Hraun

Ólafur Þ. Kristjánsson skrifaði um “Kapelluna í hrauninu og heilaga Barböru” í jólablað Alþýðublaðs hafnarfjarðar árið 1961:

“Sunnan Hafnarfjarðar er land hrjóstugt og hraunótt. Það er ekki aðeins, að þar sé hraun við hraun, heldur liggur þar víða hraun á hrauni. Mjög eru þessi hraun misgömul, en flest eru þau miklu eldri en mannabyggð á landi hér.
Ólafur Þ. KristjánssonEitt þessara hrauna er svonefndur Bruni, úfið hraun, lítt gróið og illt yfirferðar. Eru hæg heimatökin hjá Hafnfirðingum að kynna sér útlit og yfirborð hraunsins sjálfir, eins og margir þeirra hafa raunar gert, en til fróðleiks og samanburðar skal hér sýnt, hvernig þetta hraun kom útlendum mönnum fyrir sjónir 5. september 1772, en þann dag var hinn nafnkunni Englendingur, Sir Joseph Banks, þar á ferð, og segir hann frá á þennan veg (þýðing dr. Jakobs Benediktssonar í Skírni 1950, bls. 218-219): „Herra Troil og ég gengum í dag framhjá stað sem á kortinu er kallaður Hvaleyri og rákumst þar af tilviljun á hraunstraum sem virtist geysi-viðáttumikill og þakti allt landið eins langt og augað eygði og fyllti hvern dal á hvora hlið sem var meðfram rennsli sínu. Frá jaðrinum og hér um bil hálfa mílu í áttina að miðjunni var hann eintómar smáhæðir, og yfirborð þeirra var yfirleitt fremur slétt, en gárótt alveg eins og málmur eftir bræðslu, þegar gjallið fer að harðna ofan á honum. Þessar gárur höfðu fengið á sig þúsundir ólíkra myndana, líklega eftir því sem vindur eða aðrar orsakir höfðu haft áhrif á hið bráðna efni. Inni í hrauninu var staður sem hægara er að ímynda sér en lýsa. Hraunstraumurinn hafði hér verið hraður og stöðugt brotið flögur af yfirborði sínu jafnóðum og það storknaði. Þessar flögur hafði hann borið með sér, oft á rönd, og hlaðið upp hólum sem voru aðallega úr steinhellum, oft mjög stórum, sem stóðu á rönd. Óþolandi var að ganga á þeim og auganu voru þær sundurtættari en nokkur hlutur sem ég hef áður séð. Þetta svæði var nærri tvær mílur á breidd, en hinum megin var flatlendi, þakið sléttu hrauni eins og áður var lýst, eins langt og augað eygði, sennilega allt frá rótum næstu fjalla, hér um bil tíu mílur frá okkur. Fyrir neðan okkur var sjórinn, en í hann hafði þessi gífurlegi eldstraumur runnið.“

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

Hraun þetta, Bruninn, helur komið úr gígaröðum uppi við Undirhlíðar og fallið í sjó fram. Telja jarðfræðingar, að það hafi verið eftir að land byggðist, en þó á fyrstu öldum byggðarinnar. Má telja víst, að það sé þetta hraun, sem í annálum er kallað Nýjahraun fyrir utan Hafnarfjörð. Svo Ber og að orði komizt í landamerkjaskrám, að mörkin milli Hvaleyrar og Straums séu í norðurbrún Nýjahrauns.
Ekki er að efa, að ferðalög á landi hafa verið töluverð suður með sjó þegar á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, og vegurinn sennilega legið suður frá Hafnarfirði á svipuðum slóðum og hann liggur enn. Þegar svo hraunið rann, hefur sú leið teppzt með öllu, og hefur þá orðið að krækja upp á Undirhlíðar, ef á landi átti að fara. Má nærri geta, hve þægilegt það hefur verið, eins og land á skaganum er yfirferðar. Það hefur þess vegna efalaust verið reynt að ryðja veg yfir hið nýrunna hraun eins fljótt og lært hefur þótt. Sjálfsagt hefur það verið gert, meðan hraunið var enn volgt eða jafnvel heitt undir niðri, þótt ylirborðið væri orðið storkið. Mætti ætla, að ýmsum hafi þótt þetta dirfskuverk mikið og ekki hættulaust.

Kapella

Kapellan og Alfaraleiðin t.h.

Vegurinn hefur legið yfir hraunið öldum saman á sama stað og hann var lagður í öndverðu, því að engar minjar sjást um reiðgötu yfir það nema þar. Var sá vegur notaður þar til akvegur var lagður yfir hraunið nokkru ofar. Gamli vegurinn var sléttur og vel ruddur, hvort sem svo vandlega hefur verið frá honum gengið í byrjun eða bætt um síðar. En krókótt hefur hann legið, eins og vænta mátti, þar sem reynt var að rekja sléttustu leiðina og sneiða hjá mishæðum.

Árni Helgason

Árni Helgason.

Rétt neðan við veginn svo sem miðja vega í hrauninu stendur rúst eða tóft hlaðin úr grjóti. Hún hefur lengi gengið undir nafninu Kapella, og hefur neðsti hluti hraunsins tekið nafn af henni og nefnist Kapelluhraun.
Séra Árni Helgason í Görðum nefnir Kapelluna í sóknarlýsingu 1842 og getur þess, að fólk segi, að „þar séu dysjaðir þeir menn frá Bessastöðum, sem drepnir hafi verið í hefnd eftir Jón biskup Arason 1551, er ólíklegt þykir satt geti verið.“ — Það er víst óþarfi að taka það fram, að þarna liafa aldrei neinir menn verið dysjaðir.
Önnur sögn hermir, að eftir að Norðlendingar höfðu drepið Kristján skrifara suður á Kirkjubóli á Miðnesi seint í janúar 1551, hafi lík hans verið flutt landleið til Bessastaða til greftrunar. Hafi dagur ekki enzt til fararinnar og Kapellan svonefnda þá verið hlaðin til þess að geyma líkið í til næsta dags.

Joseph Banks

Joseph Banks – 1743-1820.

Þessi saga nær auðvitað engri átt. Það hefur verið miklu meira verk að hlaða Kapelluveggina en flytja líkið inn á Hvaleyri, en þar var þá byggð, svo að hægt hefði verið að setja það inn í hús. Hitt gæti frekar átt sér stað, ef færð hefur verið slæm og flutningsmenn orðið dagþrota í Kapelluhrauni, að lík Kristjáns hafi verið geymt náttlangt í Kapellunni, hafi hún staðið þar fyrir, eins og líklegt má þykja, að verið hafi. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi segir heldur ekki annað í grein sinni um Kapelluna í Árbók Fornleifafélagsins 1903 (bls. 34) en að þar sé sagt „að lík Kristjáns skrifara hafi verið náttsett“.
Ekki virðist það ólíklegt, sem menn hafa gizkað á, að Kapellan hafi verið reist í hrauninu miðju, þegar vegurinn var ruddur yfir það nýrunnið, og hafi hún verið raunveruleg kapella eða bænhús, ætlað til þess að menn bæðust þar fyrir, ekki einungis þeir menn, sem lokið höfðu hinu háskasamlega verki, vegarruðningu í heitu hrauni, heldur og aðrir ferðamenn, er leið ættu hér um. Var þetta allvíða gert í kaþólskum löndum, að reisa lítil bænhús við vegi, ekki sízt þar sem vandfarið var eða hættulegt.

Uno von Troil

Uno von Troil – 1746-1803.

Vorið 1950 rannsakaði dr. Kristján Eldjárn þjóðminjavörður Kapelluna ásamt fleiri mönnum. Hefur hann ritað glögga skýrslu um þá rannsókn í Árbók Fornleifafélagsins 1955—1956, bls. 5—15. Er hér farið eftir þeirri frásögn um allt, er Kapelluna varðar og þá gripi, sem í henni fundust, en miklu ýtarlegri er þó skýrsla fornminjavarðar, og verður að vísa þeim til hennar, er meira vilja vita um þetta efni.
Kapellan snýr nokkurn veginn frá austri til vesturs, og hafa dyrnar verið á vesturgafli, eins og tíðkast hefur á guðshúsum. Hún er 2,40 m á lengd að innan, en breiddin er 2,20 m við vesturgaflinn, en 2,10 m við austurgafl. Veggirnir hafa verið hlaðnir úr hraunhellum og vel og vandlega frá hleðslunni gengið. Þykktin hefur verið um einn metri.

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn.

Ekki er vitað, hvernig þakið hefur verið. Ætlar þjóðminjavörður helzt, að það hafi verið uppreft og hvílt á mæniás. Hefur húsið verið vel manngengt, að minnsta kosti í miðjunni. Allt telur þjóðminjavörður benda til þess, að hús þetta hafi verið kapella, enda mæli ekkert á móti. Segir þá nafnið á rústinni rétt til um upphaflega notkun hennar. Dýrlingslíkneski lítið, er þar fannst, bendir og til hins sama.
Það er langt frá Kapelluhrauni til Litlu-Asíu, en þó víkur nú sögunni þangað, til borgar þeirrar, er Nikomedia hét og stóð í miklum blóma á öldunum fyrir og eftir Krists fæðingu, þrátt fyrir jarðskjálfta og árásir óvina.
Snemma á 3. öld eftir Krist var í borg þessari heldri maður, sem átti dóttur forkunnarfríða, sem Barbara hét. Var hann svo gagntekinn af fegurð dóttur sinnar, að hann tímdi engum manni að gefa hana og læsti hana inni í rammgerðum turni, til þess að gárungarnir gleptu hana ekki. Þó lánaðist einum af hinum vísu kirkjufeðrum, þeim er Origenes hét, að komast inn til hennar, og kenndi hann henni kristna trú með þeim árangri, að hún lét skírast. Af þeim sökum lét hún gera þrjá glugga á baðherbergi sitt, þar sem ekki áttu að vera nema tveir, og gerði hún það til að minna á heilaga þrenningu. Jafnframt lét hún gera krossmark í vegginn. Líkaði föður hennar illa, er hann komst að þessu, því að hann var trúmaður mikill í gömlum stíl. Segja sumir, að nú hafi hann gjarnan viljað gifta hana, en hún neitað öllum biðlum og sagzt vera brúður Krists og engum dauðlegum manni gefast. Hitt ber öllum saman um, að faðir hennar reiddist svo þrákelkni hennar, því að hún vildi með engu móti leggja niður kristinn sið, að hann seldi hana í hendur yfirvöldum borgarinnar. Höfðu þau við hana hvers konar fortölur, en hún lét ekki skipast við þær. Var hún þá beitt margvíslegum harðræðum, en allt kom fyrir ekki, hún var staðföst í kristinni trú. Var hún þá að lokum hálshöggvin, en elding af himni laust jafnskjótt böðul hennar til bana.
Heilög BarbaraEnginn veit með vissu, hve mikill sannleikur felst í þessari fornu frásögn. Hitt er víst, að Barbara var snemma tekin í helgra manna tölu, og er með vissu vitað, að hún var dýrkuð á 7. öld. Seinna var hún talin ein af fjórum fremstu kvendýrlingum kirkjunnar, en hinir voru þær Katrín helga, Margrét helga og Dórótea helga.
Gott þótti að heita á Barböru helgu í þrumuveðri og hvers kyns óveðri og einnig til varnar gegn húsbruna. Þá varð hún og verndardýrlingur þeirra manna, sem að sprengingum störfuðu, svo sem námumanna og stórskotaliðsmanna. Púðurgeymslur í frönskum og spænskum herskipum voru kallaðar nafni hennar (Saint Barbre og Santa Barbara). — Enn þótti gott að heita á hana, þegar búast mátti við bráðum bana.
Ekki er vitað með vissu, hvort tilbeiðsla heilagrar Barböru hefur verið meiri eða minni hér á landi. Sennilega hefur hún verið allmikil eins og annars staðar. Engin kirkja hér á landi var þó helguð henni fyrst og fremst, en hún var meðal verndardýrlinga tveggja: Reykholtskirkju í Borgarfirði og Haukadalskirkju í Biskupstungum. Getið er um líkneki af henni í kirkjum. Myndir af henni voru á ýmsum altaristöflum, sem enn eru til, og einnig voru þær saumaðir í prestsskrúða, til dæmis að taka í kórkápu Jóns biskups Arasonar. Sagan um hana var snemma þýdd á norrænt mál, og um hana var ort kvæði (Barbárudiktur).

Barbara

Heilög Barbara – altaristafla í Varsjá í Póllandi.

Barbara hefur aldrei orðið algengt kvenmannsnafn hér á landi. Þó hafa nokkrar konur borið það nafn bæði fyrr og síðar. Á myndum er Barbara iðulega látin standa á turni, sem oft er með þremur gluggum. Stundum er fallbyssum komið fyrir hjá turninum. Það ber og við, að mærin heldur á turninum í fangi sér.
Þegar rústin í Kapelluhrauni var rannsökuð 1950, fundust þar ýmsir smáhlutir, þar á meðal brot úr rafperlu, 3 leirkersbrot rauðleit, krítarpípuleggur og 3 skeifubrot. En miklu merkast af því, sem þar fannst, var líkneski heilagrar Barböru. Lýsir dr. Kristján Eldjárn þjóðminjavörður því á þennan veg í áðurnefndri ritgerð í Árbók Fornleifafélagsins: “Mynd af heilagri Barböru, telgd úr grágulum leirsteini, aðeins efri hluti eða vef niður fyrir mitti, fannst í þremur hlutum, sem auðvelt var að fella saman.
Kapella
Myndin eða líkneskið er nú aðeins 3,3 sm á hæð, en hefur líklega verið um 5,5 sm heilt. Það er haglega telgt, andlitið nokkuð máð, hár mikið og hrokkið og nær niður á herðar og sveigur um yfir ennið. Barbara er í flegnum kjól, aðskornum í mitti, barmurinn hvelfdur, kjóllinn í miklum fellingum neðan beltis. Hún grípur hægri hendi í kjólinn, og sést, að hann er ermalangur. Skikkju slegna hefur hún yfir um axlir, og fellur hún með stórum, mjúkum fellingum á baki. Í vinstri hendi heldur Barbara á einkunn sinni, turninum, og hvílir hann við vinstri öxl og upp með vinstri vanga hennar. Turninn er ferstrendur með undirstöðu neðst, síðan nokkru grennri bol, þar sem tveir gluggár sjást, sinn á hvorri hlið, slær sér síðan aftur út líkt og neðst, en upp úr hefur loks verið toppur, sem nú er að miklu leyti brotinn af. Sýnilegt er, að einhvern tíma hefur verið brugðið knífi á líkneskinu, sennilega til að kanna efnivið þess, eins og menn gera oft fyrir forvitni sakir. — Lítið brot úr samskonar eða mjög líkum steini fannst einnig í tóftinni skammt frá Barbörulíkneskinu. Það er tiltelgt og mætti vel vera úr neðri hluta myndarinnar, þótt ekki sé hægt að koma því í samhengi nú.” Við þessa lýsingu þjóðminjavarðar er engu að bæta öðru en því, að líkneskið skipar nú virðulegt sæti í sýningarsal Þjóðminjasafns.
Kapella
Það er augljóst af stærð líkneskisins, að það hefur verið ætlað til þess að menn bæru það á sér sem verndargrip og tækju það gjarnan upp og gerðu til þess bæn sína, þegar þeim þótti mikils við þurfa á ferðalögum eða við aðrar aðstæður.
En hvernig var þetta líkneski komið í kapelluna í Nýjahrauni? Gæti hugsazt, að það hafi verið sett upp í kapellunni, þegar hún var nýreist, og kapellan gerð, þegar vegurinn var ruddur yfir Nýjahraun? Kristján Eldjárn minnir á, að gott þótti að heita á Barböru í háska af eldi, húsbruna og sprengingum, og segir síðan: „Mundi hún þá ekki einnig hafa dugað vel gegn háska af völdum jarðelds og hraunbruna? Ef rennsli Nýjahrauns og háski þess á einhvern þátt í upphafi kapellu á þessum stað, er máske Barbara mær sá meðal helgra manna, sem eðlilegast er að hitta þar fyrir, úr því á annað borð svo ótrúlega heppilega vildi til, að nokkur dýrlingsmynd fannst.”
En það gæti líka hugsazt, að ferðamaður hefði gleymt líkneskinu þarna eða týnt því. Kannske það hafi verið unglingur, sem í fyrsta sinn fór í verið til Suðurnesja og hafði fengið líkneskið að gjöf sér til verndar, þegar hann kvaddi móður sína fyrir norðan eða kannske ömmu sína, og tók nú líkneskið upp, þegar hingað kom, til þess að biðja hina helgu mey verndar í ókomnum háska?

Kapella

Kapellan í Kapelluhrauni endurgerð.

Kannske það hafi líka verið aldurhniginn maður, sem marga bratta báru hafði séð og aldrei látið undir höfuð leggjast að biðja Barböru að vernda sig á vertíðinni? Og vissi það á eitthvað, að líkneskið týndist? Boðaði það feigð? Eða átti það kannske öldungur, sem fór frá sjó í síðasta sinn og tók það upp til þess að þakka Barböru helgu fyrir vernd og varðveizlu á langri ævi? Skyldi hann það kannske eftir vísvitandi þarna í kapellunni? Var það þá gert í þakkarskyni? Eða var kominn nýr siður í land, svo að öruggast væri að láta ekki líkneski heilagra manna finnast í fórum sínum?
Við getum spurt og spurt. En heilög Barbara, gerð úr tálgusteini, horfir með heiðum svip og óræðum augum fram undan sér og svarar engu. Þó flytur hún, þar sem hún situr í skáp sínum í Þjóðminjasafni, með sér andblæ frá þjóðlífi, sem var, en er ekki lengur.”

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 16.12.1961, Kapellan í hrauninu og heilög Barbara – Ólafur þ. Kristjánsson, bls. 4-5 og 12.

Kapella

Kapellan 2022.