Hvaleyrarsel

Gengið var um Húshöfða norðan Hvaleyrarvatns. Skoðaður var hlaðinn stekkur norðan á höfðanum og beitarhús frá Ási, Vetrarhús, austan í honum. Þar við eru tóftir sels frá Jófríðarstöðum.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn og nágrenni; minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Þá var haldið niður að og suður fyrir vatnið. Skammt neðan og vestan við skátaskálann er gróinn hóll og á honum tótt, Ássel. Um er að ræða sel frá því um 1900 er Jófríðarstaðir og Ás undir Ásfjalli skiptu með sér aðstöðunni við vatnið.
Á odda skammt vestar eru tóttir Hvaleyrarsels. Um er að ræða þrjár tóttir og er ein þeirra stærst. Þarna átti að hafa gerst hryllilegur atburður um 1880 er smali fann seljastúlku rifna á hol niður við vatnið. Var talið að nykur í vatninu hafi leikið stúlkuna svo illa. Um nykur þennan sagði sagan að hann væri annað hvert ár í Hvaleyrarvatni, en hitt árið í Urriðakotsvatni. Sást til hans oftar en einu sinni.

Ássel

Ássel – tilgáta; ÓSÁ.

Hvaleyri hafði bæði í seli við Hvaleyrarvatn á a.m.k. tveimur stöðum og síðar um hríð í Kaldárseli. Höfðinn ofan við selin heitir Selshöfði. Á honum eru hringlaga hleðslur, sem fróðir menn segja vera gamla fjárborg, í heimildum nefnd “Borgin”. Skammt frá þeim er annað mannvirki, nánast jarðlægt. Ekki er með öllu útilokað að þarna geti verið um að ræða leifar mannvirkis frá hernum, en Bretarnir voru þarna svo til út um allar hæðir á heimstyrjaldarárunum. Enn má sjá hlaðin mannvirki þeirra á nokkrum stöðum á Ásfjalli, Grísanesi, Svínahöfða og víðar.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – tilgáta (ÓSÁ).

Í Selshöfða sunnanverðum sést til hleðslna á barði. Þar er sagt að hafi verið fjárhús, en öllu sennilegra er að þar hafi verð stekkur frá Hvaleyrarseli.
Stórhöfði er sunnan dals á milli hans og Selshöfða. Í botni dalsins er mikil gróðurtorfa, en að öðru leyti er dalurinn nú gróðurlaus. Líklegt má telja að dalurinn hafi verið algróin á öldum áður og hafi hann þá verið notaður til beitar, en fénu haldið að Hvaleyrarvatni vegna vökvans. Uppi á grasbala er þar enn ein rústin frá þeim tíma.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel- tilgáta; ÓSÁ.

Gangan tók um 1 og ½ klst. Veður var frábært – lygnt og hlýtt.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.