Brunntorfur

Gengið var að Þorbjarnarstaðaborginni í Kapelluhrauni, austast í Almenningum.

Þorbjarnarstaðaborg

Í Þorbjarnarstaðaborginni.

Þegar komið var að borginni léku sólstafir um hana þannig að hún líktist fremur musteri en fjárborg. Börn hjónanna Þorkels Árnasonar og Ingveldar Jónsdóttur á Þorbjarnarstöðum í Hraunum hlóðu borgina skömmu fyrir aldarmótin 1900. Í útliti minnir borgin á merki Skjás eins því í miðjum hringnum er hlaðinn beinn veggur. Sennilega hafa börnin ætlað að topphlaða borgina líkt og Djúpudalaborgin í Selvogi (Þorkell Árnason var einmitt frá Guðnabæ í Selvogi), en hætt við það af einhverri ástæðu.
Gengið var upp í Almenninga og síðan austur með hraunkantinum inn í Brunntorfur með kvöldsólina í bakið. Mörg falleg furu-, leki- og grenitré hafa verið gróðursett við hraunröndina og marka skörp skil á milli nýrra og eldra hrauns. Eitt trjánna er þó sérstæðast, en það er lágt og “feitt” rauðgreni, sem breiðir úr sér í jarðfalli og fyllir svo til alveg út í það.

Krækiber

Krækiber.

Komið var að fallegum trjálundi með hávöxnum grenitrjám. Hljómfagur fuglasöngur og sumarangan. Ef aldingarðurinn Eden hefði verið til á Íslandi þá væri hann þarna – mosahraunið á aðra höndina og kjarrivaxnar brekkur á hinar með öllum sínum litatilbrigðum. Í svona landslagi eru ávextirnir aukaatriði, en þeir voru nú samt þarna sbr. meðfylgjandi mynd. Lundurinn myndar algert skjól og útsýnið þaðan gerist vart fegurra, a.m.k. ekki í augum listmálara.
Á leiðinni fylgdust nokkrir “hraunkarlar” með ferðalöngunum árvökulum augum.
Veðrið var frábært – sól og lygna nákvæmlega klukkustundina á meðan gengið var.

Þorbjarnastaðarborg

Þorbjarnastaðarborg.