Grindarskörð

Eftirfarandi upphafslýsing á ferð upp Grindarskörð birtist í Mbl. árið 1980. Lýsingin er betri en margar aðrar, sem birst hafa um þetta stórbrotna svæði í seinni tíð. Af frásögnum fólks virðist flest það, sem ætlaði að ganga hina sögufrægu Selvogsgötu, aldrei hafa ratað inn á hana, en samt talið sig hafa elt hana að Hlíð í Selvogi. Loks, í lok fróðleiksmolanna, er rifjað upp þjóðsögulegt örnefnaskýringarívaf og önnur skyld endurrituð úr  “safni alþýðlegra fræða íslenskra – Huld, 1890-1898.

Gata í Grindarskörðum

“Fyrr á tímum lá aðalleiðin milli Hafnarfjarðar og Selvogs, fyrir norðan Valahnúka, um Grindaskörð, Hvalskarð og þaðan til byggða í Selvogi. Í daglegu tali er þessi leið nefnd Selvogsgata. Hún er á ýmsan hátt torsótt. Meðfram henni er lítið sem ekkert vatn að finna, hún liggur að mestu um gróðurlaus brunahraun og í Grindaskörðum kemst hún í 400 m y.s. Með breyttum samgönguháttum lagðist umferð um Selvogsgötuna niður að mestu og hin síðari ár hefur verið lítið um mannaferðir í Grindaskörðum. Þó munu gangnamenn eiga þar leið um vor og haust, rjúpnaskyttum bregður fyrir á haustin í leit að bráð og svo kemur fyrir að einstaka göngumaður sé þar á flakki sér til gagns og ánægju.
Eins og sjá má á korti eru Grindaskörðin milli Lönguhlíðar og Kristjánsdalahorns. Þar eru þrír hnúkar sem heita Stóribolli, Tvíbollar (á kortinu nefndir Miðbollar) og Syðstubollar. Á þessu svæði öllu hefur verið mikil eldvirkni áður fyrr og eru Stóribolli og Tvíbollar gamlir gígar, sem hafa lagt til megnið af því hrauni, sem þekur svæðið fyrir norðan og vestan skörðin. Fyrir ferðamanninn eru Tvíbollar einna forvitnilegastir og þangð tökum við stefnuna. Þegar komið er upp á gígbarminn kemur í ljós að gígskálarnar eru tvær. Unnt er að ganga brúnirnar allan hringinn, en þó er nokkuð laust undir fæti á stöku stað.
Enginn hefur rannsakað þetta svæði betur er Jón Jónsson jarðfræðingur. Álit hans er að meginhluti þeirra hrauna, sem Í Völundarhúsinuþekja svæðið frá Grindaskörðum og norður að Undirhlíðum og Helgafelli, sé komið frá Stórabolla og Tvíbollum. Hann segir Stórabollahraunið eldra og liggi það víða undir Tvíbollahrauninu. Samkvæmt mælingum munu þessi hraun vera nokkurn veginn jafnstór, þekja um 18 ferkm. Hvort og vera um 0.36-0.37 km að rúmmáli. En þegar farið er að athuga aldur Tvíbollahrauns nokkru nánar, koma fram sterkar líkur til þess, að það hafi runnið eftir landnám norrænna manna hér á landi, því undir því hefur fundist á einum stað hið svokallaða landnámslag, en það er öskulag, sem talið er að sé frá því um 900.
Útsýnið af Bollunum er frábært í einu orði sagt. Hraunbreiðurnar til norðurs blasa við fyrir fótum manns, og gamla Selvogsgatan hlykkjast milli hraunhólanna í áttina að Valahnúkum. Og í einni sjónhending greinir maður byggðina á Innnesjunum, allt frá Hafnarfirði til Kjalarness. Og ekki spillir fjallasýnin með Snæfellsjökul sem útvörð í vesturátt. Þótt útsýnið til suðurs sé ekki eins tilkomumikið, hefur það samt glögga mynd af hinu gífurlega hraunhafi sem þekur þennan hluta Reykjanesskagans, enda telur Jón Jónsson að á sama tíma og Tvíbollahraunið rann, hafi á annan tug gíga við Grindaskörð og þar fyrir suðvestan, verið virkir.

Miðbolli

Þótt við höfum ekki farið lengra en upp í Grindaskörðin, er margt annað að sjá og skoða, sem athyglisvert er, þótt ekki hafi verið minnst á það hér. T.d. er margir fallegir og sérkennilegir hellar í hraununum fyrir norðan skörðin og má það nefna hellana í Dauðadölum og Kristjánsdölum.
Við höldum til baka sömu leið að bílnum. Það hallar undan fæti og leiðin sækist greitt. Og þá er gott að rifja upp stutta sögn úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar: “Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefur verið seint á Landnámstíð, því fjölbyggt hefur verið orðið syðra eftir þeirri sögn, að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall. Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í það skarð, sem farið er úr Grindavík og upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík”.
Þjóðsagan um Þóri haustmyrkur og örnefnið Grindarskörð birtist í Huld I, “skráð eptir sóknarlýsingu Jóns Vestmanns Drykkjarsteinn efst í Kerlingarskarðiá Vogsósum 1840″.
“Í mæli er að Þórir haustmyrkur, landnámsmaður í Selvogi og bóndi í Hlíð, hafi lagt veg yfir Grindarskörð; hafi þá verið svo mikill skógur yfir allt, að hann hafi sett raftagrind afberkta á skarðsbrúnina að vestanverðu, sem horfir til Hafnarfjarðar, til þess að fá rétt hitt á Skarðið, þegar ferð lá yfir fjallið. Skyldi því vegurinn og skarðið hafa fengið nafn af þessari grind. Rétt vestan við veginn er hnöttótt blásið fell, sem er nafn gefið, svo eg viti, en fyrir vestan fell þetta er Kerlingarskarð (sjá HÉR), líklega nefnt svo af skessu þeirri, sem mælt er að hafi búið í Stórkonugjá; er hún spölkorn fyrir austan vegin n, þegar komið er upp á Grindarskarða veg. Gjá þessi er víð og löng, víst yfir 200 faðma löng, en um dýpt hennar [er óvíst], því undir slátt eður miðsumar er hún ætíð barmafull af snjó. Annars er pláss þetta, eins og allur fjallgarðurinn vestanverður, efstu og fjærstu afréttarpláss Árnesinga.
Enn er sagt að Þórir haustmyrkur hafi eitt sinn gengið að geldingum sínum og séð til ferðar téðrar kerlingar, elti hana og náði [henni] á hæsta fjalla kjöl; bar hún þá fullbyrði af hval. Hann þóttist eiga hvalinn og vildi drepa hana, en hún beiddi sér griða, líklega óviðbúin, og keypti sig í frið við hann með því að lofa honum að láta sauði hans ekki renna vestur af fjalli, heldur halda þeim í hans eiginbyggðar högum. Heitir þar Hvalshnúkur, sem þau fundust, hár, ávalur [og] blásinn í sand og grjót. Liggur Grindarskarða vegur í skarðinu hjá þessum hnúk [og er það síðan nefnt] Hvalskarð.”

Vatnsból ofan Skarðanna

Fáir fara í dag um nefnd Grindarskörð. Selvogsgatan er í dag gengin, jafnvel undir leiðsögn, um fyrrnefnt Kerlingarskarð. Beggja vegna Grindaskarða eru tóftir, fyrrum skýli rjúpnaskytta. Undir Kerlingarskarði má sjá leifar af birgðastöð brennisteinsvinnslumanna í Brennisteinsfjöllum. Efst í skarðinu eru tveir drykkjarsteinar. Neðan þess eru nokkrir hellar – sumir allmyndarlegir.
Þótt færri fari nú um Grindarskörð er þar auðgegnari uppganga á suðurleið [austurleið] en um Kerlingarskarð (munar u.þ.b. 15 mín). Þéttar vörður ofan og vestan skarðsins leiða fólk ósjálfrátt inn á Hlíðarveg að Hlíðarskarði. Selvogsgatan er hins vegar austar. Gatnamót eru við vatnsból ofan skarðanna. Liggur gatan með hlíðum að Hvalskarði, um Hlíðardal og Strandardal að Strönd í Selvogi. Gatnamót eru undir brúnum Strandardals, vestan Svörtubjarga. Þaðan liggur Hlíðargata að hinu forna höfuðbóli Hlíð, bústað Þóris haustmyrkurs.
Sjá MYNDIR.

Heimildir m.a.:
-Mbl, júlí, 1980.
-Huld I, bls. 74-75.

Grindarskörð (t.v.), Stóribolli og Kerlingarskarð (t.h.)