Kapella

Flestar minjar á Reykjanesskaganum eru ómerktar og lítt aðgengilegar. Við Kapelluna í Kapelluhrauni standa hins vegar tvö upplýsingaskilti, reyndar með misvísandi fróðleik. Skiltin voru þrjú, en eitt hefur verið fjarlægt.
SkiltiÁ öðru skiltinu, frá Byggðasafni Hafnarfjarðar, stendur m.a.: “Snemma á 13. öld var höfðingi í borginni Nikómedíu í Litlu-Asíu, þar sem nú er Izmid í Tyrklandi. Átti hann forkunnarfríða dóttur er Barbara hét. Hún var í æsku lokuð inni í turni einum til að forðast biðla en þrátt fyrir einangrunina tókst Origeneses kirkjuföður að komast inn til hennar og fyrir fortölur hans tók hún kristna trú. Barbara lét aldrei af trú sinni, þrátt fyrir pyntingar sem að stærstum hluta voru gerðar að kröfu föður hennar, sem vildi snúa henni aftur til heiðinnar trúar. Að lokum var hún leidd fyrir dómara og dæmd til lífláts í ofsóknum á kristna menn.
Hún varð snemma kaþólskur dýrlingur, aðallega ákölluð við óvænta hættu, eldsvoða, sprengingar og þess háttar. Hérlendis lá því beint við að ákalla hana í sambandi við jarðelda og hraunflóð.
Kapella þessi er á skrá yfir friðlýstar fornminjar og er talið að hún sé frá kaþólskum tíma en ekki hefur hún verið aldursgreind nánar. Hraunið umhverfis kapelluna hefur verið kallað Kapelluhraun eða Nýjahraun og er talið að það hafi runnið einhvern tímann á tímabilinu 1100-1300. Kapellan er rétt við gamla krákustíginn, sem ruddur var fljótlega eftir að hraunið rann og hefur verið alfaraleið út á nes öldum saman.
KapellanÁrið 1950 var rústin rannsökuð af þeim dr. Kristjáni Eldjárn, þjóðminjaverði, Gísla Gestssyni, safnverði, Jóhanni Briem, listmálara, og dr. Jóni Jóhannessyni. Fundust þá nokkrir munir í rústinni og ber þar helst að nefna hluta af líkneski heilagrar Barböru. Líkneskið var úr grágulum leirsetini og var einungis um3.3 cm á hæð, en hefur líklega verið um 5.5 cm heilt. Þar sem hraunið sem kapellan stendur er yngra en landnám var það vel við hæfi að einmitt heilög Barbara fannst þarna, sem e.t.v. stendur í sambandi við bæn um það, að svona hrikalegt hraunrennsli endurtaki sig ekki. Styttan sem fannst við rannsóknina er varðveitt í Þjóðminjasafni Íslands, en þessi hérna er eftirlíking, svipuð en lítið eitt stærri.
Kapella þessi er alveg við gamla veginn og hefur því líklega einnig verið eins konar sæluhús. Menn hafa farið inn til að biðja bæn sína, en líka til að hvílast eða leita skjóls í vondum veðrum.”
Á hinu skiltinu er svipaður texti, styttri. Þar segir að hraunið hafi runnið á 14. öld, en nú hefur verið staðfest skv. áreiðanlegustu aldursgreiningum að hraunið rann árið 1151.
Á bls. 7 í 32. tbl. Fjarðarpóstsins, 24. árg. 2006 (www.fjardarposturinn.is) er fjallað um “Menningardag Evrópu”, sunnudaginn 3. september. Áætlað er skv. umfjölluninni að hafa dagskrá við “kapelluna” í Kapelluhrauni kl. 14.00 þennan tiltekna dag. Í umfjölluninni segir m.a.:
“Álverið í Straumsvík stendur á hrauni sem ber nafnið Kapelluhraun. Hraunið á upptök sín í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Talið er að hraunið hafi komið upp í eldgosi árið 1151, svokölluðum Krýsuvíkureldum.
Hraunið dregur nafn sitt af Kapellunni, rúst af litlu húsi skammt suður af Reykjanesbraut gegnt álverinu. Kristján Eldjárn rannsakaði kapelluna árið 1950 ásamt fleirum. Kapellutóftin snýr því sem næst í austur-vestur og er 240 cm löng og um 220 cm breið. Húsið hefur verið reist við götu sem rudd var gegnum hraunið og lá út á Reykjanes. Vegna mikillar efnistöku í kringum kapelluna er gatan nú að mestu horfin í nágrenni kapellunnar en smá bútur sést þó sunnan rústarinnar. Í kapellunni fundust nokkrir gripir. Þar á meðal brot af rafperlu, leirkersbrot, látúnslauf, kríptarpípuleggur, skeifubrot og naglar. Merkasti fundurinn var þó líkneski af heilagri Barböru. Staðsetning rústarinnar við veginn og fundur líkneskisins í rústinni benti að mati Kristjáns Eldjárns til þess að þarna hefði staðið vegakapella á kaþólskum tíma.
Líkneskið er tálgað úr grágulum leirsteini. Aðeins efri hluti þess fannst og er sá hluti 3,3 Kapellacm á hæð en talið að líkneskið haf upphaflega verið um 5,5 cm. Andlit heilagrar Barböru er nokkuð máð en hún er með mikið hrokkið hár niður á herðar og sveigur er um yfir ennið. Í vinstri endi heldur Barbara á einkenni sínu, turninum, og hvílir hann við vinstri öxl og upp með vinstri vanga hennar. Gott þótti að heita á Barböru í háska af eldi, húsbruna, sprengingum og þess háttar. Hún var verndardýrlingur stórkotaliðs, ferðamanna og síðar málmiðnaðarmanna. Barbara kann því að hafa þótt duga vel gegn háska af völdum jarðelds og hraunbruna. Þá er athyglisverð sú staðreynd að álver skyldi byggt við hlið kapellu verndardýrlings málmiðnaðarmanna.Â
Í ýmsum kristnum löndum eru enn til smákapellur, sem reistar hafa verið við vegi á miðöldum, ætluðum vegfarendum til bænagerðar. Krossar hafa verið reistir á víðavangi í sama tigangi. Í Njarðvíkurskriðum, milli Njarðvíkna og Borgarfjarðar eystri, stóð lengi kross þars em menn, sem áttu leið um skriðurnar, áttu að lesa faðirvorið.”
Í lok greinarskrifanna er lýst hinum “evrópska menningardegi” sem og tilgangi hans, sem reyndar skiptir kapelluna í Nýjahrauni litlu máli.

Stytta

Málið er að saga og hlutverk kapellunnar í Kapelluhrauni (Nýjahrauni) ofan við Straumsvík er mikilvæg, bæði vegna staðsetningarinnar og þeir atburða er síðar gerðust í nágrenni við hana (hefndin á drápi Jóns Arasonar Hólabiskupi við Skálholt árið 1550). Þá er hún ekki síður vitnisburður og staðfesting á hinni fornu leið, sem um hana lá yfir hraunið, frá Vestari-Brunabrúninni að hinni Austari, eins og segir í örnefnalýsingum. U.þ.b. 10 metra millikafli leiðarinnar sést enn suðvestan við kapelluna. Hins vegar er kapellan sjálf tiltölulega nýtt mannvirki, reist á gömlum grunni. Af myndum og uppdrttum Kristján Eldjárns (frá 1950) að dæma var kapellan, ferköntuð, niðurgrafin og hálffallin í kafi í mosavöxnu hrauninu.
Núverandi kapella er endurhlaðin með breyttu lagi (sporöskulaga), en á sama gólffleti og sú sem þar var fyrir. Best hefði farið á því að láta þessa tilteknu kapellutóft óhreyfða, eins og hún var, en ekki endurhlaða hana með þessu hæpna tilgátulagi. Með því varð, og verður, hún í augum “meðvitaðra” óekta og miklu mun minna áhugaverðari en ella.
Hvort þessi tilltekna nútímalega (frá sjöunda áratug 20. aldar) “kapelluuppgerð” getur talist sannur táknrænn vitnisburður um sögulega “menningararfleifð” á evrópskan mælikvarða skal ósagt látið. Líklegra hefði hin sandorpna kapella á Hraunssandi, frá sama tíma, er Kristján Eldjárn og félagar grófu upp skömmu fyrir 1950, orðið miklu mun áhugaverðari minnisvarði (óhreyfður) um það sem var og þjónað miklu mun betur betur tilgangi tilefnisins. Hún er einnig táknræn fyrir það virðingarleysi, sem fornleifunum hefur til langs tíma verið sýnt.
Efni greinarinnar framangreindu er bæði áhugavert og erindissinnað og er því birt hér bæði til fróðleiks og uppfyllingar öðrum lýsingum á sömu mannvistarleifum á vefsíðunni.

Heimild:
-Fjarðarpósturinn, 32. tbl. 24. árg 2006, bls. 7. Grein Kristins Magnússonar, fornleifafræðings.

Kapella

Kapellan í Kapelluhrauni og kafli Alfaraleiðarinnar.