Bollar

Gengið var um Selvogsgötu (Suðurfararleið) um Grindarskörð austan Stórabolla með það fyrir augum að skoða Bollana ofan Skarðanna, þ.e. Stórabolla, Tvíbolla (miðbolla) og Syðstubolla (Þríbolla). Þoka setti dulúðlegan svip á umhverfi eldvarpanna efst í Skörðunum.
bollar-2“Grindaskörðin blasa við sjónum manna frá Innnesjum. Í þeim eru nokkrir gígar, stundum nefndir Grindaskarðahnúkar, en heita samt sínum nöfnum. Austastur er Stóribolli, þá Tvíbollar, en vestastir eru Þríbollar (Syðstubollar). Skarðið milli Tvíbolla og Þríbolla heitir Kerlingarskarð og þar upp liggur gata. Vestan undir Tvíbollum, austan við götuna, er smá slakki. þar eru nokkrar snapir fyrir hesta og segir Ólafur þorvaldsson í fyrrnefndri grein, að lausríðandi menn hafi oft farið þar af baki, einkum á austurleið. þarna munu vera einhverjar leifar af húsarúst. Ólafur gerir þá grein fyrir henni að W.G.Spencer Paterson forstjóri brennisteinsvinnslunnar hafi látið byggja umhleðslustöð í þessum slakka. Brennisteinninn var selfluttur þannig ” að lest að austan fór ekki lengra en ofan fyrir skarðið í hvilft þá, sem hér er nefnd, og sú sem frá Hafnarfirði kom, stansaði einnig þarna. Svo var skipt um farangur, þannig að önnur lestin tók bagga hinnar og fór sína leið aftur til baka”.
Bollar-loftmynd“Framundan eru sex hnúkar sem nefnast Grindaskarðshnúkar eða Bollar og milli þeirra eru Grindaskörð. Austast er Stóri Bolli, sem reyndar er talinn vera hið eina sanna Kóngsfell, en framan í bollanum er gígur sem er líkur bolla í lögun. Þetta er gamalt fiskimið sem sjómenn miðuðu út um aldir og tóku þá gjarnan stefnuna um Helgafell. Næst koma Tvíbollar, einnig nefndir Miðbollar, en vestan þeirra er Kerlingaskarð þar sem Selvogsgatan liggur um. Vestast eru berghnúkar sem nefnast Syðstubollar eða Þríbollar. Leiðin liggur eftir varðaðri leið upp í skörðin um Kerlingaskarðsstíg og þegar komið er upp á brúnina er hægt að velja nokkrar leiðir.”
Bollar-3Stórabollahraun kom úr Stóribolla. Um er að ræða dyngjuhraun. Annað nafn á hrauninu neðanverðu er Skúlatúnshraun. Það mun vera um 2000 ára gamalt, en gæti þí verið yngra, jafnvel einungis svolítið eldra en Tvíbollarhraun. Tvíbollahraun kom úr Tvíbollum, Grindarskörðum um 875.
Þrú öskulög eru jafnan notuð á þessu svæði til að greina aldur nútímahraunanna eftir landnám.
• Landnámslagið 870–880 er eitt mikilvægasta öskulagið á Íslandi, en það mun hafa fallið skömmu eftir að land byggðist og hefur dreifst víða. Öskulagið er talið vera komið frá Torfajökuls- og Veiðivatnasvæðinu árið 870–880 og er tvílitt, með ljósan neðri hluta og dökkan efri hluta (Guðrún Larsen 1984; Karl Grönvold o.fl. 1995; Zielinski o.fl. 1997). Landnámslagið finnst víða og er grundvöllur margra aldursákvarðana á hraunum.
Oskulog• Miðaldalagið er dökkgrátt öskulag komið frá gosi við Reykjanes 1226–27 og er nokkuð auðgreint á svæðinu þar sem það er ívið grófkornóttara en önnur dökk öskulög þar. Þetta er mikilvægt öskulag á Reykjanesskaga og var því fyrst lýst af Gunnari Ólafssyni sem nefnir þrjú möguleg gos ábyrg fyrir gjóskunni (Gunnar Ólafsson 1983) en síðari athuganir benda til að gosið hafi verið 1226–27 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988; Hafliði Hafliðason o.fl. 1992; Magnús Á. Sigurgeirsson 1995).
• Katla-1500 er yngsta öskulagið sem stundum sést efst í sniðum í Brennisteinsfjöllum. Það skiptir litlu máli varðandi eldvirkni á svæðinu því gos hafa ekki orðið eftir að Miðaldalagið féll árið 1226. Lagið styrkir hinsvegar tilvist og greiningu annarra laga, en er yfirleitt þunnt og ræfilslegt þar sem það sést (Guðrún Larsen 1978; Hafliði Hafliðason o.fl. 1992).
Bollar-4Á brún Lönguhlíðar eru tveir stórir dyngjugígar frá síðustu ísöld og sá þriðji austan við Stórabolla. Þessir gígar eru skýrir og fallegir og er verndargildi þeirra hátt. Svona svæðum nálægt þéttbýli fækkar sífellt og með auknum ferðamannastraumi verða þau æ áhugaverðari og verðmætari þeim sem vilja njóta útivistar og kyrrðar náttúrunnar.”
Í Tvíbollahrauni eru nokkrir hellar, s.s.
Spenastofuhellir. Hann er um 200 metra langur og í honum margslungnar og sérkennilegar hraunmyndanir. Völundarhúsið hefur sex hellismunna og teygir arma sína víða eins og völundarhúsum er tamt. Mikil litadýrð og ýmis storknunarform hraunsins gleðja augað. Hellirinn er um 200 metra langur.
Spenastofuhellir-21Nyrðri-Lautarhellir hefur fjóra hellismunna og í honum skiptast á heillegir kaflar og nokkuð hrundir. Víðast er hægt að ganga uppréttur. Í heild er hellirinn um 150 metrar að lengd. Syðri-Lautarhellir er um 170 metra langur og í honum er að finna fjölmargar áhugaverðar hraunmyndanir.
Í Stórabollahrauni er m.a. Leiðarendi. Hann er um 900 metra langur og hin mesta draumaveröld. Hellirinn gengur til beggja átta út frá niðurfalli og tengjast leiðirnar þannig að hellirinn liggur í hring.

Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Tómas Einarsson.
-Helgi Torfason, Náttúrufræðistofnun Íslands. Magnús Á. Sigurgeirsson, Geislavörnum ríkisins – Brennisteinsfjöll, Rannsóknir á jarðfræði svæðisins, 2002.
-Björn Hróarsson.

Bollar

Bollar framundan.