Straumsselsstígur vestari

Gengið var að þessu sinni í Straumssel frá Þorbjarnarstaða-Rauðamel, en þaðan er styst í selið, u.þ.b. 20 mínútna ganga. Straumsselsstígurinn liggur upp í hraunið vestan við Þorbjarnarsstaði og sést hann glögglega frá Reykjanesbrautinni. Hann liggur yfir Alfararleiðina, suður á milli Stekkjarhólanna, um skarð í Jónasarhól og upp Seljahraunið og áfram skammt frá Toppuklettum. Í þeim er hlaðið gerði. Þar taka Flárnar við allt upp undir Jónshöfða, yfir úfið hraun, Katlana, og á Straumsselshöfða. Þá sést heim að Straumsseli.

Straumssel

Straumssel – bær skógavarðarins.

Að þessu sinni var gengið upp fyrir Rauðamelsgryfjurnar, upp með hraunkantinum og yfir tiltölulega slétt gróið hraun þangað til komið var inn á Gjáarselsstíg. Honum var fylgt að hraunkanti uns hann beygir til suðausturs. Þar hægra megin við stíginn er lítil varða. Farið var út af stígnum við vörðuna og beygt eftir stíg til suðurs. Stígurinn er vel greinilegur ef vel er að gáð, en litlar vörður á hólum hingað og þangað geta auðveldlega afvegaleitt fólk á þessari leið. Stígurinn liggur bestu leiðina upp og í gegnum hraunið. Hún er mjög greiðfær, en auðvelt er að láta glepjast af leið. Stígurinn liggur svo til beint að Straumsseli, en skömmu áður en komið er að því beygir hann til suðausturs og síðan til suðurs þannig að komið er að selinu úr norðaustri. Að þessu sinni skein sólin á tóttirnar og garðana í kring þegar komið var að því. Keilir reis tignarlegur í bakgrunni.

Straumssel

Neðri-Straumsselshellar.

Straumssel er merkur staður. Það hefur upphaflega verið sel frá Straumi, en selið síðan þróast í bæ. Tóttirnar bera þess merki. Þær eru stærri og rúmbetri en í öðrum seljum á Reykjanesi. Garðar eru allt í kringum túnin og er fallega hlaðinn stekkur sunnan við tóttirnar. Vatnsstæði er í skúta norðan við þær. Í Straumsseli var búið stundum á 19. öldi. Síðast á árunum 1890-1895. Bæjarhúsin eyddust af bruna og hefur ekki verið búið þar síðan.
Í suðri sést í Hafurbjarnaholt, kennt við Björn Gnúps-Bárðarson, Hafur-Björn, sem samninginn gerði við bergbúann forðum. Gerðu þeir helmingaskipti í fjáreign. Segir sagan að þá hafi komið hafur og hrútur í féð og var þá sem tvö höfuð væru á hverri skepnu. Gerðist Björn þá fjárríkasti bóndi á Suðurnesjum.

Straumssel

Straumssel – Efri-Straumselshellar.

Eftir stutta dvöl í Straumsseli var haldið áfram til suðausturs upp frá selinu. Eftir um sjö mínútna gang var komið í Straumsselshella-neðri. Þetta er rúmgóður fjárhellir utan í holti og snýr opið til vesturs.
Áfram var haldið upp hraunið til suðausturs. Þegar komið var upp á brúnina eftir um fimm mínútna gang var komið í Straumsselshella-efri. Þeir eru rúmgóður fjárhellir og vel manngengur.

Straumssel

Straumssel – Efri-Straumselsshellar.

Hlaðið er fyrir munnan, en hellisopið er innan við fallega hlaðið gerði í hraunbala. Það var um tíma notað sem rétt. Ofan við gerðið að norðanverðu er hlaðið byrgi eftir refaskyttu. Í suðri blasir Gamlaþúfa við. Deilt hefur verið um hvort hún eða Markhelluhóll, sem er allnokkru sunnar, eigi að marka lendur aðliggjandi jarða.

Straumssel

Straumssel – Efri-Straumselshellar.

Gengið var allt í kringum Straumsselið og umhverfi þess skoðað. Síðan var haldið til baka eftir stígnum. Gangan tók um 1 og ½ klst í einstaklega fallegu veðri.
Sjá meira MÉR og HÉR.

Straumssel

Straumselsvarða.