Straumssel

Gengið var upp í Straumssel. Straumsselsstígnum var fylgt upp með vestanverðum Þorbjarnarstöðum, áfram yfir Selhraunið þar sem hraunhaftið er grennst, framhjá litlu-Tobburétt og áleiðis upp í Flárnar.

Fornaselsstígur

Fornasels og Gjálselsstígur.

Selsstígurinn er vel markaður í klöppina á kafla. Þegar komið var upp í Flár beygir stígurinn tl suðurs, upp úfið hraunið og liðast áleiðis að selinu. Litlar vörður marka leiðina. Skammt sunnan við selið greinist stígurinn; annars vegar norður fyrir selstöðuna og hins vegar suður fyrir hana. Norðurstígnum var fylgt til austurs. Þegar komið var að selinu var sólin lágt á lofti svo allar rústir sáust vel og greinilega. Miklar garðhleðslur umlykja selið, auk þess sem sem hlaðið gerði er við það vestanvert. Hlaðinn gerður er um matjurtargarð sunnan megintóftanna. Þær eru leifar bæjar, sem þarna var þangað til skömmu fyrir aldarmótin 1900. Straumssel er eitt örfárra selja á Reykjanesskaganum er óx í bæ. Bærinn brann og lagðist hann þá í eyði. Gamla selsstaðan sést enn skammt suðaustan við bæjarhólinn. Skammt sunnan hennar er hlaðin kví. Brunnurinn er í jarðfalli skammt norðan við bæjartóftirnar.

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Vel má ímynda sér hvernig lífið hefur verið í selinu fyrr á öldum. Yfirleitt voru þau í brúkun frá 6. til 16. viku sumar, þ.e.a.s. ef vatn þvarr ekki fyrr. Við Straumssel eru víða nærtæk skjól við hraunhóla og -hæðir. Hrís hefur og verið nærtækur, auk þess sem beit hefur verið þarna hin ákjósanlegust drjúgan hluta ársins. Brúkun og verkum í seli er lýst annars staðar á vefsíðunni.
Fjárhellar eru sunnan við Straumssel; Neðri-Straumsselshellar og Efri-Straumsselshellar enn ofar. Þar má enn sjá talsverðar hæeðslur, einkum í efri hellunum.

Straumsselsstígur.

Straumselsstígur vestari.

Regnbogi myndaði litríkan boga sinn yfir tóftunum. Honum fannst engin ástæða til að teygja sig lengra en upp í Almenning þar sem hann sló fallegum bjarma á kjarrivaxnar brekkurnar.

Vestari selsstígnu var fylgt úr hlaði. Hann liggur til suðurs út frá bænum og beygir síðan til vesturs og loks til norðurs. Stígurinn til vesturs yfir að Óttarsstaðarseli þverar hann vestan við selið. Stígurinnn er vel markaður í landið og er augljós uns hann mætir eystri stígnum norðan við selið.
Á leiðinni mátti sjá fallagar hraunmyndanir í kvöldsólinni. Neðst í Flánum hefur verið boruð hola til að athuga með vatnsdýpið, en Straumsselið ásamt Mygludölum er framtíðarvatnstökusvæði Hafnfirðinga.

 

Straumssel

Straumssel.