Reykjanesskaginn

Eftirfarandi grein um “Eldgos á Reykjanesi á sögulegum tíma er eftir Jón Jónsson, jarðfræðing, og birtist í Náttúrufræðingum árið 1983.

Isor

Jarðfræðikort ISOR af Suðvesturlandi.

“Reykjanesskagi er hluti af gosbeltinu, sem liggur um Ísland þvert og er í beinu framhaldi af Reykjaneshryggnum, sem neðansjávar teygir sig langt suðvestur í haf og raunar er hluti af Atlantshafshryggnum mikla. Frá því að síðasta kuldaskeiði lauk hefur mikil eldvirkni verið á þessu svæði bæði ofansjávar og í hafi. Sú eldvirkni hefur á umliðnum öldum byggt upp Reykjanesskaga og verður ekki enn séð nokkurt lát á þeirri starfsemi. Er það efni þessarar greinar að draga saman nokkrar staðreyndir í því sambandi.
Jarðvísindalega séð er Reykjanesskagi hreinasti dýrgripur því hann er einn aðgengilegasti hluti hins virka gosbeltis og dæmi um það hvernig slíkir hryggir byggjast upp.

Heimildir um eldgos á Reykjanesskaga

Gvendarselsgígar

Gvendarselsgígar.

Fyrsta heimild um gos á umræddu svæði er hin alkunna frásögn Kristnisögu: „Þá kom maðr hlaupandi ok sagði að jarðeldr var upp kominn í Ölfusi ok mundi hann hlaupa á bæ Þorodds goða” (Kristnisaga, bls. 270). Kristnisaga er talin vera „að stofni til frá 12. öld” (sama heimild bls. 29) og gæti því verið rituð rösklega öld eftir að atburðir þessir áttu sér stað.

Eldborg

Eldborgin syðri í Svínahrauni.

Hér er að sjálfsögðu látið liggja milli hluta hvort kristnitakan hafi verið árið 1000 eða 999. Lengi hefur verið fullyrt að gos þetta hafi verið í gígaröð austan við Hveradali. Svo gerir Hálfdán Jónsson (1703, útg. 1979), Sveinn Pálsson (1945) og svo hver af öðrum, m. a. hefur það slæðst inni í sögu Íslands I (Sigurður Líndal 1974, bls. 241) og er þar til áréttingar sýnd mynd af hrauntungu þeirri sem „mundi hlaupa á bæ Þórodds goða” að Hjalla. Síðari heimildir um eldgos á Reykjanesskaga eru með afbrigðum óljósar og torráðnar.
NýmyndunÞannig er t. d. getið um gos í Trölladyngju eða Trölladyngjum 1151, 1188, 1340, 1360 og 1389-90 og um hraun, sem runnið hafi niður í Selvog 1340 (Þorvaldur Thoroddsen 1925, 1958). Líkur eru til að það, sem nú er nefnt Brennisteinsfjöll hafi áður fyrr verið nefnt Trölladyngjur, en sannanlega hefur þar verið eldvirkni mikil — og líka á sögulegum tíma og verður að því vikið síðar.
Ljóst er að Ögmundarhraun hefur runnið á sögulegum tíma þar eð það hefur runnið yfir bæ og hluti af rústum hans sést ennþá, en skráðar heimildir um það gos munu ekki vera fyrir hendi.
GjóskusniðVafalaust hafa skráðar heimildir um ýmsa atburði á þessum landshluta, þar á meðal eldgos, glatast í aldanna rás. Má í því sambandi minna á afdrif bóka Viðeyjarklausturs (Árni Óla 1969).
Nú hefur, eftir mismunandi leiðum, verið mögulegt að sýna fram á, að a. m. k. 12 eða 13 eldgos hafa átt sér stað á Reykjanesskaga frá því að norrænt landnám hófst hér. Þekktan aldur hafa einnig verið mjög til hjálpar eins og sýnt verður hér á eftir. Einkum eru það tvö öskulög, sem hafa haft mikla þýðingu í þessu sambandi, en þau eru landnámslagið frá því um 900 (Sigurður Þórarinsson 1968, Jón Jónsson 1978) og öskulag frá Kötlu um 1495 (Jón Jónsson 1978). Bæði eru þessi öskulög auðþekkt séu þau á annað borð sæmilega greinileg. Landnámslagið er tvílitt, ljóst að neðan en svart að ofan. Öskulagið frá Kötlu er svart og þykkara en nokkurt annað öskulag í jarðvegssniðum á þessu svæði ofar en landnámslagið.

Aldursákvarðanir
Aðferðum, sem notaðar hafa verið til þess að flokka aldur hrauna á Reykjanesskaga má skipta í 4 flokka:
1) Sögulegar heimildir.
2) Geislakolsákvarðanir, C14.
3) Öskulög.
4) Afstaða til hrauna með þekktan
aldur.

Nyrðri-Eldborg

Eins og áður er sagt, eru sögulegar heimildir um eldgos á þessum landshluta bæði mjög fátæklegar og auk þess svo ruglingslegar að vant er að vita hverju má treysta. Örnefnið Nýjahraun (Kapelluhraun) bendir til þess að það hafi orðið til á sögulegum tíma.
Bæjarrústirnar í Ögmundarhrauni tala sínu máli, en þar með eru sannanir á þrotum. Um vitnisburð annála er áður getið. Ákvarðanir aldurs gróðurleifa (C14) hafa reynst notadrjúgar þar sem þeim verður við komið. Öskulög með þekktan aldur hafa einnig verið mjög til hjálpar eins og sýnt verður hér á eftir. Einkum eru það tvö öskulög, sem hafa haft mikla þýðingu í þessu sambandi, en þau eru landnámslagið frá því um 900 (Sigurður Þórarinsson 1968, Jón Jónsson 1978) og öskulag frá Kötlu um 1495 (Jón Jónsson 1978). Bæði eru þessi öskulög auðþekkt séu þau á annað borð sæmilega greinileg.

Landnámsöskulagið

Dökka lagið með ljósum botni þar fyrir neðan er Landnámsöskulagið.

Landnámslagið er tvílitt, ljóst að neðan en svart að ofan. Öskulagið frá Kötlu er svart og þykkara en nokkurt annað öskulag í jarðvegssniðum á þessu svæði ofar en landnámslagið.

Söguleg hraun á Reykjanesskaga
Svínahraun — Kristnitökuhraunið
MelhóllSýnt hefur verið fram á að yngsta hraunið austan við Hveradali getur ekki verið frá gosi því, er Kristnisaga getur um, ekki heldur hraunið úr Eldborg undir Meitli, er runnið hefur þannig, að það stefnið á Hjalla í Ölfusi og kemur að því leyti vel heim við söguna. Hins vegar er landnámslagið ofan á Eldborg, og mosakol undan hrauninu við Hveradali sýna að það er um 800 árum eldra en kristnitakan (Jón Jónsson 1977). Þetta leiddi til þess að gerðar voru athuganir á yngsta hrauninu milli Lambafells og Bláhnúks, en það er augljóslega yngra en það, sem talið var vera Kristnitökuhraunið. Kom brátt í ljós að landnámslagið er undir þessu hrauni, en Kötlulagið frá um 1495 ofan á því (Sigurður Þórarinsson 1968, Jón Jónsson 1979). Endurteknar athuganir í óbrennishólmanum í Svínahrauni leiddu í ljós, að ekki verður greindur minnsti vottur af jarðvegi eða gróðurleifum milli öskulagsins og hraunsins. Það, sem hér er nefnt Svínahraun, er hraunið úr Nyrðri Eldborg, en hraunið úr Syðri Eldborg er nefnt Lambafellshraun. Það hraun er eitthvað yngra, en talið vera nær samtíma, þ. e. úr sömu goshrinu. Þó er þetta enn ekki sannað mál. Bæði þessi hraun ná yfir 11,9 km2 svæði (Þorleifur Einarsson 1960, Jón Jónsson 1978) og teljast um 0,24 km Þetta eru ólivínþóleíthraun og innihalda rösklega 14% ólivín.

Rjúpnadyngnahraun
RjúpnadyngjaÍ nær miðjum Húsfellsbruna milli Þríhnúka og Sandfells er eldstöð, sem mjög lítið ber á, en nefnist Rjúpnadyngjur. Húsfellsbruni er örnefni, sem nær til margra hrauna, sem flest eru runnin fyrir landnám, en einnig eru þar yngri hraun. Naumast verður það talið, að augljóst sé við fyrstu sýn, að Rjúpnadyngjur séu eldvörp. Þarna er óvenju stórbrotið hraun með djúpum sprungum og illfærum gjám. Eitt hringlaga niðurfall er á þessu svæði og er talið líklegast að það sé yfir uppvarpinu. Gjall kemur aðeins fyrir á litlum hól miðsvæðis. Við nánari athugun sést að þarna er um eldstöð og um dæmigert hraungos að ræða, en yngri hraun hafa runnið upp að henni sunnan frá og verið langt komin með að færa hana í kaf.

Rjúpnadyngjuhraun

Í Rjúpnadyngjuhrauni.

Hraun frá Rjúpnadyngjum hefur runnið norður og norð-vestur. Nyrsti tangi þess endar í allhárri brún rétt austan við Búrfell og hefur þar runnið út á Búrfellshraun. Leysingavatn hefur grafið dálítinn farveg meðfram hraunröndinni norðaustur af Búrfelli og þar reyndist mögulegt að grafa inn undir hraunið. Komu þá í ljós bæði öskulögin, sem áður var minnst á.
Landnámslagið liggur inn undir hraunið, en svarta Kötlulagið er ofan á því. Þar með er ljóst að þarna hefur gosið eftir 900. Annað, sem sannar þetta, er að hraunið hefur á einum stað runnið út á Tvíbollahraun, en það var áður aldursákvarðað (sjá síðar). Gróðurleifar undir þessu hrauni eru afar fátæklegar og því hefur enn ekki verið hægt að koma C14 athugunum við.

Kóngsfellshraun
Stóra-KóngsfellVestan við Stóra Kóngsfell er stutt gígaröð, sem nær upp í fellið og er á sprungu, sem gengur gegnum það. Þarna hafa einkum tveir gígir verið virkir. Hraunið hefur runnið báðum megin við Kóngsfell norður og niður á við. Það hefur runnið upp að Rjúpnadyngjum og báðum megin við þær og er því yngra en sú gosstöð og þar með frá sögulegum tíma. Nánari aldursákvörðun á þessu gosi liggur ekki enn fyrir.

Breiðdalshraun

Kistufellsgígur

Kistufellsgígur.

Á Brennisteinsfjöllum er feiknamikil eldstöð, sem ég hef nefnt Kistu og sem sent hefur hraunstrauma bæði suður og norður af fjallinu. Það hraun, sem til norðurs rann, er dæmigert helluhraun. Unun er að ganga þessar svörtu klappir, sem bjóða upp á hin furðulegustu mynstur í formi straumgára, fellinga og hraunreipa. Það hefur runnið í fremur mjóum straumi norðvestur fjallið milli eldri hrauna og fallið í bröttum fossi ofan í Fagradal, þar sem það hefur hrifið með sér stór björg og steina úr brúninni og liggja þeir nú í tugatali ofan á hrauninu í dalnum, meðal grjóts sem síðar hefur hrunið úr fjallinu út á hraunið.

Breið

Það hefur svo haldið áfram allt að Undirhlíðum og loks staðnæmst í Breiðdal og þekur allan dalbotninn með sléttu hrauni. Þar sem það fellur niður í dalinn austan við Breiðdalshnjúk er það örþunnt. Leysingavatn hefur þar grafið sér farveg meðfram því og nokkuð inn undir rönd þess. Þar má sjá jarðveg þann, sem hraunið rann yfir og finna leifar þess gróðurs, sem þar var þá og raunar liggja þær gróðurleifar í sjálfu landnámslaginu. Liggur því tvöföld sönnun fyrir aldri þessa hrauns, enda gaf C” ákvörðun um ár 910. Meðal gróðurleifa virtist vera beitilyng, víðir, bláberjalyng og einír, en þetta allt vex á staðnum enn í dag.

Selvogshraun

Herdísarvíkurfjall

Herdísarvíkur- og Hlíðarfjall – sjá má hrauntauma ofan frá Brennisteinsfjöllum.

Skammt eitt austan við hina fornu brennisteinsnámu, sem raunar mun hafa gefið þessum fjallaslóðum nafn, rís á fjallsbrún hár og brattur gígur, sem ég í dagbókum mínum hef nefnt Gráfeld. Hljóti það nafn viðurkenningu, skal hraun þetta Gráfeldshraun heita, en fram til þess nota ég hitt nafnið enda hef ég áður notað það (Jón Jónsson 1978).

Draugahlíðar

Gráfeldur á Draugahlíðum.

Þessi gígur er á sprungu og smágígir eru vestan við hann. Auðsætt er að hann hefur þegar í upphafi tekið völdin og sent hraunflóð mikið niður í dalinn, þar sem fleiri hraun voru þegar fyrir og fylla hann nú fjalla milli. Meðal þeirra er áðurnefnt Breiðdalshraun, sem hverfur inn undir þetta hraun, sem þannig örugglega er yngra, enda yngst í dalnum og samkvæmt þessu frá sögulegum tíma. Annálar geta þess að hraun hafi runnið niður í Selvog 1340 og 1389 (Þorvaldur Thoroddsen 1925, bls. 188-189). Mjög trúlegt sýnist að Selvogshraun sé frá öðru hvoru þessu gosi, en vel gætu hafa orðið enn fleiri gos í Brennisteinsfjöllum á sögulegum tíma og vafalaust hafa bæði þessi gos orðið þar, en tímasetning er óljós. Hraunið hefur fallið fram af Herdísarvíkurfjalli við Hlíðarvatn, en staðnæmst neðan við brekkurætur aðeins norðan við núverandi þjóðveg. Hraun það er fallið hefur niður í Kleifarvatn sunnanvert og Hvammahraun nefnist er mjög ungt og gæti jafnvel verið frá sögulegum tíma.

Tvíbollahraun
TvíbollahraunVið Grindaskörð eru gígaraðir á sprungubelti og hefur þar verið mikil eldvirkni. Meðal þessara gíga eru Tvíbollar, en það eru gígir tveir, sem gnæfa á norðurbrún fjallsins og hef ég áður fjallað um þá (Jón Jónsson 1977). Eins og nafnið bendir til eru gígir þessir samvaxnir og sést það vel neðan úr byggð. Aðalgígurinn er 40 – 60 m hár en minni gígurinn tæplega þriðjungur þess. Gígirnir eru hlaðnir úr gjalli og hraunkleprum og hraunstraumurinn hefur fallið norður og mest um undirgöng, sem enn má sjá. Lengst norður nær hraun þetta að Helgafelli og hefur runnið í örþunnum straumi vestur með því að sunnan en hverfur loks undir Gvendarselshraun við suðvesturhornið á fellinu. Rétt þar hjá hefur leysingavatn grafið fornan jarðveg undan hrauninu svo það hefur á kafla fallið niður. Kemur við það í ljós jarðvegslag, sem er rösklega 1,2 m þykkt og í því m. a. eitt ljóst öskulag, sem talið er að sé H3 (frá Heklu fyrir 2.800 árum), en næst hrauninu eru kolaðar gróðurleifar, sem aldursákvarðaðar hafa verið og reynst 1075±60 C’4 ár, (Jón Jónsson 1977) en það þýðir að hraunið gæti hafa runnið árið 875 og er því frá sögulegum tíma.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Jafnframt fannst landnámslagið undir þessu hrauni, aðeins ofan við áðurnefnt niðurfall. Þrjú hraun hafa síðar runnið út á þetta hraun og eru því yngri, en þau eru Rjúpnadyngnahraun, Kóngsfellshraun og svo það litla hraun, sem næst verður fjallað um í þessari grein.

Gvendarselshraun
GvendaselsgígarNorðurendi Undirhlíða er nefndur Gvendarselshæð. Hún endar við Kaldárbotna. Austan í hæðinni gegnt Helgafelli er gígaröð, sem ég hef nefnt Gvendarselsgígi. Þeir eru á misgengi því, sem liggur eftir endilöngum Undirhlíðum, klýfur Kaldárhnúk, myndar vesturbrún Helgadals og klýfur Búrfellsgíginn um þvert og heldur áfram um Heiðmörk. Hraun frá þessari litlu gígaröð þekur allt svæðið milli Gvendarselshæðar og Helgafells. Víðast er það dæmigert helluhraun. Það hefur runnið niður í Kaldárbotna að norðaustan í smátotu, sem hangir þar níður, en hefur staðnæmst neðan við hjallann.

Gvendarselsgígar

Gvendarselsgígaröðin og Gvendarselshraun.

Annar straumur hefur fallið vestur um skarðið milli Kaldárbotna og Hlíðarhorns og nær nokkuð vestur fyrir Kaldársel. Vestast er það svo þunnt að talsverða nákvæmni þarf til þess að rekja ystu mörk þess. Þriðja hraunkvíslin hefur svo fallið um Kýrskarð við suðurenda megin gígaraðarinnar, og út á Óbrinnishólahraun, og myndar smá hraunbleðil vestan undir hæðinni. Eins og áður er sagt hverfur Tvíbollahraun inn undir Gvendarselshraun við suðurenda Helgafells. Gvendarselshraun er því yngra. Auk þess grófum við Sigmundur Einarsson jarðfræðingur inn undir hraunið syðst og fundum þar bæði landnámslagið og gróðurleifar, sem aldursákvarðaðar hafa verið og reynst vera frá því um 1075.

Nýjahraun — Kapelluhraun
KapelluhraunEins og áður er sagt bendir upprunalegt nafn þessa hrauns ótvírætt til þess að það hafi orðið til á sögulegum tíma. Um aldur þess hefur að öðru leyti ekki verið vitað. Í sambandi við rauðamalarnám við gígina, sem hraunið er komið úr, opnaðist möguleiki til þess að komast að jarðvegslögum undir því og ná þar í kolaðar gróðurleifar. Þar voru tekin alls 3 sýni á jafnmörgum mismunandi stöðum. Aldursákvarðanir á þeim sýndu að gosið hafi þarna um 1005. Þrátt fyrir þær skekkjur, sem loða við þessar aldursákvarðanir er með þeim staðfest að hraunið er frá sögulegum tíma og næsta ljóst að gosið hafi orðið snemma á 11. öld.

Ögmundarhraun
ÖgmundarhraunEkki er kunnugt um uppruna nafnsins á hrauni þessu, en langt er síðan að ljóst var að það hafði runnið á sögulegum tíma. Það sanna rústir bæjar, sem eyðst hafði í gosinu. Ögmundarhraun er komið úr gígaröðum austan í og austanundir Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi). Samanlögð lengd þessara gígaraða er nær 5 km.
Næsta ljóst er að allar hafa þær verið virkar aðeins í byrjun gossins, en fljótlega hefur hraunrennslið færst yfir í, einkum þrjá gígi, nálægt austurenda gígaraðarinnar og þaðan hefur megin hraunflóðið runnið suður dalinn milli Krýsuvíkurmælifells og Latsfjalls alla leið í sjó fram. Þarna hefur það farið yfir gróið land og eyðilagt a. m. k. eitt býli eins og rústirnar sanna, en vel gætu þau hafa verið fleiri og raunar ekki ólíklegt að svo hafi verið (Jón Jónsson 1981).

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – yfirlit.

Hraunið hefur fallið í sjó fram á um 7,5 km strandlengju og hugsanlegt gæti verið að þar hafi sú vík verið, sem Krýsuvík er kennd við — sé það á annað borð nauðsynlegt að skýra nafnið svo – og hafi hraunið fyllt hana. Um þetta skal ekkert fullyrt. Lengi hefur því verið haldið fram að þetta gos hafi orðið árið 1340. Þetta ártal er komið frá Jónasi Hallgrímssyni, en ekki getur hann heimilda fyrir því. Á öðrum stað hef ég rakið það, sem vitað er um aldur hraunsins og er ekki ástæða til að endurtaka það hér (Jón Jónsson 1981). Því má aðeins bæta við hér að engar mannvistarleifar er að finna í tveim smá óbrennishólmum ofar í hrauninu. Þess skal hér einnig getið að svo virðist sem Ögmundarhraun, Nýjahraun (Kapelluhraun) og Gvendarselshraun hafi öll orðið í einni goshrinu, sem þá hafi orðið á fyrri hluta 11. aldar. Því má svo bæta við, að vel gætu fleiri gos hafa orðið um svipað leyti eða samtímis víðar á Reykjanesskaga og skal nánar að því vikið síðar. Sjá ennfremur töflu I hér á eftir.

 

Afstapahraun
AfstapahraunÁður hef ég leitt nokkur rök að því (Jón Jónsson 1978) að nafnið á þessu hrauni sé afbökun úr Arnstapa — enda er hitt nafnið lítt skiljanlegt. Ekkert hefur verið vitað með vissu um aldur þessa hrauns. Þorvaldur Thoroddsen (1925, bls. 187) segir raunar að það sé „in aller Wahrscheinlich
nach bei Ausbrúcken in historischer Zeit hervorgebrochen”, en ekki fer hann í þessu eftir öðru en unglegu útliti hraunsins. Í norðanverðu hrauninu eru nokkrir óbrennishólmar og eftir að athuganir meðfram vesturbrún hraunsins höfðu ekki borið árangur, leituðum við Sigmundur Einarsson jarðfræðingur fyrir okkur nyrst í einum þessara hólma. Eftir að hafa grafið á nokkrum stöðum við hraunröndina töldum við okkur hafa fundið landnámslagið, sem liggur inn undir hraunið. Þar eð ég var ekki fyllilega ánægður með sniðið fór ég aftur á staðinn og gróf lengra inn undir hraunið. Þar fann ég landnámslagið mjög greinilegt með þess einkennum, ljóst að neðan en dökkt að ofan. Þetta má vel greina á ljósmyndinni ef hún prentast sæmilega. Þar með er ljóst að Afstapahraun er runnið á sögulegum tíma. Ekki heppnaðist að finna gróðurleifar nothæfar til aldursákvörðunar.

Arnarseturshraun
ArnarseturshraunHraun þetta hefur komið upp í tveim gígum og ber sá þeirra sem hæstur er nafnið Arnarsetur. Hraunið hefur ótvíræða dyngjulögun, einkum séð vestan frá, en bergfræðilega er það skyldara sprunguhraunum. Þetta hefur verið allmikið gos. Hraunið þekur sem næst 22 km2 og telst samkvæmt
því 0,44 km en sennilega er sú tala talsvert of lág því hraunið er greinilega mjög þykkt á stóru svæði kringum eldvarpið. Eldra hraun, sem aðeins sést í smá óbrennishólma bendir til þess að áður hafi gosið á þessum sama stað. Í sambandi við jarðfræðikortlagningu kom í ljós að Arnarseturshraun hlaut að vera yngst allra hrauna á þessu svæði. Það vakti grun um að það gæti verið frá sögulegum tíma.

Litla-Skógfell

Út frá þeím skráðu heimildum, sem til eru, virtist liggja beinast fyrir að ætla að gos þetta hafi orðið 1660 og sé það, sem getið er um í annál Gunnlaugs Þorsteinssonar fyrir árið 1661, Vallholtsannál, (Annálar 1400-1800) sem getur um eldgos í Grindavíkurfjöllum þetta ár. Sú var og niðurstaða mín (Jón Jónsson 1978, bls. 258-9). Hins vegar hafa nú rannsóknir leitt í ljós að svo getur ekki verið, og er hraunið talsvert eldra, en eigi að síður frá sögulegum tíma. Óbrennishólmi einn lítill er skammt fyrir neðan Litlaskógfell og eftir árangurslausa leit á nokkrum stöðum fórum við Sigmundur Einarsson jarðfræðingur og grófum þar við hraunröndina. Fundum við þar bæði landnámslagið og Kötlulagið, hið fyrra undir, hið síðara ofan á hrauninu. Af jarðvegssniðinu má ráða að talsvert lengri tími hafi liðið frá því að landnámslagið féll til þess að hraunið rann, en frá því til þess að Kötlulagið féll. Sýnist því að þetta gos gæti vel hafa orðið eitthvað nálægt 1300, samanber töflu I.

Eldborg við Trölladyngju
EldborgÞess skal og getið að gos það er orðið hefur rétt norðan við Trölladyngju og myndað gíginn Eldborg sýnist hafa orðið um líkt leyti og Afstapahraun rann. Ég hef áður talið þetta hraun yngra en Afstapahraun (Jón Jónsson 1978) en ekki treysti ég mér til að telja þá niðurstöðu með öllu ótvíræða. Vel gætu þessi gos bæði hafa verið svo að segja samtímis og mætti þá raunar um það deila hvort um er að ræða eitt gos eða tvö. Einar Gunnlaugsson (1973) fann öskulag ofan við landnámslagið í Hörðuvallaklofa og er líklegt að það sé af þessum slóðum komið. Ekki verður hins vegar í það ráðið hvort það kann að vera úr Eldborg eða öðru eldvarpi í nágrenninu.

Traðarfjöll
TraðarfjöllEftir að þessi grein var búin til prentunar, fannst enn ein eldstöð, sem telja verður óvéfengjanlegt að sé frá sögulegum tíma. Þessi eldstöð er sunnan í Traðarfjöllum, skammt sunnan við Djúpavatn. í riti mínu um jarðfræði Reykjanesskaga (Jón Jónsson 1978, bls. 165-166) er eldstöðvum á þessu svæði nokkuð lýst og hraunið nefnt Traðarhraun, en réttara væri e. t. v. að nefna það Traðarfjallahraun. Þegar vegur var lagður gegnum Reykjanesfólkvang var hann skorinn inn í gíg sunnan í Traðarfjöllum. Við það kom í ljós allþykkt moldarlag undir gjallinu og reyndist þar auðvelt að grafa fram jarðvegssnið, sem nær frá því og niður á fast berg, sem þarna er móberg. Undir gjallinu er fyrst 9 cm þykkt moldarlag en þá kemur ljósleitt (nánast gulleitt) öskulag, sem ekki getur annað verið en landnámslagið margumtalaða.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort; nútímahraun.

Sýnir þetta að þarna hefur gosið, að líkindum þó nokkru eftir árið 900 þar eð um 9 cm jarðvegur hefur verið kominn ofan á öskulagið áður en gosið varð. Vel gæti þetta hafa verið um sama leyti og Ögmundarhraun rann, þótt ekkert sé um það hægt að fullyrða. Eins og teikningin sýnir er annað ljóst öskulag neðar í sniðinu og ætti það samkvæmt reynslu að vera H3. Ekki hefur enn gefist tími til að rekja útbreiðslu hraunsins frá þessu gosi, enda er það ekki auðvelt. Hitt er ljóst að með þessu bætist við enn eitt gos, sem örugglega hefur orðið á sögulegum tíma á Reykjanesskaga. Þykir þetta renna enn einni stoð undir það að meiriháttar goshrina hafi þar orðið snemma á landnámsöld. Ekki var mögulegt að greina neinar gróðurleifar undir gjallinu. Nægilega mikið loft hefur þarna komist að til þess að gras hefur brunnið til ösku en ekki kolast. Því má bæta hér við að þar eð svona þykkt jarðvegslag er komið ofan á landnámslagið, gæti þetta verið það gos sem Jónas Hallgrímsson talar um og Þorvaldur Thoroddsen (1925) vitnar í. Gæti þetta verið skýringin á því að ártalið 1340 hefur verið tengt Ögmundarhrauni.

UMRÆÐA
Eldborg 3Af því sem hér hefur verið rakið er ljóst að gos hafa orðið á Reykjanesskaga a. m. k. 12 sinnum eða 13 frá þeim tíma að norrænt landnám hófst. Mjög sennilegt virðist að Eldborg við Bláfjöll hafi gosið á sögulegum tíma endanlegar. Svo virðist sem eldvirkni hafi verið mikil á tímabilinu 1000-1400 og raunar eins skömmu fyrir landnám. Hraun frá sögulegum tíma þekja um 143 km2 og rúmtak þeirra ætti að vera um 2,3 km. Einnig þetta eru lágmarkstölur. Það skal tekið fram að enda þótt hraunin 6, sem talin eru í efri hluta töflunnar, séu sett í ákveðna aldursröð er engan veginn víst að hún sé rétt.

Stóri-Bolli

Stóri-Bolli, Kóngsfellsgígur, í Kóngsfelli.

Ljóst er að Kóngsfellshraun er yngra en Rjúpnadyngjur, en þær aftur yngri en Tvíbollahraun. Arnarseturshraun og Afstapahraun gætu vel verið frá sama tíma. Spursmál sem þessi hljóta að bíða úrlausnar. Af sumum hraunanna eru til nokkrar aldursákvarðanir gerðar með nokkurra ára millibili, aðrar samtímis. Af Leitahrauni eru til 4 ákvarðanir, af Óbrinnishólum 4, Reykjafellshrauni 3 og af Ögmundarhrauni 5. í töflu I er gefið meðaltal.

Hraunmyndun

Nokkrum sinnum hafa verið gerðar tvær ákvarðanir á efni frá sama stað. Er þá annað sýnið að jafnaði leifar kolaðs kvistgróðurs, stöku sinnum örugglega leifar birkikjarrs, en hins vegar kolaðar leifar gróðurs, sem ekki verður nánar ákvarðaður, væntanlega einkum leifar mosa og grasa. Ófrávíkjanlega hefur slíkt efni sýnt hærri – stundum verulega hærri aldur. Hefur það því ekki verið notað við gerð töflunnar, enda oft í ósamræmi við staðreyndir fengnar frá öskulögunum eða hreint jarðfræðilegum staðreyndum (t. d. jarðlagafræðilegum „stratigrafiskum”). Þessi mismunur er ofur eðlilegur þar eð lífrænar leifar efst í jarðveginum hafa líka náð að kolast, þegar hraunið rann yfir gróið land. Slíkt lag er 3 – 4 cm þykkt eða meir. Þess má geta að hraunið úr Eldborgum undir Meitlum, það er runnið hefur niður í Ölfus og bæði ég (Jón Jónsson 1977) og Þorleifur Einarsson (1960) höfum talið vera nær samtíma gosinu í Reykjafellsgígum (Hellisheiðarhraun IV hjá Þorleifi), er samkvæmt C14 ákvörðuninni verulega eldra.

Hrútagjá

Hrútagjárdyngja.

Af innbyrðis afstöðu hraunanna er ljóst að hraunið úr Eldborgum er eldra. Af innbyrðis afstöðu annarra hrauna til þeirra, sem aldursákvörðuð hafa verið, má nokkuð ráða um lágmarksaldur þeirra. Sem dæmi má nefna að hraunin frá Hrútagjárdyngjunni, en þau þekja svæðið frá Hvaleyrarholti vestur að Vatnsleysuvík, eru yngri en Búrfellshraun, þ. e. minna en ca. 7000 ára. Sama gildir um hraun það er ég hef kennt við Helgadal, en það hefur runnið út á Búrfellshraun, er brotið af misgengi eins og það og því sennilega óverulega yngra.
Margt fleira mætti telja, en hér skal nú staðar numið.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, Jón Jónsson, Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga, 54. árg, 1-4 tbl, 01.05.1983, bls. 127 – 138.Aldur