Réttarklettar

Stefnan var tekin niður að Lónakoti með gamlar örnefnalýsingar í öðrum vasanum og nýmóðins gps-tæki í hinum. Veðrið var frábært; +19°C.
BæjarhóllinnFarið var nákvæmlega eftir örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar. Heimildarmenn hans voru m.a. Gústaf Sigurðsson frá Eyðikoti í Hraunum, nú í Reykjavík, og Ólafía Hallgrímsdóttir, f. í Lónakoti (nú dáin), svo og Guðjón Gunnlaugsson [Gaui Lóna], alinn upp í Lónakoti, f. í Hafnarfirði (nú dáinn). Ætlunin var m.a. að skoða Lónin suðaustanverð, svæðið nyrst á Austurtúninu og halda síðan út í Réttarkletta með áframhaldandi för yfir hraunið að upphafsstað. Við skoðun á því svæði kom ýmislegt skemmtilegt í ljós.

Í nefndri lýsingu segir m.a.: “Landamerki fyrir jörðina Lónakot í Garðahreppi. Lónakot, jörð í Álftaneshreppi hinum forna, síðar í Garðahreppi, fyrr og nú syðsta jörð þessara hreppa. Nú innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar. Er í eyði síðan um 1930. Lónakotsbærinn stóð á Bæjarhólnum, sem var sprunginn klettur, því sem næst í miðju Lónakotstúni, sem skiptist í Austurtún, Norðurtún og Vesturtún, öðru nafni Seltún.
LónakotTúnið lá innan Lónakotstúngarðs, en hann skiptist aftur á móti í suðurtúngarð með suðurtúngarðshliði, en þessi hluti túngarðsins lá um nyrztu hólma og granda Lónakotsvatnagarða, sem eru hólmar og lón í suðsuðaustur frá bænum, með fersku vatni jafnaðarlegast. Austurtúngarður lá á austurkanti túnsins frá einu lónanna um Krumfót, sem er klapparhóll, er einnig nefnist Vökhóll og Sönghóll. Á heimasta hluta hólsins var Vökhólsþúfa eða Sönghólsþúfa, sígræn hundaþúfa.”
KotagerðiÞegar svæðið í norðvesturhorni Lónakotstúnanna var skoðað var augljóst hvar nefndan Sönghól (Vökhól eða Krumfót) var að finna. Á honum er nefnd þúfa, stór og vel gróin. Neðan undir hólnum er ágætt skjól í gróinni kvos og enn neðar, á sjávarbakkanum, er Norðurfjárhúsið. Örnefnið Sönghóll er einnig til við Hvassahraun. Spurning er hvort heimafólk eitt sér eða í fagnaði með öðrum hafi safnast saman við þessa hóla og einhver þá tekið lagið.
SönghóllÞá var haldið yfir að bæjarhólnum. Í lýsingunni segir m.a. um það svæði: “Suðurtjörnin lá aftur á móti sunnan við Bæjarhólinn og þar í brunnurinn, en frá bænum lá Brunnstígurinn niður á Brunnstéttina, sem lá út í tjörnina að brunninum, sem var niðurgrafinn í mjúkan leirbotninn. Lónakotsvatnagarðar, hólmarnir og lónin suðsuðaustur frá Lónakoti, voru einnig nefndir Vatnagarðar eingöngu, Lónin Lónakotslón, Hólmarnir, Lónakotshólmar, og syðst í Vatnagörðunum er Vatnagarðahellir eða Vatnagarðafjárskjól, sem eiginlega liggur í landi Óttarsstaða, og nokkrar tjarnanna.”
Þá var haldið yfir að túngarðshliðinu suðvestan við bæinn. “Þegar haldið var suður úr suðurtúngarðshliði, var þar við Lónakotsselsstíginn, sem seinna varð Lónakotsvegur, alldjúp gjóta, sem nú er fyllt með grjóti, Yrðlingabyrgi.

GrjótÞar ól Hallgrímur Grímsson, bóndi í Lónakoti um aldamótin 1900, upp tófuyrðlinga. Byrgið er um 30 metra frá túngarðshliðinu. Suður frá því er svo Lónakotsréttin. Austur þar frá, á vinstri hönd við Lónakotsstíginn, er þúfnakargi með fjárhúskofa og kallast hér Kotið, einnig Dys í Koti. Austar þar var Kotagerði, fjárgerði. Allt lá þetta vestan hólma Vatnagarðanna. Sagnir voru um, að upphaflega hafi Lónakotsbærinn staðið þarna. Umhverfis þennan þúfnakarga var Kotagarðurinn, hlaðinn, einfaldur grjótgarður.”
Allar framangreindar tóftir eru enn vel greinilegar. Dys í Koti er stutt frá veginum og Kotagerðið austan hans. Kotagerðið er hringlaga, allstórt og vel gróið. Í því norðaustanverðu er tvískipt kofatóft. Annað gerði er undir hraunhól vestan við veginn, vestan við Dys. 

StekkurSkoðað var í Yrðlingabyrgið. Enn má sjá inn í byrgið. Í því er samansafn af alls kyns leifum, s.s. af vasafötum, netum o.fl. Það hefur verið notað sem ruslakista áður en urðað var yfir, en eftir að sigið hafði í gjótunni opnaðist það aftur.
Þá var haldið niður í Lónakotsfjörur og til vesturs með ströndinni. Gata liggur frá Seltúninu yfir í Réttarkletta, sem eru þar allnokkru vestar. “Gata þessi vestur með sjónum var gerð fær hestvagni eftir 1920 og eftir henni ekið með reka af fjörunum. Lónakotsvör var vestan og neðan vesturtúngarðsins, en mun sjaldan hafa verið notuð nema að sumri til. Hér nokkru vestar var Brimþúfa, þúfa uppi á kletti. Niðri í fjörunni var Mávahella, þar sátu mávarnir og skarfarnir [og] viðruðu sig.”
NípuskjólÍ fjörunni austan við vörina eru sérstakar grjótmyndanir, lábarið grjót sem brotnað hefur úr hrauni, sem streymt hefur fram og umvelkst í gjósku og ösku. Sjórinn hefður síðan séð um að hreinsa lausmélið utan af og skilað þessu sérkennilegu grjótmyndunum þarna á land. Brimþúfa sést enn. Einnig fallin varða, sundvarða, ofan við vörina með stefnu í Keili.
“Vestar var strýtumyndaður hóll, nefndist Nípa. Þar upp af í hrauninu var fjárskjól, Nípuskjól og Nípurétt, tóft réttar við hellisskúta syðst í lægðinni. Nokkru lengra vestur voru klettastrýtur, nefndust Réttarklettar. Milli þeirra voru allvel grónar flatir og réttartættur, garðar og skjól.”
GerðiRéttarklettar eru afmörkuð klettaborg, tilkomumikil á að líta. Allt umhverfis hana er hlaðinn garður og gras fyrir innan. Stekkur er norðaustan við klettana og grónar tóftir norðvestan undir þeim. Vestar er Grænhólsfjárskjólið.
Gata liggur frá Réttarklettum til suðurs. Þegar henni var fylgt var komið að hlöðnu fjárskjóli austur undir klapparhól, Brunnhól. Engin varða var við skjólið, sem virðist hafa verið ósnert alllengi. Að öllum líkindum er hér um að ræða svonefndan Hausthelli, “fjárskjól gott”, sem Gísli Sigurðsson lýsir í örnefnalýsingu sinni og átti að vera á þessu svæði. Skammt ofar er varða við götu, sem liggur frá austri til vesturs, sennilega á milli Óttarsstaða og Hvassahrauns, Jakobsvarða. Í örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði segir um þetta svæði: “Austur af Ingveldi er Jakobsvörðuhæð og á henni Jakobsvarða.

BrunnhóllNorðan undir hæðinni var eins og ævagamall stekkur eða rétt. Hæðin er við götuslóða, sem lá neðan frá Óttarsstöðum upp að fjárborg, sem er þarna miklu ofar.”
Ofan við hana eru sérkennilegar hleðslur í og ofan við klapparsprungu á hól. Sennilega er hér um nefndan Brunnhól að ræða. Hlaðið er í sprunguna í báða enda miðsvæðis og síðan eftir börmunum milli fyrirhleðslanna. Erfitt er að sjá til hverra nota þetta mannvirki hefur verið – nema þar hafi verið brunnur.
Eflaust eru fleiri minjar faldar þarna í tilkomumiklu hrauninu. Og gaman hefði verið að birta hér rmyndir af öllum örnefnum og minjum á framangreindri leið, en rýmið leyfir það ekki. Ætlunin er að skoða svæðið betur á næstunni.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar AG og GS fyrir Lónakot.
-Örnefnalýsing fyrir Óttarsstaði.
-Leifur Sörenssen.

Réttarklettar

Réttarklettar.