Hvaleyri

Gísli Sigurðsson, blaðamaður, skrifaði grein í Morgunblaðið árið 2006 undir fyrirsögninni “Íhugunarefni á Hvaleyri“. Fjallaði hann þar m.a. um þær breytingar sem voru að verða á þessu af enu af elstu kennileitum Íslands.

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson.

“Hvaleyri skagar fram í flóann sunnan við Hafnarfjörð. Hvorttveggja er að þessi tangi er fyrir margt merkilegur, og svo hitt að hann er á útmörkum höfuðborgarsvæðisins; þangað er stutt að fara fyrir þá sem þar búa. Hvaleyri er sögulega merkileg vegna þess að hennar er getið í Landnámu, jafnvel áður en greint er frá landnámi Ingólfs Arnarsonar í Reykjavík. Þá hafði þar viðkomu Hrafna-Flóki Vilgerðarson, „víkingur mikill“ segir í Landnámu, og hafði hann áður haft vetursetu í Borgarfirði og þar áður í Vatnsfirði, þar sem hann fékk nóg af klakanum; skírði hann Ísland og sigldi til baka. Segir svo af komu þeirra félaga til Hafnarfjarðar: „Þeir fundu hval á eyri einni út frá firðinum og kölluðu þar Hvaleyri.“ Ekki er nefnt hvort þeir dvöldu þar lengur eða skemur áður en þeir sigldu áfram út til Noregs. Sú arfsögn lifði að þeir hefðu höggvið rúnir á klappir, sem enn sjást, og eru friðlýstar vestarlega á eyrinni. Hafði Jónas Hallgrímsson, skáld og náttúrufræðingur, heyrt af þeim og sá ástæðu til þess að koma við á Hvaleyri í rannsóknarleiðangri og teikna þær upp. Niðurstaða Jónasar var sú að þar væru skráð nöfn einhverra skipverja Hrafna-Flóka. Þessar fornu rúnir sjást enn, en þeim hefur verið spillt; meðal annars með því að síðari tíma menn hafa krotað upphafsstafi sína ofan í þær.

Hvaleyri

Hvaleyri – Flókavarða (minnismerki) fremst.

Gamlir Hafnfirðingar telja að þar hafi hermenn verið að verki, en Bretar reistu kamp á Hvaleyrinni og þar eru nokkrar herminjar sem enn sjást. Á klapparásnum þar sem rúnasteinarnir eru sjást á tveim stöðum, ef að er gáð, niðurgrafin vaktmannaskýli, að hluta steinsteypt og yfir þeim grófrifflað þak með braggalagi. Á norðvesturströndinni hafa fram til þessa verið leifar af byssustæði og á grýttu svæði sunnan á eyrinni má sjá tæplega hnédjúpa skotgröf. Þarna skyldi tekið á móti þýzka innrásarhernum, ef hann birtist, en þetta varnarmannvirki er eiginlega átakanlega aumlegt og hefði naumast orðið Bretunum mikið skjól. Annað sem heyrir undir herminjar er steinsteypt birgðaskemma; eina húsið á norðanverðri eyrinni.

Hvaleyri

Hvaleyri – herminjar.

Jarðfræðilega er Hvaleyri merkileg vegna þess að hún er syðsti hluti af geysistórum hraunstraumi, sem upp kom í Borgarhólum á Mosfellsheiði fyrir um 200 þúsund árum. Hraunið myndaði þá undirstöðu sem Reykjavík stendur á, en sú kvísl hraunsins sem lengst náði frá eldstöðinni rann í sjó fram sunnan við Hafnarfjörð og þá varð Hvaleyri til. Upphaflega gæti hún hafa náð langt út á flóa, þegar þess er gætt hversu mjög hefur kvarnast af henni í tíð núlifandi manna. Ugglaust hefur drjúg sneið horfið fyrir um 9 þúsund árum á skammvinnu jökulskeiði, sem hefur skilið eftir sig ummerki á klöppunum fyrrnefndu, þar sem djúpar rispur í veturátt vitna um mikið jökulfarg.
Sem dæmi um niðurbrotið má nefna að gamall Hafnfirðingur mundi eftir fjárhúsum um það bil 100 metrum norðan við ströndina eins og hún er nú. Neðantil er þetta hraunlag gljúpt eins og jafnan verður þegar hraun rennur út í sjó. Þar grefur brimaldan sig inn í undirstöðuna og síðan hrynur efri hlutinn. Sárt er að horfa á þetta án þess að nokuð sé að gert; til að mynda féll steinbogi fyrir fáeinum árum, sem stóð fram úr vesturenda Hvaleyrar.
Hvaleyri
Umræður um varanlega aðgerð til að koma í veg fyrir frekara niðurbrot hafa lengi staðið yfir. Hluta strandarinnar að norðanverðu var bjargað með stórgrýti og sú hugmynd hefur skotið upp kollinum að byggja upp slíkan kraga umhverfis tangann og þá jafnvel að á honum yrði vegur. En ljóst er að einhverjar björgunaraðgerðir mega ekki dragast úr hömlu.
Frameftir öldum voru mörg smákot á Hvaleyri; síðast stóðu þar eftir Hvaleyrarbærinn, Vesturkot, Hjörtskot og Sveinskot.

Hvaleyri

Hvaleyri – minjar.

Því miður eru fá ummerki eftir um búskapinn; þó vitna hlaðnir grjótgarðar um útmörk ræktunarlandsins og við 17. flötina á golfvellinum stendur enn hrútakofi eða eitthvert álíka fjárhús. Um 1966 fengu áhugamenn um golf augastað á landinu sem allt var ræktað og grasgefið; stofnuðu þar Golfklúbbinn Keili 1967 og hófust handa um golfvallarhönnun. Það er þessum brautryðjendum að þakka að Hvaleyrin er enn græn yfir að líta á sumardögum og bæjarprýði, en það stóð oft tæpt þegar sveitarstjórnarmenn og athafnamenn létu sig dreyma um vöruskemmur og annað álíka fagurt á svæðinu.
Hvaleyri
Á Hvaleyri hefur golfvöllur Keilis tekið ýmsum breytingum í áranna rás og nú er hann að hluta í hrauninu fyrir sunnan. Sem golfvallarland hefur Hvaleyri þann ókost að mishæðir skortir, en á móti kemur að þar festir sárasjaldan snjó til langframa og Keilisfélagar geta leikið allan veturinn þegar tíðarfar er eins og verið hefur að undanförnu. Þegar íþróttablaðamenn fjalla um golf nefna þeir æði oft Hvaleyrarholtsvöll. Það er rangt. Hvaleyrarholt heitir hæðin austan við golfvöllinn þar sem byggðin er. En völlurinn er einungis á Hvaleyri. Þeim sem ekki elta kúluna hvítu, en hafa hug á að ganga um Hvaleyri, skal bent á að bílastæði er við golfskálann.

Hvaleyri

Hvaleyri 2022.

Bezt er, og jafnframt áhugaverðast, að ganga meðfram ströndinni. Það gera margir og það þarf hvorki að vera hættulegt eða trufla leik golfara. En séu þeir að leik verður að hafa auga með þeim á ákveðnum stöðum og ef til vill verður þá að hinkra við, rétt til að draga andann og njóta útsýnis á meðan þeir slá, og ágætt er að spyrja þá hvar öruggast sé að fara. Sé það gert geta allir notið þess að rölta um með augun opin, finna angan úr fjöru, hlusta á klið fuglalífsins og íhuga herminjar og fornar rúnir.”

Heimild:
-Morgunblaðið, 29.11.2006, Íhugunarefni á Hvaleyri – Gísli Sigurðsson, bls. 20F.

Hvaleyri

Hvaleyri – túngarður.