Hjartartröð

Gengið var eftir Hjartartröðinni í Stórabollahrauni og skoðaðir hellastubbarnir á leiðinni. Úr vestasta niðurfallinu heldur rásin, víð og breið, áfram til vesturs undir nýrra hraun. Innan í henni er mikið hrun, en hægt er að komast áfram hægra megin í rásinni, fast við hellisvegginn. Þar fyrir innan er nokkurt hrun, en ef vilji er fyrir hendi er hægt að halda áfram yfir það og innar í rásina.

Þríhnúkar

Þrihnúkar – skjól.

Í Kristjánsdölum fannst hlaðið refabyrgi og greni þar nálægt. Gengið var á hraunrás undir Lönguhlíðum inn af Þjófadölum. Í henni er rás, nokkuð mjó, en mjög falleg. Hún var skoðuð lítillega. Þá var haldið á Þríhnúka og litið ofan í dýpsta helli á landinu, Þríhnúkahelli. Aðalgígur Þríhnúka er á milli hnúkanna, fallega sléttur hraundalur. Sunnan undir austasta hnúknum er hraunhóll, holur að innan og er hurð fyrir opinu. Inni var steinbekkur og borð. Yfir hólinn hafði verið lagður dúkur og hann hulinn. Einnig var hraunhóllinn klæddur plastdúk að innan. Svo virðist sem einhver, eða einhverjir, hafi notað stað þennan sem skjól um tíma. Norðan hólsins er mjög fallegur gervigígur.

Þríhnúkahellir

Sigið í Þríhnúkahelli.

Haldið var austur með sunnanverðu Þríhnúkahrauni, norðan Stórkonugjár, að mjög djúpu jarðfalli við enda mikillar hrauntraðar, milli hennar og Þríhnúkahellis. Ekki er hægt að komast þar niður nema á bandi. Þarna niðri gætu leynst göng til vesturs, í átt að hellinum. Við austurenda hrauntraðainnar er mikill gígur. Norður af honum liggur hrikaleg gjá. Við enda hennar, austanmegin, er hellisop; falleg hraunrás er liggur í beygju til vinstri og hallar niður með hlíðinni. Hún var skoðuð að hluta. Gólfið er grófur brúnleitur hraunfoss.
Á leið niður hlíðina vestan við Eyra var litið á Kristjánsdalahellana. Einn þeirra, sá austasti undir hraunbrún, er sá fallegasti af þeim. Hinir eru fremur lágir.
Dýrindisveður, logn og sól og útsýnið eftir því.

Hjartartröð

Hjartartröð.