Hafnarfjörður

Dvergasteinar eru margir á landinu. Má t.d. nefna Dvergastein við norðanverðan Seyðisfjörð. Niðri í fjöru þar við fjörðinn, neðan bæjar, er stór steinn, sem líkist húsi í lögun. Sagan segir, að þessi steinn og kirkja hafi staðið hlið við hlið sunnan fjarðar. Þegar kirkjan var flutt norður yfir, kom steinninn siglandi á eftir henni yfir fjörðinn. Annar Dvergasteinn er í Álftafirði fyrir Vestan. Og í Hafnarfirði eru a.m.k. tveir nafngreindir Dvergasteinar með sögu.

Dvergasteinn undir Hamrinum
Dvergasteinn-12“Á austanverðri grasflötinni milli Hafnarfjarðarkirkju og safnaðarheimilisins Strandbergs er steinn sem kallast Dvergasteinn. Þegar kirkjan var byggð árið 1914 fékk hann að standa óhaggaður. Stein þennan vill enginn hreyfa, því verði honum haggað munu hin huldu verndaröfl steinsins ekki láta þess óhengt. Stendur Dvergasteinn í skjóli kirkjunnar rétt neðan Hamarsins og lætur lítið yfir sér. Við þennan stein stóð húsið Dvergasteinn þar sem Emil Jónsson fyrrum bæjarstjóri og ráðherra fæddist og ólst upp.”
Dvergasteinninn er nú í öruggi skjóli kirkjunnar, en fyrir vikið er hann fáum kunnugur. Gera mætti þar bragarbót á, t.d. með merkingu (húsamynd) og setbekk til að setjast á í skjóli húsanna með útisýni til austurs þar sem húsið Dvergarsteinn stóð.

Dvergasteinn/Markaklettur við Merkurgötu
Dvergasteinn-13“Við Merkurgötu í Hafnarfirði þrengist vegurinn mjög við klett sem skagar út í götuna og uppúr klettinum stendur járnkarl pikkfastur. Munnmælasaga hermir að í kringum 1920 hafi staðið til að brjóta niður klettinn vegna húsbyggingar en að það hafi ekki gengið og að ástæðan væri sú að í klettinum byggi dvergur sem vildi ekki flytja.”
Dvergasteinninn við Merkurgötu er dæmigerður kletta er setja svip sinn á Hafnarfjörð (eða m.ö.o. sem bærinn tekur svip af innan gömlu byggðarinnar). Álfhóll er skammt sunnar. Honum tengjast álfasögur (sjá síðar).

Dvergasteinn

Dvergasteinn við Hafnarfjarðarkirkju.