Álfhóll

Álfhólar eru nær óteljandi hér á landi. Örnefni er tengjast þeim má nánast finna í sérhverri örnefnalýsingu. Einn Álfhóllinn er suðaustan við Eyvindarstaði á Álftanesi. Honum hefur verið þyrmt þótt búið sé að byggja allt um kring.
Norðvestan við Eyvindarstaði á að vera Eyvindarleiði, haugur í túninu, að sagt er. Þá höfðu borist spurnir af örnefninu Kirkjuhóll þar skammt frá.
Álfhóll - Akurgerði fjærÁður en lagt var af stað gaf Jónína Hafsteinsdóttir hjá Örnefnastofnun Íslands eftirfarandi upplýsingar um framangreint: “
Í Örnefnalýsingu fyrir Eyvindarstaði segir: Eyvindarleiði er fast vestan við húsið í Akurgerði. Það eru tvær þúfur og er sú sem fjær er húsinu stærri. Þar á Eyvindur sá sem Eyvindarstaðir eru kenndir við að vera heygður og hundur hans í minni þúfunni. (Ath.: [Benedikt] Gröndal [Dægradvöl] getur þess að Eyvindur og kona hans hafi verið grafin í Eyvindarleiði).
Álfhóll er u.þ.b. 60–70 m beint austur frá bæ. Álfhóll og Eyvindarleiði hafa verið vernduð í gegnum aldirnar, og eru nú friðlýst af eigendum landsins, þó ekki sé búið að merkja staðina. Hjátrú er bundin þessum stöðum; ekki mátti raska leiðinu og aldrei slá Álfhól eða skerða hann.

Eyvindarstaðir

Eyvindarstaðir – Benedikt Gröndal 1902.

Íbúðarhúsið á Eyvindarstöðum var byggt 1922–3 og er úr steinsteypu. Áður stóð húsið fast fyrir norðan, þar sem íbúðarhúsið er nú. Komu þau nokkurn veginn horn í horn. Þar fyrir norðan, þar sem hóllinn var hæstur, mun gamli bærinn hafa staðið (þ.e. sá sem Sveinbjörn Egilsson bjó í).
Benedikt Gröndal getur þess, að nyrzti hluti hólsins hafi heitið Kirkjuhóll. Sennilega er átt við smá bungu við bílskúrinn í Akurgerði.
Auk þessa var Réttin í þessu landi og var hún notuð til þess að geyma þar hesta um nætur meðan tún voru ógirt (sjá Dægradvöl Ben. Gröndal). Þar sem réttin var stendur nú spennistöð rafveitunnar. Þarna mátti sjá hestasteina með krókum í til skamms tíma og e.t.v. má finna einhverja þeirra enn.” Lýsinguna gerði Jóhanna Stefánsdóttir frá Eyvindarstöðum (f:1919).
Þá var gengið af stað og byrjað á því að taka hús á heimilisfólkinu að Eyvindarstöðum. Ólafur Sverrisson tók vel á móti þátttakendum. Sagði hann Eyvindarleiðið vera á bak við bílskúrinn í Akurgerði. Annars kynni Stefán Eyþórsson þar á bæ betri skil á örnefnum á svæðinu.
Eyvindarleiði - Stefán Eyþórsson að bakiStefán (f:1936) benti óhikað á leiðið að baki bílskúrsins, fast vestan við íbúðarhúsið í Akurgerði eins og getið er um í örnefnalýsingunni. Hann kannaðist ekki við örnefnið “Kirkjuhóll”, en skv. lýsingunni mun það vera á sama stað og leiðið, “smá bunga við bílskúrinn í Akurgerði”. Réttina kvaðst Stefán ekki hafa heyrt nefnda og mundi ekki eftir spennistöð þarna nálægt. Á Álfhólnum kunni hann hins vegar góð skil.
Frá upphafi fornminjaskráningar hér á landi hefur áhersla jafnan verið á hauga og álagabletti. Í “Lögum um verndun fornmenja”, dags. 16. nóv. 1907, er tiltekið hvað teljist til fornleifa (þ.e. staðbundnar), sbr. 2. grein: ”
Til fornleifa teljast: a. Þingbúðarústir, gömul mannvirki á fornum þingstöðum, sögustöðum og öðrum merkisstöðum, sem nokkurs er um vert fyrir menningarsögu landsins, rústir af hofum, hörgum og hverskonar blótstöðum frá heiðni, af kirkjum og kirkjugörðum, kapellum og bænahúsum, forn vígi eða rústir af þeim, forn garðlög, rústir af fornum bæjum, seljum, búpeningshúsum, farmannabúðum, naustum og öðrum fornbyggingum, enn fremur fornir öskuhaugar.
b.  Fornar grafir, haugar, dysjar og leiði i jörðu eða á, er menn hafa verið grafnir, heygðir eða dysjaðir í.”
Í nýjustu þjóðminjalögunum,  frá 17. júlí árið 2001, má enn sjá hliðstætt ákvæði í 9. gr.: “Til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á, svo sem: a. Álfhóllinnbúsetulandslag, byggðaleifar, bæjarstæði og bæjarleifar ásamt tilheyrandi mannvirkjum og öskuhaugum, húsaleifar hvers kyns, svo sem kirkna, bænahúsa, klaustra og búða, leifar af verbúðum, naustum, verslunarstöðum og byggðaleifar í hellum og skútum; b. vinnustaðir þar sem aflað var fanga, svo sem leifar af seljum, verstöðvum, bólum, mógröfum, kolagröfum og rauðablæstri; c. gömul tún- og akurgerði, áveitumannvirki og leifar eftir veiðar til sjávar og sveita; d. gamlir vegir, stíflur, brýr, vatnsvöð, varir, hafnir og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og vitar og önnur vega- og siglingamerki ásamt kennileitum þeirra; e. virki og skansar og önnur varnarmannvirki; f. gamlir þingstaðir, meintir hörgar, hof og vé, brunnar, uppsprettur, álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð; g. áletranir, myndir eða önnur verksummerki af manna völdum í hellum eða skútum, á klettum, klöppum eða jarðföstum steinum og minningarmörk í kirkjugörðum; h. haugar, dysjar og aðrir greftrunarstaðir úr heiðnum eða kristnum sið;”
Orðið haugur (kk) hefur verið skilgreindur sem “Legstaður heiðins manns sem einkennist af haugi, þ.e. jarðvegi eða grjóti sem hefur verið hrúgað eða hlaðið ofan á gröfina.” Í fornritum er oft talað um legstaði fornmanna sem hauga. Eiginlegir haugar sjást þó sjaldan á Íslandi þótt örnefnin gefi annað til kynna. Því lagði Kristján Eldjárn til að hlutlausara orð væri notað: Kuml. Þau eru gjarnan þúfulaga kollar í jaðri fornra túna, á mörkum fornra jarða, við fornar leiðir eða á útsýnisstöðum jarðanna.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Lög um verndun fornmenja, dags. 16. nóv. 1907.
-þjóðminjalögun,  frá 17. júlí árið 2001.
-Örnefnalýsing fyrir Eyvindarstaði – ÖÍ.

Álftanes

Álftanes, Bessastaðahreppur fremst, Reykjavík, Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður,