Snókalönd

Gengið var um hraunsvæðið sunnan Stórhöfða. Tilgangur ferðarinnar var m.a. að skoða Snókalöndin, óbrennishólma inni í Brunanum (Nýjabrun/Hábruna), sem mun heita eftir Nýjahrauni því er síðar var nefnt Kapelluhraun og rann árið 1151.
Gömul gata liggur inn í Snókalöndin frá Stórhöfðastíg skammt sunnan SnókalandsastígurBrunabrúnarinnar, milli hlaðins garðs á henni og hlaðins gerðis utan í hraunnefi skammt sunnar. Varða við götuna þar sem hún liggur inn á Brunann vísar leiðina. Frá henni er gatan augljós yfir nýja hraunið og inn í vestari Snókalöndin. Á leiðinni þangað er fallega hringlaga formað hraunbrigði á hægri hönd. Hraunið virðist hafa runnið áfram framhjá fyrirstöðu og þá myndað “garða” beggja vegna er síðan hafa runnið saman neðar.
Snókalöndin eru þakin kjarri og lyngi. Þau eru hvað fegurst á haustin þegar litadýrðin er hvað mest.
Úr vestari hluta Snókalanda liggur gata yfir að þeim austari, sem er mun stærri. Nær suðurenda hans næstum því að gatnamótum Krýsuvíkurvegar og Bláfjallavegar. Allt umleikis er mosavaxinn og torfær Bruninn, sem fyrr segir.
Ólafur Þorvaldsson segir frá Snókalöndunum í grein sinni um “Fornar leiðir…” í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48: “Í nýja brunanum, spölkorn austur af stígnum, eru tveir dálitlir blettir eða hólmar, sem bruninn hefur ekki náð að renna yfir. Ekki ber þau hærra en umhverfið og sjást því ekki lengra til og helst ekki fyrr en að er komið. Hestfær götuslóð liggur norður í Snókalönd, nokkur austar en þar sem Stórhöfðastígurinn kemur suður úr brunanum. Ekki eru Snókalöndin jafnstór, það vestra nokkur stærra og slóð á milli. Hvað liggur til grundvallar þessu nafni veit víst enginn lengur en á tvennt mætti benda. Í fyrra lagi að þarna hafi vaxið villihvönn, snókahvönn – geitla. Í öðru lagi að blettir þessi, sem hafa verið miklu gróðurríkari en umhverfið, hafi fengið nafnið land af töngum þeim og hornum sem hinn ójafni brunakantur myndar þarna í grennd og gæti því þýtt “Krókalönd”.

Snókalönd

Í orðabók Blöndals segir að snókur sé angi eða útskiki út frá öðru stærra. Gætu því tangar þeir, sem út úr brunanum ganga, verið stofn að þessu nafni. Þó finnst mér fyrri tilgátan sennilegri. Líkur benda til að þarna hafi verið nokkur skógur og máske verið gert að kolum fyrrum.
Gatan út í Snókaköndin bendir á nokkra umferð þangað. Sökum fjarlægðar þessa staðar frá alfaraleið óttast ég að svo geti farið að hann gleymist og nafnið týnist þar sem þeir, er mest fóru þar um og héldu með því við mörgum örnefnum, voru fjármenn og smalar en þeim fækkar óðum um þessar slóðir sem víðar.”
Snókalöndin eru hraunsvæði sem máttarvöldin, sem stóðu að jarðeldunum 1151 og skópu Nýjahraun (Kapelluhraun/Brunann) virtust hafa haft áhuga á að hlífa. Háir hraunhryggir hafa hlaðist upp með þeim og beint glóandi hrauninu frá. Eftir standa gróðurvinar þær er Ólafur lýsir.
Aðgengi að Snókalöndunum er ágætt og stutt að ganga inn í þau frá Krýsuvíkurvegi. Þá er jafnframt kjörið tækifæri til að skoða þar aðstöðu fjárbúskapsins frá Ási, bæði gerðið og garðinn við Stórhöfðastíginn. Arnarklettar sjást vel inn í Brunanum nokkru suðaustan Stórhöfða.

Heimildir m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson 1949. Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48. Bis. 81-95.

Varða

Varða við Stórhöfðastíg.