Arnarfell

Gengið var að Arnarfellsréttinni, sem er í hvarfi í lægðarrana skammt austan við veginn niður að Selöldu. Hlaðin varða er vestan við réttina. Hún er í línu við vörðu á hæð allnokkru austar og aðra á hæð allnokkru vestar.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Þarna gæti hafa verið gömul leið yfir Krýsuvíkurheiðina sunnan Krýsuvíkurbæjanna, framhjá Arnarfellsvatni og með stefnu á Stóru-Eldborg. Ofan við Arnarfellsréttina sést yfir að Krýsuvíkurréttinni sunnan undir Bæjarfelli. Sú fyrrnefnda hefur verið allstór, með mörgum dilkum og almenningi. Réttin er vel hlaðin og hefur staðist tímans tönn, sennilega vegna þess að hún hefur fengið að vera nokkurn veginn í friði fyrir ágangi.

Krýsuvík

Bærinn Arnarfell í Krýsuvík.

Gengið var upp með Vestari-læk, áleiðis að Arnarfelli. Tóft bæjarins sést í gróinni hlíðinni sunnan í fjallinu, innan vörslugarðsins, er umlukti Krýsuvíkurtorfuna. Garðurinn liggur til austurs og vesturs neðan við bæjarstæðið og síðan þvert upp í fjallið austan þess. Þegar komið er inn á túnið vestan við bæjarstæðið má sjá móta fyrir allnokkrum eldri tóftum í hlíðinni. Þarna virðist vera um allnokkurt minjasvæði að ræða, sem fróðlegt væri t.d. að skoða með jarðsjá (viðnámsmælingu).

Arnarfell

Brunnur við Arnarfell.

Sagan segir að Þórir haustmyrkur hafi byggt Selvog og Krýsuvík. Jafnframt að hann hafi búið í Hlíð við Hlíðarvatn. Ekki er þó með öllu útilokað að þarna kunni að leynast bæjarstæði eða tóftir frá löngu fyrrum tíma. Bæjartóft Beinteins undir Arnarfelli, sú “nýjasta” er vel gróin. Beinteinn Stefánsson var hagur maður sem byggði Krýsuvíkurkirkju 1857. Af honum segir og í umfjöllun um viðureign hans og Tanga-Tómasar á Selatöngum. Átökin enduðu með því að Beinteinn þurfti að fara fótgangandi berfættur frá Töngunum og heim að Arnarfelli. Þurfti hann að liggja fyrir næstu daga á eftir.

Arnarfell

Arnarfell – bæjartóftir.

Fimm rými hafa verið í bænum. Burstir virðast hafa verið tvær stærri og tvær minni að framan og baðstofa fyrir innan. Gerði hefur verið bakatil við bæinn. Hola er í jörðinni sunnan undir tóftunum. Ekki er gott að segja til um hvort þar gæti hafa verið brunnur. Stutt er í Vestari-læk frá bænum.
Uppi á vestruöxl Arnerfells eru tvær tóftir, önnur undir klettum. Hún virðist hafa verið sauðakofi með gerði fyrir framan, en ofan við hann er heilleg tóft af útihúsi.
Efst á Arnarfelli er Eiríksvarða, kennd við séra Eirík Magnússon (1638-1716) frá Vogsósum, en fræg er sagan af viðureign hans og Tyrkjanna er komu áleiðis upp að Krýsuvíkurkirkju frá Selöldu á sunnudegi þegar Eiríkur var að messa þar. Eiríkur brá skjótt við og atti þeim saman svo þeir drápu hvorir annan. Eru þeir dysjaðir í Ræningjadys utan í Ræningjahól. Mótar enn fyrir dysinni sunnan við veginn sunnan kirkjunnar. Nýdautt lamb lá skammt vestan við Arnarnesbæinn.

Arnarfell

Arnarfell – tilgáta.

Gengið var yfir að Arnarfellsvatni. Mikið var í vatninu, en það er allstórt og háir bakkar sumstaðar umhverfis það. Gömul gróin gata liggur niður að því að vestanverðu. Skammt sunnar, vestan við vatnið, mótar fyrir tóft ofan við bakkann og jarðlægri hleðlsu. Þegar staðið er sunnanvert við vatnið er auðvelt að hugsa til vermanna á langri göngu, sem margir máttu gera sér það að góðu að tjalda í mýrinni eða við hana á leið sinni til og frá veri þegar ekki var hægt að hýsa fleiri ferðalanga í Krýsuvíkurkotunum. Enn er vel gróið sunnan við vatnið og vel má sjá hversu gróðuþekjan hefur verið þykk áður en hið mikla jarðvegsrof varð.

Trygghólar

Varða á Trygghólum.

Haldið var áleiðis niður heiðina með stefnu á Trygghóla. Um miðja vegu var komið að mannvistarleifum á hól. Mikil jarðvegseyðing er þarna svo erfitt er að álykta hvað þetta getur hafa verið.
Gömul og heilleg varða er á Mið-Trygghól. Gengið var niður með austurenda Selöldu og síðan til vesturs sunnan hennar. Þá var komið að tóftum er taldar eu hafa verið hið gamla Krýsuvíkursel. Tóftin er mjög gróin. Einungis sést móta fyrir einu húsi, en annað virðist vera sunnar og eitthvert mannvirki, jarðlægt, virðist hafa verið á gróinni hæð skammt austar. Á milli þeirra liggur gömul gata niður að tófum bæjarins Eyri, sem er skammt sunnan við selið. Sagan segir að ræningjarnir hafi komið upp svonefndan Ræningjastíg í Heiðnabergi og gengið upp í selið þar sem tvær selmatsstúlkur hafi verið fyrir. Drápu þeir stúlkurnar, en smali, sem sá til þeirra, hljóp allt hvað af tók upp að Krýsuvíkurbænum þar sem fólkið var við fyrrnefnda messu, og sagði frá. Lok sögunnar er rakin hér að framan þegar ræningjarnir mættu galdraprestinum.

Eyri

Eyri – tóftir.

Eyri er nú á gömlum lækjarbakka, allnokkrar tóftir. Vatnið hefur grafið þarna allnokkurn farveg, en er nú horfið með öllu. Þær líkjast 17. og 18. aldar bæ. Líklegt má telja að bærinn hafi byggst upp úr selstöðunni. Sunnan lækjarfarvegarins eru tvær borgir á hólum. Utan í þeirri vestari er löng tóft, lambakró að því er virðist. Austast í henni hefur verið lítið hús. Utan í borginni að sunnanverðu er hlaðinn garður.

Eyri

Eyri og Krýsuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var niður að Heiðnabergi. Sjór var ládauður og lygnt svo fuglinn hafði tyllt sér á steinana undir bjarginu og þingaði. Enn sést móta fyrir efri hluta Ræningjastígsins í bjarginu, en sjórinn hefur brotið niðri hluta hans svo nú er ekki lengur hægt að komast hann ala leið niður undir bjargið.
Annað nýdautt lamb lá ofan við bjargið. Gengið var að Strákum á Selöldu. Hlaðið fjárhús er þar undir reisilegum kletti og eru veggir þess nokkuð heillegir. Undir hið síðasta mun það hafa verið nýtt sem fjárhús frá Krýsuvík. Fígúrunar á móbergshryggnum á vestanverðri Selöldu gefa ímyndunaraflinu byr undir báða vængi, auk þess sem litadýrðin þar í björtu veðri, eins og nú var, er fáu lík.

Krýsuvík

Strákar í Selöldu.

Skoðaðar voru tóftir bæjarins Fitja sunnan og vestast undir Selöldu. Vestan bæjarhúsanna eru tóftir tveggja útihúsa. Garður er aftan við bæinn og túnin hafa verið þarna allnokkur. Vestan við útihúsin rennur Vestari-lækur. Á gömlum farvegi hans er hlaðin gömul brú. Farvegi lækjarins var fylgt frá brúnni til norðurs. Þá sást vel hversu oft hann hefur skipt um stöðu frá einum tíma til annars. Eystri-lækur rennur nú niður svo til miðja Krýsuvíkurheiði og steypist þar fram af bjargbrúninni, en ekki er ólíklegt að hann hafi áður runnið niður gil það er lækurinn við Eyri hefur myndað á löngum tíma. Vestari-lækur er margbreytilegur og mjög litskrúðugur á köflum.

Selalda

Haliðin brú á Vestari-læk við Fitjar.

Þegar gengið var um Selölduveginn var komið að rústum og undirstöðum bragga eða byggingar, sem þar hefur verið á síðustu öld. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um hvaða tilgangi hann hefur þjónað á þessu svæði.
Frábært veður – bjart, hlýtt og stillt. Gangan tók 4 klst og 12 mín.
Tækifærið var notað og Arnarfellstóftirnar rissaðar upp.

Arnarfell

Arnarfell – uppdráttur ÓSÁ.