Kapellan

Uppgerð kapellutóft er nú á hraunhól sunnan núverandi Reykjanesbrautar á móts við álverið. Í rauninni er fátt “fornt” við þessa kapellu nema staðsetningin. Þótt jafnan hafi verið litið til kapellunnar (fornleifarinnar) af sögulegum og trúarlegum ástæðum má segja að núverandi “kapella” hafi takmarkað gildi í því samhengi.
Um er að ræða kapellan-232uppgert nútímamannvirki (frá því í byrjun sjöunda áratugar 20. aldar), hlaðið með öðru lagi en upphaflega og á í rauninni takmarkaðan skyldleika við þá fornleif, sem þar var.

Hraunið, sem kapellan, var í hefur verið nefnt Kapelluhraun. Áður var það nefnt Bruninn og þar áður Nýjahraun, eins og hraunið var nefnt eftir að það rann. Við “kapelluna” er merki er segir til að þarna sé um friðlýstar fornminjar að ræða. Við flestar aðrar friðlýstar fornminjar á Reykjanesskaganum eru hins vegar engin slík skilti – einungis fúnir staurar.
Við kapelluna eru og tvö upplýsingarskilti, annað frá Byggðasafni Hafnarfjarðar og hitt frá Þjóðminjasafninu. Upplýsingarnar eru svipaðar, en ber þó ekki saman. Á öðru skiltinu segir að talið sé að Kapelluhraun hafi runnið á 11. öld. Á hinu segir að hraunið hafi runnið á 13. eða 14. öld. Nú liggur hins vegar fyrir að hraunið rann hvorki á 11. eða 13. öld, heldur árið 1151, þ.e. á 12. öld.
Stækkuð eftirlíking af líkneski heilagrar Barböru, sem fannst við fornleifauppgröft í tóftinni um 1950, er í “kapellunni”. Hvers vegna ættu kristnir að dýrka skurðgoð?
Friðlýsingarmerkið við innganginn á vísa til sérstakrar verndunar, sbr.: “Lambhagi. Kapellutóft forn úr grjóti í Kapelluhrauni. Sbr. Árb. 1903: 34. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 15.11.1938.” Merkið hefur hins vegar einungis táknræna þýðingu því fornleifin sem friðlýst var hvarf við endurgerðina eftir 1960. Hins vegar er öllu merkilegri fornleif þarna skammt frá, ca. 10 m óraskaðar leifar hinnar fornu Alfaraleiðar í gegnum hraunið, sem var hlíft fyrir tilviljun – en engum hafði dottið í hug að láta friðlýsa hana.

Kappella

Kapellan.