Tag Archive for: Ratleikur

Litluborgir

Ratleik Hafnarfjarðar barst í ágústmánuði (2023) skondin ábending frá Umhverfisstofun eftir athugasemdir hennar til Hafnarfjarðarbæjar varðandi staðsetningu merkis ratleiksins í gervigíg við Litluborgir ofan Helgafells:

Umhverfisstofnun

Umhverfisstofnun – merki.

„Sæll Guðni, okkur hefur borist ábending frá Umhverfisstofnun vegna ratleiks sem m.a. er í Litluborgum. Það er vinsamleg ábending að færa til stöð nr. 16, þar sem mosinn í kringum þann stað hefur látið á sjá. Jafnvel að færa stöðina þannig að menn þurfi ekki að ganga á mosa til þess að finna umrædda stöð. UST er að fara í gang með að stika þarna gönguleiðir til þess m.a. að vernda viðkvæman mosann. Það er nokkuð skemmtileg leið þarna norðan meginn á friðlýsta svæðinu, sem sést á kortinu, Réne kom með þá hugmynd að e.t.v. væri heppilegra að nota hana. Þaðan er fallegt útsýni yfir friðlýsta svæðið og Helgafellið.“

Litluborgir

Litluborgir – gervigígur.

Guðni svaraði: „Það hefur sýnt sig í leiknum að mosi hefur jafnað sig ótrúlega fljótt, þrátt fyrir það sem alltaf er haldið fram. Svo hefur gönguleiðir myndast í ratleiknum eins og gönguleiðin í Litluborgir. Áður var vaðið ómarkvisst yfir mosann, en nú eru allir að fara á sömu leið, ekki einungis þeir sem ekki eru í leiknum og koma þarna. Að auki eru það hraunmyndanirnar sem þarna er verið að vernda. Gott er að vita að loksins skuli einhver átta sig á að stika þurfi gönguleiðir um svæðið.“

Litluborgir voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2009.

Litluborgi

Litluborgir – friðlýsing.

Markmiðið með friðlýsingu Litluborga er að vernda sérstæðar jarðmyndanir í landi Hafnarfjarðar. Jafnframt er það markmið með friðlýsingunni að varðveita jarðmyndanir svæðisins vegna mikils fræðslugildis, en Helgafell og nágrenni þess hefur um langan tíma verið afar vinsælt útivistarsvæði. Litluborgir eru hraunborgir og gervigígar sem myndast hafa við það að hraun hefur runnið yfir stöðuvatn. Aðrar merkar og áhugaverðar myndanir á svæðinu eru dropsteinar og kísilgúr.

Í auglýsingu um náttúruvættið Litluborgir í Hafnarfirði frá 3. apríl 2009 segir m.a.: „Markmiðið með friðlýsingu Litluborga sem náttúruvættis er að vernda sérstæðar jarðmyndanir í landi Hafnarfjarðar.

Litluborgir

Litluborgir – göngustígurinn frá Helgafelli.

Jafnframt er það markmið með friðlýsingunni að varðveita jarðmyndanir svæðisins vegna mikils fræðslugildis, en Helgafell og nágrenni þess hefur um langan tíma verið afar vinsælt útivistarsvæði. Umhverfisstofnun skal sjá um gerð verndaráætlunar fyrir náttúruvættið í samráði við Hafnarfjarðarkaupstað.“
Slík verndaráætlun hefur ekki verið gerð.

Litluborgir

Í Litluborgum – hraunmyndanir.

Í auglýsingunni segir jafnframt: „Almenningi er heimil för um náttúruvættið, enda sé gætt góðrar umgengni… Óheimilt er að spilla gróðri og trufla dýralíf innan marka náttúruvættisins. Gert er ráð fyrir merktum og stikuðum gönguleiðum og stígum um svæðið sem tengst geta öðrum gönguleiðum um uppland Hafnarfjarðar.“
Slík gönguleið hefur ekki verið gerð.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Umhverfisstofnun hefur engar forsendur til að gera athugasemdir við umferð fólks um Litluborgir því „almenningi er heimil för um náttúruvættið“ skv. auglýsingu þar að lútandi – og jafnvel þrátt fyrir auglýsinguna með vísan til gildandi ákvæða Jónsbókar.  Ljóst hefur þótt að fólk færi ekki fljúgandi um svæðið. Mosi umlykur Litluborgir svo ekki verður hjá því komist að fólk þurfi að ganga um hann á leið sinni. Þá ætti Umhverfisstofnun að fagna því að athygli fólks skuli vera vakin á svæðinu, en hún hefur síst allra sýnt því nokkurn áhuga í gegnum tíðina. Nefnd fyrirhuguð stígaleið er slóði bifreiða, sem ekið var upp hraunið frá Helgafelli áleiðis að Strandartorfum þegar veiðimenn sóttu þangað í rjúpur á haustin, auk þess sem hún var farin af mönnum þeim er önnuðust uppsetningu sauðfjárveikigirðingar i upplandi Hafnarfjarðar. Sú eyðilegging ætti að hafa verið stofnuninni meira áhyggjuefni en umferð gangandi fólks um svæðið.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Umhverfisstofnun fer villu vega þegar markmið hennar er að gera athugasemdir við umferð gangandi fólks um einstök friðlýst svæði í stað þess að sinna hlutverki sínu með þeim hætti að gera fyrirbyggjandi ráðstafnir varðandi undirbúning og framkvæmdir á þeim svo ekki þurfi að koma til slíkra athugasemda.

Í skýringum ratleiksins v/fróðleik um Litluborgir er sérstaklega tekið fram að þær eru friðlýst náttúruvætti – sjá HÉR.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Straumsselsstígur

Á vefsíðu Fjarðarfétta um Ratleik Hafnarfjarðar má lesa eftirfarandi um „þjóðleiðir„:

„Þjóðleiðir eru leiðir markaðar með fótsporum manna og dýra í gegnum aldrinar og víða má enn sjá greinileg ummerki þeirra.

Selvogsgata

Selvogsgata

Selvogsgata ofan Lækjarbotna.

Selvogsgata er þjóðleið milli Hafnarfjarðar og Selvogs í Ölfusi, um dagleið þegar hún er farin í einum áfanga.
Frá Setbergshverfi er Botnalæk fylgt framhjá Hlébergsstíflu að uppsprettunni í Lækjarbotnum. Sunnan Lækjarbotna liggur Selvogsgatan í slakkanum milli Setbergshlíðar og Gráhelluhrauns að Kethelli. Gatan er aðeins á fótinn þar til komið er að brún Smyrlabúðahrauns. Ferðalangar fyrri alda hafa mótað götuna sem liðast eins og farvegur á milli hrauns og Klifsholta. Við Smyrlabúð gengur nýleg reiðgata þvert á Selvogsgötu, sem liggur áfram yfir Folaldagjá og fylgir varðaðri slóð um Mosa að vatnsveitugirðingu og misgengi Helgadals. Girðingunni er fylgt um stund og farið yfir hana á blásinni sandöldu. Gengið er með Valahnúkum, um Mygludal, yfir Húsfellsgjá og línuveg að höfuðborgargirðingunni. Þar er hlið á girðingunni við austurenda Kaplatór. Slóðin liggur í gegnum Þríhnúkahraun, framhjá Strandatorfum, eftir varðaðri leið um Hellur og yfir Bláfjallaveg upp í Grindaskörð. Þegar komið er upp á fjallsbrún er hægt að þræða leiðina og fylgja vörðum alla leið austur í Selvog.

Undirhlíðaleið

Undirhliðarvegur

Undirhlíðarvegur.

Undirhlíðaleið hefst við Kaldársel og liggur norðan Undirhlíða yfir Bláfjallaveg að Vatnsskarði. Þar er farið yfir Krýsuvíkurveg og gengið með Sveifluhálsi um Norðlingasand og Sandfellsklofa upp að Hrútagjárhrauni, yfir Norðlingaháls um Stórusteinabrekku, framhjá Köldunámum, um Hofmannaflöt í áttina að Katlinum. Þar tekur Ketilstígur við og liggur yfir Sveifluháls framhjá Arnarvatni, að Seltúni þar sem heimalönd Krýsuvíkur taka við.

Rauðamelsstígur

Óttarsstaðasel

Rauðamelsstígur.

Rauðamelstjörn er í djúpri námu þar sem Rauðamelur var áður, við gamla Keflavíkurveginn sunnan við Straum. Frá námunni liggur leiðin vestan við Gvendarbrunn, suður um Mjósund að Óttarsstaðaseli. Þar er stefnan tekin á Trölladyngju og farið vestan undir Skógarnefjum, sunnan Einihlíða og norðan Lambafells að Bögguklettum. Þá er haldið áleiðis að Dyngjuhálsi austan Trölladyngju. Þegar komið er yfir hálsinn er farið um Hörðuvelli og suðurenda Fíflavallafjalls og yfir slétt helluhraun norðan Hrútafells í áttina að Hrúthólma. Þar liggur Rauðamelsstígur inn á Hrauntungustíg og fylgir honum í áttina að Ketilstíg.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur liggur frá Áslandi um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Háabruna að Hrauntungum í Almenningi.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Þaðan liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings að Sauðabrekkum. Farið er yfir Sauðabrekkugjá um Mosa vestur fyrir Fjallið eina að Hrútagjárdyngju. Stefnt er á Hrúthólma og farið um helluhraun að Hrútafelli og þá er stutt í Ketilstíginn, sem liggur yfir hálsinn til Krýsuvíkur.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Stórhöfðastígur liggur frá Ástjörn um Hádegisskarð og Ásflatir, sniðhallt yfir Bleikisteinsháls að Hamranessflugvelli og út á Selhraun. Gengið er suður með Stórhöfða þar til Kaldársel blasir við, en þá hlykkjast leiðin á hraunhrygg að Bruna og í áttina að Snókalöndum. Þegar þangað er komið er farið yfir Krýsuvíkurveg í áttina að Brundtorfum og þrísteinavörðum fylgt að Fjallgjá. Gengið er með misgenginu að Fjallinu eina og austanverðum fjallsrótum fylgt að Hrútagjárdyngju. Þar mætast Stórhöfðastígur og Undirhlíðavegur sem fylgja norðanverðum Sveifluhálsi að Ketilstíg.

Alfaraleið

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin.

Það er víða auðvelt að fylgja Alfaraleiðinni, en svo nefnist elsta leiðin á milli Innnesja og Suðurnesja. Gatan er víða vel mörkuð í hraunhelluna eftir aldalanga notkun, en hún lagðist af þegar vélknúin farartæki tóku við hlutverki hestanna.
Þegar komið er vestur fyrir tóftina í Kapelluhrauni liggur leiðin spölkorn suðaustan Þorbjarnastaðatúngarðs nærri Tókletti. Hún hlykkjast í áttina að Suðurnesjum um hraunlægðir sem nefnast Draugadalir. Á þessum slóðum er gatan vel vörðuð og auðvelt að fylgja henni að Gvendarbrunni og meðfram Löngubrekkum. Þegar komið er framhjá þeim fækkar vörðunum en slóðin sést ágætlega þar sem hún liggur hjá Taglhæð um Sprengilendi í áttina að Hvassahrauni. Þar skiptir leiðin um nafn og nefnist eftir það Almenningsvegur þar sem hann liggur um Kúagerði og Vatnsleysuströnd að Vogum. Við Vogastapa tekur Stapagatan við, en svo nefnist gamla leiðin sem liggur frá Vogum til Njarðvíkur.

Gerðisstígur

Gerðisstígur

Gerðisstígur.

Stígurinn liggur frá Gerði í Hraunum, með vesturbrún Brunans eða Kapelluhrauns í áttina að Gjáseli. Slóðin er vörðuð að litlum hluta og fyrir nokkrum árum var hún stikuð, af starfsmönnum Byggðasafns Hafnarfjarðar. Leiðin liggur að malarnámum þar sem áður var Þorbjarnarstaðarauðimelur í áttina að Efri-Hellum sem þekkjast á áberandi hraunkletti. Þar verður slóðin óljós þar sem hún liggur um Kolbeinshæð og Laufhöfðahraun að Gjáseli. Þegar þangað er komið er hægt að halda áfram yfir skógræktargirðingu að Fornaseli og þaðan liggur Hrauntungustígur í áttina að Krýsuvík.

Dalaleið

Vatns- og Dalaleið

Vatns- og Dalaleið.

Dalaleið liggur frá Kaldárseli um Kýrskarð í Undirhlíðum, suður fyrir Gvendarselshæð og um Bakhlíðar að Leirdalshöfða. Þar eru Slysadalir og farið er yfir Leirdalsháls, um Kjóadali sunnan Háuhnúka, norður með Breiðdalshnúk að Vatnshlíðarhorni yfir Blesaflatir að Kleifarvatni. Vatnsborði Kleifarvatns er fylgt undir Hellum og farið yfir móbergsklettana Innri- og Ytri Stapa í áttina að Vesturengjum í Krýsuvíkurlandi.

Straumsselsstígur

Straumsselstígur

Straumsselsstígur.

Straumsselsstígur liggur frá Straumi um hlað Þorbjarnarstaða, norðan Draughólshrauns um Flárnar ofan Katla í áttina að Straumsseli. Þaðan liggur leiðin um Straumsselshellnastíg framhjá Gömluþúfu í áttina að Sauðabrekkugjá þar sem stígurinn sameinast Hrauntungustíg. Leiðin liggur um Mosa, síðan norður með Hrútagjá og sunnan Mávahlíðar, framhjá Hrúthólma og Hrútafelli yfir hraunhellurnar að Ketilstíg.“

Texti: Jónatan Garðarsson – https://ratleikur.fjarðarfréttir.is/ratleikur

Selvogsgata

Gengið um Selvogsgötu.

Grindavík

Ratleik Grindavíkur fyrir árið 2010 hefur verið hleypt af stokkunum.
Um er að ræða sögutengda fróðleiksleit. Þátttakendur geta nálgast seðil á flestum betri veitingahúsum og í Saltfisksetrinu í Grindavík, ratleikur -3gengið um hverfin þrjú og skráð hjá sér upplýsingar á sérstökum grænlitum spjöldum, sem komið hefur verið fyrir á völdum
stöðum. Þetta er sjötta árið sem ratleiknum er haldið úti í bænum.
Ratleikurinn er auðveldur og fróðlegur úttivistaleikur, sem stendur frá upphafi Sjóarans síkáta (3. júní) fram að Jónsmessu (24. júní). Í tilefni að því að 80 ár eru frá því að Slysavarnardeildin var stofnuð 2. nóvember 1930 er minnst mikilvægis sjóslysavarna og björgunarsveita. Ratleikurinn vísar á nokkra áþreifanlega minnisvarða. Fróðleikurinn byggir á Sögu Grindavíkur frá árinu 1994 sem Jón Þ. Þór tók saman, örnefnalýsingum og munnmælum fólks í Grindavík.

Í ár eru spjöldin á eftirfarandi stöðum með tilheyrandi fróðleik:

1. Í Staðarkirkjugarði – Í klukknaportinu er skipsklukka úr Anlaby. Minnisvarði er um Odd V. Gíslason prest á Stað 1879-1894 og brautryðjanda í slysavarnarmálum.

Sjoarinn2. Spölkorn fyrir neðan Bjarnargjá við Markaklett – Við Jónsbása fórst breski togarinn Anlaby 14. janúar 1902 með allri áhöfn. Skipstjórinn Carl Nilsen var þekktur fyrir aðför að Hannesi Hafstein og mönnum hans á Dýrafirði 1899.

3. Við hús björgunarmið-stöðvarinnar að Seljabót – Skrúfan fyrir framan björgunarmiðstöðina er úr franska togaranum Cap Fagnet.

4. Við Eyjabryggju – Við Eyjabryggju leggur björgunarskipið nefnt eftir fyrrnefndum Oddi. Oddur lagði m.a. áherslu á nauðsyn sundkunnáttu og fræddi um notkun lýsir og olíu til að lægja brim.

5. Við Þórkötlustaðanesvita (Hópsvita) – Þórkötlustaðanesviti (Hópsnesviti) var reistur 1928 til að lýsa sjófarendum. Vitinn var rafvæddur árið 1961.

6. Við gömlu bryggjuna í Þórkötlustaðanesi – 24. mars árið 1916 héldu 24 bátar til róðra en aðeins 20 náðu landi eftir að óveður skall skyndilega á. Í þrjá daga voru þeir taldir af þar til kútter Esther frá Reykjavík birtist með alla 38 skipsbrotsmennina.

Grind7. Rétt vestan við söguskiltið á Hrauni er gengið niður með girðingunni í Markabás að Skarfatanga – 24 mars árið 1931 strandaði franski togarinn Cap Fagnet. Slysavarnadeildin var þá nýstofnuð. Í fyrsta skipti var notuð fluglínubyssa við björgun og tókst að bjarga 38 manns.

8. Við heimkeyrsluna að Hrauni – Í Fitjaannál segir að árið 1602 hafi utan við Þórkötlustaði drukknað á stóru farmskipi Skálholtsstóls 24 piltar og voru þeir flestir jarðaðir við bænahúsið á Hrauni.

9. Skammt austan við Hraun við útskot undir Húsafelli – Enskur togari, Lois, strandaði í Hrólfsvík árið 1947. Áhöfn var bjargað fyrir hreina tilviljun. Dóttir Magnúsar Hafliðasonar á Hrauni var á leið út í fjós er hún sá ljós úti á sjó. Björgunarsveitin Þorbjörn sem þá var nýstofnuð, náði að bjarga 15 manns. 

Allir eru hvattir til þátttöku í þessum skemmtilega og heilsusamlega leik. Úrlausnarblöðum þarf að skila í Saltfisksetrið eigi síðar en 25. júní n.k. Dregið verður úr réttum lausnum. Heppnir geta unnið vegleg verðlaun.
Grindavikurmerki

Stekkjarás

Leikskólar landsins eru bæði margir og fjölbreytilegir. Sjaldnast er þó samtímasaga þeirra skráð af sanngirni á samfélagsmiðlunum – þrátt fyrir mikilvægið. Hér verður þó fjallað um einn þeirra – af gefnu tilefni. Leikskólastarfið þar hefur vakið bæði eftirtekt og aðdáun víða.
Leikskólinn Stekkjarás í Hafnarfirði tók til starfa 8. september 2004. Skólinn er átta deilda og er í eigu Hafnarfjarðarbæjar, sem einnig sér um rekstur hans. Heildarstærð skólans er 1358 m² og leikrými 590 m². Leikskólinn er opinn alla virka daga fyrir utan skipulagsdaga og sumarlokanir. Væntingar starfsfólksins eru jafnan um að  hugmyndir þess um hið ágæta skólastarf leikskólans, sem og annar leikskóla, fái að njóta sín til framtíðar.
Leikskólinn opnar á morgnana kl. 7:30 og honum er að jafnaði lokað kl. 17:00. Starfsmannafjöldi miðast við fjölda barna og aldur þeirra. Við leikskólann er að minnsta kosti ein ungbarnadeild starfrækt og fleiri ef þess þarf. Á ungbarnadeildum eru börnin færri en á hinum deildunum. Aðrar deildir skólans eru aldursblandaðar.

Stekkjarás

Eitt barnanna í jólaratleiknum.

Á Stekkjarási er starfað eftir starfsaðferðum Reggio Emilia og endurspeglast sú uppeldissýn í öllu starfi skólans. Það sem einkennir Stekkjarás sérstaklega er m.a skapandi hugsun, notkun opins efniviðar í listsköpun, útinám, leikur, aldursblöndun, sérkennsla og sérstaklega gott foreldrasamstarf.

Í Stekkjarási hefur hvert barn hæfileika og getu – barnið lærir af samferða fullorðnum, öðrum börnum og umhverfinu.

Það er mikil ábyrgð og mikið samvinnuverkefni samfélagsins að ala upp börnin okkar. Þau eiga rétt á því að fá ögrandi verkefni sem efla getu þeirra til að takast á við lífið og menntun til framtíðar.
Börn eru klár og mikils megnug.

Leikskólinn Stekkjarás hefur nú að frumkvöðli leikstjórastjórans, Öldu Agnesar Sveinsdóttur, vegna breytingakvaða (Covid19), boðið börnum og foreldrum leikskólans upp á skemmtilegan jólaratleik í nágrenninu, með góðum stuðningi foreldrafélagsins.
Ratleikurinn felst í að ganga um Ásskóginn, neðan leikskólans, sem börnin þekkja svo vel, með ratleikjakortinu og finna með þeim falin jólasveinaspjöldin….

Stekkjarás

Ratleikurinn.