Lönguhlíðarhorn

Ætlunin var að skoða stíga neðan Kerlingarhnúka um Dauðadali sunnan Helgafells. Gengið var m.a. um Tvíbollahraun (~950 e.Kr.) og Skúlatúnshraun (~3000 ára (Ísor)), einnig nefnt Hellnahraunið eldra.

Selvigsgata/Dauðadalastígur

Selvogsgata/Kerlingarskarðsvegur/Dauðadalastígur.

Þar er Gullkistugjá, löng sprungurein sem fer m.a. í gegnum suðausturhluta Helgafells og suður um hraunið. Séra Friðrik Friðriksson stofnandi sumarbúða KFUM og K í Kaldárseli gaf sprungureininni nafnið Gullkistugjá. Manngerð brú er þvert yfir miðja gjána. Þar skammt frá hafði lóan verpt tveimur eggjum.
Ofan Gvendarselsgíga er slétt helluhraun, Skúlatúnshraunið fyrrnefnda, ígildi dyngjuhrauns, því um er að ræða óvenjumikið magn og flæmið eftir því. Ofarlega í hrauninu er gróinn ofanhólmi, uppspretta vangaveltna um fornar mannvistaleifar. Fyrir um 2.000 árum (Náttúrufræðingurinn 1997-1998) varð mikil goshrina á Reykjanesskaga og gaus þá m.a. í Brennisteinsfjallareininni. Frá einum gígnum, Stórabolla í Grindarskörðum, rann mikið hraun niður í átt að Straumsvík. Það breiddist út yfir stórt svæði ofan við Helgafell og Húsfell.
Daudadalastigur-3Ein kvísl hraunsins rann sunnan og vestan við Helgafell og þaðan niður á milli Helgafells og Gvendarselshæðar og síðan vestur fyrir Stórhöfða, allt til sjávar og myndaði núverandi strönd milli Straumsvíkur og Hvaleyrarholts. Þetta hraun stíflaði uppi Hvaleyrarvatn. Suður af Helgafelli heitir hraunið Skúlatúnshraun en við Hvaleyrarholt myndar það meginhluta Hellnahrauns.
Að þessu sinni var byrjað á því að fylgja stíg (Dauðadalastíg) frá Bláfjallavegi til austurs áleiðis að Kerlingarhnúk. Stígurinn er áberandi í Skúlatúnshrauninu, sem er þarna sem mjó og tiltölulega slétt hvylft milli nýrra og úfnari hrauntungna Tvíbollahrauns. Syðri tungan er að hluta til komin ofan úr Syðstubollum ofan Kerlingarhnúks. Sést hraunfossinn vel utan í hlíðunum neðan Þverdals. Auðvelt er að finna á fæti ástæðuna fyrir því að þessi leið hefur verið valin. Hún er sléttaflíðandi og því þægileg til göngu. Við stíginn miðja vegu milli vegarins og hlíðarinnar er vatnsstæði.
Daudadalastigur-4Frá því og upp að Þvergilslæk er stígurinn enn eins augljós. Og eftir að yfir Þvergilslækinn er orðið erfitt að greina hann, en hann lá upp með læknum í hlíðarrrótinni. Neðst undir Þvergili beygði hann neðst upp með gróinni hlíðinni og upp í Þverdal. Þaðan sést stígurinn vel upp og suður dalinn uns komið er upp með sunnanverðum Kerlingarhnúk. Liggur stígurinn inn á námustíginn frá Hlíðarvegi og áleiðis inn í Námuhvamm í Brennisteinsfjöllum.
Þá átti eftir að finna vestari hluta Dauðadalastígs neðan Bláfjallavegar að Gvendarselshæð. Gengið var vænleg leið niður með og milli Marhraka (Markraka) hæðanna, í gegnum Dauðadali og með vestustu tungu Stórabollahrauns með stefnu á suðurhorn Helgafells. Með góðum vilja var hægt að fylgja stíg við hraunhornið áleiðis að Helgafelli, en að öllum líkindum er um fjárgötu að ræða. Komið var að gróinni og áberandi vörðu í miðju Skúlatúnshrauni, en erfitt var að sjá hvaða hlutverki hún hafi átt að gegna á þessum stað, nema ef vera skyldi til að undirstrika landamerki.
Þegar komið var að Gullkistugjá varð ljóst að annað hvort þyrfti að fara yfir hana um nyrsta horn eða miklu mun sunnar. Gjárbarminum var fylgt uns komið var að manngerði brú yfir hana. Um hana lá stígur áleiðis niður að norðanverði Gvendarselshæð, niður á Dalaleið. Götunni var fylgt að Skúlatúni og síðan áfram upp Skúlatúnshraunið, upp að suðvestanverðum Marhraka og áfram um miðja Dauðadali áleiðis upp á fyrstnefnda kaflanum ofan Bláfjallavegar.

Gullkistugja-2

Ásbjörn Özurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, er í Landnámu sagður hafa búið á Skúlastöðum. Han nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns og Álftanes allt. Munnmæli munu vera um að Skúlastaðir hafi verið þar sem Skúlatúnshraun sé, norðan við Lönguhlíðarhorn, sbr. umfjöllun í ritinu Garðabær – byggð milli hrauns og hlíða. Árni Helgason minnist á Skúlastaði og menjar þeirra í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 (bls. 211). Hafi Skúlastaðir staðið þar sem munnmæli segja, eru líkur fyrir því að Almenningsskógalandið og Garðaland hafi verið hluti af landnámsjörð Ásbjörns heitins. Ekki er vitað til þess að fornleifarannsókn hafi farið fram í Skúlatúni. Reyndar má telja ólíklegt að þar finnist slíkar minjar því hafi bær verið á svæðinu frá fyrstu tíð má telja yfirgnæfandi líkur á að hraunin er runnu þarna þrálátlega á söguöld hafi náð að eyða þeim minjum varanlega.
Helgafellið blasti við með Riddarann efst. Riddarinn er í raun þríburði því í örnefnalýsingu fyrir Þorbjarnastaði í Hraunum er getið um tvo bræður hans á Brunabrúninni, sbr.: “Skammt austur frá hliðinu á austurtúngarðinum voru tveir hraundrangar, nær mannhæðaháir og áberandi af sjó. Þeir nefndust Riddarar. Um þá og Riddarann á Helgafelli var mið á Rifið út frá Óttarsstaðatúni”.
Daudadalastigur-5Helgafell, einkenniskennileiti svæðisins, er móbergsfjall í um 7 km suðaustur frá Hafnarfirði. Fjallið er 340 metra hátt, hömrótt og víða bratt. Á veturna getur verið varhugavert að ganga á fjallið vegna hálku sem leggst á klappirnar. Auðveldast er að fara upp hrygginn norðanmegin í fjallinu [reyndar er auðveldasta uppförin norðvestan í fellinu, um gilsskorning, sem þar er]. Einkenni fjallsins eru miklar klappir og lítill gróður. Mikið útsýni er af  Helgafelli og fróðlegt er að sjá hvernig hraun í nágrenninu hafa runnið og sprungið eftir því sem ár og aldir hafa liðið.Valahnúkar eru móbergshryggir norðan við Helgafell. Móbergs- og bólstrabergsmyndanir eru allfjölbreyttar myndanir og nokkuð sundurleitar innbyrðis. Þær eru flestar frá því á síðasta jökulskeiði sem hófst fyrir um 120.000 árum.

Daudadalastigur-6

Á hlýskeiðum renna hraun langar leiðir en á jökulskeiðum er landið hulið jökulskildi samanber í kaflanum um grágrýti. Við gos í jöklum nær bergkvikan ekki að renna frá gosinu heldur bræðir hún geil upp í jökulinn sem hálffyllist af vatni. Þegar kvikan blandast vatninu snöggkælist hún, splundrast og gleraska myndast sem sest að í geilinni. Ef vatnsdýpi er mikið þá orsakar vatnsþrýstingurinn að bergkvikan nær ekki að splundrast heldur myndast bólstraberg. Ef bergkvikan splundrast þá myndast þeytigos. Í öflugum þeytigosum brjótast gosefnin oft upp með miklum krafti og fara hátt upp í loft og hlaðast í miklu magni í kringum gosopið. Hinsvegar ef gosið nær ekki að vinna sig upp úr ísnum og vatn nær ekki að gosrásinni þá fer að renna hraun sem myndar hettu ofan á gosösku og heita það stapar. Þegar frá líður harðnar askan og ummyndast í móberg. 

Daudadalastigur-7

Þegar ísskjöldurinn hvarf af landinu stóðu móbergsfjöllin eftir. Dæmi um móbergshryggi er t.d. Valahnúkur og Helgafell [og Húsfell (278 m.y.s.]. Stapa er hins vegar ekki að finna á þessu bergmyndunarsvæði.
Elsta bergmyndun Hafnarfjarðar og undirstaðan sem allt annað hvílir á er grágrýti. Grágrýtið er grátt eða grásvart að lit, grófkornað, beltaskipt en yfirleitt er lítið um díla í því. Það myndaðist úr hrauni frá eldstöðvum sem voru virkar á hlýskeiði ísaldar og eru yfirleitt komin úr dyngjum. Ekki er vitað úr hvaða eldstöð grágrýtið í Hafnarfirði og umhverfi þess er komið. Grágrýtið er yfirleitt dálítið frauðkennt og tekur í sig mikið vatn og þolir illa veðrun. Jöklar frá jökulskeiðum ísaldar hafa farið yfir grágrýtishraunin og skafið allt gjall ofan af þeim.

Daudadalastigur-8

Nokkrar “götur” eru þarna um slétt helluhraunin og sumar þeirra vænlegar, en án efa eru þær allflestar fjárgötur. (Sjá meira um stíga í framangreindum hraunum HÉR og HÉR .) Hafa ber í huga að einstökum stöðum voru gefin hin ýmsu nöfn, allt eftir því hverjir að sóttu. Þannig var t.d. Selvogsgatan jafnan nefnd Suðurfararvegur meðal Selvogsbúa – og gerir enn.
Spyrja má hverjir hafi farið Dauðadalastíginn og í hvaða tilgangi. Eins og sjá má annars staðar á vefsíðunni liggur annar stígur allnokkuð norðar um Dauðadali í svonefnda Dauðadalahella. Sá stígur er mun yngri enda tiltölulega stutt síðan farið var að sækja hellana heim. Sá stígur, sem hér hefur verið til umfjöllunar, hefur væntanlega verið farin af rjúpnaveiðimönnum í Bollana áður en Bláfjallavegurinn var lagður og jafnvel námumönnum er sóttu vinnu í brennisteins-
námurnar í Brennisteinsfjöllum. Fyrir kunnuga er þekktu vel til staðhátta er þetta tilvalin leið frá Kaldárseli upp fyrir Kerlingarhnúk og áfram inn í Námuhvamm. Bæði liggur gatan betur við bænum en Selvogsgatan um Grindarskörð og Hlíðarvegur um Kerlingarskarð, enda námurnar allnokkru vestar í fjöllunum en fyrrnefndar leiðir voru ætlaðar millum staða.

Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín. Gengnir voru 15.8 km.

Heimildir m.a.:
-isor.is
-Náttúrufræðingurinn 1997-1998, bls. 175.

Flóki

Í Dauðadalahellum.