Óbrinnishólar

Gengið var um Óbrinnishólaker, sem er mosavaxin hrauntjörn, að Óbrinnishólahelli. Hellirinn er í gjárbarminum að sunnanverðu. Hlaðið er gerði fyrir framan munnan, en opið inn að öðru leyti. Rásin er um 15 metrar, björt og rúmgóð. Gólfið er flórað fremst, en annars er gólfið nokkuð slétt.

Óbrinnishólahellir

Óbrinnishólahellir.

Hellirinn er ágætt athvarf, en hann er fornt fjárskjól sem rúmaði nokkra tugi fjár og var notað af Hvaleyrarbændum, sem nýttu sér vetrarbeitina utan í Stak og Undirhlíðum öldum saman. Syðri Óbrinnishóllinn er nú óðum að hverfa vegna. Greinilegt er að gígbarmurinn hefur verið all tilkomumikill, ef marka má það litla, sem eftir er af honum að sunnanverðu. Nú er verið að dunda við að rífa niður það litla sem eftir er af honum. Þarna leynast ýmsar forvitnilegar hraunmyndanir, sem auðvelt er að láta ímyndunaraflið skapa; tröll, álfa, huldufólk eða annað sem hugurinn kýs.

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar – “milli mjórra dranga”.

Óbrinnishólar er röð gígaraða í hæð sem stendur upp úr hraunhafinu. Hólaröðin sjálf er um 900 metrar á lengd. Hæsti gígurinn er um 44 metra hár yfir næsta umhverfi og 124 metrar yfir sjó. Óbrinnishólar tilheyra Krýsuvíkureldstöðvakerfinu.
Talið er að um tvö gos hafi verið að ræða sem sést af gróðurleifum sem fundust milli gosmyndanna. Um fyrra gosið í Óbrinnis­hólum er lítið vitað eða hvenær það gaus, en frá því eru a.m.k. 3 gígir og virðist gosið hafa verið á sama stað þá og í því síðara. Hraun frá þessu gosi er nú hulið yngri gosmyndun. Það er aðeins á einum stað sem fundist hefur hraun frá fyrra hosinu og var það í sjálfum gíghólnum. Þetta hraun er frábrugðið hinu hrauninu að það inniheldur verulega meira ólivín.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg í Hraunum.

Síðara gosið hófst fyrir 1800 árum í og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum. Hæðin sem Óbrinnishólar eru á er að mestu úr bólstrabergi og grágrýti. Eftir endilangri hæðinni er um 50 metra sigdalur. Að vestan takmarkast hann af 4-6 m háu misgengi. Rétt austan við sigdalinn rísa gígirnir og stefnir röðin eins og dalurinn. Óbrinnishólahraun er undir Kapelluhrauni við Straumsvík.
Gengið var yfir slétt helluhraunið á Bruna (Óbrinnisbruna) og yfir moldarþakta tjörnina, sem jafnan er þarna, en er nú alveg þurr og það í byrjun sumars. Stígur er þarna norður hraunið í átt að Stórhöfða, en hann hefur verið skemmdur á kafla vegna malar- og hrauntöku.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Haldið var yfir hrauntröðsbrúna vestan Krýsuvíkurvegar og niður í Brunntorfur. Skoðað var fjárskjól Þorbjarnarfólksins efst í torfunum og síðan gengið niður með grónum hraunkanti að Þorbjarnarstaðarfjárborginni. Borgin er mjög falleg og heilleg. Ef horft væri niður á hana er hún ekki ósvipuð merki tiltekinnar sjónvarpsstöðvar. Borgin var hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjónanna, þeirrar Ingveldar Jónsdóttur (dóttur Jóns Guðmundssonar á Setbergi (Jónssonar frá Haukadal (Álfsstöðum)), og Þorkels Árnasonar frá Guðnabæ í Selvogi, skömmu eftir aldarmótin 1900. Líklega hefur staðið til að topphlaða borgina ef marka má miðjugarðinn, lögun hleðslunnar og hellurnar, sem enn bíða upphleðslu utan við hana. Þorbjarnarstaðafjárborgin er svipuð að byggingarlagi og önnur fjárborg á Reykjanesi, þ.e. Djúpudalaborgin í Selvogi, en bóndinn á Þorbjarnarstöðum var einmitt ættaður þaðan.
Gangan tók 1 og ½ klst. Frábært veður.

Þorbjarnastaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.