Krýsuvík

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 10. des. 1949 er m.a. fjallað um fyrirhugaða mjólkurframleiðslu í Krýsuvík sem og byggingu fjóssins norðan Grænavatns:

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2022.

“Ráðgert er að stofna til búreksturs til mjólkurframleiðslu í Krýsuvík með ca. 100 mjólkandi kúm, til að byrja með. Síðar verði kúnum fjölgað fljótlega upp í 300, og meira síðar. Með 300 kúm í Krýsuvík, og þeirri mjólkurframleiðslu, sem nú er í bænum og næsta nágrenni hans má gera ráð fyrir að hægt verið að fullnægja mjólkurþörf bæjarins fyrst um sinn. Væri með því stigið mikið heillaspor fyrir bæjarbúa, að geta ávallt fengið nýja mjólk og góða, í stað þeirra, sem nú er flutt hingað um langan veg og vægast sagt er misjöfn að gæðum.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2022.

Framkvæmdir þessar hófust árið 1946. Jarðræktarframkvæmdir hafa verið fólgnar í skurðgrefti til að þurrka landið. Land hefir einnig verið brotið til ræktunar svo tugum hektara skiptir. Tveir votheysturnar byggðir. Fjós er í byggingu og sömuleiðis íbúðarhús fyrir bústjóra. Keyptar hafa verið vélar til jarðrækar, flutninga o.fl. Það sem vantar fyrst og fremst er íbúðarhús fyrir starfsfólk, að fullgera fjós og bústjórahús og kaupa gripi.
Bústjórinn var ráðinn fyrir þrem árum, Jens Hólmgeirsson, og hefir hann undirbúið framkvæmdir og stjórnað þeim. Er ekki vafi á að þegar búið tekur til starfa verður það í fremstu röð hvað fyrirkomulag og tækni snertir.

Krýsuvík

Krýsuvík 1962- fjósið (HH).

Kostnaður við framkvæmdir allar snertandi kúabúið, mun nú vera orðinn um 1 millj. kr., ræktunarkostnaður, byggingakostnaður og vélakaup, en þar af hafa vélar verið keyptar fyrir um 300 þús. kr. Bæjarútgerðin hefir greitt allan þenna kostnað.”
Eins og kunnugt er varð aldrei af búrekstrinum í Krýsuvík. Bæði var það vegna þess að andstæð stjórnmálaöfl voru á móti honum og auk þess voru sett lög er skilyrti gerilseyðingu mjólkur til handa tilteknum leyfishöfum. Þar með varð framtíð kúabúsins í Krýsuvík dæmt til að mistakast. Fjósið hefur verið notað undir fé, svín og sem leiksvæði Vinnuskólabarnanna í Krýsuvík á sjöunda áratug 20. aldar.
Fallin fjósbyggingin og súrheysturnarnir standa nú eftir sem minnismerki um háleita drauma og stjórnmálaleg umskipti.

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar 10. des. 1949.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2022.