Hellisgerði

Jónatan Garðarsson skrifaði eftirfarandi um “Hellisgerði” á vef Hraunavina árið 2002:

Jónatan Garðarsson

Jónatan Garðarsson.

“Hellisgerði er skrúð- og skemmtigarður Hafnarfjarðar vestan Reykjavíkurvegar, norðan Hellisgötu og sunnan Skúlaskeiðs. Hellisgerði er nefnt eftir Fjarðarhelli sem er fyrir miðju garðsins. Þegar bændur úr Ölfusi og Selvogi komu í kaupstað til Hafnarfjarðar fyrr á öldum áttu þeir það til að slá upp tjöldum sínum við hellinn eða gista í honum, þó vistin þar væri þröng.

Á þessum stað voru gerðar einhverjar fyrstu tilraunir til trjáræktunar í Hafnarfirði eftir því sem næst verður komist. Kaupmaðurinn Bjarni Sivertsen var líkast til sá fyrsti, en hann flutti 500 trjáplöntur frá Skotlandi árið 1813 og gróðursetti þær víðsvegar í Hafnarfirði. Nokkar trjáplöntur setti hann niður í bakgarði Akurgerðis en líka þó nokkrar umhverfis Fjarðarhelli og við þau hús sem stóðu strjált við botn fjarðarins.

 Anna Cathinca Jürgensen Zimsen

Anna Cathinca Jürgensen Zimsen.

Síðan liðu nokkrir áratugir þar til Anna Cathinca Jürgensen Zimsen, móðir Knud Zimsen borgarstjóra í Reykjavík, fór að rækta blóm og grænmeti í vermireitum í lautunum bakvið Akurgerðishúsin og gerðinu við Fjarðarhelli. Zimsen fjölskyldan bjó í Knudtzonshúsi, en á þessum tíma gekk húsið sem Bjarni riddari Sivertsen lét reisa 1803-5 undir því nafni. Það er jafnan nefnt Sívertsenhús í dag og tilheyrir húsasafni Byggðasafns Hafnarfjaðrar. Anna Cathinca fylgdist af áhuga og innileik með gróðrinum í bakgarði sínum og í kringum Fjarðarhelli vaxa og dafna. Hún fór daglega upp að hellinum á sumrin til að grennslast fyrir um vöxtinn á gróðrinum. Knud Due Christian Zimsen verslunarstjóri Knudtzonsverslunar, sem var eiginmaður Önnu Chatincu, lét girða og friða allstórt svæðið í kringum Fjarðarhelli seint á 19. öld að hennar ósk. Reiturinn fékk nafnið Hellisgerði og umhverfis hann var hlaðinn varnargarður úr hraungrjóti en slík gerði sáust við flest kotbýlin í Hafnarfirði og umhverfis matjurtargarða íbúanna í hraungjótum um langan aldur.

Knud Due Christian Zimsen

Knud Due Christian Zimsen.

Í ævisögu Knud Zimsen „Við fjörð og vík” sem Helgafell gaf út 1948, segir á bls. 25: „Nokkrum sinnum á hverju sumri var kaffi drukkið á sunnudögum í Hellsigerði eða suður á Hvaleyri, en þar hafði faðir minn túnblett. Vestast í Hellisgerði var grashóll, er faðir minn hafði látið gera. Á hann var dúkur breiddur og kaffið drukkið þar. Hóll þessi var því ætíð kallaður Borðið. Hlóð voru einnig sett upp í Gerðinu, og fluttum við því stundum hitunaráhöld með okkur þangað. Við það fékk viðdvöl okkar þar efra nokkurn svip af útilegu, og það þótti okkur krökkunum ekki einskis virði. Þótt ekki væri langt í Hellisgerði heiman að frá okkur, þótti tilbreyting í að fara þangað upp eftir, en meira fannst okkur samt til um að komast suður á Hvaleyri.”

Knud Zimsen

Knud Zimsen.

Samkvæmt þessari frásögn má ráða að það hafi verið faktorshjónin, foreldrar Knuds Zimsen, sem lögðu grunninn að Hellisgerði. Frekari vísir að trjágarði í Hellisgerði varð til þegar Gísli Gunnarsson byggði sér hús við Reykjavíkurveginn og tók Hellisgerði á leigu. Lét hann endurhlaða grjótgarðana og ræktaði þar tún sem hann nýtti til ársins 1922. Hann gróðursetti þrjú reyniviðartré við hús sitt árið 1911 en flutti þau með sér þegar hann seldi húsið árið 1920. Voru trén þá orðin svo stór að þau rákust upp í símavírana þegar þau voru flutt á hestvagni á nýja staðinn.

Valdimar Long bóksali og Þorleifur Jónsson forstjóri, sem var afi Björgvins Halldórssonar, stóðu fyrir stofnun Málfundafélagsins Magna 2. desember 1920 og voru stofnfélagarnir 18 talsins. Á fundi sem haldinn var 15. mars 1922 hélt Guðmundur Einarsson framkvæmdastjóri trésmiðjunnar Dvergs framsöguerindi sem nefndist: Getur Magni haft áhrif á útlit Hafnarfjarðar? Guðmundur lagði til að Magnamenn beittu sér fyrir því að koma upp blóma- og skemmtigarði sem hefði líka það markmið að vernda sérkenni Hafnarfjarðarhrauns.

Hellisgata

Hafnarfjörður 1905 – Kirkjuvegur.

Bærinn stækkaði hratt á þessum árum, hraunborgir voru brotnar niður, gjótur fylltar til að útbúa beina vagnvegi og hraunið sléttað með tilheyrandi umbyltingu. Guðmundur vildi gæta þess að sérkenni hraunlandslagsins sem einkenndi umhverfi Hafnarfjarðar fengju að halda sér að einhverju leyti óskert.

Hellisgerði

Hellisgerði 2024.

Hellisgerði var ákjósanlegur staður og haustið 1922 veitti bæjarstjórn félaginu yfirráð gerðisins gegn því skilyrði að skemmtigarðurinn yrði opinn almenningi að sumarlagi. Félagsmenn Magna hófust strax handa og girtu Hellisgerði vorið 1923 og útbjuggu steinsteypt ræðupúlt við hlið Fjarðarhellis. Þetta var kostnaðarsamt fyrir fámennt félag og til að afla fjár til að kaupa plöntur var efnt til Jónsmessuhátíðar í Hellisgerði 24. júní 1923, þar sem Magnús Jónsson bæjarstjóri afhenti félaginu Hellisgerði með formlegum hætti. Skemmtunin tókst vel og varð að föstum lið og aðal fjáröflunarleið Magna um árabil, en ekki þótti ráðlegt að halda hátíðina í Hellsigerði næstu árin til að eiga ekki á hættu að viðkvæmur nýgræðingur skemmdist af átroðningi. Voru skemmtanirnar haldnar á Óseyri, Víðstöðum og í Engidal til ársins 1936 en eftir það voru þær fastur viðburður í Hellisgerði til ársins 1960.

Hellisgerði

Síðari hluta 20. aldar var tekinn upp sá siður að hefja þjóðhátíðardaginn 17. júní á samkomu og helgistund í Hellisgerði. Að þeirri stund lokinni hefur skrúðganga lagt af stað um bæinn með Lúðrasveit Hafnarfjarðar í broddi fylkingar og endað för sína á hátíðarsvæðinu á Víðistöðum. Jónsmessuskemmtanir hafa einnig verið endurvaktar að nokkru leyti í Hellisgerði en með annarskonar brag en tíðkaðist hjá Magnafélögum.

Á haustdögum 1923 var skipulagsskrá samin fyrir skemmtigarðinn og var tilgangurinn þríþættur:

Hellisgerði

Myndin er tekin af Fiskreit sem fór undir Skúlaskeið. Húsin við Skúlaskeið og Nönnustíg í aðalhlutverki. Einnig sér í Reykjavíkurveg 15b, sem hús með bæjarlagi, það yngsta sem enn stendur í Hafnarfirði.

a) Að vera skemmtistaður, þar sem bæjarbúar eiga kost á að njóta ánægju og hvíldar í tómstundum sínum.
b) Að vekja áhuga bæjarbúa á blóma- og trjárækt.
c) Að geyma óraskaðar minjar um hið sérkennilega bæjarstæði Hafnarfjarðar, þegar mannvirki framtíðarinnar hafa máð þær út annars staðar í bænum.
Fimm manna garðráð stjórnaði starfseminni og hélst sú skipan mála til 1977 þegar starfsemi Magna lagðist í dróma. Eftir það hefur umsjón Hellisgerðist verið á ábyrgð garðyrkjustjóra Hafnarfjarðar og þannig er máluð háttað í dag.

Hellisgerði

Hellisgata og Hellisgerði.

Vorið 1924 hófst skipulögð trjárækt í Hellisgerði undir stjórn Ingvars Gunnarssonar kennara, sem var fastráðinn starfsmaður og forstöðumaður Hellisgerðis til dauðadags 1962. Erfiðleikar við ræktunina fólust fyrst og fremst í því að það var grunnt á grjót í gerðinu. Bera varð mikið magn af mold í hraunbollana til að gróðursetning væri framkvæmanleg. Fyrstu árin var ekkert vatn að fá í Hellisgerði og sótti Ingvar vatn í nálæg hús og bar það í fötum svo að hægt væri að vökva plönturnar. Smám saman fjölgaði blómjurtum og trjáplöntum í Hellisgerði en einnig mátti þar finna hefðbundnar tegundir svo sem lyng, ljónslappa, blágresi og sitthvað fleira fyrstu árin eftir að ræktun hófst þar.

Hellisgerði

Myndin er tekin yfir Hellisgerði, Setbergslandið í fjarska.

Veturinn 1926-27 fékk Magni aukið landsvæði til umráða og varð garðurinn innan við hálfur hektari að stærð. Sumarið 1927 var garðurinn opnaður almenningi á sunnudögum og hélst sú skipan fyrstu áratugina en síðan var garðurinn opinn alla daga yfir sumarmánuðina. Vakti garðurinn athygli og eftirtekt og var fjölsóttur af fólki allsstaðar að af landinu. Þegar skipulagsuppdráttur bæjarins var samþykktur árið 1933 var gert ráð fyrir frekari stækkun garðsins, enda var farið að tala almennt um Hellisgerði sem mikinn dýrgrip fyrir bæinn. Garðurinn var stækkaður um umtalsvert vorið 1960 þegar svæðin umhverfis Oddrúnarbæ og meðfram Skúlaskeiði bættust við.

Hellisgerði

Hellisgerði 1946.

Veturinn 1942 var ákveðið að útbúa tjörn með gosbrunni í einni af gjótum garðsins. Útgerðarfélög í bænum greiddu stærsta hluta kostnaðarins við framkvæmdina en einnig lögðu einstaklingar til fjármuni til að auðvelda framkvæmdina. Hjónin Bjarni Snæbjörnsson læknir og Helga Jónasdóttir gáfu styttuna ,,Yngsti veiðimaðurinn” eftir Ásmund Sveinsson. Hún er af dreng sem heldur á fiski sem vatn gýs upp úr. Gosbrunnurinn var afhjúpaður á Jónsmessuhátíðinni 1942.

Hellisgerði

Í Hellisgerði – Styttan í gosbrunninum heitir Yngsti veiðimaðurinn og er eftir Ásmund Sveinsson frá Kolsstöðum.

Styttan skemmdist þegar tjörninni var breytt um 1980 og eftir það var henni komið fyrir í geymslu. Gosbrunnurinn var endursteyptur úr bronsi og komið fyrir á nýjan leik í tjörninni í júní 2008 í tilefni 100 ára afmælis Hafnarfjarðarkaupstaðar.

Hellisgerði

Minnisvarði um Bjarna Sívertsen í Hellisgerði.

Árið 1945 gáfu útgerðarfélögin Hrafna-Flóki og Vífill 25 þúsund krónur í tilefni 25 ára afmælist Magna til að gera brjóstmynd af Bjarna riddara Sivertsen, sem hefur verið nefndur Faðir Hafnarfjarðar. Ríkharður Jónsson myndhöggvari gerði brjóstmyndina sem stendur á stalli úr hraungrjóti sem flutt var úr Selvogi, þar sem Bjarni hóf verslunarstarf sitt. Styttan var afhent með formlegum hætti 10. september 1950 við hátíðlega athöfn. Adolf Björnsson fulltrúi gefenda og Helgi Hannesson bæjarstjóri héldu ræður. Kristinn J. Magnússon málarameistari og formaður Magna tók við styttunni sem Þórdís Bjarnadóttir afkomandi Bjarna Sigurðssonar afhjúpaði. Lúðrasveit Hafnarfjarðar lék við athöfnina og var ókeypis aðgangur í Hellisgerði af þessu tilefni. Lágmynd af Guðmundi Einarssyni var komið fyrir á klettavegg við Fjarðarhelli og afhjúpuð 1963. Á myndinni stendur: „Guðmundur Einarsson, frumkvöðull um vernd og ræktun Hellisgerðis 1923”.

Hellisgerði

Í Hellisgerði.

Kostnaðurinn við að koma þessum sælureit upp í hjarta bæjarins og viðhalda honum var þungur baggi á félagsmönnum Magna. Hinar árlegu Jónsmessuskemmtanir stóðu ekki undir rekstrinum svo félagið lét útbúa sérstök styrktarkort, gaf út jólakort, hélt hlutaveltur, seldi blóm og trjáplöntur og leitaði til fyrirtækja og einstaklinga í bænum um fjárstuðning. Bæjarsjóður kom einnig að rekstrinum með beinum og óbeinum hætti frá fyrstu tíð. Bæjarbúar lögðu jafnan sitt af mörkum til að fegra og viðhalda skrúðgarðinum Hellisgerði og svo er enn.

Ingvar Gunnarsson

Ingvar Gunnarsson.

Ingvar Gunnarsson var forstöðumaður Hellisgerðis í 38 ár. Eftir andlát hans 1962 varð Sigvaldi Jóhannsson garðyrkjumaður forstöðumaður, en hann varð fastur starfsmaður Hellisgerðis árið 1944. Þessir tveir einstaklingar stóðu öðrum fremur að ræktun garðsins. Svavar Kærnested garðyrkjumaður tók við af Sigvalda og annaðist garðinn til 1971. Starfsemi Magna og garðráðs Hellisgerðis var ekki mikil á þessum tíma og lét garðurinn á sjá. Undir lok áttunda áratugar 20. aldar tók Hafnarfjarðarbær við Hellisgerði og var garðurinn settur undir garðyrkjustjóra bæjarins.

Árið 1945 kom upp hugmynd um að færa Sívertsenhús í Hellisgerði og skapa þar aðstöðu í anda Árbæjarsafns. Skipuð var nefnd til að vinna að flutningi hússins en margir óttuðust að skrúðgarðinum væri stefnt í hættu og ekkert varð af þessum áformum. Ástand Sívertsenhúss versnaði stöðugt og árið 1964 lagði Bjarni Snæbjörnsson læknir til að félagar í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar stuðluðu að varðveislu og endurgerð þessa elsta húss bæjarins. Þeir bundust samtökum við forráðamenn íþróttahreyfingarinnar og fulltrúa annarra félaga um að ráðast í þetta verk. Ákveðið var að endurbyggja húsið á sínum upprunalega stað og fallið frá þeirri hugmynd að flytja Sívertsenhús í Hellisgerði.

Oddrúnarbær

Oddrúnarbær.

Vestan og austan við Hellisgerði stóðu lengi hús sem voru rifin um 1960 þegar garðurinn var stækkaður. Austarlega í garðinum stendur ennþá lítið kot þar sem hægt að kaupa kaffi og viðbit. Þetta er Oddrúnarbær, nefndur eftir Oddrúnu Oddsdóttur frá Snæfellsnesi sem bjó í húsinu frá 1950 til 1980. Húsið er með bæjarlagi og dæmigert fyrir litlu kotin sem byggðust við götutroðningana sem lágu víða um bæinn í hrauninu um aldamótin 1900. Oddrúnarbær var byggður1924 en talið er að það hafi verið síðasta húsið sem reist var með þessu bæjarlagi í Hafnarfirði.

Hellisgerði

Hellisgerði.

Aðalinngangur Hellisgerðis var lengst af við miðja Hellsigötu og gengið um járnhlið á rammgerðri steingirðingu. Gestur sem komu í garðinn gengu fyrst að söfnunarbauk úr bronsi sem leit út eins og mannshöfuð. Þegar öðru eyra höfuðsins var snúið rak það út úr sér tunguna. Börnum fannst spennandi að leggja smámynt á tunguna sem höfuðið gleypti um leið og eyranu var snúið til baka. Þegar Hellisgerði var stækkað til austurs um 1980 var aðalinngangur garðsins færður að Reykjavíkurvegi þar sem blómasala Magna var lengst af starfrækt. Sumarið 2001 var hlaðið gerði úr hraungrjóti við þennan inngang og fleiri lagfæringar gerðar á Hellisgerði.

Hellisgerði

Hellisgerði – ævintýraheimur.

Árið 1999 var útbúinn reitur í Hellisgerði fyrir Bonsaitré sem bænum áskotnuðust um það leyti. Trjánum er komið fyrir í garðinum á vorin en þau eru geymd innan dyra yfir vetrarmánuðina. Dvergtré eru ræktuð með sérstakri aðferð sem Japanar hafa þróað í gegnum aldirnar og er þetta nyrsti bonsaigarður í heimi eftir því sem næst verður komist.

Hellisgerði

Fjarðarhellir í Hellisgerði.

Finna má fjölbreyttan trjágróður í Hellisgerði af innlendum og erlendum uppruna. Fyrstu Bjarkirnar sem gróðursettar voru í Hellisgerði sumarið 1924 komu austan úr Þórsmörk. Þetta voru beinvaxnir nýgræðingar sem voru ekki stærri en 2-3 cm en er þau voru sett niður.

Hellisgerði

Í Hellisgerði 2024.

Þessi tré tóku strax vaxtarkipp og fimm árum eftir að Björkunum var plantað út þurfti að hefja grisjun vegna þess hversu þétt þær stóðu í upphafi. Víðiplöntur voru sóttar í Litla-Skógarhvamm í Undirhlíðum, Reynitrén komu úr gjótum í Almenningi og Aspir fengust norðan úr Fnjóskadal. Jafnframt gróðursetti Ingvar á fyrstu fimm árunum fjölda erlendra tegunda eins og Hrossleik, Blæösp, Gráösp, Ask, Álm, Hegg, Hlyn og Beyki. Barrtrén þroskuðust illa fyrstu árin en berjarunnar á borð við Rifs, Sólber, Þyrniber náðu góðum vexti. Hann gróðursetti líka Gullregn, Blóðrifs og nokkrar tegundir Rósarunna. Flest trén sem voru gróðursett náðu sér á strik og síðan hefur fjöldi tegunda bæst við.

Bjarni Snæbjörnsson

Bjarni Snæbjörnsson.

Fyrstu árin mátti Ingvar Gunnarsson sætta sig við háðsyrði margra sem höfðu enga trú á þessu ræktunarstarfi. Hann gafst ekki upp og lét úrtölufólk ekki letja á neinn hátt. Hellisgerði er ein af perlum Hafnarfjarðar og garðurinn er svo sjálfsagður hluti af umhverfinu að almenningur er fyrir löngu hættur að velta því fyrir sér hversu merkilegt brautryðendastarf frumkvöðlanna var og hversu einstakur garðurinn var á heimsvísu.” – Jónatan Garðarsson

Heimildir:
-https://utilistaverk.hafnarborg.is/listaverk/
-http://www.hraunavinir.net/hellisgerdi-einstok-perla-i-hraunlandslagi/

Guðmundur Einarsson

Guðmundur Einarsson – lágmynd Ríkarðs Jónssonar.