Garðakirkja

Þekktustu staðir á Álftanesi eru Bessastaðir og Garðar. Á Bessastöðum er aðsetur forseta Íslands. Garðar eru kirkjustaður og fyrrum prestssetur.
Garðar á ÁlftanesiByggð hefur verið í landi Garðabæjar frá landnámstíð. Talið er að núverandi landsvæði bæjarins hafi tilheyrt þremur mönnum. Vestasti hlutinn hafi verið land Ingólfs Arnarsonar, landið í kringum Vífilsstaði í eigu Vífils, leysingja Ingólfs, og syðsti hlutinn í eigu Ásbjarnar Özurarsonar, sem bjó á Skúlastöðum og Landnáma segir að hafi fengið land á milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt. Talið er að Skúlastaðir hafi annað hvort verið þar sem nú eru Bessastaðir eða þar sem nú er kirkjustaðurinn Garðar á Álftanesi en við hann er Garðabær kenndur.
Í Landnámu (Sturlubók) segir m.a.: “Maður hét Ávangur, írskur að kyni; hann byggði fyrst í Botni. Þar var þá svo stór skógur, að hann gerði þar af hafskip. Hans son var Þorleifur, faðir Þuríðar, er átti Þormóður Þjóstarsson á Álftanesi og Iðunnar Molda-Gnúpsdóttur… Þá fékk Illugi Jórunnar, dóttur Þormóðar Þjóstarssonar af Álftanesi, en Sigríður hengdi sig í hofinu, því að hún vildi eigi mannakaupið.
Í Landnámu er tveggja jarða getið innan þess svæðis sem Garðabær nær til. Ásbjörn Özurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, er sagður hafa búið á Skúlastöðum, en Garðakirkjanam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns og Álftanes allt. Eru munnmæli um að Skúlastaðir hafi verið þar sem Skúlastaðahraun er, sem er norðan við Lönguhlíðarhorn, innan Almenningsskóga Álftaneshrepps. Hin jörðin er Vífilsstaðir, eða Vífilstóftir, sem þó telst ekki til hinna eiginlegu landnámsjarða, en hún var byggð af Vífli. Vífilsstaðir munu fljótlega eftir landnám hafa komist í eigu kirkjunnar, fyrst Viðeyjarklausturs, en árið 1558 eignaðist Garðakirkja jörðina.
Talið er að kirkja hafi verið að Görðum á Álftanesi allt frá því að kristni var lögtekin á Íslandi árið 1000. Garðakirkju er fyrst getið í heimildum um 1200 í kirknamáldaga Páls biskups Jónssonar. Á þjóðveldis- og Sturlungaöld eru litlar heimildir um íbúa Álftaness og þar í kring. Þormóðs Þjóstarssonar er þó getið, sem sagður er hafa búið í Görðum, Álftanesi, t.d. skv. Hrafnkels sögu Freysgoða og Geirmundar þætti heljarskinns.
Höfuðbólið Garðar, var í nágrenni höfuðseturs veraldslegs valds á Íslandi, Bessastaða. Eftir að hreppskipan komst á, á þjóðveldisöld, tilheyrðu núverandi landsvæði Garðabæjar Álftaneshreppi og einnig bæði höfuðbólin Garðar og Bessastaðir. Garðalind - hið gamla vatnsból GarðaAfréttarland Álftaneshrepps hafði ýmist nöfnin Garðaland, Garðakirkjuland eða Garðastaðarland. Álftaneshreppi var skipt upp árið 1878, í Garðahrepp og Bessastaðahrepp. Var Álftaneshreppur þá lagður niður samhliða. Eftir skiptinguna 1878 tilheyrði byggðin suður fyrir Hafnarfjörð Garðahreppi. Sú skipting hélst þar til Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi árið 1908. Eftir það og fram til ársins 1959 náði lögsaga Garðahrepps beggja vegna við Hafnarfjörð, en þá var mörkum sveitarfélaganna breytt.
Garðakirkja í Görðum á Álftanesi er sóknarkirkja Garðaprestakalls. Kirkjan sem nú stendur er vígð 20. mars 1966 á fjórða sunnudegi í föstu. Talið er að kirkja hafi staðið í Görðum allt frá landnámi, utan þess sem kveðið er á í einni þjóðsögu að Garðar hafi verið þar sem nú eru Garðaflatir ofan Búrfellsgjár. Garðarmunu vera einn af elstu kirkjustöðum hér á landi. Garðakirkja þjónaði Garðahreppi og Hafnarfirði allt til 1914 er Hafnarfjarðarkirkja var vígð. Þá lagðist helgihald af í Görðum og kirkjan sem byggð hafði verið 1880 grotnaði smám saman niður uns hún var rifin 1938 og stóð aðeins tóftin eftir. Kvenfélagskonur í Garðahreppi áttu frumkvæði að því að hafist var handa um endurbyggingu Garðakirkju árið 1953. Var kirkjan svo endurreist og endurvígð af biskupi hinn 20. mars 1966, þegar 300 ár voru liðin frá fæðingu Jóns Vídalíns.
Bessastaðir með Perluna og Móskarðshnúka í baksýnUm hinn staðinn, Bessastaði, er það helst að segja að hann er órjúfanlegur hluti af íslenskri þjóðarsögu allt frá landnámstíð til vorra daga. Rannsóknir fornleifafræðinga hafa leitt í ljós að fyrstu íbúar á Bessastöðum settust þar að á landnámsöld og búseta hefur verið þar óslitið síðan. Á þjóðveldisöld bjó þar skáldið og höfðinginn Snorri Sturluson eins og getið er um í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar. Snorri Sturluson átti Bessastaði á fyrra helmingi þrettándu aldar. Ekki er ljóst með hverjum hætti hann eignaðist jörðina en þegar veldi hans stóð hæst á öðrum fjórðungi þrettándu aldar átti hann miklar jarðeignir og rak stórbú víða um vestan- og sunnarvert landið. Eftir dauða Snorra sló Noregskonungur eign sinni á staðinn og síðari hluta miðalda sátu í konungsgarði á Bessastöðum æðstu fulltrúar erlends valds á Íslandi. Við einveldistöku Danakonungs breyttist hérlend stjórnsýsla talsvert og árið 1688 urðu Bessastaðir embættisbústaður fulltrúa konungs, landfógeta og amtmanns allt þar til yfirstjórn landsins fluttist til Reykjavíkur.
Hákon konungur gamli Hákonarson kallaði til arfs eftir Snorra Sturluson, sem hann taldi vera landráðamann við sig og brotlegan hirðmann, og fól Þorgilsi skarða BBessastaðir 1789öðvarssyni, sonarsyni Þórðar bróður Snorra, að heimta þann rétt á Íslandi. Þorgils hafði því umráð Bessastaða þau ár sem hann sat í öndvegi á Íslandi, og eitt fyrsta verk hans árið 1252 var að sögn sögu hans að sækja „landsleigu af Eyvindarstöðum og Bessastöðum.
Á 15. og 16. öld festist í sessi titillinn „höfuðsmaður“ um þessa æðstu valdsmenn landsins. „Höfuðsmenn voru löngum sjóforingjar, sem sendir voru til landsins á herskipum til landvarna gegn útlendingum. Þeir voru hér að sumarlagi, en settu fyrir sig fógeta annan tíma ársins, og sátu þá yfirleitt á Bessastöðum.
Á siðskiptaöld komust Bessastaðir í brennipunkt átaka; þaðan fóru siðbótarmenn konungs í herferðir sínar til að snúa landsmönnum á rétta braut og í kjölfar siðskipta færðust jarðeignir á Suðurnesjum og víðar um landið undir Bessastaði í vaxandi mæli, m.a. í makaskiptum við biskupsstólana og önnur höfuðbýli. Meðal þeirra jarða voru stöndugar útvegsjarðir sem gáfu af sér drjúgar tekjur í landskuldum sem greiddar voru í fríðu, einkum skreið og smjöri. Það fé sem safnaðist konungi og umboðsmönnum hans á Íslandi var varðveitt á Bessastöðum og þangað sóttu því erlendir sjóræningjar og ránsmenn. Á ensku öldinni svokölluðu, 15. öld, er oftar en einu sinni getið um áhlaup Englendinga að Bessastöðum og vilja Íslendinga til að efla þar nauðsynlegar varnir en þær hugmyndir komust þó ekki til framkvæmda. Frægasta ránstilraun á Bessastöðum er Tyrkjaránið svonefnda sumarið 1627.
Bessastaðir 1934Ýmsar breytingar á íslenskri stjórnsýslu fylgdu einveldistöku konungs í Danmörku. Hinn forni konungsgarður á Bessastöðum var þá gerður að embættisbústað tveggja æðstu umboðsmanna konungsvaldsins á Íslandi, landfógeta og amtmanns. Bessastaðastofa var aðsetur amtmanns eða stiftamtmanns til 1804 þegar Lærði skólinn, sem þá var æðsta menntastofnun landsins, var fluttur til Bessastaða þar sem skólinn starfaði óslitið til ársins 1846 að hann var aftur færður til Reykjavíkur.
Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal, (1826-1907) fæddist á Bessastöðum. Einnig Grímur Thomsen skáld og alþingismaður, árið 1820. Árið 1867 komust Bessastaðir í eigu Gríms Thomsen og þar bjuggu hann og Jakobína Jónsdóttir kona hans þar til Grímur lést árið 1896. Þá keypti Landsbanki Íslands Bessastaði, Lambhús og Skansinn af ekkju Gríms.
Skúli Thoroddsen ritstjóri og alþingismaður og kona hans Theodóra Thoroddsen skáldkona eignuðust Bessastaði 1898 og bjuggu þar rausnarbúi með börnum sínum tólf til 1908.
FERLIRsfélagar á leið að Bessastöðum 2002Jón H. Þorbergsson bóndi (síðar á Laxamýri) bjó á Bessastöðum 1917-28 og Björgúlfur Ólafsson læknir 1928-40. Þá keypti Sigurður Jónasson forstjóri Bessa

staði og hann afhenti síðan íslenska ríkinu staðinn að gjöf árið 1941 svo þar mætti verða bústaður ríkisstjóra og síðar forsetasetur.
Talið er að kirkjur hafi staðið á Bessastöðum frá því um árið 1000 en elstu heimildir um kirkju þar eru frá árinu 1200. Fyrsta kirkjan var helguð heilagri Maríu guðsmóður og heilögum Nikulási. Núverandi steinkirkja á Bessastöðum, byggð að tilhlutan Kristjáns 7. Danakonungs, var vígð 1796 og er hún meðal elstu steinbygginga landsins. Smíði turnsins lauk þó ekki fyrr en 1823. Eru veggir hennar ríflega metri að þykkt, hlaðnir úr grjóti úr Gálgahrauni. Verulegar breytingar voru gerðar á innviðum Bessastaðakirkju á árunum 1945-47, m.a. lagt trégólf í stað flísa og predikunarstóllinn frá því um 1700 vék fyrir nýjum. Steint gler var sett í glugga kirkjunnar árið 1956. Gluggarnir eru átta talsins eftir listamennina Finn Jónsson og Guðmund Einarsson frá Miðdal og þeir sýna atburði úr Biblíunni og úr kristnisögu Íslands. Gagnger viðgerð fór fram á kirkjunni árið 1998.
Sjá meira HÉR.

Heimildir m.a.:
-forseti.is
-alftanes.is