Í Lögbergi 1948 er viðtal við Jens Hólmgeirsson um “Stórfellt landnám í Krýsuvík á vegum Hafnarfjarðarbæjar”:
Stórfellt landnám í Krýsuvík á vegum Hafnarfjarðarbæjar
Lokið er byggingu eins íbúðarhúss og hafinn undirbúningur að túnrækt og byggingu gróðurskálans í Krýsuvík á sunnanverðu Reykjanesi var áður allmikil byggð, sem lagðist með öllu niður fyrir nokkru. Þar eru mikil jarðhitasvæði og allgóð aðstaða til ræktunar bæði við jarðhita og án hans. Nú hefir Hafnarfjarðarbær hafið þar landnám að nýju. Er ætlunin að stunda þar bæði nautgriparækt til mjólkurframleiðslu og ræktun matjurta og grænmetis í upphituðum gróðurskálum. Framkvæmdastjóri garðræktarinnar þar hefir verið ráðinn Óskar Sveinsson garðyrkjumaður, en Jens Hólmgeirsson mun sjá um stofnun og starfrækslu kúabúsins. Tíðindamaður blaðsins hefir átt tal við Jens Hólmgeirsson um þessi mál.
Heil kirkjusókn í eyði
— Var ekki allmikil byggð í Krýsuvík áður fyrr?
— Jú, Krýsuvík var stórbýli fyrr á öldum og höfuðból, og auk þess voru áður í Krýsuvíkurhverfinu 10—12 hjáleigur og smærri býli. Á þeim tíma var þarna allfjölmennt og fram undir 1600 var prestur í Krýsuvík.
Eftir það var Krýsuvíkurkirkja annexía frá Strönd í Selvogi, en síðar var kirkjunni þjónað frá Grindavík. Árið 1928 mun kirkjan hafa verið lögð niður, enda var þá aðeins fátt fólk eftir í sókninni. Munir og gripir kirkjunnar voru þá fluttir í Þjóðminjasafnið, en húsið, stendur ennþá. Árið 1901 eru taldar 42 sálir í Krýsuvíkursókn, og eru þá aðeins fimm bæir í byggð. Árið 1934 mun síðasti bóndinn hafa flutt úr byggðarlaginu. — Bjó hann í Nýjabæ og hafði verið þar bóndi um 40 ára skeið og komið upp 17 mannvænlegum börnum.
Bjó einn í kirkjunni
Byggð féll þó eigi niður í Krýsuvík fyrr en árið 1945. Síðasti íbúi Krýsuvíkur var Magnús Ólafsson. Hann kom 18 ára gamall sem vinnumaður til Árna sýslumanns Gíslasonar, sem flutti til Krýsuvíkur nokkru fyrir síðustu aldamót. Magnús ílentist svo í Krýsuvík, tók órjúfandi tryggð við staðinn og undi þar vel hag sínum, þótt aðrir flyttu brott. Síðustu árin bjó hann þar einn síns liðs með kindur sínar. Hafði hann íbúð í kirkjunni eftir að hún var lögð niður. 1945 veiktist Magnús, þá um eða yfir 70 ára að aldri, og var fluttur til Hafnarfjarðar. Með brottför hans var í bili lokið byggð í Krýsuvík.
Allgóðir landkostir og mikill jarðhiti
— En hvernig eru landkostir í Krýsuvík?
— Krýsuvíkurland má heita eina verulega gróðurlendið á Reykjanesskaga vestan línu, sem dregin er frá Hafnarfirði í Selvog. Samkvæmt mælingu Ásgeirs L. Jónssonar, ráðunauts, sem gerði ræktunarmælingar af landinu, er graslendi í Krýsuvík nálega 350 ha. að flatarmáli. Er þá ekki talið með gróðurlendi í hallandi hlíðardrögum, né heldur hálfgrónir melar, en það land skiptir vafalaust hundruðum ha.
Verulegur hluti hins mælda graslendis er mýrar og hálfdeigjur. Sums staðar er undirlagið mókennt, en annars staðar leirblandið. Þá er og jarðhiti allmikill í Krísuvík, þar á meðal stór gufu hver, sem ýmsir telja einn hinn hrikalegasta gufuhver í heimi.
Hafnarfjarðarbær hefur nýtt landnám í Krýsuvík
Krýsuvíkurland er, sem kunnugt er, eign Hafnarfjarðarbæjar. Hefir stjórnin í huga að hefja þarna nýtt landnám. — Er einkum rætt um tvennt: í fyrsta lagi ræktun alls konar matjurta og grænmetis í gróðurskálum við jarðhita. Í öðru lagi er áform að að stofna þar kúabú til mjólkurframleiðslu fyrir Hafnarfjörð, og hefir í því sambandi einkum verið rætt um framleiðslu barnamjólkur. Fleiri framkvæmdir munu og hafa komið til greina, en hér verður ekki um þær rætt.
Skilyrði til búskapar góð
— Hvernig telur þú skilyrði til búskapar þar?
— Þau má telja allgóð. Ræktanlegt land ætti að geta framfleytt um 300 kúm, án þess þó að nota að nokkru hugsanlega túnræktarmöguleika á melalandinu. Verulegur hluti af landi því, sem kortlagt hefir verið til ræktunar, verður að teljast fremur gott. Þá eru og sterkar líkur fyrir því, að hægt sé að fá geysimikinn jarðhita í Krýsuvík. Nú þegar mun mega staðhæfa, að hann sé nægur fyrir hendi til stórfelldrar gróðurskálaræktunar, súgþurrkunar á heyi og til hitunar íbúða þeirra, sem byggja verður vegna þeirrar starfsemi, sem að framan hefir verið greint frá.
Miklar framkvæmdir
Svo sem áður er sagt, eru ekki til staðar í Krýsuvík eldri mannvirki, sem nothæf eru, hvorki húsakostur né ræktað land. Hér verður því um að ræða hreint landnám frá rótum. Fyrirhugað ar framkvæmdir munu því verða einhver hin stórfelldustu og myndarlegustu átök til nýs landnáms, sem ennþá hafa verið gerð á landi á einum stað og af einum aðila. Verður hér um að ræða algera nýbyggð á landssvæði, sem komið var í fullkomna auðn og var áður heil kirkjusókn að stærð.
Fyrstu framkvæmdirnar í ræktunarátt hóf Hafnarfjarðarbær fyrir nokkrum árum með því að girða landið. Mun girðingin vera um 27 km. að lengd og landið innan hennar um 2000—2500 ha. að flatarmáli. Var girðingunni lokið 1946. Sama ár var hafizt handa um skurðgröft til þurrkunar á væntanlegu ræktunarlarlandi. Alls hafa nú verið grafnir opnir skurðir, sem eru liðlega 5,3 km. að lengd og eru samtals yfir 23 þús. teningsmetrar að rúmmáli.
Þá hefir og verið hafið nokkuð landbrot. Mun það nema nú nálægt 27 ha. að stærð, og er þar innifalinn meginhluti gömlu túnanna, en um ræktun og gróðurfar eru þau eðlilega litlu betri en úthaginn. Ekkert af þessu landi er þó fullunnið ennþá. Lokið er byggingu eins íbúðarhúss og hafin er bygging gróðurskála.
— En hvað er að segja um byggingarframkvæmdirnar?
— Eitt íbúðarhús hefir verið byggt og er það ca. 10×26 metrar að grunnstærð. Stendur það á melöldu norðaustan við Gestsstaðavatn, en þar í grennd hefir gróðurskálunum verið valinn staður. Í húsinu eru tvær rúmgóðar fjölskylduíbúðir auk geymslurúms og einstakra herbergja fyrir starfsfólk. — Húsið er hitað með gufu. Hús þetta er einkum ætlað fyrir væntanlegt starfsfólk gróðurhúsanna. Má að nú heita nær því fullgert. Á s.l. sumri flutti Óskar Sveinsson garðyrkjumaður í húsið með fjölskyldu sína. Munu þá hafa verið liðin tæp tvö ár frá því að Magnús Ólafsson, einbúinn, sem ég minntist á hér að framan, flutti alfarinn úr Krýsuvík.
Af öðrum byggingum má nefna skýli yfir 30 kw. dieselrafstöð, sem sett hefir verið upp.
Einnig 60 rúmmetra steyptan vatnsgeymi og dæluhús við Gestsstaðavatn, en þar er neyzlu vatnið tekið. Þá er hafin bygging tveggja gróðurskála um 600 fermetra að flatarmáli. Er það þriðjungur þeirra gróðurskála sem ráðgert hefir verið að byggja á næstunni. Var að því komið að steypa veggi gróðurhúsanna, þegar frostin hófust í desembermánuði s.l. Þá hefir verið lokið við vatnsleiðslu að íbúðarhúsinu, nokkrir vegarspottar lagðir og fleiri smærri framkvæmdir gerðar.
Framkvæmdir á þessu ári
Svo sem fyrr getur, hefir lítt eða ekki verið byrjað á þeim byggingum, sem væntanlegu kúabúi eru nauðsynlegar. Má þar til nefna, fjós, hlöðu, vot heysgryfjur og íbúðir starfsfólks o. fl. Að sjálfsögðu er aðkallandi að ljúka verulegum hluta af þessum byggingum á yfirstandandi ári og því næsta. Takist það, má telja nokkra von til að mjólkurframleiðsla geti byrjað í Krýsuvík seint á árinu 1949.
En svo sem kunnugt er, eru slíkar framkvæmdir bundnar fjárveitingarleyfi og allfrekar á erlent byggingarefni, en á því er nú mikill hörgull eins og allir vita. Verið er að vinna að þess um málum nú. En að þessu sinni verður ekkert um það sagt, hvernig afgreiðslu þeirra reiðir af. — Tíminn, 18. marz.
Heimild:
-Lögberg, 21. tbl. 20.05.1948, Stórfellt landnám í Krýsuvík á vegum Hafnarfjarðarbæjar – viðtal við Jens Hólmgeirsson, framkvæmdarstjóra, bls. 7.