Farið var í hellinn Leiðarenda skammt frá Bláfjallavegi í Stórabollahrauni (Skúlatúnshrauni).
Opið er í stóru jarðfalli að undangengnum stuttum stíg í gegnum hraunið frá veginum. Inngangan er falleg, rauðleit og regluleg. Um er að ræða víða og háa hraunrás. Helsta einkenni hennar eru flögur á veggjum og lofti og hafa þær fallið sums staðar á gólf. Dropsteinar eru og á gólfum og fallegar hraunmyndanir í loftum og á veggjum. Næstum því innst í lengstu rásinni er beinagrind af rollu og dregur hellirinn nafn sitt af örlögum hennar. Alveg innst er stór hrauntjörn, sem er heldur lægri en rásin sjálf.
Samtals er Leiðarendi um 400 metra langur. Hægt er að fara í hring og koma út um austuropið, ef vilji er til að skríða spölkorn á maganum. Nauðsynlegt er að hafa mjög góð ljós því hellirinn er bæði stór og dimmur.
Hjartartröðin er hraunrás þarna skammt austar. Hún er með nokkrum steinbrúm. Tröðin endar í jarðfalli og liggur op vestan í því undir nýrra hraun. Hellirinn er víður. Skammt innan við opið er hrun. Hægt er að fara hægra megin við það og áfram inn eftir hellinum. Þá er komið að öðru miklu hruni. Hægt er einnig að fara yfir það og halda áfram. Mikilvægt er að vera vel búinn þegar þessi hellir er skoðaður.
Frábært veður, en það skiptir nú litlu máli í hellaskoðun.