Þegar skoðaður er kaflinn um Hrauntungur og Brunntorfur (Brundtorfur) í örnefnalýsingu fyrir Þorbjarnastaði í Hraunum má sjá eftirfarandi: “Halda skal nú hér fram með Brennu, allt þar til kemur í Hrauntungukjaft. Þar taka við Hrauntungur, sem liggja norðaustur eftir milli Brennu og Brunans. Þær eru nokkrar að víðáttu, og er skógurinn einna mestur þar, allt að 4 m há tré.
Úr kjaftinum liggur Hrauntungustígur norðaustur og upp á Háabruna, út á helluhraunið og austur eftir því upp að Hamranesi vestan Hvaleyrarvatns. Er þetta skemmtileg gönguleið. Efrigóm Hrauntungukjafts gerir Hellishóll. Hér í hólnum eru Hrauntunguhell[r]ar (að sögn Gísla Guðjónssonar; Gísli Sigurðsson kallar þá hins vegar Hellishólshelli og Hellishólsskjól). Í vætutíð má fá þar vatn. Uppi á hólnum er Hellishólsker. Hér nokkru sunnar er Fjárborgin á tungu út úr brunanum. Hún stendur enn, og er innanmál hennar um 7 m. Suður og upp frá brunanum eru Brundtorfur. Þar var hrútum hleypt til ánna forðum daga. Þar voru Brundtorfuvörður og Brundtorfuhellir. Einnig var þetta svæði kallað Brunntorfur, Brunntorfuvörður og Brunntorfuhellir. Hér vestnorðvestur var Gjásel, sel frá Þorbjarnarstöðum, stoð á Gjáselshæð. Rétt hjá selinu var vatnsstæði. Á hæð skammt suður og upp frá selinu var Gjáselsvarða. Norðaustur frá Gjáselsvörðu (G.G.) voru þversprungnir hólar, Vonduhólar. Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög. Upp frá Hrauntungukjafti eru hólar, sem nefnast Skyggnirar. Þar um liggur Hrauntungustígurinn og er ekki vel greinilegur.
Í skrá Gísla Sigurðssonar segir: „Hér lengra og ofar er Þúfuhólshraun með Þúfuhól og þar á Þúfuhólsvörðu. Svæði þetta nefndist líka Hundaþúfuhólshraun, Hundaþúfuhóll og Hundaþúfuhólsvarða.” En Gísli Guðjónsson og Jósef Guðjónsson segja, að þessi örnefni séu ekki til hér, heldur séu þau vestur af Tóhólum í Óttarsstaðalandi.”
Þegar framangreind lýsing er skoðuð út frá Fjárborginni (Þorbjarnarstaða(fjár)borginni) vakna óneitanlega spurningar; hvenær var borgin reist, hvers vegna og af hverju hér, uppi á Brunanum (Nýjahrauni/Kapelluhrauni), en ekki hinu gróna Hrútadyngjuhrauni?
Svörin liggja að hluta til fyrir; fjárborgin var reist af börnunum á Þorbjarnastöðum um og í kringum aldarmótin 1900. Staðsetningin hlaut að hafa tekið mið af staðsetningu á öðru eldra mannvirki, sem hefur átt að bæta um betur! Fjárborgina átti greinilega að hlaða í topp og því nýta sem fjárskýli, en hætt hafði verið við í miðjum kliðum. Ástæðan hefur væntanlega verið sú að fjárhús var þá byggt nálægt bænum. Áður var fé haft í fyrirhlöðnum fjárskjólum frá náttúrunnar hendi. Fjárborgin var því væntanlega “miðlæg” bygging í tíma og fjárhúsið nýjast því hús voru ekki byggð yfir fé á þessu landssvæði fyrr í byrjun 20. aldar. Skv. þessari ályktun vantaði elsta mannvirkið; hlaðið fjárskjól, einhvers staðar í nánd.
Í örnefnalýsingunni er getið um fjárskjól í Hrauntungum – Hrauntunguhellrar. Sá hellir er með heillegri fyrirhleðslu í jarðfalli norðarlega í Tungunum. Stór birkihrísla hindrar leiðina að opinu. Á hraunhvelinu er varða. Lýsingin segir hins vegar að “Efrigóm Hrauntungukjafts gerir Hellishóll. Hér í hólnum eru Hrauntunguhell[r]ar (að sögn Gísla Guðjónssonar; Gísli Sigurðsson kallar þá hins vegar Hellishólshelli og Hellishólsskjól). Í vætutíð má fá þar vatn. Uppi á hólnum er Hellishólsker. Hér nokkru sunnar er Fjárborgin á tungu út úr brunanum.” Þessi lýsing passar ekki við fyrrgreinda Hrauntunguhellra. Það hlaut því að vera annað skjól í efrigóm Hrauntungukjafts, skammt norðan fjárborgarinnar.
Þegar nágrenni Fjárborgarinnar var skoðað mjög vandlega var gengið fram á sléttkolla hraunhóla og allnokkur jarðföll. Í einu þeirra reyndist vera mikil hleðsla fyrir skúta. Stór birkihrísla huldi innganginn svo og hleðsluna. Þegar inn var komið sást vel hversu vegleg hleðslan var. Mold var í gólfi og tófugras í því næst opinu. Sléttar hellur hafa verið notaðar fyrir þak. Ein þeirra var enn á sínum stað, en aðrar lágu í gólfinu. Rýmið var svipað og í fjárborginni. Innarlega var gat í gólfinu, að öllum líkindum greni. Kindabein voru utan við opið. Skjólið er vel hulið og ekki er að sjá að þarna hafi maður stigið inn fæti í langan tíma. Skjól þetta er að öllum líkindum svonefnt Hellishólshellir eða Hellishólsskjól, skammt frá Fjárborginni, eins og örnefnalýsingin segir til um. Ofan við jarðfallið hefur verið hlaðið skjól, nú fallið. Þar hefur smalinn væntanlega haft aðsetur.
Ljóst er að hraunin geyma marga mannvistarleifina – ef vel er að gáð.
Frábært veður. Gangan og leitin tóku 33 mín.
Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Þorbjarnarstaði – ÖÍ.