Óttarsstaðir

Eftirfarandi frásögn eftir Gísla Sigurðsson birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1978. Myndirnar eru ekki síður áhugaverðar.
Hraunin-401“Þær byggðir, sem við taka á Reykjanesskaga sunnan Hafnarfjarðar, voru fyrr meir kallaðar einu nafni „suður með sjó”. Færi einhver að ná sér í skreið eða annað sjómeti „suður með sjó” þurfti ekki að skýra það nánar. Þessar byggðir voru ekki búsældarlegar; sjórinn var gjöfulli en landið. Fátæktin var einatt förunautur þeirra, sem bjuggu á kotunum suður með sjó, hvort heldur það var allar götur vestur í Leiru, í Höfnum, á Vatnsleysuströnd eða suður í Hraunum.
Nú er byggðin í Hraunum nánast að engu orðin. Eftir standa fáein hús, sem sumpart eru auð og mannlaus og sumpart hefur verið breytt í sumarbústaði. Enda þótt þessi gamla byggð sé í næsta nágrenni við þéttbýli Reykjavíkursvæðisins, munu þó næsta fáir, sem vita um tilvist hennar eða þangað hafa komið. Þeim sem óljósar hugmyndir hafa um Hraunin, skal bent á, að sú byggð hefst þegar komið er framhjá Álverinu í Straumsvík á leið til Keflavíkur. Sveigt er út á malarveg hjá Staumi, sem dregur trúlega nafn sitt af fallegum lindum með bergvatnsstraumi, og líður undan hrauninu og myndar fallegar tjarnir á leið sinni út í víkina. Leiðin liggur um hlaðið í Straumi, þar sem stendur þrístafna timburhús í herragarðsstíl og er þó í eyði. Þetta glæsilega íbúðarhús byggði Bjarni Bjarnason, sem síðar varð landskunnur maður sem skólastjóri á Laugarvatni. 

Hraunin-402

Hann var þá kennari og skólastjóri í Hafnarfirði, en hafði fjárbú og ráðsmann í Straumi og var þá kominn í kynni við Jónas frá Hriflu. Þaðan og frá Guðjóni Samúelssyni komu áhrifin, sem leiddu til burstabæjarins í Straumi og síðar var þessi stíll endurtekinn í byggingu héraðsskólans á Laugarvatni. Húsið í Straumi var byggt 1927.
Þegar ekið er inn á bílastæði álversins, verða tóftir þar sem hallar niður í fjöruna og standa vel uppi. Þar stóð bærinn Stóri Lambhagi og á hraunhrygg, sem skagar út í Straumsvíkina, stóð Litli Lambhagi. Báðir þessir bæir fóru í eyði fyrir löngu.
Annað bæjarstæði, sem ekki sést af veginum, er á vinstri hönd, þegar farið er suðurúr. Þar hétu Þorbjarnarstaðir og standa þar uppi túngarður og traðir ásamt með rústum af bænum. Þar var hætt búskap um 1930. Þurrabúð eða hjáleiga frá Þorbjarnarstöðum var nær veginum, þar sem nú stendur sumarbústaöur undir fallegri brekku. Þar hét í Gerði.
Sé farið um hlaðið í Straumi, liggur malarvegur áfram til norðurs og vesturs yfir hraunhryggi og gjótur, sem því miður hafa of oft orðið athvarf fyrir bílhræ og er til mikilla lýta.
Hraunin-403Út með víkinni stendur Þýzkabúð ennþá uppi og utar í hvarfi stóð Jónsbúð. Þýzkabúð fór
í eyði fyrir 1950 og telur Gísli fræðimaður Sigurðsson í Hafnarfirði, að nafnið sé dregið af því, að Þjóðverjar hafi verzlað þarna fyrir margt löngu.
Á graskraga, sem verður á hraunjaðrinum vestur meö ströndinni, nefur verið einna búsældarlegast í Hraunum og raunar er þar eini grasbletturinn, sem máli skiptir. Þar stóðu bæirnir Eystri og Vestari Óttarsstaðir og bærinn á Vestari Óttarsstöðum stendur enn með þeim glæsibrag, að ástæða væri til að varðveita hann. Heiðurinn af því eiga systur, sem þar ólust upp og eignuðust síðan jörðina og búa þar á sumrum. Þar er ævintýri líkast að koma; svo vel er allt varðveitt og bærinn snýr hvítmáluðum bárujárnsþiljum til suðurs.
Á Eystri Óttarsstöðum stendur timburhús, sem ekki er haldið við, en Guðmundur bátasmiður, sem þar er upprunninn, hefur byggt sér íbúðarhús lítið eitt austar og skýli yfir bátasmíðina. Þar stendur uppi í fjörunni flak af timburskipi, sem hefur orðið málurum yrkis
efni og fallegt á sinn hátt, enda þótt það hafi lokið hlutverki sínu.

Hraunin-407

Guðmundur bátasmiður hafði á orði við okkur Helga Sæmundsson að dregist hefði úr hömlu að bera eld að því, en við báðum hann lengstra orða að þyrma flakinu. Stundum er mönnum svo mikið í mun að eyða því, sem ónýtt er talið, að þeir gá ekki að því að það geti haft neitt annaö gildi. Í nánd við Hafnarfjörð stóðu ekki alls fyrir löngu nokkur falleg flök af timburskipum, sem ævinlega voru augnayndi. Mikið kapp var lagt á að fjarlægja þau með krafti stórvirkra véla og hefði verið nær að beina orkunni gegn mengun frá fiskimjölsverksmiðjunni ellegar smekkleysi Olíufélagsins, sem blasir við meira en flest annað í Hafnarfirði.Á bæjunum í Hraunum var nálega einvörðungu stundaður fjárbúskapur og stílað uppá beit.

Hraunin-410

Þar er snjólétt, en heyfengur hefur líka verið næsta lítill. Útræði var úr Óttarsstaðavör og Straumsvík. Sumarbústaðir hafa risið þarna í lautum, en ekki ber mikið á þeim og þurrabúðin Eyðikot frá Óttarsstöðum hefur verið byggð upp og er nú glæsilegur sumarbústaður.
Vestan við Óttarsstaði þrýtur graslendi og verður úfið hraun, sem runnið hefur fram í sjó. Er þar spölkorn, sem aldrei hefur byggzt, unz kemur að Lónakoti. Þar stendur íbúðarhúsið uppi að nokkru leyti, en ekki hefur verið búið þar síðan Lónakot fór í eyði eftir 1950. Síðasti bóndi þar var Sæmundur Þórðarson frá Vogsósum en nú á Kornelíus kaupmaður Lónakotið og hefur þar kindur. Beit þótti góð í Lónakoti, en túnið var aðeins örlítill bleðill og lá sífellt undir skemmtum af ágangi sjávar.
Ekki voru Hraunin-408skilyrði til lendingar við Lónakot og því ekkert útræði þaðan. En við Óttarsstaðavör hafa þeir staðið gallvaskir og skinnklæddir við sólarupprás og horft á Garðhverfinga róna eins og segir í vísunni.”
Við þetta má bæta að bátasmiðurinn Guðmundur var sonur Sigurðar Kristins Sigurðssonar síðasta bóndans á Óttarstöðum eystri og konu hans Guðrúnar Bergsteinsdóttir. Guðmundur hélt lengst allra tryggð við Hraunin. Hann smíðaði hér báta sem þóttu eftirsóknarverðir og hleypti þeim af stokkunum í Óttarstaðavör. Þegar Guðmundur lést 1985 var íbúðarhúsið jafnað við jörðu eftir að kveikt hafði verið í því.
Eyðikotið varð um tíma sumarhús. Sjá má letursteina við bæjardyrnar með áletrununum BS-1865 (vinstra megin) og BS-1896 (hægra megin). Þær gerði Bergsteinn Sveinsson þau árin þegar hann gerði bæinn upp.

Nefna má að bóndinn í Eyðikoti, Guðmundur Bergsveinsson, sótti sér kvarnarsteina í Brennuna í Hraunin-411Kapelluhrauni (Brunanum) og bar þá heim á bakinu. Setti hann mosa á bakið til að hlífa því, er hann bar hellugrjótið heim í Eyðikot. Sjá má einn slíkan (brotinn) í hleðslunni við dyrnar.

Í Jarðabókinni frá því skömmu eftir 1700 er einungis nefnd ein jörð sem heitir Óttarstaðir, en að auki þrjár hjáleigur; Eyðikotið var ein þeirra.
Eyðikot er nú þríbursta hús ofan við Kotabótina. Þriðjungi, þeim nyrsta, var bætt við húsið fyrir u.þ.b. 40 árum, en kotið var gert upp sem sumarhús árið 1950. Það gerðu þau Vilborg Ólafsdóttir og Erling Smith. Þá var hlaðið fallega upp með veggjum og húsið gert líkt og það var. Þá var húsið nefnt Alsæla. Letursteinar Bergsveins Sveinssonar hafa verið varðveittir í hleðslunum beggja vegna við innganginn.

Heimild:
-Suður í Hraunum – Gísli Sigurðsson, Lesbók Morgunblaðsins 7. maí 1978, bls. 8-9.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri.