Færslur

Brunntorfur

Í Þjóðviljanum helgina 23.-24. ágúst 1980 var viðtal við Björn Þorsteinsson undir fyrirsögninni “Landvinningar á Reykjanesi” um unaðsreiti og löglausan sauðfjárbúskap:

Fornasel

Hér reyndar um Fornasel ofan við Brunntorfur að ræða.

“Reykjanesskaginn hefur jafnan búið yfir mestu aðdráttarafli allra héraða á Íslandi. Björn Þorsteinsson prófessor hefur um áratugaskeið stundað skógrækt í Straumsheiðinni ásamt nokkrum öðrum áhugamönnum um landgræðslu. Þar heitir í Straumsseli. Björn telur Reykjanesskagann vera hið mesta gósenland vegna margvíslegra landkosta og vill friða hann fyrir sauðfé og láta úthluta fólki þar ræktunarlöndum. Við áttum samtal við Björn fyrir skemmstu og þar útlistaði hann sjónarmið sín.
— Já, Reykjanesskaginn hefur jafnan búið yfir mestu aðdráttarafli allra héraða á Íslandi. — Eftir rækilega rannsókn á landkostum sló fyrsti landnámsmaðurinn tjöldum til frambúðar í Reykjavík. Þar var mikið undirlendi, varp- og akureyjar, þar var hægt að rækta bygg og brugga, góð fiskimið, laxár, veiðivötn, selalátur, hvalreki og geirfuglabyggðir skammt undan og fuglabjörg, góðar hafnir, heitar laugar og talsverður reki. Auk þess var beitiland sem aldrei brást á Reykjanesskaga.

Björn Þorsteinsson

Björn Þorsteinsson í Brunntorfum.

Skaginn var skógi vaxinn og þar gekk sauðfé sjálfala frá upphafi vega uns Herdísarvíkur-Surtla féll fyrir hundum og mönnum árið 1952 að mig minnir, sællar minningar. Hvergi var öllum þessum gæðum hlaðið jafn ríkulega á eitt hérað og af því býr þar nú nálega helmingur þjóðarinnar. Skaginn var síðar nefndur Gullbringusýsla, en það mun afbökun. Dönsku umboðsmennirnir hafa kallað Bessastaðaumboðið: Den guld indbringende syssel.
Menn sóttu hingað á Inn- og Suðurnes frá upphafi vega, keyptu sér land eða hótuðu hernaði fengju þeir ekki jarðnæði. Eyvindur í Kvíguvogum hrökklaðist t.d. til Heiðarbæjar undan Hrolleifi Einarssyni Ölvissonar barnakarls. Hér urðu menn að bindast samtökum, stofna til þinghalds og stjórngæslu til þess að verjast hvers konar ágangi. Upphafs allsherjarríkis mun að leita á Þingnesi við Elliðavatn.

Fornasel

Þetta er vatnsstæðið í Fornaseli.

Blm.: Voru ekki útvegsbændur á Reykjanesskaga einhverjir ríkustu menn landsins hér fyrrum?
— Jú, fiskimiðin hafa verið svo stórgjöful við Reykjanes að þar hafa jafnan verið einhverjar bestu verstöðvar landsins. Allt frá því á 15. öld hafa stórveldi glímt um Reykjanesskaga. Ég vil einnig bæta því við að jarðhitinn á Reykjanesskaga er ómældur og lítið nýttur enn. Garðbæingar ættu að vita að laug var í Hliðstúni, en hefur aðeins komið upp síðustu aldir á blásandi fjöru. Volgra var norðan til við Arnarnesi undan Gvendarbrunni, en á Reykjanesskaga heitir fersk uppspretta Gvendarbrunnur. Um skagann liggja mörk skaparans milli austurs og vesturs. Þar skiptir hann veröldinni með eldsprungu sem er nú einna virkust norður í Gjástykki.
Brunntorfur—Skaginn er í rauninni ein af tilraunastöðvum skaparans í landasmíð. Þar æfir hann tilvonandi arkitekta sköpunarverksins áður en hann felur þeim stærri verkefni annars staðar í geimnum.
Þar er hvert náttúruundur öðru meira. Eitt er Kleifarvatn, ævintýravatn, sem menn nýta ekki til neinnar hlítar af því að í því er flóð og fjara, en láðst hefur að binda vatnsborðið. Það er auðgert með um 4 km skurði, en að honum gerðum opnast ómældir möguleikar til fiskræktar og annarrar ræktunar, búsetu og siglinga.
Blm.: Nú er Reykjanesskagi í vitund margra heldur hrjóstrugur. Ert þú á annarri skoðun?
— Já, skaginn er í raun mjög frjósamur, en gróðri var eytt þar gegndarlaust á 19. öld. Eftir 1820 hefur engin stórplága geisað hér landi og sveitirnar yfirfylltust af fólki. Þá flýði það hrönnum til verstöðva og á Vatnsleysuströnd komst fólksfjöldinn upp í um 650 manns árið 1870. Þá var gróðri skagans eytt svo að hann hefur staðið rúinn og eyddur eftir. Ég tel að mikill orkusparnaður yrði að því að veita ræktunarfúsu fólki landspildur á skaganum gegn ræktunarskyldu. Á þann hátt væri hægt að breyta skaganum í sígrænan gróðurreit á 10-15 árum. Fólk við Faxaflóa þarf ekki að æða norður í Aðaldal til þess að tjalda á hrauni. Skaginn er mjög fagur og fjölbreyttur og sökum orkukreppu er brýnt að Faxaflóaþjóðin kynnist því að þar eru dásemdir tilverunnar engu minni enn annars staðar á landinu.

Blm.: — Og því vilt sem sagt friða Reykjanesskaga fyrir sauðfé?
— Já, með því og að úthluta fólki þar ræktunarlöndum vinnst þrennt: Fólki hættir að leiðast, orkuvandinn leysist því að menn losna við að flýja austur á Hérað eða til sólarlanda sér til afþreyingar og nytjaskógar og unaðsreitir munu prýða Reykjanesskagann. Síðast en ekki síst er óhemjukostnaði við girðingar létt af ræktunarmönnum.

Hraunin

Hraunin ofan Straumsvíkur.

Blm.: Hafið þið Straumsheiðingjar orðið fyrir tjóni af völdum sauðfjár í landi ykkar?
— Við erum líklega búnir að planta um hundrað þúsund trjáplöntum síðan við byrjuðum og þó að girðingin sé tvöföld, bæði gaddavír og vírnet, er tjónið ómælt. Það þarf ekki nema eina kind að brjótast inn til að valda miklum skaða. Ísland var og er eignarréttarins land. Hingað komu menn til þess að eignast land og hér voru engir frumbyggjar fyrir, —landið var numið til séreignar, en með því er ekki sagt að eignarrétturinn sé svo heilagur að leggja þurfi í auðn hans vegna heil héröð. Ég tel að eigendur sauðfjár eigi að gæta eigna sinna í heldum girðingum. Þeir eiga að vera ábyrgir fyrir tjóni sem rollurnar valda hjá öðrum. — Það þættu skrýtin lög í landi ef innbrotsþjófar gætu afsakað gerðir sínar með því að læsingar væru ekki nægilega traustar. Hér hafa hirðingjasjónarmið ríkt um aldir og sauðfé verið friðheilagt enda hefur gróðurlendi eyðst  jafnt og þétt eins og hjá öðrum hirðingjum. Mál er að linni og gróðurinn verði friðhelgur.

Hraunin

Hraunin ofan Straumsvíkur.

Blm.: Hvað er til ráða? Hvernig á að breyta alda gamalli hefð?
— Í lögum er og hefur verið um aldir ákvæði um ítölu, ítölu búfjár í haga. — Ítala er ákvörðun eða öllu heldur áætlun um það hve margt búfé hver og einn megi hafa í sameiginlegu beitilandi. Ítala er leyfður fjöldi búfjár frá hverjum nytjanda beitar í sameiginlegt land. Nú mun um þriðjungi fullorðins sauðfjár ofaukið í haga hér á landi. Þennan bústofn verður að skera niður. Enginn, hvorki stétt manna né einstaklingur á minnsta rétt á því að eyða lífríki landsins, leggja gróðurlendi í auðn. Ítöluákvæðinu var framfylgt allstrangt oft á tíðum fram á öld véltækni og fóðurbætis, en eftir það hefur allt gengið úr skorðum. Vistfræðingar okkar eiga að vita nú orðið nákvæmlega hvað hektari gróðurlendis ber af búfé, og auðvitað þolir landið misjafnlega mikið eftir aðstæðum og gróðurfari. Þeir eiga að stjórna ítölu í landið undir forystu landgræðslustjóra með aðstoð stjórnvalda. Allt annað er stjórnleysi eða anarkismi. Útgerðarmenn verða að leggja skipum sínum af því að vernda þarf fiskistofna. Á sama hátt verða bændur að takmarka búsmala sinn af því að vernda þarf gróðurlendi. Landeyðing er höfuðglæpur og íslenskur sauðfjárbúskapur er víða vélvædd rányrkja.

Brunntorfur

Fjárskjólið í Brunntorfum.

Líttu á Grafninginn og uppsveitir Rangárvalla- og Árnessýslu, svo að dæmi séu tekin. Ég veit að núverandi landgræðslustjóri, Sveinn Runólfsson, hefur beitt ítöluákvæðum til þess að draga úr ofbeit á einstökum svæðum en gróðurlendur eru samt á undanhaldi og því má alls ekki una. Menn hafa verið að amast við sumarbústöðum borgarbúa á ýmsum forsendum en þeim fylgir gróður, sauðfjárbúskap og auðn.
Ingvi Þorsteinsson sagði í Þjóðviljanum fyrir hálfum mánuði að Grænland væri ekki ofbeitt enda fallþungi dilka þar meiri en hér. Þetta stafar ekki af framsýni bænda þar í sveitum, heldur af því að þeir setja enn á guð og gaddinn og horfalla árlega, gjörfelldu 1968 og rollubúskapurinn hangir þar á horriminni. Þeir eru litlir ræktunarmenn, en hér er heyöflunin vélvædd og þar með er haldið lífi í hundruðum þúsunda sauðfjár á vetrum og þeim sleppt á úthagann þessa fáu mánuði, sem hér er þíð jörð.
Ef náttúran fær að vera í friði ríkir oftast einhvers konar jafnvægi innan hennar. Nútímabúskapur hefur rofið þetta jafnvægi hjá okkur. Hér eru milljarðar greiddir í verðbætur til bænda til þess að þeir geti eytt landinu, en aðrir milljarðar eru greiddir í landgræðslusjóð. — Þessi háttur skipulagsmála var eitt sinn kenndur við Bakkabræður.
Stórsektir þarf að leggja við landeyðingu — í stað þess að nú er hún verðlaunuð.

Fornasel

Í Fornaseli (Brunnseli?).

Blm.: Þú minntist eitt sinn á það við mig að stofna þyrfti landvinningafélag til þess að herja á auðnirnar, endurheimta þær í ríki gróðursins. Hefurðu gert eitthvað í þeim málum.
— Ég er orðinn ónýtur í öllu félagsstarfi. Hins vegar þykir mér tímabært að gera menningarbyltingu á Íslandi. Hér verða menn að hverfa frá hirðingjamenningu og taka upp ræktunarmenningu. Þeir verða að hætta að trúa á heilaga sauði, og hver maður verður að vera ábyrgur fyrir eigum sínum og þar með sauðkindum, sem valda mér og öðrum óbætanlegu tjóni. Hirðingjar hafa ávallt skilið eftir sig sviðið land, hvort sem þeir búa austur í Mongólíu, suður í Arabíu eða norður á Íslandi.
Blm.: Eiga þá sauðfjáreigendur að girða af sauði sína?
Björn: Í ræktunarlöndum í grennd við þéttbýli á sauðfé ekki að líðast. Það er ómannlegt að leggja þá byrði á ræktunarmenn að girða af hvern skika vegna þess að nokkrir sauðfjárdýrkendur hafa það sér til dundurs að halda skemmdarvörgum til beitar í löndum þeirra. Allir sem vilja rækta land eiga að geta fengið erfðafestuskika að kostnaðarlausu gegn ræktunarskyldu á friðuðu landi. Erfðafestan á að falla úr gildi og landið að ganga aftur til fyrri eiganda, ef ræktunarskyldunni er ekki fullnægt.
Blm.: Þetta hljómar vel, en ríki og bæjarfélög eiga fæst mikið land til slíkra hluta.
Björn: Ef menn nýta ekki landið, eins og t.a.m. Reykjanesskagann, á ríkið að gera slík svæði upptæk til handa þeim, sem eru fúsir til þess að rækta þau. — Hér hefur ræktunarmálum verið mjög litið sinnt. Engin fræðsla er um þau mál innan hefðbundins skólakerfis. Eitt hið fyrsta sem gera þarf er að fræða fólk um það, hvernig hægt er að rækta landið. Ég get best borið um það sjálfur, að vanþekking mín á ræktunarmálum hefur verið mér dýr. —

Fornasel

“Brunnurinn” (vatnsstæðið) í Fornaseli (Brunnseli?).

Ræktunarfræðsla þarf að verða kjörsvið í öllum skólum. Þar á fólk að geta fræðst um undirstöðuatriði í garðrækt, ylrækt, trjárækt og skipulagningu garða og gróðursvæða, og margt annað kæmi til álita, ef mannafli og fræðslu væri til.
Hér er garðyrkjuskóli og útskrifar ágætlega menntað fólk, en þetta ágæta fólk fær mér vitanlega enga þjálfun í því að miðla öðrum af þekkingu sinni, kenna fræði sín. Þekking á lífríkinu í kringum okkur er hverjum manni dýrmætt veganesti. Fræðsla í margs konar náttúrufræðum hlýtur að vaxa í framtíðinni. Ræktunarfræðsla er mikið og vanrækt mál. — Það er ekki á okkar færi að fjalla um það sem skyldi. Menningarbylting verður að vera mjög róttæk ef hún á að standa undir nafni. – G.Fr

Rétt er að geta þess að sel það er fjallað er um í greininni er ekki Straumssel, heldur Fornasel ofan við Brunntorfur (sjá m.a. mynd af vatnsstæðinu við Fornasel, sem sagt er að sé við Straumssel). Fornasel er ofan við Gjásel (þessum seljum er stundum ruglað saman í skrifum), en það hefur einnig verið nefnt “Brunnsel”, sbr. “Brunntorfur”. Straumssel er mun vestar, í svonefnum Almenningum. – aths. ÓSÁ.

Heimild:
-Þjóðviljinn – 191.-192. tölublað (23.08.1980); Viðtal við Björn Þorsteinsson um unaðsreiti og löglausan sauðfjárbúskap á Reykjanesi, bls. 12-13.

Brunntorfur

Í Brunntorfum.

Straumssel

Straumsselið er merkilegt – ekki síst í sögulegu samhengi Almennings. Það er einn merkilegasti fornminjastaðurinn í Almenningi. Þar í kring eru nú [2014] minjar sem ekki hafa verið skrásettar. Má þar nefna seltóftirnar sjálfar, sem eru nokkru ofan við bæjartóftir þær er nefndar eru til sögunnar hér á eftir (og sjást að ofan).

Straumssel

Straumssel. Tóftir af húsi skógarvarðarins efst til vinstri.

Straumssel var á sínum tíma ekki bara sel heldur lögbýli frá 1849 þegar Guðmundur Guðmundsson sem var konungsskipaður umsjónarmaður skógarhöggs settist þar að. Búið var í Straumsseli fram undir aldamótin 1900 þegar bæjarhúsin brunnu.

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Straumssel er með stærri seljum í Hraunum. Þar var ágætis húsakostur fyrir aldamótin 1900 eins og tóftirnar bera með sér. Guðmundur Guðmundsson sem keypti jörðina af Páli Árnasyni setti byggð í Straumsseli 1849, en hafði þá búið þar í tvö ár. Fyrsta árið  bjó hann í selinu ásamt föður sínum, Guðmundi Bjarnasyni, sem var oft nefndur KrýsuvíkurGvendur. Þeir bjuggu stutt í selinu því Guðmundur Bjarnason  andaðsti aldraður maður í Lambhaga vorið 1848 og Guðmundur sonur hans nokkrum árum seinna á Setbergi. Guðmundur Guðmundsson var settur skógarvörður í Almenningi og taldi auðveldast að sinna starfi sínu frá Straumsseli.

Straumssel

Straumssel.

Bjarni Einarsson leiguliði Guðmundar og ábúandi í Straumi klagaði búsetuna í selinu til yfirvalda þar sem honum þótti það skerðing á fornum rétti sínum. Guðmundur lofaði að fjölga ekki býlum í Straumslandi á meðan Bjarni byggi þar. Bjarni gekkst við sáttinni að því tilskildu að bygging hins gamla Straumssels væri sér með öllu óviðkomandi skyldu yfirvöld kæra.

straumssel-gardar

Byggt var vandað bæjarhús og var föst búseta  í Straumsseli í ein 40 ár með hléum enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði. Meðal ábúenda í selinu voru hjónin Kolfinna Jónsdóttir og Sigurður Halldórsson sem bjuggu þar 1850-1860, er þau fluttu þau inn í Hafnarfjörð. Þessi hjón bjuggu síðan í Kolfinnubæ sem stóð þar sem Strandgata 41 er nú. Farnaðist þeim vel á þeim áratug sem þau bjuggu í Straumsseli þó kjörin hefðu verið kröpp. Sonur þeirra Bjarni fæddist í Straumsseli árið 1857. Talið er að síðast hafi verið búið í selinu 1890-1895. Jón Þorsteinsson bjó þar síðastur allra, en hann fórst þegar bærinn brann og eftir það var ekki byggt upp aftur í Straumsseli.

Á einum stað í Almenningi voru hugsanleg landamerki Ölfuss og Seltjarnarneshreppsins gamla, er varðan talin vera mjög merkileg, ef hún telst vera landamerkjavarða. Á ofanverðum Skorási er landamerkjavarða [-vörður] milli Hafnarfjarðar og Hvassahrauns, sem er þá líka merkjavarða á milli sveitarfélaganna Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandar. Telja ber að vörður hafi almennt mikið minjagildi – og sama gildir um hlaðna garða við selin.

Fornasels-, Gjáselsstígur.

Fornasels-, Gjáselsstígur.

Stundum er sagt að viðkomandi varða sé illa hlaðin, sennilega endurhlaðin eða nýleg varða. Um þetta má segja að ekki er hægt að bera saman þjóðleiðavörðurnar sem voru gerðar samkvæmt konungsskipun á seinni hluta 19. aldar og eru mjög vandaðar og nokkuð svipaðar að gerð.

Hafurbjarnarholt

Hafurbjarnarholt – varða.

Þessar vörður voru lögvörður og áttu að hafa ákveðið útlit og standa lengi. Vörðurnar í Almenningi eru af nokkrum tegundum og auðþekkjanlegar. Þær eru aldrei mjög vandaðar og alls ekki í líkingu við þjóðleiðavörðurnar. Lesa má þó úr vörðunum hvaða merkingu þær höfðu m.t.t. til tilgangs. Búlduleit varða sem er eins og heysáta, lítil eða stór, vísar nánast alltaf á fjárhelli, skúta eða fyrirhlaðið skjól. Uppmjóar vörður vísa á sel, eða staði þar sem hrís (eldiviður) var geymt. Lágar vörður sem eru bara nokkrir steinar vísa á innansveitar leiðir, t.d. leiðirnar í selin, í stekkina, réttirnar eða eitthvað ámóta.  Tveir steinar á þremur stöðum benda á gömul greni. Á nokkrum stöðum eru voldugri vörður, eins og við Straumsselsstíginn austari, en sá stígur var á sínum  tíma nytjaleið út frá Fornaselsstíg  og Gjásselstíg.

Straumssel

Straumssel – brunnurinn.

Landamerkjavörðurnar milli Hraunajarðanna eru oft með uppmjóum steini í toppinn eða einum stórum steini sem er miklu stærri en hinir sem mynda grunninn. Svo eru hleðslur sem líta út eins og vörður en eru í rauninni skotbyrgi sem notuð voru þegar legið var fyrir ref, því hann ógnaði mjög sauðfénu sem var á útibeit allt árið. Eina slíka má sjá við Straumsselstíginn (vestari) er liggur upp með vestanverðu Draughólshrauninu. Á þeirri leið er t.d. Straumsselsstígsskjólið.

Fornasel

Fornasel – tilgáta.

Selstígur sá, sem á seinni tímum hefur verið nefndur “Straumsselsstígur” er í raun Fornaselsstígur og síðar Gjáarselsstígur, eins og fyrr sagði. Afleggjari af honum liggur upp í Straumssel ofan við Flár. Varða er á mótunum. Þessi selsstígur er allur innan fyrrum landamarka Þorbjarnarstaða.
Straumsselsstígurinn liggur hins vegar um Straumslandið vestan Draughólshrauns – beint í Straumsselið fyrrum. Hann er miklu mun greiðfærari en “tvíburabróður” hans í austri. – og vel varðaður allt upp að “millumstíg” Straumssels og Óttarsstaðasels.

Straumssel

Straumsselsvarðan.

 

Straumssel

Gengið var eftir vestari selsgötunni að Straumsseli.

Almenningur

Neðri-Straumsselshellar.

Komið var við í nátthaganum vestan stígsins, en þar eru miklar hleðslur á milli hraunhóla. Þegar komið var upp í selið voru skoðaðir garðar umhverfis stóru tóttirnar, sem virðast vera frá gamla bænum er brann seint á 19. öld. Brunnurinn var hálffullur af vatni, en hann er í holu við norðurhorn tóttanna. Augljóst er að botn holunnar hefur verið þétt með torfi, því í öðrum nálægum hraungjótum drýpur vatn niður í hraunið. Skoðuð var tótt suðaustan við megintóttirnar. Líklegt er að þar sé gamla selstóttin. Gamall brunnur er vestan við tóttirnar og hleðslur við hann.

Straumssel

Straumssel – selið.

Að þessari tótt kemur eystri selsstígurinn frá Gjáselsstíg. Frá henni liggur einnig stígur upp í Neðri-Straumsselshella og Efri-Straumsselhella. Báðir þessir hellar voru skoðaðir enn á ný. Gerðið umhverfis efri hellinn hefur verið endurhlaðið og breytt frá upphaflegri gerð. Líklega hefur aðstaðan þar verið notuð sem rétt eða nátthagi um tíma.
Efri-Straumsselshellar

Efri-Straumsselshellar.

Þorbjarnastaðir

Gengið var um Brunntorfur að Þorbjarnastaðafjárborginni í Kapelluhrauni, upp í Fornasel og Gjásel í Almenningum, yfir í Straumssel, Óttarstaðasel og Lónakotssel, niður í Óttarstaðafjárborgina, um Alfaraleið að Gvendarbrunni og áfram niður að Þorbjarnastöðum.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir.

Getgátum hefur verið leitt að nafninu Brunntorfur. Á sumum kortum er það skráð Brundtorfur, þ.e. tengist brundtíð. Brunntorfur hefur skírskotun til brunns eða vatns á svæðinu, sem reyndar er ekkert á þessu svæði. Þriðja skýringin er að þar hafi átt að standa Bruntorfur, sbr. Brunatorfur eða Brunahraun. Hins vegar er í Brunntorfum rúmgott fjárskjól, sem ekki ólíklega hefur verið fyrir sauði.

Þorbjarnastaðaborgin stendur á jarðri Kapelluhrauns. Hún er fallega og vandlega hlaðin úr hraungrýti af börnum Þorbjarnarstaðahjóna um aldamótin 1900.

Víða í hrauninu má sjá mannvirki er tengst hafa fjárbúskapnum fyrrum, en þessi fjárborg er mest þeirra.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Fornasel er á grónum hraunhól suðvestan við Þorbjarnarstaðaborgina. Ofan við selið er há varða á hraunhól. Stórt og gott vatnsstæði er við seltóftirnar. Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur gróf í tóftirnar fyrir stuttu síðan. Taldi hann þær vera frá því á 14. eða 15. öld.
Gjásel er einnig á grónum hraunhól, norðvestan við Fornasel. Lægð er við tóftirnar, sem að öllum líkindum hefur verið vatnsbólið. Norðan undir hæðinni er hlaðinn stekkur í skjóli.

Fornasel

Fornasel – tóft.

Stefnan var tekin til vesturs, yfir að Straumsseli. Varða á hól vísar leiðina að selinu. Þegar komið var yfir hólinn blöstu tóftir og garðar við. Straumselið var nokkuð stór því þar byggðist upp bær, sem búið var í um tíma. Seltóftirnar sjálfar er suðaustan við bæjartóftirnar. Þar við er stekkur. Vatnsbólið er norðan við megintóftirnar, við vörslugarðinn. Í kringum Straumssel eru allnokkur mannvirki, tengd búskapnum, s.s. Neðri-Straumsselshellar og Efri-Straumsselshellar. Straumsselið hefur GPS-staðsetningapunkt, sem auðvelt er að leggja á minnið, eða 6401000-2201000.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Gengið var yfir í Óttarstaðasel og síðan Lónakotssel. Stígur er á milli seljanna og er u.þ.b. 20 mínútna gangur á milli hvers þeirra. Mannvirki eru allnokkur, s.s. fjárskjól, stekkir, nátthagar og vatnsstæði.
Haldið var norður Lónakotsselsstíg, gengið yfir að Óttarstaðafjárborginni. Fjárborgin er stundum nefnd Kristrúnarborg eftir Kristrúnu Sveinsdóttur frá Óttarstöðum, sem hlóð hana ásamt vinnumanni sínum, Guðmundi Sveinssyni, um 1870.
Alfarleiðin var gengin til austurs, framhjá Gvendarbrunni að Þorbjarnastöðum.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg.

Straumsselsstígur vestari

Gengið var að þessu sinni í Straumssel frá Þorbjarnarstaða-Rauðamel, en þaðan er styst í selið, u.þ.b. 20 mínútna ganga. Straumsselsstígurinn liggur upp í hraunið vestan við Þorbjarnarsstaði og sést hann glögglega frá Reykjanesbrautinni. Hann liggur yfir Alfararleiðina, suður á milli Stekkjarhólanna, um skarð í Jónasarhól og upp Seljahraunið og áfram skammt frá Toppuklettum. Í þeim er hlaðið gerði. Þar taka Flárnar við allt upp undir Jónshöfða, yfir úfið hraun, Katlana, og á Straumsselshöfða. Þá sést heim að Straumsseli.

Straumssel

Straumssel – bær skógavarðarins.

Að þessu sinni var gengið upp fyrir Rauðamelsgryfjurnar, upp með hraunkantinum og yfir tiltölulega slétt gróið hraun þangað til komið var inn á Gjáarselsstíg. Honum var fylgt að hraunkanti uns hann beygir til suðausturs. Þar hægra megin við stíginn er lítil varða. Farið var út af stígnum við vörðuna og beygt eftir stíg til suðurs. Stígurinn er vel greinilegur ef vel er að gáð, en litlar vörður á hólum hingað og þangað geta auðveldlega afvegaleitt fólk á þessari leið. Stígurinn liggur bestu leiðina upp og í gegnum hraunið. Hún er mjög greiðfær, en auðvelt er að láta glepjast af leið. Stígurinn liggur svo til beint að Straumsseli, en skömmu áður en komið er að því beygir hann til suðausturs og síðan til suðurs þannig að komið er að selinu úr norðaustri. Að þessu sinni skein sólin á tóttirnar og garðana í kring þegar komið var að því. Keilir reis tignarlegur í bakgrunni.

Straumssel

Neðri-Straumsselshellar.

Straumssel er merkur staður. Það hefur upphaflega verið sel frá Straumi, en selið síðan þróast í bæ. Tóttirnar bera þess merki. Þær eru stærri og rúmbetri en í öðrum seljum á Reykjanesi. Garðar eru allt í kringum túnin og er fallega hlaðinn stekkur sunnan við tóttirnar. Vatnsstæði er í skúta norðan við þær. Í Straumsseli var búið stundum á 19. öldi. Síðast á árunum 1890-1895. Bæjarhúsin eyddust af bruna og hefur ekki verið búið þar síðan.
Í suðri sést í Hafurbjarnaholt, kennt við Björn Gnúps-Bárðarson, Hafur-Björn, sem samninginn gerði við bergbúann forðum. Gerðu þeir helmingaskipti í fjáreign. Segir sagan að þá hafi komið hafur og hrútur í féð og var þá sem tvö höfuð væru á hverri skepnu. Gerðist Björn þá fjárríkasti bóndi á Suðurnesjum.

Straumssel

Straumssel – Efri-Straumselshellar.

Eftir stutta dvöl í Straumsseli var haldið áfram til suðausturs upp frá selinu. Eftir um sjö mínútna gang var komið í Straumsselshella-neðri. Þetta er rúmgóður fjárhellir utan í holti og snýr opið til vesturs.
Áfram var haldið upp hraunið til suðausturs. Þegar komið var upp á brúnina eftir um fimm mínútna gang var komið í Straumsselshella-efri. Þeir eru rúmgóður fjárhellir og vel manngengur.

Straumssel

Straumssel – Efri-Straumselsshellar.

Hlaðið er fyrir munnan, en hellisopið er innan við fallega hlaðið gerði í hraunbala. Það var um tíma notað sem rétt. Ofan við gerðið að norðanverðu er hlaðið byrgi eftir refaskyttu. Í suðri blasir Gamlaþúfa við. Deilt hefur verið um hvort hún eða Markhelluhóll, sem er allnokkru sunnar, eigi að marka lendur aðliggjandi jarða.

Straumssel

Straumssel – Efri-Straumselshellar.

Gengið var allt í kringum Straumsselið og umhverfi þess skoðað. Síðan var haldið til baka eftir stígnum. Gangan tók um 1 og ½ klst í einstaklega fallegu veðri.
Sjá meira MÉR og HÉR.

Straumssel

Straumselsvarða.

Straumssel

Gengið var frá Óttarsstaðafjárborginni (Kristrúnarfjárborg), hlaðin um 1870, yfir á Alfaraleið og upp í Brennisel.

Brennisel

Brennisel.

Brenniselshæð er þar nefnd skv. heimildum og sjá má selið í hraunkvos. Um erð að ræða tóft og fallega hlaðið skjól. Hlaðið er fyrir fjárskjól skammt austar. Norðan við Brenniselið eru enn eldri minjar um kolagerð. Þar smá sjá hlaðinn vegg í skjóli við hraunhærð. Gróið er yfir hleðsluna, en ef vel er að gáð má sjá móta fyrir henni.
Frá Brenniselinu, sem auðkennt er með vörðu ofan við það, var gengið að Álfakirkjunni og fjárskjólið undir henni skoðað. Um er að ræða tignarlega klofkletta. Undir þeim er skjól og hleðslur fyrir. Það var trú Hraunamanna að Álfakirkjan væri helgasti staður álfanna í Hraunum. Þá trúðu þeir því að álfarnir héldu verndarhendi yfir fénu er leitaði skjóls í skjólinu.

Bekkjaskúti

Bekkjaskúti.

Haldið var yfir hraunið og að Bekkjaskúta utan í jarðfalli skammt vestan við Óttarsstaðasel og þaðan í Sveinsskúta skammt ofar. Frá honum var stígnum fylgt að Norðurhelli og í Óttarsstaðasel. Litið var á tóftir selsins og brunnstæðið vestan selsins, stekkinn, Þúfhólsskútann, Nátthagann og Rauðhólsskúta áður en stefnan var tekin austur yfir hraunið að Efri-Straumsselhellum.
Efri-Straumsselshellar eru með miklum hleðslum umhverfis. Smalabyrgi er ofan á holtinu. Hlaðið er um opið á hellinum, sem er allrúmgóður, en einhvern tímann hefur gerðinu verið breytt í rétt.

Efri-Straumsselshellar

Efri-Straumsselshellar.

Frá Efri-Straumsselshellum var gengið norður að Neðri-Straumsselhellum og síðan niður í Straumssel. Hellarnir eru rúmgóð fjárskjól. Skammt ofan neðri hellanna er forvitnileg hleðsla, sennilega fallin hleðsla um op í enn eitt fjárskjólið. Þarf að skoðast betur síðar.
Ljóst er að stóra tóftin í Straumsseli, sem talin er hafa verið selið er líkast til af gamla bænum, sem búið var í er hann barnn skömmu fyrir aldamótin 1900. Straumsselið er skammt sunnar og sést það vel ef að er gáð. Vestan þess er gamall brunnur. Núverandi brunnur er hins vegar norðan við bæinn og var gott vatn í honum.
Frá Straumsseli var haldið norðvestur yfir brunahraunið og það skoðað, m.a. myndalegt jarðfall norðan selsins. Í botni þess vex falleg burknaþyrping.
Frábært veður.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Straumssel

Eftirfarandi er byggt á lýsingu Gísla Sigurðssonar um Straumssel:
“Gengið var í Straumssel frá Þorbjarnarstaða-Rauðamel, en þaðan er styst í selið, u.þ.b. 20 mínútna ganga. Straumsselsstígurinn austari liggur upp með Þorbjarnarstöðum Straumssel-222að austanverðu, suður á milli Stekkjarhólanna, um skarð í Jónasarhól, yfir Seljahraunið og upp í Toppukletta. Þar taka lárnar við allt upp undir Jónshöfða, yfir úfið hraun, Katlana, og á Straumsselshöfða. Þá sést að Straumsseli.
En að þessu sinni var gengið upp fyrir Rauðamelsgryfjurnar, upp með hraunkantinum og yfir tiltölulega slétt gróið hraun þangað til komið var inn á Gjáarselsstíg. Honum var fylgt að hraunkanti uns hann beygir til suðausturs. Þar hægra megin við stíginn er lítil varða. Farið var út af stígnum við vörðuna og beygt eftir stíg til

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

suðurs. Stígurinn er vel greinilegur ef vel er að gáð, en litlar vörður á hólum hingað og þangað geta auðveldlega afvegaleitt fólk á þessari leið. Stígurinn liggur bestu leiðina upp og í gegnum hraunið. Hún er mjög greiðfær, en auðvelt er að láta glepjast af leið. Stígurinn liggur svo til beint að Straumsseli, en skömmu áður en komið er að því beygir hann til suðausturs og síðan til suðurs þannig að komið er að selinu úr norðaustri. Að þessu sinni skein sólin á tóttirnar og garðana í kring þegar komið var að því. Keilir reis tignarlegur í bakgrunni.

Straumssel-223

Op með fyrirhleðslu ofan við Neðri-Straumsselsfjárhella.

Straumssel er merkur staður. Það hefur upphaflega verið sel frá Straumi, en selið síðan þróast í bæ. Ber það þess merki. Þær eru stærri og rúmbetri en í öðrum seljum á Reykjanesi. Garðar eru allt í kringum túnin og er fallega hlaðinn stekkur sunnan við tóttirnar. Vatnsstæði er í skúta norðan við þær. Í Straumsseli var búið stundum á 19. öldi. Síðast á árunum 1890-1895.
Guðmundur Guðmundsson keypti Straumsjörðina af Páli Árnasyni sem hafði keypt hana 1839 af konungssjóði. Leigði hann heimajörðina en stofnaði sjálfur nýtt lögbýli. Guðmundur var gerður að skógarverði í Almenningi og settist að í Straumsseli um 1847. Hjá honum var faðir hans Guðmundur Bjarnason, oft nefndur Krýsuvíkur-Gvendur. Hann andaðist aldraður maður í Lambhaga vorið 1848, en Guðmundur skógarvörður andaðist fimm árum síðar í selinu, nánar tiltekið 1853. Þegar hann gerði Straumssel að bústað sínum klagaði leiguliði hans í Straumi búsetuna til sýslumanns.

Straumssel

Straumsselið gamla.

Leiguliðinn var Bjarni Einarsson útvegsbóndi sem hafði búið þar allt frá því jörðin var í konungseigu. Honum þótti það vera skerðing á fornum rétti landseta að skipta jörðinni upp með þessum hætti. Guðmundur lofaði að fjölga ekki býlum í Straumslandi meðan Bjarni byggi þar. Bjarni gekk að sáttinni að því tilskyldu að bygging hins gamla Straumssels væri sér með öllu óviðkomandi, skyldu yfirvöld kæra búsetuna. Föst búseta var í Straumsseli í ein 40 ár með hléum, enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði. Meðal ábúenda í selinu voru hjónin Kolfinna Jónsdóttir og Siguður Halldórsson sem bjuggu þar á tímabilinu 1853-1863. Bæjarhúsin eyddust af bruna og hefur ekki verið búið þar síðan.

Efri-Straumsselshellar

Efri-Straumsselshellar.

Í suðri sést í Hafurbjarnaholt, kennt við Björn Gnúps-Bárðarson, Hafur-Björn, sem samninginn gerði við bergbúann forðum. Gerðu þeir helmingaskipti í fjáreign. Segir sagan að þá hafi komið hafur og hrútur í féð og var þá sem tvö höfuð væru á hverri skepnu. Gerðist Björn þá fjárríkasti bóndi á Suðurnesjum”.

Almenningur

Neðri-Straumsselshellar.

Eftir stutta dvöl í Straumsseli var haldið áfram til suðausturs upp frá selinu. Eftir um sjö mínútna gang var komið í Straumsselshella- neðri. Þetta er rúmgóður fjárhellir utan í holti og snýr opið til vesturs. Hlaðið er framan við munnann. [Skammt sunnan við opið mótar vel fyrir miklum hleðslum við op. Hleðslurnar eru fallnar og hafa lokað fyrir opið. Þarna mun vera op á öðrum fjárhelli, sem langur gangur átti að hafa verið inn í]. Áfram var haldið upp hraunið til suðausturs. Þegar komið var upp á brúnina eftir um fimm mínútna gang var komið í Straumselshella-efri. Þeir eru rúmgóður fjárhellir og vel manngengur. Hlaðið er fyrir munnan, en hellisopið er innan við fallega hlaðið gerði í hraunbala. Ofan við gerðið að norðanverðu er hlaðið byrgi. Í suðri blasir Gamlaþúfa við. Deilt hefur verið um hvort hún eða Markhelluhóll, sem er allnokkru sunnar, eigi að marka lendur aðliggjandi jarða.
Gengið var allt í kringum Straumsselið og umhverfi þess skoðað. Síðan var haldið til baka eftir vestari selsstígnum.
Frábært veður. Gangan tók um 1 og ½ klst.

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

 

Straumssel

Gengið var um þvottastíginn að tóttum Þorbjarnastaða (fóru í eyði um 1939) og þaðan að Þorbjarnastaðaréttinni undir hraunhól sunnan við bæinn. Um er að ræða stóra hlaðna rúningsrétt. Í henni er heilleg lambakró.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur – Fornasels- og Gjáselsstígur.

Gengið var um Kúadal og áfram inn á eystri Straumsselsstíg (sem er reyndar eldri selstígur að Gjáseli og Fornaseli frá Þorbjarnastöðum).
Um miðja vegu að selinu var ákveðið að halda til vesturs út af honum og kanna hraunsvæðið. Þar inn á milli hólahyrpingar var komið að stórumhlöðnum nátthaga – Toppuklettum (Tobbuklettum). Eftir að punktur hafði verið tekinn þar var haldið í selið um Flárnar. Upp frá því var leitað Neðri-Straumsselshella. Þeir eru nokkuð sunnan selsins, hlaðinn gangur og nokkuð stór fjárhellir.
Eftir að hafa skoðað hellinn var Efri-Straumsselshella leitað og fundust þeir enn á ný nokkur ofar. Þeir eru þarna í lægð í Almenningum og er stór fjárhellir innan af henni. Hlaðið er í kringum opið, auk þess sem fyllt er að bakdyrum. Í kringum lægðina er hlaðinn garður. Upp af honum að norðanverðu er hlaðið byrgi, sem Jónas Bjarnason hlóð er hann var á refaveiðum á þessu svæði. Efri-Straumsselshellar voru notaðir sem nátthagi og síðan rétt undir hið síðasta og bera hleðslunar þess glögg merki.

Straumsselshellar

Í Efri-Straumselsshellum.

Þegar FERLIR kom síðast í Efri-Straumsselshella var þar greinilegt krafs eftir ref. Haldið var áfram norðvestur að Stóra-Fjárskjóli. Þar er hlaðið fyrir aflangan skúta. Þá var gengið að Óttastaðaseli og umhverfi þess skoðað áður en haldið var til norðurs eftir hrauninu. Á leiðinni var m.a. skoðað hlaðið refaskyttuskjól á neðsta hluta Straumsselsstígs.
Frábært veður.

Straumssel

Straumssel.

 

Straumsselsstígur

Gengið var eftir Straumsselsstíg frá gamla Keflavíkurveginum áleiðis upp í Straumssel. Ætlunin var að ganga í gegnum það upp fyrir Almenning og síðan til baka um Bringur og Óttarsstaðasel.

Hellir

Mannvistarleifar í helli.

Þegar komið var yfir Alfaraleiðina liggur stígurinn áfram til suðausturs vestan Miðmundarhæðar, yfir haft á hraunhrygg, áfram yfir Selhraun og síðan vestan Draughólshrauns, við vesturenda Straumselshæða og upp í selið. Draughóllinn sést vel efst í hrauninu, mosavaxinn. Hraunið virðist vera á litlum bletti í grónu Hrútargjárdyngjuhrauninu. Það er eitt af nokkrum svonefndum Selhraunum á þessu svæði. Straumsselið er skammt ofar.
Að þessu sinni var vikið út af selsstígnum ofan við fyrrnefnt haft á hraunhryggnum. Ofan þess er hlaðið skeifulaga byrgi refaskyttu. Frá því hefur hún hafu gott útsýni yfir slétt hraunflæmið. Gæsir, sem höfðu hópað sig saman á Tjörnunum milli Þorbjarnastaða og Gerðis, tóku sig á loft og virtust stefna til veturssetu sunnar í álfunni. Hraunin við Straumsvík og umhverfis Þorbjarnarstaði eru að mestu klædd gamburmosa en grónir grasbalar eru áberandi næst bújörðum sem og selstöðunum. Gróður við tjarnirnar er einstakur þar sem hann hefur þurft að aðlagast ísöltu vatni, aðlögun sem einungis hefur staðið í 5-7 þúsund ár, eða frá því hraunið rann.
Þorbjarnarstaðir, Péturskot og Gerði bera með sér búsetulandslag með hlöðnum veggjum, stekkjum, réttum, tröðum, brunngötum, alfaraleið og öðrum minjum. Þorbjarnarstaðatjarnir, Gerðistjarnir og umhverfi eru jafnframt á náttúruminjaskrá.
Gengið var til norðausturs yfir á selsstíg, sem gjarnan hefur verið nefndur Straumsselsstígur, en liggur frá Þorbjarnastöðum um Flárnar upp í Gjásel og Fornasel. Við norðanverða Katlana liggur síðan tengistígur af honum upp í Straumssel um Straumsselshæðir. Á kafla, þar sem hraunhellan er hvað sléttust, má sjá djúp för í klöppina. Líklega hefur þessi stígur legið upp í Fornasel og Gjásel. Þau lögðust af mun fyrr en t.a.m. Straumssel. Einhvern tímann hefur verið gerð hjáleið frá Straumsseli niður á stíginn og hann að öllum líkindum síðan notaður sem annar selstígur af tveimur upp í selið.

Þorbjarnastaðastekkur

Þorbjarnastaðastekkur.

Á leiðinni var tækifærið notað og litið á Kápuhelli við vesturjaðar Laufhöfðahraunsins. Tiltölulega auðvelt var að rekja tengistíginn upp í Straumssel. Að vísu er hann merktur á kort of austarlega þannig að hætta er á að fólk geti lent í tímabundnum vandræðum, en ef farið er skammt vestar og hæðir skágengnar er leiðin greiðfær. Þá þarf hvergi að klöngrast yfir grjót og misfellur.
Hraunin í Almenningi (stundum nefndur Hraunskógur) eru að mestu klædd gamburmosa en er einnig víða vaxin kjarri. Í lok nítjándu aldar var kjarrið nánast eytt af hrístöku og fjárbeit, því sauðfé var öldum saman haft á útigangi í afréttum. Eftir að dró úr lausagöngu búfjár um aldamót 19. og 20. aldar hafa birki, víðir og einir tekið mikinn vaxtarkipp. Á stöku stað má nú sjá allt að fjögurra metra há birkitré, einkum norðan Óttarsstaðasels, ofan Meitlanna.
Almenningur hefur einkum í seinni tíð verið nefnd hraunhæðin efst á hraunbrúninni þar sem eru Stórhæðir, Hafurbjarnarholt, Skógarhæðir og jafnvel yfir í Einihlíðar. Áður var hann haunspildan milli Kapelluhrauns og Afstapahrauns á Vatnsleysuströnd. Var þar fyrrum skógi vaxið en hann eyddist af höggi og beit sem fyrr sagði. Á Almenningi er einn hinna mörgu Gvendarbrunna, við gömlu Alfaraleiðina ofan Gvendarbrunnshæðar og norðan við Löngubrekkur.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur.

Annars er Almenningur gamalt dyngjuhraun kennt við Hrútagjárdyngju. Það er sjálfvaxið mosaþembu og kjarrlendi en að hluta til er þar ræktaður skógur. Svæðið er að mestu innan vatnsverndarsvæðis eins og það er skilgreint í gildandi aðalskipulagi Hafnarfjarðar. Við norðurmörk afmörkunar á umhverfisverndinni eru þessar mannvistarminjar; Lónakotssel, Óttarsstaðsel, Straumssel, Gjásel, Fornasel og Fjárborgin. Fleiri mannvistarminjar, hleðslur, stekkir, gerði og fjárhellar með fyrirhleðslum eru á þessum slóðum. Um Almenning lágu alfaraleiðir til forna s.s. Rauðamelsstígur, Straumsselsstígur, Hrauntungustígur og Stórhöfðastígur. Auk þess eru aðrar leiðir sem tengdust hinum ýmist til styttingar eða þær voru valdar eftir veðurlagi hverju sinni.
Gamlar þjóðleiðir og fornir stígar liggja vítt og breitt um Reykjanesfólkvang. Þessar leiðir hafa gleymst eftir að ökuvegir voru lagðir og menn hættu að þræða gamlar slóðir á ferð sinni um nesið. Flestar leiðirnar tengja byggðahverfin gömlu við útverin á Suðurnesjum. Á milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur lágu t.d. Undirhlíðaleið, Dalaleið, Vatnaleið, Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur. Frá Hraunabæjunum við Straumsvík og Hvassahrauni lágu sem fyrr segir Straumsselsstígur, Rauðamelsstígur og Mosastígur til Krýsuvíkur, að Selatöngum eða Grindavíkur. Með Núpshlíðarhálsi lágu Hálsagötur og milli Vatnsleysustrandar og Vigdísarvalla lá Þórustaðastígur, sem nefnist Drumbsdalastígur þar sem hann þræðir sig frá völlunum austur að Krýsuvík. Fleiri leiðir mætti nefna, en göngufólki er ráðlagt að rýna ofan í svörðinn og skoða gamlar götur sem víða mótar fyrir þó þær séu ekki jafn augljósar og fyrrum.

Straumssel

Neðri-Straumsselshellar.

Straumsselið var skoðað. Selið er eitt örfárra á Reykjanesskaganum er óx og varð að bæ. Vel má sjá hvernig bæjarhúsin voru, kálgarður norðvestan við þau og garður umleikis. Norðar er vatnsstæðið, garður umlykur heimatúnið og hlaðið gerði er austan við bæjarhúsin. Gamla selið er skammt norðaustar.
Haldið var áfram og götu fylgt upp í Neðri-Straumsselshella. Fallegar hleðslur eru fyrir þremur opum hellanna. Þeir eru frekar lágir innvortis, en í þeim má sjá stuttar hleðslur út frá veggjum. Skammt norðan hellanna er hið ágætasta vatnsstæði.
Þegar komið var upp í Efri-Straumsselshella sáust vel hinar miklu hleðslur þar sem grunnt jarðfall hefur verið notað sem aðhald. Inn úr því er rúmgóður hellir með hleðslum við opið. Inni er gólfið sléttað. Ekki er að merkja að þar inni hafi verið haft fé. Líklega hefur hellirinn verið mannaskjól, en inni í því hafa sléttar hellur verið réttar upp til að loka fyrir að t.d. fé kæmist lengra inn eftir honum. Efri-Straumsselshellar voru notaðir sem rétt um tíma. Dilkur er norðvestan við gerðið. Úr veggjum þess hafa síðar verið tekið grjót og skjól hlaðið með norðurveggnum. Það munu refaskyttur hafa gert um miðja síðustu öld. Væntanlega hafa þeir einnig notað hellinn sem skjól á meðan dvalið var við veiðarnar í Almenningi.

Straumssel

Efri-Straumsselshellar.

Þá var ætlunin að rekja Straumsselsstíginn áfram upp Almenning, framhjá Gömluþúfu og áleiðis að Sauðabrekkum eins og hann hefur verið sýndur á uppdráttum. Almenningsnafnið mun dregið af því að þar var sameiginlegt beitiland Hraunbæjanna.
Auðvelt er að áætla stígsstæðið að skarði norðan við Gömluþúfu og síðan í sneiðin upp brekkuna að henni. Suðvestan Gömluþúfu er varða. Önnur varða er suðaustan hennar. Með jákvæðu hugarfari má rekja götuna upp að síðarnefndu vörðunni, en austan hennar tengist stígurinn inn á vestari leið Hrauntungustígsins er liggur áfram áleiðis að Fjallgrensvörðu og áfram að Sauðabrekkum.
Þegar horft er af brún Almennings yfir neðanvert hraunsvæðið, afurð Hrútargjárdyngju fyrir 5-7 þús. árum, á þessum árstíma (hausti) er litadýrðin óvíða meiri á landinu – og eru þá Þingvellir meðtaldir.
Víða má sjá vörður þarna efra. Flestar eru landamerkjavörður, ýmist á mörkum Þorbjarnastaða og Straums eða Straums og Óttarsstaða. Ein slík er á Klofakletti. Hann er á mörkum efst í svonefndum Bringum. Ofan hans heita Mosar. Skv. örnefnalýsingu eiga nöfn jarðanna er þarna koma saman að vera klöppið á bergvegg við vörðuna. Ekki var að sjá að svo væri.

Óttarsstaðasel

Vatnsból í Óttarsstaðaseli.

Þá var Almenningur skágenginn til suðvesturs áleiðis að Óttarsstaðaseli. Á leiðinni voru vörður og önnur kennileiti skoðuð. M.a. var skoðuð varða ofan á hraunklofa ofarlega í heiðinni. Op er á henni neðanverðri svo refaskytta, sem setið hefur á bak við vörðuna, hefur haft hið ágætasta útsýni láglendið fyrir neðan þar sem tófan hefur átt leið um.
Annars má víða sjá ummerki eftir refaskyttur í Almenningi, sbr. byrgið við Efri-Straumsselshella svo neðan (norðvestan) við Búðavatnsstæðið.
Búðarvatnsstæðið mun vera þar sem Helguflöt norðan á Búðarhólum er, sbr. kort af Almenningsskógi Álftaneshrepps, dags. 20. apríl 2004. Sumir hafa viljað meina að Markhelluhóll hafi verið þar rétt ofan við stæðið, en síðar “færst” lengra frá því til austurs þar sem nú eru áklappaðir stafir þeirra bæja er munu hafa átt landamerki að hólnum.
Þegar gengið var áleiðis niður að Óttarsstaðaseli mátti vel sjá hversu leiðin er greið ofan við það að Búðarvatnsstæðinu og áfram upp með Mávahlíðum. Til þeirra sést vel af hæðunum ofan við Óttarsstaðaselið. Komið var niður að Rauðhólsskúta og frá honum gengið að vatnsstæðinu norðaustan við selstöðuna. Í því var nægt vatn.
Óttarsstaðaselið er rýmra en margar aðrar selstöður í Almenningi og á Reykjanesskaganum. Rýmin eru þrjú líkt og hefðbundið er í seljum á þessu landssvæði. Íverurýmið og búrið (framar) hafa haft sama inngang (gengið inn að suðvestan) og eldhúsið, að norðaustanverðu, hefur haft sérinngang. Það er einnig óvenju rúmgott. Enn má sjá hlóðahleðslurnar. Selið er heillegt þótt vel gróið sé. Líklegt má telja að selstaðan hafi verið ein sú síðasta slíkra, sem lagðist af á þessu svæði.
Selsstígnum var fylgt áleiðis að Alfaraleiðinni. Á leiðinni var komið við í Meitlaskjóli undir Meitlum, Sveinsskúta og Bekkjaskúta, en allir þessir skútar eru einungis kippkorn frá stígnum.

Óttarsstaðasel

Varða við Óttarsstaðaselsstíg.

Þegar komið var niður eftir var haldið að þeirri leið er jafnan (einkum upp á síðkastið) hefur verið nefnd Straumsselsstígur. Fyrst var þó komið við í Gránuskúta sunnan Miðmundarhæðar.
“Straumsselsstígurinn” liggur nú um norðaustanverða Réttarhæð og kemur niður af henni suðvestan Þorbjarnarstaðaréttar (-stekks). Þaðan liggur leiðin áfram að austurgarð Þorbjarnarstaða. Sú leið virðist hins vegar ekki mjög sannfærandi, a.m.k. ekki sem tengileið fyrir Straumsselsstíginn er liggur upp frá Straumi. Sá stígur kemur beint inn á “austari” leiðina sunnan Miðmundarhæðar og er hún beint framhald af honum alla leið upp í Straumssel.

Líklegt má telja að gata hafi legið frá Þorbjarnastöðum frá túngarðinum, yfir Alfaraleið og til austurs sunnan Réttarhæðar. Sú leið virðist eðlilegri og greiðfærari tenging við “Straumsselsstíginn” vestari, sem að öllum líkindum hefur upphaflega verið selstígurinn upp í Fornasel og Gjásel, en þar voru einmitt selstöður frá Þorbjarnastöðum, miklu mun eldri en Straumsselið, svo og fjárskjólin sem þar eru í og við Brundtorfur (Brunatorfur). Gatan ber þess líka glögg merki á köflum.
Gengnir voru 17.7 km á 7 klst. og 7 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-http://www.umhverfisstofa.is/reykjanesfolkvangur/gongu.htm

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Straumssel

Almennt var hætt að hafa í seli eftir miðja 19. öldina víðast hvar á landinu og lagðist sá siður því af. Þó hélt einn og einn bóndi því áfram og eru heimildir fyrir því að Hvaleyrarbóndi hafi haft í seli við Hvaleyrarvatn lengst allra sem bjuggu í nágrenni Hafnarfjarðar.

Straumssel-122

Oft voru selin ágætlega húsuð og því kjörið að nýta húsakostinn eftir að selstöður lögðust almennt af. Þegar Guðmundur Guðmundsson hafði keypt Straumsjörðina af Páli Árnasyni sem hafði keypt hana 1839 af konungssjóði. Guðmundur var gerður að skógarverði í Almenningi og settist þá að í Straumsseli. Þetta mun hafa verið um 1847. Hjá honum var faðir hans Guðmundur Bjarnason, oft nefndur Krýsuvíkur-Gvendur. Hann andaðist aldraður maður í Lambhaga vorið 1848, en Guðmundur skógarvörður andaðist fimm árum síðar í selinu, nánar tiltekið 1853. Þegar hann gerði Straumssel að bústað sínum klagaði leiguliði hans í Straumi búsetuna til sýslumanns. Leiguliðinn var Bjarni Einarsson en honum þótti það vera skerðing á fornum rétti landseta að skipta jörðinni upp með þessum hætti. Guðmundur lofaði að fjölga ekki býlum í Straumslandi meðan Bjarni byggi þar. Bjarni gekk að sáttinni að því tilskyldu að bygging hins gamla Straumssels væri sér með öllu óviðkomandi, skyldu yfirvöld kæra.

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Föst búseta var í Straumsseli í ein 40 á með hléum, enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði. Meðal ábúenda í selinu voru hjónin Kolfinna Jónsdóttir og Sigurður Halldórsson sem bjuggu þar á tímabilinu 1853-1863. Eftir það fluttu þau í Hafnarfjörð og bjuggu í Kolfinnubæ sem stóð þar sem nú er Strandgata nr. 41. Farnaðist þeim vel í selinu þó kjörin væru kröpp. Bjarni sonur þeirra fæddist í Straumsseli 1857. Talið er að síðast hafi verið búið í Straumsseli 1890-1895. Guðmundur lét reisa myndarlegt bæjarhús í Straumsseli sem stóð fram undir aldamótin 1900 en þá mun það hafa brunnið. Selið fór eftir það í eyði en bæjartóftirnar eru all myndarlegar.

Heimild:
-Jónatan Garðarson.

Straumssel

Straumssel. Tóftir af húsi skógarvarðarins efst til vinstri.