Litluborgir

1. Útihús v/ Ástjörn.

Ástjörn

Ástjörn – útihús.

Upp og austur frá bænum Ási rís upp fjall, sem heitir Ásfjall. Það er raunverulega framhald af Hvaleyrarholti, (er fyrr getur). Á Ásfjalli er varða, sem heitir Ásvarða. Bærinn Ás stendur í brekku vestan undir fjallinu. Vestur frá bænum er tjörn í lægð, sem heitir Ástjörn. Norður frá henni er býli, sem heitir Stekkur. Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið. Þótt bærinn Ás hafi verið rifinn má enn sjá margar minjar húsa og annarra búsetuleifa.

2. Ingvarslundur.
Ingvarslundur-221Í Undirhlíðum er minnisvarði um fyrsta formann Skógræktarfélagsins, Ingvar Gunnarsson. Sumarið 1930 plantaði Ingvar fyrstu barrtrjánum þarna ofarlega í Litla-Skógarhvammi, kjarri vöxnum unaðsreit í Undirhlíðum. Vorið 1934 var hvammurinn girtur og skólabörn og drengir í Vinnuskólanum í Krýsuvík bættust síðar í hóp trjáræktenda. Lundurinn hefur einnig verið nefndur Skólalundur.

3. Höfðaskógur.

Höfðaskógur

Höfðaskógur.

Starfsstöð Skógræktarfélags Hafnarfjarðar er í svonefndum Höfðaskógi. Félagsaðstaða og ræktunarstöð félagsins er á Beitarhúsahálsi sem dregur nafn sitt af Jófríðarstaðaseli sem varð að beitarhúsi þegar selfarir lögðust af. Þar sem selið stóð eru nú tóftir beitarhúss sem var sennilega byggt rétt fyrir aldamótin 1900. Höfðinn suðaustan við Beitarhúsaháls og er sennilega nefndur eftir beitarhúsinu, en eldra nafn á höfðanum er Heimastihöfði. Nokkrir höfðar til viðbótar falla undir Höfðaland. Höfðarnir heita auk Húshöfða, Selhöfði, Stórhöfði, Miðhöfði og Efstihöfði sem var allt eins nefndur Fremstihöfði. Einn höfði til viðbótar var tilgreindur í gömlum skjölum og nefndur Þormóðshöfði. Hann heitir í dag einu nafni Langholt enda frekar um holt eða ás að ræða en eiginlegan höfða.

4. Skátalundur.

Skátalundur

Skátalundur við Hvaleyrarvatn.

Skátaskálinn var byggður árið 1968 og landið girt og uppgræðsla hófst 1973. Inni í greniskógi vestan við skálann má finna leifar af birkikjarri fyrri tíma.

5. Rétt við Stórhöfða.
storhofdarettÍ örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um Hvaleyrir segir m.a.: „Selhöfði eða Hvaleyrarselhöfði er sunnan við Hvaleyrarvatn, en það er allt í Áslandi. Sunnan undir höfðanum eru miklar rústir eftir Hvaleyrarsel. Vestan við Selhöfðann er svo alldjúpur dalur, sem heitir Seldalur , sem að vestan myndast af hæstu hæðinni á þessum slóðum, sem heitir Stórhöfði. Hraunið milli Hamraness og Stórhöfða og frá Hvaleyrarvatni að austan og vestur á brún, þar sem landið hækkar, heitir Selhraun. Niðri í því er réttarhleðsla.

6. Bruni.

Kapelluhraun

Kapelluhraun.

Efri hluti Nýjahrauns er nefndur Bruni, og nær það nokkuð suður á móts við Stórhöfða. Sunnan og neðan við Stórhöfða er hraunið nefnt Stórhöfðahraun. Upp að  Brunanum vestan Stórhöfða heitir hraunið Selhraun. Kapelluhraun, en svo nefnist neðsti hluti Nýjahrauns, var í daglegu tali fólks í Hraunum einnig nefndur Bruninn og enn ofar Háibruni. Talsvert var um mosatekju í Kapelluhrauni.

7. Gráhelluhraun.
Gvendarlundur - skiltiFyrsta verk stjórnar eftir að Skógræktarfélag Hafnarfjarðar, sem stofnað var haustið, 1946 var að útvega hentugt land til skógræktar. Upphaflega hugmyndin var að hefja trjárækt í örfoka brekkunum norðan Hvaleyrarvatns, en vegna kulda vorið 1947 var leitað að skjólsælla svæði. Forvígismenn félagsins töldu nyrsta hluta Gráhelluhrauns henta vel til ræktunar og fengu leyfi bæjaryfirvalda til að girða 7 hektara reit í hrauninu upp af Lækjarbotnum. Gróðursetning hófst við hátíðlega athöfn 27. maí 1947 og fyrsta sumarið voru 2.300 trjáplöntur settar niður. Næsta áratug var aðal starfsemi félagsins tengd skógrækt í Gráhelluhrauni.

8. Klifsholt.

Smalaskáli

Listaverk við Smalaskála.

Sléttuhlíð og hluti Gráhelluhrauns tilheyrðu áður fyrr upplandi Hamarskots, sem var ein af hjáleigum kirkjustaðarins í Görðum. Sumarið 1945 fékk Jón Magnússon í Skuld úthlutað land við syðsta Klifsholt. Hann reisti þar bústað sinn sem hann nefndi Smalaskála og hóf mikið ræktunarstarf. Landið sem Jón fékk til afnota var nánast örfoka hvammur sem stendur nokkru sunnar og ofar í landinu en bústaðirnir í Sléttuhlíð. Í auglýsingu um Reykjanesfólkvang segir m.a. um mörkin: “Lína dregin.. á mörkum Garðahrepps og Hafnarfjarðar við Kershelli. Þaðan eftir þeim mörkum inn fyrir sumarbústaðahverfi í Sléttuhlíð á hæð er Klifsholt heitir, þaðan beint í Steinshús, sem er glöggt og gamalt eyktamark.” Frá Klifsholti er einstaklega falleg fjallasýn, allt frá Vífilsfelli í norðaustri og að Fagradalsfjalli í suðvestri.

9. Valaból.
Valabol-221Í Valabóli var gangnamannahellir fyrrum, sem leitarmenn notuðu áður fyrr. Hann heitir Músarhellir, en er í daglegu tali nefndur Valaból eftir að Farfuglar lagfærðu hellinn um 1940 og tóku svæðið umhverfis hann til ræktunar. Þar hafa þeir hlúð að gróðri, sáð grasfræi og gróðursett tré.  Músarhellir hefur auk þess í gegnum tíðina verið næturstaður rjúpnaskyttna og ferðamanna. Farfuglarnir settu hurð fyrir hellinn og lagfærðu margt þar inni, enda gistu þeir þar oft í hópferðum sínum.

10. Stórhöfði.
Vel má sjá hversu landið hefur blásið burt, en Skógrækt Hafnarfjarðar hefur plantað talsverðu af trjám með vegslóðanum inn dalinn. Úr Stórhöfða kom Stórhöfðahraun vestan og sunnan við höfðann. Stórhöfði er léttur uppgöngu, alveg upp á hæstu bungu (128 m.y.s.). Misgengi gengur í gegnum höfðann með stefnu að Hjallamisgenginu í gegnum Smyrlabúð.

11. Húsfell.

Húsfell

Húsfell.

Húsfell sem stendur í mörkum Húsfellsbruna, Rjúpnadyngnahrauns og Helgadalshrauns. Mygludalir eru vestan Húsfell og austan þeirra blasir Víghóll við. Bæði þessi nöfn Víghóll og Mygludalir eru einkennileg en ekki er vitað um uppruna þeirra. Munnmæli herma að hryssa Ingólfs Arnarsonar sem Mygla hét hafi haldið sig í Mygludal, en líklegri skýring á nafninu tengist einkennilegu náttúrufyrirbæri sem myndast í hringjum og dælum og minnir á mygluskán. Farið er yfir Húsfellsgjá sunnan hólsins á leiðinni að Húsfelli og síðan getur hver og einn valið sér uppgönguleið eftir getu. Húsfell er 288 m.y.s. eða um 50 m lægra en Helgafell. Engu að síður er víðsýnt af toppi fjallsins í góðu skyggni.

12. Helgafell.

Helgafell

Helgafell.

Helgafell er 338 metra hár móbergsstapi. Venjulega tekur gangan um einn til einn og hálfan klukkutíma. Fjallið myndaðist, líkt og Húsfell, við gos undir jökli seint á ísöld. Efst uppi á fjallinu er varða, sem er í raun berggangur sem grjóti hefur verið hlaðið í kringum. Í suðaustri er klettadrangur í fjallinu, sem heitir Riddari. Þaðan er færar gönguleiðir niður af fjallinu; önnur liggur í gegnum stóran steinboga og hin er stikuð til vesturs. Nafn fjallsins kann að vera komið til vegna einhvers konar helgi á fjallinu til forna. Fjallið er er tiltölulega auðvelt uppgöngu. Útsýnið af toppnum er gott, þó að fjallið sé ekki mjög hátt. Þaðan sést vel yfir höfuðborgarsvæðið og vestanverðan Reykjanesskaga.

13. Valahnúkar.

Valahnukar-221Valahnúkar eru taldir hafa myndast í gosi fyrir um 120 þúsund árum. Nafngiftin er ekki á hreinu en en gæti verið komin af nafni Fálka sem eru stundum kallaðir valir. Eins gæti nafnið komið af ávalir og þá vísað til hnjúkkanna á toppi fjallsins, víð og dreif. Aðrir vilja þó meina að hnjúkarnir séu steinrunnin tröll og er það mun betri skýring.

14. Gvendarsel.

Gvendarsel

Gvendarsel.

Gömul gata liggur frá Kaldárseli um Kúadal og Kýrskarð, upp með norðanverðri Gvendarselshæð og áfram til suðurs með henni austanverðri, um Slysadal, Leirdal og Fagradal. Selið er vestan í hæðinni, undir háum klettavegg þar sem hann er hæstur. Klettur slútir þar fram og myndar þak á eina tóftina. Önnur tóft er skammt ofar undir veggnum. Á bak við og inn á milli er skarð í klettana og er hleðsla í enda þess. Norðvestan við selið er hlaðinn stekkur að hluta.

15. Fjallið eina.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Fjallið eina er stapi norðan undir Hrútagjárdyngju (223 m.y.s.). Það hefur myndast í gosi undir jökli, en af stapakollinum að dæma virðist sem jarðeldurinn hafi náð upp úr íshellunni í lok gossins. Fjallið er dæmigerð slík gosmyndun. Auðvelt er að ganga á það að norðanverðu.

16. Fremsti-höfði.

Fremstihofdi - varda

Fremsti-höfði hefur einnig verið nefndur Efsti-höfði (103 m.y.s.). Hann er einn nokkurra höfða í Höfðalandi. Efst á honum, ofan við kjarri vaxnar hlíðar, er hlaðin varða. Auðvelt er að ganga á höfðann norðaustanverðan, af veginum inn í Seljadal um sunnanverðan Kjóadal.

17. Fjárhústóft.

Kaldársel

Kaldársel – hálfköruð fjárhústóft Kristmundar.

Austan undir Fremstahöfða er hálfhlaðið fjárhús, líklega frá Kaldárseli. Er eins og hætt hafi verið við húsagerðina í miðjum klíðum. Handbragðið er ekki ólíkt því að þarna hafi Kristmundur Þorláksson, kenndur við Stakkavík og síðan Brunnastaði, verið að verki. Árin 1906-1908 fékk Kristmundur Kaldársel til afnota. Hann kom upp smáheyhlöðu í Kaldárseli fyrir sínar 50 kindur með því að byggja yfir hina gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallinn. Þá byggði hann þar lambahús. Ekki hafði hann not af gömlu tóttunum að öðru leyti en því að hann gat nýtt úr þeim hraunhellurnar, sem hann gerði af miklum dugnaði. Kristmundur lá við í Hafnarfirði, en fór fótgangandi um veturinn beitarhúsaveginn í Kaldársel í myrkri kvölds og morgna. Ærnar hafði hann við gömlu hellana, sem eru skammt norður af Selinu. Lömbin voru í húsi, en músin vildi leggjast á þau. Kristmundur flutti loks fé sitt í Hvassahraun þar sem honum bauðst vist. Hann var því síðasti bóndinn í Kaldárseli.

18. Smyrlabúð.
Smyrlabud - vardaSmyrlabúð er nafn á bergkambi (125 m.y.s). Vestan við það var gamla lestamannaleiðin um Selvogsgötu (Suðurferðaveg) um aldir og allt fram undir 1940 á meðan henni var haldið við með ruðningi sem sýsluvegi. Hleðslur má sjá við hraunkantinn að baki Sléttuhlíðar, þar sem gatan liggur þrengst milli hans og hlíðarinnar. Ekki er ólíklegt að Selvogsbúar á leið sinni í Hafnarfjörð hafi staldrað þarna við, slegið upp tjöldum og dvalið yfir nótt til að komast árla í kaupstaðinn. Gerðið gæti hafa verið fyrir hesta eða fé. Best er að ganga á kambinn að sunnanverðu.

19. Hrútárgjárdyngja.

Hrútagjá

Hrútagjá.

Eitt af stærstu hraununum í kringum Hafnarfjörð er komið úr Hrútagjárdyngju. Upptök þess eru nyrst í Móhálsdal. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem heitir Hrútagjá og við hana er dyngjan kennd. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnleysuvíkur og Straumsvíkur. Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir um 5000 árum.

20. Draughólshraun.
Draugholshraun - vardaDraughólshraun er að öllum líkindum eitt fáfarnasta hraunið á Reykjanesskaganum. Reyndar er hraunið ekki víðfeðmt, en nægilega þó til þess að bæði fólk og skepnur, nema kannski refurinn, hafa löngum lagt lykkju á leið sína til að forðast að þurfa að ganga um það. Hraunið heitir eftir efsta stóra hólnum í hrauninu; Draughól. Það er dæmigert apalhraun. Líklega hefur nafngiftin komið til af því að fæla fólk að fara um svæðið af ástæðu, eða sem vísbending um að þangað væri ekki óhætt að fara. Í raun er hraunið hluti af stærra hrauni, eða hraunum, á svæðinu. Meginhraunið umhverfis er Hrútagjárdyngjuhraunið.

21. Hafurbjarnarholt.

Hafurbjarnaholt

Varða á Hafurbjarnaholti.

Hafurbjarnaholt er hæð austan í Almenningi, kennt við Björn Gnúps-Bárðarson, Hafur-Björn, sem samninginn gerði við bergbúann forðum. Gerðu þeir helmingaskipti í fjáreign. Segir sagan að þá hafi komið hafur og hrútur í féð og var þá sem tvö höfuð væru á hverri skepnu. Gerðist Björn þá fjárríkasti bóndi á Suðurnesjum og því kallaður hafur-Björn. Hafur-Bjarnarstaðir eru á Rosmhvalanesi — og má líklega telja að báðir þessir staðir séu kenndir við áðurnefndan Hafur-Björn. 

22. Litlu-borgir.
Litluborgir-221Svo nefnast hraunborgir austan Helgafells. Þar eru í Tvíbollahrauni tveir gervigígar og fallegar jarðmyndanir, sem hafa myndast við það að hraun hefur runnið út í stöðuvatn. Sérstæðar jarðmyndanir þar á meðal dropasteinsmyndanir eru eina kunna dæmið um jarðmyndanir af þessu tagi í landi Hafnarfjarðar. Svipuð jarðfræðifyrirbæri má þó sjá í Dimmuborgum og í Katlahrauni við Selatanga. Svæðið hefur stundu verið nefnt Minni-Dimmuborgir eða Hraungerði. Borgirnar eru á tiltölulega afmörkuðu svæði og erfitt að finna þær. Hraunsúlur í skútum og helli hafa fengið að vera að mestu ósnertar. Mosinn er mjög viðkvæmur fyrir átroðningi og ber því að ganga um svæðið með varfærni.

14. Markrakagil.

Markrakagil

Markrakagil.

Allt frá fyrstu landamerkjalýsingu frá 2. degi jóla árið 1603 var Markrakagil eitt af landamerkjum Garðakirkjulands, sbr: „Úr Steinhúsi við neðri Kaldárbotna þaðan í Markrakagil í Undirhlíðum, sem er norðanvert við Fjallið Eina, þaðan til Markraka í Dauðadölum og þaðan í mitt Húsfell.
Árið 1959 þegar Hafnarfjörður varð lögsagnarumdæmi út af fyrir sig með áunnum kaupstaðarréttindum, voru mörk þess m.a. mið við gilið: „…Þá lína i markaþúfu við gömlu sandgryfjurnar. Þaðan í Lækjarbotna. Þá í Gráhellu. Þaðan í miðjan Ketshelli. Eftir Selvogsmanna- eða Grindaskarðavegi í Kaplator (Strandartorfur). Þaðan bein lina í Markraka. Þaðan bein lína um Melrakkagíl (Markrakagil) að Krýsuvíkurvegi. Meðfram Krýsuvikurvegi, þar til kemur að norðurbrún Kapelluhrauns. Með norðurbrún Kapelluhrauns að Keflavikurvegi. Meðfram Keflavíkurvegi suður fyrir Kapelluhraun til sjávar.“

24. Óbrinnishólar.
obrinnisholar - namurÓbrinnishólar er röð gígaraða í hæð sem stendur upp úr hraunhafinu um 700 metra vestan við Undirhlíðar og tæpum 2 km sunnan við Kaldársel. Hólaröðin sjálf er um 900 metrar á lengd. Hæsti gígurinn er um 44 metra hár yfir næsta umhverfi og 124 metrar yfir sjó. Óbrinnishólar tilheyra Krísuvíkureldstöðvakerfinu. Talið er að um tvö gos hafi verið að ræða. Um fyrra gosið í Óbrinnis­hólum er lítið vitað eða hvenær það gaus, en frá því eru a.m.k. 3 gígir og virðist gosið hafa verið á sama stað þá og í því síðara. Hraun frá þessu gosi er nú hulið yngri gosmyndun. Það er aðeins á einum stað sem fundist hefur hraun frá fyrra gosinu og var það í sjálfum gíghólnum. Síðara gosið hófst fyrir 1800 árum í og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum.

25. Óbrinnishólahraun (-bruni).

Óbrinnishólar

Óbrinnishólahraun.

Hraunið er með yngstu hraunum í Hafnarfirði og er að miklum hluta úfið kargahraun með samfelldri ráðandi mosaþembu. Óbrinnishólabruni á að hafa runnið 190 f. Kr. Í hrauninu stendur Stakur, blásinn malarhóll sem var vaxinn kjarri í hlíðum og allgróinn. Smalakofi frá Hvaleyrarbændum var á Stak og má sjá móta fyrir tóft hans.

26. Fornasel. 

Fornasel

Fornasel – tóft.

Aðaltóttin er vestan í hólnum. Sunnan við hana er stekkur. Aftan við hólinn er lítil tótt og hjá henni vatnsstæði, sem hlaðið hefur verið í kringum. Skammt sunnan þess er önnur tótt, sennilega frá eldra seli. Þótt Fornasel geti varla talist til stærri selja hefur það allt er prýtt getur fallegt sel.

27. Gamla þúfa.
Gamla-thufa-221Svo nefnist hæsta hæðin í Almenningi. Um er að ræða gróna þúfu efst á þversprungnum hraunkletti í u.þ.b. 110 m hæð yfir sjó. Hún sést vel frá Straumsseli og áður fyrr var hún þekkt kennileiti á Straumsselsstíg áleiðis að Fjallinu eina. Skammt vestan við „þúfuna“ er hlaðin varða.

Góða skemmtun.

valabol-2013