Straumsselsstígur

Á vefsíðu Fjarðarfétta um Ratleik Hafnarfjarðar má lesa eftirfarandi um “þjóðleiðir“:

“Þjóðleiðir eru leiðir markaðar með fótsporum manna og dýra í gegnum aldrinar og víða má enn sjá greinileg ummerki þeirra.

Selvogsgata

Selvogsgata

Selvogsgata ofan Lækjarbotna.

Selvogsgata er þjóðleið milli Hafnarfjarðar og Selvogs í Ölfusi, um dagleið þegar hún er farin í einum áfanga.
Frá Setbergshverfi er Botnalæk fylgt framhjá Hlébergsstíflu að uppsprettunni í Lækjarbotnum. Sunnan Lækjarbotna liggur Selvogsgatan í slakkanum milli Setbergshlíðar og Gráhelluhrauns að Kethelli. Gatan er aðeins á fótinn þar til komið er að brún Smyrlabúðahrauns. Ferðalangar fyrri alda hafa mótað götuna sem liðast eins og farvegur á milli hrauns og Klifsholta. Við Smyrlabúð gengur nýleg reiðgata þvert á Selvogsgötu, sem liggur áfram yfir Folaldagjá og fylgir varðaðri slóð um Mosa að vatnsveitugirðingu og misgengi Helgadals. Girðingunni er fylgt um stund og farið yfir hana á blásinni sandöldu. Gengið er með Valahnúkum, um Mygludal, yfir Húsfellsgjá og línuveg að höfuðborgargirðingunni. Þar er hlið á girðingunni við austurenda Kaplatór. Slóðin liggur í gegnum Þríhnúkahraun, framhjá Strandatorfum, eftir varðaðri leið um Hellur og yfir Bláfjallaveg upp í Grindaskörð. Þegar komið er upp á fjallsbrún er hægt að þræða leiðina og fylgja vörðum alla leið austur í Selvog.

Undirhlíðaleið

Undirhliðarvegur

Undirhlíðarvegur.

Undirhlíðaleið hefst við Kaldársel og liggur norðan Undirhlíða yfir Bláfjallaveg að Vatnsskarði. Þar er farið yfir Krýsuvíkurveg og gengið með Sveifluhálsi um Norðlingasand og Sandfellsklofa upp að Hrútagjárhrauni, yfir Norðlingaháls um Stórusteinabrekku, framhjá Köldunámum, um Hofmannaflöt í áttina að Katlinum. Þar tekur Ketilstígur við og liggur yfir Sveifluháls framhjá Arnarvatni, að Seltúni þar sem heimalönd Krýsuvíkur taka við.

Rauðamelsstígur

Óttarsstaðasel

Rauðamelsstígur.

Rauðamelstjörn er í djúpri námu þar sem Rauðamelur var áður, við gamla Keflavíkurveginn sunnan við Straum. Frá námunni liggur leiðin vestan við Gvendarbrunn, suður um Mjósund að Óttarsstaðaseli. Þar er stefnan tekin á Trölladyngju og farið vestan undir Skógarnefjum, sunnan Einihlíða og norðan Lambafells að Bögguklettum. Þá er haldið áleiðis að Dyngjuhálsi austan Trölladyngju. Þegar komið er yfir hálsinn er farið um Hörðuvelli og suðurenda Fíflavallafjalls og yfir slétt helluhraun norðan Hrútafells í áttina að Hrúthólma. Þar liggur Rauðamelsstígur inn á Hrauntungustíg og fylgir honum í áttina að Ketilstíg.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur liggur frá Áslandi um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Háabruna að Hrauntungum í Almenningi.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Þaðan liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings að Sauðabrekkum. Farið er yfir Sauðabrekkugjá um Mosa vestur fyrir Fjallið eina að Hrútagjárdyngju. Stefnt er á Hrúthólma og farið um helluhraun að Hrútafelli og þá er stutt í Ketilstíginn, sem liggur yfir hálsinn til Krýsuvíkur.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Stórhöfðastígur liggur frá Ástjörn um Hádegisskarð og Ásflatir, sniðhallt yfir Bleikisteinsháls að Hamranessflugvelli og út á Selhraun. Gengið er suður með Stórhöfða þar til Kaldársel blasir við, en þá hlykkjast leiðin á hraunhrygg að Bruna og í áttina að Snókalöndum. Þegar þangað er komið er farið yfir Krýsuvíkurveg í áttina að Brundtorfum og þrísteinavörðum fylgt að Fjallgjá. Gengið er með misgenginu að Fjallinu eina og austanverðum fjallsrótum fylgt að Hrútagjárdyngju. Þar mætast Stórhöfðastígur og Undirhlíðavegur sem fylgja norðanverðum Sveifluhálsi að Ketilstíg.

Alfaraleið

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin.

Það er víða auðvelt að fylgja Alfaraleiðinni, en svo nefnist elsta leiðin á milli Innnesja og Suðurnesja. Gatan er víða vel mörkuð í hraunhelluna eftir aldalanga notkun, en hún lagðist af þegar vélknúin farartæki tóku við hlutverki hestanna.
Þegar komið er vestur fyrir tóftina í Kapelluhrauni liggur leiðin spölkorn suðaustan Þorbjarnastaðatúngarðs nærri Tókletti. Hún hlykkjast í áttina að Suðurnesjum um hraunlægðir sem nefnast Draugadalir. Á þessum slóðum er gatan vel vörðuð og auðvelt að fylgja henni að Gvendarbrunni og meðfram Löngubrekkum. Þegar komið er framhjá þeim fækkar vörðunum en slóðin sést ágætlega þar sem hún liggur hjá Taglhæð um Sprengilendi í áttina að Hvassahrauni. Þar skiptir leiðin um nafn og nefnist eftir það Almenningsvegur þar sem hann liggur um Kúagerði og Vatnsleysuströnd að Vogum. Við Vogastapa tekur Stapagatan við, en svo nefnist gamla leiðin sem liggur frá Vogum til Njarðvíkur.

Gerðisstígur

Gerðisstígur

Gerðisstígur.

Stígurinn liggur frá Gerði í Hraunum, með vesturbrún Brunans eða Kapelluhrauns í áttina að Gjáseli. Slóðin er vörðuð að litlum hluta og fyrir nokkrum árum var hún stikuð, af starfsmönnum Byggðasafns Hafnarfjarðar. Leiðin liggur að malarnámum þar sem áður var Þorbjarnarstaðarauðimelur í áttina að Efri-Hellum sem þekkjast á áberandi hraunkletti. Þar verður slóðin óljós þar sem hún liggur um Kolbeinshæð og Laufhöfðahraun að Gjáseli. Þegar þangað er komið er hægt að halda áfram yfir skógræktargirðingu að Fornaseli og þaðan liggur Hrauntungustígur í áttina að Krýsuvík.

Dalaleið

Vatns- og Dalaleið

Vatns- og Dalaleið.

Dalaleið liggur frá Kaldárseli um Kýrskarð í Undirhlíðum, suður fyrir Gvendarselshæð og um Bakhlíðar að Leirdalshöfða. Þar eru Slysadalir og farið er yfir Leirdalsháls, um Kjóadali sunnan Háuhnúka, norður með Breiðdalshnúk að Vatnshlíðarhorni yfir Blesaflatir að Kleifarvatni. Vatnsborði Kleifarvatns er fylgt undir Hellum og farið yfir móbergsklettana Innri- og Ytri Stapa í áttina að Vesturengjum í Krýsuvíkurlandi.

Straumsselsstígur

Straumsselstígur

Straumsselsstígur.

Straumsselsstígur liggur frá Straumi um hlað Þorbjarnarstaða, norðan Draughólshrauns um Flárnar ofan Katla í áttina að Straumsseli. Þaðan liggur leiðin um Straumsselshellnastíg framhjá Gömluþúfu í áttina að Sauðabrekkugjá þar sem stígurinn sameinast Hrauntungustíg. Leiðin liggur um Mosa, síðan norður með Hrútagjá og sunnan Mávahlíðar, framhjá Hrúthólma og Hrútafelli yfir hraunhellurnar að Ketilstíg.”

Texti: Jónatan Garðarsson – https://ratleikur.fjarðarfréttir.is/ratleikur

Selvogsgata

Gengið um Selvogsgötu.