Hraunhóll

Í Náttúrufræðingnum 1975 fjallar Jón Jónsson, jarðfræðingur, um “Sandfellsklofagíga og Hraunhól efst í Kapelluhrauni undir Vatnsskarði. Margir telja Kapelluhraun runna úr Hraunhól, en svo var ekki, enda hraunið úr honum um 5500 ára gamalt, en Kapelluhraunið (Nýjahraun/Bruninn) rann árið 1151. Hraunhóll var einn fegursti gjallgígurinn á gjörvöllum Reykjanesskaganum, en hefur nú verið gjörspillt af námuvinnslu.

Hraunhóll
Jón Jónsson

“Eins og áður er sagt, hef ur hraunið runnið upp að eldri gíg, sem ber nafnið Hraunhóll. Þetta var stór og reglulegur gígur, einn hinn fegursti á öllum Reykjanesskaga, hlaðinn upp úr gjalli og hraunkleprum. Aðalgígurinn var um 250 m í þvermál, en inni í honum var lítill en alldjúpur hraungígur, vafalaust myndaður á lokastigi gossins. Skarð er í gíginn austan megin og þar hefur Sandfellsklofahraun runnið inn í hann eins og áður segir og myndað þar lítinn hraunpoll, sem orðið hefur að sléttu helluhrauni.
Nú er Hraunhóll svipur hjá sjón frá því sem áður var. Hann hefur orðið þeim að bráð, er rauðmalarnám stunda og hefur verið leikinn svo grátt, að nú er rúst ein. Hann var um árabil ein aðalnáman á þessu svæði og er nú svo komið, að búið er að grafa langt niður fyrir hraunin, sem upp að honum hafa runnið. Við það kemur í ljós, að hann hefur verið líklega vart minna en 40 m hár, áður en hraun tók að renna upp að honum.
Sýnið, sem áður er getið um, var tekið austan megin í gígnum, þar sem Sandfellsklofahraun rann inn í hann. Annað sýni var tekið norðan í hólnum, og hugði ég fyrst, að hraunið sem þar hefur lagst upp að Hraunhól, væri Kapelluhraun, en nú hefur komið í ljós, að svo er ekki. Þar má sjá, að um 25—30 cm þykkt jarðvegslag hefur verið komið utan á gíginn, þegar hraun eyddi þeim gróðri, er þar var fyrir. Gróðurleifarnar eru mosi og einhver kvistgróður og því væntanlega ekki ósvipað þeim gróðri, er þarna var fyrir, áður en maðurinn fór ránshendi um Hraunhól. Kolaða kvisti og sprota mátti tína úr jarðvegslaginu, en ekki var það meira en svo, að margra klukkustunda verk var það að fá nægilega mikið efni (um 20 g) í eina aldursákvörðun. Hvað þetta varðar, er sama að segja um bæði sýnin, sem tekin voru við Hraunhól. Sýnið, sem tekið var norðan í hólnum reyndist 2690 ± 60 C14 ára. Enn er ekki fullkomlega ljóst, hvaðan það hraun er komið, sem eyddi gróðrinum norðan í hólnum. Eins og ég nefndi áður hugði ég fyrst að það væri Kapelluhraun en að því slepptu Sandfellsklofahraun. Nú er hins vegar svo mikill munur aldurs þessara gróðurleifa, að dr. Ingrid U. Olsson telur, að ekki geti verið um samtímamyndun að ræða. Verður því spurningunni um, hvaða gos hafi verið að verki, þegar gróðurinn norðan í Hraunhól eyddist, ekki svarað að svo stöddu.

Hraunhóll

Hraunhóll og nágrenni.

Það er hins vegar ljóst, að gíghólar, sem hlaðnir eru úr nær eintómu gjalli, gróa ekki sérlega fljótt og er sjálfsagt ein meginorsök þess sú, að allt vatn hripar þar strax niður. Af þessu leiðir, að Hraunhóll hlýtur að hafa verið orðinn nokkuð gamall, þegar þessi hraun runnu upp að honum. Mætti því ætla, að hann væri vart yngri en 3500 ára gamall. Hraunið, sem úr honum hefur komið, er ólívín basalt hraun með töluverðu a£ 3—5 mm stórum ólívínkristöllum og eins feltspatdílum, sem ósjaldan eru 4—5 mm.
HraunhóllAnnað, sem einkennir þetta hraun eru hnyðlingar, flestallir af sömu gerð og fundist hafa á Reykjanesskaga og víðar, en fundist hefur þar hnyðlingur með aðra samsetningu líka. Verður það ekki nánar rakið hér. Eins og getið var um í upphafi þessarar greinar eru Sandfellsklofagígir á sprungu með þá venjulegu stefnu norðaustur-suðvestur, svo er og um Hraunhól og má vel sjá þar að sprungan, sem hann er á, hefur opnast frá því að gosið varð og er ekki ástæða til að efast um, að sú gliðnun sé enn í gangi, þó hægt fari miðað við mannlegt æviskeið. Sama fyrirbæri má og sjá m.a. í Óbrinnishólum (Jónsson 1972) og raunar á fleiri stöðum á Reykjanesskaga. Er þá óneitanlega ekki fráleitt að spyrja: Hve mikla gliðnun þarf til þess að þarna gjósi á ný?

Hraunhóll

Hraunhóll.

Aðeins um 300 m suðvestur af Hraunhól er annar gígur, sem næstum hefur færst í kaf, þegar Sandfellsklofahraun rann. Ekki veit ég nafn á þessum gíg, enda var hann svo lítið áberandi, að litlar líkur eru á, að honum hafi nokkru sinni verið nafn gefið og líklega fáir veitt því athygli, að um eldgíg væri að ræða. Frekar en ekkert mætti í bili nefna hann Litla-Hraunhól. Ber það nafn þá vitni um ámóta hugmyndaauðgi og vel flest cnnur örnefni á Reykjanesskaga og orsakar ekki áhalla hvað það snertir.
Einnig Litli-Hraunhóll hefur verið grátt leikinn af nútíma vinnutækni og þar vægast sagt ljótur umgangur, en því miður er alltof víða pottur brotinn hvað þetta snertir á voru landi. Ekki sést nú neitt af því hrauni, sem úr Litla-Hraunhól hefur runnið, fremur en því, sem rann úr Hraunhól sjálfum, en sýni mátti ná úr gígnum. Kemur þá í ljós, að hraunið er að heita má eins úr báðum þessum gígum. Það er og snarlíkt eldra Óbrinnishólahrauni og Búrfellshrauni. Vott af gróðurleifum má sjá undir gjallinu í Litla-Hraunhól og sýnist jarðvegslagið þar vera mjög ámóta og í Hraunhól, en ekki hefur reynst mögulegt að ná nothæfu sýni úr LitlaHraunhól. Af ofangreindum ástæðum tel ég þó langlíklegast, að gosið hafi samtímis á þessum stöðum.
Varðandi aldursákvörðunina hér að framan skal þess getið, að hún er meðaltal af tveim, þar sem við aðra er notaður helmingunartími 5570 ár en við hina 5730 ár.”

Heimild:
-Náttúrfræðingurinn, 2. tbl. 01.03.1975, Sandfellsklofagígir og Hraunhóll, Jón Jónsson, bls. 188-191.

Hraunhóll

Hraunhóll – námuvinnsla og sóðaskapur.