Færslur

Gata

Mynd af mönnum á hestum á leið yfir Kapelluhraun birtist í The Illustrated London News árið 1866.

Kapelluhraun

Ferðast um Kapelluhraun – teikning frá 19. öld.

Þeim sem ferðuðust um Ísland þótti hvað einkennilegast og ógnvænlegast að fara um landsvæði sem voru þakin hrauni, “þar sem ekki óx strá, ekki var vatnsdropa að finna, hvergi var fugl á flugi og ekkert lífsmark sjáanlegt”. Í þessu sambandi töluðu margir um leiðina frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur og álitu að erfitt hlyti að vera fyrir aðra að gera sér í hugalund hvernig umhverfið þar liti út. Sennilega líkist það einna helst skriðjökli í sínu úfnasta formi eða jafnvel stórsjóum sem hvirfilvindur hefur farið um en svo skyndilega orðið að steini. Yfir þennan óveg gat þó hinn “vitri íslenski smáhestur” komist klakklaust.

Kapelluhraun

Kapelluhraun 2020.

Samkvæmt lýsingum margra erlendra ferðamann á leið um landið var það hræðilegt á að líta. Leiðin til Krýsuvíkur var oft tekin sem dæmi um hræðilega hraunauðn. Einn ferðamannanna gat t.d. um konuhræ við leiðina, sem enginn virtist hafa áhuga á að færa til graftrar.
Í dag eru hraunin eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna.

-Ísland – framandi land – Sumarliði Ísleifsson – 1996

Kapelluhraun

Kapelluhraun og nágrenni – fornar leiðir og örnefni.

Kapelluhraun

Ætlunin var að ganga upp og niður meginhrauntröð Nýjahrauns, sem myndaðist haustið 1151, frá upptökunum og til baka. Í tröðinni, sem er bæðidjúp og breið á köflum, eru formfagrar hraunmyndanir, auk þess sem landslagið á svæðinu er ægifagurt.
SnókalöndAð þessu tilefni var gengið inn í Nýjahraun (Kapelluhraun) við gatnamót Krýsuvíkurvegar og Bláfjallavegar. Norðan gatnamótanna eru hin grónu Snókalönd, hluti Hrútagjárdyngjuhrauns, og sunnan þeirra er hin stórbrotna hrauntröð Rauðhóls. Fyrir hugsandi hugmyndasmiði og myndlistamenn eru fáir staðir áhugaverðari.
Jöklar síðasta jökulskeiðs hurfu af Reykjanesi fyrir um 12.000 – 13.000 árum og er það nokkru fyrr en annars staðar á landinu. Jarðlög Reykjanesfólkvangs eru grágrýtishraun frá síðustu hlýskeiðum ísaldar, móberg og bólstraberg sem hafa myndast undir jöklum síðustu jökulskeiða og hraun runnin á nútíma, það er eftir að jökull hvarf af svæðinu.
Í Krýsuvík, og þar suður af allt til sjávar, er grágrýti sem jöklar hafa sorfið og skafið. Það er væntanlega leifar af fornum dyngjum og hefur líklega myndast á síðasta hlýskeiði sem lauk fyrir 120 þúsund árum. Geitahlíð er gömul grágrýtisdyngja og grágrýtishella er líka suður af Lönguhlíð. Hraunkarl KapelluhraunsSunnan, vestan og norðan Kleifarvatns er móberg og Núpshlíðarháls og Sveifluháls eru móbergshryggir sem hafa hlaðist upp undir jökli síðasta ísaldarskeiðs. Syðst og austast í fólkvanginum eru t.d. Krýsuvíkurhraun og Herdísarvíkurhraun, forsögulegt sprunguhraun. Norðan þess eru nokkur hraun runnin úr Brennisteinsfjöllum eftir landnám og á 14. öld. Vestast í fólkvanginum er Ögmundarhraun frá árinu 1151. Þá opnaðist 25 km löng gossprunga og rann hraun bæði til norðurs og suðurs allt til sjávar. Norðurelfa þessa hrauns er Kapelluhraun sunnan Hafnarfjarðar. Ögmundarhraun rann yfir þéttbýlisbyggð Krýsuvíkur sem þá stóð á sjávarbakka við grunna vík (nafnið “krys” táknar grunna skoru í ask) innan í landinu, allt nema kirkjuna, skála og mikla garða, sem nú liggja innan Húshólma og Óbrennishólma. Þar eru og fornar fjárborgir (nema borgin mikla í Óbrennishólma hafi verið hringlaga virki). Heita má að svæðið sé órannaskað þrátt fyrir merkilegheitin, en yfirlýst “stefna” Fornleifaverndar ríkisins hefur frá upphafi verið sú að “engar merkilegar fornleifar er að finna á Reykjanesskaganum” (haft eftir forstöðumanni stofnunarinnar í fornleifafræðitíma í HÍ 2006). Viðbrögð stofnunarinnar sem slíkrar svo og aðgerðir hennar hafa hingað til endurspeglast í þessum orðum.
Hrauntröð NýjahraunsReykjanesið er þó óumdeilanlega jarðfræðilega merkilegt, þ.e. gosbeltið sem slíkt, landmótunin og ekki síst nútímaleg hraunamyndunin. Á Reykjanes gosbeltinu eru gos þekkt frá nútíma. Segja má að Reykjanes skaginn sé þakinn gosmenjum því að nánast milli allra stapa og hryggja eru hraun frá nútíma. Það einkennir Reykjanesskagann hversu gróf þessi hraun eru og landslagið virðist því oft snautt af gróðri. Engar ár renna á yfirborði og því er lítið sem getur haldið lífi í gróðri. Á Reykjanesskaganum kemur Atlantshafshryggurinn á land og má ímynda sér að Reykjanestáin yst á skaganum sé þar sem hann er að teygja sig upp á landið.
Þrjú goskerfi eru á Reykjanesskaganum; Reykjaneskerfið, Trölladyngjukerfið og Brennisteinsfjöll. Þrjár gerðir gosmyndana einkenna Reykjanesskagann en það eru litlar dyngjur sem hafa framleitt að mestu leyti framleitt Pikrít, önnur tegund er sprungugos sem hafa myndað hraun eins og Ögmundarhraun og Kapelluhraun.
Sprungugos hafa einnig skilið eftir sig gjall- og klepragíga og gjósku- og sprengigíga. Berggerð þeirra er oftast
þóleiít. Þriðja gerð gosmyndana eru stórar dyngjur en líklega eru um 26 dyngjur á skaganum frá nútíma. Þær eru því áberandi á Reykjanesskaganum, en stundum er erfitt að taka eftir þeim þar sem hallinn er svo lítill og
stærð þeirra er slík að auðvelt er að sjá þær ekki.

Myndun í Nýjhrauni

Talið er að stóru dyngjurnar séu allar eldri en 4500 ára (Ari Trausti 2001). Hrútadyngjuhraun varð til í Hrútagjá fyrir u.þ.b. 4.500 – 5000 árum síðan.
Nálægt gatnamótum Krýsuvíkurvegar og Bláfjallavegar, sem fyrr segir, eru Snókalöndin. Allt umleikis er vaxið hraungambra, en löndin sjálf eru gróin birki, enda miklu mun eldri en umhverfið. Ólafur Þorvaldsson segir frá Snókalöndunum í grein sinni um “Fornar leiðir…” í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48: “Í nýja brunanum, spölkorn austur af stígnum, eru tveir dálitlir blettir eða hólmar, sem bruninn hefur ekki náð að renna yfir. Ekki ber þau hærra en umhverfið og sjást því ekki lengra til og helst ekki fyrr en að er komið. Hestfær götuslóð liggur norður í Snókalönd, nokkur austar en þar sem Stórhöfðastígurinn kemur suður úr brunanum. Ekki eru Snókalöndin jafnstór, það vestra nokkur stærra og slóð á milli. Hvað liggur til grundvallar þessu nafni veit víst enginn lengur en á tvennt mætti benda. Í fyrra lagi að þarna hafi vaxið villihvönn, snókahvönn – geitla. Í öðru lagi að blettir þessi, sem hafa verið miklu gróðurríkari en umhverfið, hafi fengið nafnið land af töngum þeim og hornum sem hinn ójafni brunakantur myndar þarna í grennd og gæti því þýtt “Krókalönd”.
Í orðabók Blöndals segir að snókur sé angi eða útskiki út frá öðru stærra. Gætu því tangar þeir, sem út úr brunanum ganga, verið stofn að þessu nafni. Þó finnst mér fyrri tilgátan sennilegri. Líkur benda til að þarna hafi verið nokkur skógur og máske verið gert að kolum fyrrum.
Gatan út í Snókaköndin bendir á nokkra umferð þangað. Sökum fjarlægðar þessa staðar frá alfaraleið óttast ég að svo geti farið að hann gleymist og nafnið týnist þar sem þeir, er mest fóru þar um og héldu með því við mörgum örnefnum, voru fjármenn og smalar en þeim fækkar óðum um þessar slóðir sem víðar.”
Snókalöndin eru hraunsvæði sem máttarvöldin, sem stóðu að jarðeldunum 1151 og skópu Nýjahraun (Kapelluhraun/Brunann) virtust hafa haft áhuga á að hlífa. Háir hraunhryggir hafa hlaðist upp með þeim og beint glóandi hrauninu frá. Eftir standa gróðurvinar þær er Ólafur lýsir.
Garðmyndanir í Nýjahrauni - Straumur og ÁsAðgengi að Snókalöndunum er ágætt og stutt að ganga inn í þau frá Krýsuvíkurvegi. Þá er jafnframt kjörið tækifæri til að skoða þar aðstöðu fjárbúskapsins frá Ási, bæði gerðið og garðinn við Stórhöfðastíginn. Ofar eru garðhleðslur landamarka Straums og Áss. Arnarklettar sjást vel inn í Brunanum nokkru suðaustan Stórhöfða.
Kapelluhraunið er á köflum mjög úfið apalhraun, en jaðrar þess, ofan hrauntraðarinnar, eru slétt helluhraun. Að þessu sinni voru litbrigðin óvenjumikil því það haustaði að. Víðirinn var orðinn gulur, bláberjalyngið brúnt og mosinn var bæði hvanngrænn og grár eftir undangengin regnskúr. Mosahraunin verða nefnilega grá í þurrkum, en græn í vætutíð. Litbrigðin margfaldast þannig áþeim tímamótum fyrir áhugasamt listafólk, hvort sem um er að ræða ljósmyndara eða málara.
Kapelluhraun er, se, fyr segir, ákaflega fallegt úfið á köflum og mosagróið apalhraun en hörmung er að sjá hvernig karganum hefur verið rutt af yfirborði þess á stórum svæðum þess vestanverðum. Hraunið er fínkornótt með einstaka tiltölulega stórum dílum. Dílarnir eru oftast plagioklas, pyroxen og einstaka ólivín. Stærð hraunsins er 11,6 km2. Eitt sinni var rudd braut í gegnum hraunið en hún hefur að mestu verið eyðilögð að undanskildum um 20 metra kafla við litla rúst í hrauninu, sem er nefnd Kapellan. Árið 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn þessa kapellu og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er  verndardýrlingur ferðamanna. Hún var góð til áheita gegn hvers konar eldsgangi. Einnig var hún verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðs- manna, námumanna,verkfræðinga og jarðfræðinga. Þess má geta að Kapellutóftin er á fornminjaskrá og þar má sjá eftirlíkingu af líkneskinu.
Um aldur Kapelluhrauns hefur Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson ritað árið 1989; Krýsuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins. Jökull 38. 71-87. Einnig Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir 1991. Krísuvíkureldar II. Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns yngra. Jökull 41. 61-80. Þá rituðu Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1998 um; Hraun í nágrenni Straumsvíkur. Náttúrufræðingurinn 67. 171-177. Páll Imsland sitaði 1998; Um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu. Náttúrufræðingurinn 67. 263-273. Nýjahraun í dag - 856 árum síðar
Af þessum rannsóknum og greinum höfunda má m. a. ráða, að líkur séu á að þunnfljótandi hraunstraumar geti runnið í sjó fram frá gosstöðvum vestan Undirhlíða og víðar yfir það svæði sem núverandi álverksmiðja stendur á auk þess sem önnur mannvirki svo sem raflínur og vegir eru í hættu á þessu svæði og víða í grenndinni.
Í framangreindum skrifum kemur m.a. fram að; yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess. Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krísuvíkurrein árið 1151 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1989). Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni. Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krísuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík … Álverið í Straumsvík stendur á hrauninu.”

Hrauntröð Nýjahrauns - Fjallið eina fjær

Í niðurlagi greinarinnar segja höfundar m. a. (s. 177): “Eldgos á Rekjanessskaganum virðast koma í hrinum og á milli er minni virkni. Hrinurnar verða á um þúsund ára fresti og hver hrina stendur yfir í nokkur hundruð ár. Síðasta hrinan hófst upp úr miðri tíundu öld og endaði um 1240. Í hverri hrinu verða umbrot í öllum eldstöðvareinunum á skaganum og í síðustu hrinu færðist virknin frá austri til vesturs. Einnig er nokkuð víst að verði eldgos í Brennisteinsfjöllum og í norðanverðum Móhálsadal munu hraun þaðan renna niður til strandar milli Hrútagjárdyngjunnar og Hvaleyrarholts, sömu leið og Hellnahraun eldra og yngra og Kapelluhraun.
Af ofansögðu er ljóst að hraun geta runnið til Straumsvíkur bæði frá Brennisteinsfjallarein, en þar gaus síðast á 10. öld, og frá Krísuvíkurein þar sem síðast gaus um miðja tólftu öld. Síðast urðu með vissu eldsumbrot á Reykjanesskaga á fyrri hluta 13. aldar í Reykjanesrein. Nær útilokað er að hraun frá gosum í þeirri rein geti runnið til Straumsvíkur en hins vegar gæti þar hugsanlega orðið vart landsigs vegna meðfylgjandi gliðnunar í reininni.”

Gata í Nýjahrauni

Í grein sinni um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu (sjá nr. 6 hér að ofan, s. 271) segir Páll Imsland m. a.: “Eftir Krísuvíkurelda á 13. öld hafa ekki komið upp hraun í nágrenni Straumsvíkursvæðisins. Landslagi er þannig háttað að hraun sem koma upp vestanundir Undirhlíðum eiga ekki annarra kosta völ en að renna út á hraunflákana til vesturs og norðurs og leita undan halla og þrýstingi frá kvikunni sem flæðir úr gígunum í átt til strandar, í átt að Straumsvík. Áður en að álverinu sjálfu kemur eru raflagnir, spennuvirki, þjóðvegur og fleira slíkt í rennslisleiðum hrauna; mannvirki sem skipta verulegu máli, bæði fyrir starfrækslu álversins og alla byggð sunnar á skaganum. Það er því ljóst að hraunflóðahætta er þarna til staðar, en ekkert er þekkt sem bendir til yfirvofandi hættu. Náttúran á svæðinu hefur ekki sýnt nein þekkjanleg merki þess að þarna séu eldgos í uppsiglingu. Á hitt ber samt að líta að þetta er afkastamikið, virkt eldgosasvæði þar sem ekki hefur gosið í um 850 ár, og til eru vísbendingar um að virknin á Reykjanesskaganum gangi í hrinum með nokkurra alda aðgerðarlitlum hléum. Hrinur þessar einkennast af jarðskjálftum, sprungumyndun og eldgosum.”
Þegar gengið var til suðurs með austurjaðri hrauntraðar Rauðhóls mátti sjá þar gamla götu, að mestu mosavaxna. Hún gæti hvort sem er verið eftir skepnur eða menn. Þeir, sem vel þekktu til og áttu leið um Undirhlíðaleið milli Kaldársels og Krýsuvíkur, gætu með góðu móti hafa smeygt sér þarna niður Brunann með greiðfærum hætti því leiðin er jafnvel auðveldari yfirferðar en Stórhöfðastígurinn, sem þarna er nokkru sunnar.
Hraunið, tröðin eða hraunmyndanir í Kapelluhrauninu eru einu sagt ómótstæðilegt – en fara þar varlega svo ekki hljótist af skrokkskjóður eða beinbrot. Göngusvæðið er eitt hið aðgengilegasta á höfuðborgarsvæði Hafnarfjarðar.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Jónas Guðnason.
-Hjörleifur Guttormsson.
-Ólafur Þorvaldsson 1949. Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48. Bls. 81-95.

Nýjahraun

Kapella

Flestar minjar á Reykjanesskaganum eru ómerktar og lítt aðgengilegar. Við Kapelluna í Kapelluhrauni standa hins vegar tvö upplýsingaskilti, reyndar með misvísandi fróðleik. Skiltin voru þrjú, en eitt hefur verið fjarlægt.
SkiltiÁ öðru skiltinu, frá Byggðasafni Hafnarfjarðar, stendur m.a.: “Snemma á 13. öld var höfðingi í borginni Nikómedíu í Litlu-Asíu, þar sem nú er Izmid í Tyrklandi. Átti hann forkunnarfríða dóttur er Barbara hét. Hún var í æsku lokuð inni í turni einum til að forðast biðla en þrátt fyrir einangrunina tókst Origeneses kirkjuföður að komast inn til hennar og fyrir fortölur hans tók hún kristna trú. Barbara lét aldrei af trú sinni, þrátt fyrir pyntingar sem að stærstum hluta voru gerðar að kröfu föður hennar, sem vildi snúa henni aftur til heiðinnar trúar. Að lokum var hún leidd fyrir dómara og dæmd til lífláts í ofsóknum á kristna menn.
Hún varð snemma kaþólskur dýrlingur, aðallega ákölluð við óvænta hættu, eldsvoða, sprengingar og þess háttar. Hérlendis lá því beint við að ákalla hana í sambandi við jarðelda og hraunflóð.
Kapella þessi er á skrá yfir friðlýstar fornminjar og er talið að hún sé frá kaþólskum tíma en ekki hefur hún verið aldursgreind nánar. Hraunið umhverfis kapelluna hefur verið kallað Kapelluhraun eða Nýjahraun og er talið að það hafi runnið einhvern tímann á tímabilinu 1100-1300. Kapellan er rétt við gamla krákustíginn, sem ruddur var fljótlega eftir að hraunið rann og hefur verið alfaraleið út á nes öldum saman.
KapellanÁrið 1950 var rústin rannsökuð af þeim dr. Kristjáni Eldjárn, þjóðminjaverði, Gísla Gestssyni, safnverði, Jóhanni Briem, listmálara, og dr. Jóni Jóhannessyni. Fundust þá nokkrir munir í rústinni og ber þar helst að nefna hluta af líkneski heilagrar Barböru. Líkneskið var úr grágulum leirsetini og var einungis um3.3 cm á hæð, en hefur líklega verið um 5.5 cm heilt. Þar sem hraunið sem kapellan stendur er yngra en landnám var það vel við hæfi að einmitt heilög Barbara fannst þarna, sem e.t.v. stendur í sambandi við bæn um það, að svona hrikalegt hraunrennsli endurtaki sig ekki. Styttan sem fannst við rannsóknina er varðveitt í Þjóðminjasafni Íslands, en þessi hérna er eftirlíking, svipuð en lítið eitt stærri.
Kapella þessi er alveg við gamla veginn og hefur því líklega einnig verið eins konar sæluhús. Menn hafa farið inn til að biðja bæn sína, en líka til að hvílast eða leita skjóls í vondum veðrum.”
Á hinu skiltinu er svipaður texti, styttri. Þar segir að hraunið hafi runnið á 14. öld, en nú hefur verið staðfest skv. áreiðanlegustu aldursgreiningum að hraunið rann árið 1151.
Á bls. 7 í 32. tbl. Fjarðarpóstsins, 24. árg. 2006 (www.fjardarposturinn.is) er fjallað um “Menningardag Evrópu”, sunnudaginn 3. september. Áætlað er skv. umfjölluninni að hafa dagskrá við “kapelluna” í Kapelluhrauni kl. 14.00 þennan tiltekna dag. Í umfjölluninni segir m.a.:
“Álverið í Straumsvík stendur á hrauni sem ber nafnið Kapelluhraun. Hraunið á upptök sín í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Talið er að hraunið hafi komið upp í eldgosi árið 1151, svokölluðum Krýsuvíkureldum.
Hraunið dregur nafn sitt af Kapellunni, rúst af litlu húsi skammt suður af Reykjanesbraut gegnt álverinu. Kristján Eldjárn rannsakaði kapelluna árið 1950 ásamt fleirum. Kapellutóftin snýr því sem næst í austur-vestur og er 240 cm löng og um 220 cm breið. Húsið hefur verið reist við götu sem rudd var gegnum hraunið og lá út á Reykjanes. Vegna mikillar efnistöku í kringum kapelluna er gatan nú að mestu horfin í nágrenni kapellunnar en smá bútur sést þó sunnan rústarinnar. Í kapellunni fundust nokkrir gripir. Þar á meðal brot af rafperlu, leirkersbrot, látúnslauf, kríptarpípuleggur, skeifubrot og naglar. Merkasti fundurinn var þó líkneski af heilagri Barböru. Staðsetning rústarinnar við veginn og fundur líkneskisins í rústinni benti að mati Kristjáns Eldjárns til þess að þarna hefði staðið vegakapella á kaþólskum tíma.
Líkneskið er tálgað úr grágulum leirsteini. Aðeins efri hluti þess fannst og er sá hluti 3,3 Kapellacm á hæð en talið að líkneskið haf upphaflega verið um 5,5 cm. Andlit heilagrar Barböru er nokkuð máð en hún er með mikið hrokkið hár niður á herðar og sveigur er um yfir ennið. Í vinstri endi heldur Barbara á einkenni sínu, turninum, og hvílir hann við vinstri öxl og upp með vinstri vanga hennar. Gott þótti að heita á Barböru í háska af eldi, húsbruna, sprengingum og þess háttar. Hún var verndardýrlingur stórkotaliðs, ferðamanna og síðar málmiðnaðarmanna. Barbara kann því að hafa þótt duga vel gegn háska af völdum jarðelds og hraunbruna. Þá er athyglisverð sú staðreynd að álver skyldi byggt við hlið kapellu verndardýrlings málmiðnaðarmanna.Â
Í ýmsum kristnum löndum eru enn til smákapellur, sem reistar hafa verið við vegi á miðöldum, ætluðum vegfarendum til bænagerðar. Krossar hafa verið reistir á víðavangi í sama tigangi. Í Njarðvíkurskriðum, milli Njarðvíkna og Borgarfjarðar eystri, stóð lengi kross þars em menn, sem áttu leið um skriðurnar, áttu að lesa faðirvorið.”
Í lok greinarskrifanna er lýst hinum “evrópska menningardegi” sem og tilgangi hans, sem reyndar skiptir kapelluna í Nýjahrauni litlu máli.

Stytta

Málið er að saga og hlutverk kapellunnar í Kapelluhrauni (Nýjahrauni) ofan við Straumsvík er mikilvæg, bæði vegna staðsetningarinnar og þeir atburða er síðar gerðust í nágrenni við hana (hefndin á drápi Jóns Arasonar Hólabiskupi við Skálholt árið 1550). Þá er hún ekki síður vitnisburður og staðfesting á hinni fornu leið, sem um hana lá yfir hraunið, frá Vestari-Brunabrúninni að hinni Austari, eins og segir í örnefnalýsingum. U.þ.b. 10 metra millikafli leiðarinnar sést enn suðvestan við kapelluna. Hins vegar er kapellan sjálf tiltölulega nýtt mannvirki, reist á gömlum grunni. Af myndum og uppdrttum Kristján Eldjárns (frá 1950) að dæma var kapellan, ferköntuð, niðurgrafin og hálffallin í kafi í mosavöxnu hrauninu.
Núverandi kapella er endurhlaðin með breyttu lagi (sporöskulaga), en á sama gólffleti og sú sem þar var fyrir. Best hefði farið á því að láta þessa tilteknu kapellutóft óhreyfða, eins og hún var, en ekki endurhlaða hana með þessu hæpna tilgátulagi. Með því varð, og verður, hún í augum “meðvitaðra” óekta og miklu mun minna áhugaverðari en ella.
Hvort þessi tilltekna nútímalega (frá sjöunda áratug 20. aldar) “kapelluuppgerð” getur talist sannur táknrænn vitnisburður um sögulega “menningararfleifð” á evrópskan mælikvarða skal ósagt látið. Líklegra hefði hin sandorpna kapella á Hraunssandi, frá sama tíma, er Kristján Eldjárn og félagar grófu upp skömmu fyrir 1950, orðið miklu mun áhugaverðari minnisvarði (óhreyfður) um það sem var og þjónað miklu mun betur betur tilgangi tilefnisins. Hún er einnig táknræn fyrir það virðingarleysi, sem fornleifunum hefur til langs tíma verið sýnt.
Efni greinarinnar framangreindu er bæði áhugavert og erindissinnað og er því birt hér bæði til fróðleiks og uppfyllingar öðrum lýsingum á sömu mannvistarleifum á vefsíðunni.

Heimild:
-Fjarðarpósturinn, 32. tbl. 24. árg 2006, bls. 7. Grein Kristins Magnússonar, fornleifafræðings.

Kapella

Kapellan í Kapelluhrauni og kafli Alfaraleiðarinnar.

Draughólshraun

Gengið var um Brunann, öðru nafni Nýibruni, Nýjahraun eða Kapelluhraun.
Bruninn - Óbrinnishólar og Helgafell fjærKapelluhraun myndaðist úr gíg[um] á 25 metra langri sprungu sem opnaðist í eldgosahrinu er hóft 1151 og hraun rann til sjávar bæði norðan og sunnan megin við Reykjanesskagann. Á síðustu árum hefur mikið efni verið tekið úr hrauninu til uppfyllingar við álverið [sem og úr Rauðamel] og í húsgrunna og götur á Stór- Reykjavíkursvæðinu og það sléttað.
Álverið við Straumsvík stendur á Nýjahrauni/Kapelluhrauni og er allra yngsta hraunið á svæðinu í kringum Hafnarfjörð. Í umræðum meðal Hraunafólksins var hraunið jafnan nefnt Bruninn og brúnir hans Brunabrúnir vestri og eystri. Hann á upptök undir Undirhlíðum og hefur komið úr gígaröðum, sem virðast vera tengdar misgengissprungum. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu hjá Krýsuvíkurkerfinu fyrstnefnda.
Kapelluhraun er ákaflega fallegt [þ.e.a.s. sá hluti þess sem enn er óraskaður], úfið og mosagróið apalhraun. Hraunið er fínkornótt með einstaka tiltölulega stórum dílum. Dílarnir eru oftast plagioklas, pyroxen og einstaka ólivín. Stærð hraunsins er 11,6 km2 – 13.7 km2. Eitt sinni var rudd braut í gegnum hraunið en hún hefur að mestu verið eyðilögð að undanskildum um 10 metra kafla við litla endurgerða rúst í hrauninu, sem er nefnd Kapellan.

Hraunkarl í Brunanum

Árið 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn þessa kapellu og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er  verndardýrlingur ferðamanna. Hún var góð til áheita gegn hvers konar eldsgangi.
Af þessum rannsóknum má m. a. ráða, að líkur séu á að þunnfljótandi hraunstraumar geti runnið í sjó fram frá gosstöðvum vestan Undirhlíða og víðar yfir það svæði.
Sem dæmi má nefna eftirfarandi úr grein Hauks Jóhannessonar og Sigmundar Einarssonar 1998, s. 175, sjá nr. 5 hér að ofan.:
“Kapelluhraun.
Yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess. Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krísuvíkurrein árið 1151 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1989). Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni.

Hraungambri í Brunanum

Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krýsuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð [Rauðhól] sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík … Álverið í Straumsvík stendur á hrauninu”
Í niðurlagi greinarinnar segja höfundar auk þess:
“Eldgos á Rekjanessskaganum virðast koma í hrinum og á milli er minni virkni. Hrinurnar verða á um þúsund ára fresti og hver hrina stendur yfir í nokkur hundruð ár. Síðasta hrinan hófst upp úr miðri tíundu öld og endaði um 1240. Í hverri hrinu verða umbrot í öllum eldstöðvareinunum á skaganum og í síðustu hrinu færðist virknin frá austri til vesturs. Einnig er nokkuð víst að verði eldgos í Brennisteinsfjöllum og í norðanverðum Móhálsadal munu hraun þaðan renna niður til strandar milli Hrútagjárdyngjunnar og Hvaleyrarholts, sömu leið og Hellnahraun eldra og yngra og Kapelluhraun.
Í Brunanum - Fjallið eina og Sandfell fjærAf ofansögðu er ljóst að hraun geta runnið til Straumsvíkur bæði frá Brennisteinsfjallarein, en þar gaus síðast á 10. öld, og frá Krísuvíkurein þar sem síðast gaus um miðja tólftu öld. Síðast urðu með vissu eldsumbrot á Reykjanesskaga á fyrri hluta 13. aldar í Reykjanesrein. Nær útilokað er að hraun frá gosum í þeirri rein geti runnið til Straumsvíkur en hins vegar gæti þar hugsanlega orðið vart landsigs vegna meðfylgjandi gliðnunar í reininni.”
Í grein sinni um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu (sjá nr. 6 hér að ofan, s. 271) segir Páll Imsland m. a.:
“Eftir Krísuvíkurelda á 13. öld hafa ekki komið upp hraun í nágrenni Straumsvíkursvæðisins. Landslagi er þannig háttað að hraun sem koma upp vestanundir Undirhlíðum eiga ekki annarra kosta völ en að renna út á hraunflákana til vesturs og norðurs og leita undan halla og þrýstingi frá kvikunni sem flæðir úr gígunum í átt til strandar, í átt að Straumsvík. Áður en að álverinu sjálfu kemur eru raflagnir, spennuvirki, þjóðvegur og fleira slíkt í rennslisleiðum hrauna; mannvirki sem skipta verulegu máli, bæði fyrir starfrækslu álversins og alla byggð sunnar á skaganum. Það er því ljóst að hraunflóðahætta er þarna til staðar, en ekkert er þekkt sem bendir til yfirvofandi hættu. Náttúran á svæðinu hefur ekki sýnt nein þekkjanleg merki þess að þarna séu eldgos í uppsiglingu. Á hitt ber samt að líta að þetta er afkastamikið, virkt eldgosasvæði þar sem ekki hefur gosið í um 850 ár, og til eru vísbendingar um að virknin á Reykjanesskaganum gangi í hrinum með nokkurra alda aðgerðarlitlum hléum. Hrinur þessar einkennast af jarðskjálftum, sprungumyndun og eldgosum.”
Í greininni “Hamfarir á höfuðborgarsvæðinu”eftir Þórdísi Lilju Gunnarsdóttur, sem birtist í tímaritinu Ský, 6 2001-2002, s. 36, má lesa eftirfarandi:
“Í Kröflueldum í september 1984 rann glóandi hraunáin um tíu metra vegalengd á sekúndu. Það gera 36 kílómetrar á klukkustund. Að mati jarðfræðinganna Páls Imslands og Karls Grönvolds er það álíka hraði og væri á nýju hrauni við höfuðborgina í dag. Því myndi hraunelfan geta náð efstu byggðum borgarinnar á fáum klukkustundum … Ef eldgos brytist út í Húsfelli, Búrfelli eða Trölladyngju gæti hraun runnið niður Kúagerði og yfir Reykjanesbraut, yfir álverið í Straumsvík, rafstöðina við Hamranes og nýjustu byggð Hafnfirðinga sunnan við Reykjanesbraut sökum þess hve Reykjanesskaginn er mjór sunnan við Hafnarfjörð. Í miklum hamförum á þessum slóðum gæti hraun einnig náð til byggðar í Garðabæ og yfir Álftanesið.”

Gata í Brunanum

Gengið var um Kapelluhraun sunnan Hafnarfjarðar. Í göngunni var höfð hliðsjón af skrifum Sigmundar Einarssonar, Hauks Jóhannessonar og Árnýjar Erlu Sveinbjörnsdóttur um Krýsuvíkurelda II – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns, er birtust í Jökli nr. 41 1991.
Gangan hófst við Gerði ofan við Straum, nyrst í vesturjaðri Kapelluhrauns. “Samkvæmt annálum urðu eldgos í Trölladyngjum á Reykjanesskaga árin 1151 og 1188. Líkur benda til að 1151 hafi Ögmundarhraun í Krýsuvík og Kapelluhraun sunnan Hafnarfjarðar runnið er umbrotahrina varð í eldstöðvarkerfi Trölladyngju. Hrinunni lauk líklega 1188 með myndun Mávahlíðahrauns. Umbrotahrinan í heild er nefnd Krýsuvíkureldar. Gossprungan er ekki samfelld en milli enda hennar eru um 25 km. Flatamál hraunanna er 36.5 km2 og rúmmálið er áætlað um 0.22 km3. Vegið meðaltal fimm geislakolsgreininga gefur 68.3% líkur á að hraunin hafi runnið á tímabilinu frá 1026-1153.
Í Konungsannál, Oddverjaannál og Annál Flaeyjarbókar 1151 segir frá eldum í Trölladyngjum. Einnig í Skálholtsannál 1188. Ekki er ljóst hvers vegna annálarnir kenna gosin við Trölladyngjur en svo virðist sem þær hafi verið alþekkt örnefni á þessum tíma. Líklegast er að eldgosið 1188 hafi verið lokaþáttur umbrotahrinunnar.
Auk þessara frásagna í annálum eru óbeinar heimildir um hraunrennsli á norðanverðum Reykjanesskaga eftir landnám. Kapelluhraun heitir einnig Bruninn í daglegu tali og það eitt bendir til að menn hafi séð hraunið renna. Yfirleitt er talið að Kapelluhraun hafi áður heitið Nýjahraun og Ólafur Þorvaldsson (1949) segir nafnið Nýjahraun sé enn þekkt um hluta þess. Þessi gögn benda eindregið til að hraunið hafi runnið eftir að land byggðist.
Snókalönd í Brunanum - Stórhöfði fjærElstu heimildir um nafnið Nýjahraun er annars vegar í annálum og hins vegar í Kjalnesingasögu. Annálar greina frá skiptapa við Hafnarfjörð árið 1343 og fórust með skipinu 23 eða 24 menn. Annálar segja þannig frá slysinu: “Braut Katrínarsúðina við Nýja hraun.” (Annáll Flateyjarbókar). Í Gottskálksannál, bls. 352 segir: “Braut Katrínar súðina fyrir Hvaleyri, drukknuðu þar iiij menn ogg xx.”
Í Kjalnesingasögu (1959) er tvívegis minnst á Nýjahraun. Þar segir senmma í sögunni að Þorgrímur Helgason hafi reist bú að Hofi (á Kjalarnesi) og “hafði hann mannforráð allt il Nýjahrauns og kallað er Brunndælagoðorð”. Undir lok sögunnar segir svo frá því er Búi Andríðsson tók við mannaforræði eftir Þorgrím og “hafði hann allt út á Nýjahrauni og inn til Botnsár”.
Kjalnesingasaga gerist á landnámsöld en er talin skrifuð skömmu eftir 1300. Athyglisvert er að höfundurinn skuli nota Nýjahraun til að takmarka Brunndælagoðorð. Notkun örnefnisins Nýjahraun í Kjalnesingasögu bendir til að hraunið sé runnið einhvern tíma á tímabilinu 870-1250.
Ótrúlega fáir, þrátt fyrir framangreint, hafa gert tilraun til að kanna Brunann/Kapelluhraun, upptök þess, útbreiðslu og raunverulegan aldur. Þorvaldur Thoroddsen (1913) reið á vaðið er hann kannaði Kapelluhraun lauslega 1883. Guðmundur Kjartansson (1954) varð fyrstur jarðfræðinga til að kanna Kapelluhraun og Óbrinnishólabruna svo nokkru næmi. Jón Jónsson hefur nokkrum sinnum ritað um hraun á svæðinu. Hann taldi á grundvelli geislakolsákvarðana að Óbrinnihólar væru liðlega 2100 ára gamlir og að Kapelluhraun hefðu runnið í byrjun elleftu aldar.
Úr gígum nyrst í Undirhlíðum hefur runnið hraun sem Jón Jónsson (1978a, 1983) nefnir Gvendarselshraun. Undir því hefur hann fundið Landnámslagið og út frá aldursgreiningu með geislakolsaðferð telur Jón hraunið runnið á elleftu öld.

Hlaðið undir horfna girðingu í Brunanum

Í framhaldi af þessum niðurstöðum hefur Jón stungið upp á því að Ögmundarhraun, Kapelluhraun og Gvendarselshraun hafi öll orðið til í einni goshrinu á fyrri hluta elleftu aldar (Jón Jónsson 1982,1983).
Gossprungan, 25 km löng, er frá norðanverðri Gvendarselshæð og suður fyrir Núpshlíðarháls. Á henni er um 8 km löng eyða, þannig að alls hefur gosið á um 17 km langri sprungu. Syðri hlutinn er um 10,5 km að lengd og nyrðri hlutinn um 6.5 km.
Í Krýsuvíkureldum mynduðust fjórir aðskildir hraunflákar. Syðst er Ögmundarhraun sem nær frá Djúpavatni í Móhálsadal suður í sjó. Næst norðan við það er lítið hraun sem runnið hefur út á Lækjarvelli og er það langminnst þessara hrauna. Þriðja hraunið er við Mávahlíðar, norðaustur af Trölladyngju, og liggur til hliðar við megingossprunguna. Nyrst er svo Kapelluhraun sem runnið hefur frá Undirhlíðum til sjávar.
Hraunið sem rann frá syðsta hluta gossprungunar fyllti allan Móhálsadal sunnan Djúpavatns og fyllti allstóra vík sem að líkindum hefur verið hin forna Krýsuvík. Hraunflákinn gæti hafa myndast í tveimur [eða fleiri] gosum (en þó í sömu goshrinu).
Skammt norðan við Bláfjallaveg eru litlir og snotrir gígar er nefnast Kerin. Frá þeim hefur runnið lítið hraun til vesturs og norðurs. Norðan við gíganna er hraunið á nokkrum kafla svo rennislétt að furðu sætir. Hraunin frá Gvendarselsgígum og Kerjum verða ekki talin sérstök hraun, heldur hluti af Kapelluhrauni, enda um einn samfelldan hraunfláka að ræða. Alls þekur Kapelluhraun 13.7 km2. Ef meðalþykktin er um 5 metrar er rúmmál þess um 0.07 km3.
Líkur hafa verið leiddar að því að Ögmundarhraun hafi runnið 1151 og er þar jöfnum höndum stuðst við frásagnir annála, geislakolsaldur og rannsóknir á öskulögum. Bruninn/Nýibruni/Nýjahraun/Kapelluhraun er frá svipuðum tíma.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild:
-Krýsuvíkureldar II – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns – Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir – Jökull nr. 41, 1991.
-Guðmundur Kjartansson 1973. Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð. Náttúrufræðingurinn 42. 159-183.
-Jón Jónsson 1978: Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. Orkustofnun OS-JHD 7831. 303 bls. + kortamappa.
-Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson 1989. Krísuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins. Jökull 38. 71-87.
-Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir 1991. Krísuvíkureldar II. Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns yngra. Jökull 41. 61-80.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1998. Hraun í nágrenni Straumsvíkur. Náttúrufræðingurinn 67. 171-177.
-Páll Imsland 1998. Um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu. Náttúrufræðingurinn 67. 263-273.

Bruninn - Undirhlíðar og Helgafell fjær

Kapelluhraun

Sigmundur Einarsson og Haukur Jóhannesson skrifuðu grein í Jökul árið 1991 um “Kapelluhraun og gátuna um aldur Hellnahrauns“:

Sigmundur Einarsson

Sigmundur Einarsson.

“Fjórir aðskildir hraunflákar mynduðust í Krýsuvíkureldum. Syðst er Ögmundarhraun sem nær frá Djúpavatni í Móhálsadal suður í sjó. Næst norðan við það er lítið hraun sem mnnið hefur út á Lækjarvelli og er það langminnst þessara hrauna. Þriðja hraunið er við Mávahlíðar, norðaustur af Trölladyngju, og liggur til hliðar við megingossprunguna. Nyrst er svo Kapelluhraun sem runnið hefur frá Undirhlíðum til sjávar.
Hraunin eru dæmigerð fyrir apalhraunin sem koma upp í gliðnunarhrinum á Reykjanesskaga. Hraunin eru þunnfljótandi og gasrík og mynda oft þunnt frauðkennt helluhraun næst gígunum. Algeng þykkt slíkra hrauna er um einn metri á sléttu landi og eru hraunaðrarnir oft ekki nema um hálfur metri á hæð. Þegar hraunin hafa runnið nokkur hundruð metra frá gígunum hefur verulegur hluti gassins verið rokinn úr hraunkvikunni, þannig að hún verður seigari og hraunið þykknar og breytist smám saman í apalhraun sem verður þeim mun úfnara sem fjær dregur gígunum. Hæstu hraunjaðrar af þessari gerð á Reykjanesskaga eru 10-15 m.

Ögmundarhraun

Haukur Jóhannesson

Haukur Jóhannesson.

Hraunið sem rann frá syðsta hluta gossprungunnar fyllti allan Móhálsadal sunnan Djúpavatns og rann í sjó fram á um 5 km breiðu belti. Hraunið fyllti allstóra vík sem að líkindum hefur verið hin forna Krýsuvík. Þessi hraunfláki er stærstur af þeim fjórum sem mynduðust í Krýsuvíkureldum. Hann gæti hafa myndast í tveimur gosum (en þó í sömu goshrinu). Sá hluti hraunsins sem kominn er frá gígunum við Djúpavatn hefur runnið til austurs og síðan til suðurs austan Traðarfjalla. Við suðurbrún Traðarfjalla leggst yfir það yngra hraun sem runnið hefur frá þeim hluta gígaraðarinnar sem liggur í skarðinu milli Traðarfjalla og Núpshlíðarháls. Hraunið er allúfið austan Traðarfjalla, enda hefur það runnið þar í nokkrum halla.

Syðri hluti hraunsins fyllir allan Móhálsadal sunnan Traðarfjalla. Þar er hraunið víðast slétt hellhraun en í dalnum ofanverðum er það að verulegu leyti horfið undir framburð lækja, sem er afar mikill á þessum slóðum.

Krýsuvíkureldar

Krýsuvíkureldar – hraunakort.

Móbergið í hálsunum í grennd er mikið ummyndað vegna jarðhita og því auðrofið. Jafnhliða ummynduninni þéttist bergið þannig að úrkoma hripar ekki beint niður, eins og víðast á Reykjanesskaga, heldur myndar læki sem renna á yfirborði. Þeir hverfa reyndar fljótlega niður í jörðina er þeir koma út fyrir ummyndaða svæðið. Af þessum sökum er ógerningur að segja til um þykkt hraunsins í dalnum. Meginhraunið hefur komið upp í dalnum sunnanverðum. Þegar hraunið fellur suður úr dalnum breytist það að mestu í úfið apalhraun, enda búið að renna alllangan veg frá gígunum. Hraunið hefur síðan runnið allt til sjávar og fyllt hina fomu Krýsuvík. Ætla má að á flatlendi sé hraunið víðast um 5-10 m þykkt og miklu þykkara þar sem það náði út í sjó. Í Móhálsadal er það eflaust nokkru þynnra og vart meira en 3-4 m þykkt, en slík tala er þó ágiskun ein. Flatarmál hraunsins er um 18,6 km2 og ef gert er ráð fyrir 7 m meðalþykkt er rúmmálið um 0,13 km3.
Norður af Djúpavatni liggur ungleg gígaröð til norðausturs eftir Móhálsadal, í beinu framhaldi af gígum Krýsuvíkurelda.

Hellnahraun

Hellnahraun

Mannvirki í Eldra-Hellnahrauni.

Helluhraunið sunnan og vestan við Hvaleyrarholt í Hafnarfirði heitir Hellnahraun (Guðmundur Kjartansson hefur nefnt hraunið Hvaleyrarhraun þar sem hann minnist á það í sínum greinum og það nafn hefur hraunið fengið á kortum Landmælinga íslands. Flestir jarðfræðingar sem um það hafa fjallað hafa álitið hraunið mjög gamalt, án þess þó að færa fyrir því haldbær rök. Hraunið er dæmigert helluhraun, með ávölum sprungnum hraunkollum, að mestu gróðurlaust nema í gjótum og bollum og þess sjást engin merki að það hafi nokkum tíma verið gróið að marki. Allt var á huldu um aldur hraunsins þar til sumarið 1986, en þá tókst okkur að finna nothæft jarðvegssnið sem liggur inn undir hraunið, norðvestan við Stórhöfða. Þar kom í ljós að Landnámslagið liggur inn undir hraunið. Áður töldum við að Hellnahraun hefði runnið í sama gosi og Kapelluhraun og einnig að Hellnahraun og hraunið frá Óbrinnishólum væru eitt og sama hraunið (sbr. Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980).

Selhóll

Selhóll í Eldra-Hellnahrauni, skammt vestan Hvaleyrarvatns.

Við nánari könnun á Óbrinnishólum sumarið 1989 kom í ljós að athuganir Jóns Jónssonar (1974) á þeim standa óhaggaðar. Þá var aðeins eftir að kanna mót Hellnahrauns og Óbrinnishólahrauns nánar, en á jarðfræðikorti Jóns Jónssonar (1978a) er Hellnahraunið talið eldra. Könnunin leiddi í ljós að vestur af Stórhöfða hefur Hellnahraunið augsýnilega runnið út yfir hraunið frá Óbrinnishólum og er því örugglega yngra. Að fenginni þessari niðurstöðu þótti ljóst að Hellnahraun hlaut að hafa komið upp nærri nyrsta hluta Undirhlíða. Þar er þó engum eldstöðvum til að dreifa nema Gvendarselsgígunum en hraunið frá þeim hefur greinilega runnið út yfir Hellnahraunið. Hægt er að ímynda sér að gígarnir hafi horfið undir Gvendarselshraun en sú skýring er ekki sennileg í ljósi þess hversu þunnt Gvendarselshraunið er. Einnig má hugsa sér að Hellnahraun hafi komið úr sjálfum Gvendarselsgígum í byrjun goss en sú skýring verður að teljast langsótt.

Hellnahraun

Eldra-Hellnahraun (svart), Yngra-Hellnahraun (grátt), Óbrinnihólabruni (ljósgrár) og Kapelluhraun (blátt). Fært inn á nútíma loftmynd.

Eftir allmiklar vangaveltur um uppruna Hellnahrauns fannst, eins og stundum vill verða, einföld og augljós skýring. Hraunið er einfaldlega ekki komið úr eldstöðvakerfi Trölladyngju, heldur eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla. Sunnan undir Helgafelli er allmikill helluhraunsfláki. Næst Helgafelli liggur ofan á honum tiltölulega mjór taumur af yngra helluhrauni sem hverfur inn undir Gvendarselshraun.
Jón Jónsson (1977) hefur fjallað um hraun þetta og telur það komið úr Tvíbollum í Grindaskörðum. Ekki verður annað séð en að Hellnahraun sé framhald Tvíbollahrauns til vesturs. Í Krýsuvíkureldum flæddi hraunið frá Gvendarselsgígum yfir hluta hrauntaumsins þannig að samhengið rofnaði og hefur það villt mönnum sýn. Hellnahraun er auk þess einsdæmi á Reykjanesskaga að því leyti að það hefur runnið þvert yfir eitt eldstöðvakerfi og langleiðina yfir í það næsta, þ.e.a.s. hraunið kemur upp í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla, rennur þvert yfir eldstöðvakerfi Trölladyngju og þar sem það liggur næst sjó við Hvaleyrarholt er það í aðeins um 5 km fjarlægð frá austustu sprungunum sem þekktar eru í eldstöðvakerfi Reykjaness.

Hellnahraun

Yngra-Hellnahraun ofan Hafnarfjarðar.

Þegar Hellnahraunið var kannað nánar sumarið 1991 kom ýmislegt nýtt í ljós. Sem fyrr segir liggur Hellnahraunið út á hraunið frá Óbrinnishólum vestur af Stórhöfða. Við könnun á neðri hluta hraunsins reyndist aldursafstaðan þveröfug, þ.e. Óbrinnishólahraunið hefur runnið út yfir Hellnahraun. Þegar betur er að gáð reynist Hellnahraun samanstanda af tveimur hraunum sem hér á eftir verða nefnd Yngra- og Eldra-Hellnahraun. Hraunin eru ákaflega lík í ytri ásýnd og var nokkrum erfiðleikum bundið að greina þau að, en það tókst. Aldur Eldra Hellnahraunsins er ekki þekktur að öðru leyti en því að það er eldra en hraunið frá Óbrinnishólum og yngra en Búrfellshraunið. Eftir útliti að dæma er það þó vart eldra en 3000-1000 ára. Hraunið er líkt og Yngra-Hellnahraunið komið frá eldstöðvum í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla og hefur runnið svipaða leið í átt til sjávar.

Aldur Yngra Hellnahraunsins

Hellnahraun

Hellnahraun – gömul þjóðleið.

Jón Jónsson (1977) fann Landnámslagið undir Tvíbollahrauni og einnig kolaðarjurtaleifar sem hann lét aldursgreina. Taldi Jón hraunið hafa runnið á fyrstu árum Íslandsbyggðar. Árið 1988 tókum við sýni af koluðum jurtaleifum á sama stað og Jón hafði tekið sín sýni, við suðvesturhorn Helgafells. Einnig var tekið sýni af koluðum jurtaleifum undan Yngra Hellnahrauninu, í rústum af gömlum gervigíg, Rauðhól, skammt frá mótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar.
Frá eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla hefur á sögulegum tíma runnið annar helluhraunstaumur, sem minnir mjög á Yngra-Hellnahraunið. Hraunið kom upp sunnan við Kistufell í Brennisteinsfjöllum, rann til norðvesturs eftir Lönguhlíðarfjöllum og síðan fram af þeim niður í Fagradal og Breiðdal við Undirhlíðar. Þetta hraun hefur Jón Jónsson (1978a) nefnt Breiðdalshraun. Aldursgreining, sem Jón lét gera, bendir sterklega til að það hafi runnið í sömu goshrinu og Yngra-Hellnahraun. Líklegast hafa öll þessi hraun runnið á sama tíma á 9. eða 10. öld.
Vegið meðaltal greininganna gefur tækjaaldurinn 1100+35 BP. Mestar líkur eru á að hraunin hafi runnið annaðhvort á árunum 894-923 eða, sem er mun líklegra samkvæmt útreikningunum, á árunum 938-983.”

Þeir félagar, Haukur og Sigmundur, skrifuðu einnig grein í Náttúrufræðinginn árið 1998; “Hraun í nágrenni Straumsvíkur“:

Óbrinnishólabruni

Óbrinnishólabruni

Óbrinnishólabruni.

Fyrir um 1800 árum varð gos í Krýsuvíkurrein og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum við Bláfjallaveg (Jón Jónsson 1974). Hraunið frá þeim, sem að hluta heitir Óbrinnishólabruni, rann í mjóum taumi langleiðina niður undir Straumsvík. Gígarnir í Óbrinnishólum eru nú aðeins svipur hjá sjón því þeir hafa verið grafnir út.

Hellnahraunið yngra

Hellnahraun

Eldra-Hellnahraun í sjó fram sunnan Hvaleyrar.

Fyrir um eitt þúsund árum hófst goshrina á Reykjanesskaga (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991). Hrinan hófst með gosum í Brennisteinsfjallarein á tíundu öld. Þá runnu m.a. Svínahraunsbruni frá Eldborgum við Lambafell (Kristnitökuhraun), stórir hraunflákar í Húsfellsbruna komu frá Kóngsfellsgígum og Eldborg í Bláfjöllum og mikil hraun runnu frá gígaröðum í Brennisteinsfjöllum; runnu þau m.a til sjávar í Herdísarvík. Þá gaus í Tvíbollum í Grindarskörðum og rann einn hrauntaumurinn nánast sömu leið og Skúlatúnshraun í átt til Straumsvíkur. Hrauntaumurinn endaði skammt frá Sædýrasafninu sáluga og átti þá ófarna um 300 m til sjávar.

Kapelluhraun

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

Yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess. Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krýsuvíkurrein árið 1151 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1989). Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni. Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krýsuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík. í sama gosi rann hraun frá röð minni gíga sem liggur meðfram Undirhlíðum og norður um Gvendarselshæð. Rann það m.a. niður í Kaldárbotna.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – hrauntröð.

Kapelluhraun er úfið apalhraun og hefur verið hinn versti farartálmi nýrunnið. Því hafa menn tekið það ráð að ryðja braut í gegnum það. Brautin hefur nú verið eyðilögð með öllu, að undanskildum um tuttugu metra kafla við svonefnda Kapellu sem er lítil rúst í hrauninu. Kristján Eldjárn rannsakaði kapellu þessa 1950 (Kristján Eldjárn 1956) og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Heilög Barbara var góð til áheita gegn eldsgangi hvers konar. Hún var einnig verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðsmannna og námumanna og raunar einnig verkfræðinga og jarðfræðinga. Kapellutóftin er á fornminjaskrá.
Kapelluhraunið var ákaflega fallegt, úfið og mosagróið, en nú hefur karganum verið flett af yfirborði þess á stórum svæðum svo hörmung er á að líta. Álverið í
Straumsvík stendur á hrauninu.

Heimildir:
-Jökull, 1. tbl. 01.12.1991, Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns – Sigmundur Einarsson og Haukur Jóhannesson, bls. 61-77.
-Náttúrufræðingurinn 3.-4. tbl. 01.05.1998, Hraun í nágrenni Straumsvíkur, Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, bls. 171-177.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort Ísor.

Hraun

Ólafur Þ. Kristjánsson skrifaði um “Kapelluna í hrauninu og heilaga Barböru” í jólablað Alþýðublaðs hafnarfjarðar árið 1961:

“Sunnan Hafnarfjarðar er land hrjóstugt og hraunótt. Það er ekki aðeins, að þar sé hraun við hraun, heldur liggur þar víða hraun á hrauni. Mjög eru þessi hraun misgömul, en flest eru þau miklu eldri en mannabyggð á landi hér.
Ólafur Þ. KristjánssonEitt þessara hrauna er svonefndur Bruni, úfið hraun, lítt gróið og illt yfirferðar. Eru hæg heimatökin hjá Hafnfirðingum að kynna sér útlit og yfirborð hraunsins sjálfir, eins og margir þeirra hafa raunar gert, en til fróðleiks og samanburðar skal hér sýnt, hvernig þetta hraun kom útlendum mönnum fyrir sjónir 5. september 1772, en þann dag var hinn nafnkunni Englendingur, Sir Joseph Banks, þar á ferð, og segir hann frá á þennan veg (þýðing dr. Jakobs Benediktssonar í Skírni 1950, bls. 218-219): „Herra Troil og ég gengum í dag framhjá stað sem á kortinu er kallaður Hvaleyri og rákumst þar af tilviljun á hraunstraum sem virtist geysi-viðáttumikill og þakti allt landið eins langt og augað eygði og fyllti hvern dal á hvora hlið sem var meðfram rennsli sínu. Frá jaðrinum og hér um bil hálfa mílu í áttina að miðjunni var hann eintómar smáhæðir, og yfirborð þeirra var yfirleitt fremur slétt, en gárótt alveg eins og málmur eftir bræðslu, þegar gjallið fer að harðna ofan á honum. Þessar gárur höfðu fengið á sig þúsundir ólíkra myndana, líklega eftir því sem vindur eða aðrar orsakir höfðu haft áhrif á hið bráðna efni. Inni í hrauninu var staður sem hægara er að ímynda sér en lýsa. Hraunstraumurinn hafði hér verið hraður og stöðugt brotið flögur af yfirborði sínu jafnóðum og það storknaði. Þessar flögur hafði hann borið með sér, oft á rönd, og hlaðið upp hólum sem voru aðallega úr steinhellum, oft mjög stórum, sem stóðu á rönd. Óþolandi var að ganga á þeim og auganu voru þær sundurtættari en nokkur hlutur sem ég hef áður séð. Þetta svæði var nærri tvær mílur á breidd, en hinum megin var flatlendi, þakið sléttu hrauni eins og áður var lýst, eins langt og augað eygði, sennilega allt frá rótum næstu fjalla, hér um bil tíu mílur frá okkur. Fyrir neðan okkur var sjórinn, en í hann hafði þessi gífurlegi eldstraumur runnið.“

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

Hraun þetta, Bruninn, helur komið úr gígaröðum uppi við Undirhlíðar og fallið í sjó fram. Telja jarðfræðingar, að það hafi verið eftir að land byggðist, en þó á fyrstu öldum byggðarinnar. Má telja víst, að það sé þetta hraun, sem í annálum er kallað Nýjahraun fyrir utan Hafnarfjörð. Svo Ber og að orði komizt í landamerkjaskrám, að mörkin milli Hvaleyrar og Straums séu í norðurbrún Nýjahrauns.
Ekki er að efa, að ferðalög á landi hafa verið töluverð suður með sjó þegar á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, og vegurinn sennilega legið suður frá Hafnarfirði á svipuðum slóðum og hann liggur enn. Þegar svo hraunið rann, hefur sú leið teppzt með öllu, og hefur þá orðið að krækja upp á Undirhlíðar, ef á landi átti að fara. Má nærri geta, hve þægilegt það hefur verið, eins og land á skaganum er yfirferðar. Það hefur þess vegna efalaust verið reynt að ryðja veg yfir hið nýrunna hraun eins fljótt og lært hefur þótt. Sjálfsagt hefur það verið gert, meðan hraunið var enn volgt eða jafnvel heitt undir niðri, þótt ylirborðið væri orðið storkið. Mætti ætla, að ýmsum hafi þótt þetta dirfskuverk mikið og ekki hættulaust.

Kapella

Kapellan og Alfaraleiðin t.h.

Vegurinn hefur legið yfir hraunið öldum saman á sama stað og hann var lagður í öndverðu, því að engar minjar sjást um reiðgötu yfir það nema þar. Var sá vegur notaður þar til akvegur var lagður yfir hraunið nokkru ofar. Gamli vegurinn var sléttur og vel ruddur, hvort sem svo vandlega hefur verið frá honum gengið í byrjun eða bætt um síðar. En krókótt hefur hann legið, eins og vænta mátti, þar sem reynt var að rekja sléttustu leiðina og sneiða hjá mishæðum.

Árni Helgason

Árni Helgason.

Rétt neðan við veginn svo sem miðja vega í hrauninu stendur rúst eða tóft hlaðin úr grjóti. Hún hefur lengi gengið undir nafninu Kapella, og hefur neðsti hluti hraunsins tekið nafn af henni og nefnist Kapelluhraun.
Séra Árni Helgason í Görðum nefnir Kapelluna í sóknarlýsingu 1842 og getur þess, að fólk segi, að „þar séu dysjaðir þeir menn frá Bessastöðum, sem drepnir hafi verið í hefnd eftir Jón biskup Arason 1551, er ólíklegt þykir satt geti verið.“ — Það er víst óþarfi að taka það fram, að þarna liafa aldrei neinir menn verið dysjaðir.
Önnur sögn hermir, að eftir að Norðlendingar höfðu drepið Kristján skrifara suður á Kirkjubóli á Miðnesi seint í janúar 1551, hafi lík hans verið flutt landleið til Bessastaða til greftrunar. Hafi dagur ekki enzt til fararinnar og Kapellan svonefnda þá verið hlaðin til þess að geyma líkið í til næsta dags.

Joseph Banks

Joseph Banks – 1743-1820.

Þessi saga nær auðvitað engri átt. Það hefur verið miklu meira verk að hlaða Kapelluveggina en flytja líkið inn á Hvaleyri, en þar var þá byggð, svo að hægt hefði verið að setja það inn í hús. Hitt gæti frekar átt sér stað, ef færð hefur verið slæm og flutningsmenn orðið dagþrota í Kapelluhrauni, að lík Kristjáns hafi verið geymt náttlangt í Kapellunni, hafi hún staðið þar fyrir, eins og líklegt má þykja, að verið hafi. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi segir heldur ekki annað í grein sinni um Kapelluna í Árbók Fornleifafélagsins 1903 (bls. 34) en að þar sé sagt „að lík Kristjáns skrifara hafi verið náttsett“.
Ekki virðist það ólíklegt, sem menn hafa gizkað á, að Kapellan hafi verið reist í hrauninu miðju, þegar vegurinn var ruddur yfir það nýrunnið, og hafi hún verið raunveruleg kapella eða bænhús, ætlað til þess að menn bæðust þar fyrir, ekki einungis þeir menn, sem lokið höfðu hinu háskasamlega verki, vegarruðningu í heitu hrauni, heldur og aðrir ferðamenn, er leið ættu hér um. Var þetta allvíða gert í kaþólskum löndum, að reisa lítil bænhús við vegi, ekki sízt þar sem vandfarið var eða hættulegt.

Uno von Troil

Uno von Troil – 1746-1803.

Vorið 1950 rannsakaði dr. Kristján Eldjárn þjóðminjavörður Kapelluna ásamt fleiri mönnum. Hefur hann ritað glögga skýrslu um þá rannsókn í Árbók Fornleifafélagsins 1955—1956, bls. 5—15. Er hér farið eftir þeirri frásögn um allt, er Kapelluna varðar og þá gripi, sem í henni fundust, en miklu ýtarlegri er þó skýrsla fornminjavarðar, og verður að vísa þeim til hennar, er meira vilja vita um þetta efni.
Kapellan snýr nokkurn veginn frá austri til vesturs, og hafa dyrnar verið á vesturgafli, eins og tíðkast hefur á guðshúsum. Hún er 2,40 m á lengd að innan, en breiddin er 2,20 m við vesturgaflinn, en 2,10 m við austurgafl. Veggirnir hafa verið hlaðnir úr hraunhellum og vel og vandlega frá hleðslunni gengið. Þykktin hefur verið um einn metri.

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn.

Ekki er vitað, hvernig þakið hefur verið. Ætlar þjóðminjavörður helzt, að það hafi verið uppreft og hvílt á mæniás. Hefur húsið verið vel manngengt, að minnsta kosti í miðjunni. Allt telur þjóðminjavörður benda til þess, að hús þetta hafi verið kapella, enda mæli ekkert á móti. Segir þá nafnið á rústinni rétt til um upphaflega notkun hennar. Dýrlingslíkneski lítið, er þar fannst, bendir og til hins sama.
Það er langt frá Kapelluhrauni til Litlu-Asíu, en þó víkur nú sögunni þangað, til borgar þeirrar, er Nikomedia hét og stóð í miklum blóma á öldunum fyrir og eftir Krists fæðingu, þrátt fyrir jarðskjálfta og árásir óvina.
Snemma á 3. öld eftir Krist var í borg þessari heldri maður, sem átti dóttur forkunnarfríða, sem Barbara hét. Var hann svo gagntekinn af fegurð dóttur sinnar, að hann tímdi engum manni að gefa hana og læsti hana inni í rammgerðum turni, til þess að gárungarnir gleptu hana ekki. Þó lánaðist einum af hinum vísu kirkjufeðrum, þeim er Origenes hét, að komast inn til hennar, og kenndi hann henni kristna trú með þeim árangri, að hún lét skírast. Af þeim sökum lét hún gera þrjá glugga á baðherbergi sitt, þar sem ekki áttu að vera nema tveir, og gerði hún það til að minna á heilaga þrenningu. Jafnframt lét hún gera krossmark í vegginn. Líkaði föður hennar illa, er hann komst að þessu, því að hann var trúmaður mikill í gömlum stíl. Segja sumir, að nú hafi hann gjarnan viljað gifta hana, en hún neitað öllum biðlum og sagzt vera brúður Krists og engum dauðlegum manni gefast. Hitt ber öllum saman um, að faðir hennar reiddist svo þrákelkni hennar, því að hún vildi með engu móti leggja niður kristinn sið, að hann seldi hana í hendur yfirvöldum borgarinnar. Höfðu þau við hana hvers konar fortölur, en hún lét ekki skipast við þær. Var hún þá beitt margvíslegum harðræðum, en allt kom fyrir ekki, hún var staðföst í kristinni trú. Var hún þá að lokum hálshöggvin, en elding af himni laust jafnskjótt böðul hennar til bana.
Heilög BarbaraEnginn veit með vissu, hve mikill sannleikur felst í þessari fornu frásögn. Hitt er víst, að Barbara var snemma tekin í helgra manna tölu, og er með vissu vitað, að hún var dýrkuð á 7. öld. Seinna var hún talin ein af fjórum fremstu kvendýrlingum kirkjunnar, en hinir voru þær Katrín helga, Margrét helga og Dórótea helga.
Gott þótti að heita á Barböru helgu í þrumuveðri og hvers kyns óveðri og einnig til varnar gegn húsbruna. Þá varð hún og verndardýrlingur þeirra manna, sem að sprengingum störfuðu, svo sem námumanna og stórskotaliðsmanna. Púðurgeymslur í frönskum og spænskum herskipum voru kallaðar nafni hennar (Saint Barbre og Santa Barbara). — Enn þótti gott að heita á hana, þegar búast mátti við bráðum bana.
Ekki er vitað með vissu, hvort tilbeiðsla heilagrar Barböru hefur verið meiri eða minni hér á landi. Sennilega hefur hún verið allmikil eins og annars staðar. Engin kirkja hér á landi var þó helguð henni fyrst og fremst, en hún var meðal verndardýrlinga tveggja: Reykholtskirkju í Borgarfirði og Haukadalskirkju í Biskupstungum. Getið er um líkneki af henni í kirkjum. Myndir af henni voru á ýmsum altaristöflum, sem enn eru til, og einnig voru þær saumaðir í prestsskrúða, til dæmis að taka í kórkápu Jóns biskups Arasonar. Sagan um hana var snemma þýdd á norrænt mál, og um hana var ort kvæði (Barbárudiktur).

Barbara

Heilög Barbara – altaristafla í Varsjá í Póllandi.

Barbara hefur aldrei orðið algengt kvenmannsnafn hér á landi. Þó hafa nokkrar konur borið það nafn bæði fyrr og síðar. Á myndum er Barbara iðulega látin standa á turni, sem oft er með þremur gluggum. Stundum er fallbyssum komið fyrir hjá turninum. Það ber og við, að mærin heldur á turninum í fangi sér.
Þegar rústin í Kapelluhrauni var rannsökuð 1950, fundust þar ýmsir smáhlutir, þar á meðal brot úr rafperlu, 3 leirkersbrot rauðleit, krítarpípuleggur og 3 skeifubrot. En miklu merkast af því, sem þar fannst, var líkneski heilagrar Barböru. Lýsir dr. Kristján Eldjárn þjóðminjavörður því á þennan veg í áðurnefndri ritgerð í Árbók Fornleifafélagsins: “Mynd af heilagri Barböru, telgd úr grágulum leirsteini, aðeins efri hluti eða vef niður fyrir mitti, fannst í þremur hlutum, sem auðvelt var að fella saman.
Kapella
Myndin eða líkneskið er nú aðeins 3,3 sm á hæð, en hefur líklega verið um 5,5 sm heilt. Það er haglega telgt, andlitið nokkuð máð, hár mikið og hrokkið og nær niður á herðar og sveigur um yfir ennið. Barbara er í flegnum kjól, aðskornum í mitti, barmurinn hvelfdur, kjóllinn í miklum fellingum neðan beltis. Hún grípur hægri hendi í kjólinn, og sést, að hann er ermalangur. Skikkju slegna hefur hún yfir um axlir, og fellur hún með stórum, mjúkum fellingum á baki. Í vinstri hendi heldur Barbara á einkunn sinni, turninum, og hvílir hann við vinstri öxl og upp með vinstri vanga hennar. Turninn er ferstrendur með undirstöðu neðst, síðan nokkru grennri bol, þar sem tveir gluggár sjást, sinn á hvorri hlið, slær sér síðan aftur út líkt og neðst, en upp úr hefur loks verið toppur, sem nú er að miklu leyti brotinn af. Sýnilegt er, að einhvern tíma hefur verið brugðið knífi á líkneskinu, sennilega til að kanna efnivið þess, eins og menn gera oft fyrir forvitni sakir. — Lítið brot úr samskonar eða mjög líkum steini fannst einnig í tóftinni skammt frá Barbörulíkneskinu. Það er tiltelgt og mætti vel vera úr neðri hluta myndarinnar, þótt ekki sé hægt að koma því í samhengi nú.” Við þessa lýsingu þjóðminjavarðar er engu að bæta öðru en því, að líkneskið skipar nú virðulegt sæti í sýningarsal Þjóðminjasafns.
Kapella
Það er augljóst af stærð líkneskisins, að það hefur verið ætlað til þess að menn bæru það á sér sem verndargrip og tækju það gjarnan upp og gerðu til þess bæn sína, þegar þeim þótti mikils við þurfa á ferðalögum eða við aðrar aðstæður.
En hvernig var þetta líkneski komið í kapelluna í Nýjahrauni? Gæti hugsazt, að það hafi verið sett upp í kapellunni, þegar hún var nýreist, og kapellan gerð, þegar vegurinn var ruddur yfir Nýjahraun? Kristján Eldjárn minnir á, að gott þótti að heita á Barböru í háska af eldi, húsbruna og sprengingum, og segir síðan: „Mundi hún þá ekki einnig hafa dugað vel gegn háska af völdum jarðelds og hraunbruna? Ef rennsli Nýjahrauns og háski þess á einhvern þátt í upphafi kapellu á þessum stað, er máske Barbara mær sá meðal helgra manna, sem eðlilegast er að hitta þar fyrir, úr því á annað borð svo ótrúlega heppilega vildi til, að nokkur dýrlingsmynd fannst.”
En það gæti líka hugsazt, að ferðamaður hefði gleymt líkneskinu þarna eða týnt því. Kannske það hafi verið unglingur, sem í fyrsta sinn fór í verið til Suðurnesja og hafði fengið líkneskið að gjöf sér til verndar, þegar hann kvaddi móður sína fyrir norðan eða kannske ömmu sína, og tók nú líkneskið upp, þegar hingað kom, til þess að biðja hina helgu mey verndar í ókomnum háska?

Kapella

Kapellan í Kapelluhrauni endurgerð.

Kannske það hafi líka verið aldurhniginn maður, sem marga bratta báru hafði séð og aldrei látið undir höfuð leggjast að biðja Barböru að vernda sig á vertíðinni? Og vissi það á eitthvað, að líkneskið týndist? Boðaði það feigð? Eða átti það kannske öldungur, sem fór frá sjó í síðasta sinn og tók það upp til þess að þakka Barböru helgu fyrir vernd og varðveizlu á langri ævi? Skyldi hann það kannske eftir vísvitandi þarna í kapellunni? Var það þá gert í þakkarskyni? Eða var kominn nýr siður í land, svo að öruggast væri að láta ekki líkneski heilagra manna finnast í fórum sínum?
Við getum spurt og spurt. En heilög Barbara, gerð úr tálgusteini, horfir með heiðum svip og óræðum augum fram undan sér og svarar engu. Þó flytur hún, þar sem hún situr í skáp sínum í Þjóðminjasafni, með sér andblæ frá þjóðlífi, sem var, en er ekki lengur.”

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 16.12.1961, Kapellan í hrauninu og heilög Barbara – Ólafur þ. Kristjánsson, bls. 4-5 og 12.

Kapella

Kapellan 2022.

Kappella

Gengið var um Nýjahraun, síðar nefnt Kapelluhraun, frá kapellunni ofan við Álverið við Straumsvík. Skoðaðar voru m.a. leifar hins gamla krákustígs í gegnum hraunið, en enn sést móta fyrir honum á tveimur stöðum. Hraunið sjálft er margbrotið og víða í því hinar fuðurlegustu myndanir. Sjá má t.d., ef vel er að gáð, skapara þess birtast í því í ýmsum myndum, líkt og væri hann að líta yfir unnin afrek.

Kapella

Kapella – skilti.

Við kapelluna eru tvö skilti, annað frá Byggðasafni Hafnarfjarðar og hitt frá Þjóðminjasafninu. Upplýsingarnar eru svipaðar. Friðlýsingarmerki er við innganginn. Á öðru skiltinu segir að talið sé að Kapelluhraun hafi runnið á 11. öld. Á hinu segir að hraunið hafi runnið á 13. eða 14. öld. Nú liggur hins vegar fyrir að hraunið rann hvorki á 11. eða 13. öld, heldur árið 1151. Venjulegur ferðamaður gæti hæglega orðið ráðvilltur þarna og það áður en hann kemur að sjálfum “fornminjunum”. Á sama hátt og upplýsingarnar á staðnum eru misvísandi er kapellan sem fornleif varla “sjálfri sér samkvæm”. Grunnmynd á skilti sýnir ferhyrnda tóft, eins og dr. Kristján Eldján rissaði hana upp á sjötta áratug 20. aldar. Innanmálið er að vísu ferhyrnt svo fá má á tilfinninguna að þar og þannig hafi gólfflöturinn verið upphaflega, en utanmál kapellunnar, eins og hún er í dag, er fremur sporöskjulaga. Önnur, gömul mynd, tekin við sama tækifæri, sýnir að mestu hrunda mosavaxna kapelluna í úfnu hrauninu, en nú er hún svo formlega löguð, ber og svo vel uppi standandi að varla getur talist um forna leif sé að ræða – nema að hluta til. Endurgerð fornleif stendur þó ávallt fyrir sínu – a.m.k. að ákveðnu marki.

Kapella

Alfaraleiðin við kapelluna.

Annar hluti gamla stígsins, sem enn sést, er sunnan við kapelluna. Sennilega er um einskæra tilviljun að ræða að hann skuli hafa fengið að halda sér. Hinn hlutinn er þar sem komið er inn í hraunið af Alfaraleiðinni norðan við Gerði. Í örnefnalýsingu segir m.a. um stíg þennan: “Alfaraleiðin út á Útnes lá svo að segja um túnblettinn. Hann lá yfir Kapelluhraunið, eða Brunann, eins og það var stundum nefnt, síðan lá leiðin áfram, þar til komið er í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri. Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys. Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum”.

Þorbjarnastaðaborg

Fjárborg Þorbjarnastaðafólksins.

Kapelluhraunið hefur að geyma marga fornleifina. Þá þar nefna Þorbjarnastaðaborgina neðan við Brunntorfur, garða og hleðslur ofan við Gerði, hlaðnar brýr og byrgi skammt norðan við gasstöðina. Þá liggja yfir hraunið fornar götur og syðst í því eru myndarlegar hrauntraðir.
Álverið við Straumsvík stendur á Kapelluhrauni, eða Nýjahrauni eins og það fyrst var nefnt, og er allra yngsta hraunið á svæðinu í kringum Hafnarfjörð. Það er frá árinu 1151 skv. upplýsingum frá Íslenskum orkurannsóknum. Það á upptök undir Undirhlíðum og hefur komið úr gígaröðum, sem virðast vera tengdar misgengissprungum. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu hjá Krísuvíkurkerfinu. Þá opnaðist gossprunga undir Undirhlíðum sem var alls um 25 metra löng en slitin í miðjunni.

Kapella

Kapellan.

Kapelluhraun rann norðan á skaganum og til sjávar og myndað þar tanga, en vestan undir honum er Straumsvík.
Kapelluhraun er ákaflega fallegt úfið og mosagróið apalhraun en hörmung er að sjá hvernig karganum hefur verið rutt af yfirborði þess á stórum svæðum. Hraunið er fínkornótt með einstaka tiltölulega stórum dílum. Dílarnir eru oftast plagioklas, pyroxen og einstaka ólivín. Stærð hraunsins er 11,6 km2. Gamli krákustígurinn, sem eitt sinni var ruddur í gegnum hraunið, hefur að mestu verið eyðilagður að undanskildum fyrrnefndum um 6 metra kafla við litla rúst í hrauninu, sem er nefnd kapellan og á fyrrnefndum stað í vestanverðum hraunjaðrinum.

Kapella

Kapellan 1964.

Árið 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn þessa kapellu og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Hún var góð til áheita gegn hvers konar eldsgangi. Einnig var hún verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðs- manna, námumanna, verkfræðinga og jarðfræðinga. Kapellutóftin er á fornminjaskrá og þar má sjá eftirlíkingu af líkneskinu. Fróðlegt er að skoða ljósmyndir, sem teknar voru af tóftinni við upphaf rannsóknar Kristjáns Eldjárns og félaga, en á þeim m.a. úfið mosahraunið og einungis hluti kapellunnar standa upp úr því.

Kapella

Kapella – skilti.

Miklar framkvæmdir hafa verið í kringum Álverið í Straumsvík, auk þess sem Skógrækt ríkisins, fyrrum eigandi svæðisins, hefur leyft töku á gífurlegu efnismagni úr hrauninu. Þá hefur það verið sléttað út á stóru svæði og óþarflega miklu magni efnis hefur verið rutt út yfir hraunjaðrana. Þegar horft er yfir svæðið virðast “skemmdirnar” hafa bæði verið óstjórnlegar og að stórum hluta óþarfa ómarkvissar.
Nú eru jafnvel fyrirhuguð stækkun á Álverinu. Fyrirtækið hefur m.a. í því skyni fest kaup á landinu ofan þess.
Hjörleifur Guttormsson, fyrrum alþingismaður, skrifaði Skipulagsstofnun árið 2002 þar sem hann geldur vara við frekari framkvæmdum Álversins í Kapelluhrauni. Með bréfi sínu til stofnunarinnar gerir hann athugasemdir og bendir á náttúruvá sem steðjað getur að mannvirkjum við Straumsvík og lítil sem engin skil eru gerð í matsskýrslu vegna stækkunar álverksmiðju ÍSALs.

Kapella

Kapella – skilti.

Þegar álverksmiðja var staðsett og reist við Straumsvík fyrir um aldarþriðjungi gerðu menn sér litla sem enga grein fyrir samhengi eldvirkni og hraunstrauma á svæðinu. Síðan hafa verið gerðar ítarlegar rannsóknir á eldvirkni á Reykjanessskaganum, gosstöðvar frá nútíma verið staðsettar og hraunstraumar sem frá þeim hafa runnið eftir að ísöld lauk, sumpart eftir landnám.
Guðmundur Kjartansson fjallar m.a. um aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð árið 1973. Grein hans birtist í Náttúrufræðingnum 42. 159-183. Jón Jónsson gerði jarðfræðikort af Reykjanesskaga 1978. Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson rituðu um Krýsuvíkureldaa I. – Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins – í tímaritið Jökull árið 1989, 38. 71-87. Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir rituðu einnig um Krýsuvíkurelda II. – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns yngra – í Jökul árið 1991, 41. 61-80. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson rituðu um hraun í nágrenni Straumsvíkur í Náttúrufræðinginn 1998, 67. 171-177.

Kapelluhraun

Kapelluhraun.

Páll Imsland ritaði um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu í Náttúrufræðinginn árið 1998, 67. 263-273. Hann taldi þar að Kapelluhraun væri frá 13. öld.
Af þessum rannsóknum og greinum höfunda má m. a. ráða, að líkur séu á að þunnfljótandi hraunstraumar geti runnið í sjó fram frá gosstöðvum vestan Undirhlíða og víðar yfir það svæði sem núverandi álverksmiðja stendur á auk þess sem önnur mannvirki svo sem raflínur og vegir eru í hættu á þessu svæði og víða í grenndinni.
Sem dæmi má nefna eftirfarandi úr grein Hauks Jóhannessonar og Sigmundar Einarssonar 1998, s. 175,

Kapella

Kapellan – uppdráttur KE.

“Yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess. Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krísuvíkurrein árið 1151 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1989). Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni. Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krísuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík … Álverið í Straumsvík stendur á hrauninu”.
Í niðurlagi greinarinnar segja höfundar m. a. (s. 177):

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

“Eldgos á Rekjanessskaganum virðast koma í hrinum og á milli er minni virkni. Hrinurnar verða á um þúsund ára fresti og hver hrina stendur yfir í nokkur hundruð ár. Síðasta hrinan hófst upp úr miðri tíundu öld og endaði um 1240. Í hverri hrinu verða umbrot í öllum eldstöðvareinunum á skaganum og í síðustu hrinu færðist virknin frá austri til vesturs. Einnig er nokkuð víst að verði eldgos í Brennisteinsfjöllum og í norðanverðum Móhálsadal munu hraun þaðan renna niður til strandar milli Hrútagjárdyngjunnar og Hvaleyrarholts, sömu leið og Hellnahraun eldra og yngra og Kapelluhraun.
Af ofansögðu er ljóst að hraun geta runnið til Straumsvíkur bæði frá Brennisteinsfjallarein, en þar gaus síðast á 10. öld, og frá Krísuvíkurein þar sem síðast gaus um miðja tólftu öld. Síðast urðu með vissu eldsumbrot á Reykjanesskaga á fyrri hluta 13. aldar í Reykjanesrein. Nær útilokað er að hraun frá gosum í þeirri rein geti runnið til Straumsvíkur en hins vegar gæti þar hugsanlega orðið vart landsigs vegna meðfylgjandi gliðnunar í reininni”.

Kapella

Kapellan áður en hún var grafin upp.

Í grein sinni um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu (sjá nr. 6 hér að ofan, s. 271) segir Páll Imsland m. a.:
“Eftir Krýsuvíkurelda á 13. öld hafa ekki komið upp hraun í nágrenni Straumsvíkursvæðisins. Landslagi er þannig háttað að hraun sem koma upp vestanundir Undirhlíðum eiga ekki annarra kosta völ en að renna út á hraunflákana til vesturs og norðurs og leita undan halla og þrýstingi frá kvikunni sem flæðir úr gígunum í átt til strandar, í átt að Straumsvík. Áður en að álverinu sjálfu kemur eru raflagnir, spennuvirki, þjóðvegur og fleira slíkt í rennslisleiðum hrauna; mannvirki sem skipta verulegu máli, bæði fyrir starfrækslu álversins og alla byggð sunnar á skaganum. Það er því ljóst að hraunflóðahætta er þarna til staðar, en ekkert er þekkt sem bendir til yfirvofandi hættu. Náttúran á svæðinu hefur ekki sýnt nein þekkjanleg merki þess að þarna séu eldgos í uppsiglingu. Á hitt ber samt að líta að þetta er afkastamikið, virkt eldgosasvæði þar sem ekki hefur gosið í um 850 ár, og til eru vísbendingar um að virknin á Reykjanesskaganum gangi í hrinum með nokkurra alda aðgerðarlitlum hléum. Hrinur þessar einkennast af jarðskjálftum, sprungumyndun og eldgosum.”

Kapelluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort ISOR.

Í greininni “Hamfarir á höfuðborgarsvæðinu” eftir Þórdísi Lilju Gunnarsdóttur, sem birtist í tímaritinu Ský, 6 2001-2002, s. 36, má lesa eftirfarandi:
“Í Kröflueldum í september 1984 rann glóandi hraunáin um tíu metra vegalengd á sekúndu. Það gera 36 kílómetrar á klukkustund. Að mati jarðfræðinganna Páls Imslands og Karls Grönvolds er það álíka hraði og væri á nýju hrauni við höfuðborgina í dag. Því myndi hraunelfan geta náð efstu byggðum borgarinnar á fáum klukkustundum … Ef eldgos brytist út í Húsfelli, Búrfelli eða Trölladyngju gæti hraun runnið niður Kúagerði og yfir Reykjanesbraut, yfir álverið í Straumsvík, rafstöðina við Hamranes og nýjustu byggð Hafnfirðinga sunnan við Reykjanesbraut sökum þess hve Reykjanesskaginn er mjór sunnan við Hafnarfjörð. Í miklum hamförum á þessum slóðum gæti hraun einnig náð til byggðar í Garðabæ og yfir Álftanesið.”
– Þótt hér sé stiklað á stóru af blaðamanni eru ábendingarnar þó umhugsunarverðar.”

Hraunkarl

Hraunkarl í Kapelluhrauni.

Fornleifavernd ríkisins segir að “hraunið dragi nafn sitt af Kapellunni, rúst af litlu húsi skammt frá veginum vinstra megin þegar ekið er suður Reykjanesbrautina. Sen fyrr segir rannsakaði Kristján Eldjárn kapelluna ásamt fleirum 1950 og segir svo frá:
“Fyrir sunnan Hafnarfjörð liggur leiðin yfir úfinn brunafláka sem á upptök sín í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Í þessu hrauni er Kapellan og eftir henni heitir hraunið Kapelluhraun, en hefur heitið Nýjahraun á miðöldum, því að það hefur runnið eftir að land byggðist, líklega þó mjög snemma á öldum. Kapellan er lítil opin húsarúst rétt við gamla krákustíginn, sem ruddur hefur verið þegar eftir að hraunið rann og hefur verið alfaraleið út á nes öldum saman.“
Kapellan er 2,40 m á lengd og 2,10 m á breidd að innanmáli.

Kapella

Kapellan í Kapelluhrauni.

Veggirnir eru hlaðnir úr hraunhellum og að mestu uppistandandi.
Við uppgröftinn 1950 fundust allmargir gripir. Sá merkasti þeirra er lítið líkneski af heilagri Barböru, brotið um mjaðmir en nú um 3,3 cm á hæð. Líkneskið er varðveitt í Þjóðminjasafni (Þjms. 14293). Þessi fundur bendir til þess að hús þetta sé í raun og veru kapella frá katólskum tíma og að ferðamenn um hraunið hafi komið þar við og gert bæn sína.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá því að einn af mönnum Kristjáns skrifara hafi verið drepinn í Kapelluhrauni og grafinn í kapellunni til hefnda eftir Jón biskup Arason og syni hans. Engin ummerki benda þó til þess að þessi sögn eigi stoð í raunveruleikanum, en sagan er góð búbót við annars sagnaríkt umhverfi á sögulegum tíma.

Kapellan

Kapellan – sjá má leifar Alfaraleiðarinnar, sem lá framhjá henni.

ISOR (Íslenskar orkurannsóknir) kveða á um á vefsíðu sinni að aldur Kapelluhrauns sé 1151. Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þetta ár tók af stórbýlið Krísuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum.
Kapelluhraunið er stórbrotið í tvennum skilningi. Annars vegar hefur hraunið mikið gildi vegna þess að það rann á sögulegum tíma og því merkilegt náttúrfyrirbæri sem slíkt. Hins vegar hefur óhóflegum hluta þess verið spillt af mannavöldum. Á því hefur því verið stórlega brotið.

Kapella

Kapellan í Kapelluhrauni endurgerð.

Við þetta má bæta að fyrrnefnd kapella er ekki óhreifð eða óröskuð fornleif í þeim skilningi orðisins. Hún er ónákvæm endurgerð fornleifar frá því um 1960 og virðist nú stenda á sínum upprunalega stað – sem von um fyrirgefningu fyrir fyrrum eyðileggingu. En staðurinn, þar sem hin forna kapella var, er engu að síður merkilegur, bæði út frá fornleifalegum sem og sagnfræðilegum skilningi.
Hins vegar mætti vel, án tilfallandi skaða, ef byggja ætti á annars röskuðu hrauninu, endurreisa kapelluna á ósnortnu hrauninu vestan og ofan við Vestari Brunaskarð, við gömlu götuna skammt ofan við Gerði þar sem alfaraleiðin liggur upp á það. Kapellan yrði þar engu minni “fornleif” en nú er. Mannvirkið “gekk úr sér” á sínum tíma og “týndist”, en var síðan “endurvakið” með fyrrnefndum uppgrefti.
KapellaSem slíkt hefur staðurinn einungis tilfinngalegt gildi líkt og hver annar staður gæti haft með sama tilgang, hvar sem hann er á hverjum tíma. Það hefði hvorki áhrif á sagnfræðina né fornleifafræðina sem slíkar. Í henni mætti taka upp hvaða kvikmynd sem er án þess að til mótmæla kæmi.
Kapellan á Hraunssandi, fyrrum einnig nefnd Dysin, er sambærilegt mannvirki, en öllu merkilegri. Hún var grafin upp á svipuðu tíma, urðuð á ný og hefur því ekki verið “endurgerð”. Við hana eiga að vera grafinn á þriðja tugur manna, án þess að staðnum sé sýnlega nokkur virðing sýnd.
Frábært veður. Gangan tók 2 kls. og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.flensborg.is
-http://www.eldhorn.is
-http://www.isor.is/stadlar/hraun/allt_um_hraun.html
-http://www.reykjanesbaer.is
-Kristján Eldjárn: Heilög Barbara mær og kapella hennar. Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Rvk. 1973, 88.
-Kristján Eldjárn. Kapelluhraun og Kapellulág. Fornleifarannsóknir 1950 og 1954. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1955-1956. Rvk. 1957, bls. 5-34.
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar. II bindi. Rvk. 1954, bls. 78.

Kapella

Kapellan með friðlýsingaskilti framan við.

Kapella

Í bókinni “Allt hafði annan róm áður í páfadóm – Nunnuklaustrin tvö á Íslandi á miðöldum og brot úr kristnisögu”, sem Anna Sigurðardóttir tók saman 1988, er kafli;  “Heilög Barbara og kapellan í hrauninu”:

Heilög Barbara og kapellan í hrauninu
Kapella
„Bandalag kvenna í Hafnarfirði hefur samþykkt að láta gera félagsmerki. Fyrir valinu varð myndastytta frá fyrri öldum, sem fannst árið 1950 í Kapellunni við gamla Suðurnesjaveginn, nálægt þar sem verksmiðjan í Straumsvík stendur núna.
Þáverandi þjóðminjavörður, Kristján Eldjárn, gróf í gólf kapellunnar og fann þar ofurlítið konulíkneski, sem hann sá undir eins að átti að tákna heilaga Barböru, en hún er sýnd í kirkjulegri myndlist með turn í fanginu.
Þessi litla konumynd mun vera elsta mannsmynd, sem fundist hefur í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar.
Kennimerki Hafnarfjarðarkaupstaðar er viti. Hafnfirskum konum finnst þess vegna eiga vel við að taka þessa fornu konumynd sem merki Bandalagsins, þar sem konan heldur á turni, sem þá er eins og nokkurs konar samsvörun við vita Hafnarfjarðar.
Kapella
En þannig stendur á þessum turni heilagrar Barböru, að hún var kaupmannsdóttir í Litlu-Asíu um 300 árum eftir Krists burð. Þá voru miklar ofsóknir gegn kristnum mönnum. Barbara kynntist kristnum mönnum og gerðist kristin á laun, því að faðir hennar var heiðinn. Þegar hann komst að því, að dóttir hans var orðin kristin, gerði hann allt sem hann gat til að hræða dóttur sína frá trú hennar. Meðal annars lét hann reisa turn, þar sem Barbara átti að sitja innilokuð til þess að hún gæti ekki haft samband við kristna menn. Hún bað þá föður sinn að lofa sér að hafa þrjá glugga á turninum, og faðirinn leyfði það. Síðan spurði hann Barböru, hvers vegna hún hafi viljað hafa gluggana þrjá. Hún svaraði: Þrír merkja föður, son og heilagan anda. Varð þá faðirinn ákaflega reiður og seldi dóttur sína í hendur böðlinum, og var hún loks hálshöggvin fyrir tryggð sína við kristna trú.
Ein af þeim píslum, sem Barbara gekk í gegnum, var að logandi blysum var haldið að líkama hennar. En hún lét ekki bugast fyrir það. Síðan fóru menn að heita á Barböru til hjálpar gegn eldsvoða af ýmsu tagi. (Barbárumessa er 4. desember).
kapellaHraunið, þar sem kapellan stendur, er talið hafa runnið á 13. öld og kom úr Óbrennishólum við Undirhlíðar. Þetta hraun rann yfir alfaraveginn á Suðurnes.
Hvers vegna þessi kapella var reist, vita menn ekki, en fræðimenn hafa giskað á að þarna hafi fólk gert bæn sína áður en það lagði leið sína yfir nýrunnið hraunið. Það er líka einkennileg tilviljun að einmitt í þessari kapellu skuli finnast mynd þessarar helgu konu, sem menn hétu á sér til hjálpar gegn eldsvoða. Myndin er núna á Þjóðminjasafninu og geta allir séð hana þar þó lítil sé.
Bandalag kvenna í Hafnarfirði hefur fengið Gunnar Hjaltason gullsmið og listamann til þess að gera myndamót af Barbörumyndinni úr Kapellunni, og verður það notað sem merki á skjöl félagsins. Gunnar hefir líka verið beðinn að gera hálsmen með sömu mynd, og geta konur keypt það sem félagsmerki.“
Nokkrum árum eftir að Sigurveig Guðmundsdóttir skrifaði þessa grein birtist eftir hana bókarkorn (27 blaðsíður) um hl. Barböru úr Heilagra manna sögum um líf hennar og píslir. Þar eru og nokkur erindi úr Barbörudikti sem menn hafa geymt í minni og sungið allt fram á 19. öld.
Kapella
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er ein saga um Kapelluhraun: “Í Gullbringusýslu er hraun eitt mikið milli Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandar og heitir nokkur hluti þess Kapelluhraun og dregur nafn af kapellu sem í því stendur. Hún er að norðanverðu við veginn, hlaðin upp af hellugrjóti í lögun eins og borg. Dyrnar hafa snúið móti suðri, en nú eru þær fullar af mold og mosa. Kapellan er og hærri að norðan en sunnan. Sagt er að í kapellunni sé grafinn einn af umboðsmönnum þeim sem áður voru á Bessastöðum. Var honum gert umsátur þarna í hrauninu, drepinn þar og grafinn.”
Heilög Barbara er m.a. verndardýrlingur námamanna og jarðfræðinga og þeir tigna hana og tilbiðja. Jarðfræðingar á Orkustofnun minnast Barböru sérstaklega tvisvar á ári allt frá 1980. Þeir halda hátíð í tilefni af messudegi hennar 4. desember og á vorin áður en þeir leggja af stað til rannsókna. Þá fer hátíðin fram í rústum Barbörukapellu í Kapelluhrauni. Þar vígja jarðfræðingarnir hamra sína og tól, gera sér glaðan dag og syngja nýjan Barbörudikt.
Kapella
Fyrsta vísan í Barbörudikti hinum nýja, en það er sálmur til heiðurs Barböru. Lag og texti er eftir Árna Hjartarson jarðfræðing á Orkustofnun, einn Barböruáhangenda þar. Textinn er alls 7 vísur og er Barbörudiktur jafnan sunginn þegar Orkustofnunarmenn koma saman til að minnast síns dýrlings:

Barbörudiktur
Gegn veraldarinnar vélráðum ég verndaður
er með sóma þótt reynt sé að blanda mér
beiskan drykk þá bykarinn fyllist með rjóma. Mín
gætir frú með turn af marmara, minn dýrlingur er Barbara. – (Árni Hjartarson)

Heimildir:
-Íslenskar þjóðsögur og æfintýri – Safnað hefir Jón Árnason, II. Ný útgáfa (Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson), Rvk 1966, Kapelluhraun bls. 74.
-Allt hafði annan róm áður í páfadóm, Heilög Barbara og kapellan í hrauninu, Nunnuklaustrin tvö á Íslandi á miðöldum og brot úr kristnisögu, Anna Sigurðardóttir tók saman, 1988, bls. 326-331.
Kapella

Kappella
Gengið var um Kapelluhraun og Hellnahraun sunnan Hafnarfjarðar. Í göngunni var höfð hliðsjón af skrifum Sigmundar Einarssonar, Hauks Jóhannessonar og Árnýjar Erlu Sveinbjörnsdóttur um Krýsuvíkurelda II – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns, er birtust í Jökli nr. 41 1991.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur.

Gangan hófst við Gerði ofan við Straum, nyrst í vesturjaðri Kapelluhrauns. “Samkvæmt annálum urðu eldgos í Trölladyngjum á Reykjanesskaga árin 1151 og 1188. Líkur benda til að 1151 hafi Ögmundarhraun í Krýsuvík og Kapelluhraun sunnan Hafnarfjarðar runnið er umbrotahrina varð í eldstöðvarkerfi Trölladyngju. Hrinunni lauk líklega 1188 með myndun Mávahlíðahrauns. Umbrotahrinan í heild er nefnd Krýsuvíkureldar. Gossprungan er ekki samfelld en milli enda hennar eru um 25 km. Flatamál hraunanna er 36.5 km2 og rúmmálið er áætlað um 0.22 km3. Vegið meðaltal fimm geislakolsgreininga gefur 68.3% líkur á að hraunin hafi runnið á tímabilinu frá 1026-1153.
Hellnahraun sunnan Hafnarfjarðar er í rauninni tvö hraun og eru bæði komin frá eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla. Yngsta hraunið er sama hraun og Jón Jónsson (1977) hefur nefnt Tvíbollahraun. Það er að öllum líkindum runnið í sömu goshrinu og hraun sem Jónsson (1978a) hefur nefnt Breiðdalshraun. Líklegt er að Yngra Hellnahraun (Breiðdalshraun og Tvíbollahraun) hafi runnið á árunum 938-983.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – yfirlit.

Í Konungsannál, Oddverjaannál og Annál Flaeyjarbókar 1151 segir frá eldum í Trölladyngjum. Einnig í Skálholtsannál 1188. Ekki er ljóst hvers vegna annálarnir kenna gosin við Trölladyngjur en svo virðist sem þær hafi verið alþekkt örnefni á þessum tíma. Líklegast er að eldgosið 1188 hafi verið lokaþáttur umbrotahrinunnar.
Auk þessara frásagna í annálum eru óbeinar heimildir um hraunrennsli á norðanverðum Reykjanesskaga eftir landnám. Kapelluhraun heitir einnig Bruninn í daglegu tali og það eitt bendir til að menn hafi séð hraunið renna. Yfirleitt er talið að Kapelluhraun hafi áður heitið Nýjahraun og Ólafur Þorvaldsson (1949) segir nafnið Nýjahraun sé enn þekkt um hluta þess. Þessi gögn benda eindregið til að hraunið hafi runnið eftir að land byggðist.
Elstu heimildir um nafnið Nýjahraun er annars vegar í annálum og hins vegar í Kjalnesingasögu. Annálar greina frá skiptapa við Hafnarfjörð árið 1343 og fórust með skipinu 23 eða 24 menn. Annálar segja þannig frá slysinu: “Braut Katrínarsúðina við Nýja hraun.” (Annáll Flateyjarbókar). Í Gottskálksannál,

bls. 352 segir: “Braut Katrínar súðina fyrir Hvaleyri, drukknuðu þar iiij menn ogg xx.”
Í Kjalnesingasögu (1959) er tvívegis minnst á Nýjahraun. Þar segir senmma í sögunni að Þorgrímur Helgason hafi reist bú að Hofi (á Kjalarnesi) og “hafði hann mannforráð allt il Nýjahrauns og kallað er Brunndælagoðorð”. Undir lok sögunnar segir svo frá því er Búi Andríðsson tók við mannaforræði eftir Þorgrím og “hafði hann allt út á Nýjahrauni og inn til Botnsár”.
Kjalnesingasaga gerist á landnámsöld en er talin skrifuð skömmu eftir 1300. Athyglisvert er að höfundurinn skuli nota Nýjahraun til að takmarka Brunndælagoðorð. Notkun örnefnisins Nýjahraun í Kjalnesingasögu bendir til að hraunið sé runnið einhvern tíma á tímabilinu 870-1250

Hraunhóll

Hraunhóll – upptök Kapelluhrauns.

Ótrúlega fáir hafa gert tilraun til að kanna Kapelluhraun, upptök þess, útbreiðslu og raunverulegan aldur. Þorvaldur Thoroddsen (1913) reið á vaðið er hann kannaði Kapelluhraun lauslega 1883. Guðmundur Kjartansson (1954) varð fyrstur jarðfræðinga til að kanna Kapelluhraun og Óbrinnishólabruna svo nokkru næmi. Jón Jónsson hefur nokkrum sinnum ritað um hraun á svæðinu. Hann taldi á grundvelli geislakolsákvarðana að Óbrinnihólar væru liðlega 2100 ára gamlir og að Kapelluhraun hefðu runnið í byrjun elleftu aldar.
Úr gígum nyrst í Undirhlíðum hefur runnið hraun sem Jón Jónsson (1978a, 1983) nefnir Gvendarselshraun. Undir því hefur hann fundið Landnámslagið og út frá aldursgreiningu með geislakolsaðferð telur Jón hraunið runnið á elleftu öld.
Í framhaldi af þessum niðurstöðum hefur Jón stungið upp á því að Ögmundarhraun, Kapelluhraun og Gvendarselshraun hafi öll orðið til í einni goshrinu á fyrri hluta elleftu aldar (Jón Jónsson 1982,1983).
Líkt og Guðmundur gerir Jón ráð fyrir að Hellnahraun sé gamalt og telur það runnið frá svonefndri Hrútargjárdyngju. Á jarðfræðikorti Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga Íslands (Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980) er hraunið talið koma frá Óbrennishólagígunum, en ekki talið hluti af Hrútargjárdyngju.
Gossprungan, 25 km löng, er frá norðanverðri Gvendarselshæð og suður fyrir Núpshlíðarháls. Á henni er um 8 km löng eyða, þannig að alls hefur gosið á um 17 km langri sprungu. Syðri hlutinn er um 10,5 km að lengd og nyrðri hlutinn um 6.5 km.

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Í Krýsuvíkureldum mynduðust fjórir aðskildir hraunflákar. Syðst er Ögmundarhraun sem nær frá Djúpavatni í Móhálsadal suður í sjó (sjá FERLIR-289). Næst norðan við það er lítið hraun sem runnið hefur út á Lækjarvelli og er það langminnst þessara hrauna. Þriðja hraunið er við Mávahlíðar, norðaustur af Trölladyngju, og liggur til hliðar við megingossprunguna. Nyrst er svo Kapelluhraun sem runnið hefur frá Undirhlíðum til sjávar.
Hraunið sem rann frá syðsta hluta gossprungunar fyllti allan Móhálsadal sunnan Djúpavatns og fyllti allstóra vík sem að líkindum hefur verið hin forna Krýsuvík. Hraunflákinn gæti hafa myndast í tveimur gosum (en þó í sömu goshrinu).
Skammt norðan við Bláfjallaveg eru litlir og snotrir gígar er nefnast Kerin. Frá þeim hefur runnið lítið hraun til vesturs og norðurs. Norðan við gíganna er hraunið á nokkrum kafla svo rennislétt að furðu sætir. Hraunin frá Gvendarselsgígum og Kerjum verða ekki talin sérstök hraun, heldur hluti af Kapelluhrauni, enda um einn samfelldan hraunfláka að ræða. Alls þekur Kapelluhraun 13.7 km2. Ef meðalþykktin er um 5 metrar er rúmmál þess um 0.07 km3.
Líkur hafa verið leiddar að því að Ögmundarhraun hafi runnið 1151 og er þar jöfnum höndum stuðst við frásagnir annála, geislakolsaldur og rannsóknir á öskulögum.

Kapelluhraun

Kapelluhraun.

Kapelluhraun er frá svipuðum tíma. Hellnahraunið er aftur á móti komið úr eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla, þ.e. út Tvíbollum í Grindarskörðum. Hellnahraunið er í rauninni tvö hraun, það Eldra og það Yngra. Aldur Eldra Hellnahraunsins er ekki þekktur. Eftir útliti að dæma er það þó vart eldra en 3000-4000 ára. Yngra Hellnahraun er sennilega frá árunum 938-983.”

Heimild:
-Krýsuvíkureldar II – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns – Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir – Jökull nr. 41, 1991.

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

Kapelluhraun

Gengið var frá íþróttahúsinu á Ásvöllum yfir að Rauðhól, síðan um Hellnahraunin yfir að Kapelluhrauni og hraunið skoðað milli iðnaðarsvæðisins og gasstöðvar Álversins. Þar er lægð í hrauninu, sléttari en umhverfið og ef vel er að gáð má sjá þar mannvistarleifar á nokkrum stöðum.

Rauðhóll

Rauðhóll – uppdráttur GK.

Rauðhóll er, eða öllu heldur var, sunnan undir Hvaleyrarholti. Þar stóð áður lítill hóll, úr rauðu hraungjalli og með grunna gígskál. Líklega var hér um gervigíg að ræða en þeir myndast þegar hraun rennur yfir votlendi og það tekur í sig gufuna, tætist í sundur og verður að gjalli og rauðamöl. Á tímabili var tekið mikið af rauðamöl úr honum í vegi. Síðan var gryfjan notuð sem sorphaugar. Núna er lítið eða ekkert eftir af honum. Í stað hans er malargryfjan, en í miðjunni hefur verið skilinn eftir smá stabbi. Ferðamenn á leið um Reykjanesbrautina sjá nú þessa óhrjálegu gryfju í stað hins formfagra Rauðhóls. Bergið í hólleifunum var fremur fínkornótt með plagióklasdílum og örsmáir ólivíndílar komu fyrir en sáust varla með berum augum.

Rauðhóll

Rauðhóll við Hafnarfjörð – uppdráttur GK.

Varðandi aldur Rauðhóls er ekki hægt að segja nákvæmlega en hann hlýtur að vera eldri en hraunið sem hefur runnið upp að honum sem er Hellnahraun yngra og talið hafa runnið fyrir 1000 árum. Rauðhóll hafði að geyma merkilegar jarðsöguheimildir. Dýpst í malargryfjunni var svokölluð barnamold sem var allt að ½ metri að þykkt. Moldin er mjúk, þjál og ljósgulbrún að lit meðan hún var vot, en varð stökkari viðkomu og snjóhvít við þurrk. Ef hún var sett undir smásjá kom í ljós að hún var næstum því eingöngu úr örsmáum kísilþörungaskeljum.

Rannsóknir hafa sýnt að þarna hafi verið tjörn áður en hóllinn varð til. Næst kom fínn sandur morandi af skeljum og skeljabrotum af sjódýrum. Skeljar finnast þarna vegna þess að hraunið sem gígurinn er í hefur runnið yfir setlög á strönd.

Rauðhóll

Rauðhóll í dag.

Á eftir skeljasandinum lá frekar þunnt lag af fínni brúnni sandhellu sem var miklu fastari í sér og þar voru engar skeljar að finna.
Þegar gengið er yfir nokkuð slétt Hellnahraunið er ljóst að þar er ekki einungis um eitt hraun að ræða.
Hellnahraun eldra (Skúlatúnshraun) er slétt helluhraun og er talið hafa runnið fyrir 2000 árum. Það kom úr Brennisteinsfjallakerfinu, líklega frá Stórabolla í Grindaskörðum og stíflaði meðal annars Hvaleyrarvatn. Hraunið myndar ströndina milli Straumsvíkur og Hvaleyrarholts.
Hellnahraun yngra kemur eins og Hellnahraunið eldra úr Brennisteinsfjallakerfinu og er talið hafa runnið fyrir 1000 árum. Hraunið kom frá Tvíbollum í Grindaskörðum og er sléttara og þynnra. Nýja Haukahúsið stendur á þessu hrauni. Þetta hraun hefur valdið því að Ástjörnin varð til.

Leynir

Skjól í Leyni.

Þess má geta að Kristintökuhraunið er frá sama tíma og sömu hrinu og á því 1000 ára afmæli einmitt þetta ár, en haldið verður upp á 1000 ára afmæli kristintökunnar núna í sumar.
Hraunið sem Álverið við Straumsvík stendur á heitir Kapelluhraun eða Nýjahraun og er allra yngsta hraunið á svæðinu í kringum Hafnarfjörð. Það er frá árinu 1151. Hraunið er komið úr stuttri gígaröð er opnaðist undir Undirhlíðum. Kapelluhraun rann norðan á skaganum og til sjávar og myndað þar tanga, en vestan undir honum er Straumsvík.
Kapelluhraun er ákaflega fallegt úfið og mosagróið apalhraun en hörmung er að sjá hvernig karganum hefur verið rutt af yfirborði þess á stórum svæðum. Á og utan í lágum hraunhólum inni í hrauninu er mannvistarleifar á nokkrum stöðum, s.s. hlaðið byrgi á hraunhól, hlaðið skjól í hraunklofa og annað utan í hraunvegg. Minjar þessar eru skammt ofan við gömlu Alfaraleiðina milli Hafnarfjarðar og Útnesja.

Kapella

Kapellan 2022.

Í hrauninu ofan við álverið er hlaðin rúst í hrauninu, sem er nefnd Kapellan. Árið 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn kapellu á nálægum slóðum og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Hún var góð til áheita gegn hvers konar eldsgangi. Einnig var hún verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðs- manna, námumanna,verkfræðinga og jarðfræðinga. Einhverra hluta vegna er þessi rúst á fornminjaskrá og þar má sjá eftirlíkingu af líkneskinu, en hún er í raun líka eftirlíking af hinni fornu kapellu, sem var eyðilögð þegar hraunið var fjarlægt á sínum tíma.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/RAUDHOLL.HTM

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.