Færslur

Brennisteinsfjöll

Haldið var upp Kerlingarskarð frá sæluhúsinu við Bláfjallaveg, gengið suður með vestanverðum Draugahlíðum, inn í brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum, og þær skoðaðar sem og tóftir búðanna. Litið var eftir hellisopum, sem spurnir hafa borist af, í suðaustanverðu Kistufelli og kíkt á flugvélaflak sunnan í fellinu. Þá var gengið upp í Kistufellsgíg og til norðurs austan Hvirfils. Ljósmyndari frá tímaritinu Útiveru var með í för til að festa landslag, minjar og fleira á filmu til birtingar með grein, sem mun birtast fljótlega í tímaritinu.

Kerlingarskarð

Búð námumanna undir Kerlingaskarði.

Þegar gengið er áleiðis upp í skarðið blasa Bollarnir við, nyrst Stóribolli, þá Miðbolli og síðan Syðstubollar (Þríbollar), en einu nafni nefnast þeir Grindarskarðshnúkar. Undir skarðinu er tóft frá tímum brennisteinsvinnslunnar. Þar hafa námumenn “umskipað” afurðunum og tekið með sér birgðir upp á námusvæðið. Tugir hesta voru í hverri lest og margir höfðu atvinnu af vinnslunni og flutningunum. Til stóð að strengja vír úr Grindarskarðshnúkum niður á slétt hraunið neðan skarðsins, vírnum var skipað á land í Hafnarfirði, en hann var það þungur að ekkert farartæki gat flutt hann upp fyrir skarðið. Vírinn lá því óhreyfður á hafnarbakkanum árum saman.

Spenastofuhellir

Í Spenastofuhelli.

Á uppleiðinni eru nokkrir stuttir hellar og stór hrauntröð úr Miðbolla. Fallegar hraunmyndanir eru í sumum hellanna. Efst í Kerlingarskarði er drykkjarsteinn. Hann var hálffullur af vatni. Sumar sagnir segja að drykkjarsteinarnir hafi átt að vera tveir þarna. Þegar betur var að gáð sást hvar önnur skál í móbergsklöpp var þar örfáum metrum ofar. Eftir að hafa hreinsað mold og möl upp úr skálinni kom í ljós hinn myndarlegasti drykkjarsteinn, greinilega mikið notaður í gegnum aldir. Sennilega hefur hann fyllst þegar ferðir lögðust að mestu af um götuna og enginn orðið til að halda honum við (hreinsa upp úr honum eins og drykkjarsteina er þörf). Nú er þessi stærri skál orðin tilbúin að nýju og vonandi fyllst hún fljótlega af vatni, vegfarendum til svölunar.

Kerlingarskarð

Drykkjarsteinn efst í Kerlingarskarði.

Ofan við skarðið var staðnæmst og dást að útsýninu. Ofan þess blasir Miðbolli við í norðri, Kóngsfellið og Bláfjöllin austar. Löngum hefur verið deilt um hvort sýslumörkin mættust í Kóngsfelli eða Stóra-Kóngsfelli við Drottningu undir Bláfjöllum. Sagt er að fjárkóngarnir að austan, sunnan, vestan og norðan hafi mæst í Kóngsfelli og ráðið ráðum sínum. En þar sem menn hafi ekki verið alveg vissir um hvaða fell var hið eina rétta Kóngsfell, enda öll keimlík aðkomu, hafi nöfnin færst yfir á hin. Litla-Kóngsfell er t.d. á mótum þriggja gatna og Kóngsfell er á mótum þriggja sýslna. Kannski þess vegna hefur línan einhvern tímann verið dregin í Stóra-Kóngsfell, svona til að hafa það með í hópnum.

Miðbolli er einn fallegasti eldgígur landsins. Neðar mátti sjá Litla Kóngsfell og sunnar Draugahlíðar. Í suðri voru nokkrir eldgígar.

Brennisteinsfjöll

Miðbolli (t.h.) og Kóngsfell.

Gengið var meðfram þeim og síðan til suðurs vestan Draugahlíða, framhjá útdauðu hverasvæði og síðan suður með miklu misgengi (sigdal), sem þarna liggur þvert í gegn ofan Draugahlíða. Hinn myndarlegi Draugahlíðagígur trjónaði stór og stoltlegur á baki þeim. Hvirfill stendur að vestanverðu, en hann er stærsta eldstöð Brennisteinsfjalla, frá því á síðasta jökulskeiði. Þegar komið var upp á hrygg sunnan gígins opnaðist fagurt útsýni yfir Brennisteinsfjöllin. Þessi fjallshryggur hefur verið eldvirkur fyrir og eftir landnám.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll.

Gengið var á ská niður gróna hlíð, niður að tóft af búðum brennisteinsnámumanna. Í henni má enn sjá bálkana beggja vegna sem og leifar pottofns. Tóftin stendur undir læk, sem kemur ofan úr hlíðinni. Reyndar var hann vatnslítill þetta sinnið. Tveir hálfleygir rjúpuungar leituðu að öruggara skjóli. Móðirin fylgdist lífsreynd með.

Brennisteinsfjöll

Tóft námumanna í Námuhvammi.

Neðar eru brennisteinsnámurnar. Þær eru í hraunhlíð. Sést vel hvernig grafið hafði verið inn í bakkann og brennisteinskjarninn eltur inn og niður í hraunið. Svæðið hefur að öllum líkindum verið miklu mun virkara á námutímanum. Götur liggja frá námusvæðinu út á stóra hrauka þar sem námumenn hafa losað sig við afkastið. Hlaðin tóft er í skjóli í hraunkvos og við hana ofn hlaðinn úr múrsteinum. Bakki hafði hrunið yfir ofninn, en með því að skafa lausan jarðveg ofan af kom efsti hluti hans í ljós.

Brennisteinsnámur

Brennisteinsnámur í Brennisteinsfjöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Englendingar hófu þar brennisteinsnám í kringum 1880 fyrir atbeina Skotans W.C. Spence Paterson, sem kenndi á Möðruvöllum í tvo vetur og varð síðan ræðismaður í Hafnarfirði. Það þurfti að brjótast í gegnum 3-4 m þykka hraunskorpu til að komast að brennisteininum og flutningar voru erfiðir, þannig að þessi starfsemi varð ekki langvinn. Flutningaleiðin sjálfr er sögð hafa verið um Grindaskörð til Hafnarfjarðar.
Brennisteinn var fluttur út frá Íslandi allt frá 14. öld en hann var nauðsynlegur til púðurgerðar og því gat brennisteinsnám verið arðvænlegt. Konungur áttaði sig á þessu snemma og reyndi mikið að ná undir sig einkarétti á þessari verslun.
Á miðöldum var íslenski brennisteinninn notaður til hernaðar og var einkum eftirsóttur á 15. og 16. öld þegar farið var að nota byssupúður en brennisteinn var einmitt nauðsynlegur til púðurgerðar þar sem honum var blandað saman við saltpétur og kol. Brennisteinn var útflutningsvara frá 14. öld en segja má að blómatími brennisteinsverslunar hér á landi hafi verið á 15. og 16. öld.

Brennisteinsfjöll

Bræðsluofn í brennisteinsnámunum.

Nokkuð var um brennistein á Íslandi en svo virðist sem brennisteinsvinnsla hafi hafist snemma hér á landi en elsta heimild um brennisteinsnám er frá 1279. Mest er af brennisteini á norðausturhluta og suðvesturhluta landsins og er þar að finna stærstu námurnar, t.d. í Reykjahlíð í Mývatnssveit á Norðausturlandi en í Brennisteinsfjöllum og í Krísuvík á Suðvesturlandi.
Brennisteininn er að finna á háhitasvæðum og var hann grafinn úr jörðu. Niels Horrebow, erlendur ferðamaður á Íslandi á 18. öld, lýsti aðförunum við moksturinn svona:

Brennisteinsfjöll

Ofninn.

“Þegar heitt er í veðri þola menn ekki að vinna að brennisteinsgreftrinum á daginn. Þá er unnið á nóttunni, sem á sumrin er nægilega björt til þess. Menn þeir, sem að greftrinum eru, vefja vaðmálsdruslum um skó sína. því að annars myndu þeir brenna þegar í stað, en brennisteinninn er svo heitur, þegar hann kemur úr jörðinni að ekki er unnt að snerta á honum, en hann kólnar fljótt.”

Brennisteinninn, sem grafinn var upp hér á landi, innihélt um 14-22% óhreinindi og þurfti því að hreinsa hann. Fyrr á öldum var hann þó fluttur út óhreinsaður en árið 1753 var á vegum Innréttinganna reist hreinsunarverk í Krísuvík og árið 1762 á Húsavík. Samkvæmt skýrslu voru um 72,5 tonn af brennisteini frá Krísuvík flutt út á árunum 1755-1763 á vegum Innréttinganna sem fengið höfðu einkaleyfi til að vinna og hreinsa brennistein um 1752.

Brennisteinsfjöll

Gata í námunum.

Brennisteinninn var hreinsaður með vatni og lýsi og hann síðan bræddur í járnpotti sem yfirleitt var hitaður upp með mó. Gæta þurfti þess að hita pottinn ekki um of því þá gufaði brennisteinninn upp. Við bræðsluna flutu óhreinindi og lýsi, sem notað var við bræðsluna, ofan á brennisteininum, sem fleytt var af með járnspaða. Brennisteininum var síðan hellt ofan í eikarmót gegnum síu og honum síðan raðað ofan í tunnur til útflutnings.
Verslun með brennistein gat verið arðbær en svo virðist sem bæði kirkju- og konungsvald hafi áttað sig á þessu snemma enda reyndu þau mikið til að afla sér einkaréttar á verslun með brennistein. Landið varð snemma frægt fyrir þetta gula efni en í tilraunum Danakonunga fyrr á öldum til þess að veðsetja landið var talinn mikill kostur að landið væri ríkt af brennisteini.

Brennisteinsfjöll

Í brennisteinsnámunum.

Námusvæðið var rissað upp til varðveislu í Reykjanesskinnu til síðari tíma nota.
Þá var gengið til suðurs með Brennisteinsfjöllum og áleiðis upp í suðausturhlíðar Kistufells. Þar var að sjá mikið brak úr flugvél, sem brotlenti í hlíðinni. Mótorinn var neðar, en talsvert af hlutum á víð og dreif hingað og þangað. Um var að ræða Hudson l/251, tveggja hreyfla kafbátaleitarvél frá breska flughernum. Slysið varð í 27. mars árið 1945. Með vélinni fórust fimm menn. Af einhverri ástæðu varð ein FERLIRshúfan eftir þegar svæðið var yfirgefið. Hún kom hins vegar í leitirnar síðar þegar annar leiðangur heimsótti svæðið.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufellsgígur.

Gengið var upp með sunnanverðu Kistufelli og að Kistufellsgíg (Kistugíg). Hann er einn stórkostlegasti gígur landsins. Háir hamraveggir eru umhverfis gíginn og nýrri hraun hefur runnið ofan í hann á tveimur stöðum. Lóuhreiður var á gjárbarminum og var fyrsti unginn að reyna að brjóta sér leið út. Móðirin hafði greinilega verpt öðru sinni þetta sumarið. Hálffleigur lóungi reyndi að flögra í felur, en stefndi fram af gígbarminum. Aðstaðan hlaut að hafa komið honum á óvart. Kistufellið er 602 m.y.s.

Kistufell

Kistufellstaumur.

Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanessskaga síðan land byggðist. Nýjasta er sennilega á 14. öld. Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12-15 þúsund árum hafa um 200 eldstöðvar á fjórum eldstöðvarkerum verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landssvæði. Þar má finna helstu gerðir íslenskra eldstöðva eins og hraunskildir(dyngjur), gígaraðir, gígahópar og sprengigíga. Flest þessara einkenna má finna í Brennisteinsfjöllum.
Gengið var niður í gíginn og hann skoðaður neðanfrá. Þá sást vel hversu stórfengleg náttúrusmíð hann er. Gígurinn er sigdæld líkt og misgengisdalurinn austan Hvirfils. Norðan gígsins er stór og mikið hrauntröð er liggur til norðurs og beygir síðan til vesturs.

Kistufell

Hreyfillinn, sem fjarlægður var úr Kistufelli.

Skoðað var í hellaop suðaustan í Kistufelli og síðan haldið til norðurs milli Hvirfils og Draugahlíða. Þar á ás, ofan við brennisteinsmámasvæðið, er varða. Frá henni sést í aðra vörðu ofar á ásnum. Við hana er stórt vatnsstæði í gíg. Talsverð landeyðing er þarna efst, en þegar götu frá vörðunni er fylgt til norðurs má sjá hana greinilega liggja niður ásinn og áfram með vestanverðum hraunkantinum, milli hans og hlíðarinnar. Varða er við rætur ássins þeim megin og síðan tvær fallnar vörður við stíginn þar sem hann liggur áleiðis að sunnanverðum syðsta Syðstabolla.

Brennisteinsfjöll

Leið vestan Kerlingarhnúka að Kerlingarskarði.

Þar liggur gatan greinilega niður dalverpi með háum hamravegg á vinstri hönd og Bollann á þá hægri. Þetta er mjög falleg leið og auðfarin. Þegar halla fer niður á við beygir gatan til vinstri og síðan áleiðis niður mosahlíðina vestan undir Bollunum. Hér gæti hafa verið um aðra leið brennisteinsnámumanna að ræða, en hún er stysta og einnig sú greiðfærasta þangað, auk þess bæði áreiðanlegt og gott vatnsstæði er á leiðinni.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Um brennistein:
http://www.idan.is/1000/01,01,02_brennisteinn.html

Kistufellsgígur

Kistufellsgígur.

Hlíðarvatn

Gengið var um Selvogsgötu frá Bláfjallavegi, upp Kerlingarskarð og áfram niður Hlíðarveg, um Hlíðarskarð og niður að Hlíð við Hlíðarvatn.

Selvogsgata

Selvogsgata – Gísli Sigurðsson.

Skammt ofan Bláfjallavegar greinist Selvogsgatan. Annars vegar liggur hún áfram áleiðis upp að Kerlingarskarði og hins vegar til vinstri, áleiðis að Grindarskörðum. Síðarnefnda leiðin hefur lítið verið farin í seinni tíð, en þá leið var t.d. farið þegar burðarhestar voru með í för.
Á leiðinni upp í skarðið blasir Stóri bolli, Tvíbolli og Þríbolli við, en eru einu nafni nefndir Bollar eða Grindaskarðshnúkar. Beggja vegna götunnar eru hellisskútar. Einn þeirra er með einstaklega fallegu rósamynstri í lofti. Skammt austan hennar er stórt ílangt jarðfall, hrauntröð úr Miðbolla, en hann er einn fallegasti eldgígur landsins. Í rauninni eru þrír gígar í honum; sá stærsti efst, einn í honum norðanverðum og annar norðvestanvert í honum.
Ofarlega undir Kerlingarskarði eru tóftir af húsi brennisteinsnámumanna. Efst í því, vinstra megin þegar komið er upp, er drykkjarsteinn, skessuketill í móbergssteini. Hann hefur löngum komið til tals þegar fjallað er um þessa leið, enda stólaði fólk yfirleitt á vatnið í steini um á ferðum sínum. Í sumum frásögnum er talað um fleiri en einn drykkjarstein í skarðinu.

Kerlingarskarðsvegur

Kerlingarskarðsvegur – drykkjarsteinn.

Þegar komið er upp á brún sjást eldgígar á hægri hönd, Draugahlíðar framundan og Miðbolli og Kóngsfell á vinstri hönd. Utar má sjá Stóra-Kóngsfell og Drottningu, Stórkonugjá og Bláföllin. Reykjavegurinn kemur þarna inn á Selvogsgötuna. Þegar gengið er niður brekkuna mót suðri er komið að gömlu hliði á götunni. Nálægt því eru gatnamót. Selvogsgatan heldur áfram áleiðis niður að Litla-Kóngsfelli og síðan áfram til suðurs um Hvalskarð og Strandarhæð í Selvog.
Gata, sem liggur til hægri og nú er vel vörðuð, nefnist Hlíðarvegur og liggur að Hlíðarskarði ofan við Hlíð. Þessi gata hefur verið vinsæl gönguleið í seinni tíð. Hún er vel greiðfær, liggur niður með vestanverðum Hvalhnúk og Austurásum og er síðan tíðindalítið að skarðinu ofan við Hlíð. Stakkavíkurselsstígur kemur inn á götuna neðan Vesturása og miðja vegu að Hlíðarskarði er stór og falleg hraunbóla í hraunhól (hægra megin – lítil varða við opið). Skömmu áður en komið er að henni er ágætt skjól í lágum grónum hraunhól, kjörinn áningarstaður.

Selvogsgata

Selvogsgata – Ólafur Þorvaldsson.

Þegar komið er í Hlíðarskarð blasa við fallegar klettamyndanir og fallegt útsýni yfir Hlíðarvatn, Vogsósa og Selvog. Ágætt er að feta sig rólega niður skarðið og njóta útsýnisins og gróðursins í hlíðinni.
Tóftir eru undir Hlíðarskarði og ofan (norðan) og vestan við veiðihúsið undir skarðinu. “Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn. Tangi eða hólmi er út í vatninu fram undan bænum; Hjalltangi eða Hjallhólmi er hann nefndur. Þar á bærinn að hafa staðið upphaflega . Árið 1501 selur Grímur Pálsson Þorvarði Erlendssyni lögmanni Hlíð. Auk Bæjarhóls eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð. Ofan við Malarinnar eru rústirnar, en þar segja fróðir menn og konur, að bærinn hafi staðið, eftir færslu úr Hjalltanga.”
Veður var frábært – sól og lygna. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimildir eru m.a. úr örnefnaskrá fyrir Ölfus; Orri Vésteinsson og Hildur Gestsdóttir.

Hlíðarskarð

Hlíðarskarð.

Selvogsgata

Gengið var frá Bláfjallavegi suður Selvogsgötu áleiðis upp Kerlingarskarð.

Selvogsgata

Kerlingarskarð framundan.

Við götuna, þegar komið er svo til miðja vegu upp í skarðið, eru nokkrir hellar, hér nefndir Hallahellar eftir einum þáttttakenda, sem var hvað áhugasamastur um leitina. Einn þeirra (vinstra megin við götuna) er í sæmilegu jarðfalli og gengið inn í hann til suðurs. Þegar inn er komið liggja rásir bæði til hægri og vinstri. Hægri rásin opnast út en sú vinstri lokast fljótlega. Í loftinu er einstaklega fallegt rósamynstur. Innar eru myndarlegir separ (Spenastofuhellir). Skammt norðar er mjög stórt jarðfall, sem band þarf til að komast niður í. Það hefur ekki verið kannað, svo vitað sé.

Spenastofuhellir

Í Spenastofuhelli.

Rúst af búðum brennisteinsnámumanna er norðan til undir Kerlingarskarði. Efst í skarðinu (vinstra megin) er drykkjarsteinn, sem ferðalangar hafa löngum stólað á að væri vatn í. Svo reyndist vera að þessu sinni. Fokið hafði í skálina og var tækifærið notað og hreinsað upp úr henni. Drykkjarsteinn átti einnig að hafa verið í Grindarskörðum, en hann virðist hafa verið fjarlægður.
Gengið var til vesturs ofan við Bolla, framhjá fallegum hraungígum, inn eftir tiltölulega sléttum helluhraunsdal og áleiðis að Kistufelli. Staðnæmst var við Kistufellsgíginn og litið yfir hann, en gígurinn er einn sá fallegasti og stórbrotnasti hér á landi. Vestan við gíginn eru nokkur stór jarðföll og í þeim hellahvelfingar. Í sumum þeirra er jökull á botninum og í jöklinum pollar eftir vatnsdropa. Þegar droparnir falla í pollanna mynda þeir taktbundna hljómkviðu í geimunum.

Kerlingarskarð

Tóft brennisteinsvinnslumanna undir Kerlingarskarði.

Haldið var undan hlíðum, niður í brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum. Ofan þeirra er tóft af búðum námumanna. Sést vel móta fyrir henni. Neðar er námusvæðið. Þar má sjá hvar brennisteinninn var tekinn úr kjarnaholum, en gjall og grjót forfært og sturtað í hauga. Sjá má móta fyrir götum við haugana, sem og nokkrum múrsteinum frá námuvinnslunni. Undir bakka er hægt að sjá einn ofninn, ef vel er að gáð.
Gengið var niður með suðurenda Draugahlíða. Þar fyrir ofan er gígur, sem mikið úfið hraun hefur runnið úr áleiðis niður í Stakkavík.

Selvogsgata

Selvogsgata ofan Bolla og Kóngsfells.

Selvogsgatan var gengin upp að Kóngsfelli, en frá því má sjá a.m.k. tvö önnur fell með sama nafni, þ.e. Stóra-Kóngsfell austar (Kóngsfell) og Litla-Kóngsfell sunnar. Stóra-Kóngsfell er á mörkum þriggja sýslna og er sagt að þar í skjóli gígsins hafi fjárkóngar hist fyrrum og ráðið ráðum sínum.

Stóribolli

Stóribolli – gígurinn.

Til baka var gengið austur og norður með Mið-Bolla og fyrir Stóra-Bolla og niður Grindarskörðin. Á sumum kortum er gamla gatan sýnd liggja milli Bollanna. Mið-Bolli er með fallegustu eldgígum á landinu. Reyndar er allt Brennisteinsfjallasvæðið mikið ævintýraland fyrir áhugafólk um útivist, jarðfræði og stórbrotið ósnert umhverfi. Varða er efst á hálsinum og síðan nokkrar á stangli á leið niður mosahlíðina. Þegar niður er komið má sjá vörðubrot og gömlu götuna markaða á kafla áleiðis að Selvogsgötunni þar sem hún liggur yfir Bláfjallaveginn og áfram áleiðis niður í Mygludali.
Veður var frábært. Gangan tók 5 klst og 2 mín.

Námuhvammur

Tóftin í Námuhvammi oafn við brennisteinsnámurnar.

Lækjarbotnar

Gengin var Selvogsgata upp frá Lækjarbotnum og áfram áleiðis upp með Setbergshlíð.

Selvogsgata

Selvogsgata vestan Setbergshlíðar.

Komið var að stíflu vatnsveitunnar í Lækjabotnum og kíkt á hleðslur undan húsinu, sem þar var yfir “vatnsuppsprettunni” nyrst undi Gráhelluhrauni. Enn má sjá leifar gömlu tréleiðslunnar í tjörnunum ofan við stífluna. Andarpar lá við annan bakkann með höfuð undir vængum. Lúpínan er farin svo að segja til um allar hlíðar, en innan um má sjá gytta í hrafnaklukka, blágresi, melasóley, lambagras og gleiri litskrúðugar blómategundir.
Þegar komið var á móts við Gráhellu var strikið tekið inn á hraunið og að henni. Undir hellunni er hlaðið hús og gerði norðan þess. Austan við helluna er lítil hleðsla, nokkurs konar skjól. Gráhelluminjanar eru frá Setbergi, líklega fyrir þann tíma er Jón Guðmundsson, áður frá Hvaleyri og þar áður frá Haukadal, bjó þar.

Lækjarbotnar

Inntakið í Lækjarbotnum.

Gengið var á ný að Setbergshlíð, með stefnu á háa vörðu uppi og framan í hlíðinni. Þegar upp að henni var komið, eftir að hafa fetað birkivaxna hlíðina, var þaðan fallegt útsýni yfir að Setbergsseli, Sléttuhlíð og Helgafelli. Sólbjarma sló á Grindaskörðin í fjarska.

Ofan við vörðuna eru tóftir af stóru fjárhúsi frá Setbergi. Setbergsselið var í alfararleið þar sem Selvogsgatan lá í gegnum það. Í kringum selið og í brekkunum ofan við það er ágæt beit, en segja má að aðstaða selsins hafi verið færð úr alfararleiðinni og upp á hlíðina, en ofan við það, með hraunbrúnum og hæðum, hefur einnig verið ágætis beit.

Fjárhús

Fjárhúsið.

Fjárhúsið hefur verið allstórt. Nyrst í því hefur verið hlaða. Ekki er auðvelt að mynda rústirnar þar sem sléttlent er allt í kring.
Haldið var upp og norður hlíðina. Um eyðimela er að fara í fyrstu, en síðan reynir lúpínan að hefta för, en hún er nú reyndar léttvægur farartálmi. Gengið var upp á Svínholt (eða Svínhöfða öðru nafni). Uppi á honum, á svonefndum Flóðhjalla, er mikið mannvirki eftir breska herinn, sem þarna var svo að segja út um öll holt og hæðir. Stór kampur var t.d. á Urriðakotshæð.

Flóðahjalli

Flóðahjalli – minjar.

Mannvirkið er hringlaga með byrgjum að innan. Hleðslurnar eru ekki eins vandaðar og verklegar eins og í fjárborgum þeir, sem Íslendingar hafa hlaðið í gegnum aldrirnar. Grjótinu er raðað í neðstu raðir, sumu hverju með vélum, og síðan reynt að raða upp á það, en smærra grjótinu kastað innan í og á milli, líkt og hleðslumenn hafi kappkostað að tæma holtið af grjóti og finna því stað í mannvirkinu. Líklega hefur verið bæði kalt og næðingssamt þarna á holtinu, ekki síst að vetri til.

Flóðahjalli

Flóðahjalli – áletranir.

Áletranir eru á klöpp inni í hringnum. M.a. má sjá þarna ártalið 1940.
Gengið var niður Svínhöfða að norðanverðu með útsýni yfir að Urriðavatnskoti (Urriðakoti). Gangan endaði við golfskálann ofan við Setberg þar sem ferðalöngum var veittur góður beini.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 1 klst og 59 mín

Setbergssel

Setbergssel. Helgafell fjær.

Selvogsgata

 “Þetta var æði”. Svona hljómaði ein lýsingin á ferðinni að henni lokinni.

Grindarskörð

Grindarskörð.

Gengið var inn á Selvogsgötu við Bláfjallaveg, en beygt út af henni til austurs skömmu síðar. Ætlunin var að feta Grindarskarðsgötuna upp að Stórabolla og síðan áfram áleiðis til suðurs. Venjan er að ganga Selvogsgötuna upp Kerlingarskarð og síðan áfram hana með Draugahlíðum, niður með Austurásum og síðan niður Hlíðarskarð. Þetta var ekki ferð um hefðbundna leið. Þetta var ferð um gömlu Selvogsgötuna eða Suðurfararleiðina eins og Selvogsbúar nefndur hana, en hún er liggur austar en Selvogsgata sú (stundum nefnd Hlíðarvegur) er kemur upp úr Kerlingarskarði og liggur niður með Draugahlíðum, að Hlíðarskarði.

Selvogsgata

Selvogsgatan áleiðis að Grindarskörðum.

Þegar komið var að jeppaslóðinni neðst í Grindarskörðum sást hvar hann liggur á gömlu götunni að hluta. Þegar komið var u.þ.b. þriðjung upp hlíðina beygði gamla gatan til hægri og síðan í hlykki upp hana. Auðvelt var að fylgja henni í hlíðinni því hún var mjög greinileg á köflum. Auðsýnt var að um hestagötu var að ræða. Gatan liggur að vörðu á hraunöxl svo til í miðri hlíðinni og síðan liðast hún áfram upp hana.

Gatan hverfur þar sem vatn hefur lekið niður hlíðina og rutt með sér möl og grjóti, en kemur síðan í ljós í næst efstu brekkunni undir Stórabolla. Skammt neðar er varða. Þar liggur hún á ská upp hana og hefur greinilega verið löguð til. Efst við rætur Stórabolla er skarð í klöppina þar sem gatan liggur í gegn. Við skarðið er varða.

Grindarskörð

Selvogsgatan efst í Grindarskörðum.

Gangan upp í skarðið var auðveld, tók u.þ.b. 35 mín. í stað 50 mín. upp Kerlingarskarðið. Þaðan liggur gatan með gígnum að austanverðu og beygir með honum að sunnanverðu. Þar liggur hún til vesturs um gróna velli. Leifar gamallar girðingar er sunnan við Stórabolla. Hún liggur til vesturs og hefur verið hlaðið undir hana á kafla. Skömmu síðar var komið að gatnamótum.

Selvogsgata

Selvogsgata ofan Grindarskarða.

Vörðuð leið lá til suðausturs að Stórkonugjá og önnur til suðurs. Eystri gatan er að öllum líkindum Heiðarvegurinn er liggur þaðan um Heiðina há og yfir á Ólafsskarðsveg. Vestari götunni var fylgt yfir slétt helluhraunið áleiðis að Litla-Kóngsfelli.
Veður hafði hangið þurrt þangað til komið var suður fyrir Stórabolla. Þá léku litlir regndropar sér að því að falla ofurvarlega lóðrétt til jarðar. Golan virtist hafa gufað upp. Stillilogn og bráðfallegt veður. Miðbolli og Kóngsfellið böðuðu sig í heiðskírunni og dulrænum bjarma sló á Draugahlíðarnar. Spóavellingur fyllti loftið. Kistufellið vildi greinilega ekki láta sitt eftir liggja til að gera þennan dag ógleymanlegan. Hvítur snjókollurinn reis hæst upp úr nágrannahlíðunum, eins og hann vildi að eftir honum væri tekið. Svona eiga háir tindar að haga sér.
Komið var að hárri vörðu. Við hana voru greinileg gatnamót. Gata lá við hana frá Selvogsgötunni og áleiðis yfir á Heiðarveginn.

Selvogsgata

Selvogsgata milli hlíða.

Grindarskarðsgatan hélt áfram frá henni til suðurs. Hún var æ meir áberandi. Kastað hafði verið úr götunni á köflum – greinilega hesta- og lestargata. Hún lá niður með Litla-Kóngsfelli. Suðvestan við fellið, þar sem suðurgígur þess opnast, var komið að mótum þriggja gatna. Þrjár vörður voru við þau. Ein gatan lá áleiðis til norðvesturs að Selvogsgötu þar sem hún liggur efst við Draugahlíðar, önnur lá til suðausturs og sú þriðja til suðurs. Síðastnefnda gatan var greinilega framhald af þeirri, sem fylgt hafði verið ofan frá Grindarskörðum. Hún var mjög áberandi og greinilega mikið notuð fyrrum. Kastað hafði verið upp úr götunni svo djúp för höfðu myndast. Tekið hafði verið úr hraunhöftum og gatan greinilega gerð eins greiðfært og unnt var. Henni var fylgt niður með hraunkanti sunnan Litla-Kóngsfells.

Selvogsgata

Gengið um Selvogsgötu.

Komið var að talsvert miklu gili í hlíðinni á vinstri hönd, sem vatn hafði mótað. Lækjarfarvegurinn var nú þurr, en einhvern tímann hefur verið þarna mikill lækur er streymt hafði niður með austanverðu apalhrauni, sem þarna er á hægri hönd. Loks hefur vatnið staðnæmst í krika og væntanlega myndað þar talsverða tjörn. Moldarbotn benti til þess að þarna hafi verið allnokkurt vatn fyrir ekki svo löngu síðan. Á kortum heitir þarna Stóri-Leirdalur. Gatan lá niður með lækjarfarveginum.

Selvogsgata

Á Selvogsgötu ofan Hvalskarðs.

Nokkru neðan við gilið skiptist hún í tvennt. Stígur lá til vesturs í gegnum apalhraunið þar sem það var mjóst og yfir á Selvogsgötuna (Hlíðarveg, einnig nefndur vetrarvegur)) þar sem hún krækir fyrir nef hrauns er runnið hefur úr Draugahlíðargígnum skammt þar fyrir ofan.
Varða er við hraunið þar sem stígurinn kemur út úr því. Hestagatan lá hins vegar áfram niður með hraunkantinum, fyrir hraunrana og síðan skiptist hún í tvennt; annars vegar liggur hún vestur og niður með Hvalhnúk og Austurásum og hins vegar áfram um Hvalskarð, með fallegum sneiðingi niður Litla-Leirdal, niður í Hlíðardal, um Strandardal, framhjá Kökuhól og áfram áleiðis niður í Selvog.

Selvogsgata

Hvalskarð.

Fyrrnefnda gatan kom inn á Selvogsgötuna (Hlíðarveg) efst við vestanverða Austurása. Tvær vörður eru þar sem göturnar koma saman. Þaðan í frá liggur Selvogsgatan niður heiðina, áleiðis niður að Hlíðarskarði, vel vörðuð. Svo er að sjá sem Selvogsgata, eins og hún er vörðuð í dag, sé önnur og nær Draugahlíðum en sú, sem sýnd er á gömlum uppdráttum. Sú mynd, sem þeir sýna, fellur betur að þeirri götu, sem lýst er hér að framan. Áður en komið er niður brekkuna vestan Austurása liggur gata þar til vesturs. Þrjár vörður eru þar við og ein þeirra fallin. Þarna gæti verið um að ræða Stakkavíkurselstíginn er liggur væntanlega út með Vesturásum sunnanverðum og síðan til suðurs að Selsstíg ofan við Höfða norðvestan við Hlíðarvatn.

Selvogsgata

Selvogsgata – kort ÓSÁ.

Í stað þess að fylgja Selvogsgötunni (Hlíðarvegi, vetrargötunni) áleiðis niður að Hlíðarskarði var gömlu hestagötunni fylgt niður Hvalskarð og áfram niður í Strandardal. Lítið er um vörður á þeirri leið, en hins vegar liggur gatan nokkuð vel við landslaginu. T.d. er um gróna velli er að fara í Litla-Leirdal. Suðvestur af Hvalskarði er Hvalhnúkur, mjór og allhár. Ólafur Þorvaldsson segir þjóðsöguna kveða á um að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnúkurinn þar suður af Hvalhnúkur.

Dísurétt

Dísurétt.

Undir hraunklettum vestan við götuna er komið er niður í Strandardal er Dísurétt. Slóði liggur upp í Strandardal, en gatan er liggur niður úr dalnum skammt vestan hans. Þar liggur hann áfram áleiðis niður að Strandarheiði, en girt hefur verið þvert fyrir hann.
Í fyrri FERLIRsferðum, þar sem gatan var rakin neðan frá Selvogi og áleiðis upp að dalnum, sést hún vel þar sem hún liggur upp heiðina. Við hana á einum stað er tóft, sem ekki er vitað hvaða tilgangi hefur þjónað.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Gengið var til vesturs með girðingunni þegar niður úr dalnum var komið. Valgarðsborg er innan girðingar svo hún var ekki “heimsótt” að þessu sinni. Hlíðarsel er norðan borgarinnar. Hlíðarborg er hinsvegar “réttu megin” girðingar svo hún var barin augum. Frá borginni liggur gata. Við hana eru litlar gamlar vörður, sumar fallnar. Gatan sést vel af og til þars em hún liggur til vesturs niður heiðina, áleiðis að Hlíð. Henni var fylgt, m.a. framhjá hellinum Ána. Talsverðar hleðslur eru umhverfis opið. Einnig eru hleðslur sunnan við opið og norðan. Ekki er vitað annað en að hlaðið var um opið til þess að varna því að fé leitaði skjóls niður í hellinum.

Borgarskörð

Fjárborg undir Borgarskörðum.

Gatan liggur áleiðis að borginni undir Borgarskörðum, svonefnd Hlíðargata skv. örnefnalýsingu. Hún hefur verið vegleg á sínum tíma. Bæði hún og Hlíðarborgin eru hlaðnar vestan undir hraunkletta í heiðinni. Neðan borgarinnar undir Borgarskörðum eru tóftir tveggja húsa utan í klettum, sennilega beitarhúsa frá Hlíð.

Gangan endaði síðan við einn bæjarhól bæjarins að Hlíð. Eldri tóftir eru norðan við þjóðveginn sem og á tanga sunnan við veiðihús SVFH, en útihús eru vestar með vatninu og hafa þau sennilega tilheyrt bænum, sem var við núverandi veiðihús.

Hlíðarsel

Hlíðarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Í örnefnalýsingu segir að Hlíð hafi verið fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú um 60 ára skeið. Þar eru nú rústir einar. Gamli bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn.
Þessi ganga var á Jónsmessunni. Þjóðtrúin kveður á um um ýmsa dytti henni samfara. Án þess að ætla að fjalla í löngum texta um álfa og huldufólks, ekki sést á nefndu kvöldi, er rétt að geta þess, að sá sem ekki trúði á álfa og huldufólk áður en hann lagði af stað í þessa ferð, gerir það núna. Borgarskörð draga ekki nafn sitt af fjárborginni undir Skörðunum heldur háum og virðulegum klettastandi skammt ofan við skörðin. Hann sést vel þegar gengið er að skörðunum ofan frá, en gæta þarf þess vel að fylgja kennileitum því annars…
Í lýsingu einni um þennan áfanga Selvogsgötunnar kemur eftirfarandi m.a. fram til frekari glöggvunar:

Hlíðargata

Hlíðargata.

“Selvogsgatan er gömul leið á milli Hafnarfjarðar og Selvogs og hefur líklega verið farin frá því að menn settust að í Selvogi. Þetta er skemmtileg leið um áhugavert landsvæði og hollt er að leiða hugann að þeim aðstæðum sem forfeður okkar þurftu að takast á við til þess að draga björg í bú.
Áfram er haldið um skýra götu sem hófar hestanna hafa markað í tímans rás. Framundan eru Lönguhlíðar og Grindaskörð. Stóribolli og fleiri bollar blasa við en þeir hafa verið notaðir sem mið af sjó. Þegar í Grindaskörð kemur er gott að líta til baka og horfa yfir leiðina sem lögð hefur verið að baki og sjá hvað gatan er mörkuð í mosann og klöppina.
Frá Grindaskörðum er stefnt að litlu fjalli með stórt nafn, Kóngsfell, en það mun bera nafn af fjallkóngi þeirra í Selvogi. Þarna greinist leiðin og kallast vestari leiðin Hlíðarvegur sem skiptist síðar í Stakkavíkurveg. Haldið verður austustu leiðina sem er hin eiginlega Selvogsgata eftir greinilegum götum um Grafning og Stóra-Leirdal þar sem menn áðu ávallt þegar þeir áttu þarna leið um og fengu sér nesti og kannski smá brjóstbirtu. Síðan verður gengið upp í Hvalskarð eftir Hvalskarðsbrekkum með Urðarfelli að Hlíðarvatni.

Hlíð

Hlíð – uppdráttur ÓSÁ.

Tröllkona ein nappaði sér hval í Selvogi en til ferða hennar sást. Hún var elt og náðist þarna í skarðinu. Af fjallinu fyrir ofan Hlíðarvatn er fagurt útsýni. Þaðan sér yfir þessa afskekktu byggð Selvoginn, til Strandarkirkju og vitans. En það sem fangar augað er djúpblátt og óravítt hafið” – (úr leiðarlýsingu Útivistar).
Við leiðarlýsinguna er rétt að bæta við ferðum námumanna í Brennisteinsfjöllum. Þeir munu hafa farið ýmist um Grindarskörðin Eða Kerlingaskarð með hestalestir sínar. Leiðir liggja frá skörðunum að námunum, bæði ofan við Draugahlíðar og neðan.

Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Selvogsgata

Lagt á Skörðin.

Brennisteinsfjöll

Gengið var frá Bláfjallavegi suður Selvogsgötu áleiðis upp Kerlingarskarð. Við götuna, þegar komið er svo til miðja vegu upp í skarðið, eru nokkrir hellar, hér nefndir Hallahellar eftir einum þáttttakenda, sem var hvað áhugasamastur um leitina.

Kerlingarskarð

Tóft brennisteinsvinnslumanna undir Kerlingarskarði,

Einn þeirra (vinstra megin við götuna) er í sæmilegu jarðfalli og gengið inn í hann til suðurs. Þegar inn er komið liggja rásir bæði til hægri og vinstri. Hægri rásin opnast út en sú vinstri lokast fljótlega. Í loftinu er einstaklega fallegt rósamynstur. Skammt norðar er mjög stórt jarðfall, sem band þarf til að komast niður í. Það hefur ekki verið kannað, svo vitað sé.
Rúst af búðum brennisteinsnámumanna er norðan til undir Kerlingarskarði. Efst í skarðinu (vinstra megin) er drykkjarsteinn, sem ferðalangar hafa löngum stólað á að væri vatn í. Svo reyndist vera að þessu sinni. Fokið hafði í skálina og var tækifærið notað og hreinsað upp úr henni. Drykkjarsteinn átti einnig að hafa verið í Grindarskörðum, en hann virðist hafa verið fjarlægður.

Brennisteinsfjöll

Kistufellsgígur.

Gengið var til vesturs ofan við Bolla, framhjá fallegum hraungígum, inn eftir tiltölulega sléttum helluhraunsdal og áleiðis að Kistufelli. Staðnæmst var við Kistufellsgíginn og litið yfir hann, en gígurinn er einn sá fallegasti og stórbrotnasti hér á landi. Vestan við gíginn eru nokkur stór jarðföll og í þeim hellahvelfingar. Í sumum þeirra er jökull á botninum og í jöklinum pollar eftir vatnsdropa. Þegar droparnir falla í pollanna mynda þeir taktbundna hljómkviðu í geimunum.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – tóft af húsi námumanna í Námuhvammi.

Haldið var undan hlíðum, niður í brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum. Ofan þeirra er tóft af búðum námumanna. Sést vel móta fyrir henni. Neðar er námusvæðið. Þar má sjá hvar brennisteinninn var tekinn úr kjarnaholum, en gjall og grjót forfært og sturtað í hauga. Sjá má móta fyrir götum við haugana, sem og nokkrum múrsteinum frá námuvinnslunni. Undir bakka er hægt að sjá einn ofninn, ef vel er að gáð.
Gengið var niður með suðurenda Draugahlíða. Þar fyrir ofan er gígur, sem mikið úfið hraun hefur runnið úr áleiðis niður í Stakkavík. Selvogsgatan var gengin upp að Kóngsfelli, en frá því má sjá a.m.k. tvö önnur fell með sama nafni, þ.e. Stóra-Kóngsfell austar (Kóngsfell) og Litla-Kóngsfell sunnar. Stóra-Kóngsfell er á mörkum þriggja sýslna og er sagt að þar í skjóli gígsins hafi fjárkóngar hist fyrrum og ráðið ráðum sínum.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Til baka var gengið austur og norður með Mið-Bolla og fyrir Stóra-Bolla og niður Grindarskörðin. Á sumum kortum er gamla gatan sýnd liggja milli Bollanna. Mið-Bolli er með fallegustu eldgígum á landinu. Reyndar er allt Brennisteinsfjallasvæðið mikið ævintýraland fyrir áhugafólk um útivist, jarðfræði og stórbrotið ósnert umhverfi. Varða er efst á hálsinum og síðan nokkrar á stangli á leið niður mosahlíðina. Þegar niður er komið má sjá vörðubrot og gömlu götuna markaða á kafla áleiðis að Selvogsgötunni þar sem hún liggur yfir Bláfjallaveginn og áfram áleiðis niður í Mygludali.
Veður var frábært. Gangan tók 5 klst og 2 mín.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn efst í Kerlingarskarði.

Selvogsgata

Gengið var frá Bláfjallavegi áleiðis í Kristjánsdali. Á leiðinni eru tvær vörður. Á milli þeirra er markaður gamall stígur í klöppina. Sést hann vel á nokkrum kafla. Þarna mun vera um að ræða þann hluta Selvogsgötu er lá að veginum um Grindarskörð, en á seinni tímum hefur legið beinna við að fylgja stígnum upp Kerlingarskarð.

Kristjánsdalir

Tóft í Kristjánsdölum.

Skömmu áður en komið er í sjálfa dalina er komið að vatnsstæði. Í dalverpi eru síðan tvær tóttir. Önnur er húslaga en hin virðist vera hleðslur beggja vegna veggja timburhúss. Þarna var lengi sæluhús Selvogsmanna áður en þeir lögðu á heiðina í misjöfnum veðrum. Lengi vel voru hús þessi notuð af rúpna- og refaskyttum, sem þá höfðust við um skamman tíma í Kristjánsdölum þegar þeir voru við veiðar í Hlíðunum. Þegar haldið er upp krikann í dalbotninum er eins og ruddur stígur á ská upp hlíðina. Stígnum var fylgt upp, en áður en brúninni er náð virtist stígurinn enda. Ástæðan gæti verið hrun að ofan efst við brúnina eða hreinlega að engin stígur hafi verið þarna.

Bollar

Kóngsfell.

Haldið var áfram á ská upp brúnina og var þá komið að Stórabolla, einum bollanna sem Tvíbollahraun er komið úr og sjá má fyrir neðan. Varða var á brúninni norðan Bollans. Gengið var inn og niður með honum og inn að Kóngsfelli. Fellið er nokkuð sérstakt. Bæði stendur það eitt og sér austan við Grindarskörðin og í því miðju er hvilft þar sem fjárkóngar fyrrum hittust og réðu ráðum sínum. Í hvilftinni er gott skjól og því góður samkomustaður. Haldið var í suður frá fellinu og inn á Selvogsgötuna (Hlíðarveg). Nokkrar vörður eru á þeirri leið.

Stakkavíkurstígur

Á Stakkavíkurstíg efst í Selsskarði.

Selvogsgötunni var síðan fylgt niður með Draugahlíðum og í gegnum skarðið vestan Austurása. Þar skammt sunnar eru gatnamót. Í stað þess að vinda um og fylgja götunni áfram niður í Strandardal eða áfram niður að Hlíðarskarði var ákveðið að beygja til hægri og halda niður Stakkavíkurselsstíg. Gengið var vestur með Vesturásum og síðan niður með Dýjabrekkum og áfram niður með Grænubrekkum. Ofan þeirra er Stakkavíkurselið. Við stíginn eru einnig tóttir af enn eldra seli. Þegar komið var niður á brún Stakkavíkurfjall ofan við Hlíðarvatn tók Selsstígurinn við niður hlíðina. Þá var komið á Herdísarvíkurveg, u.þ.b. fjórum klukkustunum eftir að lagt var af stað frá Bláfjallavegi.
Veður var frábært – logn og sól.

Selvogsgata

Selvogsgatan.

Valaból

Gengið var norður gömlu Selvogsgötuna frá Bláfjallavegi neðan Grindarskarða.

Rauðshellir

Hleðslur í Rauðshelli.

Haldið var niður Hellurnar þar sem gatan er klöppuð í bergið á kafla undan fótum, klaufum og hófum liðinna alda. Litið var á Strandartorfur (Kaplatóur) og gengið um Mygludali að Valabóli þar sem áð var í Músarhelli.
Að því búnu var haldið að opi Fosshellis og hann þræddur undir sauðfjárveikigirðinguna. Kíkt var á op Hundraðmetrahellis austan Helgadals og síðan á stekki norðaustan við Rauðshelli. Þá var haldið í hellinn og hann skoðaður.

Rauðshellir

Helgadalur – Í Rauðshelli.

Í Rauðshelli er allnokkrar hleðslur, bæði utan hans og innan. Hangikjötslyktin leyndi sér enn í hellinum, en hann er talinn hafa hýst margan manninn í gegnum aldirnar. Um tíma var hellirinn nefndur Pólverjahellir eftir pólskri áhöfn báts, sem dvaldist um tíma í Hafnarfjarðarhöfn, en fengu ekki inni í bænum. Þá er talið að um tíma hafi verið sel í og við hellinn, auk þess ekki er ólíklegt að álykta að hann sé sá hellir þar sem 12 þjófar voru handteknir um 1440 og síðan hengdir.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Í lýsingu Gísla Sigurðssonar, forstöðumanns Minjasafns Hafnarfjarðar, segir hann í lýsingu sinni um Selvogsgötuna að þeir hafi hafst við í helli í hraunrima austan við Helgadal. Um þá hugmynd er m.a. fjallað í öðrum FERLIRslýsingum eftir nokkrar ferðir um svæðið til að reyna að finna umrætt skjól. Rauðshellir liggur vel við vatni, hann hefur verið í hæfilegu skjóli frá mannabyggð, en þó nálægt skjólgóðum högum sauðfjárins. Þá hefur hann verið það nálægt þjóðleið að hægt hefur verið að fylgjast með mannaferðum og hugsanlega ræna þá, sem þar áttu leið um. Þess skal getið að útilegumenn dvöldu sjaldnast lengi á sama stað.

Valaból

Valaból.

Þá var haldið áfram norður Mosana yfir að Smyrlabúðum. Þar var staldrað við og skoðuð gömul vegghleðsla utan í Smyrlabúðahrauni þar sem ætla mætti að gæti hafa verið hinn gamli áningastaður Selvogsmanna eða viðstaldur brennisteinslestarmanna á leið þeirra úr Grindarskörðum.
Kíkt var inn í Ketshelli og hann skoðaður að hluta. Þá var Setbergsselið skoðað, litið á stekkinn og gengið í gegnum Kershelli, fjárskjól í selinu þar sem einnig er fyrir aðstaða Hamarskotssels og litið í skjól norðan selsins. Haldið var áfram niður með Setbergshlíð og litið eftir gömlu hlöðnu fjárhúsi frá Setbergi er byggt var 1906 er féð var flutt úr fjárhellinum í selinu upp í hlíðina. Staldrað var við fjárskjól undir Gráhellu í Gráhelluhrauni og síðan skoðuð vatnsvirkjunin og stíflurnar í Lækjarbotnum áður en ferðinni lauk við kirkjugarðinn.
Veður var frábært – sól og blanka logn. Gangan tók um 5 og ½ klst því áningartíminn í Músarhelli var óvenjulangur að þessu sinni.

Valaból

Valaból.

Húsfell
Í Þjóðviljanum sunndaginn 15. júlí 1973 fjallar Gísli Sigurðsson, umsjónarmaður Minjasafns Hafnarfjarðar, um Selvogsgötuna.
Leiðinni frá Helgadal upp fyrir Hellur lýsir hann svo: “Leiðin úr dalnum liggur í troðningum tveim megin við rúst, sem ég hygg að sé fjárhúsarúst. Hún stendur nú undir vernd fornminjavarðar, allt frá því að Brynjólfur fræðimaður Jónsson frá Minna-Núpi var hér á ferð 1897”.

Helgadalur

Tóftir í Helgadal.

[Innskot: Samkvæmt þessu virðist rústin í sunnanverðum Helgadal, við götuna upp úr dalnum, sú sem FERLIR leitaði að og skoðaði á sínum tíma og taldi gamla, vera einmitt þessi rúst].
Gísli heldur áfram: “En hraunriminn austur frá Helgadal geymir sína sögu. Í Setbergsannál segir svo frá við árið 1474: “Þjófnaðaröld mikil um Suðurland. Voru 12 þjófar í einu teknir syðra í helli þar sem nefnt er Húsfell. Voru þeir allir hengdir um sumarið”. [Í annarri heimild er sagt að þjófarnir hafi verið handteknir 1633]. Í hraunrima þessum er hellir og hygg ég, að þar sé hellir sá, sem um getur í annálum. Kannske getum við giskað á hvar þjófar þessir voru réttaðir þegar við komum lengra….. Þegar kemur suður fyrir [Strandartorfur] taka við Hellurnar….

Gálgaklettar

Gálgaklettar við Selvogsgötu.

Þegar við höfum farið um 10 mín. gang upp Hellurnar eru á hægri hönd klettar, sem heita Gálgaklettar. Mér er að detta í hug, að þegar Álftnesingar hafi verið búnir að fanga útileguþjófana í heimahögum sínum hafi þeir farið með þá að klettum þessum og hengt þá þar. Þegar komið er eftir hellunum upp þar sem aðalbrekkan byrjar, er þar jarðfall mikið. Þar í eru hellar nokkrir. 1927 eða 8 var einn þessara hella notaður af rjúpnaskyttum, sem stunduðu veiði upp um fjöllin og lágu þarna um nætur…”.

Gengið var suður Selvogsgötu frá línuveginum ofan við Helgafell. Farið var eftir ruddri götunni í gegnum mjótt hraunhaft og henni fylgt áfram upp fyrir Strandartorfur á hægri hönd.

Selvogsgata

Selvogsgata ofan Helgafells.

Þegar komið var að Hellunum var gengið upp þær þangað til komið var upp fyrir “aðalbrekkuna”. Þar eru að vísu klettar, en þeir hafa varla dugað til að hengja þar mann, nema hann hafi verið þess styttri í annan endann. Jarðfallið, sem nefnt er að framan var ekki skoðað að þessu sinni, en ætlunin er að fara fljótlega aftur þessa leið. Hins vegar var gengið til norðausturs frá stígnum að grágrýtisklettum, sem þar eru. Ekkert forvitnilegt sást þar.

Hins vegar, eftir um 500 metra göngu frá stígnum, í stefnu til austurs frá klettunum, blasti forvitnilegur staður við. Þar eru klettar, eftirlíking af Gálgaklettunum í Gálgahrauni og álíka háir. Góð aðkoma er að klettunum úr norðri og sjást þeir mjög vel frá Húsfelli. Klofið í klettunum er svo til alveg eins, þó ekki jafnvel gróið og í þeim nyrðra. Roðagylltur himininn skapaði fallega umgjörð um dökka klettana. Hafa ber í huga að þjófarnir þurfa ekki endilega hafa verið hengdir eftir handtökuna. Hins vegar gætu þessir klettar hafa fengið nafngiftina Gálgaklettar vegna þess hversu líkir þeir eru nöfnum sínum í Gálgahrauni, nánast eftirlíking.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Hraunið þarna, Húsfellsbruni er hrikalegt á köflum, en hvylftir eru inni í því á stangli. Þær virðast vera eldra hraun. Gengið var í átt að Húsfelli, en enginn hellir fannst að þessu sinni. Þarna eru þó víða op og gjár. Ef 12 menn hafa hafst við í helli þar sem nefnt er Húsfell má telja líklegt að hellirinn sé í eða nálægt fellinu. Í honum ættu að sjást ummerki og í honum eða við hann gætu verið hleðslur eftir fjárhald. Slík ummerki eru reyndar í og við Rauðshelli norðaustan við Helgadal. Ekki er vitað hvert nafnið er á fellinu sunnan hans.
Svæðið við Húsfell er mjög lítið gengið og hefur lítt verið skoðað. Ákveðið hefur verið að ganga næst um sunnanvert Húsfellið og síðan frá því að “Gálgaklettum”, upp á Hellurnar og skoða betur jarðfallið, sem Gísli skrifar um. Það gæti leynt á sér.
Veður var með miklum ágætum – sól og stilla. Gangan tók 3 klst og 14 mín.

Helgadalur

Tóftir í Helgadal.

Selvogsgata

Gengin var gamla Selvogsgatan frá Lækjarbotnum upp með austurbrún Gráhelluhrauns að Gráhellu milli Svínholts og hraunbrúnarinnar, í Kershelli, þaðan að vörðunni í Smyrlabúðahrauni og síðan Setbergshlíðin og Vatnshlíðin til baka.

Gráhella

Gráhella.

Skoðuð var hlaðin stífla og hleðslur undir vatnsveituhúsið í Lækjarbotnum. Vegna þess hve vatnið var slétt mátti vel greina síðasta bútinn af gömlu tréleiðslunni neðan við upptökin.
Norðan undir Gráhellu í Gráhelluhrauni er hlaðið fjárskjól. Uppi í Setbergshlíðinni, ofan við stóra vörðu skammt austan við Gráhellu, má enn sjá háar hleðslur af gömlum fjárhúsum, sem byggð voru þar árið 1904 þegar Setbergsbóndi flutti fé sitt úr Setbergsseli, sem er þarna skammt ofar. Gott útsýni er til selsins frá fjárhúsinu. Góðir hagar eru ofar í hlíðinni. Húsið hefur verið nokkuð stórt á þeirra tíma mælikvarða. Í miðjunni er hlaðinn garður og minna hús hlaðið við endann.

Markasteinn

Markasteinn – huldufólkshús.

Eftir að hafa farið í gegnum Setbergsselið var beygt til austurs og gengin gömul leið í gegnum gjá norðvestast í Smyrlabúðahrauni og stefnan tekin á stóru vörðuna inni í hrauninu. Farið var yfir gamla landamerkjagirðingu Setbergs. Ekki er ólíklegt að varðan geti verið leiðarmerki að helli, sem var á í hrauninu. Leitað var vel og vandlega á leiðinni, en án árangurs í þetta sinnið. Þá var stefnan tekin á Markastein, en í hann liggur landamerkjagirðingin úr vörðunni ofan við op Kershellis. Steinninn stendur syðst í Fremstahöfða með smágrasstúf á toppi. Að sögn mun Urriðakotsbóndi fyrrum hafa heyrt úr honum rokkhljóð og dregið þá ályktun að í honum byggju huldufólk. Fylgdi sögunni að allt þrek eigi að þverra þeim er nálgast steininn.

Refagildra

Refagildra á Tjarnholti.

Ákveðið var að láta huldufólkið í friði að þessu sinni í tilefni hátíðarinnar. Af ummerkjum að dæma hefur steinninn einhvern tímann verið girtur af, enda lá markagirðingin við hann.
Gengið var eftir Seljahlíðinni og upp á Tjarnholtið með útsýni til allra átta. Sást vel yfir að Trölladyngju og allt yfir að Þorbjarnarfelli ofan við Grindavík. Sólin hafði teygt sig yfir Lönguhlíðar og roðagyllti Esjuna.
Neðar, í norðvestri, sást vel til leifa herbragganna í Camp Russel á Urriðakotshæð (sjá HÉR). Hú hefur hæðinni verið umturnað vegna nýrrar byggðar á hæðinni.

Flóðahjalli

Virki á Fjóðahjalla.

Nikulás Jónsson bóndi á Norðurkoti í Vogum lýsti svæðinu 1834 hér á millum með eftirfarandi hætti: “Milli dala lá troðningurinn niður á Neðri-Flatir, Dalinn neðra eða Dalinn og Urriðakotsdalinn neðri, en svæði þetta sem nú hefur verið lýst nefndist einu nafni Urriðakotsdalir [þar sem nú er golfvöllur] og lá stígurinn hér um miðjan dal í Gjárréttarstíginn og síðan yfir á Hálsinn, Flóðahjallaháls eða Urriðakotsháls sem fyrr er talinn og síðan niður til bæjar. Urriðakot hefur verið í eyði nú um árabil. Þá var tekið upp á því að kalla jörðina Urriðavatn.

Flóðahjalli

Letur á Flóðahjalla.

Svanur Pálsson lýsti svæðinu á eftirfarandi hátt, en heimildarmaður hans var móðir hans, Guðbjörg Guðmundsdóttir sama stað. Hún er fædd í Urriðakoti 1906 og átti þar heima til 1939. Örnefnin nam hún af föður sínum, Guðmundi Jónssyni bónda í Urriðakoti, en á uppvaxtarárum sínum vann hún mikið með honum við útistörf. Guðmundur var fæddur í Urriðakoti 1866 og átti þar heima til 1941, en foreldrar hans bjuggu þar á undan honum og mun faðir hans hafa flust þangað 1846, en móðir hans nokkru síðar.

Hádegisholt

Varða á Hádegisholti.

“Til suðurs frá traðahliði lá svonefndur Urriðakotsvegur eldri ofan við mýrina. Hann beygði síðan vestur með Hádegisholti, öðru nafni Flóðahjalla, sem er stórt holt suður af Urriðakotsvatni. Síðan lá vegurinn norðvestur eftir Setbergsholti norðaustanverðu, meðfram túngarði á Setbergi, norðvestur fyrir Setbergshamar og síðan til suðurs niður á Setbergsveg, sem lá til Hafnarfjarðar.”
Á hæstu bungu Hádegisholts (Flóðahjalla) var komið við í stóru hlöðnu virkisskjól frá stríðsárunum. Á einn steininn þar er klappað ártalið 1940 auk nokkurra upphafsstafa. Ef vel er að gáð má sjá að virkið gæti áður hafa verið hluti af gamalli fjárborg eða gerði, vandlega hlaðinni, en grjótið hefur síðan verið tekið úr henni í virkishleðslur.

Oddsnýjardalur

Oddnýjardalur – gata.

Niðri í dalnum til suðurs, Oddnýjardal, mátti sjá gerði og líklega tóft, sem þarf að skoðast betur síðar. Að sögn Friðþjófs bónda á Setbergi mun þarna upphaflega hafa verið hús frá hernum, en síðar verið notað sem skjól fyrir skepnur frá Setbergi. Gengið var niður á Flóttamannaveg og hringnum lokað.
Veður var frábært – logn og bjart. Gangan tók nákvæmlega 3 klst.
Þess skal getið að á leiðinni þóttust einhverjir þátttakenda sjá litskrúðuga álfa á ferð nálægt Markasteini, en enginn sagðist vera tilbúinn að staðfesta það ef spurt væri.

Setbergssel

Setbergssel og Hamarkotssel.