Gengið með ströndinni frá Hvassahrauni að Lónakoti. Byrjað var við gamla Keflavíkurveginn skammt ofan við gömlu Hvassahraunsréttina. Í þessari lýsingu er ekki ætlunin að lýsa örnefnum sérstaklega heldur fyrst og fremst því sem fyrir augu bar á leiðinni.
Réttin er hlaðin, ferningslaga, norðaustan utan í hraunhól vestan í hæðinni þar sem vegurinn er hæstur austan Hvasshrauns. Gengið var skáhalt niður lyngvaxið hraunið. Lóuhreiður á mosa og þrastarhreiður í kjarri, en síðan blasti skyndilega við hinn blákaldi veruleiki; sundurtættur mávur og einungis fjaðrinar eftir. Refurinn þarf jú sitt til að geta skrimt.
Bergmyndanirnar með ströndinni eru bæði fjölbreytilegar og stórbrotnar. Sumstaðar eru þverfallnir stuðlar, annars staðar hefur hraunið runnið lagskipt í sjó fram. Aldan hefur síðan dundað við að brjóta það upp, hnoða það í grágrýtiskúlur og varpa upp á land. Víða má sjá holu- eða bráðnunarmyndanir í annars hörðu berginu. Fjölbreytileikinn virðist ótakmarkaður. Um er að ræða forsögulega hraunmyndun, líklega frá fyrra hlýskeiði, milli síðustu ísalda. Sjórinn hefur dundað sér við að brjóta upp hraunflekana og fagurgera hraunyndanirnar áður en hann skellti þeim upp á sjávarbakkann.
Hrafnklukka, lambagras, bláberja- og krækiberjalynd, ljónslappi og fleiri tegundir hafa tekið sér svæðisbundna búsetu; hver tengundin tekur við af annarri.
Á Hraunsnesi og ofan við það eru fallega lygnartjarnir milli stórbrotinna hraunhóla. Botninn er gróinn því þarna gætir fljóðs og fjöru. Græni liturinn undir blámanum setur sjarmerandi svip á svæðið. Þannig skiptast litirnir í tjörnunum eftir því hvernig birtan fellur til.
Á leiðinni var fjölmargt að sjá; hnyðjur, rekaviður, brúsar, kúlur, ryðgað járn, garða, fjárskjól, selsstaða, fjárskjól, flöskuskeyti og hvaðaneina er prýtt getur fallega fjöru.
Fjárskjól er í Hraunsnesi og einnig skammt austar. Þar eru garðar, stekkur og tóftir. Grunur er um að þarna hafi Lónakot haft selstöðu um tíma, en að öllum líkindum hafa mannvirkin verið nýtt til útróðra þess á millum. Gerðið er afgirt hleðslugörðum og sæmileg lending er neðan við klettaborgina, sem selsstaðan hefur verið mynduð í kringum. Skammt suðvestan við hana eru hlaðið fjárskjól í hraunkrika.
Myndarlega hlaðið gerði er skammt austar. Þarna gæti verið um bátarétt að ræða er rennir enn frekar stoðum undir nýtinguna á svæðinu. Áður en komið er að Réttarklettum er farið með Dularklettum og -tjörnum, framhjá Grænhólsskjóli (fjárskjól) og Réttarklettum með allnokkrum görðum og gerðum umleikis, Nípa, Nípuskjól og Nípurétt eru skammt austar.
Lónakot er svolítið austar. Þegar svæðið var skoðað komu í ljós gerði, garðar, tóftir útihúsa, bæjarhóllinn og tóftir hans, brunnurinn sunnan við hann, heimagarðurinn og tjarnirnar (lónin) allt um kring.
Lónakot fór í eyði á 20. öldinni, en sumar minjanna gætur verið nokkuð eldri. Heimagarðurinn er líkur öðrum slíkum, en víða með tjörnunum má greina hleðslur og gömul mannvirki. Leiðir að Lónakoti eru varðaðar (sjá háar vörður ofar í hrauninu). Liggja þær að Straumi (til austurs) og að Hvasshrauni (til vesturs).
Gengið var upp gamla veginn frá Lónakoti. Sjá mátti fallegar hleðslur utan í honum sumstaðar þar sem hann liggur um jarðföll og gjár.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 10 mín.