Straumssel

Straumsselið er merkilegt – ekki síst í sögulegu samhengi Almennings. Það er einn merkilegasti fornminjastaðurinn í Almenningi. Þar í kring eru nú [2014] minjar sem ekki hafa verið skrásettar. Má þar nefna seltóftirnar sjálfar, sem eru nokkru ofan við bæjartóftir þær er nefndar eru til sögunnar hér á eftir (og sjást að ofan).

Straumssel

Straumssel. Tóftir af húsi skógarvarðarins efst til vinstri.

Straumssel var á sínum tíma ekki bara sel heldur lögbýli frá 1849 þegar Guðmundur Guðmundsson sem var konungsskipaður umsjónarmaður skógarhöggs settist þar að. Búið var í Straumsseli fram undir aldamótin 1900 þegar bæjarhúsin brunnu.

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Straumssel er með stærri seljum í Hraunum. Þar var ágætis húsakostur fyrir aldamótin 1900 eins og tóftirnar bera með sér. Guðmundur Guðmundsson sem keypti jörðina af Páli Árnasyni setti byggð í Straumsseli 1849, en hafði þá búið þar í tvö ár. Fyrsta árið  bjó hann í selinu ásamt föður sínum, Guðmundi Bjarnasyni, sem var oft nefndur KrýsuvíkurGvendur. Þeir bjuggu stutt í selinu því Guðmundur Bjarnason  andaðsti aldraður maður í Lambhaga vorið 1848 og Guðmundur sonur hans nokkrum árum seinna á Setbergi. Guðmundur Guðmundsson var settur skógarvörður í Almenningi og taldi auðveldast að sinna starfi sínu frá Straumsseli.

Straumssel

Straumssel.

Bjarni Einarsson leiguliði Guðmundar og ábúandi í Straumi klagaði búsetuna í selinu til yfirvalda þar sem honum þótti það skerðing á fornum rétti sínum. Guðmundur lofaði að fjölga ekki býlum í Straumslandi á meðan Bjarni byggi þar. Bjarni gekkst við sáttinni að því tilskildu að bygging hins gamla Straumssels væri sér með öllu óviðkomandi skyldu yfirvöld kæra.

straumssel-gardar

Byggt var vandað bæjarhús og var föst búseta  í Straumsseli í ein 40 ár með hléum enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði. Meðal ábúenda í selinu voru hjónin Kolfinna Jónsdóttir og Sigurður Halldórsson sem bjuggu þar 1850-1860, er þau fluttu þau inn í Hafnarfjörð. Þessi hjón bjuggu síðan í Kolfinnubæ sem stóð þar sem Strandgata 41 er nú. Farnaðist þeim vel á þeim áratug sem þau bjuggu í Straumsseli þó kjörin hefðu verið kröpp. Sonur þeirra Bjarni fæddist í Straumsseli árið 1857. Talið er að síðast hafi verið búið í selinu 1890-1895. Jón Þorsteinsson bjó þar síðastur allra, en hann fórst þegar bærinn brann og eftir það var ekki byggt upp aftur í Straumsseli.

Á einum stað í Almenningi voru hugsanleg landamerki Ölfuss og Seltjarnarneshreppsins gamla, er varðan talin vera mjög merkileg, ef hún telst vera landamerkjavarða. Á ofanverðum Skorási er landamerkjavarða [-vörður] milli Hafnarfjarðar og Hvassahrauns, sem er þá líka merkjavarða á milli sveitarfélaganna Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandar. Telja ber að vörður hafi almennt mikið minjagildi – og sama gildir um hlaðna garða við selin.

Fornasels-, Gjáselsstígur.

Fornasels-, Gjáselsstígur.

Stundum er sagt að viðkomandi varða sé illa hlaðin, sennilega endurhlaðin eða nýleg varða. Um þetta má segja að ekki er hægt að bera saman þjóðleiðavörðurnar sem voru gerðar samkvæmt konungsskipun á seinni hluta 19. aldar og eru mjög vandaðar og nokkuð svipaðar að gerð.

Hafurbjarnarholt

Hafurbjarnarholt – varða.

Þessar vörður voru lögvörður og áttu að hafa ákveðið útlit og standa lengi. Vörðurnar í Almenningi eru af nokkrum tegundum og auðþekkjanlegar. Þær eru aldrei mjög vandaðar og alls ekki í líkingu við þjóðleiðavörðurnar. Lesa má þó úr vörðunum hvaða merkingu þær höfðu m.t.t. til tilgangs. Búlduleit varða sem er eins og heysáta, lítil eða stór, vísar nánast alltaf á fjárhelli, skúta eða fyrirhlaðið skjól. Uppmjóar vörður vísa á sel, eða staði þar sem hrís (eldiviður) var geymt. Lágar vörður sem eru bara nokkrir steinar vísa á innansveitar leiðir, t.d. leiðirnar í selin, í stekkina, réttirnar eða eitthvað ámóta.  Tveir steinar á þremur stöðum benda á gömul greni. Á nokkrum stöðum eru voldugri vörður, eins og við Straumsselsstíginn austari, en sá stígur var á sínum  tíma nytjaleið út frá Fornaselsstíg  og Gjásselstíg.

Straumssel

Straumssel – brunnurinn.

Landamerkjavörðurnar milli Hraunajarðanna eru oft með uppmjóum steini í toppinn eða einum stórum steini sem er miklu stærri en hinir sem mynda grunninn. Svo eru hleðslur sem líta út eins og vörður en eru í rauninni skotbyrgi sem notuð voru þegar legið var fyrir ref, því hann ógnaði mjög sauðfénu sem var á útibeit allt árið. Eina slíka má sjá við Straumsselstíginn (vestari) er liggur upp með vestanverðu Draughólshrauninu. Á þeirri leið er t.d. Straumsselsstígsskjólið.

Fornasel

Fornasel – tilgáta.

Selstígur sá, sem á seinni tímum hefur verið nefndur “Straumsselsstígur” er í raun Fornaselsstígur og síðar Gjáarselsstígur, eins og fyrr sagði. Afleggjari af honum liggur upp í Straumssel ofan við Flár. Varða er á mótunum. Þessi selsstígur er allur innan fyrrum landamarka Þorbjarnarstaða.
Straumsselsstígurinn liggur hins vegar um Straumslandið vestan Draughólshrauns – beint í Straumsselið fyrrum. Hann er miklu mun greiðfærari en “tvíburabróður” hans í austri. – og vel varðaður allt upp að “millumstíg” Straumssels og Óttarsstaðasels.

Straumssel

Straumsselsvarðan.