Færslur

Helgafell

Eftirfarandi grein birtist í Mbl 4. febrúar árið 2001.
Kaldárbotnar“Helgafell í landi Hafnarfjarðar lætur frekar lítið yfir sér, en upp á það eru nokkrar skemmtilegar gönguleiðir. Útsýnið af því kom einnig Regínu Hreinsdóttur á óvart.
VIÐ hefjum gönguna við vatnsból Hafnfirðinga í Kaldárbotnum. Nokkrar skemmtilegar uppgönguleiðir eru á Helgafellið bæði að sunnan- og norðanverðu. Auðveldast er þó að ganga upp að norðaustanverðu, þar sem brattinn er minnstur og það gerum við í þetta skipti. Fyrir þá sem ekki hyggja á fjallgöngu er einnig vel þess virði að ganga kringum fellið og heilsa upp á riddarann, móbergsstrýtuna sunnan á háfjallinu.
Kynjamyndir í Riddarinnmóbergi Fellið er skriðurunnið þar sem uppgangan hefst en ofar hefur lausagrjótið sópast burt og í ljós koma ýmsar kynjamyndir sem vindurinn hefur verið að dunda sér við að sverfa í móbergið, síðan jökla leysti. Þarna er hægt að gleyma sér lengi dags við að dást að listasmíð náttúrunnar, allskonar öldumynstri, skálum, örþunnum eggjum og andlitsdráttum trölla og álfa ef vel er að gáð. Landslagið er sumstaðar svo framandi að allt í einu læðist kannski að manni að einhvern veginn hafi maður í ógáti lent á tunglinu.

Helgafell

Nyrsti gígurinn í gígröð Ögmundarhrauns vestan Helgafells.

Hraunflæmið sem blasir við allt í kring vekur einnig ósjálfrátt til umhugsunar um hversu kraftmikil öfl eru að verki í náttúrunni. Síðasti hluti leiðarinnar er brattastur og nokkuð skriðurunninn og betra er að hafa varann á sér svo manni skriki ekki fótur í lausagrjótinu.

Músarhellir og farfuglar
TröllAf toppi fellsins sér vel til allra átta. Bláfjöll, Langahlíð, Sveifluhálsinn, Keilir og Búrfellsgjá eru meðal kunnugra kennileita sem standa upp úr hrauninu auk þess sem vel sést yfir höfuðborgarsvæðið.
Þegar við höfum horft nægju okkar að þessu sinni, og skrifað í gestabókina, höldum við aftur sömu leið til baka. Þegar niður er komið er upplagt að koma við í Valabóli norðaustan í Valahnúkum, en þar er skjólsæl vin í eyðimörkinni sem Bandalag íslenskra farfugla hóf að rækta upp 1942.

Valaból

Valaból – Músarhellir.

Innan uppgræðslusvæðisins er hellirinn Músarhellir sem notaður var af gangnamönnum allt til aldamótanna 1900 og þar gerðu farfuglar sér hreiður, ef svo mætti að orði komast og notuðu sem gististað á ferðum
sínum. Þetta er einnig vinsæll áningarstaður þeirra sem ganga Selvogsgötuna.

Kyrrðin áhrifamikil
VeðrunEftir skruðninginn í smásteinum í göngunni á Helgafellið verður kyrrðin sem ríkir í Valabóli enn áhrifameiri. Þar er eins og löngu liðnir atburðir liggi í loftinu og blærinn reyni að hvísla að manni gleymdum sögum. Ef við ákveðum ekki hér og nú að gerast útilegumenn og setjast að í þessum sælureit, skulum við halda förinni áfram meðfram Valahnúkunum. Þá getum við annars vegar valið að fara sömu megin við vatnsbólið og við komum eða tekið stefnuna á Helgadal þar sem við gætum rekist á hraunhella sem gaman er að skoða. Það er svo um að gera að nota heimferðina til að spá í hvaða uppgönguleið ætti að velja á Helgafellið í næsta skipti.”

Heimildir:
-Gönguleiðir á Íslandi, Reykjanesskagi. Einar Þ. Guðjohnsen 1996.
-Árbók 1984, Ferðafélag Íslands.
-Mbl 4. febrúar 2001, blaðsíða 3.

Helgafell

Helgafell og nágrenni – örnefni og leiðir – ÓSÁ.

Húsfell

Farin var fjögurra fjalla för ofan Hafnarfjarðar.
Lagt var stað frá Kaldárseli og gengin S-slóðin á Helgafell. Þetta er Hrafnlangeinfaldasta og þægilegasta gönguleiðin á fellið, sem æ fleirum virðist vera orðin kunn.
Haldið var niður að að norðanverðu og gengið að tröllunum þremur á Valahnúk. Þau böðuðu sig í sólinni og ekki var laust við að kerlinginn sæist blikka öðru auga. Kannski var það bara sólargeisli. Undir karlinum kúrði lítill fallegur úlfhundur. Eigandinn var skammt undan.
Gengið var stysta leið af Valahnúkum, með Víghól sunnanverðum og á Húsfell. Í leiðinni var komið við vestan undir fellinu til að líta á hrafnslaup, sem Haukur Ólafsson hafði rekið augun í er hann var þar á göngu nýlega. Hrafnarnir sveimuðu yfir, settust, hoppuðu og krunkuðu. Þeir virtust óánægðir með gestaganginn. Þegar gengið var svo til alveg að laupnum létu þeir enda öllum illum látum svo undirtók í fellinu.

Búrfellsgjá

Í Búrfellsgjá.

Frá Húsfelli var gengið hiklaust norður að Búrfelli, upp á gígbarminn og eftir honum til vesturs. Gígbarmurinn speglaðist fallega í kvöldsólinni.
Gengið var niður um hrauntröðina og síðan Mosana til baka í Kaldársel.

Gangan tók nákvæmlega fjóra stundarfjórðunga. Veður var frábært – sól og logn.

Tröllin á Valahnúkum

Tröllin á Valahnúkum.

Ásfjall

Útsýnisskífan á Ásfjalli átti sér langa sögu eins og segir í 50 ára afmælisriti Rotaryklúbbsins. Þegar hún var komin á sinn stað og vígsluathöfn hafði farið fram 26. júní 1987 voru fimmtán ár liðin frá því að fyrst var rætt um það í klúbbnum að hann ætti að beita sér fyrir því að koma upp útsýnisskífu á Ásfjalli. Málinu var hreyft öðru hvoru en úr framkvæmdum varð ekki fyrr en þetta ár að forseti klúbbsins, Steingrímur Atlason, fékk nokkra vaska drengi í lið með sér og verkið var unnið.

Ásfjall

Frá vígslunni.

Frá vígslu á útsýnisskífunni á Ásfjalli. Þessir félagar voru auk forsetans: Jón Bergsson og Sigurbjörn Kristinsson, Gísli Guðmundsson, Hjalti Jóhannsson, Einar Ágústsson og Gunnar Hjaltason. Gunnar heitinn Ágústsson hafði einnig liðsinnt í þessum efnum. Lögðu þeir allir fram góð ráð, mikla vinnu og fagþekkingu án þess að ætlast til launa.

Útlagður kostnaður við verkið varð þó um 100 þúsund krónur og kom í hlut klúbbsins að greiða hann. Loks stóðu 14 manns á Ásfjalli við vígslu skífunnar 26. júní 1987.

Steingrímur Atlason

Steingrímur Atlason.

Forseti og Jón Bergsson röktu sögu framkvæmda og veðurguðir sáu um hressilega vatnsskírn því að regn bókstaflega hvolfdist úr loftinu.

Vígsluskálina hafði forseti í fórum sínum og þótti mönnum ekki vanþörf á. Þegar menn bergðu á veigunum reyndust þær vera íslensk mysa. Sló þá þögn á mannskapinn! – um stund.

Útsýnisskífan er efst á Ásfjalli, skammt austan við endurhlaðna vörðuna.

Heimild:
-http://gamli.rotary.is/rotaryklubbar/island/hafnarfjordur/verkefni/utsynisskifa/
-Ljósmyndir; Gísli Jónsson.

Ásfjall

Ásfjall – uppdráttur ÓSÁ.

Helgafell

Gestur Guðfinnsson skrifaði grein í Morgunblaðið árið 1967 um Helgafell og nágrenni:
“Það er með fjöllin eins og mannfólkið, manni geðjast vel að sumum, en miður að öðrum, og kemur sjálfsagt margt til. Svo kann jafnvel að fara, að mann langi til að hafa þau heim með sér í stofuna eða á ganginn, til að geta haft þau daglega fyrir augunum. Þannig var það með Helgafell þeirra Hafnfirðinga. Helgafell-991
Meiningin er að ræða svolítið um Helgafell og umhverfi þess í þessu greinarkorni. Þó er varla hægt að segja, að þetta sé neitt öndvegisfjall að útliti, og guð má vita, hvernig ég færi að útskýra ástæðurnar fyrir dálæti mínu á því, ef um það væri beðið. Ég hef aldrei hugsað út í það. Það er ekki einu sinni grasi gróið fyrr en niðri undir jafnsléttu, utan strá á stangli, sem enginn tekur eftir, nema kannski grasafræðingar og plöntusafnarar, en þeir fylgjast bezt með gróðurfarinu og beitilandinu ásamt blessaðri sauðkindinni. Annars veit ég ekki, hvort sauðkindin sést nokkurn tíma uppi á Helgafelli, það væri þá helzt, að hún færi þangað upp til að leggjast undir vörðuna og jórtra. Þar tökum við, flakkararnir, ævinlega upp nestisbitann, franskbrauð með áleggi eða annað þvíumlíkt, og drekkum hitabrúsakaffi framan í Þríhnúkunum og Kóngsfellinu og fílósóferum um landslagið og tilveruna.
helgafell-992Fjallaloftið örvar matarlystina og andríkið. Það er hvorki erfitt né tímafrekt að leggja leið sína á Helgafell.
Fært er á hvaða bíl sem er upp í Kaldársel og er venjulega ekið þangað, en þaðan er ekki mikið meira en kortersgangur að fellinu. Gönguferðin á fellið sjálft er heldur ekki mikið fyrirtæki, svo að nægur tími er að jafnaði afgangs til að skoða umhverfið í leiðinni.
Eins og ég sagði, er venjulega lagt upp frá Kaldárseli. Þar var áður sel, eins og nafnið bendir til, kennt við Kaldá, sem rennur meðfraim túnskikanum, en nú hefur K.F.U.M. og K. þar bækistöð fyrir sumarstarfsemi sína. Kaldá er ein af sérkennilegustu ám landsins að því leyti, að hún rennur ekki nema um kílómetra vegalengd ofanjarðar, sprettur upp í Kaldárbotnum rétt ofan við selið og rennur síðan spölkorn vestur eftir, en hverfur svo í hraunið og sést ekki meir.

Kaldá

Kaldá.

Sú var löngum trú manna, að Kaldá hefði fyrrum verið eitthvert mesta vatnsfall á Íslandi og átt upptök sín í Þingvallavatni, en runnið í sjó fram á Reykjanesskaga. Er þess m. a. getið í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. „Hún skal hafa runnið fyrir norðan og vestan Hengil og ofan þar sem nú er Fóelluvötn og svo suður með hlíðum og í sjó á Reykjanesi. Er sagt að hún komi upp í Reykjanesröst.” Um hvarf Kaldár fer þrennum sögum. Sú fyrsta er á þá leið, „að karl nokkur sem var kraftaskáld missti í hana tvo sonu sína og kvað hana niður.” Önnur að hún hafi horfið í eldgangi á Reykjanesskaga, þegar „einn eldur var ofan úr Hengli út í sjó á Reykjanesi.” Loks var þriðja skýringin, að Ingólfur kallinn landnámsmaður „hafi grafið Soginu farveg gegnum Grafningsháls eða rana úr honum og hafi þá Þingvallavatn fengið þar útfall, en Kaldá þverrað.” Af því skyldi svo Grafningsheitið dregið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Við meiri rök kynni að styðjast sú tilgáta, að Kleifarvatn hafi afrennsli að einhverju eða öllu leyti norður í Kaldá, en um það verður þó ekkert fullyrt að svo stöddu. Umhverfið meðfram Kaldá er geðþekkt, grasbakkar og hraunlendi, og snoturt er í Kaldárseli. Í Kaldá sækja Hafnfirðingar neyzluvatn sitt og þykir gott vatnsból.
Skammt norður af Kaldárseli er grasi gróið dalverpi með dálitlu vatni eða tjörn og heitir Helgadalur.

Helgadalur

Helgadalur – Vormót skáta 1954.

Þar halda hafnfirzkir skátar mót sín og margir Hafnfirðingar fara þangað um helgar og tjalda.
Eins og ég gat um, þá er Helgafell aðeins spölkorn frá Kaldárseli og blasir við, þegar þangað er komið. Það er móbergsstapi, sennilega orðinn til á ísöld við eldgos undir jökli. Móbergið er víða lagskipt og sérkennilega sorfið af veðrum og vindum í þúsundir ára og hefur sjálfsagt tekið miklum stakkaskiptum frá þvi sem það var í sinni upphaflegu mynd.

Það breytist margt á skemmri tíma en árþúsundum. Núna er það um 340 m yfir sjávarmál og ekki mikið um sig, svo það getur hvorki státað af stærðinni eða hæðinni.

Helgafell

Helgafell – úsýni til Hafnarfjarðar.

Samt er töluvert útsýni af kollinum á því, vegna þess hvað rúmt er um það og engin fjöll í næsta nágrenni, sem skyggja á.

Helgafell

Riddarinn á Helgafelli. Kóngsfell (Konungsfell) og Tví-Bollar fjær (Grindarskörð v.m. og Kerlingarskarð h.m.).

Ég sé þó ekki ástæðu til að fara að tíunda hvert fjall, sem sést af Helgafelli, enda yrði lítið á því að græða. En mörgum þykir umhverfið og útsýnið vel brúklegt, það held ég sé óhætt að bóka.
skulatun-990Suður frá Helgafelli heitir Skúlatúnshraun. Í því hattar á einum stað fyrir grænum bletti að sumarlagi, óbrennishólma, sem nefnist Skúlatún. Í Skúlatúnshrauni er líka Gullkistugjá, löng og djúp, og varasöm í myrkri, hún liggur í suðvestur frá Helgafelli. Annars er Helgafell meira og minna umkringt eldstöðvum hvert sem litið er, það rís eins og bergkastali upp úr mosagróinni hraunbreiðunni, sem runnið hefur í mörgum gosum og á ýmsum tímum, þar þar skráður merkilegur kafli í jarðeldasögu suðurkjálkans og einn sá nýlegasti.

Tröllin á Valahnúkum

Tröllin á Valahnúkum.

Rétt norðan við Helgafell eru lágir móbergsihnúkar, tvö hundruð metra yfir sjávarmál og einum betur, svokallaðir Valahnúkar. Í þeim norðanverðum er dálítill hraunskúti, sem Farfuglar hafa um alllangt skeið helgað sér og kalla Valaból. Áður hét skútinn Músarhellir og var gangnamannaból. Farfuglar hafa afgirt þarna dálítið svæði og prýtt á ýmsa lund, m.a. með trjám og blómum, en auk þess vaxa innan girðingarinnar hátt upp í 100 tegundir íslenzkra villijurta. Skútann sjálfan notuðu Farfuglar lengi sem gististað, settu í hann fjalagólf og glugga og hurð fyrir dyrnar, einnig áhöld og hitunartæki, en erfitt hefur reynzt að halda þessu í horfi, og í seinni tíð er gestabókin það markverðasta í skútanum í Valabóli, enda eiga fáir þar næturstað núorðið.
musahellir-990Einhverjar draugasögur hef ég heyrt úr Valabóli eða Músarhelli, en ég er víst búinn að gleyma þeim öllum. Hins vegar veit ég, að ýmsir höfðu mætur á gistingu í þessari fátæklegu vistarveru, og í Farfuglinum ségir af einum slíkum, sem lagði leið sína þangað á aðfangadagskvöld jóla einn síns liðs og átti þar dýrlega nótt ásamt tveim mýslum, sem líklega hafa átt þar heima. Bendir það ekki til drauma eða reimleika á staðnum, hvað sem fyrr kann að hafa gerzt í Valabóli.
Valaból er vinalegt og vel hirt og ætti enginn að fara þar hjá garði án þess að heilsa upp á staðinn, og það eins þótt húsráðendur séu ekki heima. En að sjálfsögðu ber að ganga þar vel um eins og annars staðar.
Fast norðan við Valahnúk um Mygludali lá Grindaskarðavegur inn gamli milli Hafnarfjarðar og Selvogs, sem er alllögn leið og yfir fjöll að fara. Sú leið mun þó talsvert hafa verið farin fyrr á tímum bæði gangandi og á hestum. Sjást þar enn „í hellum hófaförin” í götunni yfir hraunið.

Valahnúkar

Gengið um Valahnúka.

Á síðustu árum hefur verið klöngrazt á jeppum frá Valabóli upp í Grindaskörð eftir gömlu troðningunum, en tæpast er hægt að mæla með þeirri leið sem akvegi, enda miklu greiðfærari leið meðfram Lönguhlíð og þó ekki nema fyrir jeppa og aðra fjallabíla.
Norðaustur af Valhnúkum er kollótt móbergsfell, Húsfell (278 m), en í norður Búrfell (179 m). Búrfell er í raun og veru gíglhóll, sem mikil hraun hafa úr runnið, m.a. Garðahraun og Hafnarfjarðarhraun, og liggja heljarmiklar eldtraðir frá gígnum, þar sem hraunið hefur runnið og er það hin fræga Búrefllsgjá. Þarna í nágrenninu eru líka nokkrir skoðunarverðir hellar, eflaust gamlir eldfarvegir.

Búrfell

Búrfell.

Norður af Búrfelli taka svo við Búrfellsdalir, en síðan Löngubrekkur, Tungur og Hjallar í Heiðmörk, sem naumast þarf að kynna, a.m.k. ekki fyrir Reykvíkingum. Eitt er vert að minnast á áður en sleginn er botninn í þetta spjall, en það er nafnið á fellinu.

Breiðdalur

Breiðdalur – Helgafell fjær.

Helgafell eru nokkuð mörg á landinu. Ekki eru allir á einu máli um hvernig nafnið sé til orðið. Sumir telja það dregið af fornum átrúnaði og ráða það m. a. af frásögn Eyrbyggju um Helgafell í Þórsnesi, sem segir, að Þórsnesingar höfðu mikla helgi á fjallinu og trúðu að þeir mundu deyja í fjallið. Engin slík saga mun þó til um Helgafell það, er hér um ræðir. Fleiri skýringar á uppruna nafnsins hafa skotið upp kollinum, þótt ekki verði hér raktar.”

Heimild:
-Morgunblaðið, 4. maí 1967, bls. 10.

Helgafell

Helgafell.

Valahnúkar

Gengið var norður gömlu Selvogsgötuna frá Bláfjallavegi neðan Grindarskarða. Selvogsgata er gömul leið á milli Hafnarfjarðar og Selvogs.

Selvogsgata

Selvogsgata á Hellunum.

Haldið var niður Hellurnar þar sem gatan er klöppuð í bergið á kafla undan fótum, klaufum og hófum liðinna alda. Litið var á Strandartorfur (Kaplatóur) og gengið um Mygludali að Valabóli þar sem áð var í Músarhelli. Loks var götunni fylgt niður í Helgadal með viðkomu í Rauðshelli og stefnan tekin þaðan að Kaldárseli.
Í jarðfræðilegu tilliti er Reykjanesskaginn mjög merkilegur. Hann er hluti af Atlandshafshryggnum mikla, sem liggur um þvert Ísland og er eini staðurinn þar sem hægt er að skoða hann ofansjávar. Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanesskaga síðan land byggðist. Það nýjasta sennilega á 14. öld. Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12-15 þúsund árum, hafa um 200 eldstöðvar á fjórum eldstöðvarkerfum, verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni, sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landssvæði. Má þar á meðal finna allar helstu gerðir íslenskra eldstöðva.

Selvogsgata

Gengið um Selvogsgötu.

Þar sem staðið er á upphafsstaðnum við Bláfjallaveg má sjá þessa virkni “ljóslifandi”. Þegar horft er upp í Bollana (Stórabolla, Miðbolla og Syðstubolla), má sjá hvernig hlíðin, sem þeir eru á, hefur opnast og hraunið runnið niður þá í stríðum straumum. Miðbolli er einstaklega fallegur hraungígur. Utan í honum eru tvö önnur gígop og síðan fleiri í hlíðinni norðan hans. Frá honum má sjá fallegar hrauntraðir og í þeim eru nokkir fallegir hellar. Langahlíð, Dauðadalir og Lönguhlíðarhorn eru á hægri hönd en Kristjánsdalir og Kristjánsdalahorn á þá vinstri.

Grindarskörð

Grindarskörð og nágrenni.

Selvogsgatan lá áfram upp um Grindarskörð austan Stórabolla og áfram niður með Litla-Kóngsfelli, um Hvalskarð og niður í Selvog. Einnig liggur gata, vel vörðuð upp Kerlingargil milli Miðbola og Syðstubolla. Ofan þeirra eru gatnamót. Frá þeim liggur Hlíðarvegur niður að Hlíðarskarði fyrir ofan Hlíð við Hlíðarvatn, þar sem Þórir haustmyrkur er talinn hafa búið við upphaf byggðar. Grindarskörð eru nefnd svo vegna þess að Þórir þessi á að hafa gert þar grindur til að varna því að fé hans leitaði norður og niður hlíðarnar.

Grindarskörð

Grindarskörð.

Selvogsgatan liggur niður Hellurnar um Húsfellsbruna sem eru ágætlega greiðfær, allt suður að hálendinu. Þarna má sjá nokkur hraun, bæði slett helluhran og úfin apalhraun. Austast er hrikalegt Rjúpnadalahraunið úr Drottningu og vestast má sjá Tvíbollahraunið.

Framundan sést Helgafell (vinstra megin – 340 m.y.s) og Húsfell (hægra megin – 278 m.y.s)). Milli þeirra eru Valahnúkar (201 m.y.s). Á þeim trjóna tröllin hæst. Segir sagan að þau hafi verið á leið í Selvog, en orðið sein fyrir og ekki verið komin lengra er sólin reis í austri, ofan við Grindarskörðin. Varð það til þess að þau urðu að steini og standa þarna enn.

Selvogsgata

Selvogsgata – varða.

Helgafellið er eitt af sjö samnefndum fjöllum á landinu. Þau eru t.d. í Mosfellssveit, vestmannaeyjum, Dýrafirði og Þórsnesi á Snæfellsnesi. Hugsanlega er nafnið tengt lögun þessara fjalla, en þau eru að minnsta kosti sum hver regluleg eða heilleg að útliti. Af einhverjum ástæðum var talin helgi á Helgafelli á Snæfellsnesi. Orðið helgur er samandregin mynd úr heilagur, sem er skylt orðinu heill. Örnefni með Helga- að fyrra lið geta einnig verið dregin af mannsnafninu Helgi.

Búrfell

Búrfell og Kringlóttagjá.

Búrfellið (179 m.y.s) er neðan við Húsfellið. Frá Búrfelli rann hraun það sem Hafnarfjörður stendur að hluta til á fyrir um það bil 7200 árum. Hrauntröðin frá fellinu er ein sú stærsta á landinu, Búrfellsgjá.
Gengið var í gegnum Mygludali, en undir þeim er talið vera eitt mesta ferskvatnsmagn á svæðinu. Dalurinn er talinn hafa verið nefndur eftir hryssu Ingólfs Arnarssonar, Myglu, en aðrir telja að nafnið sé til komið vegna myglu er leggst yfir dalinn er líða tekur á sumarið.

Valaból

Í Valabóli.

Litið var við í Valabóli norðaustan í Valahnjúkum. Þar er Músarhellir sem áður var notaður sem áningastaður en síðar sem gististaður Farfugla eftir að þeir girtu staðinn og ræktuðu upp gróðurvin í kringum hann. Fleiri hellar eru hér austur í hrauninu og reyndar víða á þessu svæði.

Að því búnu var haldið að opi Fosshellis og hann þræddur undir sauðfjárveikigirðinguna. Kíkt var á op Hundraðmetrahellis austan Helgadals og síðan á stekki norðaustan við Rauðshelli. Þá var haldið í hellinn og hann skoðaður. Í Rauðshelli er allnokkrar hleðslur, bæði utan hans og innan. Hangikjötslyktin ilmaði enn í hellinum, en hann er talinn hafa hýst margan manninn í gegnum aldirnar.

Helgadalshellar

Í Rauðshelli.

Um tíma var hellirinn nefndur Pólverjahellir eftir pólskri áhöfn báts, sem dvaldist um tíma í Hafnarfjarðarhöfn, en fengu ekki inni í bænum. Þá er talið að um tíma hafi verið sel í og við hellinn, auk þess ekki er ólíklegt að álykta að hann sé sá hellir þar sem 12 þjófar voru handteknir um 1440 og síðan hengdir. Í lýsingu Gísla Sigurðssonar, forstöðumanns Minjasafns Hafnarfjarðar, segir hann í lýsingu sinni um Selvogsgötuna að þeir hafi hafst við í helli í hraunrima austan við Helgadal.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Um þá hugmynd er m.a. fjallað í öðrum FERLIRslýsingum eftir nokkrar ferðir um svæðið til að reyna að finna umrætt skjól. Rauðshellir liggur vel við vatni, hann hefur verið í hæfilegu skjóli frá mannabyggð, en þó nálægt skjólgóðum högum sauðfjárins. Þá hefur hann verið það nálægt þjóðleið að hægt hefur verið að fylgjast með mannaferðum og hugsanlega ræna þá, sem þar áttu leið um. Þess skal getið að útilegumenn dvöldu aldrei lengi á sama stað.

Helgadalur

Helgadalur – stekkur.

Hlaðinn stekkur er skammt frá Rauðshelli. Ekki langt frá, ofan við Helgadal eru fornar tóftir. Jarðfallið, sem gengið er úr í hellinn, er mikið gróið. Set, mold og gróður hafa hlaðist þar upp um aldir. Ekki er ólíklegt að undir þeim kunni að leynast minjar. Þær gætu bæði tengst hinum fornu tóftum í Helgadal, þarna 500 m frá, eða (sels)búskapnum í Kaldárseli. Einnig gætu þær verið frá Görðum á Álftanesi, en landssvæðið tilheyrði þeim fyrr á öldum.
Frá Rauðshelli sést gígurinn í Búrfelli mjög vel. Búrfell er eldborg. Frá henni rann hraun niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð. Þrátt fyrir samheitið Búrfellshraun, bera margir hlutar þess sín eigin nöfn, s.s. Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun, Gálgahraun, Urriðakotshraun, Gráhelluhraun og Smyrlabúðahraun. Heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar. Margir ganga gjarnan upp eftir hrauntröðinni innan girðingar Heiðmerkur, Búrfellsgjá (u.þ.b. 3,5 km) og Lambagjá. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára.

Helgadalur

Helgadalur – misgengi.

Helgadalur er ágætt dæmi um misgengi, líkt og á Þingvöllum. Hluta þessa misgengis má sjá þegar komið er upp á brúnina að vestanverðu. Það er handan Mosana og gengur í gegnum austanverðar Smyrlabúðir.

Helgadalur hefur verið afgirtur og er svæðið innan girðingarinnar, Kaldárbotnar, hluti af vatnsverndasvæði Vatnsveit Hafnarfjarðar. Hún var stofnuð 1904.

Kaldárbotnar

Kaldárbotnar – vatnslindin.

Vatnsból Hafnarfjarðar er í Kaldárbotnum. Þaðan liggur aðfærsluæð til bæjarins meðfram Kaldárselvegi um 6 km að lengd, síðan eftir stofnæðum og dreifilögnum sem flestar liggja í götum bæjarins. Fáeinar dælustöðvar innanbæjar sjá þeim bæjarhlutum sem hæst liggja fyrir vatni. Fyrstu tildrög að vatnsveitu í bænum munu vera þau að Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar var stofnað 1904. Í fyrstu sóttu bæjarbúar vatn í vatnskrana, sem settir voru upp víðs vegar um bæinn. Vatn er leitt til bæjarins frá Kaldárbotnum. Núverandi aðveituæð er frá árinu 1950. Merkilegasta holan sem hefur verið boruð eftir köldu vatni í nágrenni Hafnarfjarðar er við Kaldársel og varð 987 m djúp. Sú hola var köld (2-5 gráður) niður á 750 m dýpi.
Kaldá er náttúrulegt afrennsli linda sem eru í Kaldárbotnum.

Vatnsveitan

Vatnsveitan yfir Lambagjá.

Frá upphafi byggðar í Hafnarfirði og fram til ársins 1909 höfðu bæjarbúar notast við vatn úr ýmsum brunnum innanbæjar. Vatnið var oft óhreint og stundum svo mengað að fólk veiktist alvarlega af því að drekka það. Þannig braust út taugaveikifaraldur fyrri hluta ársins 1908 sem rakin var til mengaðs drykkjarvatns.
Árið 1909 var farið að taka vatn úr lindum í svokölluðum Lækjarbotnum, sem eru í austurjaðri Gráhelluhrauns gegnt Hlíðarþúfum þar sem nú eru hesthús, en vegna þess að vatnið þar þraut í þurrkum og reyndist oft óhreint ákváðu menn að reyna að veita vatni úr Kaldá inn á vatnsvið lindanna. Í þetta var ráðist árið 1918. Þannig var byrjað að nota vatn frá Kaldá strax árið 1918 á óbeinan hátt. Enn má sjá undirstöður vatnsleiðslunnar þar sem hún liggur frá Kaldárbotnum og yfir Sléttuhlíð, þar sem vatninu var hleypt niður í hraunið. Það kom síðan upp í Lækjarbotnum, sem fyrr segir. Mest er mannvrikið þar sem leiðslan lá yfir Lambagjá.

Kaldárbotnar

Í Kaldárbotnum – stíflan.

Árið 1951 var svo tekin í notkun aðveituæð sem náði alla leið upp í Kaldá. Kaldá sjálf var stífluð og vatni úr ánni veitt í gegnum síu og þaðan inn í æðina. Á uppistöðulóninu sem myndaðist ofan við stífluna fóru að venja komur sínar fuglar ásamt því að sandur og allskonar gróðurleifar fóru að berast inn í aðveituæðina. Þess vegna var hlaðin steinþró utan um stærstu uppsprettuna í Kaldárbotnum sjálfum og þaðan lögð pípa sem tengd var beint við aðveituæðina.

Kaldá

Kaldá.

Náttúrulegar aðstæður í nágrenni Kaldár skýra af hverju svo mikið af vatni er í Kaldárbotnum. Eldgos í tugi þúsunda ára hafa hlaðið upp jarðmyndunum á svæðinu. Á meðan ísaldir ríktu hlóðust upp móbergsfjöll og bólstrabergshryggir. Á hlýskeiðum runnu hraun og gígir hlóðust upp en við öll þessi eldsumbrot brotnaði jarðskorpan og seig og reis. Þannig hafa myndast sigdalir og gapandi gjár, sem stundum fóru á kaf í ný hraun.

Kaldárbotnar sjálfir eru í bólstrabergsmyndun. Bólstrabergið er nokkuð gamalt á mælikvarða jarðmyndana á svæðinu og segja má að það sé umflotið ungum hraunum.
Bólstrabergið sjálft er afburða góð náttúruleg sía ásamt því að vera mjög vel vatnsleiðandi, sérstaklega eftir sprungum.

Kaldá

Kaldá.

Megin misgengið sem lindirnar í Kaldárbotnum tengjast hefur örugglega hreyfst oftar en einu sinni. Þannig eru yfirvegandi líkur á að opnast hafi gjá, í einhverjum hamförum á ísöld, undir ísaldarjöklinum og hún fyllst af jökulurð. Við gröft vegna framkvæmda árið 1997 komu í ljós setlög sem stefndu ofan í misgengið og núið grjót (sem við köllum héðan í frá hausagrjót ) kom upp af fimm metra dýpi, þegar grafið var niður með borholufóðringu. Ástæður fyrir þessu mikla vatni sem kemur upp austan við misgengið eru því þrjár. Vatnsleiðandi bergsprungur tengdar misgengjum, setfylling í megin misgenginu sjálfu og bólstrabergið

Kaldársel

Gengið um Kaldársel.

Í eldgosi sem líklega varð á tólftu öld, rann örþunnt hraun niður í Kaldárbotna sjálfa og þaðan niður fyrir Kaldársel og nam þar staðar. Þetta hraun hefur líklega verið mjög heitt og þunnfljótandi því að það fyllti í allar lægðir á leið sinni og storknaði án þess að í því mynduðust kólnunarsprungur og gjótur. Þegar grunnvatnsborð í Kaldárbotnum lækkar niður fyrir efri brún hraunsins hverfur Kaldá.
Eftir að kemur vestur fyrir meginmisgengið í Kaldárbotnum rennur Kaldá ofan á þessu þétta hraunlagi. Þar sem hraunið endar, fyrir neðan Kaldársel, hverfur Kaldá ofan í hraunin þar fyrir neðan.

Kaldársel

Kaldársel – fyrsti skáli K.F.U.M. Kaldársel sést aftan við húsið.

Í Kaldárseli eru reknar sumarbúðir á vegum KFUM og KFUK. Frumkvöðull starfs KFUM og KFUK á Íslandi var æskulýðsleiðtoginn sr. Friðrik Friðriksson, en hann hafði á námsárum sínum í Kaupmannahöfn kynnst starfi KFUM og tekið virkan þátt í því. Haustið 1897 kom hann heim til Íslands og myndaði eins konar undirbúningsfélag með nokkrum unglingspiltum úr Dómkirkjusöfnuðinum vorið 1898. Þann 2. janúar 1899 var KFUM formlega stofnað og fór starfsemin ört vaxandi er á leið vorið. Þá færðu nokkrar fermingarstúlkur það í tal við sr. Friðrik hvort hann gæti ekki einnig stofnað félag fyrir þær. Fékk sr. Friðrik nokkrar konur til liðs við sig og 29. apríl 1899 hafði KFUK einnig verið ýtt úr vör.

Kaldársel

Kaldársel 1965. Tóftir selsins sjást enn suðaustan við húsið.

Um það leyti sem starf KFUM og KFUK hófst hér á landi átti íslensk kirkja að ýmsu leyti í vök að verjast og félagsstarfsemi fyrir börn og unglinga var mjög af skornum skammti. Ýmsir höfðu því efasemdir um að slík kristileg félagsstarfsemi gæti átt framtíð fyrir sér, en ekki leið á löngu uns félögin tóku að blómstra í höndum sr. Friðriks. Augu hans voru næm á þarfir ungu kynslóðarinnar og innan félaganna spruttu fram starfsgreinar á borð við kvöldskóla, bókasafn, skátafélag, knattspyrnufélag, bindindisfélag, taflflokk, hannyrðadeild, lúðrasveit, söngflokka, sumarbúðir o.fl.

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Sífellt leitaði sr. Friðrik nýrra leiða til þess að byggja upp félagsstarf á kristnum grunni sem mætt gæti þörfum æskunnar og skapað heilbrigða einstaklinga til líkama, sálar og anda. Einstakir persónutöfrar, manngæska og vitsmunir gerðu hann nánast að dýrlingi í lifanda lífi og í hjarta borgarinnar, við Lækjargötu, minnir stytta hans á mikilvægi þess að styðja æsku Íslands til bjartrar framtíðar.

Kaldársel

Kalsdársel – Teikning Daniels Bruun frá lokum 19. aldar. Inn á teikninguna eru felld inn líkleg upphaflegu selshúsin áður en bætt var við þau til búsetu.

Í Kaldárseli var sel um langan aldur, auk þess sem búið var þar um aldarmótin 1900. Ítarleg lýsing er á Kaldáseli í annarri FERLIRslýsingu (Sjá HÉR og HÉR.)
Sjá MYNDIR.

Frábært veður – sól og milt. Gangan tók 2 klst og tvær mínútur.

-Upplýsingar um Reykjaveginn fengnar af http://www.utivist.is
-Upplýsingar um Vatnsveitu Hafnarfjarðar eru fengnar af http://www.hafnarfjordur.is
-Upplýsingar um Helgafell eru fengnar af http://www.visindavefur.hi.is

Kóngsfell

Kóngsfell.

Kaldakvísl

Undir Helgafelli í Mosfellshreppi voru stórir herkampar, s.s. Camp Treffert og Camp Helgafell. Þar var og Helgafellsspítali (Sacred Hill Hospital). Í dag (2023) er fátt um minjar er gefið gætu til kynna sögu mannvirkjanna, sem þarna voru reistar. Þó má enn sjá þar steypta vatnsgeyma, grunn varðskýlis ofan við gömlu Köldukvíslsbrúna, sem byggð var 1912 og sorpbrennsluofn. Undir ofanverðum bökkum Köldukvíslar að sunnanverðu má enn berja augum leifar herbúðanna, sem af einhverri ástæðu hefur skipulega verið ýtt fram af brúnunum.

Friðþór Eydal

Friðþór Eydal við vatnstanka sem reistir voru fyrir kalt og heitt vatn í hlíðum Helgafells í Mosfellsdal ofan við stærsta spítalann á hernámsárunum.

Í Læknablaðinu 2013 er umfjöllun Friðþórs Eydals um herspítalana á stríðsárunum undir fyrirsögninni “Merkileg saga herspítalanna á Íslandi“.

„Þetta er efni sem hafði safnast upp hjá mér og ég fann ekki stað í þeim bókum og ritgerðum sem ég hef skrifað um hersetuna og dvöl varnarliðsins á Íslandi,“ segir Friðþór Eydal sem um árabil var upplýsingafulltrúi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og hefur rannsakað hersetuna flestum öðrum betur.

Í óbirtri ritgerð sem Friðþór hefur tekið saman og nefnist Herspítalar Breta og Bandaríkjamanna á Íslandi í síðari heimsstyrjöld rekur hann umfang þessarar starfsemi sem flestum núlifandi Íslendingum er með öllu ókunn og kemur eflaust mörgum á óvart hversu stór hún var í sniðum. Það átti sér skýrar ástæður sem Friðþór gerir glögga grein fyrir.

Helgafellsspítali

Vatnsstankarnir ofan við Kampana milli Helgafells og Köldukvíslar.

„Heilsufar hermanna er mikilvægur þáttur í skipulagi og viðbúnaði herliðs svo baráttuþrek og tiltækur liðsafli sé ávallt í hámarki. Heilbrigðisþjónusta hersins líkist því sem almennt tíðkast en þó með tveimur mikilvægum undantekningum þar sem ekki er gert ráð fyrir þjónustu við börn og aldraða en bráðaþjónusta, skyndihjálp flutningar og umönnun sjúkra og særðra af völdum styrjalda og farsótta er mikilvægur hluti starfsins,“ segir Friðþór.

Helgafell

Herkampar milli Köldukvíslar og Helgafells. Sá má gömlu brúna yfir Köldukvísl frá árinu 1912, en áður var þar vað á ánni. Bretar settu upp herspíatla í Stúdentagarðinum við Háskóla Íslands (Gamla-Garði) sumarið 1940 og einnig í gamla Holdsveikraspítalanum í Laugarnesi sem var lítið notur um þær mundir. Jafnframt hófu þeir byggingu stórs braggahverfis á Ásum við rætur Helgafells fyrir spítalasveitina svo skila mætti stúdentum Gamla-Garði. Framkvæmdir hófust haustið 1940 og nefndust búrðirnar Helgafell Hospital. Samþykkti bæjarráð Reykjavíkur, sem hafði forgangsrétt á heitu vatni frá Reykjum, að selja Bretum vatn til þess að hita upp spítalann. Bygging spítalans reyndist tafsöm vegna tíðarfars og skorts á aðföngum en 711. byggingarsveit breska hersins (711 General Construction Company, Royal Engeneers), sem hafði verið með höndum, vann jafnframt að nokkrum öðrum umfangsmiklum verkefnum og hafði aðsetur í spítalabröggunum á framkvæmdatímanum.
Helgafellspítali á Ásum við Þingvallaveg var nær fullbyggður sumarið 1942. Neðst á myndinni t.v. sést heitavatnslögnin frá Reykjum og vatnsgeymar fyrir heitt og kalt vatn oafn við spítalabúrinar. Vesturlandsvegur lá í kröppum sveig niður að gömlu brúnni á Köldukvísl og skapaði verulega slysahættu í hálku. Neðar við ána til vinstri sér hvar hafin er smíði nýrrar brúar sem bætti umferðaröryggi um Vesturlandsveg til muna.
Skálunum var upphaflega ætlað að standa á víð og dreif til öryggis gegn loftárásum en frá því var horfið í hagræðingarskyni og flestar byggingarnar tengdar saman með göngum sem vatns- og raflagnir lágu einnig um. Eftir að spítalinn var fjarlægður var svæðið nýtt sem malarnáma en vatnsgeymar standa enn sunnan við veginn. – F. Eydal

Camp Traffert

 Mynd þessi er merkt bandarískum landgönguliða að nafni Taffert sem tók hana á sínum tíma ásamt fleirum frá Camp Whitehorse sem var við svonefnda Ullarnesbrekku vestan við Helgafell. – F. Eydal

„Herflokkar hafa sérþjálfaða sjúkraliða sem veita bráðaþjónustu á vettvangi, hjúkrunarsveitir annast flutning særðra og reka sjúkraskýli skammt að baki víglínunnar. Sérþjálfað læknalið annast greiningu og skyndiaðgerðir til undirbúnings fyrir flutning á stærri sjúkraskýli eða spítala. Á erlendri grund er tekið tillit til fjarlægða og annarra aðstæðna í skipulagi spítalaþjónustu ásamt flutningi illa særðra eða sjúkra til heimalandsins.“

Helgafell

Braggagrunnur ofan gömlu brúarinnar yfir Köldukvísl, sennilega varðskýli.

Allt þetta þarf að hafa í huga þegar skoðað er hversu hratt breski herinn og síðar sá bandaríski komu upp fullkominni spítalaþjónustu við herlið sitt hér á landi og hversu hratt öll ummerki um þessa miklu starfsemi hurfu í stríðslok. Hreyfanleiki er lykilorðið enda er gert ráð fyrir því að víglínur færist til og þjónustan sé þétt að baki hinnar stríðandi fylkingar.

Helgafell

Minjar ofan Köldukvíslarbrúar, sennilega sorpbrennsuofn.

Friðþór kveðst hafa rannsakað talsvert skjalasöfn breska hersins og þess bandaríska í leit sinni að gögnum um herspítalana á Íslandi. „Ég hef fyrst og fremst leitast við að skilgreina kerfið sem unnið var eftir fremur en leita uppi sögur af einstaklingum. Hernaður bandamanna í seinni heimsstyrjöldinni var af stærðargráðu sem heimsbyggðin hafði aldrei kynnst áður og hernámið á Íslandi var hluti af því.“

Herliðið nam tæpum helmingi þjóðarinnar

Helgafell

Leifar kampanna milli Helgafells og Köldukvíslar undir bökkum.

Breski herinn steig hér á land þann 10. maí 1940 og tilgangurinn var að hindra að Þjóðverjar kæmu sér upp flug- og flotabækistöðvum í landinu sem ógnað gætu Bretlandseyjum og skipaleiðum á Norður-Atlantshafi. „Bandaríkin voru hlutlaus í styrjöldinni til ársloka 1941 en með samningi Íslands, Bretlands og Bandaríkjanna tók bandarískt herlið við vörnum landsins og leysti breska hernámsliðið af hólmi. Hernámi Breta lauk því formlega 22. apríl 1942 og meginliðstyrkur breska hersins hélt af landi brott en breski flotinn og flugherinn störfuðu áfram í landinu með Bandaríkjaher þar til eftir stríðslok.“

Helgafell

Leifar kampanna milli Köldukvíslar og Helgafells undir bökkum.

Herafli bandamanna í landinu var alls nærri 50.000 þegar mest var sumarið 1943 og hafði um 80% liðsins aðsetur á höfuðborgarsvæðinu og Suðvesturlandi. Landsmenn voru aðeins 120.000 í upphafi hernámsins og íbúar Reykjavíkur um 40.000. „Þegar komið var fram á sumarið 1943 var ekki lengur talin hætta á innrás Þjóðverja í Ísland og var stór hluti herliðsins þá fluttur til Bretlands til þjálfunar fyrir innrásina á meginland Evrópu.“

Friðþór segir að hernaðaryfirvöld hafi í áætlunum sínum gert ráð fyrir að þurfa fullkomna heilbrigðisþjónustu fyrir allan þennan fjölda hermanna, enda Ísland afskekkt og spítalar ekki fyrir hendi nema fyrir landsmenn sjálfa. „Bandaríkjaher gerði ráð fyrir að forföll vegna veikinda, slysa og hernaðar gætu numið 5% af heraflanum á hverjum tíma og hagaði heilbrigðisþjónustunni í samræmi við það. Viðmið breska hersins voru helmingi lægri, eða 2,5% en þó var þörfin fyrir sjúkrarými strax í upphafi mjög mikil, því á fyrstu vikum hernámsins komu hingað um 17 þúsund hermenn.“

Kaldakvísl

Brúin yfir Köldukvísl – byggð 1912, á tímum hestvagnatímabilsins.

Bretar þurftu að hafa snör handtök sumarið 1940 svo herlið þeirra gæti tekist á við íslenska veturinn. Tóku þeir ýmsar byggingar í Reykjavík á leigu, meðal annarra Menntaskólann í Reykjavík, Gamla-Garð og Laugarnesspítalann og komu upp sjúkraaðstöðu í þessum byggingum. Friðþór birtir í ritgerð sinni fróðleg bréfaskipti breska sendiherrans, Howards Smith, við yfirboðara sína í London þar sem hann leggur áherslu á mikilvægi góðra samskipta við íslensk yfirvöld svo ekki verði trúnaðarbrestur milli hersins og landsmanna. „Howard sagði málið sérlega viðkvæmt vegna þess að herinn hafði víða fengið inni í skólum um sumarið og ekki kæmi annað til greina en að skila því húsnæði að hausti eins og lofað hefði verið.“

Helgafell

Braggar í Camp Helgafell.

Friðþór segir það lífseigan misskilning varðandi hernámið að Bretar og síðar Bandaríkjamenn hafi farið fram með nokkrum yfirgangi og tekið það sem þeim sýndist til sinna afnota. „Staðreyndin er sú að Bretarnir leigðu allt húsnæði og lóðir sem þeir notuðu í upphafi hernámsins á markaðsverði og gerðu formlega samninga í flestum tilfellum. Verðbólgan sem varð í kjölfar hernámsins var engu lík og peningar streymdu frá hernum til landsmanna. Fólk flykktist af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar og eftirspurn eftir húsnæði margfaldaðist og leiguverð hækkaði. Það hafði ekki áhrif á leigusamningana sem Bretar höfðu gert og því fengu þeir það orð á sig að vera nískir og borga miklu minna en aðrir. Þetta var auðvitað ómaklegt.“

Herspítalar um allt land

Helgafell

George Eisel skytta komst einn af þegar sprengjuflugvél Franks M. Andrews yfirhershöfðingja Bandaríkjahers í Bretlandi með 15 manns innanborðs fórst á Fagradalsfjalli á Reykjanesi í maí 1943. Hér ræða íslenskir blaðamenn við hann á Helgafellsspítala, þeir eru frá vinstri Ívar Guðmundsson frá Morgunblaðinu, Hersteinn Pálsson rithöfundur og þýðandi frá Vísi og Jón Þórarinsson tónskáld frá Ríkisútvarpinu.

Herspítalarnir risu hratt og víða um land. Samgöngur á landi á þessum tíma voru lélegar svo ekki sé meira sagt, svo herdeildirnar sem sendar voru út á land urðu að vera sjálfum sér nægar um flesta hluti. Því risu spítalar utan Reykjavíkursvæðisins að Reykjum í Hrútafirði, að Hrafnagili í Eyjafirði og á Reyðarfirði og Seyðisfirði. Á Suðurlandi var reistur spítali í Kaldaðarnesi við flugvöllinn sem Bretar byggðu þar og einnig voru settir upp spítalar á Suðurnesjum, þeirra stærstur við Vogastapa.

Stærstu spítalarnir voru eftir sem áður í Reykjavík og nágrenni og reis mikið spítalahverfi í mynni Mosfellsdals við rætur Helgafells, svo og handan við fellið í landi Álafoss þar sem nú er Reykjalundur. Í Reykjavík voru sem áður sagði þrír spítalar. Þegar mest var voru á vegum herliðsins sjúkrarúm fyrir allt að 3000 hermenn en þessi viðbúnaður reyndist að miklu leyti óþarfur þar sem aldrei kom til innrásar Þjóðverja í Ísland og því varð ekkert úr þeim hernaðarátökum í landinu sem spítalarnir voru undirbúnir fyrir.

Camp Casman

Læknar 92. spítalasveitarinnar gera aðgerð á hermanni í sjúkraskýlinu í Camp Cashman í Ytri-Njarðvík sumarið 1943.

„Bandaríkjamenn gerðu mjög metnaðarfulla áætlun um byggingu herspítala í landinu til að mæta stóráföllum af völdum farsótta og hernaðar. Þegar flest var árið 1942 voru 3277 bandarískir heilbrigðisstarfsmenn á landinu, þar af 234 læknar, 49 tannlæknar, 8 dýralæknar og heilbrigðisfulltrúar og 258 hjúkrunarkonur. Strax í árslok 1943 hafði þeim fækkað í 1163 og í stríðslok voru heilbrigðisstarfsmenn hersins 429.“

Helgafellsspítali var mjög stór á hvaða mælikvarða sem er og varð eins konar landspítali bandaríska herliðsins. Þar voru 1000 legurúm og starfsfólkið var 660 þegar flest var. Hverfið samanstóð af tugum stórra bragga, þar sem voru leguskálar, skurðstofur, heilsugæsla, tannlæknar, íbúðir starfsfólksins og birgðastöðvar. Í dag sjást engin ummerki um spítalann önnur en rústir vatnstanka á hæðinni fyrir ofan spítalasvæðið. Allt á það sér sögulegar skýringar en í stríðslok gerðu íslensk yfirvöld áætlun um að afmá sem flest ummerki hernámsins og lét smám saman fjarlægja alla bragga sem herliðið skildi eftir.

Helgafellsspítali

Sjúkrastofa Helgafellspítala.

„Hér á landi voru reistir um 12.000 braggar fyrir herliðið til íbúðar og umsvifa. Veruleg fækkun varð í herliðinu sumarið 1943 og stóðu þá mörg braggahverfi eftir auð en herinn hafði enga þörf fyrir þau eða tök á að rífa þau nema með miklum tilkostnaði. Samdist svo um að íslenska ríkið keypti vægu verði alla bragga og önnur mannvirki utan Reykjavíkurflugvallar og Keflavíkurflugvallar og endurseldi landsmönnum til þess að standa straum af kostnaði við umsamdan frágang á landi sem herliðið hafði haft á leigu. Fjölmargir braggar dreifðust þannig víða um land, meðal annars til bænda sem nýttu þá sem útihús og áhaldageymslur sem víða eru enn í fullri notkun. En fyrir vikið standa eiginlega engin upprunaleg braggahverfi eftir sem sögulegar minjar nema hluti hverfisins á Miðsandi í Hvalfirði. Segja má að nánast einu stríðsminjarnar sem eftir standa hafi dagað uppi fyrir trassaskap landeigenda sem fengu greiðslu fyrir að laga sjálfir til eftir herinn.“

Helgafell

Camp Helgafell.

Þörfin fyrir sjúkrarýmin reyndist minni en áætlað var enda var heilsufar hermanna á Íslandi betra en hernaðaryfirvöld höfðu gert ráð fyrir. „Engir teljandi sóttfaraldrar komu hér upp á stríðsárunum eins og búast mátti við. Slys voru þó alltíð enda umsvif hersins mikil, aðstæður framandi og náttúruöflin óblíð og skammdegið mikið. Mikil umferð ökutækja á lélegum vegum leiddi til tíðra umferðarslysa. Fátítt var að hermenn særðust í orustu en mikill fjöldi skipbrotsmanna var settur á land í Reykjavík. Voru margir illa á sig komnir af meiðslum og hrakningum og fengu aðhlynningu á spítölum hersins.

Kynsjúkdómar fátíðir

Helgafell

Söng- og leikkonan Marlene Dietrich að spjalla við sjúkling á Helgafellsspítala í september 1944. Hún heimsótti herafla Bandaríkjamanna, hitti íslensku ríkisstjórnina og hélt tónleika.

Kynsjúkdómar þóttu sérlega fátíðir meðal hermannanna hér á landi og var það talið því að þakka að skipulagt vændi þekktist ekki í landinu og að íslensk heilbrigðisyfirvöld höfðu mun yfirgripsmeiri heimildir til að hefta útbreiðslu slíkra sjúkdóma en gerðist í Bretlandi og Bandaríkjunum.

Geðheilsa er einn þeirra þátta sem gefa verður ríkan gaum þegar milljónir manna eru skyndilega kvaddir til herþjónustu og stífrar herþjálfunar við framandi aðstæður og langdvalar langt frá sínum nánustu. „Herliðið á Íslandi fór ekki varhluta af geðrænum kvillum en þó var það ekki algengara en annars staðar þrátt fyrir einangrun, skammdegi og leiða sem fylgdi einhæfum lifnaðarháttum. Herstjórnin lagði mikla áherslu á að halda hermönnunum að venjubundnum störfum, stífum æfingum og íþróttaiðkan og skipulagði fjölbreytta afþreyingu til að halda uppi baráttuþreki hinna ungu hermanna.“

Gamli-Garður

Herspítali við Gamla-Garð í Reykjavík.

Íslensk heilbrigðisyfirvöld nutu að mörgu leyti góðs af hinni öflugu heilbrigðisþjónustu sem herliðið starfrækti. Ágæt samvinna var á milli þessara aðila um sóttvarnir og heilbrigðiseftirlit enda lagði herstjórnin mikla áherslu á slíkt í öllum viðskiptum við innlenda aðila. „Dýralæknar hersins leiðbeindu um eftirlit með matvælaframleiðslu enda keypti herliðið kjöt og mjólk af landsmönnum og var náið samstarf um eftirlit og lækningar búfjársjúkdóma en berklar voru til dæmis nokkuð útbreiddir í íslenskum nautgripum.“

Helgafell

Braggi ofan Köldukvíslar. Sennilega sami bragginn og grunnurinn hér að ofan.

Margir þeirra lækna sem fylgdu hernum voru í hópi færustu sérfræðinga hver á sínu sviði og var eflaust talsverður fengur að komu þeirra hingað til lands fyrir íslenska læknastétt sem einangraðist að miklu leyti frá umheiminum á stríðsárunum. „Margir landsmenn nutu sérfræðiþjónustu breskra og bandarískra lækna og hjúkrunarliðs þó þjónustan hafi fyrst og fremst verið ætluð herliðinu. Nokkur dæmi voru einnig um að hermenn hlytu umönnun íslenskra lækna og að Íslendingar fengju meðferð á herspítölum sem höfðu ýmsar tækninýjungar og nýjustu læknislyf sem landsmenn höfðu ekki, eins og undralyfið pensillín sem þá var einungis notað af hernum. Það væri vissulega fróðlegt að rannsaka þá sögu betur og þá hvaða áhrif spítalarekstur breska og bandaríska hersins á stríðsárunum hefur hugsanlega haft á þróun íslenskrar læknisfræði,“ segir Friðþór Eydal að lokum.

Heimild:
-https://www.laeknabladid.is/tolublod/2013/03/nr/4797
-Læknablaðið, 03. tbl. 99. árg 2013.
-Hersetan í Mosfellssveit og á Kjalarnesi 1940–1944, Friðþór Eydal 2022.

Helgafell

Úr „Sacred Hill Hospital“ sem var Helgafellsspítali.

Helgafell

Í jólablaði Fjarðarfrétta 2022 er saga af “Jólasveininum í Helgafelli“, samin af Þórarni Reykdal á næturvöktum í Íshúsi Reykdals um miðjan sjötta áratuginn:

Jólasveinn“Jólasveinninn í Helgafelli vaknaði af værum blundi. Hann settist fram á rúmstokkinn og geispaði óskaplega og teygði úr sér. Það var nú reyndar engin furða, því að nú var kominn fyrsti vetrardagur, en eins og þið vitið þá sofa allir jólasveinar frá þrettándanum og fram til fyrsta vetrardags.
Jólasveinninn klæddi sig í skyndi og opnaði sjónvarpið sitt, til þess að gæta að hvað börnin niðri í byggðinni hefðust að.
-„Það er nú einhver munur síðan ég fékk sjónvarpið,“ sagði hann við sjálfan sig.
-„Nú get ég setið hér og horft í sjónvarpið mitt og séð alla krakkana, í stað þess að hlaupa um allar jarðir og kíkja á gluggana.“
Í sjónvarpinu sá hann hvítt hús með rauðu þaki. Það var Móberg í Garðahreppi. Hann sá krakkana fjóra sitja inni í stofu. Þau voru að lesa og skoða blöð. Þá varð honum litið á kamínuna.
jólasveinn
-„Já, nú skal ég reyna að gera það sem jólasveinarnir í útlöndum gera, “ sagði hann við sjálfan sig.
-„Ég heyrði það í útvarpinu einu sinni, að þeir færu niður um strompinn og settu jólagjafir í sokka sem hengdir eru á kamínuhilluna og ég sá einmitt svona jólasokka hér í fyrra. Ég vona að þau hengi þá aftur á hilluna núna á jólunum.“
Svo liðu dagarnir fram að jólum.
Jólasveinninn var önnum kafinn við að búa til jólagjafir og að horfa í sjónvarpið sitt. Hann sá inn í öll hús í Garðahreppi og Hafnarfirði og miklu víðar. Stundum sá hann krakka sem voru óþekk, en þau voru nú sem betur fer ekki mörg og þegar jólin fóru að nálgast urðu öll börn miklu þægari. Því að allir vildu fá jólagjafir frá jólasveininum. Þegar aðfangadagur kom var poki jólasveinsins orðinn fullur og svo hélt hann af stað.
jólasveinn
Jólasveinninn á heima einhvers staðar í toppinum á Helgafelli og hann fer alltaf í gegnum gatið á Helgafelli þegar hann fer niður í byggðina.
Þegar jólasveinninn var kominn svolítið niður fyrir Helgafell mætti hann trölli.
-„Sæll vertu,“ sagði Jóli, -„og hver ert þú eiginlega?“
-„Ég heiti Narfi nátttröll. Ég átti einu sinni heima í Valabóli, en síðastliðin fjögur hundruð ár hef ég staðið eins og klettur hérna utan í Valahnúkunum. Ég fór suður í Kleifarvatn að veiða eitt sinn en varð of seinn heim og sólin skein á mig svo að ég varð að steini“.
-„Já, nú man ég eftir þér,“ sagði Jóli. -„Ég var nú bara jólasveinastrákur þegar þetta skeði, en nú er ég orðinn fjögurhundruð og fjórtán ára. En segðu mér annars hvað þú ert að gera hér núna“.
jólasveinn-„Jú sjáðu,“ sagði tröllið „ég er búinn að standa þarna svo agalega lengi að ég var orðinn dauðþreyttur í fótunum, svo að ég mátti til með að liðka mig svolítið. Ég skrapp áðan heim í gamla hellinn minn Valaból. Þar er nú orðið fínt maður. Það er komin hurð og allskonar fínirí, svo að mig dauðlangar að halda þar jólaveislu eins og í gamla daga, enn nú þekki ég ekki lengur neinn sem ég get boðið. Kannske getur þú hjálpar mér,“ sagði tröllið og klóraði sér vandræðalega í hraunskegginu.
-„Ég skal nú sjá til,“ sagði Jóli og kvaddi tröllið og hann flýtti sér af stað.
Þegar Jóli kom niður í Gráhelluhraun mætti hann tveimur litlum grænklæddum körlum.
-„Sælir verið þið,“ sagði hann „og hvaða fuglar eruð þið nú eiginlega?“
jólasveinn-„Ég heiti Síðskeggur,“ sagði annar þeirra -„og hann bróðir minn þarna heitir Stuttskeggur. Við erum dvergar og eigum heima hérna í Gráhellu“.
-„Rétt er nú það,“ sagði Jóli.
-„En heyrið þið mig annars. Hann Narfi nátttröll ætlar að halda jólaveislu í Valabóli. Viljið þið nú ekki vera svo góðir að koma, því að trölli greyið þekkir svo fáa og hefur ekki talað við nokkurn mann í fjögur hundruð ár“. Það vildu dvergarnir og svo kvaddi Jóli þá og þrammaði áfram.
Jólasveinninn var kominn niður á Svínholt, þegar hann sá einhverja skrýtna veru koma hoppandi á móti sér. Hann staðnæmdist, setti frá sér pokann og hló svo mikið að hann varð að halda um magann. „Ha, ha, sæll vert þú og ha, ha, ha hvað heitir þú?“ gat Jóli loksins stunið upp. Aldrei hafði hann séð svona skrýtinn karl.
jólasveinn-„Ég er tunglpúki,“ sagði karlinn, sem var eins og hjól í laginu.
-„Þú lítur út fyrir að vera skemmtilegur náungi,“ sagði Jóli -„viltu ekki koma í jólaveislu til nátttröllsins í Valahnúkum?“
-„Jú það vil ég,“ sagði tunglpúkinn og svo hoppaði hann og skoppaði sína leið, en jólasveinninn hélt áfram ferð sinni.
Jólasveinninn hafði ekki gengið lengi er hann mætti stórri og ljótri kerlingu.
-„Sæl Grýla mín,“ sagði hann.
-„Mikið ertu nú vesældarleg núna“.
-„Já það er nú von,“ sagði Grýla, -„ég er nú nú búin að vera á flakki um allar sveitir frá morgni til kvöld um langan tíma og ekki fengið eitt einasta krakka krýli í pokann minn. Sko sjáðu. Hann er alveg tómur“.
jólasveinn-„Já, Grýla mín,“ sagði Jóli, -„blessuð jólin eru nú að koma og þá eru öll börn góð og þæg, svo að það er ekki von að þú finnir marga óþekka krakka þessa dagana. En heyrðu nú greyið mitt. Hann Narfi nátttröll ætlar að halda jólaveislu í Valabóli. Vilt þú ekki koma þangað, svo að þú farir ekki á mis við alla jólagleði í ár?“
Grýla var ósköp þakklát fyrir boðið og svo kvöddust þau og Jóli flýtti sér á stað því hann var búinn að tefjast svo oft á leiðinni. Hann sá nú ljósin í bænum, það var víða búið að kveikja á jólaljósum úti.
Jæja, þarna er þá Móberg. Það er best að fara þangað fyrst. Fyrir utan húsið á Móbergi stóð snjókarl. Jólasveinninn gekk til hans og heilsaði honum.
-„Sæll vert þú Snjólfur minn.“
-„Komdu sæll,“ sagði Snjólfur snjókarl“.
-„Hvað er þú að gera hér um miðja nótt?“
jólasveinn-„Það skal ég segja þér,“ sagði Jóli. „Ég ætla nú að reyna svolítið, sem enginn jólasveinn á Íslandi hefur gert. Þú veist, að það er kamína hérna og nú ætla ég, lagsmaður, að stinga mér niður um strompinn, eins og þeir gera í útlöndum, jólasveinarnir. Þá þarf ég ekki að vekja neinn til þess að opna fyrir mér.“
-„Niður um strompinn,“ sagði snjókarlinn, -„hvernig í ósköpunum ætlar þú að fara að því? Þú, sem ert svona feitur“.
-„O, við jólasveinar kunnum nú ráð við slíku,“ sagði Jóli, -„við getum gert okkur stóra og litla eftir þörfum“.
-„Jæja, þú um það,“ sagði Snjólfur, -„en hræddur er ég um að þú verðir allur kolsvartur á þessu“.
-„Við sjáum nú til,“ sagði Jóli -„en nú verð ég að fara að koma mér að verki, því að víða verð ég að koma í nótt. En heyrðu kunningi, það verður nú hálf kuldalegt fyrir þig að híma þarna úti um jólin.
jólasveinn-Viltu ekki koma í jólaveislu til hans Narfa nátttrölls í Valabóli?“
Jú, snjókarlinn vildi það og svo klifraði Jóli upp á þak og stakk sér niður í strompinn. Þetta gekk nú ekki eins vel og til stóð. Jóli stóð nefnilega fastur í strompinum. Í ákafanum hafði hann gleymt að gera sig lítinn. „Æ, hver skollinn,“ sagði hann og gerði sig svo lítinn að hann losnaði. En þá tók ekki betra við. Hann gerði sig of lítinn, svo að hann datt nú allt í einu niður og valt með brauki og bramli inn á mitt stofugólf.
-„Æ, þetta var nú meiri klaufaskapurinn,“ hugsaði Jóli -„nú vakna krakkarnir“. Og það var einmitt það sem skeði. Jói, Gréta, Tóta og Iðunn hlupu öll fram í gang. Hurðin á stofunni var opin og þau sáu jólasveininn sitja á gólfinu. „Það er bara jólasveinninn,“ sögðu þau „við megum ekki trufla hann, þegar hann er að koma með jólagjafirnar“.
Og svo fóru þau öll í bólin sín aftur og sofnuðu. En morguninn eftir sögðu þau öll að þau hefði dreymt að jólasveinninn hefði komið.

Valaból

Valaból.

En það er af jólasveininum að segja að hann hét því að gera betur næst.
-„Þá hef ég æfinguna,“ sagði hann. Svo flýtti hann sér að útbýta öllum gjöfunum úr stóra pokanum sínum, og þegar því var lokið hélt hann aftur til fjalla til þess að sitja jólaveisluna í Valabóli.
– Og svo komu sjálf jólin. Öll góð börn fengu einhverjar jólagjafir. Það voru jól í hverju húsi og það voru líka jól í Valabóli. Narfi nátttröll var ánægður með jólaveisluna sína. Það var nóg að borða og það var svo gaman að fá að tala við einhvern, þegar maður hefur þagað í fjögur hundruð ár. Allir í Valabóli skemmtu sér vel. En Snjólfur snjókarl var samt dálítið hræddur um að hann myndi bráðna áður en veislan væri búin. Honum þótti vissara að sitja næst dyrunum og hann borðaði lítið af heita hangikjötinu, sem hann Kjötkrókur hafði sent, en hann át mest af eftirmatnum, sem var rjómaís. Það var óhætt fyrir snjókarl.”

Góða nótt og gleðileg jól
gott er sig að hvíla.
Ef krakkar eru komin í ból
kemur engin Grýla.

Höfundur texta og mynda er Þórarinn Reykdal. Sagan hefur ekki áður komið út á prenti og er birt með leyfi afkomenda.

Heimild:
-Fjarðarfréttir 20 des. 2022, Jólasveinninn í Helgafelli, Þórarinn Reykdal, bls. 15 og 19.

Helgafell

Tröllin á Valahnúk. Helgafell fjær.

Helgadalur

Löngum hafa menn talið að fornar rústir kynnu að leynast í Skúlatúni og í Helgadal ofan við Hafnarfjörð. Fáir vita hins vegar hvar rústirnar eru. Enn færri vita um rústir undir Leirdalshöfða, í Fagradal og við Garðaflatir, jarðlæga garða í Breiðdal eða stekkjarmynd við Rauðshelli. Allt myndar þetta samfellda búsetuheild er gæti verið frá því áður en Hellnahraunið-yngra rann um 950, eða allt frá fyrstu árum landnáms hér á landi.

Helgafell

Skúlatún og Helgafell.

Í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1908 ritar Brynjúlfur Jónsson um rústirnar í Skúlatúni og Helgadal undir heitinu “Rannsóknir fornleifa sumarið 1907 – Gullbringusýsla”. Um Skúlatún skrifar hann eftirfarandi:
“Í Árbók fornleifafélagsins 1903, bls. 33 – 34, hefi eg getið þess, að nafn Skúlastaða, – þar sem Ásbjörn landnámsmaður Özzurarson bjó, – sé nú týnt, og jafnframt, að eg hefði síðan heyrt sagt frá því, að hrauni umgirtur grasblettur uppi undir Lönguhlíð væri nefndur Skúlatún. Kom mér í hug að það væri stytt úr Skúlastaðatún; þar hefði bærinn verið og orðið undir hraunflóði, en túnið, eða nokkur hluti þess, hefði staðið upp úr hrauninu. Ásetti eg mér að nota fyrsta tækifæri til að koma á þennan stað. En í þeirri ferð, sem eg var þá í, var það um seinan, er eg heyrði Skúlatúns getið. Auðvitað gerði eg mér eigi háar vonir um að finna þar fornleifar, einkum eftir að eg hafði séð, að dr. Þorvaldur Thoroddsen hafði komið þar, á ferðinni um Reykjanesskagann, og álitið tvísýnt að þar hefði bær verið. Samt þótti með ófróðlegt að sjá ekki þenna stað, og fór eg þangað í sumar.

Skúlatún

Skúlatún. Helgafell að handan.

Landslagi er svo háttað, að hraunfláki mikill fyllir víðlenda dæld sunnan frá Lönguhlíð norður að ásahrygg þeim, er gengur frá Námahálsinum vestan við Kleyfarvatn (inn frá Krýsuvík) allt inn á milli Kaldársels og Helgafells. Norð-vesturhliðin á ásahrygg þessum kallast Undirhlíðar, liggur inn með þeim forn vegur, er kemur saman við Hafnarfjarðarveginn gamla milli Elliðavatns og Lækjarbotns. Þar hét Tröllabotn og var áfangastaður áður en bær var gjör í Lækjarbotni.

Skúlatún

Skúlatún.

Suðausturhliðin á ásahryggnum, sú er veit að Lönguhlíð og hraunflákanum áðurnefnda, kallast Bakhlíðar, og eru þær lægri en Undirhlíðar, þar er hraunflákinn er hærri en hraunin fyrir neðan ásahrygginn. Þaðan til Lönguhlíðar er þvervegur hraunflákans og hygg ég hann hátt upp í mílu, en langvegurinn er frá Helgafelli og Grindaskarða hraunbálkinum út að botninum í Breiðdal, sem er fyrir norðan Kleifarvatn, og hygg eg hann yfir mílu.
Allur er hraunflákinn sléttur ofan, vaxinn grámosa og eigi gamallegur útlits. Hann er hallalítill, og mun dældin, sem hann hefir fylt, hafa verið nokkuð djúp með mishæðóttu láglendi, sem nú er ekki hægt að gera sér ákveðna hugmynd um. Ekkert sést af hinu forna yfirborði láglendisins, nema toppurinn á hæsta hólnum; hann stendur upp úr hraunbreiðunni hérumbil miðri. Það er Skúlatún. Eigi er hann raunar toppmyndaður, heldur flöt bunga nokkuð aflöng frá norðvestri til landsuðurs og er lengd hans nál. 110 faðm., en breidd nál. 60 faðm. Hæstur er hann í landsuður-endann og er þar bratt ofan. Næsthæsti staður á hornum er norðvestantil. Suður þaðan er og bunga á honum. Á öllum þessum þrem stöðum er einkennilegt stórþýfi, þvílíkt þýfi sem að öðru leyti er á öllum hólnum, er fremur má kalla smátt. Gæti eg trúað, að stórþýfið á þessum þrem stöðum væri myndað úr byggingaleifum; en fullyrða skal það ekki. Og engan vott mannaverka gat eg séð þar neinstaðar. En yfrum vesturhorn hólsins var að sjá sem götutroðninga, er virtust ærið gamlir og höfðu ekkert framhald í hrauninu, hvorugu megin.

Helgadalur

Tóft í Helgadal.

Sunnanmegin voru þeir dreifðari og óglöggvari, en norðanmegin þéttari og glöggvari. Hygg eg að þar hafi verið heimreið til bæjar, og mun hann huldinn hrauni norðvestan-undir hólnum. Hefir hann ef til vill staðið á lægra framhaldi á þessum hól, sem upprunalega hefir víst verið talsvert hár. Þó hefir túnið náð yfir hann allan. Því eigi gat eg betur séð, en að hann bæri merki gamallar ræktar. Alstaðar á honum er moldin mjög svartleit og þvöl, og víðasthvar vóx töðugresi milli þúfnanna, loðnara en í vor var á útjörð annarstaðar. Þar á móti var í þúfnakollunum meiri og minni grámosi, og hér og hvar utanmeð var krækiberjalyng farið að fær sig upp eftir hólnum.
Auðvitað eru nú þetta svo veikar líkur, að þær dyljast fyrir manni í fljótu bragði. En samt eru þær nógar fyrir sig til þess, að eg er ekki í efa um, að hér hefir verið bær og tún. Og þá virðist nafnið “Skúlatún”, gefa nægilega bendingu um, að þessi bær hafi einmitt verið Skúlastaðir.”
Hér er Brynjúlfur að lýsa hugsanlegum mannvirkjum frá því fyrir árið 950. Ekki er ólíklegt að mögulegar minjar í Skúlatúni tengist minjum sunnan við Leirdalshöfða, jarðlægum vegghleðslum í vestanverðum Breiðdal og tóft í Fagradal. Allar gætu þessi mannvirki hafa verið í notkun fyrir þann tíma er að framan greinir og þá mun svæðið allt væntanlega hafa verið nýtt, enda vel gróið undir hlíðunum og nægt vatn, skógur nærtækur og fugl í hlíðunum.
Hellnahraun yngra umlykur Skúlatún. Það kemur eins og Hellnahraunið eldra úr Brenni­steins­fjallakerfinu og er talið hafa runnið fyrir 1000 árum. Hraunið kom frá Tví­bollum í Grinda­skörðum, var mikið og fór víða, enda bæði mjög slétt og þunnt.
Þess má geta að Kristintökuhraunið er frá sömu goshrinu. Nákvæmasta tímasetning á Yngra Hellnahrauninu (Breiðdalshraun og Tvíbollahraun) er sú að það hafi runnið á árunum 938-983 (Haukur, Sigmundur og Árný – 1991).

Helgadalur

Tóft í Helgadal.

Eldra-Hellnahraunið mun hafa myndað stíflu fyrir dal þann er Ástjórn dvelur nú í sem og Hvaleyrarvatn. Hraunin eru ákaflega lík að ytri ásýnd og nokkuð erfitt að greina þau að. Eldra- Hellnahraun er um 2000 ára gamalt og líkt og Yngra – Hellnahraun komið frá eldstöðvum í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla og hefur runnið svipaða leið til sjávar. Út frá þessu má ætla að Hvaleyrarvatn og Ástjörn hafi orðið til fyrir u.þ.b. 2000 árum.
Þá er athyglisvert í texta Brynjúlfs að hann minnist á hinn “forna veg, er kemur saman við Hafnarfjarðarveginn gamla milli Elliðavatns og Lækjarbotns. Þar hét Tröllabotn og var áfangastaður áður en bær var gjör í Lækjarbotni.” Hér er hann að lýsa leið er lagðist af mjög snemma. Selstöður voru nokkrar við Lækjarbotna og átti m.a. Örfirisey selstöðu þar. Líklegt þykir að í eða nálægt Lækjarbotnum hafi verið gatnamót gömlu þjóðleiðanna, annars vegar frá Reykjavík og hins vegar til Hafnarfjarðar. Enn má greina hluta hennar frá Helgadal, yfir Búrfellsgjá, með Löngubrekkum vestan Hnífhóls og í gegnum Strípshraun. Þar greinist gatan, annars vegar norður að Þingnesi og hins vegar með norðanverðu Hólmshrauni í Lækjarbotna.
Brynjúlfur vissi ekki um aldur hraunanna, hefur jafnvel talið þau eldri en landnám og því ekki viljað fullyrða of mikið. Hann vissi heldur ekki af minjunum sunnan við hraunið, en hann hafði heyrt af rústum í Helgadal, nokkru norðar. Einnig vissi hann af rústum á Garðaflötum, enn norðar, en allar þessar minjar gefa vísbendingu um talsverða byggð undir hlíðunum fljótlega eftir landnám. Auk þess má greina mannvistarleifar við op Rauðshellis og hlaðinn stekk, gróinn, þar skammt frá.

Fagridalur

Tóft í Fagradal.

Brynjúlfur ritaði jafnframt um Helgadal. Í Árbókinni 1908 segir hann m.a.:
“Í sama skiptið sem mér var bent á Skúlatún, var þess getið um leið, að skamt þaðan héti Helgadalur og sæist þar til rústa. Skoðaði eg því þann stað, og reyndist þetta rétt. Helgadalur er skamt fyrir neðan Helgafell. Það er ofurlítil dalkvos, er þar gengur inn í austurenda Undirhlíða. Gengur melhóll norður úr hlíðinni, austanmegin við upptök Kaldár, myndar sá melhóll vesturhliðina á dalkvosinni. En að austan beygist hlíðin lítið eitt að sér. Hraunflóð hefir runnið ofan fyrir austan enda Undirhlíða, og er það framhald hraunflákans, sem nú var getið að lægi kringum Skúlatún. Það hefir breitt sig vítt út og runnið út með Undirhlíðum. Liggur það þvert fyrir neðan dalkvosina yfir að melhólnum og byrgir þannig fyrir hana. Þar hefir það sprungið og myndað gjáhamar, sem snýr móti dalbrekkunni og heldur inni vatni, sem þar kemur upp, svo af því verður ofurlítil tjörn. Rústin er ofantil í miðri brekkunni. Það eru tær tóftir, er hver gengur af enda annarar frá suðri til norðurs, eða því sem næst. Er hvor tóft 10 faðm. löng og nál. 2 faðm. breið út á veggjabrúnirnar; en þær eru raunar óglöggar víða.
Á norðurtóftinni sá ógjörla til dyra og sama er að segja um miðgaflinn. Rústin er öll óglöggvari norðantil; sér að eins fyrir ummáli hennar. Þeim megin hefir verið húsaþyrping á hlaðinu. Eru þar útflettar rústir, sem ekki er hægt að greina hverja frá annari, né ákveðna lögun þeirra húsa, sem þar hafa verið. Eg dró upp mynd af rústinni.

Garðaflatir

Tóft á Garðaflötum.

Hraunið sem nú var getið, hefir breitt sig yfir alt láglendi norður og vestur frá enda Undirhlíða og nær til sjávar við Hafnarfjörð. Holtin ein standa upp úr. Er feykilegt landflæmi byrgt undir hraunflákum þeim. Er þar ærið rúm fyrir marga bæi. Og þar eð víst má telja að það hafi verið kostaland, þá hafa þar óefað verið allmargir bæir, sem nú eru hrauni huldir. Eigi verður sagt [hve]nær haun þessi hafa brunnið, heldur en önnur hraunin á Reykjanesskaganum, er þó hafa brunnið eftyir landnámstíð og eyðilegat meiri eða minni bygðir svo sem fornu Krýsuvík o.fl. (sbr. Árb. fornl.fél 1903 bls. 43-44 og 47-50). Vegur Selvogsmanna til Hafnarfjarðarkaupstaðar (Grindaskarðsvegur) liggur um Helgadal hjá rústinni. Er eigi allskamt til Hafnarfjarðar.”
FERLIR hefur skoðað rústirnar í Helgadal. Í rauninni liggur fátt annað fyrir en að hefja þar fornleifauppgröft með það fyrir augum að aldursgreina þær sem og setja þær í samhengi við aðrar sýnilegar minjar á svæðinu.

Heimildir m.a.:
-Brynjúlfur Jónsson, Árbók hins íslenska fornleifafélags, 1908, bls. 9 – 12.
-http://www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/H_YNGRA.HTM
-Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir – Krýsuvíkureldar II – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns, er birtust í Jökli nr. 41 1991.
-http://www.ust.is/media/fraedsluefni/Astjorn__textiGT.pd
-Daniel Bruun, Íslenskt þjóðlíf (1987), bls. 26.

Helgafell

Gengið var um Skammaskarð frá Norður-Reykjum í Reykjadal og inn í Skammadal milli Æsustaðafjalls og Reykjafells. Ætlunin var að skoða minjar, sem þar áttu að vera – og fundist höfðu á loftmynd.
kofarÍ Skammadal hafa sprottið kartöflugarðar og skúraþyrping á fyrrum ræktarsvæði. Stóri-hóll er hægra (vestan) megin þegar komið er upp, á norðurbrúninni. Litli-hóll er skammt sunnan hans. Þegar staðið er upp á þeim og horft yfir þyrpinguna má sjá þar sambærileg svæði og víða annars staðar í Evrópu; grænt og gróið með afmörkuðum reitum, tré og truntur á beit og ekki var hitastigið (í lok septembermánaðar) til að spilla stemmningunni – 18°C.
Norðan og undir Stóra-hól er Víghóll (Vígahóll), sem af sumum hefur verið nefndur Kvíahóll. Hann er neðan skarðs milli Stóra-hóls og Helgafells (Stóri-hóll er norðaustasti hluti Helgafells). Þegar skarðið er gengið til suðurs með austanverðu fellinu er komið að góðum gróningum í Helgafellslandi þrátt fyrir lág hamrabelti þar á millum. Í einni slíkri, mót suðri, er nokkuð stór gróin tóft, þrískipt að sjá. Suðvestan tóftarinnar er gróin mýrarlæna og handan hennar lítill lækur. Þá taka við þúfóttir gróningar og síðan melhlíðar að efstu húsunum austan Helgafells.

Tóft

Tóftin, sem er ca. 6.0×3.0 m að stærð, er í gróinni hlíð og ber með sér að hún hafi gegnt hlutverki beitarhúss. Það snýr suðvestur/norðaustur með framgafl mót suðvestri. Tvö önnur rými, minni, virðast hafa verið beggja vegna við hana ofanverða. Þá má sjá, líkt og lítið gerði, eða jafnvel stekk, norðaustan við hana. Af því mætti hæglega draga þá ályktun að þarna hefði verið selstaða fyrrum. En það passar hvorki við staðsetninguna né hlutfallslega stærð rýmanna ef tekið er mið af öðrum seljum á þessu landssvæði. Hæð á veggjum, sem eru standandi grónir, er um 0.6 m.
Þegar húsfreyjan að Helgafelli var spurð um tóft þessa eftir gönguna, kvaðst hún ekki kannast við hana. Afi hennar hafi búið að Helgafelli á undan henni, en hann hefði ekki minnst á hana.
Gömul gata virðist hafa legið að beitarhúsinu frá Helgafelli. Þegar hlíðinni er fylgt koma hleðslur við götuna í ljós á a.m.k. tveimur stöðum.
Daniel Bruun og Jón Jónasson frá Hrafnagili skilgreindu beitarhús á sínum tíma á eftirfarandi hátt: “Beitarhús eru fjárhús sem standa í úthögum fjarri bœjum, hugsuð til útbeitar á vetrum. Oft er erfitt að greina hvort um er að rœða beitarhús eða sel, en sel-byggingar voru oft notaðar sem beitarhús á vetrum. Beitarhús voru oft reist á gömlum bœjarstœðum og jafnvel stekkjarstœðum.”

Tóft

Í Orðasafni fornleifafræðinnar (sjá http://www.instarch.is) eru beitarhús (hk.) skýrð á eftirfarandi hátt: “Fjárhús utan túns, oft fjarri bæ, sem miðar að því að nýta útbeit eða fjörubeit. Hugtakið er oft notað í ft. og var talað um „að hafa fé á beitarhúsum“. Annað hugtak sem stundum er notað yfir beitarhús er „hagahús“. [enska] Sheephouse in the outfield.
Ef tekið er dæmi um fornleifar eins og beitarhús, þar sem kindur voru hafðar yfir veturinn og þeim beitt á landið (kjarrið eða sinuna), þá eru beitarhúsin leifar ákveðinna búskaparhátta sem eru löngu horfnir. Þessum húsum var gjarnan komið fyrir nálægt landamerkjum á milli bæja svo að kindurnar gætu skroppið yfir til nágrannans og náð þar í eina og eina tuggu svona rétt til að létta bónda sínum byrðina. Því eru beitarhús jafnframt nokkurskonar vitnisburður um tilfinningu manna gagnvart lögunum og kannski eilítið gagnvart hvor öðrum.
Þótt þetta flestum ómeðvitaða beitarhús undir suðurhlíðum Helgafells í Mosfellsbæ geti í hugum þeirra sem það hafa aldrei barið augum hvorki talist merkilegt né viðlitsins vert þá er það engu að síður verðugur fulltrúi þeirra fyrrum búskaparhátta er að því laut – og það í verðandi þéttbýli, ef byggingaáætlanir svæðisins verða að veruleika. Og þeir voru ekki svo litlir þegar á heildina er litið.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-www.instarch.i.

Skammaskarð

Skammaskarð.

Skúlatún

Gengið var að Skúlatúni frá Bláfjallavegi. Þangað er innan um tíu mínútna gangur. Stígur liggur úr suðri að suðurhorni hólsins, en Skúlatún er stór gróin hæð umlukin helluhrauni. Sléttur stígurinn liggur með austurhlið hólsins og áfram áleiðis að Helgafelli. Annar eldri stígur liggur til norðvesturs frá hólnum. Hann er mjög þúfóttur og ómögulegt að greina hvort þarna hafa verið mannvirki eða ekki.

Skúlatún

Skúlatún.

Hins vegar segir Brynjúlfur Jónsson, þjóðminjavörður, að hann hafi greint marka fyrir heimtröð við suðvesturhorn hólsins og stíg við hann norðanverðan. Þrátt fyrir að ekki sæust mannvirki í hólnum í ferð hans þarna skömmu eftir aldarmótin 1900 taldi hann lítinn vafa vera á því að í honum kynnu að leynast leifar einhverra mannvirkja frá fornri tíð. Hvar sem stungið var í hólinn var alls staðar mold undir. Hann er mjög miðsvæðis þegar horft er til tótta í Helgadal annars vegar og hugsanlegra tótta í Fagradal eða nágrenni hins vegar. Þess má geta að í ferð FERLIRs um suðaustanverðan Leirdalshnúk á sínum tíma fundust minjar við vatnsstæði sem þar eru utan í höfðanum.

Skúlatún

Skúlatún – Helgafell fjær.

Gengið var í rúman hring um hólinn og leitað hugsanlegra fjárskjóla eða hella. Við þá göngu fannst fremur lítið gat á stórum hraunhól. Dýpið var u.þ.b. ein og hálf mannhæð, en fyrir vana menn ætti leiðin að vera nokkuð greið niður. Greinilegt er að opið er komið til vegna uppstreymis, en ekki hruns, eins og önnur göt í hrauninu. Leiðin niður var tvílagskipt. Niðri var um vatn, um fet á dýpt. Þegar vatnið draup úr loftinu mátti heyra bergmál þar niðri. Hlaðið var lítil varða við opið svo kíkja megi niður í það við tækifæri þannig hægt verði að gaumgæfa hvað þar er að finna. Opið er í um fimm mínútna gang frá veginum, en alls ekki auðfundið.
Frábært veður.

Skúlatún

Skúlatún – Helgafell fjær.