Færslur

Þorbjarnastaðarborg

Gengið var til vesturs frá hliði við Krýsuvíkurveg að skógræktarsvæði SR skammt sunnan við rallykrossbrautina.

Fornasel

Fornasel – vatnsstæði.

Eftir u.þ.b. 10 mín. göngu eftir ruddri braut var beygt til suðurs inn á rudda braut áleiðis að Brunntorfum. Hægra megin við enda hennar, á mosahraunkantinum, er Þorbjarnarstaðafjárborgin, hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjóna um aldamótin 1900. Greinilegt er að borgin hefur átt að verða topphlaðinn líkt og Djúpudalaborgin ofan við Selvog. Hætt hefur verið við hleðsluna í miðja kafi því með henni að utanverðu liggja steinar sem og í hrúgum allt í kring.
Varða er á holtinu sunnan borgarinnar. Frá henni eru vörður í suðaustur og einnig til suðvesturs, að Fornaseli.

Fornasel

Fornasel – tóft.

Þegar þeim er fylgt í u.þ.b. 15 mín. er komið að uppréttum steini í vörðu, sem stendur hátt á kletti. Norðvestan hans er Fornasel. Þarna eru nokkrar tóttir, sumar frá því um 1500.
Aðaltóttin er hæst á hæð og við það gott vatnsstæði. Þá eru tóttir bæði norðan og vestan við aðaltóttina. Stekkur er í lægð sunnan við hana. Einnig er að sjá að nálæg jarðföll hafi verið notuð í tenglsum við seljabúskapinn.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Í norðvestur frá Fornaseli, í ca. 15 mín., er Gjásel. Það er einnig á hól skammt utan við skógræktargirðinguna. Breið varða er á hól norðaustan selsins. Það er nokkuð stór tvískipt tótt og er vatnssvæðið þétt norðvestan við hana. Það þornar í þurrkum. Norðan selsins, undir hraunhól, er hlaðinn stekkur undan skúta. Ef gengið er frá vörðunni norðaustan selsins sjást vörður í norðaustri. Næsta er á sprungubarmi og önnur á hól. Frá henni sést vel yfir að veginum í gegnum skógræktarsvæðið og því auðvelt að fylgja honum til baka að upphafsreit. Hraunið þarna er mjög gróið og því mikilvægt að fylgja hæðum og gæta þess að fara ofan við skógræktina sjálfa þegar þegar gengið er á milli seljanna.
Frábært veður.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ.

Óbrinnishólar

Gengið var um Óbrinnishólaker, sem er mosavaxin hrauntjörn, að Óbrinnishólahelli. Hellirinn er í gjárbarminum að sunnanverðu. Hlaðið er gerði fyrir framan munnan, en opið inn að öðru leyti. Rásin er um 15 metrar, björt og rúmgóð. Gólfið er flórað fremst, en annars er gólfið nokkuð slétt.

Óbrinnishólahellir

Óbrinnishólahellir.

Hellirinn er ágætt athvarf, en hann er fornt fjárskjól sem rúmaði nokkra tugi fjár og var notað af Hvaleyrarbændum, sem nýttu sér vetrarbeitina utan í Stak og Undirhlíðum öldum saman. Syðri Óbrinnishóllinn er nú óðum að hverfa vegna. Greinilegt er að gígbarmurinn hefur verið all tilkomumikill, ef marka má það litla, sem eftir er af honum að sunnanverðu. Nú er verið að dunda við að rífa niður það litla sem eftir er af honum. Þarna leynast ýmsar forvitnilegar hraunmyndanir, sem auðvelt er að láta ímyndunaraflið skapa; tröll, álfa, huldufólk eða annað sem hugurinn kýs.

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar – “milli mjórra dranga”.

Óbrinnishólar er röð gígaraða í hæð sem stendur upp úr hraunhafinu. Hólaröðin sjálf er um 900 metrar á lengd. Hæsti gígurinn er um 44 metra hár yfir næsta umhverfi og 124 metrar yfir sjó. Óbrinnishólar tilheyra Krýsuvíkureldstöðvakerfinu.
Talið er að um tvö gos hafi verið að ræða sem sést af gróðurleifum sem fundust milli gosmyndanna. Um fyrra gosið í Óbrinnis­hólum er lítið vitað eða hvenær það gaus, en frá því eru a.m.k. 3 gígir og virðist gosið hafa verið á sama stað þá og í því síðara. Hraun frá þessu gosi er nú hulið yngri gosmyndun. Það er aðeins á einum stað sem fundist hefur hraun frá fyrra hosinu og var það í sjálfum gíghólnum. Þetta hraun er frábrugðið hinu hrauninu að það inniheldur verulega meira ólivín.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg í Hraunum.

Síðara gosið hófst fyrir 1800 árum í og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum. Hæðin sem Óbrinnishólar eru á er að mestu úr bólstrabergi og grágrýti. Eftir endilangri hæðinni er um 50 metra sigdalur. Að vestan takmarkast hann af 4-6 m háu misgengi. Rétt austan við sigdalinn rísa gígirnir og stefnir röðin eins og dalurinn. Óbrinnishólahraun er undir Kapelluhrauni við Straumsvík.
Gengið var yfir slétt helluhraunið á Bruna (Óbrinnisbruna) og yfir moldarþakta tjörnina, sem jafnan er þarna, en er nú alveg þurr og það í byrjun sumars. Stígur er þarna norður hraunið í átt að Stórhöfða, en hann hefur verið skemmdur á kafla vegna malar- og hrauntöku.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Haldið var yfir hrauntröðsbrúna vestan Krýsuvíkurvegar og niður í Brunntorfur. Skoðað var fjárskjól Þorbjarnarfólksins efst í torfunum og síðan gengið niður með grónum hraunkanti að Þorbjarnarstaðarfjárborginni. Borgin er mjög falleg og heilleg. Ef horft væri niður á hana er hún ekki ósvipuð merki tiltekinnar sjónvarpsstöðvar. Borgin var hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjónanna, þeirrar Ingveldar Jónsdóttur (dóttur Jóns Guðmundssonar á Setbergi (Jónssonar frá Haukadal (Álfsstöðum)), og Þorkels Árnasonar frá Guðnabæ í Selvogi, skömmu eftir aldarmótin 1900. Líklega hefur staðið til að topphlaða borgina ef marka má miðjugarðinn, lögun hleðslunnar og hellurnar, sem enn bíða upphleðslu utan við hana. Þorbjarnarstaðafjárborgin er svipuð að byggingarlagi og önnur fjárborg á Reykjanesi, þ.e. Djúpudalaborgin í Selvogi, en bóndinn á Þorbjarnarstöðum var einmitt ættaður þaðan.
Gangan tók 1 og ½ klst. Frábært veður.

Þorbjarnastaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

Þorbjarnastaðir

Gengið var um Brunntorfur að Þorbjarnastaðafjárborginni í Kapelluhrauni, upp í Fornasel og Gjásel í Almenningum, yfir í Straumssel, Óttarstaðasel og Lónakotssel, niður í Óttarstaðafjárborgina, um Alfaraleið að Gvendarbrunni og áfram niður að Þorbjarnastöðum.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir.

Getgátum hefur verið leitt að nafninu Brunntorfur. Á sumum kortum er það skráð Brundtorfur, þ.e. tengist brundtíð. Brunntorfur hefur skírskotun til brunns eða vatns á svæðinu, sem reyndar er ekkert á þessu svæði. Þriðja skýringin er að þar hafi átt að standa Bruntorfur, sbr. Brunatorfur eða Brunahraun. Hins vegar er í Brunntorfum rúmgott fjárskjól, sem ekki ólíklega hefur verið fyrir sauði.

Þorbjarnastaðaborgin stendur á jarðri Kapelluhrauns. Hún er fallega og vandlega hlaðin úr hraungrýti af börnum Þorbjarnarstaðahjóna um aldamótin 1900.

Víða í hrauninu má sjá mannvirki er tengst hafa fjárbúskapnum fyrrum, en þessi fjárborg er mest þeirra.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Fornasel er á grónum hraunhól suðvestan við Þorbjarnarstaðaborgina. Ofan við selið er há varða á hraunhól. Stórt og gott vatnsstæði er við seltóftirnar. Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur gróf í tóftirnar fyrir stuttu síðan. Taldi hann þær vera frá því á 14. eða 15. öld.
Gjásel er einnig á grónum hraunhól, norðvestan við Fornasel. Lægð er við tóftirnar, sem að öllum líkindum hefur verið vatnsbólið. Norðan undir hæðinni er hlaðinn stekkur í skjóli.

Fornasel

Fornasel – tóft.

Stefnan var tekin til vesturs, yfir að Straumsseli. Varða á hól vísar leiðina að selinu. Þegar komið var yfir hólinn blöstu tóftir og garðar við. Straumselið var nokkuð stór því þar byggðist upp bær, sem búið var í um tíma. Seltóftirnar sjálfar er suðaustan við bæjartóftirnar. Þar við er stekkur. Vatnsbólið er norðan við megintóftirnar, við vörslugarðinn. Í kringum Straumssel eru allnokkur mannvirki, tengd búskapnum, s.s. Neðri-Straumsselshellar og Efri-Straumsselshellar. Straumsselið hefur GPS-staðsetningapunkt, sem auðvelt er að leggja á minnið, eða 6401000-2201000.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Gengið var yfir í Óttarstaðasel og síðan Lónakotssel. Stígur er á milli seljanna og er u.þ.b. 20 mínútna gangur á milli hvers þeirra. Mannvirki eru allnokkur, s.s. fjárskjól, stekkir, nátthagar og vatnsstæði.
Haldið var norður Lónakotsselsstíg, gengið yfir að Óttarstaðafjárborginni. Fjárborgin er stundum nefnd Kristrúnarborg eftir Kristrúnu Sveinsdóttur frá Óttarstöðum, sem hlóð hana ásamt vinnumanni sínum, Guðmundi Sveinssyni, um 1870.
Alfarleiðin var gengin til austurs, framhjá Gvendarbrunni að Þorbjarnastöðum.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg.

Brunntorfur

Gengið var að Þorbjarnarstaðaborginni í Kapelluhrauni, austast í Almenningum.

Þorbjarnarstaðaborg

Í Þorbjarnarstaðaborginni.

Þegar komið var að borginni léku sólstafir um hana þannig að hún líktist fremur musteri en fjárborg. Börn hjónanna Þorkels Árnasonar og Ingveldar Jónsdóttur á Þorbjarnarstöðum í Hraunum hlóðu borgina skömmu fyrir aldarmótin 1900. Í útliti minnir borgin á merki Skjás eins því í miðjum hringnum er hlaðinn beinn veggur. Sennilega hafa börnin ætlað að topphlaða borgina líkt og Djúpudalaborgin í Selvogi (Þorkell Árnason var einmitt frá Guðnabæ í Selvogi), en hætt við það af einhverri ástæðu.
Gengið var upp í Almenninga og síðan austur með hraunkantinum inn í Brunntorfur með kvöldsólina í bakið. Mörg falleg furu-, leki- og grenitré hafa verið gróðursett við hraunröndina og marka skörp skil á milli nýrra og eldra hrauns. Eitt trjánna er þó sérstæðast, en það er lágt og “feitt” rauðgreni, sem breiðir úr sér í jarðfalli og fyllir svo til alveg út í það.

Krækiber

Krækiber.

Komið var að fallegum trjálundi með hávöxnum grenitrjám. Hljómfagur fuglasöngur og sumarangan. Ef aldingarðurinn Eden hefði verið til á Íslandi þá væri hann þarna – mosahraunið á aðra höndina og kjarrivaxnar brekkur á hinar með öllum sínum litatilbrigðum. Í svona landslagi eru ávextirnir aukaatriði, en þeir voru nú samt þarna sbr. meðfylgjandi mynd. Lundurinn myndar algert skjól og útsýnið þaðan gerist vart fegurra, a.m.k. ekki í augum listmálara.
Á leiðinni fylgdust nokkrir “hraunkarlar” með ferðalöngunum árvökulum augum.
Veðrið var frábært – sól og lygna nákvæmlega klukkustundina á meðan gengið var.

Þorbjarnastaðarborg

Þorbjarnastaðarborg.

Hellishólsskjól

Þegar skoðaður er kaflinn um Hrauntungur og Brunntorfur (Brundtorfur) í örnefnalýsingu fyrir Þorbjarnastaði í Hraunum má sjá eftirfarandi: “Halda skal nú hér fram með Brennu, allt þar til kemur í Hrauntungukjaft. Þar taka við Hrauntungur, sem liggja norðaustur eftir milli Brennu og Brunans. Þær eru nokkrar að víðáttu, og er skógurinn einna mestur þar, allt að 4 m há tré.
ÞorbjarnarstaðafjárborginÚr kjaftinum liggur Hrauntungustígur norðaustur og upp á Háabruna, út á helluhraunið og austur eftir því upp að Hamranesi vestan Hvaleyrarvatns. Er þetta skemmtileg gönguleið. Efrigóm Hrauntungukjafts gerir Hellishóll. Hér í hólnum eru Hrauntunguhell[r]ar (að sögn Gísla Guðjónssonar; Gísli Sigurðsson kallar þá hins vegar Hellishólshelli og Hellishólsskjól). Í vætutíð má fá þar vatn. Uppi á hólnum er Hellishólsker. Hér nokkru sunnar er Fjárborgin á tungu út úr brunanum. Hún stendur enn, og er innanmál hennar um 7 m. Suður og upp frá brunanum eru Brundtorfur. Þar var hrútum hleypt til ánna forðum daga. Þar voru Brundtorfuvörður og Brundtorfuhellir. Einnig var þetta svæði kallað Brunntorfur, Brunntorfuvörður og Brunntorfuhellir. Hér vestnorðvestur var Gjásel, sel frá Þorbjarnarstöðum, stoð á Gjáselshæð. Rétt hjá selinu var vatnsstæði. Á hæð skammt suður og upp frá selinu var Gjáselsvarða. Norðaustur frá Gjáselsvörðu (G.G.) voru þversprungnir hólar, Vonduhólar. Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög. Upp frá Hrauntungukjafti eru hólar, sem nefnast Skyggnirar. Þar um liggur Hrauntungustígurinn og er ekki vel greinilegur.
Opið á HellishólsskjólinuÍ skrá Gísla Sigurðssonar segir: „Hér lengra og ofar er Þúfuhólshraun með Þúfuhól og þar á Þúfuhólsvörðu. Svæði þetta nefndist líka Hundaþúfuhólshraun, Hundaþúfuhóll og Hundaþúfuhólsvarða.” En Gísli Guðjónsson og Jósef Guðjónsson segja, að þessi örnefni séu ekki til hér, heldur séu þau vestur af Tóhólum í Óttarsstaðalandi.”
Þegar framangreind lýsing er skoðuð út frá Fjárborginni (Þorbjarnarstaða(fjár)borginni) vakna óneitanlega spurningar; hvenær var borgin reist, hvers vegna og af hverju hér, uppi á Brunanum (Nýjahrauni/Kapelluhrauni), en ekki hinu gróna Hrútadyngjuhrauni? 

Skjólið innanvert

Svörin liggja að hluta til fyrir; fjárborgin var reist af börnunum á Þorbjarnastöðum um og í kringum aldarmótin 1900. Staðsetningin hlaut að hafa tekið mið af staðsetningu á öðru eldra mannvirki, sem hefur átt að bæta um betur! Fjárborgina átti greinilega að hlaða í topp og því nýta sem fjárskýli, en hætt hafði verið við í miðjum kliðum. Ástæðan hefur væntanlega verið sú að fjárhús var þá byggt nálægt bænum. Áður var fé haft í fyrirhlöðnum fjárskjólum frá náttúrunnar hendi. Fjárborgin var því væntanlega “miðlæg” bygging í tíma og fjárhúsið nýjast því hús voru ekki byggð yfir fé á þessu landssvæði fyrr í byrjun 20. aldar. Skv. þessari ályktun vantaði elsta mannvirkið; hlaðið fjárskjól, einhvers staðar í nánd.
Í örnefnalýsingunni er getið um fjárskjól í Hrauntungum – Hrauntunguhellrar. Sá hellir er með heillegri fyrirhleðslu í jarðfalli norðarlega í Tungunum. Stór birkihrísla hindrar leiðina að opinu. Á hraunhvelinu er varða. Lýsingin segir hins vegar að “Efrigóm Hrauntungukjafts gerir Hellishóll. Hér í hólnum eru Hrauntunguhell[r]ar (að sögn Gísla Guðjónssonar; Gísli Sigurðsson kallar þá hins vegar Hellishólshelli og Hellishólsskjól). Í vætutíð má fá þar vatn. Uppi á hólnum er Hellishólsker. Hér nokkru sunnar er Fjárborgin á tungu út úr brunanum.” Þessi lýsing passar ekki við fyrrgreinda Hrauntunguhellra. Það hlaut því að vera annað skjól í efrigóm Hrauntungukjafts, skammt norðan fjárborgarinnar.
Þegar nágrenni Fjárborgarinnar var skoðað mjög vandlega var gengið fram á sléttkolla hraunhóla og allnokkur jarðföll. Í einu þeirra reyndist vera mikil hleðsla fyrir skúta. Stór Skjólið innanvert - hleðslabirkihrísla huldi innganginn svo og hleðsluna. Þegar inn var komið sást vel hversu vegleg hleðslan var. Mold var í gólfi og tófugras í því næst opinu. Sléttar hellur hafa verið notaðar fyrir þak. Ein þeirra var enn á sínum stað, en aðrar lágu í gólfinu. Rýmið var svipað og í fjárborginni. Innarlega var gat í gólfinu, að öllum líkindum greni. Kindabein voru utan við opið. Skjólið er vel hulið og ekki er að sjá að þarna hafi maður stigið inn fæti í langan tíma. Skjól þetta er að öllum líkindum svonefnt Hellishólshellir eða Hellishólsskjól, skammt frá Fjárborginni, eins og örnefnalýsingin segir til um. Ofan við jarðfallið hefur verið hlaðið skjól, nú fallið. Þar hefur smalinn væntanlega haft aðsetur.
Ljóst er að hraunin geyma marga mannvistarleifina – ef vel er að gáð.
Frábært veður. Gangan og leitin tóku 33 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Þorbjarnarstaði – ÖÍ.

Þorbjarnarstaðaborg

Fornasel
Gengið var í gegnum trjáræktarsvæði Skógrækar ríksins sunnan við Hrauntungur með beina stefnu að Laufhöfðavörðu ofan við Laufhöfða, norðvestan Gjásels. Vörður greina Hrauntungustíginn þarna í gegnum norðaustanverðan Almenning, sem nú hefur náð að ala af sér birkikjarr að nýju.
Þá var gengið upp í Gjásel og síðan að LaufhöfðavarðaSteininum sunnan Hafurbjarnarholts, Klofaklettsvörðu, Fjallgrensvörðu, síðan niður í Fornasel og að Þorbjarnarstaðaborginni utan í Háabruna norðvestan við Brunntorfur.
Laufhöfðavarða stendur á klettasnös og vísar leiðina milli Þorbjarnastaða og Gjásels, Fornasels og Fjárborgarinnar (Þorbjarnarstaðaborgar). Vestan vörðunnar eru þrjár smávörður, sem vísa á Illuholu, jarðfall sem gat reynst hættulegt mönnum og búfénaði, sérstaklega að vetrarlagi.
Stígur liggur upp með Laufhöfða frá Alfaraleið sunnan Þorbjarnastaða, svonefndur Straumsselsstígur. Á kafla markar stígurinn djúp för í harða hraunhelluna, sem ber vitni um mikla umferð í langan tíma. “Af honum” neðan Laufhöfða liggur síðan stígur upp í gegnum Gjásel og áfram upp í Fornasel. Þar heldur stígurinn áfram upp í Brunntorfur. Samkvæmt Jarðabókinni 1703 áttu Þorbjarnarstaðabændur selstöðu í Gjáseli; “Selstöðu á jörðin þar sem kallað er Gjásel, en þar eru hagar góðir, en vatn slæmt”, en óljósara er með Staðarhaldara í Fornaseli. Stígurinn liggur hins vegar, varðaður, svo til beint upp í fjárskjól Þorbjarnarstaðabóndans í Brunntorfum. Í Jarðabókinni 1703 segir að Lambhagabændur hafi “brúkað selstöðu ásamt Þorbjarnarstöðum þar sem heitir Gjásel…”. Hið vandkvæða er, og mun síðar verða útskýrt, hvers vegna er einungis ein selstaða í Gjáseli, en tvær í Fornaseli, þar skammt ofar. Gætu nöfnin hafa víxlast?
Steinninn Annar stígur, og mun greiðfærari, frá Straumi liggur upp í Straumssel, um gróið hraun vestan Draughólahrauns. Hann er enn vel greinilegur. Draughóll er kjarri vaxin hæð í miðju kargahrauni norðvestan Straumselshöfða. Villuráfandi sauðir áttu það til að gera fjármönnum lífið leitt er þeir sóttu í kjarrlendið í Draughólahrauni. Smalar reyndu þá að lokka sauðina úr hrauninu frekar en elta þá uppi, enda hraunið sjálft erfitt yfirferðar.
Gjásel er dæmigert sel á Reykjanesskaganum, þrískipt seltóft, stekkur (norðvestan við hraunholtið, sem selið er á) og vatnsstæði (vestan tóftanna). Víðsýnt er frá Gjáseli yfir Hrauntungur og Nýjahraun (Kapelluhraun).
Eftir að hafa skoðað Gjásel var stefnan tekin á Steininn um Hrauntungustíg.
Hrauntungustígur liggur frá Áslandi um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Háabruna að Hrauntungum í Almenningi. Þaðan liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings að Sauðabrekkum. Farið er yfir Sauðabrekkugjá um Mosa vestur fyrir Fjallið eina að Hrútagjárdyngju. Stefnt er á Hrúthólma og farið um helluhraun að Hrútafelli og þá er stutt í Ketilstíginn, sem liggur yfir hálsinn til Krýsuvíkur (Seltúns). Hrauntungustígur sést enn við Krýsuvíkurveginn, einkum milli hans og malarnámu, sem þar er. Malarnámið hefur síðan tekið stíginn í sundur, en hann sést síðan aftur sunnan þess. Þar má rekja sig eftir stígnum í gegnum Hrauntungurnar, framhjá Hrauntunguskjóli og áfram upp með Gjáseli.

Steinninn

Þegar skoðað er “vörðukort” af þessu svæði Almennings má sjá að hinar gömlu leiðir hafa eitthvað “misfarist” á kortum, a.m.k. Hrauntungustígurinn sem og Stórhöfðastígurinn. Þessar leiðir voru jafnan varðaðar. Skv. kortinu, ef vörðunum væri fylgt, ætti Hrauntungustígurinn að liggja í gegnum Fornasel og Stórhöfðastígurinn nokkuð vestar en hann er nú merktur inn á kort.
Steinninn er margsprunginn hraunhæð, sem er á landamerkjum Þorbjarnastaða og Straums. Umhverfis hæðina var gott beitiland, en mosi og lynggróður hafa náð að breyta ásýnd landsins frá því sem áður var. Fuglaþúfa á Steininum vekur athygli þegar horft er á hann frá réttu sjónarhorni. Í raun er Steinninn í austanverðri sprungu hæðarinnar og sést ekki fyrr en komið er að honum. Helsta leiðarmerkið eru tvær vörður á hæðinni. Sú vestari er steinn, sem stendur upp á endann, en skammt frá sprungunni er mjó varða með þremur eða fjórum steinum. Hún sést ágætlega úr fjarlægð, en á flestum hólum á þessu svæði eru litlar vörður er gætu villt fyrir fólki.
Steinninn, eða hraunhóllinn sem hann er í, er nokkurn veginn í suður af landamerkjastöplinum á Hafurbjarnarholti. Stöpullinn sést vel af hólnum. Frá honum sést einnig vel til Klofningskletts í vestri.
Þegar sólin dansar við skýin gleðjast mennirnir. Geislar hennar leika þá við valin svæði. Það sjónarspil er einka fallegt í Almenningi þar sem hver hraunhóllinn, ýmist mosavaxinn eða kjarrivaxinn, skipta litum á víxl eftir gróðrinum. Það gefur regnbogadansi sólarinnar lítið eftir.

Fornaselsvarða

Klofaklettsvarða er toppmjó landamerkjavarða á klofnum hraunkletti efst í hraunbrekkum, sem nefnast Bringur (nokkru vestar). Varðan sést ágætlega frá Steininum. Einnig Gamla Þúfa þar skammt norðnorðvestar. Frá Steininum ber vel á klettinum og varðan er auðþekkjanleg á löguninni. Svæðið ofan Klofakletts er kallað Mosar – líkt og svo mörg önnur í eða við Almenning. “Greinilegustu” Mosarnir eru þó vestan við Skógarnefið þar sem Mosastígur liggur upp með norðanverðu Lambafelli. Í því fallegur klofningshóll þar sem þunnfljótandi hraunið hefur náð að smyrja “klofið” mælt upp yfir handarkrika hærri manna.
Norðan við Litlu-Sauðabrekku og Sauðabrekkugíga er áberandi landamerkjavarða á mörkum Straumslands og Óttarsstaðalands, sem nefnist Fjallgrensvarða og skiptir hinum mosavöxnu Fjallgrensbölum á milli jarðanna, en þar voru áður grösugir hagar. Ofan vörðunnar tekur við nokkuð sléttir mosar á helluhrauni. Grenin eru merkt með dæmigerðum steinum á þremur stöðum og hlaðin skotbyrgi grenjaskyttnanna er þar skammt frá. Á norðurbrúninni verða umskipti; annars vegar er að baki hið daglega amstur, fagurt útsýni er yfir hraunsvæðin norðan Almennings og hin sjálfsagða nálægð við mennina, og hins vegar er framundan hið sérstaka, áskorunin og vonin um sigur á sljóttugri veiðibráð – tófunni. Brúnin hefði þess vegna mátt heiða “Umskiptabrún”.

Fjallsgrensvarða

Fjallsgrensvarða.

Þegar gengið var til baka áleiðis niður að Fornaseli mátti víða sjá fugla fljúga af hreiðrum eða með mat í goggi. Ungar voru greinilega að komast þarna til fugls.
Fornaselsvarða er tignarlega hlaðin og stendur austan við selið. Sá, sem sett hefur stærsta steininn í hana, hefurverið rammir að afli. Nema það hafi verið kona. Varðan vísar á selið (skammt norðvestar) og, að sögn, Hrauntungustíg, forna þjóðleið sem liggur um selshlaðið.
Fornleifarannsókn, sem gerð var 2000-2001 leiddi í ljós að selstaða mun hafa verið í Fornaseli frá u.þ.b. 1550 fram á miðja 19. öld. Grafið var í eldhústóftina sunnan seltóftanna tveggja, sem þarna eru. Þær eru báðar tvískiptar svo þarna hafa verið tvær selstöður, búr og baðstofa í hvoru um sig.
Gott vatnsstæði er við Fornasel. Líklegt má því telja að það hafi jafnan verið nýtt. Landið tilheyrir Þorbjarnarstöðum svo spurningin er hvort nöfn Gjásels og Fornasels hafi víxlast á einhverju tímabili. Það sem einkum styður þessar vangaveltur er það að í Fornaseli eru tvær selstöður, en einungis ein í Gjáseli. Samt áttu bæði Þorbjarnarstaðir og Lambhagi að hafa haft þar selstöðu. Hins vegar er einungis að sjá þar eitt eldhús, sem styrkir líkur á framkominni lýsingu á samnýtingu. Mögulegt er að Lambhagi, eða annar bær í Hraunum, hafi síðar nýtt sér selstöðuna, sem nú er nefnd Gjásel.

Gjáselsvarða

Sagt hefur verið að milli Gjásels og Fornasels liggi stígur um háhrygg Almennings, yfir Brunnhólagjá á jarðbrú, sem tvær smávörður vísa á. Þegar komið er yfir gjána er stefnan tekin á Fjallið eina og þar tekur Hrauntungustígur við. Austan Brunnhólagjár var gjöfult beitiland, svonefndir Brunnhólar, en líka kallaðir Sauðahólar. Trúlega er hér um eina leið af mörgum að ræða um þetta hraunssvæði. Þegar komið er ofan frá Hrúthólma og ætlunin er að feta mögulega leið niður um austanverðan Almenning verða ávallt nokkrir möguleikar úr um að velja. Þegar “vörðukort” er skoðað að svæðinu gefur það tilefni til að ætla að leiðirnar hafi verið fleiri en ein og fleiri en tvær. Og ekki er endilega víst að hver um sig hafi heitið eitthvað umfram annað. Fólk, sem þurfti að fara þarna um tók bara mið af greinilegum kennileitum og hélt sinni stefnu um þetta annars greiðfæra hraunsvæði. Víðast hvar eru góð skjól til áninga og jafnvel má finna þar vatn til að brynna skeppnum. Ágætt dæmi er um slíkt í “afbrigðilegum útidúr” frá Hrauntungustíg. Ef vikið er spölkorn af honum til austurs nokkuð sunnan Sauðabrekkuskjóla má finna þar hið ágætasta vatnsstæði. Að því liggur stígur og síðan áfram inn á hinn fyrrnefna aftur skammt sunnar. Kunnugir hafa að öllum líkindum getað fetað aðrar leiðir en þeir sem minna þekktu til.
 Ofar er Stórhöfðastígur. Hann liggur einnig frá Ástjörn um Hádegisskarð og Ásflatir, sniðhallt yfir Bleiksteinsháls að Hamranesflugvelli og út á Selhraun. Gengið er suður með vestanverðum Stórhöfða þar til komið að suðurhorni hans. Þar sést stígurinn liðast inn á hraunið til suðurs, hlykkjast á hraunhrygg að Bruna og í áttina að Snókalöndum. Þegar þangað er komið er farið yfir Krýsuvíkurveg í áttina að Brunntorfum og Þrísteinavörðum fylgt að Fjallgjá. Gengið er með misgenginu að Fjallinu eina og austanverðum eða vestanverðum (báðar leiðir farnar) fjallsrótum þess fylgt að Hrútargjárdyngju. Þegar farið er að austanverðu kemur að því að mætast Stórhöfðastígur og Undirhlíðavegur, sem fylgja norðanverðum Sveifluhálsi að Ketilsstíg. Þegar farið er að vestanverðu er gengið með norðanverðum Dyngjubökkum um Hrúthólma, framhjá Hrútafelli og inn á Ketilsstíg. Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur sameinast Rauðamelsstíg, sem liggur upp frá Óttarsstaðaseli, við Hrúthólma.

Fornaselsvatnsstæði

Á leiðinni til baka niður að Þorbjarnarstaðaborg sýndu rjúpur þátttakendum sérkennilegt háttarlag. Í stað þess að fljúga frá viðkomandi flugu þær að þeim. Það gat einungis gefið eitt til kynna – jarðfætlingarnir voru of nálægt hreiðinu. Ekki var staðnæmst til að skoða hreiðrið, enda keppikeflið að raska sem minnst ró heimabúandi á svæðinu.
Þorbjarnarstaðaborgin var hlaðin af nokkrum barnanna ellefu á Þorbjarnarstöðum um aldamótin 1900. Hleðslulagi hennar og væntanlegu byggingarlagi hefur verið lýst í öðrum FERLIRslýsingum. Hið áhugaverða að þessu sinni var vörðuð leið er frá henni að skúta ofan við Brunntorfur. Vörður liggja þétt yfir hálsinn að hlöðnu fjárskjóli í Brunntorfum, þar sem nú er skógræktarsvæði. Það er há og löng hleðsla fyrir innskot undir háum hraunbakka með op til norðurs. Allt hefur þetta, vörður og aðrar mannvistarleifar, jú ákveðinn tilgang, sem óþarfi er að horfa framhjá.
Gangan tók 4 klst og 4 mín. Frábært veður – mikið fuglalíf er nú í Almenningi.

Heimildir m.a.:
-Ratleikur Hafnarfjarðar 2006.
-Gísli Sigurðsson.
-Ásbjörn (kort).

Steinninn

Steinninn.

Brunntorfuskjól

Hrauntungustíg var fylgt suður Selhraun frá Krýsuvíkurvegi, inn í malargryfjur sunnan Brennu og síðan handan þeirra inn í Hrauntungu. Þar var litið á fyrirhlaðið skjól, en síðan gengið áfram til suðurs um Háabruna upp að Þorbjarnarstaðarfjárborginni norðan við Brunntorfur (Brundtorfur – tilhleypingastaður).

Hrauntungur

Hraunkarl við Hrauntungu.

Hrauntungustígur sést vel í sléttu helluhrauninu vestan Krýsuvíkurvegar. Varða er á hraunhól við jaðar malargryfjunnar. Stígurinn hefur verið fjarlægður í gryfjunum, en við suðurjaðar þeirra má sjá vörðu. Frá henni liggur stígurinn áfram inn í Hrauntungu, kjarri vaxinn hólma inni í vesturjarðri Kapelluhrauns. Tungan, sem er á milli Efri-hellra og Þorbjarnarstaðarborgarinnar, hefur verið skjólgóð og beitarvæn. Inni í henni austanverðri er fyrirhleðsla fyrir skúta. Erfitt er að koma auga á opið vegna þess að birkihríslur hylja það að mestu. Lítil varða er á hólnum ofan við opið. Skjólið, sem var smalaskjól, nefnist Hrauntunguhellir og er í hraunhól skammt norðan við nyrstu hrauntunguna úr Brunanum, en svæðið er nefnt eftir tveimur slíkum tungum vestur út frá meginhrauninu.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Hrauntungustígur liggur frá Áslandi um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Brunann að Hrauntungum. Þaðan liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings og að Sauðabrekkum.
Brunanum var fylgt áfram til suðurs. Hver hraunkynjamyndin tók við af annarri.
Þorbjarnarstaðarborgin er efst í Háabrunanum. Hún er heilleg og fallega hlaðin. Það munu hafa verið börn hjónanna á Þorbjarnarstöðum í Hraunum, sem hlóðu hana um aldarmótin 1900. Börnin voru 11, samhent og dugleg til allra verka. Svo virðist sem ætlunin hafi verið að topphlaða borgina, líkt og Djúpudalaborgina í Selvogi, en hætt hafi verið við það.

Þorkell Árnason, bóndi á Þorbjarnastöðum hefur þekkt til byggingarlags hennar því hann var ættaður frá Guðnabæ í Selvogi. Kona kans var Ingibjörg Jónsdóttir, dóttir Jóns Guðmundssonar, hreppsstjóra á Setbergi.

Hrauntunguskjól

Hrauntunguskjól.

Ofarlega í Brundtorfum eru Brundtorfuhellar (Brunntorfuhellir), lágreistir, en þóttu hæfa vel til að hýsa hrúta Hraunamanna og Hvaleyeringa um fengitímann þegar hleypt var til ánna.
Gengið var til baka norður brunann skammt austar. Fylgt var refaslóð þar sem hún lá í gegnum mosahraunið áleiðis að fiskitrönunum austan Krýsuvíkurvegar. Rebbi hefur greinilega fetað slóðina þarna lengi.
Þegar komið var norður fyrir Rallykrossbrautina virtist gamall maður sitja þar á steini. Þegar komið var nær sást hversu steinrunninn hann var.
Kapelluhraunið er talið hafa runnið um 1151, á sama tíma og Ögmundarhraun og Afstapahraun. Öll hraunin eru talin hafa komið úr sömu gossprungunni, u.þ.b. 50 km langri, er náði frá suðurströndinni austan Ísólfsskála að Helgafelli ofan við Hafnarfjörð.

Brunntorfuskjól

Brunntorfuskjól.

Þorbjarnastaðarauðimelur

Gengið var frá gamla Keflavíkurveginum ofan við Straum að Þorbjarnarstöðum. Gamall vegur liggur frá Keflavíkurveginum að þessum gamla bæ í Hraunum.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði.

Þar sem Keflavíkurvegurinn kemur niður og yfir tjarnirnar ofan við Straumsvík (gegnt Gerði) má enn sjá minjar hinnar fyrstu vegagerðar sjálfrennireiðarinnnar er tengdi saman byggðalög hér á landi. Einnig má sjá veglegar veghleðslur yfir gjár og jarðföll í gegnum hraunið vestan við Rauðamel, en eftir það má segja að hið gamla handbragð hinna gömlu vegargerðarmanna á Keflavíkurveginum hverfi. Þetta er því dýrmætur vegspotti þegar horft er til verndunar þessara tegunda minja.

Þorbjarnastaðastekkur

Þorbjarnastaðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Þeir eða þau okkar, sem fyrir alvöru spá og spegulera í gömlum minjum, spyrja sig iðurlega spurninga s.s.: a) hvað eru raunverulegar fornminjar?, b) fyrir hverja eru fornminjarnar? og c) hverjir eiga forminjarnar? Segja má að fornminjar séu áþreifnanleg mannanna verk er tengja okkur nútímafólkið við fortíðina, þ.e. forfeður okkar. Þess vegna eru fornminjarnar fyrir okkur, afkomendur þessa fólks. Og það erum við, sem eigum fornminjarnar. Þær eru okkar verðmætu tengsl við fortíðina. Sú staðreynd að framtíðin byggist á fortíðinni gera minjarnar ómetanlegar nútíðinni.

Þorbjarnastaðir

Brunnstígurinn við Þorbjarnastaði.

Gengið var um þvottastíginn að tóttum Þorbjarnastaða (fóru í eyði um 1939). Tóftir Þorbjarnastaða eru ekki einungis meðal verðmæta vegna þess að þær eru einu ummerkin eftir hinn dæmigerða íslenska torfbæ, heldur og vegna þess að þær segja sögu þess fólks, sem þar lifði og bjó. Tóftirnar eru einnig, því miður, ágætt dæmi um þörfina á auknum áhuga og dug fulltrúa fólksins í bænum um gildi og nýtingu fornminja. Nóg um það í bili.

Gengið var frá heimaréttinni, framhjá bæjarstæðinu, hinum dæmigerða íslenska torfbæ með burstum mót suðvestri og matjurtargarði framan við, yfir heimatúnsgarðhleðslurnar og yfir Alfaraleiðina og að Þorbjarnastaðaréttinni, stundum nefnd stekkurinn, undir hraunhól nokkru sunnan við bæinn, austan Miðdegishóls, eyktarmarks frá bænum. Um er að ræða stóra hlaðna rúningsrétt. Í henni er heilleg lambakró, sem bendir til þess að hún hafi verið notuð sem stekkur.

Þorbjarnastaðir

Þvottarbrú og brunnur við Þorbjarnastaði.

Alfaraleiðinni var fylgt spölkorn til norðurs, að Gerði. Gengið var ofan við tjarnirnar. Þar sjást mannvistarleifar, s.s. hlaðin bryggja til ullar og fatalafraþvotta. Vatn leysir þar undan hrauninu. Frá tóftum bæjarins var sveigt til vinstri þar til komið er á Gerðisstíg, sem er merktur með lágum stikum. Stígurinn liggur um Hólaskarð milli Hólanna, sem eru á hægri hönd, og lágrar hraunhæðar á vinstri hönd með strýtumyndaðri vörðu. Leiðin liggur um Stekkjatúnið í áttina að Seljahrauni. Þar breytir stígurinn um nafn og nefnist Seljahraunsstígur þar sem hann liggur í gegnum þunna, illfæra hraunspýju sem hefur tafið för manna og búfjár áður en slóðin var rudd í gegnum hrauntunguna. Gengið er samsíða vestari brún Kapelluhrauns í áttina að línuveginum og farið yfir hann í áttina að Rauðamelsklettum.

Efri-Hellar

Efri-Hellar; hraunkarl.

Gengið er framhjá Neðri-Hellum, ágætum fjárskjólum með hleðslum fyrir. Handan þeirra er námasvæði þar sem Þorbjarnarstaðarauðamelur stóð áður fyrr. Nú er ekkert sem minnir á Rauðamelshóla eins og þetta kennileiti var stundum nefnt. Náman er sem flakandi sár í landinu og umgengnin engum til sóma.

Stígurinn liggur áfram til suðausturs í áttina að Rauðamelsrétt. Auðveldast er einfaldast að taka stefnuna á hús Skotveiðifélags Hafnarfjarðar sem stendur á brún Kapelluhrauns, sem kallast reyndar Bruninn þegar hingað er komið. Vestan hússins gengur lítill hraunrani fram úr Brunanum út á Flárnar. Í þröngum krika norðan ranans stendur lítil fallega hlaðin rétt úr hraungrjóti.

Hrauntunguskjól

Hrauntunguskjól.

Brún Kapelluhrauns var fylgt til suðurs uns komið var að Efri-hellum, gamlir fjárhellar. Við hraunina gnæfir hraundrangur í mannsmynd. Hann minnir á að við hellana hefur löngum þótt reimt. Enn ofan eru Hrauntungurnar, innan við hraunkantinn. Þar hefur einnig þótt reimt, einkum fyrrum. Tungurnar eru allsstórt gróið hraunssvæði, umlukið nýja hrauninu. Í þeim austanverðum er fallegur skúti, sem hlaðið er fyrir. Skútinn er í jarðfalli utan í hraunklettum og lokar hrísla opinu eftir að hún tekur að laufgast. Getur þá verið erfitt að finna það, auk þess sem hleðslurnar, sem eru allmiklar, falla vel að klettinum.

Þorbjarnastaðastekkur

Þorbjarnastaðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Ef stígnum, sem komið hafði verið inn á og liggur inn í Hrauntungurnar, er fylgt áfram til norðausturs er komið inn á Hrauntungustíginn þar sem hann liggur út úr Tungunum og inn á hraunið. Stígurinn er nú orðinn stuttur þarna því búið er að ryðja svo til allt hraunið þarna fyrir austan og norðan. Þó má enn sjá móta fyrir Hrauntungustígnum beggja vegna Krýsuvíkurvegarins skammt norðvestan aðkeyrslu að námusvæðinu. Skammt vestan vegarins er varða og liggur Hrauntungustígurinn svo til við hana.
Gengið var til vesturs frá hliði við Krýsuvíkurveg að skógræktarsvæði SR skammt sunnan við rallykrossbrautina. Eftir u.þ.b. 10 mín. göngu eftir ruddri braut var beygt til suðurs inn á rudda braut áleiðis að Brunntorfum. Hægra megin við enda hennar, á mosahraunkantinum, er Þorbjarnarstaðafjárborgin, hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjóna um aldamótin 1900. Með borginni að utanverðu liggja steinar sem og í hrúgum allt í kring. Hana hefur greinilega átt að hlaða hærra en þegar skilið var við hana fyrir rúmlega einni öld.

Vorrétt

Vorréttin.