Færslur

Stóra-Eldborg

Þorvaldur Thoroddsen skrifaði um “Ferðir um Suðurland sumarið 1883”. Skrifin birtust m.a. í Andvara 1884:

“Frá Geitahlíðarenda og vestur að Ögmundarhrauni er hraunlaus kafli og er það fásjeð á Reykjanesi. Þetta hraunlausa svæði nær frá Kleyfarvatni suður í sjó milli Sveifluháls og Lönguhlíðarfjallanna, en undir eins og Sveifluháls sleppur, taka við eilíf brunahraun. Í Geitahlíð, sem er suðvesturhlutinn af Lönguhlíð, eru dóleríthamrar efst, en móberg undir; svo er jarðmyndunin frá Herdísarvík norður að Grindaskörðum.

Grænavatn

Grænavatn.

Nyrzt í dældinni milli Lönguhlíðar og Sveifluháls er Kleifarvatn; fram með því liggur vegur úr Hafnarfirði, en nú var eigi hægt að fara hann, því svo mikill vöxtur var í vatninu. Menn hafa tekið eptir því, að Kleifarvatn vex og þverrar á víxl, og vex jafnvel mest, þegar þurrkar ganga — að því er menn segja — hvernig sem því er nú varið; í því er engin veiði, engin branda nema hornsíli. Sunnar, nálægt Krýsuvík, eru tvö mjög einkennileg vötn, Grænavatn og Geststaðavatn, litlu fyrir neðan námurnar; þau eru bæði kringlótt og mjög djúp; sagt er, að sextugu færi hafi verið rennt í Grænavatn og eigi náð botni. Vötn þessi eru á flötum melum og melgarður eða melbryggja hringinn í kringum þau. Skálar eða katlar líkir þessum, en minni og vatnslausir, eru þar í kring.

Krýsuvík

Krýsuvík – Baðstofa framundan; Krýsuvíkurnámurnar sunnan Seltúns.

Krýsuvíkurnámur eru utan í Sveifluhálsi, norður af Krýsuvík, og dálítið fyrir neðan hann. Móberg er í hálsinum öllum, og brennisteinsblettir og sundursoðinn leir allvíða í honum; en mest kveður þó að því við Krýsuvík. Hinar súru gufur koma upp um sprungur í móberginu; í giljum og vatnsræsum, er ganga niður í fjailið, hefir jarðvegurinn við það soðnað allur í sundur; móbergið er orðið að marglitum leir og gegnumofið af brennisteinssúrum steinsamböndum. Víða eru þar stórir, bullandi leirkatlar, sem alltaf sýður í; fremur lítið er þar samt um brennistein, og miklu minna en í námurnar fyrir norðan í Þingeyjarsýslu. Móbergið er víða upplitað og orðið hvítleitt af gufunum, en hraunmolarnir úr því liggja lausir kolsvartir ofan á, af því að soðnað hefir í kringum þá. Undarlegt þykir mjer, ef það getur borgað sig að vinna þær. Ensku fjelögin, sem hafa námurnar, og ætla sjer að taka þar brennistein, kopar og buris, eru byggð í lausu lopti á hlutabrjefum. Englendingur nokkur, J. W. Busby, keypti fyrst Krýsuvíkurnámur 1858 fyrir milligöngu Dr. Jóns Hjaltalíns; sjera S. B. Sivertsen og Sveinn Eiríksson bóndi í Krýsuvík seldu fyrir 1400 dali; eptir kaupbrjefinu mega Englendingar taka allan brennistein í Krýsuvíkurtorfu og Herdísarvíkurlandi, ásamt öllum málmiðartegundum, or þar kynni að finnast; auk þess hafa þeir ýms rjettindi önnur. Síðan hafa námurnar farið hendi úr hendi og verið seld í þeim hlutabrjef.

Ketilsstígur

Ketilsstígur – í hlíðinni hægra megin við Ketilinn.

Frá Krýsuvík fórum við snöggva ferð upp í Trölladyngju, sem jeg þá skoðari miklu nákvæmar seinna um sumarið, og síðan niður að Kaldárseli. Vegurinn liggur um Ketilstíg, síðan norður með Sveifluhálsi að vestan og svo fram með Undirhlíðum. Sveifluháls er allur úr móbergi, og á honum ótal tindar og hnúkar; hvergi hefir gosið í þessum hálsi, og engin eru þar eldmerki, nema mjög gamlir gígir við suðurenda hálsins nálægt Mælifelli. Hálsinn er víða sundursoðinn af súrum eldfjallagufum, og þeir hafa, ef til vill, einmitt þess vegna engin gos komið, af því að gufurnar höfðu þar stöðuga útrás; annars eru öll fjöllin og dalirnir í kring sundurrótaðir af jarðeldum og eintómar gígaraðir fram með hverri hlíð. Undirhlíðar eru nokkurs konar áframhald af Sveifluhálsi, eða þó öllu heldur hjalli, er gengur út undan norðurenda hans, og halda þær áfram norður fyrir Helgafell.

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Fram með Undirhlíðum eru margar gígaraðir, og eru sumir eldgígirnir upp á rönd þeirra rjett við Helgafell. Frá gígum þessum hafa mikil hraun runnið. Undir miðjum hlíðunum eru mjög nýlegir gígir; þeir hafa hlaðizt upp úr uppblásnum hraunsteinum, sem er tyldrað hverjum ofan á annan, og eru þeir því fjarska brattir. Aðalgígurinn er 70 fet á hæð og hefir 40—50° halla út á við. Úr pessum gígum hefir Kapelluhraun runnið niður í sjó sunnan við Hafnarfjörð. Þetta hraun hefir eflaust runnið síðan land byggðist; útlit þess bendir til þess, og í fornum bókum er það kallað Nýja-hraun, þannig t. d. í Kjalnesingasögu, og í íslenzkum annálum er sagt frá því, að skip hafi brotnað 1343 við Nýja-hraun fyrir utan Hafnarfjörð.

Kapelluhraun

Kapelluhraun norðanvert – eldvörp og gamlar sprungur.

Kapelluhraun hefir runnið niður með hlíðunum fyrir neðan Kaldársel niður að Stórhöfða, en beygir þar frá þeim til vesturs og norðurs. Sumir eldgígarnir og hraunstraumarnir við Helgafell eru mjög nýlegir. Á einum stað sá jeg þar mjög einkennilegan, sjerstakan hraunblett; hraunið hafði runnið út úr smáholum utan í litlu melbarði og fossað niður í smálækjum eins og uppsprettur; engir gígir höfðu samt myndazt, eins og vant er að vera við hraun, heldur hafði hraunleðjan beinlíns ollið á nokkrum stöðum út úr sprungu í melbarðinu; sprungan sjest eigi, en opin eru í vanalega stefnu, eins og aðrir gígir þar í nánd, frá norðaustri til suðvesturs; kringum uppvörpin er dálítil hrúga af hraunsteinum og svo hraunpípur niður úr; hraunbletturinn, sem komið hefir úr opum þessum, er mjög lítill, á að gizka 300 faðma langur og 10—20 faðma breiður.
Ásarnir, sem ganga niður undir Hvaleyri, eru nokkurs konar álma út úr Undirhlíðum og skilur hún Kapelluhraun frá Hafnarfjarðarhrauni. Hafnarfjarðarhraun er mjög gamalt; það virðist hafa komið úr stórum gömlum gíg norður af Helgafelli og vestur af Húsfelli, en síðan hefir landið milli þess gígs og Setbergshlíðaenda sokkið, og sjest vel í gjábarminum vestri allt norður undir Elliðavatn. Önnur gjá hefst rjett fyrir vestan Húsfell og gengur í suðvestur með Helgafelli suður um hraun þau, er komin eru frá Grindaskörðum; hún heitir Gullkistugjá; yfir hana verður eigi komizt nema á einstöku stað.”

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1884, Ferðir um Suðurland sumarið 1883, Þorvaldur Thoroddsen, bls. 25-28.

Gullkistugjá

Gullkistugjá.

Litluborgir

Í nágrenni Helgafells, sem í dag er orðið aðdráttarafl fyrir göngufólk í auknum mæli, er fjölmargt að skoða, s.s. Kaldárbotna, Helgadal, Valaból, Valahnúka, Húsfell, Litluborgir og Gvendarselshæðargígaröðina, svo eitthvað sé nefnt. Flest göngufólkið virðist þó hafa það að markmiði að ganga á fellið, njóta útsýnisins og þramma síðan umhugsunarlaust til baka. Þó eru þeir/þau til er vilja gefa sér tíma og njóta njóta allra dásemdanna, sem fellið hefur upp á bjóða, allt umleikis…

-Kaldárbotnar

Kaldárbotnar

Kaldárbotnar – vatnslindin.

Vatnsból Hafnarfjarðar er í Kaldárbotnum. Þaðan liggur aðfærsluæð til bæjarins meðfram Kaldárselvegi um 6 km að lengd, síðan eftir stofnæðum og dreifilögnum sem flestar liggja í götum bæjarins.

Kaldá sprettur fram undar Kaldárhöfða og streymir um 1100 m leið ofanjarðar áður en hún hverfur ofan í gljúpt hraunið. Talið er að hún renni í sjó fram við Straumsvík og hraunin sunnan Hafnarfjarðar.

Fyrstu tildrög að vatnsveitu í bænum munu vera að Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar var stofnað 1904. Í fyrstu sóttu bæjarbúar vatn í vatnskrana, sem settir voru upp víðs vegar um bæinn. Síðar var farið að leiða vatn í hús.

KaldárbotnarNeysluvatn er leitt til bæjarins frá Kaldárbotnum. Núverandi aðveituæð er frá árinu 1950 og fullnægir hún enn vatnsþörf bæjarins.

Rétt vestan við Búrfellsgíginn, í hrauntröðunum, sem frá honum liggja, er misgengi er nemur um 2 m og snýr eins og hin tvö þ. e. að vesturbarmur sprungunnar er lægri.
Búrfell sjálft er brotið um þvert af misgengissprungu, sem liggur um Helgadal, Kaldárbotna, Gvendarselshæð og Undirhlíðar.

Misgengi þetta er víða (1—8 m og sums staðar 10 m eða þar yfir. Austurhlíð sprungunnar er hér aítur lægri. Það er þessi sprunga, sem Kaldá raunverulega kemur úr. Þetta misgengi er augljóslega yngra en Búrfell og Búrfellshraunið eins og aðalmisgengið um Hjalla.
Það er athyglisvert að um 1,5—2 km sunnan við Kaldárbotna, en þar er vatnsból Hafnarfjarðar, heldur þessi sama sprunga gosið hrauni. Það hraun er hið yngsta þar í grennd.

Sjá meira um Kaldárbotna HÉR  og HÉR.

-Vatnsveitan

Vatnsveitan

Vatnsveitan yfir Lambagjá.

Áberandi mannvirki liggur þvert á Lambagjá vestarlega og er allnokkuð hátt. Þetta eru leifar af undirhleðslu fyrsta vatnsstokksins úr Kaldárbotnum um 1919. Vatninu var fleytt yfir Lambagjána og áfram yfir í Gjáahraunið og Misgengið í Helgadal – Búrfell fjærGráhelluhraun þar sem það rann með undir hrauninu uns það kom upp í Lækjarbotnum. Þótt leiðslan sé löngu aflögð og að mestu horfin má enn sjá undirhleðsluna frá Lækjarbotnum yfir að ofanverðri Sléttuhlíð.
„Fyrr á tímum þegar engin vatnsveita var í Hafnarfirði sótti fólk vatn í Hamarkotslæk. Þessu fylgdi mikil óhollusta vegna óþrifnaðar og sýkingarhættu. Eftir að Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar var stofnað árið 1904 var grafinn brunnur vestan í Jófríðarstaðaholtinu, þar sem svonefnt Kaldadý var. Frá honum voru lagðar pípur um bæinn. Þessi vatnsveita var ein af fyrstu vatnsveitum á landinu. Árið 1908 geisaði taugaveiki upp í Hafnarfirði og töldu menn að rekja mætti orsök hennar til vatnsveitunnar. Þá var hún orðin ófullnægjandi og ákveðið var að leggja vatnsveitu frá Lækjarbotnum þar sem hluti af vatni því sem myndar Hamarkotslæk er. Þar koma lindir framundan hrauninu. Stuttu eftir það komust menn að því að uppsprettan í Lækjarbotnum var ekki næg. Þá fóru menn að huga að því að leggja vatnsæð frá Kaldá til bæjarins. Svo var ákveðið að veita vatni úr Kaldá yfir á aðalrennslissvæði Lækjarbotna til að tryggja Op Níutíumetrahellisinsvatnsveitunni og rafstöð bæjarins nægilegt vatn.

Vatnsveitan

Vatnsveitan yfir Lambagjá.

Vatnið úr Kaldá var leitt mestan hluta leiðarinnar í opinni trérennu. Trérennan var lögð yfir Hjallamisgengið og hraunið en vatninu var síðan sleppt við suðurenda Setbergshlíðar [Setbergshlíð endar við Þverhlíð, hér á því að standa „Sléttuhlíðar“] þar sem hraunið byrjar að falla að Lækjarbotnum í þeirri von um að jarðlög undir hrauninu skiluðu vatninu í Lækjarbotna sem það og gerði eftir nokkra daga. Þegar þetta var ekki fullnægjandi var lögð breiðari pípa. Við þá aukningu höfðu flestar götur bæjarins nægilegt vatn. Það dugði samt ekki lengi því að eftir nokkur ár fór svo aftur að bera á vatnsskorti. Ástæðan fyrir því var m.a. sú að rennan úr Kaldá gekk smá saman úr sér og úreltist og þá minnkaði stöðugt vatnsmagnið sem hún gat flutt. Einnig var þetta vegna þess að þrýstingurinn í vatnsleiðslunum í bænum var ófullnægjandi og náði vatnið þá ekki upp í þau hús sem hæst stóðu.
Þá var ákveðið að leggja vatnsæð úr Kaldárbotnum. Nokkrar endurbætur voru svo gerðar á henni þegar húsum í bænum fór að fjölga. Þegar grunnvatnsyfirborðið fór að lækka ört vegna minnkunar á úrkomu, voru nokkrar holur boraðar við Kaldárbotna og þær tengdar við vantsveituna. Orsakir hinnar miklu vatnsnotkunar í Hafnarfirði voru taldar vera vegna mikils fjölda fiskvinnslustöðva, göllum í gatnakerfi bæjarins, óhóflegrar vatnsnotkunar og vegna skemmda og bilana á heimilislögnum. Árið 1967 rættist svo úr þessu. Vatnsmagnið í vatnsbólinu í Kaldárbotnum jókst vegna aukinnar úrkomu og ýmsar endurbætur voru gerðar á vatnsveitunni.“

Sjá meira um Vatnsveituna úr Kaldárbotnum HÉR og HÉR.

-Helgadalur

Rauðshellir

Helgadalur – Í Rauðshelli.

Helgadalur ofan við Kaldársel var lengi vinsæll staður fyrir skátamót. Strax árið 1938 héldu Hraunbúar Vormót sitt þar en fyrsta Vormótið var haldið í Kaldárseli árið áður.

Kaldársel var einnig vinsæll útilegustaðir og komu skátar t.d. úr Reykjavík oft þangað, ekki síst skátar sr. Friðriks Friðrikssonar í Væringjum.

Síðasta Vormót Hraunbúa var haldið í Helgadal árið 1963. Var svæðið þá skilgreint sem vatnsverndarsvæði og síðar lokað af. Bæjaryfirvöld virðast, í seinni tíð, vera meira annt um að loka af svæðinu en að bæta aðgengi að því.

Göngufólk gengur gjarnan um Helgadal á leið í Valaból – eftir gömlu Selvogsgötunni. Þegar komið er niður í dalinn, þar sem vatnsverndargirðingunni sleppir, má sjá inn í dalinn til hægri; fallega tjörn umlukta runnagróðri og misgengisvegg með mosavaxna Kaldárhnúka í bakgrunni.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Þegar komið er í Helgadal sést vel í ætlað bæjarstæði fornbýlis, sem þar á að vera, í ofanverðri hlíðinni. Ekki er ólíklegt er að þarna sé komið bæjarstæði það sem lengi hefur verið leitað að og heimildir kveða á um. Á landnámsmaður að hafa byggt sér bæ í Helgadal, en þrátt fyrir leitir hafa leifar hans ekki fundist. Hér gæti einnig verið um hina fornu Skúlastaði að ræða, en þeir eiga skv. sögunni að vera næstelsta bæjarstæði norrænna manna hér á landi. Við þetta ætlaða bæjarstæði liggur gömul þjóðleið. Fróðlegt væri að fá við tækifæri áhugasaman fræðing til að kíkja á aðstæður þarna.
Framangreint eru nú einungis vangaveltur um hugsanlega möguleika því ekki er vitað til þess að svæðið eða þessi staður í Helgadal hafi verið skoðaður sérstaklega m.t.t. þessa.
Í Árbókinni 1908 fjallar Brynjúlfur Jónsson um „Rannsóknir fornleifa sumarið 1907“; annars vegar í Gullbringusýslu og hins vegar í Skúlatúni. Þar fjallar hann bæði um tóftir í Skúlatúni og í Helgadal.
„Í Árbók fornleifafélagsins 1903, bls. 33—34, hefi eg getið þess, að nafn Skúlastaða, — þar sem Ásbjörn landnámsmaður Özzurarson bjó, — sé nú týnt, og jafnframt, að eg hefði síðan heyrt sagt frá því, að hrauni umgirtur grasblettur uppi undir Lönguhlíð væri nefndur Skúlatún. Kom mér í hug að það væri stytt úr Sculastatun; þar hefði bærinn verið og orðið undir hraunflóði, en túnið, eða nokkur hluti þess, hefði staðið upp úr hrauninu. Ásetti eg mér að nota fyrsta tækifæri til að koma á þenna stað. En í þeirri ferð, sem eg var þá í, var það um seinan, er eg heyrði Skúlatúns getið. Auðvitað gerði eg mér eigi háar vonir um að finna þar fornleifar, einkum eftir að eg hafði séð, að dr. Þorvaldur Thoroddsen hafði komið þar, á ferðinni um Reykjanesskagann, og álitið tvísýnt að þar hefði bær verið.
Samt þótti mér ófróðlegt að sjá ekki þennan stað, og fór eg þangað í sumar…

Sjá meira um Helgadal og Helgardalshella HÉR, HÉR og HÉR.

-Valaból

Valaból

Valaból.

Þegar við erum vel hálfnuð með gönguna komum við að trjálundi nokkrum, þokkalega stórum. Er það Valaból. Hefur það stundum verið nefnt fyrsta farfuglaheimili okkar Íslendingar. Farfuglar hófu þarna uppbyggingu fyrir miðja síðustu öld. Fyrst var reyndar staðurinn kallaður Músarhellir. Þar var hellisskúti sem Farfuglar mokuðu út úr. Þeir girtu svo af svæðið og hófu þar ræktun með þessum líka góða árangri. Í dag er bólið orðið af fallegum gróðurreit í annars gróðursnauðu umhverfi.

Sjá meira um Valaból HÉR.

-Valahnúkar

Valahnúkar eru taldir hafa myndast í gosi fyrir um 120 þúsund árum. Nafngiftin gæti verið komin af nafni Fálka sem eru stundum kallaðir valir. Undanfarin ár hafa hrafnar haft laupi í hnúkunum.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Sagan segir að „einu sinni hafa nátttröllafjölskylda búið í Kerlingarhnúk sunnan við Kerlingarskarð, en Tröllapabbi norðan við Kerlingargil og er þá Lönguhlíðahorn á millum. Stórkonusteinar eru norður undir Lönguhlíðarhorni. Sögn er af tilvist þeirra, en hún verður ekki rakin hér. Eitt sinn að vetri þegar dagurinn var stystur ákvað fjölskyldan í Kerlingarhnúk að leggja land undir fót og sækja sér hval til Hafnarfjarðar en sá hafði rekið á Hvaleyri. Þetta var löngu áður en mennskir höfðu sest að hér. Lögðu tröllin; móðir, faðir, dóttir og stálpaður sonur þegar af stað er sólin hafði skriðið undir ysta hafflöt Faxaflóans. Hundur þeirra fylgdi fast á eftir. Þau töfðust á leiðinni eftir að hafa færst um of í fang. Þegar fjölskyldan kom upp á Valahnúka kom sólin upp í Kerlingarskarði og þau urðu umsvifalaust að steini – þar sem þau eru enn þann dag í dag.“

Sjá meira um tröllin á Valahnúkum HÉR

-Litluborgir

Litluborgir

Litluborgir.

Borgirnar eru í Þríhnúkahrauni í jaðri Tvíbollahrauns. Austar er Húsfellsbruninn. Allt hafa þetta verið mikil hraun. Húsfellsbruni er að mestu apalhraun, en Þríhnúkahraun og Tvíbollahraun eru helluhraun. Síðastnefnda hraunið mun hafa runnið um 950. Sjá má gígana austan við Kerlingarskarðið þarna fyrir ofan. Megi ngígurinn er einstaklega fallegur og utan í honum eru tveir minni. Mikil hrauntröð liggur niður frá gígunum og víða eru smáhellar. Vatn hefur verð þarna í dalverpi ofan við Helgafell (Helgafell er frá því fyrir meira en 12.000 árum síðan). Þegar hraunið rann þunnfljótandi niður í vatnið mynduðust borgirnar. Líkt og annars staðar þegar þunnfljótandi hraunið rennur yfir vatn mynduðust gervigígarnir.

Litluborgir

Litluborgir – Gervigígur.

Gervigígar myndast þegar hraun rennur yfir vatnsósa jarðveg, til dæmis mýri, vatnsbakka eða árfarveg. Í stuttu máli gengur ferlið sem leiðir til myndunar gervigíga þannig fyrir sig: Hraunið rennur yfir vatnsósa jarðveginn, en sökum hitamismunar þess og yfirborðsvatns gufar allt yfirborðsvatn upp. Eingöngu verður eftir það vatn sem geymt er í jarðveginum því það kemst ekki í beina snertingu við hraunið.

Sjá meira um Litluborgir HÉR.

-Helgafell

Helgafell

Helgafell.

Helgafell ofanvið Hafnarfjörð er 340 m hátt. Ein sjö samnefnd fell eru til í landinu; þetta suðaustur af Hafnarfirði, ofan Kaldárbotna, klettótt og bratt á flesta vegu, í Mosfellssveit, fjall og bær sem sama nafni, á Þórsnesi á Snæfellsnesi, ávalt að sunnan og vestan en mjög þverhnípt að norðan og austan (einnig samnefndur kirkjustaður), hátt fjall yst sunnan Dýrafjarðar, fell í Strandasýslu vestan Hrútafjarðar, í Þistilfjarðarfjallgarði norðaustan Öxarfjarðarheiðar og í Vestmannaeyjum.
Ýmsar leiðir liggja um Helgafell. Auðveldasta uppgangan er að norðvestanverðu. Efst á vestanverðu fellinu er móbergskletturinn “Riddari” og neðan hans til suðvesturs er klettaborg; “Kastali”.
Hugsanlega er nafnið “Riddarinn” tengt lögun þessara fjalla, en þau eru að minnsta kosti sum hver regluleg eða heilleg að útliti. Af einhverjum ástæðum var talin helgi á Helgafelli á Snæfellsnesi. Nú er og helgiblær á Helgafellinu ofan við Hafnarfjörð eftir að fólk frá KFUMogK í Kaldárseli reisti trékross á Kaldárhnúkum vestari.

Helgafell

Helgafell – krossinn.

„Orðið helgur er samandregin mynd úr heilagur, sem er skylt orðinu heill. Örnefni með Helga- að fyrra lið geta einnig verið dregin af mannsnafninu Helgi. Nafnið Helgafell gæti vísað til helgi á fjallinu til forna. Þar uppi er varða. Vísir menn á borð við Þórarinn Þórarinsson arkitekt hafa tengt saman vörður á fjöllum í nágrenni Reykjavíkur á kort, t.d. á Helgafelli, Ásfelli og Sandfelli, og fundið líkindi til þessa að þær hafi markað tímatal eftir gangi sólar. Gæti því verið að fjall eins og Helgafell hafi notið sérstaks álits í heiðnum sið? Enn aðrir segja að á Helgafelli kunni að vera grafinn Hinn heilagi bikar.

Sjá meira um Helgafell HÉR.

-Gvendaselshæðargígar

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Undirhlíðarnar eru framhald af Sveifluhálsinum til norðurs, ef svo má segja. Nyrsti hluti þeirra að austanverðu nefnast Gvendarselshæðir og Gvendarselshæðargígar norðan þeirra. Þeir eru stórbrotnir þar sem þeir liggja á sprungurein austan með hæðinni og út frá henni til norðausturs. Gvendarsel er í ofanverðum Bakhlíðum.
Gvendaselsgígar kallast hraungígar á stuttri gossprungu í bakhlíðum Undirhlíða milli Kaldárbotna og Gvendarselshæðar. Talið er að gosið hafi um miðja 12 öld. Hraunið rann annarsvegar á milli Helgafells og Undirhlíða og niður með Kaldá en hinsvegar í hraunfossi norður yfir Undirhlíðar þar sem þær liggja lægst.
Gatið svonefnda í suðvestanverðu Helgafelli er til komið vegna ágangs vatns og vinda í kjölfar yfirgangs ísaldarjökulsins. Þar er niðurgönguleið, ef varlega er farið.

Sjá meira um Gvendarselshæðargíga HÉR.

-Kaldársel

Kaldársel

Kaldársel.

Elstu heimild um Kaldársel er líklega að finna í Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Þar segir í sambandi við lýsingu Garða á Álftanesi: “Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott”. Þetta telur Jarðabókin ein af hlunnindum Garðastaðar og er augljóst að staðurinn hafi átt landið, eða allt þar til Hafnarfjarðarbær kaupir það árið 1912. Garðar höfðu einnig um tíma selstöðu í Selgjá og jafnvel neðst í Búrfellsgjá. Ummerki þess má sjá enn í dag.
Þótt Kaldársel hafi um aldir verið eign Garðakirkju, ásamt miklu landflæmi til suðurs, austurs og norðurs frá Kaldárseli, er fátt heimilda um selfarir Garðapresta við Kaldá. Seltættur má finna í nágrenninu, s.s. í Helgadal. Hitt er vitað, að þar var haft í seli frá Hvaleyri á síðasta fjórðungi síðustu aldar (skrifað 1968), en leiguselstöð hlýtur það að hafa verið, þar eð elstu landamerki, sem vitað er um, liggja í a.m.k. eins km vegalengd vestur frá Kaldárseli. Meðan selfarir voru mikið tíðkaðar, urðu landlitlir bændur oft að fá leigt land eða skipta á hlunnindum undir sel sín hjá landríkari bændum, svo að einsdæmi hefði það ekki verið, þótt Hvaleyrarbóndinn leigði selstöð í Garðakirkjulandi.

Sjá meira um Kaldársel HÉR.

-Kaldárhraun

Helgafellshraun

Hraunin ofan Helgafells – Jón Jónsson.

Kaldárhraun og Gjárnar í Hafnarfirði voru friðlýst sem náttúruvætti árið 2009. Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna er að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli.
Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar. Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur. Stærð hins friðlýsta svæðis er 207,1 ha.

Sjá meira um hraunin í kringum Helgafell HÉR.

Heimildir m.a.:
-https://vatnsidnadur.net/2019/09/13/kaldarbotnar-vatnsbol-hafnarfjardar/
-https://www.hafnarfjordur.is/media/uppland/GreinargerdKaldarselKaldarbotnarGjarnar.pdf
-https://timarit.is/page/4262872?iabr=on#page/n33/mode/2up/search/kald%C3%A1rbotnar
-https://www.fjardarfrettir.is/ljosmyndir/thegar-skatamot-voru-haldin-helgadal
-https://ratleikur.fjardarfrettir.is/13-valahnukar-troll/

Litluborgir

Hraunmyndanir í Litluborgum.

Helgafell

Eftirfarandi grein birtist í Mbl 4. febrúar árið 2001.
Kaldárbotnar“Helgafell í landi Hafnarfjarðar lætur frekar lítið yfir sér, en upp á það eru nokkrar skemmtilegar gönguleiðir. Útsýnið af því kom einnig Regínu Hreinsdóttur á óvart.
VIÐ hefjum gönguna við vatnsból Hafnfirðinga í Kaldárbotnum. Nokkrar skemmtilegar uppgönguleiðir eru á Helgafellið bæði að sunnan- og norðanverðu. Auðveldast er þó að ganga upp að norðaustanverðu, þar sem brattinn er minnstur og það gerum við í þetta skipti. Fyrir þá sem ekki hyggja á fjallgöngu er einnig vel þess virði að ganga kringum fellið og heilsa upp á riddarann, móbergsstrýtuna sunnan á háfjallinu. Kynjamyndir í Riddarinnmóbergi Fellið er skriðurunnið þar sem uppgangan hefst en ofar hefur lausagrjótið sópast burt og í ljós koma ýmsar kynjamyndir sem vindurinn hefur verið að dunda sér við að sverfa í móbergið, síðan jökla leysti. Þarna er hægt að gleyma sér lengi dags við að dást að listasmíð náttúrunnar, allskonar öldumynstri, skálum, örþunnum eggjum og andlitsdráttum trölla og álfa ef vel er að gáð. Landslagið er sumstaðar svo framandi að allt í einu læðist kannski að manni að einhvern veginn hafi maður í ógáti lent á tunglinu.
Hraunflæmið sem blasir við allt í kring vekur einnig ósjálfrátt til umhugsunar um hversu kraftmikil öfl
eru að verki í náttúrunni. Síðasti hluti leiðarinnar er brattastur og nokkuð skriðurunninn og betra er að hafa varann á sér svo manni skriki ekki fótur í lausagrjótinu.

TröllMúsarhellir og farfuglar
Af toppi fellsins sér vel til allra átta. Bláfjöll, Langahlíð, Sveifluhálsinn, Keilir og Búrfellsgjá eru meðal
kunnugra kennileita sem standa upp úr hrauninu auk þess sem vel sést yfir höfuðborgarsvæðið.
Þegar við höfum horft nægju okkar að þessu sinni, og skrifað í gestabókina, höldum við aftur sömu leið til baka. Þegar niður er komið er upplagt að koma við í Valabóli norðaustan í Valahnúkum, en þar er skjólsæl vin í eyðimörkinni sem Bandalag íslenskra farfugla hóf að rækta upp 1942. Innan uppgræðslusvæðisins er hellirinn Músarhellir sem notaður var af gangnamönnum allt til aldamótanna
1900 og þar gerðu farfuglar sér hreiður, ef svo mætti að orði komast og notuðu sem gististað á ferðum
sínum. Þetta er einnig vinsæll áningarstaður þeirra sem ganga Selvogsgötuna.

VeðrunKyrrðin áhrifamikil
Eftir skruðninginn í smásteinum í göngunni á Helgafellið verður kyrrðin sem ríkir í Valabóli enn áhrifameiri. Þar er eins og löngu liðnir atburðir liggi í loftinu og blærinn reyni að hvísla að manni gleymdum sögum. Ef við ákveðum ekki hér og nú að gerast útilegumenn og setjast að í
þessum sælureit, skulum við halda förinni áfram meðfram Valahnúkunum. Þá getum við annars vegar valið að fara sömu megin við vatnsbólið og við komum eða tekið stefnuna á Helgadal þar sem við gætum rekist á hraunhella sem gaman er að skoða. Það er svo um að gera að nota
heimferðina til að spá í hvaða uppgönguleið ætti að velja á Helgafellið í næsta skipti.”

Heimildir: Gönguleiðir á Íslandi,
Reykjanesskagi. Einar Þ. Guðjohnsen.
1996 og Árbók 1984, Ferðafélag
Íslands. -Mbl 4. febrúar 2001, blaðsíða 3

Helgafell

Helgafell og nágrenni – örnefni og leiðir – ÓSÁ.

Húsfell

Farin var fjögurra fjalla för ofan Hafnarfjarðar.
Lagt var stað frá Kaldárseli og gengin S-slóðin á Helgafell. Þetta er langeinfaldasta og þægilegasta gönguleiðin á fellið, sem æ fleirum virðist vera orðin kunn.
Haldið var niður að að norðanverðu og gengið að tröllunum þremur á Valahnúk. Þau böðuðu sig í sólinni og ekki var laust við að kerlinginn sæist blikka öðru auga. Kannski var það bara sólargeisli. Undir karlinum kúrði lítill fallegur úlfhundur. Eigandinn var skammt undan.
Gengið var stysta leið af Valahnúkum, með Víghól sunnanverðum og á Húsfell. Í leiðinni var komið við vestan undir fellinu til að líta á hrafnslaup, sem Haukur Ólafsson hafði rekið augun í er hann var þar á göngu nýlega. Hrafnarnir sveimuðu yfir, settust, hoppuðu og krunkuðu. Þeir virtust óánægðir með gestaganginn. Þegar gengið var svo til alveg að laupnum létu þeir enda öllum illum látum svo undirtók í fellinu.
Frá Húsfelli var gengið hiklaust norður að Búrfelli, upp á gígbarminn og eftir honum til vesturs. Gígbarmurinn speglaðist fallega í kvöldsólinni.
Gengið var niður um hrauntröðina og síðan Mosana til baka í Kaldársel.

Gangan tók nákvæmlega fjóra stundarfjórðunga. Veður var frábært – sól og logn.

Tröllin á Valahnúkum

Tröllin á Valahnúkum.

Ásfjall

Útsýnisskífan á Ásfjalli átti sér langa sögu eins og segir í 50 ára afmælisriti Rotaryklúbbsins. Þegar hún var komin á sinn stað og vígsluathöfn hafði farið fram 26. júní 1987 voru fimmtán ár liðin frá því að fyrst var rætt um það í klúbbnum að hann ætti að beita sér fyrir því að koma upp útsýnisskífu á Ásfjalli. Málinu var hreyft öðru hvoru en úr framkvæmdum varð ekki fyrr en þetta ár að forseti klúbbsins, Steingrímur Atlason, fékk nokkra vaska drengi í lið með sér og verkið var unnið.

Ásfjall

Frá vígslunni.

Frá vígslu á útsýnisskífunni á Ásfjalli. Þessir félagar voru auk forsetans: Jón Bergsson og Sigurbjörn Kristinsson, Gísli Guðmundsson, Hjalti Jóhannsson, Einar Ágústsson og Gunnar Hjaltason. Gunnar heitinn Ágústsson hafði einnig liðsinnt í þessum efnum. Lögðu þeir allir fram góð ráð, mikla vinnu og fagþekkingu án þess að ætlast til launa.

Útlagður kostnaður við verkið varð þó um 100 þúsund krónur og kom í hlut klúbbsins að greiða hann. Loks stóðu 14 manns á Ásfjalli við vígslu skífunnar 26. júní 1987.

Steingrímur Atlason

Steingrímur Atlason.

Forseti og Jón Bergsson röktu sögu framkvæmda og veðurguðir sáu um hressilega vatnsskírn því að regn bókstaflega hvolfdist úr loftinu.

Vígsluskálina hafði forseti í fórum sínum og þótti mönnum ekki vanþörf á. Þegar menn bergðu á veigunum reyndust þær vera íslensk mysa. Sló þá þögn á mannskapinn!

Heimild:
-http://gamli.rotary.is/rotaryklubbar/island/hafnarfjordur/verkefni/utsynisskifa/
-Ljósmyndir; Gísli Jónsson.

Ásfjall

Ásfjall – uppdráttur ÓSÁ.

Helgafell

Gestur Guðfinnsson skrifaði grein í Morgunblaðið árið 1967 um Helgafell og nágrenni:
“Það er með fjöllin eins og mannfólkið, manni geðjast vel að sumum, en miður að öðrum, og kemur sjálfsagt margt til. Svo kann jafnvel að fara, að mann langi til að hafa þau heim með sér í stofuna eða á ganginn, til að geta haft þau daglega fyrir augunum. Þannig var það með Helgafell þeirra Helgafell-991Hafnfirðinga. Meiningin er að ræða svolítið um Helgafell og umhverfi þess í þessu greinarkorni. Þó er varla hægt að segja, að þetta sé neitt öndvegisfjall að útliti, og guð má vita, hvernig ég færi að útskýra ástæðurnar fyrir dálæti mínu á því, ef um það væri beðið. Ég hef aldrei hugsað út í það. Það er ekki einu sinni grasi gróið fyrr en niðri undir jafnsléttu, utan strá á stangli, sem enginn tekur eftir, nema kannski grasafræðingar og plöntusafnarar, en þeir fylgjast bezt með gróðurfarinu og beitilandinu ásamt blessaðri sauðkindinni. Annars veit ég ekki, hvort sauðkindin sést nokkurn tíma uppi á Helgafelli, það væri þá helzt, að hún færi þangað upp til að leggjast undir vörðuna og jórtra. Þar tökum við, flakkararnir, ævinlega upp nestisbitann, franskbrauð með áleggi eða annað þvíumlíkt, og drekkum hitabrúsakaffi fram an í Þríhnúkunum og Kóngsfellinu og fílósóferum um landslagið og tilveruna. Fjallaloftið örvar matarlystina og andríkið. Það er hvorki erfitt né tímafrekt að leggja leið sína á Helgafell.
helgafell-992Fært er á hvaða bíl sem er upp í Kaldársel og er venjulega ekið þangað, en þaðan er ekki mikið meira en kortersgangur að fellinu. Gönguferðin á fellið sjálft er heldur ekki mikið fyrirtæki, svo að nægur tími er að jafnaði afgangs til að skoða umhverfið í leiðinni.
Eins og ég sagði, er venjulega lagt upp frá Kaldárseli. Þar var áður sel, eins og nafnið bendir til, kennt við Kaldá, sem rennur meðfraim túnskikanum, en nú hefur K.F.U.M. og K. þar bækistöð fyrir sumarstarfsemi sína. Kaldá er ein af sérkennilegustu ám landsins að því leyti, að hún rennur ekki nema um kálómetra vegalengd ofanjarðar, sprettur upp í Kaldárbotnum rétt ofan við selið og rennur síðan spölkorn vestur eftir, en hverfur svo í hraunið og sést ekki meir. Sú var löngum trú manna, að Kaldá hefði fyrrum verið eitthvert mesta vatnsfall á Íslandi og átt upptök sín í Þingvallavatni, en runnið í sjó fram á Reykjanesskaga. Er þess m. a. getið í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. „Hún skal hafa runnið fyrir norðan og vestan Hengil og ofan þar sem nú er Fóelluvötn og svo suður með hlíðum og í sjó á Reykjanesi. Er sagt að hún komi upp í Reykjanesröst.” Um hvarf Kaldár fer þrennum sögum. Sú fyrsta er á þá leið, „að karl nokkur sem var kraftaskáld missti í hana tvo sonu sína og kvað hana niður.” Önnur að hún hafi horfið í eldgangi á Reykjanesskaga, þegar „einn eldur var ofan úr Hengli út í sjó á Reykjanesi.” Loks var þriðja skýringin, að Ingólfur kallinn landnámsmaður „hafi grafið Soginu farveg gegnum Grafningsháls eða rana úr honum og hafi þá Þingvallavatn fengið þar útfall, en Kaldá þverrað.” Af því skyldi svo Grafningsheitið dregið. Við meiri rök kynni að styðjast sú tilgáta, að Kleifarvatn hafi afrennsli að einhverju eða öllu leyti norður í Kaldá, en um það verður þó ekkert fullyrt að svo stöddu. Umhverfið meðfram Kaldá er geðþekkt, grasbakkar og hraunlendi, og snoturt er í Kaldárseli. Í Kaldá sækja Hafnfirðingar neyzluvatn sitt og þykir gott vatnsból.
kalda-990Skammt norður af Kaldárseli er grasi gróið dalverpi með dálitlu vatni eða tjörn og heitir Helgadalur. Þar halda hafnfirzkir skátar mót sín og margir Hafnfirðingar fara þangað um helgar og tjalda.
Eins og ég gat um, þá er Helgafell aðeins spölkorn frá Kaldárseli og blasir við, þegar þangað er komið. Það er móbergsstapi, sennilega orðinn til á ísöld við eldgos undir jökli. Móbergið er víða lagskipt og sérkennilega sorfið af veðrum og vindum í þúsundir ára og hefur sjálfsagt tekið miklum stakkaskiptum frá þvi sem það var í sinni upphaflegu mynd.
Það breytist margt á skemmri tíma en árþúsundum. Núna er það um 340 m yfir sjávarmál og ekki mikið um sig, svo það getur hvorki státað af stærðinni eða hæðinni. Samt er töluvert útsýni af kollinum á því, vegna þess hvað rúmt er um það og engin fjöll í næsta nágrenni, sem skyggja á. Ég sé þó ekki ástæðu til að fara að tíunda hvert fjall, sem sést af Helgafelli, enda yrði lítið á því að græða. En mörgum þykir umhverfið og útsýnið vel brúklegt, það held ég sé óhætt að bóka.
skulatun-990Suður frá Helgafelli heitir Skúlatúnshraun. Í því hattar á einum stað fyrir grænum bletti að sumarlagi, óbrennishólma, sem nefnist Skúlatún. Í Skúlatúnshrauni er líka Gullkistugjá, löng og djúp, og varasöm í myrkri, hún liggur í suðvestur frá Helgafelli. Annars er Helgafell meira og minna umkringt eldstöðvum hvert sem litið er, það rís eins og bergkastali upp úr mosagróinni hraunbreiðunni, sem runnið hefur í mörgum gosum og á ýmsum tímum, þar þar skráður merkilegur kafli í jarðeldasögu suðurkjálkans og einn sá nýlegasti.
Rétt norðan við Helgafell eru lágir móbergsihnúkar, tvö hundruð metra yfir sjávarmál og einum betur, svokallaðir Valahnúkar. Í þeim norðanverðum er dálítill hraunskúti, sem Farfuglar hafa um alllangt skeið helgað sér og kalla Valaból. Áður hét skútinn Músarhellir og var gangnamannaból. Farfuglar hafa afgirt þarna dálítið svæði og prýtt á ýmsa lund, m.a. með trjám og blómum, en auk þess vaxa innan girðingarinnar hátt upp í 100 tegundir íslenzkra villijurta. Skútann sjálfan notuðu Farfuglar lengi sem gististað, settu í hann fjalagólf og glugga og hurð fyrir dyrnar, einnig áhöld og hitunartæki, en erfitt hefur reynzt að halda þessu í horfi, og í seinni tíð er gestabókin það markverðasta í skútanum í Valabóli, enda eiga fáir þar næturstað núorðið.
musahellir-990Einhverjar draugasögur hef ég heyrt úr Valabóli eða Músarhelli, en ég er víst búinn að gleyma þeim öllum. Hins vegar veit ég, að ýmsir höfðu mætur á gistingu í þessari fátæklegu vistarveru, og í Farfuglinum ségir af einum slíkum, sem lagði leið sína þangað á aðfangadagskvöld jóla einn síns liðs og átti þar dýrlega nótt ásamt tveim mýslum, sem líklega hafa átt þar heima. Bendir það ekki til drauma eða reimleika á staðnum, hvað sem fyrr kann að hafa gerzt í Valabóli.
Valaból er vinalegt og vel hirt og ætti enginn að fara þar hjá garði án þess að heilsa upp á staðinn, og það eins þótt húsráðendur séu ekki heima. En að sjálfsögðu ber að ganga þar vel um eins og annars staðar.
Fast norðan við Valahnúk um Mygludali lá Grindaskarðavegur inn gamli milli Hafnarfjarðar og Selvogs, sem er alllögn leið og yfir fjöll að fara. Sú leið mun þó talsvert hafa verið farin fyrr á tímum bæði gangandi og á hestum. Sjást þar enn „í hellum hófaförin” í götunni yfir hraunið. Á sáðustu árum hefur verið klöngrazt á jeppum frá Valabóli upp í Grindaskörð eftir gömlu troðningunum, en tæpast er hægt að mæla með þeirri leið sem akvegi, enda miklu greiðfærari leið meðfram Lönguhlíð og þó ekki nema fyrir jeppa og aðra fjallabíla.
Norðaustur af Valhnúkum er kollótt móbergsfell, Húsfell (278 m), en í norður Búrfell (179 m). Búrfell er í raun og veru gíglhóll, sem mikil hraun hafa úr runnið, m.a. Garðahraun og Hafnarfjarðarhraun, og liggja heljarmiklar eldtraðir frá gígnum, þar sem hraunið hefur runnið og er það hin fræga Búrefllsgjá. Þarna í nágrenninu eru líka nokkrir skoðunarverðir hellar, eflaust gamlir eldfarvegir.
Norður af Búrfelli taka svo við Búrfellsdalir, en síðan Löngubrekkur, Tungur og Hjallar í Heiðmörk, sem naumast þarf að kynna, a.m.k. ekki fyrir Reykvíkingum. Eitt er vert að minnast á áður en sleginn er botninn í þetta spjall, en það er nafnið á fellinu.
Helgafell eru nokkuð mörg á landinu. Ekki eru allir á einu máli um hvernig nafnið sé til orðið. Sumir telja það dregið af fornum átrúnaði og ráða það m. a. af frásögn Eyrbyggju um Helgafell í Þórsnesi, sem segir, að Þórsnesingar höfðu mikla helgi á fjallinu og trúðu að þeir mundu deyja í fjallið. Engin slík saga mun þó til um Helgafell það, er hér um ræðir. Fleiri skýringar á uppruna nafnsins hafa skotið upp kollinum, þótt ekki verði hér raktar.”

Heimild:
-Morgunblaðið, 4. maí 1967, bls. 10.

Helgafell

Helgafell.

Kaldá

Ein sjö Helgafell eru til í landinu: 1. Suðaustur af Hafnarfirði, klettótt og bratt á flesta vegu. 2. Í Mosfellssveit, fjall og bær. 3. Á Þórsnesi á Snæfellsnesi, ávalt að sunnan og vestan en mjög þverhnípt að norðan og austan. Einnig samnefndur kirkjustaður. 4. Hátt fjall yst sunnan Dýrafjarðar. 5. Fell í Strandasýslu vestan Hrútafjarðar. 6. Í Þistilfjarðarfjallgarði norðaustan Öxarfjarðarheiðar. 7. Í Vestmannaeyjum.
Hugsanlega er nafnið tengt lögun þessara fjalla, en þau eru að minnsta kosti sum hver regluleg eða heilleg að útliti. Af einhverjum ástæðum var talin helgi á Helgafelli á Snæfellsnesi.
HvönninOrðið helgur er samandregin mynd úr heilagur, sem er skylt orðinu heill. Örnefni með Helga- að fyrra lið geta einnig verið dregin af mannsnafninu Helgi.
Í lýsingu er birtist í MBL 1980 segir m.a. um Helgafell og nágrenni: “Helgafell er algengt örnefni á Íslandi. Margt bendir til að þessi nafngift hafi upphaflega verið í tengslum við heiðinn átrúnað, smbr. sögnina um Helgafell á Snæfellsnesi, sem sagt er frá í Landnámabók og margir kannast við. Í nágrenni Reykjavíkur veit ég um tvö Helgafell. Annað fyrir norðan Reykjalund í Mosfellsbæ, en hitt er fyrir austan Hafnarfjörð. Þangað er förinni heitið að þessu sinni.
Við kirkjugarðinn í Hafnarfirði beygjum við út af Reykjanesbraut og höldum í austurátt. Helgafellið blasir við og innan stundar erum við komin að Kaldárseli. Ágætt er að skilja bílinn eftir við fjárréttina, sem þar er. Kaldársel er fornt býli og var í ábúð fram til 1886. Nú er þar starfrækt barnaheimili á sumrin. Kaldársel skipar sess í bókmenntasögu okkar því þar var Sölvi látinn alast upp, en hann er aðalpersónan í samnefndri sögu eftir sr. Friðrik Friðriksson og margir hafa lesið. Framhjá íbúðarhúsinu rennur Kaldá, ein stysta á landsins, því hún hverfur í hraunið skammt fyrir vestan barnaheimilið. Segja Móbergsmyndanirsumir, að hún komi aftur upp í Straumsvík. Við göngum yfir ána á brú, sem er fyrir sunnan húsið og tökum síðan stefnuna á norðvesturhorn fellsins, sem nú gnæfir uppi yfir okkur, bratt og skriðurunnið. Helgafell er úr móbergi, hlaðið upp við gos undir ísaldarjöklinum og því með eldri jarðmyndunum hér um slóðir. Þegar við erum komin upp á hæðirnar fyrir austan Kaldársel, tekur við rennislétt helluhraun, sem liggur upp að fellinu að vestan. Hér er gott að ganga, því fast er undir fæti og ekki spillir það fyrir ánægjunni að víða verpa smáhellar og hraungjótur á vegi okkar, sem sjálfsagt er að kanna nánar og ekki síst, ef einhver af yngstu kynslóðinni er með í för. Við höldum suður með fellinu og beygjum fyrir suðvesturhorn þess. Þar opnast nýtt útsýni, því nú blasir fjallgarðurinn við, sem er framhald Bláfjallanna til
vesturs. Við greinum m.a. Grindaskörðin, en um þau lá aðalleiðin frá Hafnarfirði austur í Selvog og Ölfus fyrr á tímum þegar hesturinn var aðalfararskjóti þjóðarinnar. Nú fara fáir um þessar gömlu götur, en þær eru fyllilega þess virði að kynnast þeim nánar. En gangan milli þessara staða fram og til baka er stíf dagleið. Leiðin meðfram Helgafellinu að austanverðu er mjög greiðfær, gatan liggur þar milli hrauns og hlíðar og er fær bilum með drifi á öllum hjólum. Þegar komið er norður fyrir svonefndan Riddara (sjá kort), getur að líta gatklett einn mikinn hátt uppi í hlíðinni og er ekki úr vegi að skreppa þangað, ef tíminn er nægur.
Fyrir norðan Helgafell eru Valahnúkar, og er greiðfært skarð á milli þeirra og Helgafells. Við skulum lengja gönguna og skreppa norður fyrir hnúkana. Leiðin er eins greiðfær og fyrr. Við förum rólega og njótum augnabliksins. Innan skamms komum við að voldugri girðingu, sem gerð hefur verið um skjólgóðan hvamm norðan í hnúkunum. Þetta er Valaból, sem Farfuglar hafa helgað sér. Þar hafa þeir hlúð að gróðri, sáð grasfræi og og gróðursett tré. Enda eru þeir nú að taka við launum þessa erfiðis síns. En það er annað og meira að skoða hér. Innan girðingarinnar er Músarhellir, gamall næturstaður gangnamanna, rjúpnaskyttna og ferðamanna fyrr á tímum. Farfuglarnir hafa sett hurð fyrir hellinn og lagfært margt þar inni, enda hafa þeir oft gist þar í hópferðum sínum. Við komumst yfir girðinguna á göngustiga og sjálfsagt er að staldra þarna við og skoða staðinn nánar.
Í ValabóliFrá Valabóli höldum við svo í áttina að Kaldárseli. Leiðin liggur meðfram girðingunni sem umlykur Helgadalinn, en þar eru miklar lindir, Kaldárbotnar, sem Hafnfirðingar taka úr sitt neysluvatn og þurfa að vernda. Og þar eru upptök Kaldár. Nokkru áður en við komum að bílnum verður garðhleðsla á vegi okkar. Liggur hún frá þessum vatnsbólum og í áttina að Hafnarfirði. Þetta eru undirstöðurnar af gömlu vatnsleiðslu Hafnfirðinga. Í stað þess að leggja vatnið í lokuðum leiðslum til bæjarins, eins og nú er gert var vatnið leitt í lokuðum stokk yfir hraunið og vestur undir Sléttuhlíð. Þar rann það ofan í hraunið en skilaði sér aftur í Lækinn, sem rennur um Hafnarfjörð, en þá höfðu bæjarbúar nýtt lækinn að fullu. Tilraunin heppnaðist fullkomlega og dugði þetta viðbótarvatn Hafnfirðingum í rúmlega 30 ár eða fram að1950. Þá var lögð fullkomin vatnslögn ofan frá Kaldárseli sem dugar enn.
Við skulum fylgja stokknum út í hraunið, en höldum þaðan að bílnum sem bíður okkar við réttina.”
Þetta var nú bara svona almennt um Helgafellið framanvert – aðdragandann að fellinu – til að koma að fleiri myndum.
Gangan að þessu sinni hófst við Kaldárbotna. Ætlunin var að ganga að Helgafelli og síðan suður og austur fyrir það. Austan fellsins er gilmyndun. Efst í því er gatklettur. Að honum þræddum er stutt upp á brún.
Þegar gengið var að Helgafelli (340 m.y.s.) eru Kaldárhnúkarnir áberandi til beggja handa. Litli-Kaldárhnúkur er minnstur og þeirra lögulegastur, rétt innan vatnsverndargirðingarinnar. Hvönnin var falleg myndbæting, bæði við Kaldá og vatnstjarnir innan girðingarinnar. Þegar stefnan er tekin fyrirfram á fjöll eða fell annars vegar gleymist oft hið smærra, jurtir og smásteinar fyrir fótum, sem í raun segja þó engu minni sögu um ummyndun og þróun landsins frá öndverðu.Hrútaberjalyng
“Vatnsból Hafnarfjarðar er í Kaldárbotnum. Þaðan liggur aðfærsluæð til bæjarins meðfram Kaldárselvegi um 6 km að lengd, síðan eftir stofnæðum og dreifilögnum sem flestar liggja í götum bæjarins. Fáeinar dælustöðvar innanbæjar sjá þeim bæjarhlutum sem hæst liggja fyrir vatni. Fyrstu tildrög að vatnsveitu í bænum munu vera þau að Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar var stofnað 1904. Í fyrstu sóttu bæjarbúar vatn í vatnskrana, sem settir voru upp víðs vegar um bæinn. Síðar var farið að leiða vatn í hús.  Vatnsveita Hafnarfjarðar sér nú um vatnsöflun og dreifingu neysluvatns í Hafnarfirði. Vatn er leitt til bæjarins frá Kaldárbotnum. Núverandi aðveituæð er frá árinu 1950 og fullnægir hún enn vatnsþörf bæjarins. Sjálfrennsli vatns er í stærstum hluta bæjarins, þó er vatni dælt á Hvaleyrarholt og í efstu byggð í Hvömmunum og Setbergshverfi. Á tímabili skipulagsins er stefnt að því að leggja nýja aðveituæð ásamt því að byggja vatnstanka og dælustöðvar til þess að auka rekstraröryggi og hagkvæmni vatnsveitunnar. Á liðnum áratugum hafa verið boraðar fjölmargar rannsóknarholur í nágrenni Hafnarfjarðar. Fyrstu holurnar voru vegna jarðhitaleitar og voru allar grunnar, eða á bilinu 60-100 m. Hitastigull í nágrenni bæjarins reyndist vera á bilinu 5,7 til 7,2 gráður á 100 m. Merkilegasta holan sem hefur verið boruð er við Kaldársel og varð 987 m djúp. Sú hola var köld (2-5 gráður) niður á 750 m dýpi. Á síðastliðnum áratug lét Vatnsveita Hafnarfjarðar bora á sjötta tug rannsóknarhola til þess að kanna grunnvatn. Dýpstu holurnar eru tæplega 90 m djúpar. Holurnar eru dreifðar um svæðið frá Helgafelli að StraumsvíkGrávíðir.
Vatnið í Kaldárbotnum er tiltækt í miklu magni í 80 til 100 m hæð yfir sjó og næst því sjálfrennsli til bæjarins og um meirihluta dreifikerfisins. Gæði vatnsins eru með því besta sem gerist og vatnsbólin eru mjög vel staðsett með tilliti til mengunarhættu. Áðurnefndar rannsóknarholur leiddu í ljós fleiri möguleg vatnsvinnslusvæði sem lofa góðu, s.s. norðan Valahnúka en grunnvatn þar er í 114-116 m hæð yfir sjó og er sjálfrennsli vatns mögulegt þaðan. Möguleikar eru taldir á vatnsútflutningi vegna gæða vatnsins og nálægðar við hafnaraðstöðu.
Kaldá er náttúrulegt afrennsli linda sem eru í Kaldárbotnum. Frá upphafi byggðar í Hafnarfirði og fram til ársins 1909 höfðu bæjarbúar notast við vatn úr ýmsum brunnum innanbæjar. Vatnið var oft óhreint og stundum svo mengað að fólk veiktist alvarlega af því að drekka það. Þannig braust út taugaveikifaraldur fyrri hluta ársins 1908 sem rakin var til mengaðs drykkjarvatns. Árið 1909 var farið að taka vatn úr lindum í svokölluðum Lækjarbotnum, sem eru í austurjaðri Gráhelluhrauns gegnt Hlíðarþúfum þar sem nú eru hesthús, en vegna þess að vatnið þar þraut í þurrkum og reyndist oft óhreint ákváðu menn að reyna að veita vatni úr Kaldá inn á vatnsvið lindanna. Í þetta var ráðist árið 1918.
Þannig var byrjað að nota vatn frá Kaldá strax árið 1918 á óbeinan hátt. Árið 1951 var svo tekin í notkun aðveituæð sem náði alla leið upp í Kaldá. Kaldá sjálf var stífluð og vatni úr ánni veitt í gegnum síu og þaðan inn í æðina. Á uppistöðulóninu sem myndaðist ofan við stífluna fóru að venja komur sínar fuglar ásamt því að  sandur og allskonar gróðurleifar fóru að berast inn í aðveituæðina. Þess vegna var hlaðin steinþró utan um stærstu uppsprettuna í Kaldárbotnum sjálfum og þaðan lögð pípa sem tengd var beint við aðveituæðina.
Náttúrulegar aðstæður í nágrenni Kaldár skýra af hverju svo mikið af vatni er í Kaldárbotnum. Eldgos í tugi þúsunda ára hafa hlaðið upp jarðmyndunum á svæðinu. Á meðan ísaldir ríktu hlóðust upp móbergsfjöll og bólstrabergshryggir. Á hlýskeiðum runnu hraun og gígir hlóðust upp en við öll þessi eldsumbrot brotnaði jarðskorpan og seig og reis. Þannig hafa myndast sigdalir og gapandi gjár, sem stundum fóru á kaf í ný hraun. Kaldárbotnar sjálfir eru í bólstrabergsmyndun. Bólstrabergið er nokkuð gamalt á mælikvarða jarðmyndana á svæðinu og segja má að það sé umflotið ungum hraunum. Bólstrabergið sjálft er afburða góð náttúruleg sía ásamt því að vera mjög vel vatnsleiðandi, sérstaklega eftir sprungum.Gatkletturinn
Megin misgengið sem lindirnar í Kaldárbotnum tengjast hefur örugglega hreyfst oftar en einu sinni. Þannig eru yfirvegandi líkur á að opnast hafi gjá, í einhverjum hamförum á ísöld, undir ísaldarjöklinum og hún fyllst af jökulurð. Við gröft vegna framkvæmda árið 1997 komu í ljós setlög sem stefndu ofan í misgengið og núið grjót ( sem við köllum héðan í frá hausagrjót )  kom upp af fimm metra dýpi, þegar grafið var niður með borholufóðringu. Ástæður fyrir þessu mikla vatni sem kemur upp austan við misgengið eru því þrjár. Vatnsleiðandi bergsprungur tengdar misgengjum, setfylling í megin misgenginu sjálfu og bólstrabergið
Vatn hefur líklega aldrei þrotið í Kaldárbotnum. Þó er þekkt að Kaldá hefur stundum þornað upp. Þá varð Hafnarfjörður vatnslaus af og til á árunum 1965-68. Við vatnsskorti lá einnig 1979 og 1986. Í eldgosi, sem líklega varð á tólftu öld, rann örþunnt hraun niður í Kaldárbotna sjálfa og þaðan niður fyrir Kaldársel og nam þar staðar. Þetta hraun hefur líklega verið mjög heitt og þunnfljótandi því að það fyllti í allar lægðir á leið sinni og storknaði án þess að í því mynduðust kólnunarsprungur og gjótur. Þegar grunnvatnsborð í Kaldárbotnum lækkar niður fyrir efri brún hraunsins hverfur Kaldá. Eftir að kemur vestur fyrir meginmisgengið í Kaldárbotnum rennur Kaldá ofan á þessu þétta hraunlagi. Þar sem hraunið endar, fyrir neðan Kaldársel, hverfur Kaldá ofan í hraunin þar fyrir neðan. Á árunum 1965-1968 varð ljóst að ekki væri hægt að treysta á lindirnar sjálfar með fullu öryggi og nauðsynlegt væri að bora eftir vatni. Þessar borholur voru ágætar en börn síns tíma. Bæði voru þær of grunnar og of mjóar til þess að koma að fullu gagni. Þá voru dælur einnig of litlar. Dælurnar og frágangur þeirra gerðu að verkum að ekki var stöðugt flæði frá holunum en gert ráð fyrir að hægt væri að dæla þegar lindirnar þryti. Árið 1989 voru svo loks boraðar þrjár stórar vinnsluholur. Þessar borholur voru virkjaðar og dæling úr þeim varð möguleg eftir byggingu stjórnstöðvar 1994. Enn var þó treyst á lindina í steinþrónni. Árið 1997 fór svo fram lokaátakið í beislun vatns í Kaldárbotnum. þá voru boraðar tvær holur til viðbótar en í þessar holur voru ekki settar dælur. Þessar tvær holur voru hannaðar með tilliti til þess að úr þeim fengist nægt sjálfrennandi vatn þannig að ekki þyrfti dælingar við.”
GatiðHraunið umrædda, þunnfljótandi frá 12. öld. er nú undir fótum. Í raun er um að ræða hraunið, sem rann 1151 til 1180. Þegar komið er upp á næstu hæðarbrún má sjá litla gíga. “Gluggi” er á þeim nyrsta. Um er að ræða endastöð gígaraðarinnar er náði allt frá Ögmundarhrauni á suðurströnd Reykjanesskagans. Ögmundarhraun er komið upp í eldstöðvarkerfi sem oftast hefur verið kennt við Krýsuvík, en stundum við Trölladyngju. Eldstöðvakerfið einkennist aðallega af gígaröðum og gapandi gjám og sprungum. Sprungureinin er víðast um og innan við 5 km breið og nær 50 km löng. Hún nær frá Ísólfsskála í suðvestri, norðaustur um Núpshlíðarháls og Sveifluháls og áfram um Undirhlíðar og Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð. Við Helgafell endar gosvirknin að mestu, en sprungurnar ná lengra til norðausturs yfir Heiðmörk, Elliðavatn og Rauðavatn og enda í Mosfellssveit.
Eldgosið hefur einkennst af umbrotahrinum, af gliðnun lands og kvikuhlaupum með hléum á millum. Síðustu eldsumbrot í Trölladyngju- og Krýsuvíkurkerfinu mætti nefna Krýsuvíkurelda því þá eyddist bærinn í Krýsuvík. Hraunin hafa að mestu fyllt Móhálsadal milli Núpshlíðarháls og Sveifluháls, og runnið til sjávar í suðri. Nyrst í Móhálsadal slitnar gígaröðin á 7 km kafla en tekur sig aftur upp norðan við Vatnsskarð og liggur þaðan meðfram Undirhlíðum allt norður á móts við Helgafell. Hraun frá þessum hluta gígaraðarinnar (Kapelluhraun o.fl.) hafa runnið til sjávar milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Um þau verður fjallað í annarri lýsingu. Jón Jónsson hefur áður haldið því fram að að Ögmundarhraun, Kapelluhraum og Gvendarselshraun hafi runnið í sömu goshrinu.
Gvendarselsgígaröðin er þarna á hægri hönd. Framundan til suðurs er sléttir hraunhleifar. Þarna hefur þunnfljótandi hraunið safnast líkt og vatn saman í lágt dalverpi milli hnúkanna og Helgafells. Á einum stað má sjá hvar hraunið hefur náð að mynda afrennsli til norðurs, grunna hrauntröð, líkt og um akveg væri að ræða.
Svæðið norðan og vestan Helgafells er því bæði ljúft og greiðfært yfirferðar: Þegar komið var suður fyrir fellið hækkar landið svolítið, en með því að fylgja fæti þess er leiðin greið. Falleg móbergsskil eru í neðanverðri hlíðinni. Í skjóli þeirra kúra myrta, holurt og fleiri blómtegundir. Þessi hluti Helgafells hefur stundum verið nefndur Riddarinn, en hann er hins vegar móbergsstandur er stendur hæst upp úr fellinu að sunnanverðu.
Austan undir Helgafelli eru fjölmenningasamfélag jurta, s.s. hrútaberjalyng, mjaðurjurt, blágresi og jafnvel grávíðir og birki. Sunnar er Skúlatúnshraun, Tvíbollahraun og Stórabollahraun. Fleiri nöfn munu vera og á þessum hraunstraumum. Gullkistugjá liggur og þarna til suðurs frá suðausturhorni Helgafells.
Og þá var tekist á við gilskorninginn víða. Aldrei þessu vant heyrðist engin fuglahljóð. Við nánari aðgát sást hvar fýllinn lá á hreiðrum. Hrafn stóð hreyfingarlaus á steini skammt frá. Hvítborin kindabein lágu í gönguleiðinni. Sennilega biðu allir í eftirvæntingi eftir því hvernig til tækist?
BúrfellUppgangan er þægileg í fyrstu, en er á líður eykst brattinn. Þá er betra en ekki að halda sér sem næst móbergsstálinu hægra megin. Smám saman nálgaðist gatkletturinn ofanverður. Haldið var í gegnum hann með þversneiðingi – og áfram upp vinstra megin, alveg upp á brún. Bólstrabergið í móbergsstálinu reyndist hin besta handfesta. Þrátt fyrir lýsinguna eru í raun fáar hættur á leiðinni, nema kannski ef vera skyldi hugsanlegur fótaskortur. Mikið lofthræddir ættu þó bara að halda sig á undirlendinu.
Þegar upp á brún var komið tók við upplíðandi halli að efstu brún – sem betur fer. Riddarinn reis tignarlegur á vinstri hönd og veðurbarðar móbergsmyndanir á þá hægri. Hjartslátturinn sló í takt við álagið.
Efst á Helgafelli er vörðumynd utan um bólstrabergsvegg. Hjá er dagbókastandur. Þaðan í frá er útsýni bæði dýrlegt og tilkomumikið – yfir undirlendið áðurnefnda, sem og allt höfuðborgarsvæðið. Einnig til norðausturs, yfir að Búrfelli (sjá meira HÉR), Kringlóttugjá, Húsafelli og Húsafellsbruna, sem ekki hefur verið lýst hér að framan. (Sjá meira HÉR um Helgafell.)
Gengið var niður af Helgafelli að norðanverðu – líkt og hefð hefur skapast um.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild:
-visindavefur hi.is
-Mbl. 10.júlí 1980.
-vatnsveita hafnarfjardar.isÚtsýnið

Helgafell

Eitt af sérkennum Reykjanesskagans er móbergsmyndunin. Hún er jafnframt eitt af sérkennum Íslands og um leið einkennandi fyrir bergtegundina hvert sem litið er á hnettinum.
Bergrunndur Íslands - brúnt er móbergshryggjasvæðinÁ síðustu árum hafa sjónir manna beinst í vaxandi mæli að móbergsmynduninni hér vegna þess að sitthvað þykir benda til þess að slíkar myndanir sé að finna á reikistjörnunni Mars. Móbergið hefur aðallega myndast í eldgosum undir jökli, og slík gos hafa menn getað rannsakað hér á landi, s.s. á Reykjanesskaganum (þar sem sjórinn kom í stað bræðsluvatns). Móberg myndast þannig, að 1200°C heit bráð snöggkælist í vatni. Þá hafa kristallar „ekki tíma til“ að vaxa og því myndast glersalli sem hleðst upp kringum gosopið. Þannig myndast hrúga af vatnsósa, lausri gosösku sem nefnist túff og ummyndast fljótlega í móberg (palagonít), sem er fast berg: Við 80-150°C hita hvarfast glerið við vatn, það „afglerjast“ og ýmsir kristallar myndast sem líma kornin saman og breyta túffinu í móberg.
Á síðustu ísöld voru einungis ystu nes Skagans án íss síðustu aldir skeiðisins. Bergmyndunin ber þess glögg merki þar sem móbergið er annars vegar. Kannski sú bergtegund sem næst kemst því að vera séríslensk sé einmitt móbergið. Alkunn móbergsfjöll í nágrenni Reykjavíkur eru Helgafell sunnan við Myndun móbergsfjallsHafnarfjörð, Hengill, Bláfjöll og hryggirnir á Reykjanesskaga; Fagradals-, Vesturáss-, Austuráss- og Geitahlíðar. Slíkir móbergshryggir myndast í sprungugosi undir jökli eða í sjó. Móbergið sjálft er bergtegund, sem verður til við gos undir jökli eða vatni þar sem gosopið er nálægt eða rétt undir yfirborðinu, öfugt við bólstraberg, sem myndast djúpt undir vatni. Rétt undir yfirborðinu er þrýstingurinn ekki nægur til að halda kvikunni niðri heldur brýst hún upp á yfirborðið í gufusprengingum og verður að gosösku, sem er glersalli. Oft hefjast neðansjávargos eða gos undir jökli með bólstrabergsmyndun ef gosopið er á nægilegu dýpi en þegar á líður grynnkast á opinu og gufusprengingar hefjast með samfarandi gjóskumyndun. Í móberginu má gjarnan finna bólstrabergsbrot eða framandsteina, sem kvikan hefur hrifið með sér á leið upp á yfirborðið. Ef gosopið kemst upp úr vatninu, þannig að gufuspreningum lýkur, hefst hraunrennsli og myndast þá stapar með hraunlagi ofan á móbergsmynduninni.
Móberg er algengt á Íslandi þar sem farið hefur saman eldvirkni og langvinnar jöklanir á kuldaskeiðum ísaldar. Oft má finna hraunhettur efst á móbergsfjöllum, en þær eru, eins og fyrr segir, til marks um að eldgosið hafi náð upp úr vatninu eða jöklinum þannig að hraun hafi byrjað að renna. Þannig má áætla þykkt ísaldarjökulsins út frá hæð hraunlaga í stöpum mynduðum á kuldaskeiðum ísaldar.
“Móberg verður til þegar ný gosaska hleðst upp við eldstöð og þjappast saman. Vatn gengur svo í samband við öskuna og hún ummyndast og límist saman í fast móberg, sem tekur oft á sig rauðleitan blæ. Ummyndun gosösku á sér stað við jarðhita og gerist hratt og auðveldlega við tiltölulega lágan hita. Í rannsóknum á Surtseyjargosinu kom í ljós að í 80-100 °C heitum borholum hafði gosaska ummyndast í hart móberg á aðeins einu til tveimur árum en jafnvel enn hraðar við hærri hita. Ummyndunin verður þannig að ýmsar katjónir losna úr gosglerinu, svo sem kísill, ál, kalsín, natrín og magnesín, en í stað þeirra gengur vatn inn í glerið og járnið í því oxast úr tvígildu járni yfir í þrígilt járn. Járnið gefur móberginu rauðan blæ en katjónirnar, sem gengu úr gosglerinu, mynda holufyllingar, sem límir glerið saman í hart móberg.
Skoðum nánar jarðmyndanir á ísöld. Venja er að skipta íslenskum jarðmyndunum frá ísöld í tvennt. Annars vegar eru jarðmyndanir frá síð-plíósen og fyrri hluta pleistósen sem eru 2,7 – 0,8 Má gamlar og teljast til fyrri hluta ísaldar. Hins vegar er um að ræða yngri jarðmyndanir frá síðari hluta ísaldar en þær eru 700.000 – 10.000 þúsund ára gamlar. Skilin markast af upphafi núverandi segulskeiðs fyrir 700.000 árum. Báðar myndanirnar hafa orðið til á hliðstæðan hátt og eru því Veðrun í móbergilíkar í flestu nema hvað aldurinn segir misjafnlega til sín. Munur jarðmyndana frá síð-plíósen og fyrri hluta pleistósen (þ.e. fyrri hluta ísaldar) annars vegar og jarðmyndana frá síðpleistósen (seinni hluta ísaldar) hins vegar felst því í aldri en ekki gerð. Stapar og móbergshryggir sjást ekki í eldri mynduninni því hraunin runnu aðeins að rótum þeirra en þöktu þá ekki. Jöklarnir jöfnuðu þá síðar við jörðu og dreifðu þeim sem jökulruðningi. Hin tignarlegu móbergsfjöll sem við sjáum í landslaginu nú eru því að öllum líkindum mynduð á seinustu jökulskeiðum og líklega flest á því allra seinasta.
Í Esjunni hefur 1650 m þykkur jarðlagastafli verið mældur og kortlagður og nær hann frá upphafi ísaldar (2,5 Má) þar til fyrir um 1,8 milljónum ára. Setlög og gosberg mynduð á ísöld eru um 1/3 af þessum jarðlagastafla.
Upphleðsla jarðlaga frá ísöld sjást vel í Esjunni. Þar má sjá annars vegar hvernig hraunlög runnin frá eldstöðvakerfum á hlýskeiðum hlóðust upp og mynduðu samfelldan stafla berglaga og hins vegar hvernig gos undir jökli hrúguðu upp móbergsmyndunum. Á meðan þessu fór fram rak eldstöðvakerfin út af gosbeltinu en ný og yngri kerfi tóku við innar á beltinu. Frá þeim runnu hraun sem kaffærðu smám saman eldri myndanir en þær eru misjafnlega mikið rofnar eftir jökla fyrri jökulskeiða. Hraunin fergðu líka eldri jarðlög þannig að halli þeirra inn að gosbeltinu óx stöðugt. Elstu og neðstu berglögunum hallar því mest en þeim yngstu minnst. Að síðustu mótuðu jöklar margra jökulskeiða landslag Esjunnar í núverandi mynd.
Síðasta jökulskeiði lauk fyrir 10 þúsund árum og er talið að það hafi staðið í 60 þúsund ár. Allar jökulminjar fjarri núverandi jöklum eru ummerki þessa jökulskeiðs. Það er einkum út frá þessum jökulminjum sem menn reyna að gera sér grein fyrir þykkt, stærð og skriðstefnu jökulskjaldarins sem lá yfir meginhluta landsins.
Vitneskja um þykkt meginjökulsins fæst einkum með rannsóknum á hæstu fjöllum. Móbergsstapar hafa sem kunnugt er myndast við gos undir jökli. Hraunþök stapanna bera vitni um þykkt jökulsins á myndunartíma þeirra á sama hátt og Surtseyjarhraunin segja til um sjávarstöðu þegar eyjan var að rísa úr sæ. Eins sýna háir móbergshryggir að þeir náðu aldrei yfirborði jökulsins meðan á gosi og upphleðslu þeirra stóð.
Harðgerður landnámsgróður í móbergslandslagiVíðast hvar á ystu annesjum má sjá jökulminjar sem veita vitneskju um útbreiðslu jökulsins og á sjávarbotni. Þáverandi fjörumörk lágu jafnvel 100 m neðar en nú.
Sem fyrr sagði myndast móberg við ummyndun gjósku sem verður til við gos undir jökli eða vatni. Mikið af gjósku myndaðist við slíkar aðstæður á kuldaskeiðum ísaldar og varð meginhluti hennar að gleri þegar kvikan snöggkólnaði í vatninu. Þetta glerbrotaberg kallast hyaloclastite á erlendum málum. Glerið ummyndast auðveldlega í palagónít, sem er brúnleitt og gefur móberginu lit.
Móbergið getur því varla talist gosberg því að myndun þess gerist eftir að gosið er um garð gengið. Eigi að síður er það tekið fyrir hér með gosmyndunum. Móbergsmyndunin er jafnan notað um bergmyndun landsins frá því fyrir 700 þúsund árum til loka ísaldar. Síðustu rannsóknir benda til þess að bakteríur flýti fyrir ummynduninni.
Berg, sem sandfok mæðir á, máist aðallega þar sem það er mýkst fyrir. Einkum er þetta áberandi í lagskiptu móbergi og sandsteini. Þetta hafa þeir/þau reynt sem markað hafa stafi í móbergshelluna. Að örfáum árum liðnum eru ummerkin horfin. Klappir og steinar á melum slípast einnig á þeirri hliðinni sem veit á móti sandbyljum en á hinni hliðinni þrífast skófir óáreittar. Þetta kallast vindsvörfun. Á melum hjálpast sandfok og frostlyfting að við að mynda þekju úr grófri möl og hindrar hún þá fok fínustu kornanna sem undir liggja. Víða myndast þannig hin náttúrulegustu listaverk – og engin tvö nákvæmlega eins.

Heimild m.a.:
-Jarðfræðiglósur GK.
-Wikipedia.org
-visindavefurinn.isMóbergsmyndun á Helgafelli - nútímahraunmyndunin fjær í Grindarskörðum

Helgafell

Helgafell ofanvið Hafnarfjörð er 340 m hátt. Ein sjö samnefnd fell eru til í landinu; þetta suðaustur af Hafnarfirði, ofan Kaldárbotna, klettótt og bratt á flesta vegu, í Mosfellssveit, fjall og bær sem sama nafni, á Þórsnesi á Snæfellsnesi, ávalt að sunnan og vestan en mjög þverhnípt að norðan og austan (einnig samnefndur kirkjustaður), hátt fjall yst sunnan Dýrafjarðar, fell í Strandasýslu vestan Hrútafjarðar, í Þistilfjarðarfjallgarði norðaustan Öxarfjarðarheiðar og í Vestmannaeyjum.

Riddarinn á Helgafelli

Hugsanlega er nafnið tengt lögun þessara fjalla, en þau eru að minnsta kosti sum hver regluleg eða heilleg að útliti. Af einhverjum ástæðum var talin helgi á Helgafelli á Snæfellsnesi. Nú er og helgiblær á Helgafellinu ofan við Hafnarfjörð eftir að fólk frá KFUMogK í Kaldárseli reisti trékross á Kaldárhnúkum vestari.
“Orðið helgur er samandregin mynd úr heilagur, sem er skylt orðinu heill. Örnefni með Helga- að fyrra lið geta einnig verið dregin af mannsnafninu Helgi. Nafnið Helgafell gæti vísað til helgi á fjallinu til forna. Þar uppi er varða. Vísir menn á borð við Þórarinn Þórarinsson arkitekt hafa tengt saman vörður á fjöllum í nágrenni Reykjavíkur á kort, t.d. á Helgafelli, Ásfelli og Sandfelli, og fundið líkindi til þessa að þær hafi markað tímatal eftir gangi sólar. Gæti því verið að fjall eins og Helgafell hafi notið sérstaks álits í heiðnum sið? Enn aðrir segja að á Helgafelli kunni að vera grafinn Hinn heilagi bikar.
MálverkiðÁ mynd af málverkinu Síðustu kvöldmáltíðinni eftir Leonardo da Vinci sést hvar Kristur 
bendir á borðið og virðist segja: “Hvar er bikarinn?”, og lærisveinar reyna að útskýra fyrir honum hvar honum hafi verið komið fyrir. Einn bendir t.d. upp og þar virðast vera vísbendingar um staðsetninguna.
Helgafell er ein af mörgum, smáum móbergsmyndunum Reykjanesskagans og myndað við gos undir jökli mjög seint á ísöld. Það stendur upp af hraunum Trölladyngjukerfisins, sem sum hver eru frá sögulegum tíma en melar liggja að því í norðri og ásar tengja það við Valahnúka sem eru mun lægri móbergshryggir. Fjallið er sérkennilega kúpt og minnir helst á risastóra, brúna þúfu.”

Veðrað móberg á Helgafelli

Reyndar er “varðan” efst á Helgafelli berggangur, sem grjóti hefur verið hróflað utan í á seinni árum. Auk þess hafa nýlega verið hlaðnar litlar vörður uppi á fjallinu, skammt frá, svona til minningar um fólkið, sem þær hlóð.
Eftirfarandi lýsing á gönguferð í kringum Helgafell er úr grein í Mbl frá árinu 1980: “
Helgafell er algengt örnefni á Íslandi. Margt bendir til að þessi nafngift hafi upphaflega verið í tengslum við heiðinn átrúnað, smbr. sögnina um Helgafell á Snæfellsnesi, sem sagt er frá í Landnámabók og margir kannast við. Í nágrenni Reykjavíkur veit ég um tvö Helgafell. Annað fyrir norðan Reykjalund í Mosfellsbæ, en hitt er fyrir austan Hafnarfjörð. Þangað er förinni heitið að þessu sinni.
Kaldársel er forn selstaða sem og fornt býli og var í ábúð fram til 1886. Nú er þar starfrækt barnaheimili á sumrin. Kaldársel skipar sess í bókmenntasögu okkar því þar Útsýni til Grindarskarðavar Sölvi látinn alast upp, en hann er aðalpersónan í samnefndri sögu eftir sr. Friðrik Friðriksson og margir hafa lesið. Framhjá íbúðarhúsinu rennur Kaldá, ein stysta á landsins, því hún hverfur í hraunið skammt fyrir vestan barnaheimilið. Segja sumir, að hún komi aftur upp í Straumsvík.
Helgafell er úr móbergi, hlaðið upp við gos undir ísaldarjöklinum og því með eldri jarðmyndunum hér um slóðir. Þegar við erum komin upp á hæðirnar fyrir austan Kaldársel, tekur við rennislétt helluhraun, sem liggur upp að fellinu að vestan. Hér er gott að ganga, því fast er undir fæti og ekki spillir það fyrir ánægjunni að víða verpa smáhellar og hraungjótur á vegi okkar, sem sjálfsagt er að kanna nánar og ekki síst, ef einhver af yngstu kynslóðinni er með í för.
Við höldum suður með fellinu og beygjum fyrir suðvesturhorn þess. Þar opnast nýtt útsýni, því nú blasir fjallgarðurinn við, sem er framhald Bláfjallanna til vesturs. Við greinum m.a. Grindaskörðin, en um þau lá aðalleiðin Vatns- og vindrof á Helgafellifrá Hafnarfirði austur í Selvog og Ölfus fyrr á tímum þegar hesturinn var aðalfararskjóti þjóðarinnar.
Nú fara fáir um þessar gömlu götur, en þær eru fyllilega þess virði að kynnast þeim nánar. En gangan milli þessara staða fram og til baka er stíf dagleið.
Leiðin meðfram Helgafellinu að austanverðu er mjög greiðfær, gatan liggur þar milli hrauns og hlíðar og er fær bilum með drifi á öllum hjólum. Þegar komið er norður fyrir svonefndan Riddara (sjá kort), getur að líta gatklett einn mikinn hátt uppi í hlíðinni og er ekki úr vegi að skreppa þangað, ef tíminn er nægur.
Fyrir norðan Helgafell eru Valahnúkar, og er greiðfært skarð á milli þeirra og Helgafells. Við skulum lengja gönguna og skreppa norður fyrir hnúkana. Leiðin er eins greiðfær og fyrr. Við förum rólega og njótum augnabliksins. Innan skamms komum við að voldugri girðingu, sem gerð hefur verið um skjólgóðan hvamm norðan í hnúkunum. Þetta er Valaból, sem Farfuglar hafa helgað sér. Þar hafa þeir hlúð að gróðri, sáð grasfræi og og gróðursett tré. Enda eru þeir nú að taka við launum þessa erfiðis síns. En það er annað og meira að skoða hér. Innan girðingarinnar er Músarhellir, gamall næturstaður gangnamanna, rjúpnaskyttna og ferðamanna fyrr á tímum. Farfuglarnir hafa sett hurð fyrir hellinn og lagfært margt þar inni, enda hafa þeir oft gist þar í hópferðum sínum. Við komumst yfir girðinguna á göngustiga og sjálfsagt er að staldra þarna við og skoða staðinn nánar.
Frá Valabóli höldum við svo í áttina að Kaldárseli. Leiðin liggur meðfram girðingunni sem umlykur Helgadalinn, en þar eru miklar lindir, Kaldárbotnar, sem Hafnfirðingar taka úr sitt neysluvatn og þurfa að vernda. Og þar eru upptök Kaldár. Nokkru áður en við komum að bílnum verður garðhleðsla á vegi okkar. Liggur hún frá þessum vatnsbólum og í áttina að Hafnarfirði. Þetta eru undirstöðurnar af gömlu vatnsleiðslu Hafnfirðinga. Í stað þess að leggja vatnið í lokuðum leiðslum til Veðrun á Helgafellibæjarins, eins og nú er gert var vatnið leitt í lokuðum stokk yfir hraunið og vestur undir Sléttuhlíð. Þar rann það ofan í hraunið en skilaði sér aftur í Lækinn, sem rennur um Hafnarfjörð, en þá höfðu bæjarbúar nýtt lækinn að fullu. Tilraunin heppnaðist fullkomlega og dugði þetta viðbótarvatn Hafnfirðingum í rúmlega 30 ár eða fram að1950. Þá var lögð fullkomin vatnslögn ofan frá Kaldárseli sem dugar enn.”
Gengið var upp á Helgafell að vestanverðu. Aðkoman liggur yfir slétt helluhraun. Gangan upp er greiðfær og tiltölulega auðveld. Á leiðinni er komið upp í bergsal og upp úr honum liggur leiðin upp hann innanverðan til suðausturs. Þegar upp var komið, eftir 15 mín göngu, voru skoðaðar veðraðar móbergsmyndanir með alls kyns stílbrögðum. Utan í fellinu að suðaustanverðu eru listaverkasalir vatns og vinda. Heilsað var upp á Riddarann syðst á ofanverðu fellinu, en hann átti sér tvo bræður (vörður, sem mið af sjó) á suðvestanverði Brunabrúninni skammt ofan við Straumsvík. Þær hafa nú verið eyðilagðar.
Víðsýnt er af Helgafelli, bæði yfir höfuðborgarsvæðið sem og til fjalla og fjallgarða allt umleikis. (Sjá meira um Helgafell bakatil HÉR.)
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild:
-visindavefurinn.is
-Mbl. 10.júlí 1980.Útsýni af Helgafelli yfir höfuðborgarsvæðið

Helgadalur

Löngum hafa menn talið að fornar rústir kynnu að leynast í Skúlatúni og í Helgadal ofan við Hafnarfjörð. Fáir vita hins vegar hvar rústirnar eru. Enn færri vita um rústir undir Leirdalshöfða, í Fagradal og við Garðaflatir, jarðlæga garða í Breiðdal eða stekkjarmynd við Rauðshelli. Allt myndar þetta samfellda búsetuheild er gæti verið frá því áður en Hellnahraunið-yngra rann um 950, eða allt frá fyrstu árum landnáms hér á landi.

Helgafell

Skúlatún og Helgafell.

Í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1908 ritar Brynjúlfur Jónsson um rústirnar í Skúlatúni og Helgadal undir heitinu “Rannsóknir fornleifa sumarið 1907 – Gullbringusýsla”. Um Skúlatún skrifar hann eftirfarandi:
“Í Árbók fornleifafélagsins 1903, bls. 33 – 34, hefi eg getið þess, að nafn Skúlastaða, – þar sem Ásbjörn landnámsmaður Özzurarson bjó, – sé nú týnt, og jafnframt, að eg hefði síðan heyrt sagt frá því, að hrauni umgirtur grasblettur uppi undir Lönguhlíð væri nefndur Skúlatún. Kom mér í hug að það væri stytt úr Skúlastaðatún; þar hefði bærinn verið og orðið undir hraunflóði, en túnið, eða nokkur hluti þess, hefði staðið upp úr hrauninu. Ásetti eg mér að nota fyrsta tækifæri til að koma á þennan stað. En í þeirri ferð, sem eg var þá í, var það um seinan, er eg heyrði Skúlatúns getið. Auðvitað gerði eg mér eigi háar vonir um að finna þar fornleifar, einkum eftir að eg hafði séð, að dr. Þorvaldur Thoroddsen hafði komið þar, á ferðinni um Reykjanesskagann, og álitið tvísýnt að þar hefði bær verið. Samt þótti með ófróðlegt að sjá ekki þenna stað, og fór eg þangað í sumar.

Skúlatún

Skúlatún. Helgafell að handan.

Landslagi er svo háttað, að hraunfláki mikill fyllir víðlenda dæld sunnan frá Lönguhlíð norður að ásahrygg þeim, er gengur frá Námahálsinum vestan við Kleyfarvatn (inn frá Krýsuvík) allt inn á milli Kaldársels og Helgafells. Norð-vesturhliðin á ásahrygg þessum kallast Undirhlíðar, liggur inn með þeim forn vegur, er kemur saman við Hafnarfjarðarveginn gamla milli Elliðavatns og Lækjarbotns. Þar hét Tröllabotn og var áfangastaður áður en bær var gjör í Lækjarbotni.

Skúlatún

Skúlatún.

Suðausturhliðin á ásahryggnum, sú er veit að Lönguhlíð og hraunflákanum áðurnefnda, kallast Bakhlíðar, og eru þær lægri en Undirhlíðar, þar er hraunflákinn er hærri en hraunin fyrir neðan ásahrygginn. Þaðan til Lönguhlíðar er þvervegur hraunflákans og hygg ég hann hátt upp í mílu, en langvegurinn er frá Helgafelli og Grindaskarða hraunbálkinum út að botninum í Breiðdal, sem er fyrir norðan Kleifarvatn, og hygg eg hann yfir mílu.
Allur er hraunflákinn sléttur ofan, vaxinn grámosa og eigi gamallegur útlits. Hann er hallalítill, og mun dældin, sem hann hefir fylt, hafa verið nokkuð djúp með mishæðóttu láglendi, sem nú er ekki hægt að gera sér ákveðna hugmynd um. Ekkert sést af hinu forna yfirborði láglendisins, nema toppurinn á hæsta hólnum; hann stendur upp úr hraunbreiðunni hérumbil miðri. Það er Skúlatún. Eigi er hann raunar toppmyndaður, heldur flöt bunga nokkuð aflöng frá norðvestri til landsuðurs og er lengd hans nál. 110 faðm., en breidd nál. 60 faðm. Hæstur er hann í landsuður-endann og er þar bratt ofan. Næsthæsti staður á hornum er norðvestantil. Suður þaðan er og bunga á honum. Á öllum þessum þrem stöðum er einkennilegt stórþýfi, þvílíkt þýfi sem að öðru leyti er á öllum hólnum, er fremur má kalla smátt. Gæti eg trúað, að stórþýfið á þessum þrem stöðum væri myndað úr byggingaleifum; en fullyrða skal það ekki. Og engan vott mannaverka gat eg séð þar neinstaðar. En yfrum vesturhorn hólsins var að sjá sem götutroðninga, er virtust ærið gamlir og höfðu ekkert framhald í hrauninu, hvorugu megin.

Helgadalur

Tóft í Helgadal.

Sunnanmegin voru þeir dreifðari og óglöggvari, en norðanmegin þéttari og glöggvari. Hygg eg að þar hafi verið heimreið til bæjar, og mun hann huldinn hrauni norðvestan-undir hólnum. Hefir hann ef til vill staðið á lægra framhaldi á þessum hól, sem upprunalega hefir víst verið talsvert hár. Þó hefir túnið náð yfir hann allan. Því eigi gat eg betur séð, en að hann bæri merki gamallar ræktar. Alstaðar á honum er moldin mjög svartleit og þvöl, og víðasthvar vóx töðugresi milli þúfnanna, loðnara en í vor var á útjörð annarstaðar. Þar á móti var í þúfnakollunum meiri og minni grámosi, og hér og hvar utanmeð var krækiberjalyng farið að fær sig upp eftir hólnum.
Auðvitað eru nú þetta svo veikar líkur, að þær dyljast fyrir manni í fljótu bragði. En samt eru þær nógar fyrir sig til þess, að eg er ekki í efa um, að hér hefir verið bær og tún. Og þá virðist nafnið “Skúlatún”, gefa nægilega bendingu um, að þessi bær hafi einmitt verið Skúlastaðir.”
Hér er Brynjúlfur að lýsa hugsanlegum mannvirkjum frá því fyrir árið 950. Ekki er ólíklegt að mögulegar minjar í Skúlatúni tengist minjum sunnan við Leirdalshöfða, jarðlægum vegghleðslum í vestanverðum Breiðdal og tóft í Fagradal. Allar gætu þessi mannvirki hafa verið í notkun fyrir þann tíma er að framan greinir og þá mun svæðið allt væntanlega hafa verið nýtt, enda vel gróið undir hlíðunum og nægt vatn, skógur nærtækur og fugl í hlíðunum.
Hellnahraun yngra umlykur Skúlatún. Það kemur eins og Hellnahraunið eldra úr Brenni­steins­fjallakerfinu og er talið hafa runnið fyrir 1000 árum. Hraunið kom frá Tví­bollum í Grinda­skörðum, var mikið og fór víða, enda bæði mjög slétt og þunnt.
Þess má geta að Kristintökuhraunið er frá sömu goshrinu. Nákvæmasta tímasetning á Yngra Hellnahrauninu (Breiðdalshraun og Tvíbollahraun) er sú að það hafi runnið á árunum 938-983 (Haukur, Sigmundur og Árný – 1991).

Helgadalur

Tóft í Helgadal.

Eldra-Hellnahraunið mun hafa myndað stíflu fyrir dal þann er Ástjórn dvelur nú í sem og Hvaleyrarvatn. Hraunin eru ákaflega lík að ytri ásýnd og nokkuð erfitt að greina þau að. Eldra- Hellnahraun er um 2000 ára gamalt og líkt og Yngra – Hellnahraun komið frá eldstöðvum í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla og hefur runnið svipaða leið til sjávar. Út frá þessu má ætla að Hvaleyrarvatn og Ástjörn hafi orðið til fyrir u.þ.b. 2000 árum.
Þá er athyglisvert í texta Brynjúlfs að hann minnist á hinn “forna veg, er kemur saman við Hafnarfjarðarveginn gamla milli Elliðavatns og Lækjarbotns. Þar hét Tröllabotn og var áfangastaður áður en bær var gjör í Lækjarbotni.” Hér er hann að lýsa leið er lagðist af mjög snemma. Selstöður voru nokkrar við Lækjarbotna og átti m.a. Örfirisey selstöðu þar. Líklegt þykir að í eða nálægt Lækjarbotnum hafi verið gatnamót gömlu þjóðleiðanna, annars vegar frá Reykjavík og hins vegar til Hafnarfjarðar. Enn má greina hluta hennar frá Helgadal, yfir Búrfellsgjá, með Löngubrekkum vestan Hnífhóls og í gegnum Strípshraun. Þar greinist gatan, annars vegar norður að Þingnesi og hins vegar með norðanverðu Hólmshrauni í Lækjarbotna.
Brynjúlfur vissi ekki um aldur hraunanna, hefur jafnvel talið þau eldri en landnám og því ekki viljað fullyrða of mikið. Hann vissi heldur ekki af minjunum sunnan við hraunið, en hann hafði heyrt af rústum í Helgadal, nokkru norðar. Einnig vissi hann af rústum á Garðaflötum, enn norðar, en allar þessar minjar gefa vísbendingu um talsverða byggð undir hlíðunum fljótlega eftir landnám. Auk þess má greina mannvistarleifar við op Rauðshellis og hlaðinn stekk, gróinn, þar skammt frá.

Fagridalur

Tóft í Fagradal.

Brynjúlfur ritaði jafnframt um Helgadal. Í Árbókinni 1908 segir hann m.a.:
“Í sama skiptið sem mér var bent á Skúlatún, var þess getið um leið, að skamt þaðan héti Helgadalur og sæist þar til rústa. Skoðaði eg því þann stað, og reyndist þetta rétt. Helgadalur er skamt fyrir neðan Helgafell. Það er ofurlítil dalkvos, er þar gengur inn í austurenda Undirhlíða. Gengur melhóll norður úr hlíðinni, austanmegin við upptök Kaldár, myndar sá melhóll vesturhliðina á dalkvosinni. En að austan beygist hlíðin lítið eitt að sér. Hraunflóð hefir runnið ofan fyrir austan enda Undirhlíða, og er það framhald hraunflákans, sem nú var getið að lægi kringum Skúlatún. Það hefir breitt sig vítt út og runnið út með Undirhlíðum. Liggur það þvert fyrir neðan dalkvosina yfir að melhólnum og byrgir þannig fyrir hana. Þar hefir það sprungið og myndað gjáhamar, sem snýr móti dalbrekkunni og heldur inni vatni, sem þar kemur upp, svo af því verður ofurlítil tjörn. Rústin er ofantil í miðri brekkunni. Það eru tær tóftir, er hver gengur af enda annarar frá suðri til norðurs, eða því sem næst. Er hvor tóft 10 faðm. löng og nál. 2 faðm. breið út á veggjabrúnirnar; en þær eru raunar óglöggar víða.
Á norðurtóftinni sá ógjörla til dyra og sama er að segja um miðgaflinn. Rústin er öll óglöggvari norðantil; sér að eins fyrir ummáli hennar. Þeim megin hefir verið húsaþyrping á hlaðinu. Eru þar útflettar rústir, sem ekki er hægt að greina hverja frá annari, né ákveðna lögun þeirra húsa, sem þar hafa verið. Eg dró upp mynd af rústinni.

Garðaflatir

Tóft á Garðaflötum.

Hraunið sem nú var getið, hefir breitt sig yfir alt láglendi norður og vestur frá enda Undirhlíða og nær til sjávar við Hafnarfjörð. Holtin ein standa upp úr. Er feykilegt landflæmi byrgt undir hraunflákum þeim. Er þar ærið rúm fyrir marga bæi. Og þar eð víst má telja að það hafi verið kostaland, þá hafa þar óefað verið allmargir bæir, sem nú eru hrauni huldir. Eigi verður sagt [hve]nær haun þessi hafa brunnið, heldur en önnur hraunin á Reykjanesskaganum, er þó hafa brunnið eftyir landnámstíð og eyðilegat meiri eða minni bygðir svo sem fornu Krýsuvík o.fl. (sbr. Árb. fornl.fél 1903 bls. 43-44 og 47-50). Vegur Selvogsmanna til Hafnarfjarðarkaupstaðar (Grindaskarðsvegur) liggur um Helgadal hjá rústinni. Er eigi allskamt til Hafnarfjarðar.”
FERLIR hefur skoðað rústirnar í Helgadal. Í rauninni liggur fátt annað fyrir en að hefja þar fornleifauppgröft með það fyrir augum að aldursgreina þær sem og setja þær í samhengi við aðrar sýnilegar minjar á svæðinu.

Heimildir m.a.:
-Brynjúlfur Jónsson, Árbók hins íslenska fornleifafélags, 1908, bls. 9 – 12.
-http://www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/H_YNGRA.HTM
-Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir – Krýsuvíkureldar II – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns, er birtust í Jökli nr. 41 1991.
-http://www.ust.is/media/fraedsluefni/Astjorn__textiGT.pd
-Daniel Bruun, Íslenskt þjóðlíf (1987), bls. 26.

Portfolio Items