Kapella


“Suður í hinum kaþólsku löndum Evrópu eru sums staðar litlar kapellur við vegi, einkum í fjöllum eða þar sem torleiði þykir.
Þessar kapellur eru til þess ætlaðar, að vegfarendur geti farið þar inn og Kross-201beðizt fyrir. Sums staðar eru látin nægja lítil ölturu eða jafnvel krossar einar. Allt þetta hefur líka verið tíðkað hérlendis. Enn er haldið við hinum alkunna krossi í Njarðvíkurskriðum, og mun hann og hin latneska áletrun á honum eiga rætur að rekja langt aftur í kaþólskan sið. Til skamms tíma mun mörgum þeim, er þar áttu leið um, hafa þótt hlýða að biðjast fyrir við krossinn, jafnvel þótt ekki væru sérlega bænræknir endranær. Hið forna traust á þessum krossi stóð djúpum rótum, enda talar það sínu máli, að hann skyldi eigi aðeins standa af sér þá herferð, er gerð var gegn öllum kaþólskum minjum á siðaskiptatímanum, heldur vera endurnýjaður hvað eftir annað á þeim tíma, er lúterskur siður var alls ráðandi, og síðan enn, eftir að veldi trúarbragðanna var mjög tekið að hraka. Svipað hefur gerzt í Drangey. Þar er klettastallur ofarlega í uppgöngunni, þar sem menn þurfa að handstyrkja sig upp , nefndur altari.
Það er og eftirtektarvert, að nálega tveimur öldum eftir að kaþólskur siður laut í lægra haldi í landinu, var grjótaltari reist á Siglufjarðarskarði að boði Steins biskups Jónssonar á Hólum, sökum þess, að menn höfðu þráfaldJega orðið þar bráðkvaddir, og séra Þorleifur Skaftason í Múla, sem þótti andríkastur klerka norðan lands, látinn syngja þar messu að viðstöddu fjölmennl og nálega vígja skarðið í anda Guðmundar góða.

Kirkjubol-221

Kemur fram í frásögnum um þessa atburði, að fram að þeim tíma hafði verið siður margra, er þarna áttu leið um, að gera bæn sína við stóra steina við götuna. Það er efalaust, að á kaþólskum tíma hafa víða staðið á víðavangi krossar, sem prestar hafa vígt með söng og vatni. Þessir krossar hafa sumir staðið á viðsjárverðum stöðum, þar sem reynslan hafði sýnt, að hætt var við slysum, öðrum hefur verið ætlað að bægja burt eða halda í skefjum illum öndum og skaðvænlegum vættum, og nokkrir verið til þess eins, að fólk gæti kropið að þeim, þótt ekki væri neinn sérstakur voði á næsta leiti. Það er ekki ósenhilegt, að ýmis bæjarnöfn og örnefni séu af þessum rótum runnin: Kross, Krossnes, Krossholt. Sá siður að reisa krossa á víðavangi hefur þegar borizt til lands með kristnu, írskkynjuðu fólki á landnámsöld, enda sagt berum orðum í Landnámu, að Auður djúpúðga hafi látið reisa krossa á Krosshólum í Hvammssveit og farið þangað til bænahalds. Ef kannað væri, kynni einnig að koma í ljós, að furðumargir staðir í landinu, þar sem huldufólk var talið hafa aðsetur, eru við kross kenndir.
Nú er það kunnugt frá nágrannalöndum okkar, að fólki á miðöldum stóð mikill ótti af álfum, og beitti ýmsum ráðum til þess að verjast þeim. Mætti geta sér þess til, að alsiða hafi verið að reisa hér krossa við byggðir huldufólks.
Fólk, sem slíkt gerði, hefði þó verið í sóknarhug, staðráðið í að knésetja álfana með krossum sínum og vígslum. En á þeim öldum, sem við kunnum betri skil á í þessu Kapelluhraun-221efni, var það einn þáttur góðs uppeldis að brýna fyrir börnum og unglingum að hafa ekki í frammi nein ólæti við bústaði huldufólksins, er gætu egnt það til reiði: Það er sem sé tímabil hirinar friðsamlegu samtilveru, svo að notað sé nýtízkulegt orðalag, þegar allir lögðu sig í framkróka um að gera ekki neitt það, er drægi hefnd á eftir sér, og höfðu kastað frá sér þeirri hugsun að sigrast á þessum leyndu verum. Það, er ekki heldur fráleitt að ímynda sér, að mjög víða hafi verið reistir krossar við lendingar. Það var ekki fágætt, að fiskirmönnum og sæförum hlekktist á í landtöku, og krossar á slíkum stöðum gátu gert tvöfalt gagn: Þeir gátu fyrst og fremst verið tákn þess, að staðurinn var falinn vernd almættis, og í öðru lagi gátu þeir, að minnsta kosti sums staðar, verið til leiðbeiningar um það, hvernig leggja skyldi að landi. Það er líka kunnugt, að krossar stóðu í lendingu í Bjarneyjum á Breiðafirði fyrr á tímum, og væri með öllu út í bláinn að láta sér til dæmis detta í hug, að nafn Krossvíkur á Akranesi væri af því dregið, að þar hafi einnig verið kross reistur endur fyrir löngu? Nákvæm rannsókn á örnefnum á þeim stöðum, þar sem sjór hefur verið stundaður í margar aldir, gæti ef til vill gefið vísbendingu um þetta.
Sá siður loddi lengi við, jafnvel víða allt þar til, að vélbátar komu til sögunnar, að menn tækju ofan sjóhatta sína og læsu sjóferðabæn, áður en róið var á miðin. Þetta er rótgróinn siður, sem tíðkaður hafði verið í margar aldir, og það þurfti ekkert minna en atvinnubyltinguna til þess að afnema hann. Fyrr meir kann jafnvel að hafa verið kropið að krossi, áður en á sjóinn var farið eða þegar komið var af honum. Við brottförina átti fyrirbæn vel við, en við landtöku kunna menn að hafa viljað gjalda þökk.
Kapella-227Af kapellum í líkingu við þær, sem til eru suður í hinum kaþólsku löndum álfunnar, fara ekki miklar sögur. Þó hafa slíkar kapellur án efa verið reistar hérlendis. Sæluhúsin, sem í öndverðu voru beinlínis tengd trúarhugmyndum manna eins og nafnið sýnir, kunna stundum meðfram að hafa verið einhvers konar kapellur, þó að fyrst og fremst beri að leggja þann skilning í nafnið, að bygging þeirra og viðhald hafi verið eitt þeirra líknarverka, sem í miklum metum voru í kaþólskum sið og líklegt þóttu til þess að greiða syndugum mönnum veg til dýrðarinnar. En hvað sem um þetta er, þá vill svo til, að fundizt hefur ein rúst, þar sem enginn vafi er, að verið hefur kapella. Örnefni benti til þess, að svo væri, og rannsókn tók af öll tvímæli. Og þessi eina kapella, sem við vitum með vissu, að verið hefur á víðavangi, ætluð vegfarendum til þess að hvílast þar og gera bæn sína, er í næsta nágrenni við höfuðstaðinn. Nú um nokkra áratugi hefur hún þó ekki verið fast við alfaraleið, en með nýja Suðurnesjaveginum hefur þetta breytzt aftur. Fyrir sunnan Hafnarfjörð heitir Kapelluhraun, svo sem margir munu vita. Það nafn ber nyrðri hluti hraunbreiðu, sem runnið hefur úr eldvörpum skammt frá Vatnsskarði allt til sjávar á allbreiðu svæði milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Er það ætlun manna, að þetta hraun hafi runnið eftir að land byggðist, en þó nokkru fyrir miðjafjórtándu öld, enda kallað Nýjahraun í gömlum annálum.
kapella-228Þegar hraunið kólnaði og eldsumbrotum linnti, hefur verið brýn þörf að ryðja veg gegnum þetta hraun í stað þess, er þar hafði tekið af. Enginn er til frásagnar um það, með hvaða ógnum hraunið kann að hafa brunnið, en vafalaust hafa náttúruhamfarirnar skotið fólki skelk í bringu. Og þá var nærtæk sú hugmynd að reisa kapellu í hrauninu við nýja veginn, er gerður var gegnum það, vegfarendum til halds og trausts. Til þess benda og allar líkur, að kapellan hafi einmitt reist um þetta leyti. Henni var valinn staður í miðri hraunbreiðunni, fast við veginn, sjávarmegin. Þangað var færð líkneskja dýrlings, sem líklegastur var til gagnsemdar á slíkum stað og beztur þótti til árnaðar á himnum, ef því var að skipta að firra voða af nýju eldgosi og hraunflóði. Fyrir valinu varð heilög Barbara, sem dó píslarvættisdauða á fjórðu öld og hefur síðan haldið hlífiskildi yfir trúuðu fólki, þegar um var að tefla óvæntan dauða, eld eða fárviðri.
Síðan liðu ár og aldir. Vermennirnir kjöguðu hraunið með skrínuf sínar. Skreiðarlestirnar mjökuðust áfram, og hófar hestanna mörkaðu dýpri og dýpri slóð í gljúpt grjótið. Kýldir valdsmenn á litklæðum riðu hjá með korða við hlið, og Hansakaupmenn með blaktandi fjaðrir í hatti renndu drýldnum fyrirlitningar augum yfir þetta gráa hraun. Og hundruð og þúsund manna viku af götu sinni inn í grjótbyrgið til þess að beygja kné sin fyrir heilagri Barböru og njóta athvarfs og endurnæringar í húsi hennar.

Kapellan-201

Loks ríður hér þessar krókóttu, niðurgröfnu hraungötur danskur mað ur og nefnist Kristján skrifari. Það kemur komið á daginn suður í löndum, að dýrlingar mega sín einskis á himnum og menn öðlast ekki þegnrétt á landi lifenda með góðverkum, heldur frelsast einungis af náð fyrir trúna. Höfuð síðasta kaþólska biskupsins er þegar laust af bolnum, og það er orðin geigvænleg villa að krjúpa heilagri Barböru. En menn halda áfram að laumast inn til hennar, skima kannski flóttalega í kring um sig, áður en þeir smeygja sér inn fyrir stafinn, en þylja samt bænir sínar við fótskör hennar.
Og enn líða ár og aldir. Smám saman dofnar ljómi dýrlingsins, og kapellan i hrauninu verður aðeins fáfengilegt grjótbyrgi, þar sem þægilegt getur verið að standa af sér hryðju. Það verður í skásta lagi svefnstaður förumanns, sem dagar uppi í hrauninu, lítt gangfrár sökum ófeiti. En að því rekur, að þakið fellur, steinar velta úr hleðslu og mosinn reiðir sæng í tóftinni. Enginn hirðir um að reisa það við, er úr skorðum fer. því að þetta er ekki lengur helgur staður, og fólk er hætt að vinna fyrir sálu sinni með því, sem má verða ókunnugum, vegmóðum manni til líknar.
Það er liðið að miðri nítjándu öld. í Görðum á Álftanesi situr séra Árni Helgason, svarakaldur hefðarklerkur, kominn vestan af fjörðum. Kotungarnir í Hraununum segja honum þá sögu, að undir grjóthrúgunni liggi bein Kristjáns skrifara og þeirra Dana annarra, sem Norðlendingar drápu grímuklæddir á Miðnesi í hefnd eftir Jón biskup Arason. Barbara er með öllu fallin í gleymsku.
kapellan-202Og þegar dagar séra Árna í Görðum eru allir, koma menn með járnkarla og haka og hestvagna og ryðja nýjan veg gegnum hraunið, mun ofar en gamla veginn. Áður en varir fara fjórhjóla ökutæki að skrönglast þennan veg með gný og stunum, því að bílaöldin er runnin upp, hálfu fjarlægari heilagri Barböru en nokkur önnur öld á íslandi. Samt minnast menn hinnar einkennilegu hleðslu í hrauninu. Og sumardag einn árið 1950 halda þangað fjórir menn með graftól og mælisnúrur. Þar er á ferð þjóðminjavörður landsins, Kristján Eldjárn, með einvalalið — Gísli Gestsson safnvörður, dr. Jón Jóhannesson prófessor og Jóhann Briem málari eru í för með honum. Erindið er að rjúfa þetta gamla mannvirki og kanna leyndardóma þess. Það eru ekki fúin bein Kristjáns skrifara, sem þeir finna. Þeir hafa ekki veríð hingað fluttir, sem dregnir voru út úr húsunum á Kirkjubóli á Miðnesi, enda á bækur skráð, að þeir hafi verið dýsjaðir þar við garð. Aftur á móti var Kirkjubólsbóndi, Jón garmurinn Kæniksson höggvinn í Straumi fyrir þær sakir, að hann leyfði, að húsin væru rofin og höfuð hans sett þar á sting. Kann þar að leita ástæðunnar til þess, að farið var að orða Kristján skrifara við kapelluna.
En það er af rannsókninni kapellan-203að segja, að þegar mjúkri mosasænginni hefur verið flett af kapellutóftinni, kom upp úr kafinu, að heilög Barbara er ekki vikin af staðnum. Hún hefur blundað þarna í nokkur hundruð ár, skorin í leirstein og með turn sinn á öxlinni, breiðleit kona og mittismjó með bylgjandi lokka við annan vangann. Og í kringum hana liggja skeifnabrot og hófnaglar, leirkerabrot og viðarkolabútar á víð og dreif um kapellugólfið — minjar um það fólk, sem öld eftir öld hefur staðnæmzt hér. Og á einum stað hírist krítarpípuleggur frá seytjándu öld, því að einhver samtíðarmaður Brynjólfs biskups hefur tyllt sér niður og drukkið tóbak innan þessara veggja.

kapellan-204

Hann gekk ekki með eldspýtur í vasanum, og hér var gott að leggja glóðarköggul í pípuhausinn í skjólinu. Samt hefur hann liklega ekki leitt hugann að því, að hann var hér staddur í skjóli þeirrar konu, sem firrði með voða af eldi – Og nú var þess skammt að bíða, að menn fýsti enn að gera nýjan veg yfir hraunið, svo að Lifreiðirnar kæmust á skemmri tíma milli Reykjavíkur og Suðurnesja. Það var komið að því, að fólk þurfti að flýta sér meira en nokkru sinni hafði áður þekkzt á íslandi. Og þá var vegurinn aftur færður í námunda við kapellu heilagrar Barböru. Ef þeir, sem nú þeysa veginn, mega vera að því að stiga örlítið á hemilinn, þá blasir rúst gömlu kapellunnar við augum, vinstra megin vegaríns, þegar farið er suður. Það er raunar ekki fagurt í kringum hana, því að járntennur tröllaukinna véla hafa níst og skafið hraunið og sópað mosanum burt. En það er fyrir mestu, að hús Barböru er þarna enn. Og þó að mönnum liggi reiðinnar ósköp á, þá hefur mosinn tímann fyrir sér. Hann mun græða sár hraunsins og breiða flos sitt yfir gjallið, sem tennur vélanna hafa urið. Farðu og skoðaðu kapelluna, og komdu svo aftur eftir hundrað ár: Þú munt komast að raun um að grámosinn hefur mikið iðjað.”

(Helzta heimild: Árbók Fornleifafélagsins).

Heimild:
-Tíminn, Sunnudagsblað – Að krossi og að Kapellu, 7. júní 1964, bls. 508-509 og 525
Kapella