Ætlunin var að ganga stuttan spöl eftir Alfaraleiðinni norðan Virkishóla að Hvassahrauni. Leiðinni, sem er hin gamla þjóðleið milli Innnesja og Útnesja, frá Gerði og Þorbjarnastöðum hefur áður verið lýst hér á vefsíðunni.
Alfaraleiðin á þessum kafla er vel greinileg. Þegar ný misæg gatnamót voru gerð á tvöfaldri Reykjanesbraut var meira brotið af leiðinni en áður hafði verið gert. Hún hverfur á nýgatnasvæðinu, en kemur í ljós suðvestan þeirra. Þaðan er hægt að fylgja götunni til vesturs sunnan Skyggnis og niður að trérimlaréttarstæðinu norðaustan við Hvassahraun, sunnan gamla Keflavíkurvegarins. Þar hverfur gatan í útsléttu, en kemur aftur í ljós norðan Hjallhóla. Þar fylgir gatan hraunhólum uns hún hverfur á ný undir gamla Keflavíkurveginn. Hún sést síðan ekki aftur fyrr en vestan við Kúagerði þar sem nafnið breytist í Almenningsveg.
Þar sem staldrað var við Hjallhóla var ekki úr vegi að rifja upp helstu örnefni í nágrenninu. Eftirfarandi upplýsingar eru úr örnefnalýsingum fyrir Hvassahraun.
“Jörðin Hvassahraun er allmikil jörð að landrými og er meirihluti þess eldbrunnið land, bærinn sjálfur er nærri sjó, norðan þjóðvegarins sem liggur um Suðurnesin. Rétt er þar austan við bæ, er allhár hóll norðan við veg þar sem vegurinn liggur milli þess hóls og annarra sunnan vegar. Þessi hái hóll heitir Skyggnir, þetta er stór hraunhóll, sundursprunginn með vörðu á. Þaðan sést vítt um landið og er gott að svipast þaðan til örnefna en upphaflega hefur hann fengið nafn sitt af að þaðan var gott að skyggnast eftir kindum og öðrum búfénaði. Á veginum rétt þegar komið er inn í Hvassahraunsland að austan er hraunlendi nokkuð greiðfært og slétt af hrauni að vera, þar heitir Sprengilendi, nær alllangt niður fyrir veginn. Upp við veg og um veg er Sprengilendið, það er hæð ofan vegar, er þar nafnlaus lægð.
Nú færðum við okkur heim í tún. Hvassahraunsbær stóð á klapparrana. Þar var oftast í fyrri daga tvíbýli, Austurbær og Vesturbær. Hellur eru ofan vegar og ná þær niður í tún, slétt land, er þetta þar vestar. Ofan [við] veg er svo Hjallahóll er síðar getur. Stærsti hóllinn og efsti á því er stór hóll sem heitir Sönghóll. Á honum var eitt sinn býli, þar bjó kona er Margrét hét er átti 10 börn. Norður af Sönghól er lægð sem heitir Leynir, suður af Sönghól milli Traðarinnar sem var en er nú horfin, hét þar Rófa nær vegi. Svo er þar nær bæ Beinateigur, er svo laut þar norður af, var einnig meðfram heimreiðinni.
Vestur af Leyni er svo Langhóll, sprunginn hraunhóll áfastur við Sönghól og norðan undir honum er smádalur sem heitir Þjófagerði. Svo er annað gerði þar vestur af sem heitir Kotagerði. Þar er klöpp og stór hóll á bak við það og heitir það Miðmorgunshella. Svo eru þar norður af Hvassahraunskot, þar bjuggu áður fyrr fjórir menn og þar eru balar sem heita Kotatún. Vestur af Langhól heitir svo Norðurvöllur og þar næst er svo hóll sem heitir Kirkjuhóll rétt við húsið. Austur af honum er annar klettur grasivaxinn að ofan og heitir hann Einbúi, það er álfakirkja. Geta réttsýnir menn séð álfana þyrpast þangað til messuhalds á helgum dögum og þar er ekki messufall. Eitt sinn sá maður nokkur líkfylgd frá Miðmorgunshellu að Einbúa.
Upp af bænum, fast ofan við veginn, eru hólar sem heita Hjallhólar. Þetta eru allfyrirferðarmiklir hraunhólar með sprungum og undir þeim sem er næst vegi er Hjallhólsskúti, er fjárhellir. Vatnsgatan lá heiman frá bæ suðvestur í Vatnsgjárnar sunnan þjóðvegarins. Vatnsgatan var einnig kölluð Suðurtraðir. Vatnsgatan liggur í Lágarnar. Í þeim eru Vatnsgjárnar. Næst veginum er Helguhola. Þá er Þvottagjá og fjærst Ullargjá. Þar var þvegin ull.Sjávargatan lá heiman frá bæ niður í Víkina. Heiman úr Tröðum liggur troðningur suður um Hellur, suður á hraunið. Það er Hvassahraunsselsstígur eða Selsstígur. Stígur þessi lá áfram suður hraun allt til Krýsuvíkur.”
Heimalandi Hvassahrauns er lýst af nákvæmni annars staðar á vefsíðunni.
Frábært veður. Gangan tók 33 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Hvassahraun.