14. Vatnsskarð – Straumsvík
-Vatnsskarð – fallegur berggangur t.h. og Sveifluháls t.v.
Stundum nefnt Markrakagil eða Melrakkagil. Sveifluhálsinn á vinstri hönd og Undirhlíðar á þá hægri.
-Malarnám til hvers?
Ein af gömlu námunum. Svo virðist sem alltaf þurfi að fara utan í fjöllin á augljósustu stöðunum, en ástæðan er fyrst og fremst aðgengið sem og efnahagsleg. Þessi náma er í eigu ríkisins, en leigð út af einkaaðilum. Efnið er bólstraberg líkt og í Stapafelli. Það er aðallega notað í húsgrunna, lóðir, vegi og uppfyllingar. Önnur slík náma er skammt norðar undir Undirhlíðum.
-Umhverfisspjöll
Nú í seinni tíð er farið að huga betur að staðsetningu malalrnáms og útvíkkun eldri náma, sbr. námuna í Ingólfsfjalli. Margir gjallgígar, mjög fallegir, hafa farið undir vegi á Reykjanesskaganum og víðar um land. Má í því sambandi benda á Hraunhól hér vinstra megin, en hann er einn megingíganna, sem Nýjahraun, oft nefnt Kapelluhraun, rann úr 1151. Nú er hann ekki svipur hjá sjón. Aðrir gígar eru t.d. Óbrennishólar á hægri hönd. Úr þeim er Óbrennishólabruni runninn úr (á hærgi hönd).
-Móbergsjöllin í kring, gos undir jökli
Móbergsfjöll myndast við gos undir jökli, í sjó eða vatni. Meðan vatnsþrýstingur er nægur yfir eldstöðinni hleðst upp bólstraberg. Ljúki gosi á þessu stigi verður til bólstrabergshryggur, dæmi: Sigalda. Haldi gosið áfram, minnkar vatnsdýpið vegna upphleðslu gosefna undir yfirborði vatnsins/jökulsins og tekur þá fyrir bólstrabergsmyndun enda er vatnsþrýstingur þá ekki nægur til að halda vatnsgufu og gosgufum niðri. Gosvirkni breytist þá í þeytigos. Ofan á bólstrabergið leggst því gjóska sem er ýmist úr vikri, ösku eða brotabergi. Ef gosið hættir á þessu stigi verða til móbergshryggir, dæmi: Sveifluháls, eða keilulaga móbergsfjöll, dæmi: Keilir (ef um gos á kringlóttu goseopi eða stuttri sprungu er að ræða).Haldi gosið enn áfram, hlaðast gígrimar upp úr vatnsborðinu og vatn nær þá ekki lengur að komast í snertingu við bergkvikuna og snöggkæla hana og valda þeytigosi. Tekur þá að mestu fyrir myndun lausra gosefna og hraun fer að renna úr gígnum. Séu gígrimarnir umflotnir vatni, fyllir hraunið undir sig upp að vatnsborði með skálögðuð bólstra- og gjalllagi sem hraunhella leggst síðan ofan á. Móbergsfjöll, sem náð hafa þessu stigi nefnast móbergsstapar, dæmi: Eiríksjökull og Herðubreið.
-Undirhlíðar – Undirhlíðarvegur
Gengið er austur að Undirhlíðum og þar er komið á enn eina forna leið á milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur, Undirhlíðarveg. Héðan er leiðin greið og auðrötuð eftir gömlum götum með Undirhlíðum niður í Kaldársel. Þegar komið er á móts við Helgafell er farið fram hjá eldgígum á sprungu sem gaus á 12. öld. Vestan undir Undirhlíðum, suður undir Vatnsskarði, á Kapelluhraun hins vegar upptök sín. Það rann í sjó fram hjá Straumsvík eftir landnám.
-Óbrennishólar
Óbrinnishólar er röð gígaraða í hæð sem stendur upp úr hraunhafinu um 700 metra vestan við Undirhlíðar og tæpum 2 km sunnan við Kaldársel. Hólaröðin sjálf er um 900 metrar á lengd. Hæsti gígurinn er um 44 metra hár yfir næsta umhverfi og 124 metrar yfir sjó. Óbrinnishólar tilheyra Krísuvíkureldstöðvakerfinu.
Talið er að um tvö gos hafi verið að ræða sem sést af gróðurleifum sem fundust milli gosmyndanna. Um fyrra gosið í Óbrinnishólum er lítið vitað eða hvenær það gaus, en frá því eru a.m.k. 3 gígir og virðist gosið hafa verið á sama stað þá og í því síðara. Hraun frá þessu gosi er nú hulið yngri gosmyndun. Það er aðeins á einum stað sem fundist hefur hraun frá fyrra hosinu og var það í sjálfum gíghólnum. Þetta hraun er frábrugðið hinu hrauninu að það inniheldur verulega meira ólivín.
Síðara gosið hófst fyrir 1800 árum í og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum. Hæðin sem Óbrinnishólar eru á er að mestu úr bólstrabergi og grágrýti. Eftir endilangri hæðinni er um 50 metra breiður sigdalur. Að vestan takmarkast hann af 4-6 m háu misgengi. Rétt austan við sigdalinn rísa gígirnir og stefnir röðin eins og dalurinn. Óbrinnishólahraun er undir Kapelluhrauni við Straumsvík.
-Hraunið – gerð þess og aldur – 1150
Hraunið sem Álverið við Straumsvík stendur á heitir Kapelluhraun eða Nýjahraun og er allra yngsta hraunið á svæðinu í kringum Hafnarfjörð. Það er frá árinu 1151 Sjá á korti merkt fjólubláu H 97. Það á upptök undir Undirhlíðum og hefur komið úr gígaröðum, sem virðast vera tengdar misgengissprungum. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu hjá Krísuvíkurkerfinu. Þá opnaðist gossprunga undir Undirhlíðum sem var alls um 25 metra löng en slitin í miðjunni. Kapelluhraun rann norðan á skaganum og til sjávar og myndað þar tanga, en vestan undir honum er Straumsvík.
Kapelluhraun er ákaflega fallegt úfið og mosagróið apalhraun en hörmung er að sjá hvernig karganum hefur verið rutt af yfirborði þess á stórum svæðum. Hraunið er fínkornótt með einstaka tiltölulega stórum dílum. Dílarnir eru oftast plagioklas, pyroxen og einstaka ólivín. Stærð hraunsins er 11,6 km2. Eitt sinni var rudd braut í gegnum hraunið en hún hefur að mestu verið eyðilögð að undanskildum um 20 metra kafla við litla rúst í hrauninu, sem er nefnd Kapellan. Árið 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn þessa kapellu og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Hún var góð til áheita gegn hvers konar eldsgangi. Einnig var hún verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðs- manna, námumanna,verkfræðinga og jarðfræðinga. Þess má geta að Kapellutóftin er á fornminjaskrá og þar má sjá eftirlíkingu af líkneskinu.
-Tveir flokkar hrauna: apal- og helluhraun
Bráðin bergkvika (hraun) sem rennur frá eldstöð eftir yfirborði jarðar og storknar þar nefnist hraun. Þau hlaðast hvert yfir annað þannig að yngsta hraunið er ávallt efst. Jarðlagastafli Íslands er nær eingöngu orðinn til við slíka upphleðslu hrauna síðustu 20 milljón árin. Hraun geta verið ólík að útliti og stærð og stafar það af aðstæðum á gosstað, gerð kvikunnar og hegðun gossins. Eftir útliti eru hraun |1| flokkuð í apalhraun og helluhraun.
Apalhraun [aa] kallast úfin hraun sem mynduð eru úr einu lagi. Yfirborðið er þakið gjallkenndu hraungrýti en neðar tekur við grófstuðluð samfelld hraunklöpp. Oft má greina stórgerða garða eða múga á yfirborðinu sem myndast þvert á rennslisstefnu hraunsins og kallast þeir svigður. Jaðar apalhraunanna er jafnan mjög brattur þegar þau skríða eða velta fram og hrynur þá laust gjall úr honum og lendir undir hrauninu. Þannig myndast botnlag úr gjalli undir hrauninu og er það einkennandi fyrir apalhraun.
Súr og ísúr kvika er ávallt seigfljótandi og myndar því jafnan mjög úfin apalhraun sem geta verið tugir metra á þykkt. Sem dæmi um slík hraun má nefna Laugahraun í Landmannalaugum og Hekluhraunin. Basísk kvika myndar einnig apalhraun einkum kvika sem rennur við blönduð gos á sprungum. Þegar líða tekur á gosin hafa hraunin oft náð mikilli útbreiðslu og er þá mestur hluti þeirra storknaður. Leitar kvikan þá í vissa farvegi á leið sinni út frá gígnum. Við lok gossins tæmast farvegirnir oft og tíðum og kallast þeir þá hrauntraðir. Slíkar hrauntraðir sjást víða t.d. við Lakagíga, Þrengslaborgir og Búrfell ofan Hafnarfjarðar.
Skaftáreldahraun sem upp kom í gosi í Lakagígum 1783 er dæmigert apalhraun. Það er stærsta hraun sem runnið hefur á sögulegum tíma, 595 km2 að flatarmáli og 12 km3 að rúmmáli.
Helluhraun [pahoehoe] eru slétt og greiðfær yfirferðar. Þau myndast einkum þegar um hreint hraungos án kvikustrókavirkni er að ræða. Yfirborð hraunanna storknar oft og myndast þannig fremur þunn og seig skán sem sígur áfram með rennslinu á bráðnu undirlaginu. Við það gárast skánin þannig að yfirborðið verður alsett fíngerðum gárum sem líkjast helst kaðalhönk og kallast gárurnar því hraunreipi. Verði yfirborðsskánin þykkri brotnar hún oft upp í fleka við framskrið og hreyfingar á bráðnu undirlaginu. Við slíkar aðstæður myndast oft háir hólar í helluhraununum. Hólar og hæðir í helluhraunum stafa líka stafað af því að djúpir hraunstraumar kaffærðu hóla og hæðir sem fyrir voru í landslaginu. Mishæðirnar koma svo aftur í ljós þegar kvikan rennur undan storknaðri hraunskáninni í lok gossins. Kvika helluhraunanna kraumar oftast í kvikutjörn í gígnum. Frá gígnum rennur hún yfirleitt úr hrauntjörninni um göng og oft langar leiðir undir storknu yfirborðinu uns hún flæðir upp um augu á hraunþekjunni. Þannig renna ótal hraunspýjur hver yfir aðra og því eru helluhraun, einkum ættuð frá dyngjum, mjög lagskipt og er ekki að finna gjall eða önnur millilög milli laganna. Hraungöngin tæmast oftast eins og hrauntraðirnar að gosi loknu og verða þá til hraunhellar sem geta orðið mörg hundruð metrar á lengd. Þekktastir slíkra hella eru Surtshellir í Hallmundarhrauni og Raufarhólshellir í Þrengslum. Oft eru fallegar myndanir dropsteina og hraunstráa í slíkum hellum.
Dæmigerðan þverskurð af helluhrauni má sjá í Almannagjá. Þar mynda 0,5 – 2 m þykk hraunbeltin eitt og sama hraunið sem er tugir metra á þykkt.
Helluhraun finnast víða en sem dæmigerð helluhraun má nefna Hallmundarhraun, Hvaleyrarhraun við Hafnarfjörð og Eldhraun norðan Mývatns sem rann í Mývatnseldum 1724 – 1729.
-Fjallið eina
Stendur eitt sér norðan við Hrútfell. Ofan þess er Hrútargjárdyngja.
-Hrútargjárdyngja
Hellar – Húshellir – Híðið – minjar.
-Almenningur
Hraunspilda milli Kapelluhrauns og Afstapahrauns á Vatnsleyuströnd. Var þar fyrrum skógi vaxið en han eyddist af höggi og beit. Síðan um aldamót 19. og 20 . aldar hefur hraunið lítið verið breitt enda hefur það gróið nokkuð á ný. Á Almenningi er einn hinna mörgu Gvendarbrunna, við gamla veginn. Almenningsnafnið mun dregið af því að þar var sameiginlegt beitiland Hraunbæjanna.
-Hellnahraun
2200 ára og 4000 ára – kom úr Tvíbollum.
-Mosi og annar gróður
Á Íslandi eru nú þekktar um 600 tegundir af mosum. Meginhluti íslenzkra mosa er af tveim ólíkum flokkum sem nefnast laufmosar og soppmosar. Mun fleiri tilheyra laufmosum, en af þeim flokki eru bæði barðastrý og hraungambri sem sjást á myndunum hér að ofan. Líkami laufmosanna er neðantil myndaður af grænum sprotum sem eru þétt settir örsmáum, þunnum laufblöðum. Á toppi blaðsprotans myndast örsmáar egghirzlur og frjóhirzlur, og þar á sér stað frjóvgun eggfrumnanna. Af okfrumu þeirri sem myndast við frjóvgunina vex upp langur stilkur, sem getur verið grænn eða rauðbrúnn á litinn, og á toppi þessara stilka myndast hnapplaga gróhirzlur, sem oft eru nefndir baukar. Á toppi bauksins situr oft lausleg hetta, sem síðar dettur af. Þegar gróhirzlurnar þroskast, myndast lok á toppi þeirra, sem opnast þegar gróin þroskast. Það vaxtarlag sem hér hefur verið lýst má greina allvel á barðastrýinu á myndinni til vinstri.
Til hægri og vinstri má sjá þykka mosaþembu gerða af hraungambra, en það er tegundarheiti þess mosa sem oft myndar þykkar breiður á hrauni við Suðaustur-, Suður- og Vesturströnd landsins. Í daglegu tali er hann oftast nefndur grámosi eða gamburmosi.
-Trönur
Fiskur hefur verið þurrkaður hér á landi frá upphafi. Líklegast kemur verkunaraðferðin frá Noregi. Hún var sú eina varanlega áður en saltið kom til sögunnar hér á landi á 18. og síðan á 19. öld. Áður var fiskurinn lagður á steingarða, en seint á 20. öldinni var byrjað á þvía ð flytja inn trjávið frá útlöndum og byggja svona “komlexa”, þ.e. trönur, ti að hengja fiskinn í. Um er að ræða þosk og ýsu, en einnig löngu, keilu og jafnvel steinbít. Langmest af afurðunum hafa verið fluttar til Nígeríu. Til er gamall brandari, byggður á fyrirsögn í einu dagblaðanna: “Skeriðtil Nígeríu”.
Nú eru trönurnar á hallandi fæti og óðum að hverfa. Fiskur er þó þurrkaður áfram, aðallega innan dyra, með rafmagnsþurrkun eða jarðgufuþurrkun eins og sjámátti dæmi um úti á reykjanesi og einnig hefur það verið gert í Mývatnssveitinni.
-Skíðasvæði í Bláfjöllum
Skíðasvæðin í Bláfjöllum hafa verið skíðasvæði höfðuborgarsvæðisins og sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Vinsæl þegar snjóar, sem hefur verið mjög lítið unadanfarin ár a.m.k., en hins vegar er Bláfjallasvæðið kjörið útivistarsvæði.
-Ásfjall
Ástjörn er friðuð sem náttúruvætti og 1997 var stofnaður fólkvangurinn Ásfjall og umhverfi Ástjarnar. Það er kjörið að ganga umhverfis Ástjörn á stíg sem þar hefur verið lagður eða leggja á fjallið sem er auðvelt uppgöngu. Þó Ásfjall standi aðeins 125 m.y.s. er þar góð sýn yfir næsta nágrenni Hafnarfjarðar og fjallahringinn umhverfis Faxaflóa, sem hægt er að glöggva sig betur á með aðstoð hringsjár á toppi fjallsins.
Ástjörn er vogskorin uppistöðutjörn í dalkvos undir Ásfjalli, sem hefur myndast þegar Hellnahraun rann fyrir um 2200 árum og stíflaði afrennsli hennar til sjávar. Lífríkið er fjölbreytilegt enda er tjörnin kjörlendi margra fuglategunda vegna mikils fæðuframboðs. Sést hafa 44 tegundir fugla við tjörnina og eru andfuglar mjög algengir, en mesta athygli vekur flórgoðinn. Ástjörn er að líkindum síðasti varpstaður flórgoðans á suðvestanverðu landinu.
Það er best að hefja gönguna umhverfis Ástjörn við vesturendann hjá Ásvöllum, athafnasvæði íþróttafélagsins Hauka. Gengið er rangsælis um Ástjörn eftir stíg sem liggur meðfram hlíðarfæti Grísaness, en það er hæðardrag sem umlykur suðvesturhluta tjarnarinnar. Fljótlega er komið að tóftarbroti á hægri hönd og Hádegisskarði, þar sem Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur lágu fyrrum á milli vestri Ásfjallsaxlar og Grísaness. Hér er hægt að taka á sig krók, leggja á brattann og halda sem leið liggur upp vestari Ásfjallsöxl. Eftir stutta göngu er komið að rústum fjárborgar eða stekks á vinstri hönd. Haldið er áfram upp að Ásfjallsvörðu og skammt frá henni er hringjsá þar sem helstu fjöll og önnur kennileiti eru kyrfilega merkt. Þeir sem vilja heldur fylgja stígnum umhverfis Ástjörn halda sem leið liggur í áttina að heimatúni Ásbæjarins sem stóð undir fjallinu um aldir en var rifinn á áttunda áratug 20. aldar. Áður en komið er að bæjarhólnum er lítil steinbrú á einum smálækjanna sem renna í tjörnina. Yfirborðsrennsli lækjanna er breytilegt og hefur lítil áhrif á vatnsborðið. Þar sem Ásbærinn gamli stóð áður var nú síðast skógræktarstöðin Skuld og frá henni er gengið eftir stíg sem liggur neðan hins nýja byggðahverfis sem er risið í landi Stekks og hlíðum eystri Ásfjallsaxlar. Nú blasa Ásvellir aftur við og hringurinn lokast.
-Hafnarfjörður
Hafnarfjörður, sem gengur undir nafninu „Bærinn í hrauninu”, fékk ekki kaupstaðarréttindi fyrr en árið 1908 þó svo að staðurinn hafi verið einn mikilvægasti verzlunarstaður landsins um aldir. Nú búa í bænum um 22.000 íbúar (2005).
-Kapellan
Úfið og gróðursnautt hraun milli Hafnarfjarðar og Staums. Talið er að það hafi runnið snemma á sögulegum tíma. Í hrauninu, sunnan við
Reykjanesbrautina á móti álverinu í Staumsvík er lítið byrgi, hlaðið úr hraungrýti og nefnist kapella. Árið 1950 fannst þar við uppgröft lítið líkneski heilagrar Barböru og eru líkur til að þarna hafi verið bænastaður í kaþólskum sið. Á síðustu árum hefur mikið efni verið tekið úr hrauninu til uppfyllingar í húsgrunna og götur á Stór- Reykjavíkursvæðinu og það sléttað. Hraunhóllinn með kapellunni hefur verið látinn ósnortinn og er hún fiðlýst.
-Álverið
Íslenska álfélagið reisti álverið í Straumsvík um 1965. Síðan hefur það verið stækkað. Hver kerskálanna þriggja e rum eins km langir, eða með lengstu húsum á Íslandi. Nú er álverið í eigu Alcoa. Um 500 starfsmenn starfa á vegum fyrirtækisins hér á landi. Framleiðslan e rum 170.000 tonn af áli til útflutnings. Fyrirhugð stækkun er á álverinu hér til suðurs, yfir veginn, en honum er ætlaður staður lengra upp í hraunið.
Ævintýrið um álverið í Straumsvík hófst í háloftunum yfir Íslandi og það hefði hugsanlega ekki orðið að veruleika ef ský hefðu verið á himni. Um borð í farþegaþotu á leið til Bandaríkjanna voru tveir af ráðamönnum svissnesks álfyrirtækis. Þar sem þeir sátu í vélinni og virtu fyrir sér landið úr lofti sáu þeir Vatnajökul, stærsta jökul Evrópu. Og þá kviknaði hugmyndin. Þar sem svona mikið er af jöklum hlýtur að vera gnótt af vatnsföllum sem hægt er að virkja. Þetta var upphafið af virkjunum Þjórsár við Búrfell, virkjuninni sem enn sér álverinu fyrir raforku.
Fyrirtækið hét áður Íslenska álfélagið en ber nú nafnið Alcan á Íslandi. Fyrirtækið er stærsti einstaki orkukaupandinn hér á landi og á síðasta ári nýtti Alcan 36% af allri orkuframleiðslu landsins. Rannveig segir að álverið hefði aldrei verið reist á sínum tíma nema vegna orkunnar sem hér er nóg af. “Það er ekki nóg að orkan sé til staðar, heldur er jafnvægi og stöðugleiki orkunnar forsenda þess að hægt sé að vinna ál. Fyrstu árin lenti fyrirtækið í ýmsum vandræðum, m.a. vegna ístruflana og klakahlaups í Þjórsá auk þess sem rafmagnið virtist stundum af skornum skammti á álagstímum, t.d. þegar allir landsmenn voru að elda jólamatinn. Þetta heyrir hins vegar sögunni til og er nú komið í gott horf.” Rannveig segir að rafmagnsleysi geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtækið og til útskýringar líkir hún kerunum við grautarpott á eldavél. “Ef rafmagnið fer byrjar fljótandi álið að storkna á skömmum tíma og það er mikil vinna að ná því í burtu, hreinsa kerin og koma framleiðslunni af stað aftur. Ef við hins vegar vitum af rafmagnsskorti með einhverjum fyrirvara þá er hægt að laga reksturinn smám saman að því og minnka framleiðsluna. Sú staða hefur komið upp nokkrum sinnum, t.d. árið 1998 þegar þurfti að slökkva á kerum þegar lítið vatn var í uppistöðulónum á hálendinu.”
Úr vatni í virkjanir
Rannveig Rist hefur tengst öllum grunnþáttum álframleiðslunnar. Hún vann með föður sínum, Sigurjóni Rist, við vatnamælingar og vann síðan við Búrfellsvirkjun áður en hún hóf störf í Straumsvík. Við síðustu stækkun álversins fékk fyrirtækið að gjöf frá Landsvirkjun gamlan kunningja Rannveigar úr Búrfellsvirkjun; nefnilega eitt af túrbínuhjólum virkjunarinnar. Hjólið skipar nú heiðursess á lóð álversins og er eitt af kennileitum þess. Þegar fyrirtækið var stofnað árið 1969 var framleiðslugeta þess 33.000 tonn á ári. Síðan þá hefur verksmiðjan verið stækkuð fjórum sinnum, síðast árið 1997, og framleiðslugetan nú er um 176.000 tonn á ári.
En sér Rannveig fram á stækkun verksmiðjunnar í náinni framtíð?
“Það er vel mögulegt að stækka verksmiðjuna, framleiðslan gengur mjög vel hjá okkur og við framleiðum hér um 200 vörutegundir. Markaðurinn hlýtur hins vegar að ráða, því það er enginn hagur í því að framleiða ál ef eftirspurnin er ekki næg. Nú hefur Alcan Inc., eigandi verksmiðjunnar í Straumsvík, nýverið fest kaup mjög öflugu frönsku álfyrirtæki og framleiðir þar með miklu meira ál í Evrópu en áður. Það gæti frestað enn frekar ákvörðun um framtíðarþróun hér. En við höldum okkar striki og einbeitum okkur að því að gera framleiðsluna eins hagkvæma og kostur er. Eftir að verksmiðjan var stækkuð árið 1997 var framleiðslugetan 162.000 tonn á ári. Með breyttum áherslum í kerrekstri, tæknilegum lagfæringum og straumhækkunum hefur okkur hins vegar tekist að auka framleiðslugetuna upp í 176.000 tonn á ári og það án mikilla fjárfestinga. Þetta sýnir hve verksmiðjan er byggð á góðum grunni, því þær aðgerðir sem við höfum gripið til síðustu ár hefðu annars verið ómögulegar.”
Hjá Alcan á Íslandi eru um 500 starfsmenn og það hefur vakið athygli hvað starfsmannaveltan er lág. Starfsmönnunum virðist líða vel og lítið er um mannabreytingar. Rannveig segir starfsandann mjög góðan “og sem dæmi um það má nefna að þegar hafa vel á annað hundrað starfsmenn fengið afhent gullúr, en það fá þeir eftir 30 ára starf. Þetta er ótrúlega há tala miðað við að fyrirtækið tók til starfa árið 1969 og er aðeins rúmlega þrítugt.”
-Straumsvík
Vík sunnan Hafnarfjörð, gengt Straumi. Þar var verslunarhöfn á miðöldum og sigldu þýskir kaupmenn þangað. Árið 1966 var samþykkt á Alþingi að hefja þar álvinnslu með svissneska félaginu Alusuisse. Er það fyrsta stóriðjuver á Íslandi. Skyldi dótturfyrirtæki Alusuisse, íslenska álfélagið hf. (ISAL), byggja og reka álverið. Framkvæmdir hófust 1967 en starfræksla hófst 1969. Framleiddi álverið þá 30.000 lestir af hrááli á ári en síðan hefur það stækkað. Jafnframt byggingu álversins var gerð höfn í Staumsvík til að skipa upp hráefni til álframleiðslunar og útskipunar á áli og þá var ráðist í byggingu Búrfellsvirkjunar en sala á raforku til álversins var talin forsenda fyrir henni.
-Straumur
Undirbúningur að stofnun listamiðstöðvarinnar og endurbygging gömlu bæjarhúsanna í Straumi hófst árið 1988. Hér var áður rekið svínabú undir stjórn Bjarna Blomsterbergs, fyrrum eiganda Fjarðarkaupa, en húsið er teiknað af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins.
-Keflavíkurvegurinn
Keflavíkurvegurinn var lagður um 1960 af Bandaríkjamönnum. Þetta var í raun fyrsti vegurinn á Íslandi sem lagður var bundnu slitlagi utan þéttbýlis. Vegurinn vars teyptur í fyrstu og þótti nýlunda þá. Lengi á eftir var gjaldskýli við Straum, líkt og er við Hvalfjarðargöngin nú, þar sem gjald var heimt af ökumnönnum, sem um veginn fóru. Sjá má móta fyrir eldri veginum sunnan þess nýja, en Alfaraleiðin gamla, gamla þjóðleiðin minni Innnesja og Útnesja, er skammt sunnar í hrauninu, fallega vörðuð á kafla.