Færslur

Hjartartröð

Gengið var eftir Hjartartröðinni í Stórabollahrauni og skoðaðir hellastubbarnir á leiðinni. Úr vestasta niðurfallinu heldur rásin, víð og breið, áfram til vesturs undir nýrra hraun. Innan í henni er mikið hrun, en hægt er að komast áfram hægra megin í rásinni, fast við hellisvegginn. Þar fyrir innan er nokkurt hrun, en ef vilji er fyrir hendi er hægt að halda áfram yfir það og innar í rásina.

Þríhnúkar

Þrihnúkar – skjól.

Í Kristjánsdölum fannst hlaðið refabyrgi og greni þar nálægt. Gengið var á hraunrás undir Lönguhlíðum inn af Þjófadölum. Í henni er rás, nokkuð mjó, en mjög falleg. Hún var skoðuð lítillega. Þá var haldið á Þríhnúka og litið ofan í dýpsta helli á landinu, Þríhnúkahelli. Aðalgígur Þríhnúka er á milli hnúkanna, fallega sléttur hraundalur. Sunnan undir austasta hnúknum er hraunhóll, holur að innan og er hurð fyrir opinu. Inni var steinbekkur og borð. Yfir hólinn hafði verið lagður dúkur og hann hulinn. Einnig var hraunhóllinn klæddur plastdúk að innan. Svo virðist sem einhver, eða einhverjir, hafi notað stað þennan sem skjól um tíma. Norðan hólsins er mjög fallegur gervigígur.

Þríhnúkahellir

Sigið í Þríhnúkahelli.

Haldið var austur með sunnanverðu Þríhnúkahrauni, norðan Stórkonugjár, að mjög djúpu jarðfalli við enda mikillar hrauntraðar, milli hennar og Þríhnúkahellis. Ekki er hægt að komast þar niður nema á bandi. Þarna niðri gætu leynst göng til vesturs, í átt að hellinum. Við austurenda hrauntraðainnar er mikill gígur. Norður af honum liggur hrikaleg gjá. Við enda hennar, austanmegin, er hellisop; falleg hraunrás er liggur í beygju til vinstri og hallar niður með hlíðinni. Hún var skoðuð að hluta. Gólfið er grófur brúnleitur hraunfoss.
Á leið niður hlíðina vestan við Eyra var litið á Kristjánsdalahellana. Einn þeirra, sá austasti undir hraunbrún, er sá fallegasti af þeim. Hinir eru fremur lágir.
Dýrindisveður, logn og sól og útsýnið eftir því.

Hjartartröð

Hjartartröð.

Bollar

Ætlunin var að halda í Hjartartröð í Stórabollahrauni og skoða niður í rásina. Nokkur op eru á henni. Rásin er í raun framhald af Leiðarenda, sem er þarna skammt vestar í hrauninu, um 750 m langur. Stuttur gangur er að tröðinni frá Bláfjallavegi, eða um 365 metrar.
Hjartartröð miðsvæðis - loftmyndÍ nýju hellabókinni (BH-2006, Íslenskir hraunhellar), er ekki getið sérstaklega um Hjartartröð vegna þess þá er hún orðin viðurkenndur hluti Leiðarenda. Í gömlu bókinni, Hraunhellar á Íslandi (1990) lýsir Björn þessum hluta rásarinnar: “Mikil hrauntröð liggur í Tvíbollahrauni [Stórabollahrauni] skammt norðan nýja Bláfjallavegarins vestan Markraka. Frá austri talið er fyrst um 150 m löng hrauntröð án þess að þak sé yfir. Þar vesturaf heldur hrauntröðin áfram um 200 metra og eru víða brýr yfir tröðinni á þeirri leið og því hellar undir, fæstir þó langir. Fyrir vesturenda hrauntraðarinnar tekur svo við um 110 m langur hellir. Hann er víðasthvar þröngur en í honum er töluvert um skemmtilegar hraunmyndanir. Í enda hans eru t.d. tugir dropsteina, þeir lengstu um 15 cm, og hundruð hraunstráa sem eru allt að 35 cm löng. Heildarlengd Hjartartraðar er um 310 metrar.
Fóðurstöðin - StóribolliHjörtur Jóhannsson fann hellinn í ársbyrjun 1990, þá 12 ára, og bar hellirinn þess ekki merki að þar hefði fólk verið áður. Hér er hellinum því gefið nafn Hjartar og nefndur Hjartartröð enda stór hluti hellisins fallinn saman og þar blasir nú aðeins við hrauntröð.”
Í dag ber hellirinn ummerki eftir heimsóknir fólks, sem ekki þykir vænt um hella. Plastpokar og drasl mátti sjá innan við anddyri meginrásarinnar, þeirra er Björn lýsti hér að framan. Eftir að hafa tekið þar til og komið ruslinu fyrir í einum pokanum var tröðin skoðuð nánar. Lýsing Björns er vel við hæfi og engu hallað þar í máli. Bæta má þó við hana einni lýsingu á hliðarrás til norðurs. Um gæti verið að ræða hið ákjósanlegasta fjárskjól með sléttum botni og góðri aðkomu, ef einhverjum hefði dottið í hug að reisa selstöðu í hinum fyrrum grónu Dauðadölum. Þar er bæði vatn og skjól að fá, auk þess sem Skúlanafngiftin (Skúlastaðir; fornt býli) gæti hafa verið nálægt Skúlatúni, óbrennishólma í Stórabollahrauni skammt frá Leiðarenda. Jón Jónsson, jarðfræðingur (1983) segir aldur hraunsins vera “1075 +/- 60 ár. Tvíbollahraun er því runnið árið 875 eða á árunum þar í kring. 

Vestasta op Hjartartraðar - Helgafell fjær

Tvíbollahraun gæti verið fyrsta hraun sem rann á Íslandi eftir að búseta hófst og hellar þess þá fyrstu hellar sem mynduðust hér á landi á sögulegum tíma.
Mikil hellarás er í hlíðinni niður úr gígunum, nafnlaus eftir því sem næst verður komist. Lengstu hellisbútarnir eru nokkrir tugir metrar en í nokkrum þeirra er hátt til lofts. Ekki er fært í alla hellisbútanna án þess að síga og eru sumir þeirra lítt eða ekki kannaðir.” Hafa ber í huga að umrædd skrif eru í lok 20. aldar. Enn, í upphafi 21. aldar, hafa undirheimar hraunssvæðisins ekki verið fullkannaðir – og það einungis 36 km frá Grindavík, fjölmennasta þéttbýliskjarna á sunnanverðum Suðurnesjum. 

Hluti HjartartraðarAnnars er aðkoman að vestasta hluta Hjartatraðar eins og að framan er lýst. Þegar komið er inn í rásina, sem er bæði há og víð með sléttu gólfi, blasir við mikið hrun, en þegar haldið er inn og hægra megin við hrunið má auðveldlega komast framhjá því, fast við hellisvegginn. Þar fyrir innan er nokkurt hrun, en ef vilji er fyrir hendi er hægt að halda áfram yfir það og innar í rásina uns dropsteina- og hraunstráamyndunin birtist framundan. Þarna endar þessi hluti rásarinnar, en ljóst má þeim vera er þar staðnæmist og áður hefur skoðað efri hluta Leiðarenda, að stutt er þar á millum. En svona er sköpunarverkið – torskilið og blindgötuvarið.
Rás Hjartartraðar er bæði víð og há, enda ofanfari Leiðarenda. Meira hrun er í þessum hluta hraunrásarinnar líkt og venja er um stærri rásir, sbr. Búra. Mjórri rásir virðast halda sér skár og því betur sem þær eru á meira dýpi. Allt er þetta lögmálunum samkvæmt.
Þarna, lengst inni í Hjartartröðinni var tilvalið að staldra við og skoða myndunarferlið.
Hraunhellar eru rásir sem hraunbráðin rann eftir og tæmdust síðan. Hraun renna ýmist í tiltölulega grunnum farvegum, svokölluðum hrauntröðum, nærri yfirborði hraunsins eða bráðin rennur neðanjarðar og leitar niður í óstorknaðan hluta hraunsins og sameinast honum. Við þetta lyftist yfirborð hraunsins og það getur þykknað verulega á stóru svæði auk þess sem svonefndir „troðhólar“ myndast. Þessa sér til dæmis víða stað á Reykjanesskaganum.

Hliðarrás Hjartartraðar

Þessi háttur, að hraunkvikan „troðist inn í“ hinn bráðna hluta hraunsins líkt og vatn í belg, er sennilega mun algengari en hinn fyrrnefndi, einkum þegar um rúmmálsmikil hraun er að ræða.
Þegar hraun rennur eftir hrauntröð myndast þegar í stað storkin skán á yfirborði þess. Þegar skánin þykknar getur hún orðið að föstu þaki yfir hraunrásinni sem helst stöðugt þótt lækki í hraunstraumnum undir. Hraunhellar eru sem sagt rennslisrásir eða „pípur“ sem hafa tæmst að meira eða minna leyti.
Hraun myndast við það að bráðin bergkvika storknar og er því storkuberg. Hraunkvika er blanda af mörgum efnum og því hefur hún ekki eitt skilgreint bræðslumark heldur storknar eða kristallast yfir langt hitabil, stundum stærra en 100°C. Burtséð frá þessu er hraun orðið að “hörðum steini” löngu áður en það er fullstorkið. Reynslan er sú að hörð skorpa myndast á glóandi hrauni eftir fáeinar sekúndur og fljótlega er hægt að ganga á hrauninu á góðum skóm vegna þess hve slæmur varmaleiðari (eða góður einangrari) berg er.

Innan við vestasta op Hjartartraðar

Varminn frá 1200 stiga heitri kviku streymir sem sagt hægt út gegnum storknuðu skorpuna. Undir henni heldur bráðin kvikan að renna, bræðir grannbergið og finnur sér nýjar leiðir uns fóðuröfluninni líkur.
Storknun tekur þannig mjög mislangan tíma eftir ytri aðstæðum: Gjóska (eldfjallaaska, gjall og vikur) kólnar á fáeinum sekúndum, ekki síst ef gosið verður í vatni eða undir jökli. Hraun verða að “hörðum steini” á skömmum tíma þótt glóðin geti varað í 10 ár inni í hrauninu, eins og gerðist í Eldfellshrauninu í Vestmannaeyjum þar sem varminn í hrauninu var nýttur til húshitunar í áratug. Kvika sem er djúpt niðri í jörðinni getur tekur aldir að storkna.
Þegar komið var út brosti sólin sínu breiðasta á hvanngrænan hraungambran. Ákveðið var að kíkja yfir í Leiðarenda og skoða efra innvolsið nánar í tengslum við framangreint.
Frábært veður (þegar út var komið). Ferðin tók
1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.visindavefur.hi.is/svar.asp?id=3763

Bollar

Gengið um Stórabollahraun.

 

Flóki

Gengið var frá Bláfjallavegi norður Tvíbollahraun ofan við Markraka. Stefnan var tekin á Markarakahelli norðan Markraka og Dauðadalahella þar skammt vestar.

Dauðadalahellar

Í Dauðadalahellum.

Stuttur gangur er frá bílastæði við veginn niður að austanverðum Markraka, veðurbörðum melhæðum er standa upp úr hrauninu, eða hraununum réttara sagt, því þarna umhverfis eru nokkur hraun auk Tvíbollahrauns, s.s. Hellnahraun eldra og yngra og Þríhnúkahraun. Vestan við Markraka heita hraunin Skúlatúnshraun, en Tvíbollahraun og Þríhnúkahraun að austan og norðanverðu.
Jón Jónsson, jarðfræðingur (1983) segir aldur Tvíbollahrauns vera frá því um 875 eða þar um kring. Tvíbollahraun gæti því verið fyrsta hraunið sem rann á Íslandi eftir að búseta hófst og hellar þess þá fyrstu hellar sem mynduðust hér á landi á sögulegum tíma.

Dauðadalahellar

Í Dauðadalahellum.

Hellarás Dauðadalahellanna svonefndu er í einni hrauntröðinni, u.þ.b. 500 metra langri. Lengstu hellisbútarnir eru nokkrir tugir metrar, en í nokkrum þeirra er hátt til lofts. Einnig er litadýrð nokkur á köflum. Ekki er fært í alla hellisbútana án þess að síga og eru sumir þeirra lítt eða ekkert kannaðir. Hellarnir eru flestir litlir fyrir utan Flóka og Hjartartröð, sem er nokkru vestar.
Markrakahellir er efsti hluti hraunrásarinnar. Haldið var inn eftir hellinum, en hann lokast fljótlega. Falleg hraunbrigði eru í hellinum.
Dauðadalahellar eru skammt vestar. Meginhellirinn er innan við tiltölulega lítið op er opnast út í lágt, gróið, jarðfall. Fallegir brúnir litir prýða hellinn sem og rennilegir hraunbekkir. Raunar liggja rásirnar hingað og þangað og þyrfti góðan tíma til að skoða þær allar.

Dauðadalahellar

Í Dauðadalahellum.

Dauðadalahellar mynduðust eftir að hraun rann frá Grindarskörðum vestur að Skúlatúni. Hellarnir áttu það til að reynast villugjarnir fyrir sauðfé sem leitaði þar skjóls en komst ekki aftur út eins og nafn Dauðadala gefur til kynna.
Flóki er langstærsti hellir, sem fundist hefur í Dauðadölum. Heildarlengd hans er um 900 metrar og er hann einn sérkennilegasti og margflóknasti hraunhellir hér á landi. Flóki teygir ganga sína víða og lengd meginrásarinnar því aðeins um einn þriðji af heildarlengd hellsins. Op á hellinum eru fjölmörg og er hann hið skemmtilegasta völundarhús. Flóki er einn örfárra hella á landinu sem hægt er að villast í.
Bakaleiðin var gengin um Dauðadalastíg. Hann liggur á milli Kaldársels og Kerlingaskarðs um Dauðadali, um vestanverðan lághrygg Markraka og áfram yfir Bláfjallaveg, um nokkuð slétt mosavaxið helluhraunið.
Á Markraka eru landamerki Garðabæjar, Hafnarfjarðar og Grindavíkur.
Gangan tók 1 klst og 11 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi – Björn Hróarsson 1990.

Daudadalahellar-21

Í Dauðadalahellum.

Leiðarendi

Farið var í hellinn Leiðarenda skammt frá Bláfjallavegi í Stórabollahrauni (Skúlatúnshrauni).

Leiðarendi

Haldið í Leiðarenda.

Opið er í stóru jarðfalli að undangengnum stuttum stíg í gegnum hraunið frá veginum. Inngangan er falleg, rauðleit og regluleg. Um er að ræða víða og háa hraunrás. Helsta einkenni hennar eru flögur á veggjum og lofti og hafa þær fallið sums staðar á gólf. Dropsteinar eru og á gólfum og fallegar hraunmyndanir í loftum og á veggjum. Næstum því innst í lengstu rásinni er beinagrind af rollu og dregur hellirinn nafn sitt af örlögum hennar. Alveg innst er stór hrauntjörn, sem er heldur lægri en rásin sjálf.

Leiðarendi

Í Leiðarenda.

Samtals er Leiðarendi um 400 metra langur. Hægt er að fara í hring og koma út um austuropið, ef vilji er til að skríða spölkorn á maganum. Nauðsynlegt er að hafa mjög góð ljós því hellirinn er bæði stór og dimmur.
Hjartartröðin er hraunrás þarna skammt austar. Hún er með nokkrum steinbrúm. Tröðin endar í jarðfalli og liggur op vestan í því undir nýrra hraun. Hellirinn er víður. Skammt innan við opið er hrun. Hægt er að fara hægra megin við það og áfram inn eftir hellinum. Þá er komið að öðru miklu hruni. Hægt er einnig að fara yfir það og halda áfram. Mikilvægt er að vera vel búinn þegar þessi hellir er skoðaður.
Frábært veður, en það skiptir nú litlu máli í hellaskoðun.

Leiðarendi

Leiðarendi – uppdráttur ÓSÁ.