Kappella
Gengið var um Kapelluhraun og Hellnahraun sunnan Hafnarfjarðar. Í göngunni var höfð hliðsjón af skrifum Sigmundar Einarssonar, Hauks Jóhannessonar og Árnýjar Erlu Sveinbjörnsdóttur um Krýsuvíkurelda II – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns, er birtust í Jökli nr. 41 1991.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur.

Gangan hófst við Gerði ofan við Straum, nyrst í vesturjaðri Kapelluhrauns. “Samkvæmt annálum urðu eldgos í Trölladyngjum á Reykjanesskaga árin 1151 og 1188. Líkur benda til að 1151 hafi Ögmundarhraun í Krýsuvík og Kapelluhraun sunnan Hafnarfjarðar runnið er umbrotahrina varð í eldstöðvarkerfi Trölladyngju. Hrinunni lauk líklega 1188 með myndun Mávahlíðahrauns. Umbrotahrinan í heild er nefnd Krýsuvíkureldar. Gossprungan er ekki samfelld en milli enda hennar eru um 25 km. Flatamál hraunanna er 36.5 km2 og rúmmálið er áætlað um 0.22 km3. Vegið meðaltal fimm geislakolsgreininga gefur 68.3% líkur á að hraunin hafi runnið á tímabilinu frá 1026-1153.
Hellnahraun sunnan Hafnarfjarðar er í rauninni tvö hraun og eru bæði komin frá eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla. Yngsta hraunið er sama hraun og Jón Jónsson (1977) hefur nefnt Tvíbollahraun. Það er að öllum líkindum runnið í sömu goshrinu og hraun sem Jónsson (1978a) hefur nefnt Breiðdalshraun. Líklegt er að Yngra Hellnahraun (Breiðdalshraun og Tvíbollahraun) hafi runnið á árunum 938-983.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – yfirlit.

Í Konungsannál, Oddverjaannál og Annál Flaeyjarbókar 1151 segir frá eldum í Trölladyngjum. Einnig í Skálholtsannál 1188. Ekki er ljóst hvers vegna annálarnir kenna gosin við Trölladyngjur en svo virðist sem þær hafi verið alþekkt örnefni á þessum tíma. Líklegast er að eldgosið 1188 hafi verið lokaþáttur umbrotahrinunnar.
Auk þessara frásagna í annálum eru óbeinar heimildir um hraunrennsli á norðanverðum Reykjanesskaga eftir landnám. Kapelluhraun heitir einnig Bruninn í daglegu tali og það eitt bendir til að menn hafi séð hraunið renna. Yfirleitt er talið að Kapelluhraun hafi áður heitið Nýjahraun og Ólafur Þorvaldsson (1949) segir nafnið Nýjahraun sé enn þekkt um hluta þess. Þessi gögn benda eindregið til að hraunið hafi runnið eftir að land byggðist.
Elstu heimildir um nafnið Nýjahraun er annars vegar í annálum og hins vegar í Kjalnesingasögu. Annálar greina frá skiptapa við Hafnarfjörð árið 1343 og fórust með skipinu 23 eða 24 menn. Annálar segja þannig frá slysinu: “Braut Katrínarsúðina við Nýja hraun.” (Annáll Flateyjarbókar). Í Gottskálksannál,

bls. 352 segir: “Braut Katrínar súðina fyrir Hvaleyri, drukknuðu þar iiij menn ogg xx.”
Í Kjalnesingasögu (1959) er tvívegis minnst á Nýjahraun. Þar segir senmma í sögunni að Þorgrímur Helgason hafi reist bú að Hofi (á Kjalarnesi) og “hafði hann mannforráð allt il Nýjahrauns og kallað er Brunndælagoðorð”. Undir lok sögunnar segir svo frá því er Búi Andríðsson tók við mannaforræði eftir Þorgrím og “hafði hann allt út á Nýjahrauni og inn til Botnsár”.
Kjalnesingasaga gerist á landnámsöld en er talin skrifuð skömmu eftir 1300. Athyglisvert er að höfundurinn skuli nota Nýjahraun til að takmarka Brunndælagoðorð. Notkun örnefnisins Nýjahraun í Kjalnesingasögu bendir til að hraunið sé runnið einhvern tíma á tímabilinu 870-1250

Hraunhóll

Hraunhóll – upptök Kapelluhrauns.

Ótrúlega fáir hafa gert tilraun til að kanna Kapelluhraun, upptök þess, útbreiðslu og raunverulegan aldur. Þorvaldur Thoroddsen (1913) reið á vaðið er hann kannaði Kapelluhraun lauslega 1883. Guðmundur Kjartansson (1954) varð fyrstur jarðfræðinga til að kanna Kapelluhraun og Óbrinnishólabruna svo nokkru næmi. Jón Jónsson hefur nokkrum sinnum ritað um hraun á svæðinu. Hann taldi á grundvelli geislakolsákvarðana að Óbrinnihólar væru liðlega 2100 ára gamlir og að Kapelluhraun hefðu runnið í byrjun elleftu aldar.
Úr gígum nyrst í Undirhlíðum hefur runnið hraun sem Jón Jónsson (1978a, 1983) nefnir Gvendarselshraun. Undir því hefur hann fundið Landnámslagið og út frá aldursgreiningu með geislakolsaðferð telur Jón hraunið runnið á elleftu öld.
Í framhaldi af þessum niðurstöðum hefur Jón stungið upp á því að Ögmundarhraun, Kapelluhraun og Gvendarselshraun hafi öll orðið til í einni goshrinu á fyrri hluta elleftu aldar (Jón Jónsson 1982,1983).
Líkt og Guðmundur gerir Jón ráð fyrir að Hellnahraun sé gamalt og telur það runnið frá svonefndri Hrútargjárdyngju. Á jarðfræðikorti Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga Íslands (Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980) er hraunið talið koma frá Óbrennishólagígunum, en ekki talið hluti af Hrútargjárdyngju.
Gossprungan, 25 km löng, er frá norðanverðri Gvendarselshæð og suður fyrir Núpshlíðarháls. Á henni er um 8 km löng eyða, þannig að alls hefur gosið á um 17 km langri sprungu. Syðri hlutinn er um 10,5 km að lengd og nyrðri hlutinn um 6.5 km.

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Í Krýsuvíkureldum mynduðust fjórir aðskildir hraunflákar. Syðst er Ögmundarhraun sem nær frá Djúpavatni í Móhálsadal suður í sjó (sjá FERLIR-289). Næst norðan við það er lítið hraun sem runnið hefur út á Lækjarvelli og er það langminnst þessara hrauna. Þriðja hraunið er við Mávahlíðar, norðaustur af Trölladyngju, og liggur til hliðar við megingossprunguna. Nyrst er svo Kapelluhraun sem runnið hefur frá Undirhlíðum til sjávar.
Hraunið sem rann frá syðsta hluta gossprungunar fyllti allan Móhálsadal sunnan Djúpavatns og fyllti allstóra vík sem að líkindum hefur verið hin forna Krýsuvík. Hraunflákinn gæti hafa myndast í tveimur gosum (en þó í sömu goshrinu).
Skammt norðan við Bláfjallaveg eru litlir og snotrir gígar er nefnast Kerin. Frá þeim hefur runnið lítið hraun til vesturs og norðurs. Norðan við gíganna er hraunið á nokkrum kafla svo rennislétt að furðu sætir. Hraunin frá Gvendarselsgígum og Kerjum verða ekki talin sérstök hraun, heldur hluti af Kapelluhrauni, enda um einn samfelldan hraunfláka að ræða. Alls þekur Kapelluhraun 13.7 km2. Ef meðalþykktin er um 5 metrar er rúmmál þess um 0.07 km3.
Líkur hafa verið leiddar að því að Ögmundarhraun hafi runnið 1151 og er þar jöfnum höndum stuðst við frásagnir annála, geislakolsaldur og rannsóknir á öskulögum.

Kapelluhraun

Kapelluhraun.

Kapelluhraun er frá svipuðum tíma. Hellnahraunið er aftur á móti komið úr eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla, þ.e. út Tvíbollum í Grindarskörðum. Hellnahraunið er í rauninni tvö hraun, það Eldra og það Yngra. Aldur Eldra Hellnahraunsins er ekki þekktur. Eftir útliti að dæma er það þó vart eldra en 3000-4000 ára. Yngra Hellnahraun er sennilega frá árunum 938-983.”

Heimild:
-Krýsuvíkureldar II – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns – Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir – Jökull nr. 41, 1991.

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.