Færslur

Kapella

Tvö upplýsingaskilti eru við uppgerða kapellu í Kapelluhrauni, gegnt álverinu; annað frá Þjóðminjasafninu og hitt frá Byggðasafni Hafnarfjarðar.
Á fyrrnefnda skiltinu stendur:

Kapella

Upplýsinagskilti Þjóðminjasafnsins við kapelluna.

“Rústir smákapellu frá miðöldum, sem reist hefur verið til skjóls fyrir ferðamenn í illveðrum við hina fornu alfaraleið um Nýjahraun (Kapelluhraun), sem mun hafa runnið á 14. öld. Kapellan var rannsökuð 1950 og fannst þar lítið líkneski úr leir af heilagri Barböru, hollenskt að uppruna. Heldur Barbara á turni, einkennistákni sínu, en hún var efir helgisögunni lokuð inni í turni og leið þar píslavættisdauða. Gott þótti að heita á heilaga Barböru gegn eldsvoða og gæti hún hafa orðið fyrir valinu vegna eldhraunsins.”

Á síðarnefnda skiltinu stendur:

“Árið 1950 var rústin rannsökuð af þeim dr, Kristjáni Eldjárn þjóðminjaverði, Gísla Gestssyni safnverði, Jóhanni Briem listmálara og dr. Jóni Jóhannessyni. Fundust þá nokkrir munir í rústinnni og ber þar helst að nefna hluta af líkneski heilagrar Barböru. Líkneskið var úr grágulum leirsteini og var einungs um 3.3. cm á hæð, en hefur líklega verið um 5.5. cm heilt. Þar sem hraunið sem kapellan stendur á er yngra en landnám var það vel við hæfi að einmitt heilög Barbara fanst þarna, sem e.t.v. stendur í sambandi við bæn um það, að svona hrikalegt hraunrennsli endurtaki sig ekki. Styttan sem fannst við rannsóknina er varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands, en þessi hérna er eftir líking, svipuð en lítið eitt stærri.
Kapella þessi var alveg við gamla veginn og hefur því líklega einnig verið eins konar sæluhús. menn hafa farið þar inn til að bilja bæn sína, en líka til að hvílast eða leita skjóls í vondum veðrum.

Kapella

Upplýsingaskilti Byggðasafnsins við kapelluna.

Kapella þessi er á skrá yfir friðlýstar fornminjar og er talið að hún sé frá kaþólskum tíma en ekki hefur hún verið aldursgreind nánar. Hraunið umhverfis kapelluna hefur verið kallað Kapelluhraun eða Nýjahraun og er talið að það hafi runnið einhvern tímann á tímabilinu 1100-1300. Kapellan er rétt við gamla krákustíginn, sem ruddur var fljótlega eftir að hraunið rann og hefur verið alfaraleið úr á nes öldum saman.

Saga heilagrar Barböru:

Kapella

Kapella – stytta af heilagri Barböru.

Snemma á 3. öld var höfðingi í borginni Nikódemdíu í Litlu-Asíu, þar sem nú er Izmid í Tyrklandi. Átti hann forkunnarfríða dóttur er Barbara hét. Hún var í æsku lokuð inni í turni einum til að forðast biðla en þrátt fyrir einangrunina tókst Origenes kirkjuföður að komast inn til hennar og fyrir fortölur hans tók hún kristna trú. Barbara lét aldrei af trú sinni, þrátt fyrir pyntingar sem að stærstum hluta voru gerðar að kröfu föður hennar, sem vildi snúa henni aftur til heiðinnar trúar. Að lokum var hún leidd fyrir dómara og dæmd til lífláts í ofsóknum á kristna menn.
Hún varð snemma kaþólskur dýrlingur, aðallega ákölluð við óvænta hættu, eldsvoða, sprengingar og þess háttar. Hérlendis lá því beint við að ákalla hana í sambandi við jarðelda og hraunflóð.”

Sjá meira um kapelluna HÉR.

Kapella

Kapellan í Kapelluhrauni.

Kapella

Kristján Eldjárn skrifaði um fornleifarannsóknir í Kapelluhrauni vestan Hafnarfjarðar og Kapellulág austan Grindavíkur í “Árbók hins íslenska fornleifafélags” árið 1955:

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn.

“Á tveimur stöðum á Reykjanesskaga eru örnefni dregin af kapellu. Þau eru Kapelluhraun í landi Lambhaga í Garðahreppi og Kapellulág hjá Hrauni í Grindavík. Báðum örnefnunum eru tengdar sagnir, sem snúast um mannvirki á stöðunum. Verður hér skýrt frá árangri rannsókna, sem gerðar hafa verið á þessum fyrirferðarlitlu en forvitnilegu mannaverkum.

Kapellan í Kapelluhrauni við Hafnarfjörð (fornleifarannsókn 1950)
Fyrir sunnan Hafnarfjörð er hraunfláki mikill, sem upptök á í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Hraun þetta heitir nú í daglegu tali Bruninn, nema neðsti eða nyrzti hluti þess heitir Kapelluhraun. Það er mjög úfið og lítt gróið apalhraun, og eru jarðfræðingar á einu máli um, að það hafi runnið eftir að land byggðist. Ráða þeir það af útliti og ástandi hraunsins, en auk þess er talið víst, að þetta sé hraun það, sem í gömlum heimildum er nefnt Nýjahraun.

Kapelluhraun

Kapellan í Kapelluhrauni – herforingjaráðskort 1903.

Í landamerkjaskrám er sagt, að mörkin milli Hvaleyrar og Straums séu í norðurbrún Nýjahrauns. Kjalnesinga saga, sem talin er rituð á 14. öld, nefnir og Nýjahraun, og í annálum er þess getið, að skip, er lét út úr Hvalfirði, hafi brotið við Nýjahraun fyrir utan Hafnarfjörð, og á þetta að hafa gerzt árið 1343. Nafnið Nýjahraun sýnir ótvírætt, að hraunið hefur runnið eftir landnámsöld, en heimildirnar, að það sé eldra en frá 1343.
Þegar Nýjahraun rann, hefur það orðið ófær farartálmi á leiðinni suður með sjó. Hefur eflaust þá þegar verið ruddur um það vegur sá, sem síðan var notaður, unz bílvegur var gerður.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði ofan Péturskots, skammt vestan kapellunnar.

Gamli vegurinn var mikið mannvirki. Hann liggur þar sem skemmst er yfir hraunið (á ská yfir akveginn, sem nú er, 1955), mjög krókóttur, eins og slíkir hraunvegir eru, sem þurfa að þræða milli hárra hraunhóla og djúpra katla, en nóg er af hvoru tveggja í Kapelluhrauni. En vegurinn er sæmilega sléttur og breiður, enda mátti skeiðríða hann. Fast við veginn sjávarmegin, um miðju vegu milli hraunjaðra, er mannvirki, sem kallað er Kapellan, og dregur neðsti hluti hins gamla Nýjahrauns nafn af henni á síðustu tímum.

Kapellan

Kapellan – sjá má leifar Alfaraleiðarinnar, sem lá framhjá henni áður en Suðurnesjavegurinn kom til.

Ekki er mér kunnug eldri heimild um Kapelluna en sóknarlýsing séra Árna Helgasonar um Garðaprestakall frá 1842. Séra Árni segir svo: „Nálægt í miðju þessu hrauni er upphlaðin grjóthrúga rétt við veginn, sem fólk kallar Kapellu og segir þar séu dysjaðir þeir menn frá Bessastöðum, sem drepnir hafi verið í hefnd eftir Jón biskup Arason 1551, er ólíklegt þykir satt geti verið”.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er stutt frásögn um Kapelluhraun og Kapelluna, og er henni lýst þannig: „Hún er að norðanverðu við veginn, hlaðin upp af hellugrjóti í lögun eins og borg.
KapellaDyrnar hafa snúið móti suðri, en nú eru þær fullar af mold og mosa. Kapellan er og hærri að norðan en sunnan. Sagt er, að í Kapellunni sé grafinn einn af umboðsmönnum þeim, sem áður voru á Bessastöðum. Var honum gert umsátur þarna í hrauninu, drepinn þar og grafinn”. Þessi frásaga mun eiga rætur að rekja til séra Jóns Þórðarsonar á Auðkúlu.
Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi segir þannig frá Kapellunni: „Kapellutóftin í Kapelluhrauni, þar sem sagt er, að lík Kristjáns skrifara hafi verið náttsett, stendur enn að mestu. Raunar er hún nokkuð hrunin utan, einkum vesturgaflinn, og eru dyrnar hrundar saman. Innan er tóftin að öðru leyti hér um bil heil. Er hún hlaðin úr smáum, flötum hraunhellum. Hún er nálægt jöfn á lengd og breidd, ekki fullar fjórar álnir. Þakið er dottið ofan í tóftina. Það mun hafa verið hlaðið saman í topp, einnig úr hraunhellum”.
KapellaLoks má geta þess, að Bjarni Sæmundsson hermir þau munnmæli að í Kapellunni hafi verið dysjaður einn af mönnum Kristjáns skrifara. Kallar Bjarni mannvirkið grjótdys.

Hinn 21. maí 1950 var Kapellan rannsökuð, eftir því sem kostur var á. Auk mín unnu að rannsókninni Gísli Gestsson safnvörður, Jóhann Briem listmálari og dr. Jón Jóhannesson. Þegar við hófum rannsóknina, var húslag rústarinnar svo skýrt, að engum gat blandazt hugur um, að þarna hefði staðið hús og ekkert annað. Hið sama kemur berlega fram í lýsingum Brynjúlfs Jónssonar og þjóðsagnanna. Séra Árni Helgason kallar rústina hins vegar „upphlaðna grjóthrúgu“, og bendir það orðalag til þess, að hún hafi litið öðruvísi út á hans dögum, verið líkari hrúgu en hústóft.
KapellaHúslagið hefði eftir þessu átt að koma fram seinna við það, að einhver hefði rifið upp grjót innan úr tóftinni, enda þóttumst við sjá þess ótvíræð merki, að tekið hefði verið mikið grjót við austurgafl, bæði stærri steinar, sem oltið höfðu úr veggjum, og smásteinar úr gólfi, og hafði þessu grjóti verið varpað yfir í vesturendann. Lá þar dyngja mikil, og sá ekki fyrir dyrum eða dyrakömpum að vestan. Einhver hefur þannig grafið niður með austurgafli og alveg niður á gólf eða jafnvel niður úr gólfi, og líklega hefur þetta gerzt um miðja 19. öld, ef marka má orðalagsmun höfundanna, sem til var vitnað hér að framan. Við tíndum það sem eftir var af grjóti út úr tóftinni, og kom þá lögun hennar skýrt fram.

Jóhann Briem

Jóhann Briem.

Kapellutóftin snýr austur-vestur, þó ekki alveg eftir áttavita, heldur veit framstafninn ögn til suðvesturs. Hann er þó kallaður vesturhlið hér og aðrar hliðar eftir því. Tóftin er öll lögulega hlaðin úr hraunsteinum, og halda veggir sér furðu vel, einkum að innan. Lengdin er 2,40 m, breidd við vesturgafl 2,20 m, en við austurgafl 2,10, og má það í rauninni heita sama breidd austast og vestast. Hæð veggja að innan er 1,80 m við austurgafl, 1,20 í norðausturhorni, 1,35 í suðausturhorni, 0,95 í norðvesturhorni og 1,0 í suðvesturhorni.

Gísli Gestsson

Gísli Gestsson, safnvörður. tók fjölmargar myndir, en fáar eru tila f honum sjálfum. Hér er hann við kumlarannsóknir í Þjórsárdal.

Þar sem hægt er að mæla veggþykkt, er hún um 1,0 m. Á vesturgafli eru dyrnar, og eru dyrakampar meira hrundir en aðrir veggir, einkum þó syðri dyrakampur, en þó eru þeir mjög skýrir. Ekki grófum við alveg út úr dyrum, og var það gert í því skyni, að auðveldara væri að koma rústinni í samt lag eftir rannsóknina. Inn úr dyrum hússins voru flatar hraunhellur í gólfi, enda einnig lítils háttar í suðausturhorni, og virðist svo sem allt hafi gólfið verið flórað, en hellur að miklu leyti rifnar upp, þegar gert var rask það, er að framan getur. Á gólfinu sást töluvert af rauðbleikri ösku og viðarkolabútar í, einkum neðst. Miklu meira bar þó á öskunni en kolamolunum. Langmest var af öskunni í suðvesturhorni tóftarinnar. Í öskunni voru naglarnir og leirkerabrotin, sem talin verða hér á eftir, en þó strjálingur þessara hiuta um gólfið allt.

Kappella

Kapellan í Kapelluhrauni endurgerð.

Ekki tel ég auðið úr því að skera nú, hvort hús þetta hefur verið borghlaðið, eins og Brynjúlfur Jónsson telur. Fremur þykir mér það ólíklegt. Hornin eru að vísu bogadregin, en þó verður húsið að kallast greinilega ferhyrnt að lögun. Hins vegar hafa veggir allir verið hiaðnir í fullri hæð úr hraungrýti, einnig gaflar alveg upp úr, a. m. k. austurgafl með vissu og sennilega einnig vesturgafl. Þakið sjálft tel ég líklegt, að hafi verið uppreft og tyrft, þó að hugsanlegt sé, að það hafi að einhverju leyti verið gert af hraunhellum án þess að vera borghlaðið.

Kapella

Kapellan með friðlýsingaskilti framan við.

Eftir rannsóknina var reynt að ganga frá tóftinni sem líkastri því, sem hún var áður. Ég kom aftur að Kapellunni 26. nóv. 1955. Hún hafði farið vel að stöfnum eftir rannsóknina, ekki hrunið, en klæðzt mosa eðlilega. Hins vegar hefur umhverfi hennar stórum verið spillt við stórkostlega töku hraunsalla í vegi og húsgrunna. Hafnarfjarðarbær hefur keypt þennan hluta hraunsins. Á því friðlýsingarskjal Kapellunnar að vera í hans vörzlu, og hafa ráðstafanir verið gerðar til að koma því í rétt horf.
[Lambhagi (181125 167). Kapellutóft (181125 167-1) forn úr grjóti í Kapelluhrauni. Sbr. Árb. 1903: 34. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 15.11.1938.]

KapellaÍ Kapellunni reyndust vera fjölskrúðugri mannvistarleifar en búizt var við að órannsökuðu máli. M.a. fannst mynd af heilagri Barböru, telgd úr grágulum leirsteini, aðeins efri hluti eða vel niður fyrir mitti, fannst í þremur hlutum, sem auðvelt var að fella saman. Myndin eða líkneskið er nú aðeins 3,3 sm á hæð, en hefur líklega verið um 5,5 sm heilt. Það er haglega telgt, andlitið nokkuð máð, hár mikið og hrokkið og nær niður á herðar og sveigur um yfir ennið. Barbara er í flegnum kjól, aðskornum í mitti, barmurinn hvelfdur, kjóllinn í miklum fellingum neðan beltis. Hún grípur hægri hendi i kjólinn, og sést, að hann er ermalangur. Skikkju slegna hefur hún yfir um axlir, og fellur hún með stórum, mjúkum fellingum á baki.

Kapella

Endurgerð stytta af heilagri Barböru í kapellunni.

Í vinstri hendi heldur Barbara á einkunn sinni, turninum, og hvílir hann við vinstri öxl og upp með vinstri vanga hennar. Turninn er ferstrendur með undirstöðu neðst, síðan nokkru grennri bol, þar sem tveir gluggar sjást, sinn á hvorri hlið, slær sér síðan aftur út líkt og neðst, en upp úr hefur loks verið toppur, sem nú er að miklu leyti brotinn af. Sýnilegt er, að einhvern tima hefur verið brugðið knífi á líkneskinu, sennilega til að kanna efnivið þess, eins og menn gera oft fyrir forvitni sakir. — Lítið brot úr sams konar eða mjög líkum steini fannst einnig í tóftinni skammt frá Barbörulíkneskinu. Það er tiltelgt og mætti vel vera úr neðri hluta myndarinnar, þótt ekki sé hægt að koma því í samhengi nú.

Kapellan

Kapellan – líklenski heilagrar Barböru endurgert.

Ekki virðist ástæða til að efa, að Barbörulíkneskið sé frá kaþólskum tíma, en ekki treysti ég mér til að tímasetja það nánar. Líkneskið sýnir þá, að húsrúst þessi mun vera síðan fyrir siðaskipti, því að óhugsandi virðist með öllu, að það hafi borizt í rústina á seinni öldum. Þá bendir og líkneskið eindregið til þess, að nafn rústarinnar segi rétt til um upphaflega notkun hússins. Það hefur að líkindum verið kapella, þar sem vegfarendur gátu staðnæmzt til að gera bæn sína.
Húsið hefur verið alveg við gamla veginn og vitað við áttum eins og kirkja. Mætti hugsa sér, að kapellan hafi verið reist þarna um leið og vegurinn var gerður yfir nýja hraunið, sem þvergirti fyrir leið manna suður með sjó. Eflaust hafa þau tíðindi þótt mikil og ill og ekki hættulaust að ryðja veginn og fara hraunið, meðan það var nýrunnið. Gat hætta sú og óhugnaður, sem hrauninu fylgdi, verið ástæða þess, að kapella var reist einmitt þarna. Stoðar þó að vísu lítt að gizka á slíkt, en hitt má vera því nær víst, að hús þetta hafi í raun og veru verið kapella, eins og nafn þess bendir til.

Kapella

Kapellan – misvísandi skilti frá mismunandi aðilum…

Líkneski Barböru er af þeirri tegund smálíkneskja, sem menn báru á sér sem verndargripi. Dýrkun heilagrar Barböru meyjar hefur sjálfsagt verið allmikil hér á landi eins og annars staðar. Þó var hún ekki nafndýrlingur neinnar kirkju hér á landi, en meðal verndardýrlinga tveggja, kirknanna í Reykholti og Haukadal. Barbörulíkneski áttu að minnsta kosti fjórar kirkjur, í Reykholti, Vestmannaeyjum, Holti í Saurbæ (Stórholti) og Möðruvöllum í Eyjafirði.
Myndir af Barböru hafa auk þessa auðvitað verið á mörgum kirkjugripum, svo sem altaristöflum og skrúða, og má nefna sem dæmi þess saumaða mynd á kórkápu Jóns Arasonar, Barbörumyndir á útskornum altaristöflum frá Reykholti og Síðumúla og á sjálfri stóru altaristöflunni í Hólakirkju, en fleira mætti sjálfsagt nefna. Barbörumyndin í Kapellunni er vitanlega ekki full sönnun þess, að rúst þessi hafi í raun og veru verið kapella á kaþólskum tíma. En hún bendir þó til þess, að menn hafi haft þar tilbeiðslu um hönd öðrum stöðum fremur.

kapella

Leirkersbrot, nagla og skeifubrot treysti ég mér ekki til að tímasetja, en ekkert er óeðlilegt að rekast á þetta dót þarna, þó aldrei nema húsið hafi verið kapella í pápísku. Líklega hefur það verið eins konar sæluhús öðrum þræði, menn hafa farið þar inn til að gera bæn sína, en einnig til þess að hvílast eða leita skjóls í vondu veðri, jafnvel til að matast. Þetta kann að hafa verið frá upphafi ellegar ekki fyrr en eftir siðaskipti, því að sennilega hefur húsið staðið a.m.k. fram á 17. öld. Krítarpípuleggurinn sýnir það. Þarna hafa menn verið á ferð eftir að tóbak komst í notkun hér á landi. Og eldur hefur verið gerður á gólfi til þess að orna sér við, sjóða mat eða hvort tveggja. En ekkert af þessu þarf að mæla því í gegn, að húsið hafi upprunalega verið bænahús vegfarenda á óhugnanlegum stað.

Kapella

Kapella á Helgafelli á Snæfellsnesi.

Í ýmsum kristnum löndum eru enn til smákapellur, sem reistar hafa verið við vegi á miðöldum, ætlaðar vegfarendum til bænagerðar. Þá voru og stundum reistir krossar úti á víðavangi í sama skyni. Slíkur hefur verið krossinn, sem lengi stóð við hættuleiðina í Njarðvíkurskriðum, milli Njarðvíka og Borgarfjarðar eystra. Við hann áttu menn að lesa faðirvor. Af slíkum krossum kunna og að vera dregin sum örnefni af krossi eða krossum. Nefna má og í þessu sambandi hústóft litla úr grjóti, sem er uppi á Helgafelli á Snæfellsnesi og kölluð er „kapellan“. Víst mun hún hafa verið bænahús í kaþólskum sið. Hana má bera saman við Kapelluna í Kapelluhrauni, þótt ekki standi hún við veg. Fleiri sambærilegar menjar er mér ekki kunnugt um hér á landi, úr því að rústin í Kapellulág verður að dæmast úr leik, svo sem fram kemur hér að aftan.

Kapellulág hjá Hrauni í Grindavík (fornleifarannsókn 1954)

Kapella

Hraunssandur og nágrenni – herforingjaráðskort 1903.

Austur frá Hrauni í Grindavík og allt til Festarfjalls heitir Hraunssandur, enda er þar mjög blásið og sér lítinn sem engan gróður á heilum flákum. Þó sagði Gísli Hafliðason, gamall bóndi á Hrauni og átti þar heima alla ævi (d. 1956), að allt sé þarna heldur að gróa upp, sandurinn sé að festast, og mun það eflaust rétt athugað.
Um Hraunssand hefur frá fornu fari legið vegur, og var um hann áður fyrri mikil umferð af mönnum austan úr sýslum, lestamönnum haust og vor og vermönnum um vetur.

Kapella

Kapellan á Hraunssandi 2023.

Frumstæður bílvegur liggur nú mjög þar sem gamli vegurinn var áður. Um það bil 1 km fyrir austan bæinn á Hrauni er lægðardrag allmikið í sandinum, hefst í hæðunum hið efra og nær niður að sjó, víkkar niður eftir og virðist myndað af rennandi vatni, þó að nú sé hvergi vatn á þessum slóðum. Lægð þessi heitir Kapellulág. Rétt neðan við bílveginn, sem nú liggur þvert yfir lægðina á sama stað og gamli vegurinn lá fyrrum, er töluvert áberandi þúst eða grjóthrúga, auðþekkt mannaverk í sandauðninni.

Kapella

Kapellan í Kapellulág 2000.

Þessi grjóthrúga er í daglegu tali kölluð Dysin, og hermir Brynjúlfur Jónsson um hana eftirfarandi sögu: „Þá er Tyrkir rændu í Grindavík (1627), flýði drengur einn undan þeim, ríðandi á rauðri meri, og hleypti upp veg. Einn af Tyrkjum elti hann og var svo fljótur á fæti, að hann náði honum í Kapeliulág. Þreif hann þá í tagl merarinnar. En hún sló báðum afturfótum fyrir brjóst honum svo hart, að hann lá dauður eftir. Var hann þar dysjaður, og á rústin að vera dys hans”.
Á sjávarbakkanum um 200 m suðaustur frá dysinni er grasi gróinn hóll, sem heitir Hvalhóll. Menn taka mið af þessum hól, þegar hann ber í dysina frá sjónum séð, og heitir þetta mið Húsið. Í því nafni felst sjálfsagt réttari bending um uppruna þessa mannvirkis en í munnmælasögunni.

Festarfjall

Festarfjall frá sunnanverðum Hvalhól.

Fleira er eftirtektarvert í umhverfi dysjarinnar. Fyrir austan hana er allmikil hæð, og af henni er skammt austur að sjó, þar sem Hraunsvík nær lengst inn undir Festarfjall. Þar er mjög hár sjávarbakki, og grefur sjór hella inn í móbergið. Þar var hellir, sem nú er mjög lítið eftir af, og hét Dúnknhellir. Þannig bar Gísli á Hrauni þetta fram mjög greinilega. Magnús bróðir hans sagði Dúknhellir, en Jón Engilbertsson á Hrauni sagði Dúnkshellir. Á korti herforingjaráðsins stendur Dúknahellir. Þannig skrifar einnig séra Geir Bachmann í sóknarlýsingu Grindavíkur 1840— 41 (Landnám Ingólfs III, bls. 142).

Hraunsvík

Hraunsvík – Dúknahellir.

Á skerjum nokkrum undir Festi segja þeir á Hrauni, að áður hafi verið járnhringar til þess að festa skip, og hafi írar fest þar skip sín. Þessir járnhringar munu ekki sjást lengur, og enginn þeirra á Hrauni hafði sjálfur séð þá, en þeir þóttust þó vita fyrir víst, að þessir hringar hefðu verið þarna. (Sbr. og Jón Þorkelsson, Þjóðsögur og munnmæli, Reykjavík 1899, bls. 1.)
Dysin í Kapellulág var rannsökuð dagana 13. og 14. maí 1954. Auk mín unnu við rannsóknina Gísli Gestsson safnvörður og Jóhann Briem listmálari fyrri daginn, en Gísli og Guðmundur Þorsteinsson frá Lundi seinni daginn). Báða dagana nutum við gestrisni Gísla Hafliðasonar á Hrauni og konu hans. Veður var gott báða dagana, skúrir þó seinni daginn, en vinnufriður sæmilegur.
KapellaBrynjúlfur Jónsson lýsir dysinni svo árið 1903, að hún sé „dálítil grjótrúst, nokkuð grasgróin, svo sem 3 al. í þvermál að ofan, en fláir utan og virðist vera nokkuð hrunin. Naumast er hún yfir 1 al. á hæð”. Þessi lýsing á sæmilega við dysina, eins og hún leit út, áður en við byrjuðum að grafa í hana. Hún var að sjá eins og hver annar blásinn hóli, steinar oltnir út úr á allar hliðar, en nokkuð gróið á milli. Einkum var kollurinn vel gróinn, og vottaði þar ekki fyrir neinni laut eða lægð. Að ógröfnu mátti þó aðeins greina steinaraðir, sem stóðu upp úr þessum gróna kolli og virtust sýna innri brúnir veggja í litlu húsi.
[Hraun (181010 10). Lítil rúst í Kapellulág (181010 10-1), við veginn upp á Siglubergsháls. Sbr. Árb. 1903: 46-47. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 15.11.1938.]

kapellaÞegar við vorum búnir að mynda dysina, fórum við að grafa innan úr henni, eftir því sem þessar steinaraðir eða veggbrúnir sögðu til. Mold létum við sér og grashnausa sér til þess að geta komið öllu í sama fallega lagið aftur, þegar rannsókninni væri lokið. Efsta rekustungan eða vel það var eingöngu foksandur moldarblandinn. Í honum voru nokkur stórgripabein og fuglabein nýleg. Á hér um bil 50 sm dýpi varð vart við fyrstu mannvistarleifar, koladrefjar, sem ekki voru tilkomumeiri en það, að þær héngu ekki saman svo að lag myndaðist. Við hreinsuðum upp alla tóftina við þetta lag, gerðum uppdrátt og tókum myndir. Niðri við lagið eða um 45 sm frá yfirborði. Inni undir húsgafli (þ. e. austurgafli), fundum við eina stappaða látúnsþynnu.
KapellaNú skal lýsa húskofa þessum, eins og hann kemur fyrir sjónir uppgrafinn. Það varð þegar í stað ljóst við rannsóknina, að við höfðum fyrir okkur lítið hús eða hústóft, sem var barmafull af mold, sandi og grjóti, innveggir lítið sem ekki hrundir, en útveggir mjög hrundir og steinar úr þeim skriðnir út á alla vegu. Af því skapaðist dysjarútlitið og þá einnig nafnið og loks munnmælasagan um Tyrkjann. Í miðnafninu Húsið hefur hins vegar geymzt minning um, að þetta hafði í upphafi verið hús. Það hefur verið ótrúlega lítið, 2,20 m að lengd og 1,20 m að breidd. Veggirnir eru hlaðnir úr grjóti í 1 m hæð og standa vel að innan, lítið eitt fláandi upp eftir, þ.e. hallast út.

Grindavík

Grindavík – dys við Hraun. Kristján Elján hafði meiri áhuga á þessum manngerða hól, en entist ekki aldur til.

Ekkert bendir til þess, að hús þetta hafi verið kapella, annað en nafnið Kapellulág. Rústin sjálf var ekki kölluð Kapella, heldur Dysin. Miðnafnið Húsið er fremur bending um, að hús þetta hafi ekki verið kapella. Ekki er þarna heldur neinn svo hættulegur staður, að eðlilegt væri að hafa þar bænhús fyrir vegfarendur, enda örstutt að Hrauni, þar sem áður var kirkja. Þrátt fyrir þetta hefðu þó getað verið einhverjar ástæður til þess að þarna væri reist kapella, en heimildir eða staðhættir mæla ekki sérstaklega með því, og fornleifafundurinn mælir því mikið heldur í gegn, þótt hann afsanni það ekki að fullu. Til dæmis snýr húsið í vestur án þess að sjáist, hvernig á því stendur, jafnvel snýr það dálítið skakkt upp á móti brekku, eins og nokkuð hafi þótt við liggja, að það snéri einmitt þannig. En ekki er þetta nógu veigamikið til þess að halda megi fram þess vegna, að húsið hafi verið bænhús.

Hraun

Signingasteinn (skírnarsteinn) við Hraun. “Sigurðarhús” h.m.

Þegar hinir mörgu smáhlutir komu fram á svo litlum bletti og loks enskur peningur í þokkabót, hvarflaði hugurinn óneitanlega að verzlun Englendinga hér á miðöldum. Eins og kunnugt er, var Grindavík einmitt einn sá staður, þar sem þeir stóðu hvað föstustum fótum. Gat það verið, að þarna væri beinlínis fundin svolítil ensk búðarhola, þar sem einkum hefði verið verzlað með kvenlegan glysvarning? Hugmyndin virtist góð í fyrstu, en ekki get ég þó haldið þessari skýringu til streitu.
Að öllu athuguðu held ég helzt, að hús þetta hafi verið verkstofa málmsmiðs. Því til sönnunar tel ég fyrst og fremst það, að sumir smáhlutirnir virðast greinilega ekki fullgerðir. Afklippur úr látúni og tini benda og í sömu átt. Skylt er þó að vekja athygli á, að ekki fundust nein merki um, að bræddur hefði verið málmur á þessum stað, hvorki málmdropar né gjall, deiglubrot eða þess háttar. En ekki afsannar það, að þarna hafi hafzt við maður, sem hafði að atvinnu að smíða hluti þá ýmsa, sem þarna fundust.

Kapella

Kapellan á Hraunssandi í dag (2024).

Einkennilegast er staðarvalið. Að vísu er ekki ljóst, hvernig umhverfi hússins hefur verið á miðöldum, þó að trúlegt sé, að þá þegar hafi það verið mjög blásið, og hefði það þó ekki þurft að gera smiðnum neitt til. Hitt er torskýrðara, hversu einangrað þetta hús er og snautt að öllum mannvistarleifum öðrum.”

Heimild:
-Árbók Hins íslenzka fornleifafélags – 01.01.1955, Kapelluhraun og Kapellulág; fornleifarannsókn 1950 og 1954, Kristján Eldjárn, bls. 5-34.

Kapella

Kapellan á Hraunssandi.

Kappella
Í Öldinni okkar, 7. nóv. 1550, segir að Jón biskup Arason og synir hans, sem með honum voru gripnir á Sauðfelli í haust, séra Björn á Melstað og Ari sýslumaður í Möðrufelli, voru hálshöggnir í Skálholti í morgun, þvert ofan í lögmannsdóminn, sem kveðinn var upp í Snóksdal fyrir hálfum mánuði.
Skálholt

Skálholt.

Talið er, að fógetinn á Bessastöðum, Kristján skrifari, hafi verið frumkvöðull aftökunnar, en aðrir fyrirmenn í Skálholti samþykkt hana.
Kristján skrifari ætlaði að hverfa frá Skálholti vegna ágreinings um hvað skyldi verða um þá feðga. Lét fógetinn söðla hesta sína og bjóst til brottfarar. Þeir Marteinn biskup og Daði í Snóksdal gengu þá til hans og drukku honum til af silfurkerjum, sem þeir gáfu honum síðan til þess að sefa reiði hans. Við það frestaði hann brottför sinni, og mun þá hafa samist, að þeir feðgar þrír skyldu hálshöggnir.

Skálholt

Skálholt fyrrum.

Menn voru þegar settir til að gera aftökustað austan við túnið í Skálholti, og var þangað fluttur gamall vindustokkur frá kirkjunni og höggvið í hann hökuskarð, svo að nota mætti sem höggstokk. Böðull hafði þegar verið fenginn frá Bessastöðum til þess að vinna á þeim feðgum.
Þegar morgnaði, voru fangarnir búnir til aftökunnar. Ari var fyrst leiddur á höggstokkinn, og fylgdi honum prestur sá, sem vakað hafði hjá honum um nóttina. Vildi Ari ekki, að bundið væri fyrir augu sér. Hann gaf böðlinum gjöf til þess, að hann ynni verk sitt hreinlega eins og alsiða er erlendis. Síðan hjó böðullinn hann og fórst allvel.

Skálholt

Skálholt – minnismerki um Jón Arason og syni hans.

Þessu næst var höggstokkurinn færður og sér Björn leiddur til höggs. Böðlinum fataðist fyrsta höggið. Hljóp Daði í Snóksdal þá til og skipaði böðlinum að fullkomna verk sitt. Murkaði böðull loks af honum höfuðið í fjórða höggi.

Síðastur var Jón biskup höggvinn, og fylgdi séra Hængur Höskuldsson á Stóru-Völlum á Landi honum til aftökunnar. Hafði biskup kross í hendi. Við höggstokkinn kraup hann sjálfur á kné og signdi sig. Þegar biskup var lagstur á höggstokkinn, reiddi böðullinn öxi sína til höggs. En höggið geigaði hjá honum sem fyrr, og við þriðja högg mælti biskup: “In manus tuas, domine, commendo spiritum meum” – herra, í þínar hendur fel ég anda minn. Það heyrðu menn hann mæla síðast orða, en í sjöunda höggi tók loks af höfuðið.

Eftirmáli – janúar 1551

Kirkjuból

Tóftir Kirkjubóls.

Norðlenskir vermenn drápu alla danska vetursetumenn á Suðurnesjum til hefnda eftir Jón biskup Arason og syni hans nú rétt fyrir Pálsmessu svo að ekki lifir utan einn, sem slapp frá þeim og komst í Skálholt. Meðal þeirra, sem að velli voru lagðir, var fógetinn á Bessastöðum, Kristján skrifari, er stóð fyrir aftöku Hólafeðga.

Þremur nóttum fyrir Pálsmessu komu sextíu norðlenskir vermenn suður á Reykjanes, og er það almannarómur, að Þórunn á Grund, dóttir Jóns biskups, hafi búið þá til ferðar og lagt svo fyrir, að þeir skyldu drepa alla Dani, sem þeir fengju færi á, hvar sem til þeirra næðist.

Kirkjuból

Kirkjuból – grafstæði.

Fógetinn, Kristján skrifari, tók sér gistingu að Kirkjubóli á Miðnesi með förunauta sína hjá Jóni bónda Kenrikssyni. Norðlendingar héldu uppi njósnum umferð hans, og um kvöldið eða nóttina dreif að flokka manna, sem slógu hring um bæinn. Voru þar komnir Norðlendingar þeir, sem talið er að Þórunn á Grund hafi gert út til hefnd. Voru þeir allir með hettur og hökustalla, svo að ekki yrðu borin á þá kennsl.
Norðlendingum varð það fyrst fyrir, er þeir sáu, að til bardaga myndi koma, að þeir létu kalla séra Jón Bárðason út, svo að hann fengi ekki mein af vopnum manna, og þekktist hann þegar boð þeirra um undankomu. Síðan rufu þeir húsin og veittu Dönunum atgöngu er þeir þóttust hafa brotið sér nógu greiða leið. Féllu allir þar inni, sjö eða níu, nema fógetinn, sem komst út, nokkuð sár. Var hann í hringatreyju, sem járn bitu ekki á, og fékk varist enn umhríð, uns til koma einn sveina Þórunnar á Grund. Hann var með lensu í hendi og kvaðst skjótt skyldu finna lagið á fógeta. Lagði hann lensuna neðan við treyjuna upp í smáþarmana. Rak fógeti þá upp hljóð, er hann kenndi lagsins, og lýsti piltinn banamann sinn. Meðal þeirra, sem drepnir voru á Kirkjubóli, var ungur sonur fógetans, Baldvin að nafni.

Kirkjuból

Kirkjuból – loftmynd 1954.

Þegar lokið var vígum, drógu Norðlendingar líkin norður fyrir garð á Kirkjubóli, þar sem þeir urðuðu þau í einni kös.
Á Bústöðum á Seltjarnarnesi bjó danskur maður og var honum gerð aðför ásamt fleirum, s.s. að Másbúðum. Alls voru það fjórtán menn, sem Norðlendingar vágu í einni lotu til hefnda eftir Jón biskup og syni hans.

Lík Jóns biskups Arasonar og sona hans, Björns og Ara, voru í apríl 1551 grafin upp að kórbaki í Skálholti og færð heim til Hóla. Hlutu þau leg í kirkjunni.

Laugarvatn

Vígðalaug á Laugarvatni.

Á leiðinni norður var komið við á Laugarvatni, þar sem tjaldað var yfir líkin, þau þvegin og búið sem best um þau. Kisturnar voru reiddar á kviktrjám og við hverja kistu voru hengdar litlar bjöllur eða klukkur, sem hringdu látlaust við hverja hreyfingu hestanna. Hvar sem þeir fóru um sveitir, flykktist fólk að þeim, einkum vanheilt og sjóndapurt, til þess að snetra kisturnar, ef það mætti verða því til bötunar, og fannst mörgum þeim verða að hyggju sinni.

Dönsk herskip voru send til Íslands í júlí 1551. Og tóku höfn í Eyjafirði. Flotaforingjarnir riðu til Hóla með sveit manna. Lögðu þeir hald á það, er þeim þótti fémætt og séra Björn Gíslanson hafði ekki áður komið undan í gröft eða geymslu. Helstu klerkar, sýslumenn, lögréttumenn og bændur voru kvaddir á Oddeyri og látnir sverja konungi hollustueiða.

Laugarvatn

Upplýsingaskilti á Laugarvatni.

Helga Sigurðardóttir, fylgikona Jóns biskups Arasonar, leyndist í úthaga um sumarið. Bjóst hún fyrst um í Vindáshlíð í mosalituðu tjaldi, samlitu jörðinni, en var síðar flutt á Glóðafeyki upp á Ökrum í Blönduhlíð, þar sem hún þótti óhultari.
Otti Stígsson lét taka Jón Kenriksson, bónda á Kirkjubóli á Miðsnesi, af lífi, ásamt einum hjáleigubændanna þar syðra. Var Jóni fundið það til saka, að hann hefði ekki bannað Norðlingum að rjúfa bæinn að Kirkjubóli, er þeir fóru að Kristjáni skrifara og fylgismönnum hans. Menn þessa lét Otti færa inn í Straum og reisa þar höggstokk, hjól og stengur. Voru þeir Jón Kenriksson leiddir þar ti höggs, höfuð þeirra sett á stengurnar og bolirnir hjólbrotnir í viðurvist, er þangað var stefnt. Síðan var allt látið standa sem komið var, öllum þeim til viðvörunar, er þar fóru um.

Hörð hríð var gjörð að banamönnum Kristjáns skrifara og annarra Dana, sem norðlenskir vermenn vágu á Suðurnesjum. Voru þeir allir dæmdir óbótamenn á Öxarárþingi. Sextán Norðlendinganna flúðu land með enskum kaupförum og fiskiskipum. Konungur féllst síðan á að þeim yrði leyft að kaupa sér frelsi, þar eð ekki var unnt að ná til margra þeirra, sem fremstir voru í flokki.

Skálholt

Skálholt á miðöldum.

Þórunn á Grund var fjórgift og loks svipt sjálfræði. Hún andaðist í desember 1593. Með henni var fallin einn helsti skörungur meðal kvenna á landinu. Hún var komin nokkuð á níræðisaldur. Var séra Sigurður á Grenjaðastað einn á lífi barna Jóns biskups Arasonar.
Hálfri öld eftir víg Jóns biskups Arasonar og sona hans var kyn hans þó orðið næsta fjölmennt, einkum þó kynkvísl séra Björns Jónssonar á Melstað.
Sjá meira um eftirmálana.

Heimild m.a.:
-Öldin okkar.

Kirkjuból

Kirkjuból – grafstæði.

Kapella

Gengið var að “kappellunni”, sem eitt sinn átti að hafa verið í Kapelluhrauni, Brunanum eða Nýjahrauni, eins og hraunið var nefnt eftir að það rann seint á 12. öld (1188).

Kapella

Kapellan með friðlýsingaskilti framan við.

Við “kapelluna” er merki er segir til að þarna sé um friðlýstar fornminjar að ræða. Kristján Eldjárn, ásamt fleirum, gerði rannsókn á kapellunni í Kapelluhrauni árið 1950, en þá var kapellan í óröskuðu hrauni, “niðurgrafin” í það að mestu. Í rústinni fundust ýmsir munir, m.a. líkneski af heilagri Barböru, verndardýrlingi ferðalanga og síðar málmiðanaðarmanna. Um kapelluna er m.a. skrifað í “Heilög Barbara mær og kapella hennar” (Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Rvk. 1973, bls. 88). Þá skrifaði Kristján Eldjárn um hana í grein sinni: “Kapelluhraun og Kapellulág” (Fornleifarannsóknir 1950 og 1954). Einnig í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1955-1956, Rvk. 1957, bls. 5-34. Þá er fjallað um kapelluna í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. II bindi. Rvk. 1954, bls. 78.

Kapellan

Kapellan – líklenski heilagrar Barböru endurgert.

Nú er “kapellan” skammt sunnan Keflavíkurvegar gegnt Álverinu, en hraunið dregur nafn sitt af kapellu þeirri er Kristján Eldjárn rannsakaði árið 1950. Síðan hefur mikið gengið á, hraunið fjarlægt, hinni fornu kapellu verið raskað og “ný” hlaðin á hraunhól í hennar stað. Eftir að Kristján Eldjárn rannsakaði kapelluna ásamt fleirum 1950 segir hann svo frá:

„Fyrir sunnan Hafnarfjörð liggur leiðin yfir úfinn brunafláka sem á upptök sín í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Í þessu hrauni er Kapellan og eftir henni heitir hraunið Kapelluhraun, en hefur heitið Nýjahraun á miðöldum, því að það hefur runnið eftir að land byggðist, líklega þó mjög snemma á öldum. Kapellan er lítil opin húsarúst rétt við gamla krákustíginn, sem ruddur hefur verið þegar eftir að hraunið rann og hefur verið alfaraleið út á nes öldum saman.“ Rétt er að geta þess í þessu sambandi að gamli stígurinn (Alfararleiðin) í gegnum hraunið lá (og liggur) sunnan Þorbjarnarstaða, ofan Gerðis, í krikann, sem þar er og þaðan lá hann í gegnum hraunið. Hefur hann stefnt á vörðu, sem enn sést og er sunnan vegarins skammt austan Álversins. Þaðan lá hann á ská í gegnum hraunið áleiðis að Hvaleyri.

Kapellan

Kapellan – sjá má leifar Alfaraleiðarinnar, sem lá framhjá henni.

Núverandi “kapella” er norðan við þennan stíg, sem þá var. Segja má að “kapellan” haldi við að nokkru minningunni um gömlu kapelluna sem og tilgang hennar á langri leið í gegnum úfið hraun, sem reyndar var það eina á Alfararleiðinni því alls staðar annars staðar er um um greiðfært helluhraun að fara, nema ef vera skyldi við rönd Afstapahrauns í Kúagerði.
Núverandi “Kapella” er 2,40 m á lengd og 2,10 m á breidd að innanmáli. Veggirnir eru hlaðnir úr hraunhellum og að mestu uppistandandi. Ekki vottar fyrir mosató á veggjum, líkt og sjá má á myndunum af gömlu kapellunni frá 1950, en þá var rústin þakin gamburmosa.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn.

Við uppgröftinn 1950 fundust allmargir gripir. Sá merkasti þeirra er lítið líkneski af heilagri Barböru, brotið um mjaðmir en nú um 3,3 cm á hæð. Líkneskið er varðveitt í Þjóðminjasafni (Þjms. 14293). Þessi fundur benti til þess að húsið væri í raun og veru kapella frá katólskum tíma og að ferðamenn um hraunið hafi komið þar við og gert bæn sína. Þann 4. des. 1981 var styttu af heilagri Barböru, gerð af W. Millmann, komið fyrir í hinni nýju “kapellu” í Kapelluhrauni.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá því að einn af mönnum Kristjáns skrifara hafi verið drepinn í Kapelluhrauni og grafinn í kapellunni til hefnda eftir Jón biskup Arason og syni hans. Engin ummerki eru á staðnum (endar búið að raska öllu svæðinu meira og minna) benda þó til þess að þessi sögn eigi stoð í raunveruleikanum, en hins vegar styrkja frásagnir af aðförinni að Kirkjubóli á Rosmhvalanesi, þar sem sótt af að Kristjáni skrifara og þeim er hann hýsti eftir dráp Jóns Arasonar 1550, að nokkru þá frásögn. Þar voru drápsmenn Jóns handteknir, sumir drepnir en aðrir færðir áleiðis til yfirvaldsins á Bessastöðum. Á leiðinni leiddist mönnum þófið og stjaksettu við kapelluna í Kapelluhrauni. Það segir sagan að minnsta kosti. Líklega hefur verið erfitt að “grafa” menn í hrauninu, en þá hefði verið hægt að husla.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnarstaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Frá “kapellunni” var gengið að Þorbjarnarstöðum í Hraunum. Á leiðinni var litið á síðustu leifar elsta hluta Keflavíkurvegarins í Hafnarfirði þar sem hann kom niður í Brunnann ofan við Straumstjarnir. Gengið var að gömlu heimaréttinni norðan við Þorbjarnarstaði, skoðað bæjarstæðið, en það er hið síðasta er hýsti “hafnfirskan” torfbæ í þeirri gömlu mynd, kíkt á Gránuskúta og loks gengið suður yfir Alfararleiðina gömlu og upp að Þorbjarnarstaðarréttinni austan við Miðmundarhól (sem á er Miðmundarvarða). Falleg kvöldsólin gyllti grænt grasið innan réttarveggjanna.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – stekkurinn (réttin).

Hraunin lágu milli Straumsvíkur og Hvassahrauna og tilheyrðu Álftaneshreppi frá fornu fari. Árið 1878 urðu þau hluti Garðahrepps þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp. Þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðaréttindi 1908 fleygaði bærinn Garðahrepp í tvennt, en Hraunin tilheyrðu áfram Garðahreppi. Árið 1948 keypti Hafnarfjarðarbær skika úr landi Straums sem var í eigu Bjarna Bjarnasonar fyrrum skólastjóra Flensborgar og Skógræktar ríkisins og 1955 var gerður makaskiptasamningur við Skógræktina um viðbótarhluta úr landi Straums. Árið 1964 höfðu Hafnarfjarðarbær og Garðahreppur makaskipti á löndum og komu Hraunajarðirnar sunnan bæjarins í hlut Hafnarfjarðar. Fyrir u.þ.b. tveimur árum keypti Álfélagið landið sunnan þess, umhverfis Þorbjarnarstaði, af Skógrækt ríkisins. Jafnhliða því “seldi” Hafnarfjarðarbær félaginu hluta af Þorbjarnarstaðalandi án þess kannski að gera sér grein fyrir því hvað var verið að selja í raun og veru. Svæðið, þótt lítið sé eftir að því, er í raun og veru hið merkilegasta í ljósi sögu og búskaparhátta í Hraunum í gegnum aldirnar. En því miður eru þeir ekki margir til, sem áhuga hafa á þeirri hlið umhverfis- og búsetumálanna. Nóg um það í bili.
Íbúum Reykjanesskagans hefur löngum verið skipt í útnesjamenn sem bjuggu utan Kúagerðis og innnesjamenn sem bjuggu í Álftaneshreppi og innan hans. Í Hraunum bjuggu Hraunamenn sem voru jafnframt innnesjamenn.

Alfaraleið

Alfaraleiðin ofan Þorbjarnarstaða.

Fornir stígar og götur vísuðu nesjamönnum og ferðalöngum veginn um Suðurnes fyrrum. Fjölförnustu göturnar voru svokallaðir Alfaravegir sem liggja út og inn Reykjanesið. Þvert á Alfaraveg eru síðan stígar eins og Rauðamelsstígur, sem liggja suður í Almenning og upp í fjöllin ýmist til Grindavíkur eða Krýsuvíkur. Innan Hraunahverfis voru einnig margir stígar og götur s.s. Sjávargata, Straumsvegur, Skógarstígur, Jónsbúðarstígur og Lónakotsgata.

Ekki er vitað með vissu hvenær búskapur hófst í Hraunum. Þó er talið, útfrá fornum rústum og skipan þeirra, að búskapur hafi verið við Óttarsstaðir í kringum árið 1200.
Fáein bæjarhús frá síðustu öld standa enn í Hraunum, en mun algengara er að sjá tóftir býla, hjáleiga og gripahúsa. Helstu lögbýli í Hraunum voru (talið frá suðri til norðurs): Stóri Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir og Lónakot. Þessum býlum fylgdu hjáleigur og þurrabúðir s.s. Gerði, Péturskot, Litli Lambhagi, Þýskabúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Óttarsstaðargerði og Eyðikot. Túnskikar voru yfirleitt girtir vandlega hlöðnum tvöföldum grjótgörðum sem sjást enn, þá má víða sjá upphlaðna brunna og skjólgarða sem marka kvíaból, fjárréttir og nátthaga.

Straumssel

Straumssel.

Sunnan Reykjanesbrautar í Almenningi eru selin í 3 – 4 km fjarlægð frá bæjunum. Selin voru einskonar framlenging á búskap jarðanna. Snemma á sumrin flutti vinnufólk sig upp í selin með kindur og kýr og stundaði þar búskap til haustsins. Á þessum tíma var aflað matar og afurðir unnar fyrir komandi vetur.
Við helstu götur og við sum selin eru náttúrulegir brunnar í klöppum sem geymdu rigningarvatn fyrir ferðalanga, fjársmala, matselju og þá sem leið áttu hjá. Þá má ennfremur sjá nátthaga, fjárskjól og smalaskúta við selin.

Bekkjaskúti

Bekkjaskjúti.

Sauðfjárbúskapur var aðalbúgreinin í Hraunum. Sauðfé var haft á útigangi í Almenningi eða á fjörubeit. Sauðir voru ekki teknir á hús og leituðu sjálfir í skjól eða skúta í illviðrum. Fjárskjól leynast víða í Hraunum. Sauðamenn eða smalar fylgdu sauðum sínum og unnu einmanalegt og erfitt starf. Lömb sem sett voru á að hausti voru höfð í lambakofum og hrútar í hrútakofum. Víða má sjá réttir s.s. Þorbjarnarstaðarétt sem var haustrétt Hraunabænda, Óttarstaðarétt og réttina við Lónakot sem tók 70-80 fjár. Þessar réttir gegndu mikilvægu hlutverki þegar sá siður að færa frá var enn tíðkaður, en hann lagðist af seint á 19. öld.

Þorbjarnarstaðir

Gránuskúti – fjárskjól ofan Þorbjarnarstaða.

Á 18. öld var algeng búfjáreign í Hraunum 1-3 kýr og 18-20 kindur en fækkaði þegar bráðapestir eða fjárkláðar geisuðu. Um miðja 19. öld og fram á 20. öldina fjölgaði sauðfé í Hraunum og héldu bændur þá 80-100 kindur að meðaltali.
Mjólkandi kýr gátu verið tvær og kvíga til viðbótar. Oft fylgdu kýrnar með í selið eða voru hafðar nær bæjum í kúarétt á sumrin. Flestir bændur áttu tvo hesta, en kotungar engan eða í besta falli einn hest til flutninga.
Búskapur lagðist af að mestu á kreppuárunum eða um 1930. Búið var í Óttarsstöðum eystri til ársins 1952 og í þeim vestri til 1965. Síðasti ábúandi Hraunanna var Guðmundur Sigurðsson bátasmiður, sem lést árið 1986. Í dag eru aðeins sumarbústaðir í Hraunum og eru þar elst húsa Óttarsstaðir vestri og Eyðikot.
ÓttarsstaðirSjósókn var Hraunamönnum nauðsyn. Heimaræði kallaðist útræði sem stundað var frá jörðum sem lágu við sjó. Uppsveitarbændur fengu oft leyfi sjávarbænda til að stunda sjósókn frá jörðum þeirra og senda vermenn á vertíð. Var það kallað að hafa inntökuskip á jörðinni og bændur sem sendu menn í ver nefndust útvegsbændur. Minjar um útræði eru víða í Hraunum; þurrabúðir, vörslugarðar og fiskreitir. Í fjörunni innan skerjagarða mótar fyrir uppsátrum, fiskbyrgjum og vörum þar sem bátar voru dregnir upp öldum saman, t.d. Péturskotsvör, Straumsvör, Þýskubúðarvarir tvær, Jónsbúðarvör, Óttarsstaðavör og Eyðiskotsvör.

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Söltekja, skeljafjara og hrognkelsafjara voru hlunnindi. Skelfiskur var oft notaður til beitu, en verðmeiri voru auðfönguð hrognkelsi, sem fjaraði undan í fjörupollum.
Sérhver þúfa, gjóta, hóll og hæð hefur sitt nafn, sem gefur umhverfinu merkingu og aukið gildi. Oft reyndust hólar og hæðir vera merkileg kennileiti eða vegvísar og gerðu mönnum auðveldara að ferðast um svæði og vísa til vegar þegar kennileiti hétu einhverjum nöfnum. Mörg örnefni hafa haldist óbreytt um aldir, en sum hafa breyst eftir búsetu fólks, t.d. er ekki óalgengt að kot eða túnskiki hafi breytt um nafn eftir því hvað ábúandinn hét.
Þá eru sum örnefni sem einungis hafa haft gildi fyrir afmarkað svæði. Í því sambandi má nefna nöfn hóla og hæða umhverfis bæjarhús Óttarsstaða, sem þjónuðu þeim tilgangi að segja til um sólargang, svokölluð eyktarmörk. Það eru örnefni eins og Hádegishæð (kl. 12:00), Miðmundarhæð (um kl. 13:30), Nónhóll (kl. 15:00), Miðaftansvarða (kl. 18:00) og Náttmálahóll (kl. 21:00). Slík eyktarmörk koma einnig fyrir að einhverju leyti við Þorbjarnarstaði og hafa þá einungis gilt fyrir það svæði. Svo eru mörg örnefni sem gefa skýra mynd af því hvaðan þau eru upprunnin, eins og t.d. Smiðjubali, Fjárhlið, Markhóll og önnur í svipuðum anda.

Textinn er að hluta til fenginn að láni frá UÚH.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Straumsvík

Fyrirhuguð er stækkun álversins í Straumsvík. Stækkunin felur í sér framleiðsluaukningu um 260.000 tonn á ári frá núgildandi starfsleyfi – í tveimur áföngum.
Í skýrslu Hönnunar um stækkun álversins í Straumsvík frá því júní 2002 segir að Kapella“fyrirhugað er að reisa tvo tæplega 950 m langa kerskála, sunnan núverandi Reykjanesbrautar. Önnur helstu mannvirki fyrirhugaðrar stækkunar eru súrálsgeymir, tvær þurrhreinsistöðvar, skautsmiðja, kersmiðja og stækkun steypuskála, spennistöðvar og geymsluhúsnæði. Nokkurt bil (um 130 m) verður á milli núverandi kerskála og fyrirhugaðra kerskála. Ástæða þess er sú að forðast þarf rask á fornri tóft kapellu, sem Kapelluhraun dregur nafn sitt af, með því að staðsetja skálana sunnan hennar.”
Umrædd kepallutóft er nú sunnan núverandi Reykjanesbrautar. Í rauninni er fátt “fornt” við þessa kapellu nema staðsetningin. Þótt jafnan hafi verið litið til kapellunnar af sögulegum og trúarlegum ástæðum má segja að núverandi “kapella” hafi takmarkað gildi í því samhengi. Um er að ræða uppgert nútímamannvirki (frá því á sjöunda áratug 20. aldar), hlaðið með öðru lagi en upphaflega og á í rauninni takmarkaðan skyldleika við þá fornleif, sem þá var.
Hraunið, sem kapellan, var í hefur verið nefnt Kapelluhraun. Áður var það nefnt Bruninn og þar áður Nýjahraun, eins og hraunið var nefnt eftir að það rann seint á 12. öld (á tímabilinu 1151-1188). Við “kapelluna” er merki er segir til að þarna sé um friðlýstar fornminjar að ræða. Kristján KapellaEldjárn, ásamt fleirum, gerði rannsókn á kapellunni í Kapelluhrauni árið 1950, en þá var kapellan í óröskuðu gamburmosahrauni, “niðurgrafin” í það og jarðlæg að mestu. Í rústinni fundust ýmsir munir, m.a. líkneski af heilagri Barböru, verndardýrlingi ferðalanga og síðar málmiðanaðarmanna. Kristján fjallaði um hana í grein sinni: “Kapelluhraun og Kapellulág” (Fornleifarannsóknir 1950 og 1954). Einnig í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1955-1956, Rvk. 1957, bls. 5-34. Þá er fjallað um kapelluna í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. II bindi. Rvk. 1954, bls. 78.
Síðan hefur mikið gengið á, gamburmosahraunið fjarlægt, hinni fornu kapellu verið raskað og “ný” hlaðin í staðinn á hraunhól í hennar stað. Leifar af gömlu þjóðleiðinni í gegnum “Brunann”, um 10 metra kafli, sést enn sunnan núverandi hleðslu.
Eftir að Kristján Eldjárn rannsakaði kapelluna ásamt fleirum 1950 segir hann svo frá:
„Fyrir sunnan Hafnarfjörð liggur leiðin yfir úfinn brunafláka sem á upptök sín í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Í þessu hrauni er Kapellan og eftir henni heitir hraunið Kapelluhraun, en hefur heitið KapellaNýjahraun á miðöldum, því að það hefur runnið eftir að land byggðist, líklega þó mjög snemma á öldum. Kapellan er lítil opin húsarúst rétt við gamla krákustíginn, sem ruddur hefur verið þegar eftir að hraunið rann og hefur verið alfaraleið út á nes öldum saman.“ Rétt er að geta þess í þessu sambandi að gamli stígurinn (Alfararleiðin) í gegnum hraunið lá (og liggur) sunnan Þorbjarnarstaða, ofan Gerðis, í krikann, sem þar er og þaðan í gegnum hraunið. Hefur hann stefnt á vörðu, sem enn sést og er sunnan vegarins skammt austan Álversins. Þaðan lá hann á ská í gegnum hraunið áleiðis að Hvaleyri. Núverandi “kapella” er norðan við þennan stíg, sem þá var. Segja má að “kapellan” haldi við að nokkru minningunni um gömlu kapelluna sem og tilgang hennar á langri leið í gegnum úfið hraun, sem reyndar var það eina á Alfararleiðinni því alls staðar annars staðar er um um greiðfært helluhraun að fara, nema ef vera skyldi við rönd Afstapahrauns í Kúagerði.
Núverandi “Kapella” er 2,40 m á lengd og 2,10 m á breidd að innanmáli. Veggirnir eru hlaðnir úr hraunhellum og að mestu uppistandandi. Ekki vottar fyrir mosató á veggjum, líkt og sjá má á myndunum af gömlu kapellunni frá 1950, en þá var rústin þakin – reyndar falin í mosa.
KapellaVið uppgröftinn 1950 fundust allmargir gripir. Sá merkasti þeirra er lítið líkneski af heilagri Barböru, brotið um mjaðmir en nú um 3,3 cm á hæð. Líkneskið er varðveitt í Þjóðminjasafni (Þjms. 14293). Þessi fundur benti til þess að húsið væri í raun og veru kapella frá katólskum tíma og að ferðamenn um hraunið hafi komið þar við og gert bæn sína. Þann 4. des. 1981 var styttu af heilagri Barböru, gerð af W. Millmann, komið fyrir í hinni nýju”kapellu” í Kapelluhrauni.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá því að einn af mönnum Kristjáns skrifara hafi verið drepinn í Kapelluhrauni og grafinn í kapellunni til hefnda eftir Jón biskup Arason og syni hans. Engin ummerki eru á staðnum (endar búið að raska öllu svæðinu meira og minna) benda þó til þess að þessi sögn eigi stoð í raunveruleikanum, en hins vegar styrkja frásagnir af aðförinni að Kirkjubóli á Rosmhvalanesi, þar sem sótt af að Kristjáni skrifara og þeim er hann hýsti eftir dráp Jóns Arasonar 1550, að nokkru þá frásögn. Þar voru drápsmenn Jóns handteknir, sumir drepnir en aðrir færðir áleiðis til yfirvaldsins á Bessastöðum. Á leiðinni leiddist mönnum þófið og stjaksettu við kapelluna í Kapelluhrauni. Það segir sagan að minnsta kosti. Líklega hefur verið erfitt að “grafa” menn í hrauninu, en þá hefði verið hægt að husla. Ef það hefur verið gert eru bein þeirra nú komin undir álverið svo segja má með nokkru að álverið sjálft sé að nokkru meiri “fornleif” en kapellan.

Líkneski

Á bls. 7 í 32. tbl. Fjarðarpóstsins, 24. árg. (2006) er fjallað um “Menningardag Evrópu”, sunnudaginn 3. september. Áætlað var skv. umfjölluninni að hafa dagskrá við “kapelluna” í Kapelluhrauni kl. 14.00 þennan tiltekna dag. Í umfjölluninni segir m.a.:
“Álverið í Straumsvík stendur á hrauni sem ber nafnið Kapelluhraun. Hraunið á upptök sín í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Talið er að hraunið hafi komið upp í eldgosi árið 1151, svokölluðum Krýsuvíkureldum.
Hraunið dregur nafn sitt af Kapellunni, rúst af litlu húsi skammt suður af Reykjanesbraut gegnt álverinu. Kristján Eldjárn rannsakaði kapelluna árið 1950 ásamt fleirum. Kapellutóftin snýr því sem næst í austur-vestur og er 240 cm löng og um 220 cm breið. Húsið hefur verið reist við götu sem rudd var gegnum hraunið og lá út á Reykjanes. Vegna mikillar efnistöku í kringum kapelluna er gatan nú að mestu horfin í nágrenni kapellunnar en smá bútur sést þó sunnan rústarinnar. Í kapellunni fundust nokkrir gripir. Þar á meðal brot af rafperlu, leirkersbrot, látúnslauf, kríptarpípuleggur, skeifubrot og naglar. Merkasti fundurinn var þó líkneski af heilagri Barböru.
Staðsetning rústarinnar við veginn og fundur líkneskisins í rústinni benti að mati Kristjáns Eldjárns til þess að þarna hefði staðið vegakapella á kaþólskum tíma. Líkneskið er tálgað úr grágulum leirsteini. Aðeins efri hluti þess fannst og er sá hluti 3,3 cm á hæð en talið að líkneskið haf upphaflega verið um 5,5 cm. Andlit heilagrar Barböru er nokkuð máð en hún er með mikið hrokkið hár niður á herðar og sveigur er um yfir ennið. Í vinstri endi heldur Barbara á einkenni sínu, turninum, og hvílir hann við vinstri öxl og upp með vinstri vanga hennar. Gott þótti að heita á Barböru í háska af eldi, húsbruna, sprengingum og þess háttar. Hún var verndardýrlingur stórkotaliðs, ferðamanna og síðar málmiðnaðarmanna. Barbara kann því að hafa þótt duga vel gegn háska af völdum jarðelds og hraunbruna. Hún var góð til áheita gegn hvers konar eldsgangi.” Einnig var hún verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðs- manna, námumanna, verkfræðinga og jarðfræðinga. Þá er athyglisverð sú staðreynd að álver skyldi byggt við hlið kapellu verndardýrlings málmiðnaðarmanna.

Hraunkarl

Kapellutóftin er á fornminjaskrá. Fróðlegt er að skoða ljósmyndir, sem teknar voru af tóftinni við upphaf rannsóknar Kristjáns Eldjárns og félaga, en á þeim sést m.a. úfið mosahraunið og einungis hluti kapellunnar standur upp úr því.
“Í ýmsum kristnum löndum eru enn til smákapellur, sem reistar hafa verið við vegi á miðöldum, ætluðum vegfarendum til bænagerðar. Krossar hafa verið reistir á víðavangi í sama tigangi. Í Njarðvíkurskriðum, milli Njarðvíkna og Borgarfjarðar eystri, stóð lengi kross þar sem menn, sem áttu leið um skriðurnar, áttu að lesa faðirvorið.”
Í lok greinarskrifanna er lýst hinum “evrópska menningardegi” sem og tilgangi hans, sem reyndar skiptir kapelluna í Nýjahrauni litlu máli.
Saga og hlutverk kapellunnar í Kapelluhrauni (Brunanum/Nýjahrauni) ofan við Straumsvík er einungis mikilvæg vegna staðsetningarinnar og þeir atburða er síðar gerðust í nágrenni við hana (hefndin á drápi Jóns Arasonar Hólabiskupi við Skálholt árið 1550). Þá er hún ekki síður vitnisburður og staðfesting á hinni fornu leið, sem um hana lá yfir hraunið, frá Vestari-Brunabrúninni að hinni Austari, eins og segir í örnefnalýsingum. Hins vegar er kapellan sjálf tiltölulega nýtt mannvirki, sem fyrr sagði, reist á gömlum stað. Af myndum og uppdráttum Kristján Eldjárns (frá 1950) að dæma var kapellan, ferköntuð, niðurgrafin og hálffallin í kafi í mosavöxnu hrauninu.

Alfaraleið

Núverandi kapella er endurhlaðin með breyttu lagi (sporöskulaga), en á sama gólffleti og sú sem þar var fyrir. Best hefði farið á því að láta þessa tilteknu kapellutóft óhreyfða, eins og hún var, en ekki endurhlaða hana með þessu hæpna tilgátulagi. Betra hefði verið að reisa tilgátugerð hennar annars staðar í óhreyfðum hluta hraunsins, s.s. við vestanverða Brunabrúnina. Með þessari endurgerð varð, og verður, hún ekki eins markverð og “ekta” og hefði hún fengið að halda hrumleika sínum. Í augum “meðvitaðra” er mannvirkið óekta og miklu mun minna áhugaverðara en ella. Hafi menn viljað endurgera þessa fornleif með tilgátulagi gátu þeir alveg eins byggt hana upp við Alfaraleiðina þar sem hún kemur upp á Brunabrúnina vestari ofan Gerðis – í óröskuðu gamburmosahrauni. Mannvirkið hefði betur verið látið óhreyft þarna en að byggja það upp með núverandi og öðru lagi en það upphaflega var.
Árið 1551 dró heldur betur til tíðinda á Suðurnesjum. Árið áður hafði síðasti kaþólski biskupinn, Jón Arason, verið tekinn af lífi og nú vildu ættingjar hans ogbandamenn leita hefnda. Nærtækast þótti að láta hefndina koma niður á umboðsmanni danska hirðstjórans, Kristjáni skrifara, sem kveðið hafði upp úrskurðinn um að biskup skyldi hálshöggvinn.

Kapella

Í ársbyrjun var Kristján staddur í konungserindum á Suðurnesjum og hafði fjölmennt fylgdarlið. Norðlenskum vermönnum barst njósn af ferð hans og héldu í skjóli nætur 30 saman að Kirkjubóli þar sem Kristján dvaldist ásamt mönnum sínum og ungum syni.
Norðanmenn fengu leyfi bóndans á bænum til að rjúfa þekjuna og gátu því komið skrifaranum að óvörum og drepið þá einn af öðrum. Kristján náði þó að brjótast út úr húsinu án teljandi sára því hann var brynjuklæddur.
Kom þá aðvífandi 18 ára piltur, sveinn Þórunnar á Grund, dóttur Jóns Arasonar. Hann var vopnaður lensu, sem hann rak í smáþarmana og mælti í sömu svifum: “Ég skal finna á honum lagið”.
Því næst héldu Norðlendingar um Suðurnes og drápu þá konungsmenn, sem þeir náðu í. Á Másbúðum rákust þeir á tvo fylgdarmenn Kristjáns og felldu annan, en hinn slapp með því að skjóta einn norðanmanna á flóttanum. Er þetta e.t.v. fyrsti íslenski byssubardaginn.
Loks hermir Setbergsannáll að Norðlendingar hafi haldið norður á Álftanes þar sem þeir tóku höndum böðul Jóns HraunkarlArasonar, Jón Ólafsson,…”og héldu í sundur á honum túlanum og helltu svo ofan í hann heitu blýi. Með það lét hann líf sitt, en þeir riðu norður.”
Vitaskuld brugðust dönsk stjórnvöld illa við þessu framferði og sumarið eftir létu þau hálshöggva bóndann á Kirkjubóli og hjáleigumann hans. Voru höfuðin sett á stengur en búkarnir á hjól og haft sem víti til varnaðar við þjóðveginn við Straumsvík.
Mest gramdist yfirvöldum þó meðferð norðanmanna á líkum þeirra er féllu við Kirkjuból. Þeir voru dysjaðir fyrir norðan tún og líkin svívirt með því að höfuðin voru höggvin af og nefin sett milli þjóanna, til að þeir gengju síður aftur.
Hvort þessi tilltekna nútímalega “kapelluuppgerð” getur talist sannur táknrænn vitnisburður um sögulega “menningararfleifð” á evrópskan mælikvarða skal ósagt látið. Líklegra hefði hin sandorpna kapella á Hraunssandi, frá sama tíma, er Kristján Eldjárn og félagar grófu upp skömmu fyrir 1950, orðið miklu mun áhugaverðari minnisvarði (enn óhreyfður) um það sem var og þjónað miklu mun betur betur tilgangi tilefnisins. Hún er þó í dag, því miður, táknrænt virðingarleysi, sem fornleifunum hefur til langs tíma verið sýnt.

Kapella

Við kapelluna eru tvö skilti, annað frá Byggðasafni Hafnarfjarðar og hitt frá Þjóðminjasafninu. Upplýsingarnar eru svipaðar. Friðlýsingarmerki er við innganginn. Á öðru skiltinu segir að talið sé að Kapelluhraun hafi runnið á 11. öld. Á hinu segir að hraunið hafi runnið á 13. eða 14. öld. Nú liggur hins vegar fyrir að hraunið rann hvorki á 11. eða 13. öld, heldur árið 1151. Venjulegur ferðamaður gæti hæglega orðið ráðvilltur þarna og það áður en hann kemur að sjálfum “fornminjunum”. Á sama hátt og upplýsingarnar á staðnum eru misvísandi er kapellan sem fornleif varla “sjálfri sér samkvæm”. Grunnmynd á skilti sýnir ferhyrnda tóft, eins og dr. Kristján Eldján rissaði hana upp á sjötta áratug 20. aldar. Innanmálið er að vísu ferhyrnt svo fá má á tilfinninguna að þar og þannig hafi gólfflöturinn verið upphaflega, en utanmál kapellunnar, eins og hún er í dag, er fremur sporöskjulaga. Önnur, gömul mynd, tekin við sama tækifæri, sýnir að mestu hrunda mosavaxna kapelluna í úfnu hrauninu, en nú er hún svo formlega löguð, ber og svo vel uppi standandi að varla getur talist um forna leif sé að ræða – nema að hluta til. Endurgerð fornleif stendur þó ávallt fyrir sínu – a.m.k. að ákveðnu marki.
Annar hluti gamla stígsins, sem enn sést, er sunnan við kapelluna. Sennilega er um einskæra tilviljun að ræða að hann skuli hafa fengið að halda sér. Hinn hlutinn er þar sem komið er inn í hraunið af Alfaraleiðinni suðaustan við Gerði. Í örnefnalýsingu segir m.a. um stíg þennan: “Alfaraleiðin út á Útnes lá svo að segja um túnblettinn. Hann lá yfir Kapelluhraunið, eða Brunann, eins og það var stundum nefnt, síðan lá leiðin áfram, þar til komið er í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri. Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys.
Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan Kapellaeða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum”.
Kapelluhraunið hefur að geyma marga fornleifina. Þá þar nefna Þorbjarnastaðaborgina neðan við Brunntorfur, garða og hleðslur ofan við Gerði, hlaðnar brýr og byrgi skammt norðan við gasstöðina. Þá liggja yfir hraunið fornar götur og syðst í því eru myndarlegar hrauntraðir. Í fornleifaskráningu, sem jafnan er vitanð til í lærðum skýrslum um fyrirhugaða stækkun er einungis getið um þrjár eða fjórar fornleifar á svæðinu, allar fremur ómerkilegar. Staðreyndin er hins vegar sú að þær eru miklu mun fleiri – fylla annan tuginn. Þeirra er getið annars staðar á vefsíðunni í umfjöllun FERLIRs um svæðið.
Álverið við Straumsvík stendur á Kapelluhrauni, eða Nýjahrauni eins og það fyrst var nefnt, og er allra yngsta hraunið á svæðinu í kringum Hafnarfjörð. Það er frá árinu 1151 skv. upplýsingum frá Íslenskum orkurannsóknum. Það á upptök undir Undirhlíðum og hefur komið úr gígaröðum, sem virðast vera tengdar misgengissprungum. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu hjá Krísuvíkurkerfinu. Þá opnaðist gossprunga undir Undirhlíðum sem var alls um 25 metra löng en slitin í miðjunni.
Kapelluhraun rann norðan á skaganum og til sjávar og myndað þar tanga, en vestan undir honum er Straumsvík.
Kapelluhraun er ákaflega fallegt úfið og mosagróið apalhraun en hörmung er að sjá hvernig karganum hefur verið rutt af yfirborði þess á stórum svæðum. Hraunið er fínkornótt með einstaka tiltölulega stórum dílum. Dílarnir eru oftast Kapellaplagioklas, pyroxen og einstaka ólivín. Stærð hraunsins er 11,6 km2.
Miklar framkvæmdir hafa verið í kringum Álverið í Straumsvík, auk þess sem Skógrækt ríkisins, fyrrum eigandi svæðisins, hefur leyft töku á gífurlegu efnismagni úr hrauninu. Þá hefur það verið sléttað út á stóru svæði og óþarflega miklu magni efnis hefur verið rutt út yfir hraunjaðrana. Þegar horft er yfir svæðið virðast “skemmdirnar” hafa bæði verið óstjórnlegar og að stórum hluta óþarflega ómarkvissar.
Nú hefur Álverið fest kaup á landinu ofan þess. Hjörleifur Guttormsson, fyrrum alþingismaður, skrifaði Skipulagsstofnun árið 2002 þar sem hann geldur vara við frekari framkvæmdum Álversins í Kapelluhrauni. Með bréfi sínu til stofnunarinnar gerir hann athugasemdir og bendir á náttúruvá sem steðjað getur að mannvirkjum við Straumsvík og lítil sem engin skil eru gerð í matsskýrslu vegna stækkunar álverksmiðju ÍSALs.

Frá kapellunni

Þegar álverksmiðja var staðsett og reist við Straumsvík fyrir um aldarþriðjungi gerðu menn sér litla sem enga grein fyrir samhengi eldvirkni og hraunstrauma á svæðinu. Síðan hafa verið gerðar ítarlegar rannsóknir á eldvirkni á Reykjanessskaganum, gosstöðvar frá nútíma verið staðsettar og hraunstraumar sem frá þeim hafa runnið eftir að ísöld lauk, sumpart eftir landnám.
Páll Imsland ritaði um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu í Náttúrufræðinginn árið 1998, 67. 263-273. Af rannsóknum og greinum höfunda má m. a. ráða, að líkur séu á að þunnfljótandi hraunstraumar geti runnið í sjó fram frá gosstöðvum vestan Undirhlíða og víðar yfir það svæði sem núverandi álverksmiðja stendur á auk þess sem önnur mannvirki svo sem raflínur og vegir eru í hættu á þessu svæði og víða í grenndinni.
Sem dæmi má nefna eftirfarandi úr grein Hauks Jóhannessonar og Sigmundar Einarssonar 1998, s. 175:
“Yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess. Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krísuvíkurrein árið 1151. Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni. Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krísuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík … Álverið í Straumsvík stendur á hrauninu”.
Í niðurlagi greinarinnar segja höfundar m. a. (s. 177):
“Eldgos á Rekjanessskaganum virðast koma í hrinum og á milli er minni virkni. Hrinurnar verða á um þúsund ára fresti og hver hrina stendur yfir í nokkur hundruð ár. Síðasta hrinan hófst upp úr miðri tíundu öld og endaði um 1240. Í hverri hrinu verða umbrot í öllum eldstöðvareinunum á skaganum og í síðustu hrinu færðist virknin frá austri til vesturs. Einnig er nokkuð víst að verði eldgos í Brennisteinsfjöllum og í norðanverðum Móhálsadal munu hraun þaðan renna niður til strandar milli Hrútagjárdyngjunnar og Hvaleyrarholts, sömu leið og Hellnahraun eldra og yngra og Kapelluhraun.

Kapella

Af ofansögðu er ljóst að hraun geta runnið til Straumsvíkur bæði frá Brennisteinsfjallarein, en þar gaus síðast á 10. öld, og frá Krísuvíkurein þar sem síðast gaus um miðja tólftu öld. Síðast urðu með vissu eldsumbrot á Reykjanesskaga á fyrri hluta 13. aldar í Reykjanesrein. Nær útilokað er að hraun frá gosum í þeirri rein geti runnið til Straumsvíkur en hins vegar gæti þar hugsanlega orðið vart landsigs vegna meðfylgjandi gliðnunar í reininni”.
Í grein sinni um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu (s. 271) segir Páll Imsland m. a.:
“Eftir Krýsuvíkurelda á 13. öld hafa ekki komið upp hraun í nágrenni Straumsvíkursvæðisins. Landslagi er þannig háttað að hraun sem koma upp vestanundir Undirhlíðum eiga ekki annarra kosta völ en að renna út á hraunflákana til vesturs og norðurs og leita undan halla og þrýstingi frá kvikunni sem flæðir úr gígunum í átt til strandar, í átt að Straumsvík. Áður en að álverinu sjálfu kemur eru raflagnir, spennuvirki, þjóðvegur og fleira slíkt í rennslisleiðum hrauna; mannvirki sem skipta verulegu máli, bæði fyrir starfrækslu álversins og alla byggð sunnar á skaganum. Það er því ljóst að hraunflóðahætta er þarna til staðar, en ekkert er þekkt sem bendir til yfirvofandi hættu.

Kapellan

Náttúran á svæðinu hefur ekki sýnt nein þekkjanleg merki þess að þarna séu eldgos í uppsiglingu. Á hitt ber samt að líta að þetta er afkastamikið, virkt eldgosasvæði þar sem ekki hefur gosið í um 850 ár, og til eru vísbendingar um að virknin á Reykjanesskaganum gangi í hrinum með nokkurra alda aðgerðarlitlum hléum. Hrinur þessar einkennast af jarðskjálftum, sprungumyndun og eldgosum.”
Í greininni “Hamfarir á höfuðborgarsvæðinu” eftir Þórdísi Lilju Gunnarsdóttur, sem birtist í tímaritinu Ský, 6 2001-2002, s. 36, má lesa eftirfarandi:
“Í Kröflueldum í september 1984 rann glóandi hraunáin um tíu metra vegalengd á sekúndu. Það gera 36 kílómetrar á klukkustund. Að mati jarðfræðinganna Páls Imslands og Karls Grönvolds er það álíka hraði og væri á nýju hrauni við höfuðborgina í dag. Því myndi hraunelfan geta náð efstu byggðum borgarinnar á fáum klukkustundum … Ef eldgos brytist út í Húsfelli, Búrfelli eða Trölladyngju gæti hraun runnið niður Kúagerði og yfir Reykjanesbraut, yfir álverið í Straumsvík, rafstöðina við Hamranes og nýjustu byggð Hafnfirðinga sunnan við Reykjanesbraut sökum þess hve Reykjanesskaginn er mjór sunnan við Hafnarfjörð. Í miklum hamförum á þessum slóðum gæti hraun einnig náð til byggðar í Garðabæ og yfir Álftanesið.”
Fornleifavernd ríkisins segir að “hraunið dragi nafn sitt af Kapellunni, rúst af litlu húsi skammt frá veginum vinstra megin þegar ekið er suður Reykjanesbrautina. Sem fyrr segir rannsakaði Kristján Eldjárn kapelluna ásamt fleirum 1950 og segir svo frá:
“Fyrir sunnan Hafnarfjörð liggur leiðin yfir úfinn brunafláka sem á upptök sín í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur Kapellanrunnið þaðan allt norður í sjó. Í þessu hrauni er Kapellan og eftir henni heitir hraunið Kapelluhraun, en hefur heitið Nýjahraun á miðöldum, því að það hefur runnið eftir að land byggðist, líklega þó mjög snemma á öldum. Kapellan er lítil opin húsarúst rétt við gamla krákustíginn, sem ruddur hefur verið þegar eftir að hraunið rann og hefur verið alfaraleið út á nes öldum saman.“
Kapellan er 2,40 m á lengd og 2,10 m á breidd að innanmáli.
Veggirnir eru hlaðnir úr hraunhellum og að mestu uppistandandi.
Við uppgröftinn 1950 fundust allmargir gripir. Sá merkasti þeirra er lítið líkneski af heilagri Barböru, brotið um mjaðmir en nú um 3,3 cm á hæð. Líkneskið er varðveitt í Þjóðminjasafni (Þjms. 14293). Þessi fundur bendir til þess að hús þetta sé í raun og veru kapella frá katólskum tíma og að ferðamenn um hraunið hafi komið þar við og gert bæn sína.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá því að einn af mönnum Kristjáns skrifara hafi verið drepinn í Kapelluhrauni og grafinn í kapellunni til hefnda eftir Jón biskup Arason og syni hans. Engin ummerki benda þó til þess að þessi sögn eigi stoð í raunveruleikanum, en sagan er góð búbót við annars sagnaríkt umhverfi á sögulegum tíma.
KapelluhraunISOR (Íslenskar orkurannsóknir) kveða á um á vefsíðu sinni (isor.is) að aldur Kapelluhrauns sé 1151. Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þetta ár tók af stórbýlið Krísuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum.
Í úrskurði Skipulagsstofnunnar um mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar stækkunnar Álversins í Straumsvík (2002) kemur fram að innan fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis, sunnan Reykjanesbrautar í landi Lambhaga, sé forn kapellutóft úr grjóti, sem Kapelluhraun dragi nafn sitt af. Sjálf tóftin standi á hraunhól, en svæðið umhverfis hólinn hafi verið sléttað. Til þess að forðast frekari röskun á næsta nágrenni kapellutóftarinnar þurfi að staðsetja fyrirhugaða kerskála sunnan kapellunnar í nokkurri fjarlægð frá eldri kerskálunum. Gert hafi verið ráð fyrir þessu við hönnun verksins í samráði við Fornleifavernd ríkisins og kaþólska söfnuðinn á Íslandi. Endanleg staðsetning kerskálanna með tilliti til fjarlægðar frá kapellunni, verði ákveðin við nánari hönnun kerskálanna og í samráði við hlutaðeigandi aðila.

Kapelluhraun

Aðgengi almennings að kapellunni á milli kerskálanna verði tryggt með sérstakri aksturs- og gönguleið, óháð starfsemi á afgirtri lóð álversins.
Fram kemur að í nýlegri skráningu á fornleifum á svæðinu vestan álversins komi fram að mikið sé um fornleifar á jörðunum Þorbjarnarstöðum og Lambhaga. Einnig séu fornleifar mjög nærri núverandi vegi og því gætu breytingar á honum einnig raskað fornleifum. En hluta þeirra minjastaða, sem kortlagðir voru í athuguninni, hafi þegar verið raskað vegna núverandi mannvirkja og vega á svæðinu.
Lega aðkomuvegar að álverinu verði austan við það en þannig liggi vegurinn fjarri áðurnefndum fornleifum vestan álversins. Við hönnun annarra vega verði tekið tillit til fyrirliggjandi fornleifaskráningar.
Í umsögn Fornleifaverndar ríkisins er vakin athygli á að á því svæði þar sem aðkomuvegur að álverinu sé fyrirhugaður séu skráðar tvær gamlar leiðir og ein landamerkjavarða. Ekki hafi fundist merki um leiðirnar en varðan standi enn. Fyrirhugað sé að framlengja núverandi veg vestan álversins í átt að nýrri Reykjanesbraut og muni það hafa áhrif á fornleifar. Fram kemur að hluta þeirra fornleifa, sem skráðar hafi verið vestan álversins, hafi þegar verið raskað, en engu að síður séu ennþá minjar á þessu svæði, einkum sunnan Reykjanesbrautar, sem
mannvirkjagerð síðustu áratuga hafi ekki raskað. Sem dæmi megi nefna: tóftir á bæjarstæði Stóra Lambhaga og útihúsatóft norðan Reykjanesbrautar og leifar útihúsa, steinboga, gamlar leiðir, tóftir og garða sunnan brautarinnar.

Vörður

Kapelluhraunið er stórbrotið í tvennum skilningi. Annars vegar hefur hraunið mikið gildi vegna þess að það rann á sögulegum tíma og því merkilegt náttúru- og jarðfræðifyrirbæri sem slíkt. Hins vegar hefur óhóflegum hluta þess verið spillt af mannavöldum – af ótrúlegri skammsýni.
Við þetta má bæta að fyrrnefnd kapella er ekki óhreifð eða óröskuð fornleif í þeim skilningi orðisins. Hún er ónákvæm endurgerð fornleifar er var til um 1960 og virðist standa á sínum upprunalega stað – líkt og von um fyrirgefningu um fyrrum eyðileggingu. En staðurinn, þar sem hin forna kapella var, er engu að síður merkilegur, bæði út frá fornleifalegum sem og sagnfræðilegum skilningi.
Hins vegar mætti vel, án tilfallandi skaða, ef nauðsyn bæri til, endurbyggja hana á annars röskuðu hrauninu – þ.e. endurreisa kapelluna á ósnortnu hrauninu vestan og ofan við Vestari Brunaskarð, sem fyrr er nefnt, við gömlu götuna skammt ofan við Gerði þar sem Alfaraleiðin liggur upp á það. Kapellan yrði þar engu minni “fornleif” en nú er.

Vörður

Mannvirkið “gekk úr sér” á sínum tíma og “týndist”, en var síðan “endurvakið” með fyrrnefndum uppgrefti. Sem slíkt hefur staðurinn einungis tilfinngalegt gildi líkt og hver annar staður gæti haft með sama tilgang, hvar sem hann er á hverjum tíma. Það hefði hvorki áhrif á sagnfræðina né fornleifafræðina sem slíkar.
Kapellan á Hraunssandi, fyrrum einnig nefnd Dysin, er sambærilegt mannvirki, en öllu merkilegri. Hún var grafin upp á svipuðu tíma, urðuð á ný og hefur því ekki verið “endurgerð”. Við hana eiga að vera grafinn á þriðja tugur manna, án þess að staðnum sé sýnlega nokkur tilhlýðileg virðing sýnd.
Það að “ástæða sé að forðast rask á fornri tóft kapellu, sem Kapelluhraun dregur nafn sitt af, með því að staðsetja skálana sunnan hennar” er þó þrátt fyrir allt bæði vitnisburður og viðurkenning á að “fornleifar” hafi eitthvert vægi þegar slíkar stórframkvæmdir eru undirbúnar. Því ber að fagna.

Heimildir m.a.:
-Kristján Eldjárn – “Heilög Barbara mær og kapella hennar”, Hundrað ár í Þjóðminjasafni. Rvk. 1973, bls. 88.
-Kristján Eldjárn – “Kapelluhraun og Kapellulág” (Fornleifarannsóknir 1950 og 1954).
-Kristján Eldjárn – Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1955-1956, Rvk. 1957, bls. 5-34.
-Jón Árnason – Þjóðsögur, II bindi. Rvk. 1954, bls. 78.
-www.fjardarposturinn.is – 32 tbl, árg. 2006, bls. 7.
-Samantekt frá Fræðsasetrinu í Sandgerði.
-Guðmundur Kjartansson – Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð árið, 1973. Náttúrufræðingurinn 42. 159-183.
-Jón Jónsson – jarðfræðikort af Reykjanesskaga 1978.
-Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson – Krísuvíkureldar I – Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins – Tímaritið Jökull 1989, 38. 71-87.
-Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir – Krísuvíkureldar II. – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns yngra – Jökull 1991, 41. 61-80.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson – Hraun í nágrenni Straumsvíkur – Náttúrufræðingurinn 1998, 67. 171-177.
-Páll Imsland – Náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu – Náttúrufræðingurinn 1998, 67. 263-273.
-nat.is
-http://www.flensborg.is
-http://www.eldhorn.is
-http://www.isor.is/stadlar/hraun/allt_um_hraun.html
-http://www.reykjanesbaer.is
-http://www.solistraumi.org/Mat_skipulagsstofnunar.pdf

Kapellan

Kapella

Flestar minjar á Reykjanesskaganum eru ómerktar og lítt aðgengilegar. Við Kapelluna í Kapelluhrauni standa hins vegar tvö upplýsingaskilti, reyndar með misvísandi fróðleik. Skiltin voru þrjú, en eitt hefur verið fjarlægt.
SkiltiÁ öðru skiltinu, frá Byggðasafni Hafnarfjarðar, stendur m.a.: “Snemma á 13. öld var höfðingi í borginni Nikómedíu í Litlu-Asíu, þar sem nú er Izmid í Tyrklandi. Átti hann forkunnarfríða dóttur er Barbara hét. Hún var í æsku lokuð inni í turni einum til að forðast biðla en þrátt fyrir einangrunina tókst Origeneses kirkjuföður að komast inn til hennar og fyrir fortölur hans tók hún kristna trú. Barbara lét aldrei af trú sinni, þrátt fyrir pyntingar sem að stærstum hluta voru gerðar að kröfu föður hennar, sem vildi snúa henni aftur til heiðinnar trúar. Að lokum var hún leidd fyrir dómara og dæmd til lífláts í ofsóknum á kristna menn.
Hún varð snemma kaþólskur dýrlingur, aðallega ákölluð við óvænta hættu, eldsvoða, sprengingar og þess háttar. Hérlendis lá því beint við að ákalla hana í sambandi við jarðelda og hraunflóð.
Kapella þessi er á skrá yfir friðlýstar fornminjar og er talið að hún sé frá kaþólskum tíma en ekki hefur hún verið aldursgreind nánar. Hraunið umhverfis kapelluna hefur verið kallað Kapelluhraun eða Nýjahraun og er talið að það hafi runnið einhvern tímann á tímabilinu 1100-1300. Kapellan er rétt við gamla krákustíginn, sem ruddur var fljótlega eftir að hraunið rann og hefur verið alfaraleið út á nes öldum saman.
KapellanÁrið 1950 var rústin rannsökuð af þeim dr. Kristjáni Eldjárn, þjóðminjaverði, Gísla Gestssyni, safnverði, Jóhanni Briem, listmálara, og dr. Jóni Jóhannessyni. Fundust þá nokkrir munir í rústinni og ber þar helst að nefna hluta af líkneski heilagrar Barböru. Líkneskið var úr grágulum leirsetini og var einungis um3.3 cm á hæð, en hefur líklega verið um 5.5 cm heilt. Þar sem hraunið sem kapellan stendur er yngra en landnám var það vel við hæfi að einmitt heilög Barbara fannst þarna, sem e.t.v. stendur í sambandi við bæn um það, að svona hrikalegt hraunrennsli endurtaki sig ekki. Styttan sem fannst við rannsóknina er varðveitt í Þjóðminjasafni Íslands, en þessi hérna er eftirlíking, svipuð en lítið eitt stærri.
Kapella þessi er alveg við gamla veginn og hefur því líklega einnig verið eins konar sæluhús. Menn hafa farið inn til að biðja bæn sína, en líka til að hvílast eða leita skjóls í vondum veðrum.”
Á hinu skiltinu er svipaður texti, styttri. Þar segir að hraunið hafi runnið á 14. öld, en nú hefur verið staðfest skv. áreiðanlegustu aldursgreiningum að hraunið rann árið 1151.
Á bls. 7 í 32. tbl. Fjarðarpóstsins, 24. árg. 2006 (www.fjardarposturinn.is) er fjallað um “Menningardag Evrópu”, sunnudaginn 3. september. Áætlað er skv. umfjölluninni að hafa dagskrá við “kapelluna” í Kapelluhrauni kl. 14.00 þennan tiltekna dag. Í umfjölluninni segir m.a.:
“Álverið í Straumsvík stendur á hrauni sem ber nafnið Kapelluhraun. Hraunið á upptök sín í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Talið er að hraunið hafi komið upp í eldgosi árið 1151, svokölluðum Krýsuvíkureldum.
Hraunið dregur nafn sitt af Kapellunni, rúst af litlu húsi skammt suður af Reykjanesbraut gegnt álverinu. Kristján Eldjárn rannsakaði kapelluna árið 1950 ásamt fleirum. Kapellutóftin snýr því sem næst í austur-vestur og er 240 cm löng og um 220 cm breið. Húsið hefur verið reist við götu sem rudd var gegnum hraunið og lá út á Reykjanes. Vegna mikillar efnistöku í kringum kapelluna er gatan nú að mestu horfin í nágrenni kapellunnar en smá bútur sést þó sunnan rústarinnar. Í kapellunni fundust nokkrir gripir. Þar á meðal brot af rafperlu, leirkersbrot, látúnslauf, kríptarpípuleggur, skeifubrot og naglar. Merkasti fundurinn var þó líkneski af heilagri Barböru. Staðsetning rústarinnar við veginn og fundur líkneskisins í rústinni benti að mati Kristjáns Eldjárns til þess að þarna hefði staðið vegakapella á kaþólskum tíma.
Líkneskið er tálgað úr grágulum leirsteini. Aðeins efri hluti þess fannst og er sá hluti 3,3 Kapellacm á hæð en talið að líkneskið haf upphaflega verið um 5,5 cm. Andlit heilagrar Barböru er nokkuð máð en hún er með mikið hrokkið hár niður á herðar og sveigur er um yfir ennið. Í vinstri endi heldur Barbara á einkenni sínu, turninum, og hvílir hann við vinstri öxl og upp með vinstri vanga hennar. Gott þótti að heita á Barböru í háska af eldi, húsbruna, sprengingum og þess háttar. Hún var verndardýrlingur stórkotaliðs, ferðamanna og síðar málmiðnaðarmanna. Barbara kann því að hafa þótt duga vel gegn háska af völdum jarðelds og hraunbruna. Þá er athyglisverð sú staðreynd að álver skyldi byggt við hlið kapellu verndardýrlings málmiðnaðarmanna.Â
Í ýmsum kristnum löndum eru enn til smákapellur, sem reistar hafa verið við vegi á miðöldum, ætluðum vegfarendum til bænagerðar. Krossar hafa verið reistir á víðavangi í sama tigangi. Í Njarðvíkurskriðum, milli Njarðvíkna og Borgarfjarðar eystri, stóð lengi kross þars em menn, sem áttu leið um skriðurnar, áttu að lesa faðirvorið.”
Í lok greinarskrifanna er lýst hinum “evrópska menningardegi” sem og tilgangi hans, sem reyndar skiptir kapelluna í Nýjahrauni litlu máli.

Stytta

Málið er að saga og hlutverk kapellunnar í Kapelluhrauni (Nýjahrauni) ofan við Straumsvík er mikilvæg, bæði vegna staðsetningarinnar og þeir atburða er síðar gerðust í nágrenni við hana (hefndin á drápi Jóns Arasonar Hólabiskupi við Skálholt árið 1550). Þá er hún ekki síður vitnisburður og staðfesting á hinni fornu leið, sem um hana lá yfir hraunið, frá Vestari-Brunabrúninni að hinni Austari, eins og segir í örnefnalýsingum. U.þ.b. 10 metra millikafli leiðarinnar sést enn suðvestan við kapelluna. Hins vegar er kapellan sjálf tiltölulega nýtt mannvirki, reist á gömlum grunni. Af myndum og uppdrttum Kristján Eldjárns (frá 1950) að dæma var kapellan, ferköntuð, niðurgrafin og hálffallin í kafi í mosavöxnu hrauninu.
Núverandi kapella er endurhlaðin með breyttu lagi (sporöskulaga), en á sama gólffleti og sú sem þar var fyrir. Best hefði farið á því að láta þessa tilteknu kapellutóft óhreyfða, eins og hún var, en ekki endurhlaða hana með þessu hæpna tilgátulagi. Með því varð, og verður, hún í augum “meðvitaðra” óekta og miklu mun minna áhugaverðari en ella.
Hvort þessi tilltekna nútímalega (frá sjöunda áratug 20. aldar) “kapelluuppgerð” getur talist sannur táknrænn vitnisburður um sögulega “menningararfleifð” á evrópskan mælikvarða skal ósagt látið. Líklegra hefði hin sandorpna kapella á Hraunssandi, frá sama tíma, er Kristján Eldjárn og félagar grófu upp skömmu fyrir 1950, orðið miklu mun áhugaverðari minnisvarði (óhreyfður) um það sem var og þjónað miklu mun betur betur tilgangi tilefnisins. Hún er einnig táknræn fyrir það virðingarleysi, sem fornleifunum hefur til langs tíma verið sýnt.
Efni greinarinnar framangreindu er bæði áhugavert og erindissinnað og er því birt hér bæði til fróðleiks og uppfyllingar öðrum lýsingum á sömu mannvistarleifum á vefsíðunni.

Heimild:
-Fjarðarpósturinn, 32. tbl. 24. árg 2006, bls. 7. Grein Kristins Magnússonar, fornleifafræðings.

Kapella

Kapellan í Kapelluhrauni og kafli Alfaraleiðarinnar.

Kapellan

Uppgerð kapellutóft er nú á hraunhól sunnan núverandi Reykjanesbrautar á móts við álverið. Í rauninni er fátt “fornt” við þessa kapellu nema staðsetningin. Þótt jafnan hafi verið litið til kapellunnar (fornleifarinnar) af sögulegum og trúarlegum ástæðum má segja að núverandi “kapella” hafi takmarkað gildi í því samhengi.
Um er að ræða kapellan-232uppgert nútímamannvirki (frá því í byrjun sjöunda áratugar 20. aldar), hlaðið með öðru lagi en upphaflega og á í rauninni takmarkaðan skyldleika við þá fornleif, sem þar var.

Hraunið, sem kapellan, var í hefur verið nefnt Kapelluhraun. Áður var það nefnt Bruninn og þar áður Nýjahraun, eins og hraunið var nefnt eftir að það rann. Við “kapelluna” er merki er segir til að þarna sé um friðlýstar fornminjar að ræða. Við flestar aðrar friðlýstar fornminjar á Reykjanesskaganum eru hins vegar engin slík skilti – einungis fúnir staurar.
Við kapelluna eru og tvö upplýsingarskilti, annað frá Byggðasafni Hafnarfjarðar og hitt frá Þjóðminjasafninu. Upplýsingarnar eru svipaðar, en ber þó ekki saman. Á öðru skiltinu segir að talið sé að Kapelluhraun hafi runnið á 11. öld. Á hinu segir að hraunið hafi runnið á 13. eða 14. öld. Nú liggur hins vegar fyrir að hraunið rann hvorki á 11. eða 13. öld, heldur árið 1151, þ.e. á 12. öld.
Stækkuð eftirlíking af líkneski heilagrar Barböru, sem fannst við fornleifauppgröft í tóftinni um 1950, er í “kapellunni”. Hvers vegna ættu kristnir að dýrka skurðgoð?
Friðlýsingarmerkið við innganginn á vísa til sérstakrar verndunar, sbr.: “Lambhagi. Kapellutóft forn úr grjóti í Kapelluhrauni. Sbr. Árb. 1903: 34. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 15.11.1938.” Merkið hefur hins vegar einungis táknræna þýðingu því fornleifin sem friðlýst var hvarf við endurgerðina eftir 1960. Hins vegar er öllu merkilegri fornleif þarna skammt frá, ca. 10 m óraskaðar leifar hinnar fornu Alfaraleiðar í gegnum hraunið, sem var hlíft fyrir tilviljun – en engum hafði dottið í hug að láta friðlýsa hana.

Kappella

Kapellan.

 

Kapella

“Suður í hinum kaþólsku löndum Evrópu eru sums staðar litlar kapellur við vegi, einkum í fjöllum eða þar sem torleiði þykir.
Þessar kapellur eru til þess ætlaðar, að vegfarendur geti farið þar inn og Kross-201beðizt fyrir. Sums staðar eru látin nægja lítil ölturu eða jafnvel krossar einar. Allt þetta hefur líka verið tíðkað hérlendis. Enn er haldið við hinum alkunna krossi í Njarðvíkurskriðum, og mun hann og hin latneska áletrun á honum eiga rætur að rekja langt aftur í kaþólskan sið. Til skamms tíma mun mörgum þeim, er þar áttu leið um, hafa þótt hlýða að biðjast fyrir við krossinn, jafnvel þótt ekki væru sérlega bænræknir endranær. Hið forna traust á þessum krossi stóð djúpum rótum, enda talar það sínu máli, að hann skyldi eigi aðeins standa af sér þá herferð, er gerð var gegn öllum kaþólskum minjum á siðaskiptatímanum, heldur vera endurnýjaður hvað eftir annað á þeim tíma, er lúterskur siður var alls ráðandi, og síðan enn, eftir að veldi trúarbragðanna var mjög tekið að hraka. Svipað hefur gerzt í Drangey. Þar er klettastallur ofarlega í uppgöngunni, þar sem menn þurfa að handstyrkja sig upp , nefndur altari.
Það er og eftirtektarvert, að nálega tveimur öldum eftir að kaþólskur siður laut í lægra haldi í landinu, var grjótaltari reist á Siglufjarðarskarði að boði Steins biskups Jónssonar á Hólum, sökum þess, að menn höfðu þráfaldJega orðið þar bráðkvaddir, og séra Þorleifur Skaftason í Múla, sem þótti andríkastur klerka norðan lands, látinn syngja þar messu að viðstöddu fjölmennl og nálega vígja skarðið í anda Guðmundar góða.

Kirkjubol-221

Kemur fram í frásögnum um þessa atburði, að fram að þeim tíma hafði verið siður margra, er þarna áttu leið um, að gera bæn sína við stóra steina við götuna. Það er efalaust, að á kaþólskum tíma hafa víða staðið á víðavangi krossar, sem prestar hafa vígt með söng og vatni. Þessir krossar hafa sumir staðið á viðsjárverðum stöðum, þar sem reynslan hafði sýnt, að hætt var við slysum, öðrum hefur verið ætlað að bægja burt eða halda í skefjum illum öndum og skaðvænlegum vættum, og nokkrir verið til þess eins, að fólk gæti kropið að þeim, þótt ekki væri neinn sérstakur voði á næsta leiti. Það er ekki ósenhilegt, að ýmis bæjarnöfn og örnefni séu af þessum rótum runnin: Kross, Krossnes, Krossholt. Sá siður að reisa krossa á víðavangi hefur þegar borizt til lands með kristnu, írskkynjuðu fólki á landnámsöld, enda sagt berum orðum í Landnámu, að Auður djúpúðga hafi látið reisa krossa á Krosshólum í Hvammssveit og farið þangað til bænahalds. Ef kannað væri, kynni einnig að koma í ljós, að furðumargir staðir í landinu, þar sem huldufólk var talið hafa aðsetur, eru við kross kenndir.
Nú er það kunnugt frá nágrannalöndum okkar, að fólki á miðöldum stóð mikill ótti af álfum, og beitti ýmsum ráðum til þess að verjast þeim. Mætti geta sér þess til, að alsiða hafi verið að reisa hér krossa við byggðir huldufólks.
Fólk, sem slíkt gerði, hefði þó verið í sóknarhug, staðráðið í að knésetja álfana með krossum sínum og vígslum. En á þeim öldum, sem við kunnum betri skil á í þessu Kapelluhraun-221efni, var það einn þáttur góðs uppeldis að brýna fyrir börnum og unglingum að hafa ekki í frammi nein ólæti við bústaði huldufólksins, er gætu egnt það til reiði: Það er sem sé tímabil hirinar friðsamlegu samtilveru, svo að notað sé nýtízkulegt orðalag, þegar allir lögðu sig í framkróka um að gera ekki neitt það, er drægi hefnd á eftir sér, og höfðu kastað frá sér þeirri hugsun að sigrast á þessum leyndu verum. Það, er ekki heldur fráleitt að ímynda sér, að mjög víða hafi verið reistir krossar við lendingar. Það var ekki fágætt, að fiskirmönnum og sæförum hlekktist á í landtöku, og krossar á slíkum stöðum gátu gert tvöfalt gagn: Þeir gátu fyrst og fremst verið tákn þess, að staðurinn var falinn vernd almættis, og í öðru lagi gátu þeir, að minnsta kosti sums staðar, verið til leiðbeiningar um það, hvernig leggja skyldi að landi. Það er líka kunnugt, að krossar stóðu í lendingu í Bjarneyjum á Breiðafirði fyrr á tímum, og væri með öllu út í bláinn að láta sér til dæmis detta í hug, að nafn Krossvíkur á Akranesi væri af því dregið, að þar hafi einnig verið kross reistur endur fyrir löngu? Nákvæm rannsókn á örnefnum á þeim stöðum, þar sem sjór hefur verið stundaður í margar aldir, gæti ef til vill gefið vísbendingu um þetta.
Sá siður loddi lengi við, jafnvel víða allt þar til, að vélbátar komu til sögunnar, að menn tækju ofan sjóhatta sína og læsu sjóferðabæn, áður en róið var á miðin. Þetta er rótgróinn siður, sem tíðkaður hafði verið í margar aldir, og það þurfti ekkert minna en atvinnubyltinguna til þess að afnema hann. Fyrr meir kann jafnvel að hafa verið kropið að krossi, áður en á sjóinn var farið eða þegar komið var af honum. Við brottförina átti fyrirbæn vel við, en við landtöku kunna menn að hafa viljað gjalda þökk.
Kapella-227Af kapellum í líkingu við þær, sem til eru suður í hinum kaþólsku löndum álfunnar, fara ekki miklar sögur. Þó hafa slíkar kapellur án efa verið reistar hérlendis. Sæluhúsin, sem í öndverðu voru beinlínis tengd trúarhugmyndum manna eins og nafnið sýnir, kunna stundum meðfram að hafa verið einhvers konar kapellur, þó að fyrst og fremst beri að leggja þann skilning í nafnið, að bygging þeirra og viðhald hafi verið eitt þeirra líknarverka, sem í miklum metum voru í kaþólskum sið og líklegt þóttu til þess að greiða syndugum mönnum veg til dýrðarinnar. En hvað sem um þetta er, þá vill svo til, að fundizt hefur ein rúst, þar sem enginn vafi er, að verið hefur kapella. Örnefni benti til þess, að svo væri, og rannsókn tók af öll tvímæli. Og þessi eina kapella, sem við vitum með vissu, að verið hefur á víðavangi, ætluð vegfarendum til þess að hvílast þar og gera bæn sína, er í næsta nágrenni við höfuðstaðinn. Nú um nokkra áratugi hefur hún þó ekki verið fast við alfaraleið, en með nýja Suðurnesjaveginum hefur þetta breytzt aftur. Fyrir sunnan Hafnarfjörð heitir Kapelluhraun, svo sem margir munu vita. Það nafn ber nyrðri hluti hraunbreiðu, sem runnið hefur úr eldvörpum skammt frá Vatnsskarði allt til sjávar á allbreiðu svæði milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Er það ætlun manna, að þetta hraun hafi runnið eftir að land byggðist, en þó nokkru fyrir miðjafjórtándu öld, enda kallað Nýjahraun í gömlum annálum.
kapella-228Þegar hraunið kólnaði og eldsumbrotum linnti, hefur verið brýn þörf að ryðja veg gegnum þetta hraun í stað þess, er þar hafði tekið af. Enginn er til frásagnar um það, með hvaða ógnum hraunið kann að hafa brunnið, en vafalaust hafa náttúruhamfarirnar skotið fólki skelk í bringu. Og þá var nærtæk sú hugmynd að reisa kapellu í hrauninu við nýja veginn, er gerður var gegnum það, vegfarendum til halds og trausts. Til þess benda og allar líkur, að kapellan hafi einmitt reist um þetta leyti. Henni var valinn staður í miðri hraunbreiðunni, fast við veginn, sjávarmegin. Þangað var færð líkneskja dýrlings, sem líklegastur var til gagnsemdar á slíkum stað og beztur þótti til árnaðar á himnum, ef því var að skipta að firra voða af nýju eldgosi og hraunflóði. Fyrir valinu varð heilög Barbara, sem dó píslarvættisdauða á fjórðu öld og hefur síðan haldið hlífiskildi yfir trúuðu fólki, þegar um var að tefla óvæntan dauða, eld eða fárviðri.
Síðan liðu ár og aldir. Vermennirnir kjöguðu hraunið með skrínuf sínar. Skreiðarlestirnar mjökuðust áfram, og hófar hestanna mörkaðu dýpri og dýpri slóð í gljúpt grjótið. Kýldir valdsmenn á litklæðum riðu hjá með korða við hlið, og Hansakaupmenn með blaktandi fjaðrir í hatti renndu drýldnum fyrirlitningar augum yfir þetta gráa hraun. Og hundruð og þúsund manna viku af götu sinni inn í grjótbyrgið til þess að beygja kné sin fyrir heilagri Barböru og njóta athvarfs og endurnæringar í húsi hennar.

Kapellan-201

Loks ríður hér þessar krókóttu, niðurgröfnu hraungötur danskur mað ur og nefnist Kristján skrifari. Það kemur komið á daginn suður í löndum, að dýrlingar mega sín einskis á himnum og menn öðlast ekki þegnrétt á landi lifenda með góðverkum, heldur frelsast einungis af náð fyrir trúna. Höfuð síðasta kaþólska biskupsins er þegar laust af bolnum, og það er orðin geigvænleg villa að krjúpa heilagri Barböru. En menn halda áfram að laumast inn til hennar, skima kannski flóttalega í kring um sig, áður en þeir smeygja sér inn fyrir stafinn, en þylja samt bænir sínar við fótskör hennar.
Og enn líða ár og aldir. Smám saman dofnar ljómi dýrlingsins, og kapellan i hrauninu verður aðeins fáfengilegt grjótbyrgi, þar sem þægilegt getur verið að standa af sér hryðju. Það verður í skásta lagi svefnstaður förumanns, sem dagar uppi í hrauninu, lítt gangfrár sökum ófeiti. En að því rekur, að þakið fellur, steinar velta úr hleðslu og mosinn reiðir sæng í tóftinni. Enginn hirðir um að reisa það við, er úr skorðum fer. því að þetta er ekki lengur helgur staður, og fólk er hætt að vinna fyrir sálu sinni með því, sem má verða ókunnugum, vegmóðum manni til líknar.
Það er liðið að miðri nítjándu öld. í Görðum á Álftanesi situr séra Árni Helgason, svarakaldur hefðarklerkur, kominn vestan af fjörðum. Kotungarnir í Hraununum segja honum þá sögu, að undir grjóthrúgunni liggi bein Kristjáns skrifara og þeirra Dana annarra, sem Norðlendingar drápu grímuklæddir á Miðnesi í hefnd eftir Jón biskup Arason. Barbara er með öllu fallin í gleymsku.
kapellan-202Og þegar dagar séra Árna í Görðum eru allir, koma menn með járnkarla og haka og hestvagna og ryðja nýjan veg gegnum hraunið, mun ofar en gamla veginn. Áður en varir fara fjórhjóla ökutæki að skrönglast þennan veg með gný og stunum, því að bílaöldin er runnin upp, hálfu fjarlægari heilagri Barböru en nokkur önnur öld á íslandi. Samt minnast menn hinnar einkennilegu hleðslu í hrauninu. Og sumardag einn árið 1950 halda þangað fjórir menn með graftól og mælisnúrur. Þar er á ferð þjóðminjavörður landsins, Kristján Eldjárn, með einvalalið — Gísli Gestsson safnvörður, dr. Jón Jóhannesson prófessor og Jóhann Briem málari eru í för með honum. Erindið er að rjúfa þetta gamla mannvirki og kanna leyndardóma þess. Það eru ekki fúin bein Kristjáns skrifara, sem þeir finna. Þeir hafa ekki veríð hingað fluttir, sem dregnir voru út úr húsunum á Kirkjubóli á Miðnesi, enda á bækur skráð, að þeir hafi verið dýsjaðir þar við garð. Aftur á móti var Kirkjubólsbóndi, Jón garmurinn Kæniksson höggvinn í Straumi fyrir þær sakir, að hann leyfði, að húsin væru rofin og höfuð hans sett þar á sting. Kann þar að leita ástæðunnar til þess, að farið var að orða Kristján skrifara við kapelluna.
En það er af rannsókninni kapellan-203að segja, að þegar mjúkri mosasænginni hefur verið flett af kapellutóftinni, kom upp úr kafinu, að heilög Barbara er ekki vikin af staðnum. Hún hefur blundað þarna í nokkur hundruð ár, skorin í leirstein og með turn sinn á öxlinni, breiðleit kona og mittismjó með bylgjandi lokka við annan vangann. Og í kringum hana liggja skeifnabrot og hófnaglar, leirkerabrot og viðarkolabútar á víð og dreif um kapellugólfið — minjar um það fólk, sem öld eftir öld hefur staðnæmzt hér. Og á einum stað hírist krítarpípuleggur frá seytjándu öld, því að einhver samtíðarmaður Brynjólfs biskups hefur tyllt sér niður og drukkið tóbak innan þessara veggja.

kapellan-204

Hann gekk ekki með eldspýtur í vasanum, og hér var gott að leggja glóðarköggul í pípuhausinn í skjólinu. Samt hefur hann liklega ekki leitt hugann að því, að hann var hér staddur í skjóli þeirrar konu, sem firrði með voða af eldi – Og nú var þess skammt að bíða, að menn fýsti enn að gera nýjan veg yfir hraunið, svo að Lifreiðirnar kæmust á skemmri tíma milli Reykjavíkur og Suðurnesja. Það var komið að því, að fólk þurfti að flýta sér meira en nokkru sinni hafði áður þekkzt á íslandi. Og þá var vegurinn aftur færður í námunda við kapellu heilagrar Barböru. Ef þeir, sem nú þeysa veginn, mega vera að því að stiga örlítið á hemilinn, þá blasir rúst gömlu kapellunnar við augum, vinstra megin vegaríns, þegar farið er suður. Það er raunar ekki fagurt í kringum hana, því að járntennur tröllaukinna véla hafa níst og skafið hraunið og sópað mosanum burt. En það er fyrir mestu, að hús Barböru er þarna enn. Og þó að mönnum liggi reiðinnar ósköp á, þá hefur mosinn tímann fyrir sér. Hann mun græða sár hraunsins og breiða flos sitt yfir gjallið, sem tennur vélanna hafa urið. Farðu og skoðaðu kapelluna, og komdu svo aftur eftir hundrað ár: Þú munt komast að raun um að grámosinn hefur mikið iðjað.”

(Helzta heimild: Árbók Fornleifafélagsins).

Heimild:
-Tíminn, Sunnudagsblað – Að krossi og að Kapellu, 7. júní 1964, bls. 508-509 og 525
Kapella

Þorbjarnastaðir

Í bókinni “Neistar – úr 1000 ára lífsbaráttu íslenskrar alþýðu” eru ýmsir mannlífsþættir. Einn fjallar um afleiðingar af aftöku Jóns Arasonar og tengist Straumi. Textinn er tekinn upp úr Grímstaðaannál. Jafnan hefur því verið haldið á lofti að kapellan í Kapelluhrauni hafi tengst því atviki, en þar er um misskilning að ræða.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá því að einn af mönnum Kristjáns skrifara hafi Mannabein verið drepinn í Kapelluhrauni og grafinn í kapellunni til hefnda eftir Jón biskup Arason og syni hans. Rannsókn Kristján Eldjárns í kapellunni árið 1950 gaf þó enga vísbendingu um slíkt. Það, sem ekki kom fram í rannsókninni, enda ekki fyrirséð, var sú mikla eyðilegging á merkilegu minjasvæði er varð í algleymi álversframkvæmdanna á sjöunda áratug síðustu aldar. Ef bara einhver svolítil hugsun hefði kviknað í kolli þeirra er vit hefðu átt að hafa á slíku þá værum við öllu menningarsögulega ríkari nú.
Í örnefnalýsingu fyrir Þorbjarnarstaði segir m.a.: “Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys.” Kapellan, þ.e. húsið, sem þarna var, gæti þess vegna hafa verið hlaðin til minningar um atvikið. Líklegt má telja að aftakan hafði verið framkvæmd þarna skammt frá, en líkamspartarnir síðan skildir eftir við Alfaraleiðina er lá framhjá kapellunni, öðrum til varnaðar. Fyrrum lá gata af leiðinni niður í Lambhagavík, sem mun hafa verið aðallendingastaður verslunarinnar í Straumsvík fyrrum. Gísli Sigurðsson nefndi hana Ólafsstíg, sbr.: “Uppi á Brunabrúninni er líka Fiskabyrgið, þar sem fiskur var kasaður hér í eina tíð og síðan hertur. Þarna uppi voru einnig tvö til þrjú fjárhús. Sunnan við þau lá stígur austur eftir hraunhrygg allháum. Var hann lagður hellum langt austur. Gísli Sigurðsson segir, að hann hafi heitið Ólafsstígur, en það mun vera rangt.
Ólafsstígur lá upp á hraunið hjá kálgörðunum í Litla-Lambhaga.” Þá segir að “Austurtúngarðurinn [á Þorbjarnarstöðum var rétt norðan Alfaraleiðarinnar] lá úr Beinaviki upp á klettastall og suður eftir honum suður á Brunann.” Örnefnið “Beinavik” er hér ekki skýrt nánar, en það mun hafa verið í krikanum þar sem þjóðleiðin lá upp á Brunann. Það gæti gefið til kynna aftökustaðinn, enda jafnan notaður sem áningastaður. Ferskt vatn kemur þarna undan hrauninu og skjólgott er þar fyrir norðanáttinni. 

Kapella

Kapellan.

1551 – Bóndinn þar á Kirkjubóli á Miðnesi og hans maður, Hallur að nafni, hann bjó í Sand(hóla)koti, var ráðsmaður bóndans, þeir voru báðir teknir um sumarið eftir og áttu að flytjast til alþingis. En þeir voru þverbrotnir og bágir viðureignar, fluttu þá að straumi, og voru þeir þar báðir hálshöggnir. Þar var þá kaupstefna [eitt af herskipum Dana kvað þá hafa legið þar, en venjulega kaupstefnan var öll í Hafnarfirði].  Höfuðin voru fest á stengur, en bolirnir á hjóli sundur slitnir, og sá til merkis meir en 20 eður 30 ár. Margur galt þá, bæði sakaður og saklaus, fyrir norðan og sunnan, en Danir tóku sér mestar eignir þeirra feðga. Böðullinn, sem þá feðga hjó í Skálholti, hét Jón Ólafsson. En þegar norðlenzkir riðu frá Kirkjubóli eftir hefnd þeirra, fundu þeir þennan Jón á Álftanesi. Tóku þeir hann og héldu á honum túlanum og helltu ofan í hann heitu biki [blýi, segja aðrir]. Með það lét hann sitt líf, en þeir riðu norður.”

Heimild:
-Björn Sigfússon – Neistar, úr þúsund ára lífsbaráttu íslenskrar alþýðu, 1044, bls. 161 (Grímsstaðaannáll).
-Örnefnalýsingar fyrir Straum og Þorbjarnarstaði.
-Árbók Hif 1954.

Kapellan í Kapelluhrauni 1950

Festisfjall

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1955-1956 er m.a. fjallað um kapelluna í Kapellulág ofan Hrauns við Grindavík: “Austur frá Hrauni í Grindavík og allt til Festarfjalls heitir Hraunssandur, enda er þar mjög blásið og sér lítinn sem engan gróður á heilum flákum.
Kapellulag-1Þó sagði Gísli Hafliðason, gamall bóndi á Hrauni og átti þar heima alla ævi (d. 1956), að allt sé þarna heldur að gróa upp, sandurinn sé að festast, og mun það eflaust rétt athugað. Um Hraunssand hefur frá fornu fari legið vegur, og var um hann áður fyrri mikil umferð af mönnum austan úr sýslum, lestamönnum haust og vor og vermönnum um vetur. Frumstæður bílvegur liggur nú mjög þar sem gamli vegurinn var áður. Um það bil 1 km fyrir austan bæinn á Hrauni er lægðardrag allmikið í sandinum, hefst í hæðunum hið efra og nær niður að sjó, víkkar niður eftir og virðist myndað af rennandi vatni, þó að nú sé hvergi vatn á þessum slóðum. Lægð þessi heitir Kapellulág. Rétt neðan við bílveginn, sem nú liggur þvert yfir lægðina á sama stað og gamli vegurinn lá fyrrum, er töluvert áberandi þúst eða grjóthrúga, auðþekkt mannaverk í sandauðninni. 

kapellulag-2

Þessi grjóthrúga er í daglegu tali kölluð Dysin, og hermir Brynjúlfur Jónsson um hana eftirfarandi sögu: ,,Þá er Tyrkir rændu í Grindavík (1627), flýði drengur einn undan þeim, ríðandi á rauðri meri, og hleypti upp veg. Einn af Tyrkjum elti hann og var svo fljótur á fæti, að hann náði honum í Kapellulág. Þreif hann þá í tagl merarinnar. En hún sló báðum afturfótum fyrir brjóst honum svo hart, að hann lá dauður eftir. Var hann þar dysjaður, og á rústin að vera dys hans”. Á sjávarbakkanum um 200 m suðaustur frá dysinni er grasi gróinn hóll, sem heitir Hvalhóll. Menn taka mið af þessum hól, þegar hann ber í dysina frá sjónum séð, og heitir þetta mið Húsið. Í því nafni felst sjálfsagt réttari bending um uppruna þessa mannvirkis en í munnmælasögunni. Fleira er eftirtektarvert í umhverfi dysjarinnar. Fyrir austan hana er allmikil hæð, og af henni er skammt austur að sjó, þar sem Hraunsvík nær lengst inn undir Festarfjall. Þar er mjög hár sjávarbakki, og grefur sjór hella inn í móbergið. Þar var hellir, sem nú er mjög lítið eftir af, og hét Dúnknhellir.
kapellulag-3Á skerjum nokkrum undir Festi segja þeir á Hrauni, að áður hafi verið járnhringar til þess að festa skip, og hafi írar fest þar skip sín. Þessir járnhringar munu ekki sjást lengur, og enginn þeirra á Hrauni hafði sjálfur séð þá, en þeir þóttust þó vita fyrir yíst, að þessir hringar hefðu verið þarna. (Sbr. og Jón Þorkelsson, Þjóðsögur og munnmæli, Reykjavík 1899, bls. 1.)
Dysin í Kapellulág var rannsökuð dagana 13. og 14. maí 1954. Auk mín unnu við rannsóknina Gísli Gestsson safnvörður og Jóhann Briem listmálari fyrri daginn, en Gísli og Guðmundur Þorsteinsson frá Lundi seinni daginn. Báða dagana nutum við gestrisni Gísla Hafliðasonar á Hrauni og konu hans. Veður var gott báða dagana, skúrir þó seinni daginn, en vinnufriður sæmilegur. Brynjúlfur Jónsson lýsir dysinni svo árið 1903, að hún sé „dálítil grjótrúst, nokkuð grasgróin, svo sem 3 al. í þvermál að ofan, en fláir utan og virðist vera nokkuð hrunin. Naumast er hún yfir 1 al. á hæð”. Þessi lýsing á sæmilega við dysina, eins og hún leit út, áður en við byrjuðum að grafa í hana. Hún var að sjá eins og hver annar blásinn hóll, steinar oltnir út úr á allar hliðar, en nokkuð gróið á milli. Einkum var kollurinn vel gróinn, og vottaði þar ekki fyrir neinni laut eða lægð. Að ógröfnu mátti þó aðeins greina steinaraðir, sem stóðu upp úr þessum gróna kolli og virtust sýna innri brúnir veggja í litlu húsi.
Kapella-201Þegar við vorum búnir að mynda dysina, fórum við að grafa innan úr henni, eftir því sem þessar steinaraðir eða veggbrúnir sögðu til. Mold létum við sér og grashnausa sér til þess að geta komið öllu í sama fallega lagið aftur, þegar rannsókninni væri lokið. Efsta rekustungan eða vel það var eingöngu foksandur moldarblandinn. Í honum voru nokkur stórgripabein og fuglabein nýleg. Á hér um bil 50 sm dýpi varð vart við fyrstu mannvistarleifar, koladrefjar, sem ekki voru tilkomumeiri en það, að þær héngu ekki saman svo að lag myndaðist. Við hreinsuðum upp alla tóftina við þetta lag, gerðum uppdrátt og tókum myndir. Niðri við lagið eða um 45 sm frá yfirborði, inni undir húsgafli (þ. e. austurgafli), fundum við eina stappaða látúnsþynnu. Rétt fyrir neðan efstu mannvistarleifarnar, einkum við suðurhlið, en þó nokkuð um alla tóftina, var 1—2 sm þykkt lag af hreinlegum sjávarsandi með skeljamulningi í, en annars var allt hér fyrir neðan og niður á gólf tóftarinnar meira og minna blandað mannvistarleifum, þótt mest væri af leirlituðum foksandi með stærri og smærri steinum í.
Kapella-202Hér og hvar voru örlitlir öskublettir og viðarkolamolar, en eldstæði ekkert, og yfirleitt voru þessi eldsmerki smávægileg. Neðst var gul, leirkennd moldarskán, sem í vottaði fyrir morknum beinum og fúnum spýtum, og mun þetta eflaust vera gólf hússins, en í því voru engar eldsleifar, sem þó eru algengastar á gólfum. Neðan við þetta lag var hrein ísaldarmöl og engar mannvistarleifar.
Nú skal lýsa húskofa þessum, eins og hann kemur fyrir sjónir uppgrafinn. Það varð þegar í stað ljóst við rannsóknina, að við höfðum fyrir okkur lítið hús eða hústóft, sem var barmafull af mold, sandi og grjóti, innveggir lítið sem ekki hrundir, en útveggir mjög hrundir og steinar úr þeim skriðnir út á alla vegu. Af því skapaðist dysjarútlitið og þá einnig nafnið og loks munnmælasagan um Tyrkjann. 1 miðhafninu.

Kapella-203

Húsið hefur hins vegar geymzt sem minning um, að þetta hafði í upphafi verið hús. Það hefur verið ótrúlega lítið. 2,20 m að lengd og 1,20 m að breidd. Veggirnir eru hlaðnir úr grjóti í 1 m hæð ogstanda vel að innan, lítið eitt fláandi upp eftir, þ. e. hallast út. Veggjarþykktin hefur verið um 1 m, eftir því sem næst verður komizt. Húsið hefur snúið frá austri til vesturs, þó lítið eitt tifl norðvesturs. Vesturgafl hefur verið úr timbri og dyr á að norðan. Í þeim hefur verið eins konar stétt af smásteinum. Við syðri langvegginn lágu tvær stórar og myndarlegar hellur, og hefur hin fremri náð alveg fram undan þilstafninum, sem beinlínis virðist hafa hvílt á henni. Eitthvað virðist hafa hvílt á þessum hellum við suðurvegginn, t. d. borð eða bekkur. Fremri hellan er 15 sm þykk, og álíka hátt þrep er í dyrunum við hliðina á henni, enda er gólfið þetta lægra en hlaðið fyrir framan.
Fleira er varla nauðsynlegt að taka fram í lýsingu þessa húskrílis. Eftir rannsóknina fylltum við tóftina og færðum allt í samt lag aftur. Ég kom þar aftur í nóvember 1955, og var þá varla hægt að sjá, að nokkurn tíma hefði verið við henni rótað.”
Í “Skrá um friðlýstar fornleifar 1990” má lesa eftirfarandi um Kapellulág: “
Hraun – undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 15.11.1938. Lítil rúst í Kapellulág, við veginn upp á Siglubergsháls, sbr. Árb. 1903; 46-47.”

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 54. árg. 1955-1956, bls. 16-20.
-Skrá um friðýstar fornleifar 1990.

Kapella

Kapellan við Hraun.