Selvogsgata

Gengin var gamla Selvogsgatan frá Lækjarbotnum upp með austurbrún Gráhelluhrauns að Gráhellu milli Svínholts og hraunbrúnarinnar, í Kershelli, þaðan að vörðunni í Smyrlabúðahrauni og síðan Setbergshlíðin og Vatnshlíðin til baka.

Gráhella

Gráhella.

Skoðuð var hlaðin stífla og hleðslur undir vatnsveituhúsið í Lækjarbotnum. Vegna þess hve vatnið var slétt mátti vel greina síðasta bútinn af gömlu tréleiðslunni neðan við upptökin.
Norðan undir Gráhellu í Gráhelluhrauni er hlaðið fjárskjól. Uppi í Setbergshlíðinni, ofan við stóra vörðu skammt austan við Gráhellu, má enn sjá háar hleðslur af gömlum fjárhúsum, sem byggð voru þar árið 1904 þegar Setbergsbóndi flutti fé sitt úr Setbergsseli, sem er þarna skammt ofar. Gott útsýni er til selsins frá fjárhúsinu. Góðir hagar eru ofar í hlíðinni. Húsið hefur verið nokkuð stórt á þeirra tíma mælikvarða. Í miðjunni er hlaðinn garður og minna hús hlaðið við endann.

Markasteinn

Markasteinn – huldufólkshús.

Eftir að hafa farið í gegnum Setbergsselið var beygt til austurs og gengin gömul leið í gegnum gjá norðvestast í Smyrlabúðahrauni og stefnan tekin á stóru vörðuna inni í hrauninu. Farið var yfir gamla landamerkjagirðingu Setbergs. Ekki er ólíklegt að varðan geti verið leiðarmerki að helli, sem var á í hrauninu. Leitað var vel og vandlega á leiðinni, en án árangurs í þetta sinnið. Þá var stefnan tekin á Markastein, en í hann liggur landamerkjagirðingin úr vörðunni ofan við op Kershellis. Steinninn stendur syðst í Fremstahöfða með smágrasstúf á toppi. Að sögn mun Urriðakotsbóndi fyrrum hafa heyrt úr honum rokkhljóð og dregið þá ályktun að í honum byggju huldufólk. Fylgdi sögunni að allt þrek eigi að þverra þeim er nálgast steininn.

Refagildra

Refagildra á Tjarnholti.

Ákveðið var að láta huldufólkið í friði að þessu sinni í tilefni hátíðarinnar. Af ummerkjum að dæma hefur steinninn einhvern tímann verið girtur af, enda lá markagirðingin við hann.
Gengið var eftir Seljahlíðinni og upp á Tjarnholtið með útsýni til allra átta. Sást vel yfir að Trölladyngju og allt yfir að Þorbjarnarfelli ofan við Grindavík. Sólin hafði teygt sig yfir Lönguhlíðar og roðagyllti Esjuna.
Neðar, í norðvestri, sást vel til leifa herbragganna í Camp Russel á Urriðakotshæð (sjá HÉR). Hú hefur hæðinni verið umturnað vegna nýrrar byggðar á hæðinni.

Flóðahjalli

Virki á Fjóðahjalla.

Nikulás Jónsson bóndi á Norðurkoti í Vogum lýsti svæðinu 1834 hér á millum með eftirfarandi hætti: “Milli dala lá troðningurinn niður á Neðri-Flatir, Dalinn neðra eða Dalinn og Urriðakotsdalinn neðri, en svæði þetta sem nú hefur verið lýst nefndist einu nafni Urriðakotsdalir [þar sem nú er golfvöllur] og lá stígurinn hér um miðjan dal í Gjárréttarstíginn og síðan yfir á Hálsinn, Flóðahjallaháls eða Urriðakotsháls sem fyrr er talinn og síðan niður til bæjar. Urriðakot hefur verið í eyði nú um árabil. Þá var tekið upp á því að kalla jörðina Urriðavatn.

Flóðahjalli

Letur á Flóðahjalla.

Svanur Pálsson lýsti svæðinu á eftirfarandi hátt, en heimildarmaður hans var móðir hans, Guðbjörg Guðmundsdóttir sama stað. Hún er fædd í Urriðakoti 1906 og átti þar heima til 1939. Örnefnin nam hún af föður sínum, Guðmundi Jónssyni bónda í Urriðakoti, en á uppvaxtarárum sínum vann hún mikið með honum við útistörf. Guðmundur var fæddur í Urriðakoti 1866 og átti þar heima til 1941, en foreldrar hans bjuggu þar á undan honum og mun faðir hans hafa flust þangað 1846, en móðir hans nokkru síðar.

Hádegisholt

Varða á Hádegisholti.

“Til suðurs frá traðahliði lá svonefndur Urriðakotsvegur eldri ofan við mýrina. Hann beygði síðan vestur með Hádegisholti, öðru nafni Flóðahjalla, sem er stórt holt suður af Urriðakotsvatni. Síðan lá vegurinn norðvestur eftir Setbergsholti norðaustanverðu, meðfram túngarði á Setbergi, norðvestur fyrir Setbergshamar og síðan til suðurs niður á Setbergsveg, sem lá til Hafnarfjarðar.”
Á hæstu bungu Hádegisholts (Flóðahjalla) var komið við í stóru hlöðnu virkisskjól frá stríðsárunum. Á einn steininn þar er klappað ártalið 1940 auk nokkurra upphafsstafa. Ef vel er að gáð má sjá að virkið gæti áður hafa verið hluti af gamalli fjárborg eða gerði, vandlega hlaðinni, en grjótið hefur síðan verið tekið úr henni í virkishleðslur.

Oddsnýjardalur

Oddnýjardalur – gata.

Niðri í dalnum til suðurs, Oddnýjardal, mátti sjá gerði og líklega tóft, sem þarf að skoðast betur síðar. Að sögn Friðþjófs bónda á Setbergi mun þarna upphaflega hafa verið hús frá hernum, en síðar verið notað sem skjól fyrir skepnur frá Setbergi. Gengið var niður á Flóttamannaveg og hringnum lokað.
Veður var frábært – logn og bjart. Gangan tók nákvæmlega 3 klst.
Þess skal getið að á leiðinni þóttust einhverjir þátttakenda sjá litskrúðuga álfa á ferð nálægt Markasteini, en enginn sagðist vera tilbúinn að staðfesta það ef spurt væri.

Setbergssel

Setbergssel og Hamarkotssel.