Hvaleyrarvatn

Selhraun vestan við Hvaleyrarvatn er hluti af dyngjuhrauni sem er mest áberandi í kringum Skúlatún, sem er grasi gróinn óbrennishólmi rétt vestan við Helgafell. Jarðfræðingar hafa kallað þetta hraun einu nafni Skúlatúnshraun, en það ber líka ýmis önnur nöfn, [s.s. Hellnahraun]. Þar sem hraunið rann fram í sjó myndar það eldra Hellnahraun og heitir á kafla Hvaleyrarhraun.

Selhóll

Selhóll.

Aldur Selhrauns er ekki kunnur en það er sennilega ekki eldra en 3000-4000 ára. Þegar það rann myndaðist fyrirstaða í tveimur dalkvosum sem varð til þess að Hvaleyrarvatn og Ástjörn urðu til.

Þessi tvö vötn áttu sinn þátt í að umhverfis þau myndaðist ágætis gróðurbelti sem varð til þess að þar var þótti vera beitiland eftir að land byggðist. Ásbærinn var byggður skammt ofan við Ástjörnina, undir Ásfjalli og þar nærri var annað býli sem fékk nafnið Stekkur. Við Hvaleyrarvatn var selstaða frá höfuðbólinu og kotunum á Hvaleyri, Ási, Stekk og Ófriðarstöðum (Jófríðarstöðum), en allar þessar jarðir áttu land sem náði að Hvaleyarvatni, þó megnið af vatninu tilheyði Ási.

Höfðaskógur

Jófríðastaðasel.

Norðan við vatnið á Beitarhúsahálsi undir Húshöfða var Ófriðarstaðasel, en þar stendur ennþá ágætlega byggð beitarhúsatóft á þeim stað þar sem talið er að selið hafi verið. Skammt frá er gamall grjóthlaðinn stekkur, eða ígildi fjárborgar á háhrygg hálsins.

Norðan við Selhöfða er lítill tangi eða nes sem skagar fram í Hvaleyrarvatnið og þar eru tóftir þriggja selja, sem hafa líklega tilheyrt Ási og Stekk, en vera má að eitt þeirra hafi verið nýtt af ábúendum á Ófriðarstöðum í skiptum fyrir verbúðina Ásbúð sem var í landi Ófriðarstaða. Ás átti ekki land að sjó þannig að þessháttar skipti voru ekki óalgeng.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn-Hvaleyrarsel.

Þriðja staðsetningin er vestan við Hvaleyrarvatn, skammt frá þeim stað þar sem skáli Hafnarfjarðarbæjar stóð til skamms tíma. Þar er lítill hraunbali sem ekki ber mikið á en þegar betur er að gáð má greina vallgrónar hleðslur á balanum. Þar taldi Gísli Sigurðsson lögregluþjónn að ein selstöðin frá Hvaleyri hafi verið. Lítill hlaðinn stekkur er í hraunbrún skammt langt frá þessum gróna bala en stekkurinn sést illa þar sem furutrjám var plantað út í hann fyrir um tveimur áratugum.

Seldalur

Tóft í Seldal.

Suðaustur frá Hvaleyrarvatni er Seldalshálsinn sem lokar Seldal af frá Selhrauninu. Á norðaustanverðum hálsinum er lítil tóft sem hefur verið nefnd Seldalskofi og gæti allt eins verið selrúst. Sagnir voru um að selstaða hafi einnig verið í Seldalnum en þar hafa ekki fundist neinar minjar sem staðfesta þá tilgátu.

Líkt og jafnan gleymast ýmsar minjar í umfjöllun um afmörkuð svæði.

Stórhöfði

Stórhöfði – nátthagi.

Hér að framan er ekki getið um stekkinn fyrrum og fjárborgina á Selhöfða, selstöðu vestan Hvaleyrarvatns eða nátthaga sunnan Stórhöfða. Jafnan hefur verið reynt að koma slíkum upplýsingum á framfæri, síðast við fornleifaskráningu Hafnarfjarðar, en fyrir daufum eyrum. Um er að ræða einstaklega áhugaverðar minjar um fyrrum búsetu í Hafnarfirði.

Heimild:
-https://www.hraunavinir.net/selhraun-og-selminjar/

Ássel

Ássel – tilgáta; ÓSÁ.