. mars 1988. Svanur nam örnefnafróðleikinn af móður sinni Guðbjörgu Guðmundsdóttur sem fæddist í Urriðakoti árið 1906 og bjó þar til 1939. Örnefnin nam hún af föður sínum Guðmundi Jónssyni bónda í Urriðakoti sem var fæddur 1866 og bjó í Urriðakoti til 1941. Foreldrar hans settust að í Urriðakoti árið 1846, þannig að þessi fjölskylda bjó á jörðinni í allt að eina öld.

Þegar Kjarval var á ferðinni á þessum slóðum sumarið 1966 var stutt í að vinnuflokkar mættu á staðinn til að setja upp risastór raflínumöstur sem þvera það sjónarhorn sem Kjarval hafði fyrir augum, er hann málaði “Fjárréttina”. Þetta er Búrfellslínan en hún var ein meginforsenda þess að álverið sem reis nokkrum árum seinna við Straumsvík gæti tekið til starfa. Nú hefur verið rætt um að taka þessa línu niður, en það verk mun tefjast eitthvað, en félagar í golfklúbbnum sækja það fast að fá að stækka golfvallarsvæðið og fara með brautir sínar út í Flatahraun sem er rétt norðaustan og neðan við fjárréttina, sem hér getur að líta.” – JG

Urriðakot

Fjárhús frá Urriðakoti í Urriðakotshrauni.