Helgafell

Gestur Guðfinnsson skrifaði grein í Morgunblaðið árið 1967 um Helgafell og nágrenni:
“Það er með fjöllin eins og mannfólkið, manni geðjast vel að sumum, en miður að öðrum, og kemur sjálfsagt margt til. Svo kann jafnvel að fara, að mann langi til að hafa þau heim með sér í stofuna eða á ganginn, til að geta haft þau daglega fyrir augunum. Þannig var það með Helgafell þeirra Hafnfirðinga. Helgafell-991
Meiningin er að ræða svolítið um Helgafell og umhverfi þess í þessu greinarkorni. Þó er varla hægt að segja, að þetta sé neitt öndvegisfjall að útliti, og guð má vita, hvernig ég færi að útskýra ástæðurnar fyrir dálæti mínu á því, ef um það væri beðið. Ég hef aldrei hugsað út í það. Það er ekki einu sinni grasi gróið fyrr en niðri undir jafnsléttu, utan strá á stangli, sem enginn tekur eftir, nema kannski grasafræðingar og plöntusafnarar, en þeir fylgjast bezt með gróðurfarinu og beitilandinu ásamt blessaðri sauðkindinni. Annars veit ég ekki, hvort sauðkindin sést nokkurn tíma uppi á Helgafelli, það væri þá helzt, að hún færi þangað upp til að leggjast undir vörðuna og jórtra. Þar tökum við, flakkararnir, ævinlega upp nestisbitann, franskbrauð með áleggi eða annað þvíumlíkt, og drekkum hitabrúsakaffi framan í Þríhnúkunum og Kóngsfellinu og fílósóferum um landslagið og tilveruna.
helgafell-992Fjallaloftið örvar matarlystina og andríkið. Það er hvorki erfitt né tímafrekt að leggja leið sína á Helgafell.
Fært er á hvaða bíl sem er upp í Kaldársel og er venjulega ekið þangað, en þaðan er ekki mikið meira en kortersgangur að fellinu. Gönguferðin á fellið sjálft er heldur ekki mikið fyrirtæki, svo að nægur tími er að jafnaði afgangs til að skoða umhverfið í leiðinni.
Eins og ég sagði, er venjulega lagt upp frá Kaldárseli. Þar var áður sel, eins og nafnið bendir til, kennt við Kaldá, sem rennur meðfraim túnskikanum, en nú hefur K.F.U.M. og K. þar bækistöð fyrir sumarstarfsemi sína. Kaldá er ein af sérkennilegustu ám landsins að því leyti, að hún rennur ekki nema um kílómetra vegalengd ofanjarðar, sprettur upp í Kaldárbotnum rétt ofan við selið og rennur síðan spölkorn vestur eftir, en hverfur svo í hraunið og sést ekki meir.

Kaldá

Kaldá.

Sú var löngum trú manna, að Kaldá hefði fyrrum verið eitthvert mesta vatnsfall á Íslandi og átt upptök sín í Þingvallavatni, en runnið í sjó fram á Reykjanesskaga. Er þess m. a. getið í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. „Hún skal hafa runnið fyrir norðan og vestan Hengil og ofan þar sem nú er Fóelluvötn og svo suður með hlíðum og í sjó á Reykjanesi. Er sagt að hún komi upp í Reykjanesröst.” Um hvarf Kaldár fer þrennum sögum. Sú fyrsta er á þá leið, „að karl nokkur sem var kraftaskáld missti í hana tvo sonu sína og kvað hana niður.” Önnur að hún hafi horfið í eldgangi á Reykjanesskaga, þegar „einn eldur var ofan úr Hengli út í sjó á Reykjanesi.” Loks var þriðja skýringin, að Ingólfur kallinn landnámsmaður „hafi grafið Soginu farveg gegnum Grafningsháls eða rana úr honum og hafi þá Þingvallavatn fengið þar útfall, en Kaldá þverrað.” Af því skyldi svo Grafningsheitið dregið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Við meiri rök kynni að styðjast sú tilgáta, að Kleifarvatn hafi afrennsli að einhverju eða öllu leyti norður í Kaldá, en um það verður þó ekkert fullyrt að svo stöddu. Umhverfið meðfram Kaldá er geðþekkt, grasbakkar og hraunlendi, og snoturt er í Kaldárseli. Í Kaldá sækja Hafnfirðingar neyzluvatn sitt og þykir gott vatnsból.
Skammt norður af Kaldárseli er grasi gróið dalverpi með dálitlu vatni eða tjörn og heitir Helgadalur.

Helgadalur

Helgadalur – Vormót skáta 1954.

Þar halda hafnfirzkir skátar mót sín og margir Hafnfirðingar fara þangað um helgar og tjalda.
Eins og ég gat um, þá er Helgafell aðeins spölkorn frá Kaldárseli og blasir við, þegar þangað er komið. Það er móbergsstapi, sennilega orðinn til á ísöld við eldgos undir jökli. Móbergið er víða lagskipt og sérkennilega sorfið af veðrum og vindum í þúsundir ára og hefur sjálfsagt tekið miklum stakkaskiptum frá þvi sem það var í sinni upphaflegu mynd.

Það breytist margt á skemmri tíma en árþúsundum. Núna er það um 340 m yfir sjávarmál og ekki mikið um sig, svo það getur hvorki státað af stærðinni eða hæðinni.

Helgafell

Helgafell – úsýni til Hafnarfjarðar.

Samt er töluvert útsýni af kollinum á því, vegna þess hvað rúmt er um það og engin fjöll í næsta nágrenni, sem skyggja á.

Helgafell

Riddarinn á Helgafelli. Kóngsfell (Konungsfell) og Tví-Bollar fjær (Grindarskörð v.m. og Kerlingarskarð h.m.).

Ég sé þó ekki ástæðu til að fara að tíunda hvert fjall, sem sést af Helgafelli, enda yrði lítið á því að græða. En mörgum þykir umhverfið og útsýnið vel brúklegt, það held ég sé óhætt að bóka.
skulatun-990Suður frá Helgafelli heitir Skúlatúnshraun. Í því hattar á einum stað fyrir grænum bletti að sumarlagi, óbrennishólma, sem nefnist Skúlatún. Í Skúlatúnshrauni er líka Gullkistugjá, löng og djúp, og varasöm í myrkri, hún liggur í suðvestur frá Helgafelli. Annars er Helgafell meira og minna umkringt eldstöðvum hvert sem litið er, það rís eins og bergkastali upp úr mosagróinni hraunbreiðunni, sem runnið hefur í mörgum gosum og á ýmsum tímum, þar þar skráður merkilegur kafli í jarðeldasögu suðurkjálkans og einn sá nýlegasti.

Tröllin á Valahnúkum

Tröllin á Valahnúkum.

Rétt norðan við Helgafell eru lágir móbergsihnúkar, tvö hundruð metra yfir sjávarmál og einum betur, svokallaðir Valahnúkar. Í þeim norðanverðum er dálítill hraunskúti, sem Farfuglar hafa um alllangt skeið helgað sér og kalla Valaból. Áður hét skútinn Músarhellir og var gangnamannaból. Farfuglar hafa afgirt þarna dálítið svæði og prýtt á ýmsa lund, m.a. með trjám og blómum, en auk þess vaxa innan girðingarinnar hátt upp í 100 tegundir íslenzkra villijurta. Skútann sjálfan notuðu Farfuglar lengi sem gististað, settu í hann fjalagólf og glugga og hurð fyrir dyrnar, einnig áhöld og hitunartæki, en erfitt hefur reynzt að halda þessu í horfi, og í seinni tíð er gestabókin það markverðasta í skútanum í Valabóli, enda eiga fáir þar næturstað núorðið.
musahellir-990Einhverjar draugasögur hef ég heyrt úr Valabóli eða Músarhelli, en ég er víst búinn að gleyma þeim öllum. Hins vegar veit ég, að ýmsir höfðu mætur á gistingu í þessari fátæklegu vistarveru, og í Farfuglinum ségir af einum slíkum, sem lagði leið sína þangað á aðfangadagskvöld jóla einn síns liðs og átti þar dýrlega nótt ásamt tveim mýslum, sem líklega hafa átt þar heima. Bendir það ekki til drauma eða reimleika á staðnum, hvað sem fyrr kann að hafa gerzt í Valabóli.
Valaból er vinalegt og vel hirt og ætti enginn að fara þar hjá garði án þess að heilsa upp á staðinn, og það eins þótt húsráðendur séu ekki heima. En að sjálfsögðu ber að ganga þar vel um eins og annars staðar.
Fast norðan við Valahnúk um Mygludali lá Grindaskarðavegur inn gamli milli Hafnarfjarðar og Selvogs, sem er alllögn leið og yfir fjöll að fara. Sú leið mun þó talsvert hafa verið farin fyrr á tímum bæði gangandi og á hestum. Sjást þar enn „í hellum hófaförin” í götunni yfir hraunið.

Valahnúkar

Gengið um Valahnúka.

Á síðustu árum hefur verið klöngrazt á jeppum frá Valabóli upp í Grindaskörð eftir gömlu troðningunum, en tæpast er hægt að mæla með þeirri leið sem akvegi, enda miklu greiðfærari leið meðfram Lönguhlíð og þó ekki nema fyrir jeppa og aðra fjallabíla.
Norðaustur af Valhnúkum er kollótt móbergsfell, Húsfell (278 m), en í norður Búrfell (179 m). Búrfell er í raun og veru gíglhóll, sem mikil hraun hafa úr runnið, m.a. Garðahraun og Hafnarfjarðarhraun, og liggja heljarmiklar eldtraðir frá gígnum, þar sem hraunið hefur runnið og er það hin fræga Búrefllsgjá. Þarna í nágrenninu eru líka nokkrir skoðunarverðir hellar, eflaust gamlir eldfarvegir.

Búrfell

Búrfell.

Norður af Búrfelli taka svo við Búrfellsdalir, en síðan Löngubrekkur, Tungur og Hjallar í Heiðmörk, sem naumast þarf að kynna, a.m.k. ekki fyrir Reykvíkingum. Eitt er vert að minnast á áður en sleginn er botninn í þetta spjall, en það er nafnið á fellinu.

Breiðdalur

Breiðdalur – Helgafell fjær.

Helgafell eru nokkuð mörg á landinu. Ekki eru allir á einu máli um hvernig nafnið sé til orðið. Sumir telja það dregið af fornum átrúnaði og ráða það m. a. af frásögn Eyrbyggju um Helgafell í Þórsnesi, sem segir, að Þórsnesingar höfðu mikla helgi á fjallinu og trúðu að þeir mundu deyja í fjallið. Engin slík saga mun þó til um Helgafell það, er hér um ræðir. Fleiri skýringar á uppruna nafnsins hafa skotið upp kollinum, þótt ekki verði hér raktar.”

Heimild:
-Morgunblaðið, 4. maí 1967, bls. 10.

Helgafell

Helgafell.