Gengið var um Bollana í Grindarskörðum. Útsýnið var stórbrotið.
Þegar Grindarskörðin eru skoðuð virðist a.m.k. tvennt augljóst; annars vegar eru þekkt örnefni ekki rétt staðsett og hins vegar eru þau ekki öll skráð. Þrátt fyrir mikla umferð um Skörðin fyrrum virðast örnefnin sum hver ekki hafa varðveist á bókfell. Ástæðan gæti annað hvort hafa verið sú að örnefnins hafi einfaldlega gleymst eftir að alfaraleiðin um Selvogsgötu (Suðurfararveg) lagðist af eða að ekki hafi náðst að skrá þau á bókfell áður en kunnugir hurfu á vit frumefnanna.
Augljóst má telja að Stóri-Bolli er gígur norðan í ónefndum hnúk mun eldri. En gígurinn sá, u.þ.b. 30 m djúpur, hverfur inn í hnúkinn þegar horft er í áttina að honum mót suðri. Um gíginn hafa fáir þurft að fara forðum – og jafnvel enn þann dag í dag.
Þrátt fyrir það er hann einn hinn tilkomumesti á meðal gígbræðra hans á Íslandinu öllu. Hnúkurinn ofan Stórabolla gæti þess vega heitið Stórabollahnúkur (eða Kóngsfell eins og skráð hefur verið) og hnúkurinn við Miðbolla gæti heitið Miðbolla- eða Tvíbollahnúkur. Syðstubollar ofan Kerlingarhnúks hafa af sumum verið nefndir Þríbollar, en ef betur er að gáð eru bollarnir 6 að tölu og því hlýtur að vera um rangnefni að ræða.
Þegar horft er til Bollanna er Stórubollahnúkur þeirra tilkomumestur. Hnúkurinn gæti því hafa verið nefndur Kóngsfell fyrrum. Efst á honum er varða, en engin slík er á hinum hnúkunum.
Vestan við Tvíbolla er röð lítilla gjallgíga er nær að Syðstubollum. Svo virðist sem um gos á sprungurein hafi verið að ræða og þá gosið á sama tíma.
Eftirfarandi umfjöllun um þá og nálæg hraun birtust í Náttúrufræðingnum 1977, 1983 og 1997. Höfundar eru Jón Jónsson, Sigmundur Einarsson og Haukur Jóhannesson. Um úrdrætti er hér að ræða:
“Við Grindarskörð er röð af hnúkum, sem bera við himin norðan frá séð og flestir munu nefna Bolla, Stóra-Bolla, Mið-Bolla eða Tví-Bolla og loks Þrí-Bolla [Syðstu-Bolla]. Að minnsta kosti tvö þessara nafna eru notuð um móbergshnúka, sem harla litla bollalögun hafa, og er raunar með ólíkindum að nöfn þessi hafi þeim nokkru sinni verið gefin eða ætluð. Gildir þetta um Stóra-Bolla og Þrí-bolla en öðru máli gegnir um Mið-Bolla eða Tví-Bolla, sem hér verða nú gerðir að umtalsefni. Ekki dettur mér [J.J.] í hug að efast um að Bolla-nöfnin eigi við gígi þá og gígskálar, sem þarna eru, en í einhverju undarlegu hugsunarleysi hafa þau verið færð yfir á þann hluta landslagsins, sem er mest áberandi, séð úr byggð.
Stóri-Bolli er einna besta dæmið um þetta. Hann er geysistór gígskál norðan í móbergshnúk, sem vel mætti heita Bollatindur en engan veginn Bolli. Raunar er svo að sjá sem allmikill nafnaruglingur hafi hér átt sér stað. Í dagbók Guðmundar G. Bárðarsonar stendur eftirfarandi ritað 18. ágúst 1931: “Bolli mikill er framan í Kongsfelli og hefur frá honum fallið mikið hraun, sem hefur myndað ávala bungu neðan við gíginn ð Kongsfell er úr móbergi.” Af þessum ummælum Guðmundar sýnist mér fullljóst að hnúkurinn, sem Stóri-Bolli er norðan í, sé hið raunverulega (litla) Kóngsfell en ekki sá lítt áberandi gígur við Stórkonugjá og Selvogsgötu, sem nú er látinn bera það nafn. Stóri-Bolli hefur hellt úr sér miklu hrauni, sem nær allt norður að Undirhlíðum en látið sér nægja að spýta hraungusum upp á móbergshnúkinn sem stolið hefur nafni hans.
Tví-Bollar
Í stað Mið-Bolla nota ég nafnið Tví-Bollar, því bæði er að það er til (Sigurðsson, 1976), og svo er það í fyllsta máta réttnefni. Gígirnir eru nefnilega tveir saman og mætti sannarlega kalla þá Litla og Stóra, því litli gígurinn nær hinum varla í „mitti” og er honum á hægri hlið sé horft í norður. Báðir eru gígirnir brattir, hlaðnir úr gjalli og gjallkleprum og mjög unglegir. Stærri gígurinn er um 35—40 m hár yfir umhverfið og í um 480 m hæð yfir sjó. Hann er opinn móti norðvestri og þá leið hefur hraunið runnið, fyrst í bröttum fossi en síðan að mestu í neðanjarðarrásum og hellum, sem hafa kvíslast á ýmsa vegu þegar neðar dró. Hinir svo nefndu Dauðadalahellar, sem margir kannast við, eru í þessu hrauni. Það hefur runnið yfir hraunið úr Stóra-Bolla. Mjó kvísl hefur runnið meðfram Lönguhlíð og kvíslast þar á ýmsa vegu en meginhraunið hefur fallið í breiðum fossi allt norður að Helgafelli. Loks hefur það sent mjóan straum vestur með Helgafelli að suðvestan.
Má þar víða sjá að það hefur fallið ofan í sprungur í eldra hrauni, því sem Gullkistugjá er í og ég tel að komið sé úr Stóra-Bolla. Það hefur þar, niðri á sléttlendinu, belgst upp í háar bungur og ávala garða. Út frá þeim hafa svo hér og þar komið undanhlaup, sem eru svo þunn að talsverða aðgæslu þarf til að fylgja brúnum hraunsins.
Tvíbollahraun
Við Grindaskörð eru gígaraðir á sprungubelti og hefur þar verið mikil eldvirkni. Meðal þessara gíga eru Tvíbollar, en það eru gígir tveir, sem gnæfa á norðurbrún fjallsins og hef ég áður fjallað um þá (Jón Jónsson 1977a). Eins og nafnið bendir til eru gígir þessir samvaxnir og sést það vel neðan úr byggð. Aðalgígurinn er 40-60 m hár en minni gígurinn tæplega þriðjungur þess. Gígarnir eru hlaðnir úr gjalli og hraunkleprum og hraunstraumurinn göng, sem enn má sjá. Lengst norður nær hraun þetta að Helgafelli og hefur runnið í örþunnum straumi vestur með því að sunnan en hverfur loks undir Gvendarselshraun við suðvesturhornið á fellinu.
Rétt þar hjá hefur leysingavatn grafið fornan jarðveg undan hrauninu svo það hefur á kafla fallið niður. Kemur við það í ljós jarðvegslag, sem er rösklega 1,2 m þykkt og í því m. a. eitt ljóst öskulag, sem talið er að sé H3 (frá Heklu fyrir 2.800 árum), en næst hrauninu eru kolaðar gróðurleifar, sem aldursákvarðaðar hafa verið og reynst 1075±60 C14 ár, (Jón Jónsson 1977a) en það þýðir að hraunið gæti hafa runnið árið 875 og er því frá sögulegum tíma. Jafnframt fannst landnámslagið undir þessu hrauni, aðeins ofan við áðurnefnt niðurfall. Þrjú hraun hafa síðar runnið út á þetta hraun og eru því yngri, en þau eru Rjúpnadyngnahraun, Kóngsfellshraun og svo það litla hraun, sem næst verður fjallað um í þessari grein.
Aldur hraunsins
Nokkur ár eru nú liðin frá því að ég fyrst frétti um að jarðvegslag væri sýnilegt undir hrauni við Helgafell. Gísli Sigurðsson varðstjóri í Hafnarfirði, sem er mikill náttúruskoðari og náttúruunnandi, hafði fundið þennan stað. Hann bauð mér fylgd sína þangað og fórum við upp að Helgafelli og fundum staðinn. Hraun hefur þarna runnið yfir gróið land, en síðar hefur leysingavatn skorið sér farveg meðfram hraunröndinni og grafið sig inn undir hana og má þar sjá þverskurð af jarðvegslaginu undir hrauninu. Athyglisvert er að ljóst öskulag er í sniðinu nær miðju en svart öskulag nokkru ofar og annað svart öskulag neðar.
Hraunið er þarna aðeins 0,5—0,75 m þykkt. Í jarðvegstorfu ofan á hrauninu er eitt svart öskulag allþykkt. Ekki var mér ljóst fyrr en alllöngu síðar að þarna var um tvö hraun að ræða og það var undir yngra hrauninu, sem jarðvegslagið var. Við nákvæma athugun kemur í ljós að örþunn hraunlæna úr Tvíbollahrauni hefur runnið upp að Helgafelli, vestur með því að sunnan og beygt norður á við við norðvesturhorn fellsins þar sem áðurnefndur farvegur hefur grafist inn undir hraunið. Örlitlu norðar hefur það mætt Gvendarselshrauni, sem komið er upp austan í Gvendarselshæð og fyllir svæðið milli hennar og Helgafells. Mót þessara tveggja hrauna eru afar ógreinileg en líklegt að Tvíbollahraun sé yngra.
Skal nú vikið að jarðvegssniðinu og því, sem það hefur að segja. Ekki er mér kunnugt um nema 2 ljós öskulög á þessu svæði og hefur Einar Gunnlaugsson (1973) fundið þau á nokkrum stöðum, m. a. við Vatnsskarð og Djúpavatn. Eldra lagið er frá Heklu, H3 , og samkvæmt niðurstöðum Sigurðar Þórarinssonar (1971) er það um 2900 ára gamalt. Hitt lagið er hið svokallaða landnámslag og talið vera frá því um 900 (Þórarinsson, 1968). Það er ljóst að neðan en dökkt að ofan og því auðþekkt þar sem það ekki er mjög þunnt. Ljósa lagið í áðurnefndu sniði nær miðju er 2—3 cm þykkt og mjög fínkornótt. Tók ég þarna sýni árið 1973 og sendi til Uppsala í Svíþjóð þar sem Ingrid U. Olsson núverandi prófessor annaðist aldursákvörðun á þeim.
Niðurstöður voru á þessa leið: (U 2524) Helmingunartími 5570 ár, aldur 1075 + 60 Ci* ár. Helmingunartími 5730 ár, aldur 1105 + 60 C^ ár. Séu þessar tölur teknar eins og þær koma fyrir og helmingunartíminn 5570 notaður kemur í Ijós að hraunið hafi runnið árið 875 eða árið eftir að Ingólfur Arnarson nam hér land.
Einhverjum kann að finnast nóg um þessa tilgátu, en hún hefur nú hlotið nánari staðfestingu. Nýlega héldum við Sigmundur Einarsson til nánari rannsókna á Tvíbollahrauni. Sunnan undir Helgafelli nokkru austan við áðurnefndan stað er jarðvegstorfa lítil við hraunkantinn og þar er hraunið svo þunnt að auðvelt er að brjóta það upp með handverkfærum.
Þarna tókum við gryfju og er ekki að orðlengja það að þarna fundum við landnámslagið með sínum þekktu einkennum og var auðvelt að rekja það inn undir hraunið þar sem efri hluti þess hverfur í kolaða lagið næst hrauninu. Smásjárathuganir á öskunni sýna að ljósbrot glersins og plagioklassins passa vel við það, sem Jens Tómasson (1967) gefur upp, og er því ekki ástæða til að efast um að þarna sé landnámslagið komið. Af ofangreindum staðreyndum má því ráða, að hvað sem nákvæmni C14 aldursákvarðananna viðvíkur þá hefur þetta gos orðið á þeim tíma þegar landnám norrænna manna á Íslandi var að hefjast eða nýhafið. Því kann að vera að gosið í Tví-Bollum við Grindarskörð hafi verið fyrstu eldsumbrot, sem forfeður vorir litu augum hér á landi. Af þessum niðurstöðum leiðir ennfremur að fleiri hafa eldgos orðið á Reykjanesskaga á sögulegum tíma heldur en fram til þessa hefur verið vitað.
Nálæg hraun
“Þegar fjallað er um hraunstrauma þá sem á síðustu árþúsundum hafa runnið í átt til sjávar í Straumsvík og næsta nágrenni er óhjákvæmilegt að sú umfjöllun teygi sig til upptakanna, eldgíganna sjálfra. Af þeim sökum nær umfjöllunin yfir um 200 ferkílómetra svæði, þ.e. ströndina frá Hvaleyrarholti til vesturs að Vatnsleysuvik (Kúagerði) og frá ströndinni suður í Reykjanesfjallgarð milli Grindarskarða og Trölladyngju. Á þessu svæði er fjöldi hrauna og sum sjást ekki á yfirborði, því yngri hraun þekja þau alveg. Þeirra verður aftur á móti vart í borholum, m.a. á athafnasvæði álversins í Straumsvík.
Leitast er við að draga upp einfalda mynd af því hvaða leið hraunin hafa runnið og hvernig þau hafa, eitt af öðru, lagt sitt af mörkum til að færa ströndina til núverandi horfs. Örnefni á þessu svæði eru fjölmörg og þau eru ekki bundin við einstaka hraunstrauma heldur ákveðin svæði. Þannig getur sama hraunið heitið mörgum nöfnum og nöfn geta einnig náð yfir hluta úr mörgum hraunum. Þau nöfn sem hér eru notuð á einstökum hraunum ber ekki að taka sem örnefni heldur sem sérheiti á jarðmyndunum.
Jóns þáttur
Árið 1978 lauk Jón Jónsson jarðfræðingur við heildarkortlagningu hrauna á Reykjanesskaga. Á korti Jóns (1978) eru sýnd einstök hraun eða goseiningar ásamt afstöðu hraunanna. Með útgáfu kortsins hafði Jón rutt brautina fyrir nákvæmari ákvörðun á aldri einstakra hrauna, en til viðbótar við innbyrðis afstöðu þeirra er unnt að aldursgreina þau með tvennum hætti. Annars vegar má finna aldurinn með könnun öskulaga í jarðvegi undir og ofan á einstökum hraunum og hins vegar með geislakolsgreiningu jurtaleifa sem kolast hafa undir viðkomandi hrauni er það rann yfir gróðurlendi. Á síðustu árum hefur þekking á sögu nútímahrauna á Reykjanesskaga aukist verulega og í ljós hefur komið að þar hefur gosið mun oftar eftir að land byggðist en áður var talið (Helgi Torfason o.fl. 1993).
Hraun á fyrri hluta Nútíma
Það tímaskeið jarðsögunnar sem tók við er ísöld lauk, fyrir 10.000 árum, nefnist nútími og varir hann enn. Á þeim tíma runnu hraunstraumar þeir sem almennt kallast hraun í dag. Elst þeirra hrauna sem sjást á yfirborði á þessu svæði er Búrfellshraun en það rann fyrir um 7.300 árum (Guðmundur Kjartansson 1973). Hraunið rann frá stórum gíg ofan við Hafnarfjörð sem Búrfell heitir og er hann nyrsti gígurinn í Krýsuvíkurrein. Frá Búrfelli rann hraunið til norðvesturs í tveimur meginkvíslum og fór önnur niður í Hafnarfjörð (Hafnarfjarðarhraun) en hin í Arnarnesvog (Gálgahraun). Að líkindum hefur á sama tíma runnið hraun til norðurs frá öðrum gíg, Hraunhól, sem er skammt norðan við Vatnsskarð. Hraunhóll er nú rústir einar eftir efnisnám. Hraunið frá honum kemur fram í Selhrauni, um einn og hálfan kílómetra suður af Straumsvík, og hefur sannanlega runnið þar í sjó fram.
Neðst í Almenningum og Selhrauni koma fram þrjú hraun sem eru yngri en Búrfellshraun. Upptök þeirra eru ekki þekkt og hafa gígarnir líklega horfið undir yngri hraun. Eitt þessara hrauna er sýnu mest og hefur það runnið fram í a.m.k. fjögurra kílómetra breiðri tungu og fært þáverandi strönd allnokkuð út.
Skáhallt norðaustur yfir Almenninga neðarlega hefur runnið þunnt hraun sem hverfur inn undir Kapelluhraun skammt suður af Straumsvík. Upptök þessa hrauns eru líklega norðan við Grænudyngju. Aldur hraunsins er óþekktur nema af afstöðunni til annarra hrauna, og er það yngra en Hrútagjárdyngja og eldra en Kapelluhraun.
Hrútagjárdyngja
Langmesta hraunið á þessum slóðum er Hrútagjárdyngja. Upptök þess eru nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem Hrútagjá heitir og við hana er dyngjan kennd. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og myndar það ströndina milli Vatnsleysuvíkur og Straumsvíkur. Stærsti hluti hraunsins gengur í daglegu tali undir nafninu Almenningar. Að vestan hefur hraunið runnið upp að eða út á hraundyngju frá ísaldarlokum, Þráinsskjaldarhraun. Þegar Hrútagjárdyngja rann var sjávarstaða nokkru lægri en nú er og hefur hraunið fært ströndina mikið fram. Bungulögun Hrútagjárdyngju og Þráinsskjaldar veldur því að slakki er á milli dyngnanna og eins er slakki austan Hrútagjárdyngju, milli hennar og Undirhlíða. Yngri hraun hafa haft tilhneigingu til að renna í átt til sjávar eftir þessum slökkum. Ekki hefur enn tekist að aldurssetja Hrútagjárdyngju, en öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir um 5.000 árum.
Skúlatúnshraun – Hellnahraunið eldra
Fyrir um 2.000 árum varð mikil goshrina á Reykjanesskaga og gaus þá m.a. í Brennisteins-fjallareininni. Frá einum gígnum, Stórabolla í Grindarskörðum, rann mikið hraun niður í átt að Straumsvík. Það breiddist út yfir stórt svæði ofan við Helgafell og Húsfell. Ein kvísl hraunsins rann sunnan og vestan við Helgafell og þaðan niður á milli Helgafells og Gvendarselshæðar og síðan vestur fyrir Stórhöfða, allt tíl sjávar og myndaði núverandi strönd milli Straumsvíkur og Hvaleyrarholts. Þetta hraun stíflaði uppi Hvaleyrarvatn. Suður af Helgafelli heitir hraunið Skúlatúnshraun en við Hvaleyrarholt myndar það meginhluta Hellnahrauns.
Óbrinnishólabruni
Fyrir um 1800 árum varð gos í Krýsuvíkurrein og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum við Bláfjallaveg (Jón Jónsson 1974). Hraunið frá þeim, sem að hluta heitir Óbrinnishólabruni, rann í mjóum taumi langleiðina niður undir Straumsvík. Gígarnir í Óbrinnishólum eru nú aðeins svipur hjá sjón því þeir hafa verið grafnir út.
Hellnahraunið yngra
Fyrir um eitt þúsund árum hófst goshrina á Reykjanesskaga (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991). Hrinan hófst með gosum í Brennisteinsfjallarein á tíundu öld. Þá runnu m.a. Svínahraunsbruni frá Eldborgum við Lambafell (Kristnitökuhraun), stórir hraunflákar í Húsfellsbruna komu frá Kóngsfellsgígum og Eldborg í Bláfjöllum og mikil hraun runnu frá gígaröðum í Brennisteinsfjöllum; runnu þau m.a til sjávar í Herdísarvík. Þá gaus í Tvíbollum í Grindarskörðum og rann einn hrauntaumurinn nánast sömu leið og Skúlatúnshraun í átt til Straumsvíkur. Hrauntaumurinn endaði skammt frá Sædýrasafninu sáluga og átti þá ófarna um 300 m til sjávar.
Kapelluhraun
Yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess. Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krýsuvíkurrein árið 1151 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1989). Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni. Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krísuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík. Í sama gosi rann hraun frá röð minni gíga sem liggur meðfram Undirhlíðum og norður um Gvendarselshæð. Rann það m.a. niður í Kaldárbotna.
Kapelluhraun er úfið apalhraun og hefur verið hinn versti farartálmi nýrunnið. Því hafa menn tekið það ráð að ryðja braut í gegnum það. Brautin hefur nú verið eyðilögð með öllu, að undanskildum um tuttugu metra kafla við svonefnda Kapellu sem er lítil rúst í hrauninu. Kristján Eldjárn rannsakaði kapellu þessa 1950 (Kristján Eldjárn 1956) og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Heilög Barbara var góð til áheita gegn eldsgangi hvers konar. Hún var einnig verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðsmannna og námumanna og raunar einnig verkfræðinga og jarðfræðinga. Kapellutóftin er á fornminjaskrá.
Kapelluhraunið var ákaflega fallegt, úfið og mosagróið, en nú hefur karganum verið flett af yfirborði þess á stórum svæðum svo hörmung er á að líta. Álverið í Straumsvík stendur á hrauninu.
Gervigígar
Á svæðinu eru nokkrir gervigígar sem stinga kollinum upp úr yngri hraunum. Gervigígarnir hafa myndast við það að hraun runnu í sjó og sýna þeir því legu strandarinnar á myndunartímanum. Gervigígunum í nágrenni Straumsvíkur má skipta í þrjá hópa eftir útbreiðslu.
Austast var Rauðhóll við Hvaleyrarholt, sem stóð upp úr Hellnahrauninu eldra, en langt er síðan hóllinn hvarf vegna efnisnáms og þar er nú geil í hraunið. Nokkru sunnar og vestar standa tveir gervigíar upp úr sama hrauni.
Í Selhrauni, skammt suður af kvartmílubrautinni, hefur verið numið töluvert magn af gjalli úr gervigígum sem standa þar upp úr einu af elstu hraununum á svæðinu (Selhraun 4, Helgi Torfason o.fl. 1993).
Skammt suður og vestur af Straumsvík er mikil rauðamalargryfja í Hrútagjárdyngju. Þar var upphaflega rauðamalarbunga upp úr hrauninu, Rauðimelur sem svo var nefndur. Nokkru vestar má sjá í kollinn á allmiklum gjallhól og enn vestar hefur hinn þriðji verið numinn brott.
Í flestum þessara gervigíga hafa fundist skeljar sem þeyst hafa upp úr þeim er hraun rann út yfir setlög við þáverandi strönd. Ekkert er vitað um aldur gíganna annað en að þeir eru örugglega myndaðir eftir ísöld og eru eldri en hraunin sem upp að þeim hafa runnið.
Niðurlag
Núverandi strönd við Straumsvík er mynduð af þremur hraunum. Elst og vestast eru hraun Hrútagjárdyngju, sem runnu frá stórum dyngjugíg nyrst í Móhálsadal fyrir um 5.000 árum. Vestast er Hellnahraunið eldra, sem er langt að komið, upprunnið í Grindarskörðum í Brennisteinsfjallareininni fyrir um 2.000 árum. Bæði þessi hraun eru helluhraun og fremur auðveld yfirferðar. Yngsta hraunið er Kapelluhraun, úfið apalhraun, sem rann árið 1151 frá gígum suður undir Vatnsskarði. Það rann til sjávar um lægð sem myndast hafði á mótum Hrútagjárdyngju og Hellnahraunsins eldra. Á síðustu 10.000 árum hafa hraunstraumar smám saman fært ströndina fram sem nemur allt að 2 km.
Eldgos á Reykjanesskaganum virðast koma í hrinum og á milli er minni virkni. Hrinurnar verða á um þúsund ára fresti og hver hrina stendur yfir í nokkur hundruð ár. Síðasta hrinan hófst upp úr miðri tíundu öld og endaði um 1240. Í hverri hrinu verða umbrot í öllum eldstöðvareinunum á skaganum og í síðustu hrinu færðist virknin frá austri til vesturs.”
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimild:
-Náttúrfræðingurinn 47. árg. 1977-1978, bls. 103-109.
-Náttúrfræðingurinn 52. árg. 1983, bls. 131-132.
-Náttúrfræðingurinn 67. árg. 1997-1998, bls 171-177.